Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 2246

Gylfi kominn í fjármála- og efnahagsráðuneytið

Gylfi tekur við starfsmannamöppunni úr hendi Svanhildar Hólm í fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Með nýjum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands taka einnig við nýjum störfum aðstoðarmenn þeirra. Meðal þeirra sem það gerir er ísfirðingurinn Gylfi Ólafsson, sem er nú aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra og er hann nú tekinn til starfa í ráðuneytinu. Gylfi leiddi lista Viðreisnar á Vestfjörðum í alþingiskosningum síðasta haust. Flokkurinn kom ekki inn manni í kjördæminu en Gylfi tók í framhaldinu við starfi sem aðstoðarmaður formanns flokksins. Er Benedikt tók við lyklavöldum á mánudag úr höndum Bjarna Benediktssonar, tók Gylfi við starfsmannamöppu frá fráfarandi aðstoðarmanni, Svanhildi Hólm. Segir hann nýtt starf leggjast vel í sig:

„Við Benedikt höfum unnið saman síðustu mánuði, fyrst í kosningabaráttunni og svo hef ég verið aðstoðarmaður hans sem formanns að kosningum loknum. Það samstarf hefur gengið afar vel. Okkur báðum hentar vel að fara í fjármálaráðuneytið, í mínu tilviki vegna menntunar minnar í hagfræði.

Þennan eina vinnudag sem ég hef verið hér hefur okkur verið afar vel tekið og augljóst að hér starfar fært og glaðsinna starfsfólk. Hér er einnig annar Ísfirðingur, Leifur Skarphéðinsson, og við höfum nú þegar stofnað stuðningshóp fólks sem segir „á helginni“.“

Gylfi hefur ekki af því neinar áhyggjur að sitja auðum höndum í nýju starfi og mörg verkefni sem bíða í ráðuneytinu. „Við ætlum að ganga vasklega til verks og vinna að þeim málum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem undir fjármálaráðuneytið heyra, en þar falla bæði stór og smá verkefni. Eitt það stærsta er kannski endurskoðun peningastefnu, en endurskoðun skattkerfis, stöðugleikasjóður og fleira er þar einnig að finna. Svo er það nú með þetta starf að það óvænta getur oft tekið langmestan tíma.“

Hvað hann sjálfan áhrærir segir Gylfi hans helsta hlutverk verða að sjá til þess að ráðherra geti sinnt starfi sínu sem best í hvaða mynd sem það birtist og segir hann það eiga eftir að þróast á næstu vikum.

annska@bb.is

6 standa eftir

Unnið er að því að ráða í stöðu forstöðumanns Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða líkt og greint hefur verið frá á vef Bæjarins besta. Tólf umsækjendur voru um stöðuna og eftir stendur nú helmingur þeirra. Þeir hafa verið boðaðir í viðtöl sem verða í næstu viku og á Smári Haraldsson sem nú gegnir stöðunni von á að í vikunni þar á eftir liggi niðurstöður fyrir.

annska@bb.is

Samkvæmt orðanna hljóðan

Súðavík.

Birt er á bb.is aðsend grein eftir Pétur Markan sveitarstjóra Súðavíkurhrepps og fjallar hann þar um efnistök bb.is á málefni sem hann vakti máls á í fundargerð sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Það er að sönnu rétt að orðið „skattsvik“ koma ekki fram í bókun hans á fundi sveitarstjórnar þann 19. desember en lesendum til glöggvunar er bókun hans birt hér orðrétt:

„ Rekstur sveitarfélagsins hefur stórbatnað á kjörtímabilinu eins og vöxtur á handbæru fé gefur til kynna.

Áhyggjuefni er hversu útsvarstekjur dragast skart saman á milli ára. Skerðingin verður ekki útskýrð með fækkun skattbærra manna eingöngu.

Líklegasta skýringin er að tilfellum fjölgar í sveitarfélaginu þar sem íbúar notast við einkaneysluhlutafélög til þess að fjármagna heimilis og einkaneyslu.

Þessi þróun er afar uggvænleg og í raun aðför að samfélaginu sem byggir samrekstur sinn á skattheimtu“

Í frétt um málið á bb.is er vísað í lög og reglugerðir hvað varðar rekstur einkahlutafélaga og vefurinn stendur við þá túlkun sína að í þriðju málsgrein bókunar sveitarstjórans felist ásökun um skattsvik.

bryndis@bb.is

Stórkostlegur árangur grunnskóla Ísafjarðarbæjar

Klárir krakkar

Nemendur í grunnskólum Ísafjarðarbæjar voru yfir landsmeðaltali í öllum greinum PISA-könnunarinnar 2015 og yfir OECD-meðaltali í tveimur flokkum af þremur. Sé litið til einstakra sveitarfélaga þar sem niðurstöður hafa verið birtar er Ísafjarðarbær með besta árangur allra í náttúruvísindum og einungis Garðabær betri í stærðfræði og lesskilningi. PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms. Menntamálastofnun birti niðurstöður 8 stærstu sveitarfélaga landsins og var strax kallað eftir upplýsingum um árangur hjá grunnskólum Ísafjarðarbæjar sem hafa nú borist. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ísafjarðabæ í dag

Í tilkynningunni kemur líka fram að í náttúrufræði voru nemendur í Ísafjarðarbæ með 503 stig, eða heilum 30 stigum yfir landsmeðaltali og 10 stigum yfir OECD-meðaltali. Í stærðfræði skoraði Ísafjarðarbær 507 stig (19 stigum yfir landsmeðaltali og 17 yfir OECD) og 489 í lesskilningi (7 stigum yfir landsmeðaltali, 4 stigum undir OECD).

Það sem kannski mestu máli skiptir er að nemendur í Ísafjarðarbæ bæta sig umtalsvert í öllum flokkum milli áranna 2012 og 2015 eins og sést í meðfylgjandi skjali. Í kjölfar dapurra niðurstaðna 2012 var ráðist í umtalsverða vinnu sem hafði það einfalda markmið að bæta námsárangur barna, sjálfsmynd þeirra og framtíð. Vel var fylgst með því sem önnur sveitarfélög voru að gera, settar voru upp skimunaráætlanir og lestrar- og stærðfræðiteymi tóku til starfa. Lestrarteymið lagði í heilmikla vinnu og á allra næstu dögum kemur út ný lestrarstefna Ísafjarðarbæjar. Stærðfræðistefna er svo væntanleg með vorinu.

Fram kemur sömuleiðis að á þessa góðu niðurstöðu verði litið á sem hvatningu til frekari dáða, en ekki vísbendingu um að öllum markmiðum sé nú náð. Það er mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum heldur höldum áfram þessu góða skólastarfi; starfsfólk, nemendur og foreldrar. Enn eru möguleikar fyrir hendi til þess að gera betur og allir verða að muna að næg vinna er framundan.

Aðgerðalítið veður fram á sunnudag.

Hún verður austlæg áttin og hæg í dag hér á Vestfjörðum og frostið að líkindum 5 – 10 gráður og svipað er upp á teningnum á morgun en þó gæti komið snjókoma á stöku stað. Á sunnudag er búist við að hlýni, með hvassviðri og úrkomu en svo fer aftur að kólna.

bryndis@bb.is

Skattheimta, sveitarfélög og almannahagur.

Pétur G. Markan

Héraðsmiðillinn BB gerir að fréttaefni bókun mína frá 35. sveitarstjórnarfundi Súðavíkurhrepps, sem varðar lækkun á útsvarstekjum á milli ára. Það er afar þakkarvert að fjölmiðillinn skuli taka upp þessa umræðu.

Fyrirsögn BB er eftirfarandi: Skattsvik í Súðavík. Það skal árétta að orðið “skattsvik,, í þessari umræðu er fært inn af ritstjóra BB, sem skrifar umrædda frétt. Ásakanir um lögbrot er framlag ritstjóra BB.

Það er ekkert í bókun sveitarstjóra sem kallar samborgarana skattsvikara.

Hins vegar er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margs konar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu, sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar sér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins.

Það er val þeirra sem kjósa að stýra eiginrekstri í gegnum einkahlutafélag að greiða lægri laun, og skila þess í stað meiri arði, sem síðan er skattlagður af ríkinu. Hins vegar er einn galli á gjöf Njarðar í því tilfelli og hann er að ríkið hefur þennan fyrirtækjaskatt fyrir sig sjálft, að nánast öllu leiti.

Kannski finnst lausnin í því að veita sveitarfélögum hlutdeilt í skattstofnun fyrirtækja. Sem væri þá mótvægi við þá fjármuni sem tapast í núverandi kerfi. Verðugt verkefni fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Velferð og þjónusta við almenning minnkar. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talist. Þá er vegið að tilveru þess og velferð íbúa. Við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.

Góð þjónusta við íbúa, öflugir skólar og styðjandi velferð í sveitarfélögum er almannahagur. Sé vegið að þessum atriðum er það skylda þeirra sem standa í stafni sveitarfélagana að vekja athygli á því og vinna markvisst gegn því. Með þetta að leiðarljósi skal lesa bókun sveitarstjóra frá 35. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Hugmyndin er ekki að hengja neinn, hitt heldur, að standa vörð um almenning.

Pétur G. Markan
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

Smáskipanám aftur í gang

Nóg er um að vera hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða á vorönn og til að mynda hefst þar á bæ um helgina námskeið í útvarpsþáttagerð „Útvarp sem skapandi miðill – þættir af mannabyggð og snortinni náttúru.“ Þar verða þátttakendum kynnt allt það helsta sem þarf að vita til að vinna megi útvarpsþátt og í lok námskeiðsins hver og einn búinn að skila af sér um 30 mínútna löngum útvarpsþætti. Dansnámskeið í samstarfi við Fjölmennt verður einnig um helgina og í komandi viku hefjast námskeið í frönsku og íslensku fyrir útlendinga.

19. janúar hefst svo smáskipanám Fræðslumiðstöðvarinnar að nýju, en það kemur í stað þess sem áður var nefnt 30rl réttindanám eða pungapróf og miðast atvinnuskírteinin nú við lengd skipa í stað brúttórúmlestatölu áður. Réttindin sem þátttakendur hljóta miðast við skip 12 metrar og styttri að skráningarlengd og eftir að hafa lokið 12 mánaða siglingatíma og þessu námi sem telur 115 kennslustundir. Kennari er Guðbjörn Páll Sölvason og er námið kennt með faglegri ábyrgð Skipstjórnarskóla Tækniskólans.

annska@bb.is

Stjarnan mætir á Torfnes

Í kvöld er komið að því að Stjörnukonur reyni við nautsterkar Vestrakonur í Íslandsmótinu í blaki. Vestri hefur verið á blússandi siglingu í blakinu í vetur og hleður sigrum í töskurnar, kvennaliðið er í þriðja sæti í 1. deild og karlaliðið í fyrsta sæti í 1. deild. Blakdeildin hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á uppeldið og það er að skila sér í feiknaöflugum ungum spilurum sem gaman er að fylgjast með á vellinum. Deildin á virkilega skilið að bæjarbúar fjölmenni á völlinn og hvetji sínar konur til sigurs en leikurinn hefst kl. 20:00

bryndis@bb.is

Sagnastund í Holti

Friðarsetrið í Holti

Hin árlega samverustund í Önundarfirði sem haldin er á afmæli stórskáldsins Guðmundar Inga frá Kirkjubóli verður að venju haldin í Friðarsetrinu í Holti á sunnudaginn. Sagnastund í Holti kallar Ingastofunefndin samkomuna að þessu sinni og hyggur á ekta baðstofumenningu þar sem gestir stíga fram og mæla af munni fram sögur og ljóð. Það eru þau Magnús, Dúnna, Smári, Bryndís og Guja sem verða tilbúin með eitthvert andans góðmeti fyrir hina að njóta en á langborðinu verður boðið upp á kaffi og dýrðlegar pönnukökur.

Ingastofunefnd sem staðið hefur fyrir samkomum í Önundarfirði þann 15. janúar ár hvert er afar hugmyndarík og alltaf eitthvað nýtt á boðstólum og árið 2013 var til dæmis boðið upp á Hjarðardalskvartettinn og Söngsystur, árið 2011 var Brynjólfur Árnason bóndi á Vöðlum í öndvegi og lög hans við ljóð Guðmundar Inga flutt af Kirkjukór Önundarfjarðar. Í fyrra var dagskráin helguð konum.

Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld var fæddur á Kirkjubóli í Bjarnadal þann 15. janúar árið 1907 en lést í hárri elli 30. ágúst 2002. Samferðafólk hans mátu hann mikils og hafa minnst hans með menningarvöku á afmælisdegi hans allar götur síðan.

bryndis@bb.is

Ferðaþjónar landsbyggðarinnar streyma á Mannamót

Það var í nægu að snúast hjá vestfirskum ferðaþjónum á síðustu Mannamótum. Mynd af Fésbókarsíðu Markaðsstofa landshlutanna

Markaðsstofur landshlutanna standa fyrir ferðasýningunni Mannamót 2017 fimmtudaginn 19. janúar í Reykjavík, í ár er yfirskrift Mannamótanna „Sóknarfærin eru á landsbyggðinni.“ Tilgangur Mannamóta markaðsstofanna, sem er nú haldið í fjórða sinn, er að auka dreifingu ferðamanna um landið allt með því að mynda og efla tengsl á milli ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi með því að kynna ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni fyrir ferðaþjónustuaðilum, ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu um viðburðinn segir að þrátt fyrir fjölgun ferðamanna til landsins á seinni árum eru enn mörg ónýtt sóknarfæri á landsbyggðinni og ferðaþjónustan þar í stakk búin að taka á móti fleiri gestum.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og talskona Mannamóta, segir tækifærin mörg í ferðaþjónustunni úti á landi og að hægt sé að taka á móti mun fleiri ferðamönnum en gert sé nú. „Það er óþarfi að hægja á straumi ferðamanna til landsins,” segir hún. „Það þarf bara að beina honum lengra út á landið.”

Hún segir að þótt þróunin þokist í rétta átt sé mikil árstíðasveifla víða á landsbyggðinni og erfiðlega gangi að reka ferðaþjónustufyrirtæki utan háannatímans á sumrin. Eitt af hlutverkum Mannamóta sé að sýna fram á að fjölda vel rekinna ferðaþjónustufyrirtækja sé að finna á landsbyggðinni sem vel geti þjónustað mun fleiri viðskiptavini en gert er í dag.

Þegar hafa 200 ferðaþjónar víðsvegar af landinu skráð sig til leiks á Mannamótin, sem verða sem áður segir haldin fimmtudaginn 19. janúar í flugskýli Flugfélagsins Ernis (vestan við Icelandair Hotel Natura) milli kl. 12 og 17.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir