Katrín Björk Guðjónsdóttir er Vestfirðingur ársins árið 2016 að mati lesenda Bæjarins besta og bb.is. Katrín Björk er 23ja ára Flateyringur og hefur hún haldið úti bloggsíðunni https://katrinbjorkgudjons.com/ þar sem hún deilir með lesendum lífinu og tilverunni með hennar augum eftir að líf hennar kollvarpaðist árið 2015 er hún fékk stóreflis blóðtappa í heila, en áður en það gerðist hafði hún tvívegis fengið heilablæðingar. Blóðtappinn stóri lamaði Katrínu Björk frá hvirfli til ilja og gat hún fyrst einungis hreyft augun til að gefa merki og tjá sig. Katrín hefur tekið miklum framförum í endurhæfingu og getur til að mynda sest sjálf upp, staðið og notað fingurna til að skrifa með þeim bloggin sem heillað hafa lesendur upp úr skónum. Til að gefa smá innsýn í skrif hennar er hér brot úr bloggi hennar um jólin:
Á aðfangadagsmorgun vöknuðum við í winter wonderland, þegar ég fór að sofa kvöldið áður sá ég ekki snjókorn á jörðinni. Fallegra verður það varla en þegar jólasnjór fellur beint niður og safnast fyrir á tjágreinum og það hreyfir ekki vind svo snjókornin fá að liggja nákvæmlega þar sem þau lenda, jólalegra verður það ekki. Seinustu daga hef ég notið þess að eiga dásamlegar stundir með fjölskyldu minni og tengdafjölskyldu. Þetta hefur verið svo afslappað og gott frí sem ég þurfti mikið á að halda eftir mikla keyrslu undanfarna mánuði. Núna er tími til að rifja upp allar góðu minningarnar sem við eigum og vera þakklát.
Fjölmargir nefndu Katrínu Björk hetju í ummælum sínum og tiltóku dugnað hennar, jákvæðni, baráttuþrek, bjartsýni og skrif hennar sem ástæðu þeirra fyrir valinu. Þetta er meðal þess sem fólk hafði að segja:
- Katrín hefur á einstaklega fallegan og einlægan máta sett fjöldann allan í sjálfskoðun með sinni sýn á lífið og þær gjafir sem það hefur að geyma. Hún er dæmi um einstakling sem stendur bein og með fókus fram á við, án þess að hafa getað gert það bókstaflega, og þannig kennt mér og eflaust fleirum að það er fátt óyfirstíganlegt. Frábær penni, hógvær og gríðarlega stór fyrirmynd í lífi og starfi.
- Ótrúleg baráttukona sem lætur ekkert stoppa sig. Virkilega einlæg og skemmtilegur bloggari.
- Þessi yndislega stelpa hefur gengið í gegnum svo margt og hefur allan tímann verið svo sterk og haldið áfram að lifa lífinu eins vel og hún getur. Það eru nú ekki margir sem hafa fengið jafn þung högg í byrjun fullorðinsára og verið svona sterkir. Katrín stoppar heldur ekki við það að heilla vini og fjölskyldu með styrkleika sínum en heldur líka uppi bloggi þar sem allir geta lesið um rússíbanann sem lífið hennar er. Hún er kraftaverk!
- Hún er fyrirmynd okkar hinna hvernig hún tekst á við lífið með æðruleysi, jákvæðni og baráttuþreki að vopni ásamt klettinum sínum henni mömmu sinni og allri fjölskyldunni.
- Falleg sýn á lífið og verkefnin sem hún hefur fengið í hendurnar. Hún hefur leyft fólki að skyggnast inn í hugarheim sinn og kennt okkur að þakka fyrir litlu sigrana, taka eftir öllu því smáa sem gerir lífið svo yndislegt.
- Glæsileg fyrirmynd! Með risastórt, hlýtt og gott hjarta! Katrín hefur upplifað ansi mikið á sínum fáu árum. Það einkennir Katrínu mikil jákvæðni, lífsgleði og umhyggja í garð náungans, sama hvaðan hann kemur eða hver hann er. Katrín er Vestfirðingur ársins!
Katrín Björk fékk blómvönd og viðurkenningarskjal til staðfestingar á valinu, farandgrip frá Dýrfinnu Torfadóttur sem Vestfirðingur ársins hefur hjá sér fram að næsta kjöri, sem og glæsilegan eignargrip sem Dýrfinna Torfadóttur gefur og er hann hennar hönnun og smíði.
Annað sæti.
Það var spennandi barátta um tvö efstu sætin í valinu á Vestfirðingi ársins 2016 en Árni Brynjólfsson bóndi á Vöðlum í Önundarfirði vermir annað sæti. Árni sagði sig úr stjórn Orkubús Vestfjarða á árinu og gagnrýndi opinberlega vinnubrögð stjórnarinnar við ráðningu orkubússtjóra. Meðal skýringa á atkvæði sínu til Árna var:
- Sem stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða vakti hann athygli á að ekki hefði verið farið að lögum við ráðningu framkvæmdastjóra fyrirtækisins og sagði sig síðan úr stjórninni.
- Fyrir að standa á sínu og láta ekki valta yfir sig í hagsmunapólitík og klíkuskap þegar ráðið var í stöðu Orkubússtjóra.
- Fyrir að hafa kjark til að láta vita af spillingunni.
- Upplýsa um ferli við ráðningu orkubússtjóra og veita þannig innsýn í gang mála í stjórnsýslunni á Íslandi.
Og í þriðja sæti var Isabel Alejandra Diaz meðal ummæla um Isabel Alejandra eru:
-Mikil fyrirmyndarstúlka sem vakti jákvæða athygli á Ísafirði og ísfirðingum í sumar með fallegri framkomu, fallegum ummælum um bæjarbúa og einstaklega fallegu málfari.
-Því hún koma hingað sem flóttamaður en barðist fyrir rétti sínum og útskrifast með hæstu einkunn í íslensku. Hún er fyrirmynd og þörf áminning að við getum gefið tækifæri sem þjóð.
Aðrir sem hlutu tvö atkvæði eða fleiri voru: Hálfdán Óskarsson og Arna ehf í Bolungarvík, Baldur Ben, Kristín Þorsteinsdóttir, Ævar Einarsson, Björgunarsveitirnar, Stöndum saman, Sorphirðufólk, Sigurður Sivertssen, Jóhannes K. Kristjánsson, Gullrillurnar, Guðjón Þorsteinsson og Elfar Logi.
annska@bb.is