Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 2245

Lyklarnir afhentir

 

Í dag kl. 13:00 fékk Ísafjarðarbær afhenta lykla að nýja leikskólahúsnæðinu í kjallara Tónlistarskólans. Það er fyrirtækið Gamla spýtan sem endurnýjaði og vann verkið og er það nú nánast tilbúið fyrir 45 fimm ára börn. Við sögðum frá því fyrir helgi að krakkarnir voru búin að taka aðstöðuna út fyrir sína parta og tóku lagið við glimrandi undirspil Gumma Hjalta.

Nú er fullorðna fólkið búið að fá lyklana og reiknað er með að börnin taki til starfa á fimmtudaginn.

Í meðfylgjandi myndbandi má hlýða á afhendingarræðu Magnúsar H. Jónssonar framkvæmdastjóra Gömlu spýtunnar, móttökuræðu Gísla H. Halldórssonar bæjarstjóra og stutt skot af húsnæðinu sem er afar vinalegt og alveg næstum tilbúið. Þetta myndband er frumraun okkar í myndbandagerð en vonir standa til að færni aukist með æfingunni.

Með nýrri heimasíðu kemur ný tækni.

Vilja ljósleiðaravæða í dreifbýli

Ísafjarðarbær er með í athugun gerð samninga um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í sveitarfélaginu er greint er frá á heimasíðu bæjarins. Ef af verður mun verkefnið verða unnið í áföngum, taka nokkur ár og felast í að koma að lágmarki á ljósleiðaratengingu á þá staði sem hverju sinni uppfylla skilyrði sem Fjarskiptasjóður setur um þátttöku sjóðsins á næstu árum.

Auglýsir sveitarfélagið eftir fjarskiptafélögum sem ætla sér, á markaðsforsendum, að bjóða ljósleiðaratengingar til lögheimila og annarra staða í dreifbýli í sveitarfélaginu næstu 3 ár. Sé fyrir hendi ásetningur um slíkt, óskar Ísafjarðarbær eftir upplýsingum um fyrirhugaða uppbyggingu en að öðrum kosti kemur til greina að styrkja, eða hafa milligöngu um styrkveitingu til verkefna sem uppfylla skilyrði. Óskað er eftir að þau fjarskiptafyrirtæki sem eru áhugasöm hafi samband við sveitarfélagið í gegnum netfangið taeknideild@isafjordur.is fyrir klukkan 12 miðvikudaginn 25. janúar 2017

Að því gefnu að ekki sé uppi ásetningur um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í sveitarfélaginu á markaðsforsendum hyggst Ísafjarðarbær gera samning við hæfan aðila sem lýsir yfir áhuga á  að hanna, byggja, reka og eiga ljósleiðarastreng ásamt því sem honum tilheyrir. Samningar munu fela í sér að Ísafjarðarbær veiti viðkomandi opinberan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins eða einstakra áfanga þess. Ísafjarðarbær áskilur sér allan fyrirvara um hvort af einstökum áföngum verður þar sem ekki hefur verið fullmótuð stefna um verkefnið.

annska@bb.is

Vöntun á framtíðarsýn í fiskeldi

 

Það er skortur á heildstæðri framtíðarsýn varðandi fiskeldi í Ísafjarðardjúpi að mati skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar. Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar um frummatsskýrslu Háafells ehf. um 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Nefndin gerir ekki athugasemd við frummatsskýrsluna en beinir því til ríkisvaldsins að veita fé til vinnu við strandsvæðaskipulags í Djúpinu. Sú vinna hófst fyrir nokkrum árum að frumkvæði sveitarfélaga og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Sú vinna hefur hinsvegar legið í dvala í þónokkurn tíma vegna fjárskorts og áhugaleysis ríkisvaldsins.

„Það er sérhverju samfélagi, stóru sem smáu, nauðsynlegt að geta nýtt aðliggjandi auðlindir sér og íbúum sínum til hagsbóta. Í því samhengi skiptir gríðarlega miklu máli að sú auðlindanýting skapi störf á svæðinu og auki hagsæld íbúanna, fyrirtækjanna og samfélaganna í heild,“ segir m.a. í umsögninni og jafnframt er bent á að bæjaryfirvöld hafa áhyggjur af því að að ekki liggi fyrir umhverfismat á heildarálagi fiskeldis í Djúpinu og hver sammögnunaráhrifin verða. Með því er átt við samlegðaráhrif margra fiskeldisleyfa sem og afleidd áhrif, eins og efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif.

smari@bb.is

Skjöldur nýr framkvæmdastjóri Odda

Skjöldur Pálmason tekur við stjórnartaumum hjá Odda.

Skjöldur Pálmason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Odda hf. á Patreksfirði. Skjöldur tekur við af Sigurði Viggóssyni sem hefur látið af störfum að eigin ósk og var kjörinn formaður stjórnar félagsins á aðalfundi í byrjun janúar. Sigurður mun starfa áfram að hluta fyrir félagið sem starfandi stjórnarformaður og tekur við af Einari Kristni Jónssyni sem hefur verið stjórnarformaður í tæp 23 ár.  Skjöldur hefur starfað sem rekstrarstjóri Odda um árabil.

smari@bb.is

Nýr vefur

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er fréttavefur bb.is kominn í nýjan búning, unglingurinn er orðinn 17 ára og komin tími til að fá ný föt. Gamli vefurinn hefur staðið sig vel, verið bæði snar og snöggur og sjaldan dottið út en afar úreltur, svona tæknilega séð.

Nýi vefurinn er byggður á Word Press eins og svo margir fréttavefir og það er Sturla Stígsson snillingur hjá Snerpu sem hefur átt veg og vanda að öllum tæknibrellum sem viðhafa þarf þegar nýr vefur fer í loftið.

Það á eftir að hnýta ýmsa spotta í verkinu, myndasafnið gamla er ekki komið inn og ekki heldur Bæjarins besta. Sömuleiðis er eftir að koma öllum gömlu fréttunum í skjól því í þeim felast mikil menningarverðmæti, hvernig við gerum það á eftir að koma í ljós.

bb.is er fyrst og fremst fréttavefur og því er mest áhersla lögð á einfalda framsetningu og birtingu á fréttum. Við aðgreinum fréttir af íþróttum og menningu lesendum til einföldunar en að öðru leyti eru ekki aðrar flokkanir. Margt var skilið eftir á gamla vefnum en við höldum að sjálfsögðu áfram að taka við aðsendum greinum og nýr dálkur „Viðburðir – kynning“ er leið til að kynna þá viðburði, fundi eða tónleika sem framundan eru. Í blaðinu verður viðburðadagatal þar sem fram kemur staður og stund en svo má nálgast hér á vefnum nánari upplýsingar um viðburðinn.

Með nýrri tækni er einfaldara að setja inn myndbönd og munum við nýta okkur það.

En breyting sem skiptir marga máli, nú er vefurinn orðinn farsímavænn og var nú tími til kominn.

Gjarnan er tekið við ábendingum um galla eða eitthvað sem betur má fara og um leið biðjumst við vægðar ef mikið verður um hökt svona á fyrstu skrefunum. Við reynum að taka á vandamálunum um leið og þau koma upp og leysa eins hratt og við getum.

bryndis@bb.is

Sturla Stígsson, tæknisnillingur hjá Snerpu

22 ár frá Súðavíkurflóðinu

Björgunarsveitarmenn nærast í frystihúsi Frosta í Súðavík. Mynd: Brynjar Gauti.

Í dag eru 22 ár frá því að snjóflóðið mannskæða féll á Súðavík.  Snjóflóðið, sem var rúmlega 200 metra breitt, féll klukkan 6:25 á miðja byggðina í Súðavík og tók með sér 15 íbúðarhús. Í þeim voru 26 manns og fórust 14 þeirra, þar af átta börn, en 12 manns tókst að bjarga. Húsin sem flóðið féll á stóðu flest utan þeirra marka sem skilgreind voru sem hættusvæði vegna snjóflóða.

Á þessum tíma hafði geysað óveður á Vestfjörðum og var landleiðin milli Ísafjarðar og Súðavíkur ófær sökum snjóa og fjölmargra snjóflóða sem höfðu fallið á veginn um Súðavíkurhlíð. Björgunarlið, læknar, lögreglumenn og sjálfboðaliðar voru því flutt frá Ísafirði og nágrannasveitum sjóleiðis. Djúpbáturinn Fagranes spilaði stóran þátt í því verkefni. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna af Vestfjörðum og björgunarmenn úr 10 sveitum á SV horni landsins tóku þátt í aðgerðum í Súðavík, en sunnanmenn komu vestur með varðskipi. Þá er ótalinn fjöldi sjálboðaliða frá Súðavík og nágrannabyggðum sem lögðu lið.

smari@bb.is

Hvassviðri eða stormur í dag

Suðvestan 15-23 m/s og él verða á Vestfjörðum í dag, en lítið eitt hægari í kvöld. Það lægir smám saman fram á morgundaginn og undir kvöld á morgun verður suðvestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og úrkomulítið. Hiti verður um og undir frostmarki. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er varað við að vegir og gangstéttir kunni að vera hál og fólki bent á að fara varlega. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum á Vestfjörðum.

Á morgun lægir víða og léttir til og kólnar, en sunnan úr hafi nálgast kröpp og dýpkandi lægð. Næstu daga er síðan búist við umhleypingum, hvössum vindum og úrkomu í öllum landshlutum.

annska@bb.is

Katrín Björk er Vestfirðingur ársins

Katrín Björk við afhendingu viðurkenningarinnar ásamt Huldu Maríu systur sinni og Maríu dóttir hennar og Bryndísi Sigurðardóttir ritstjóra bb.is

 

Katrín Björk Guðjónsdóttir er Vestfirðingur ársins árið 2016 að mati lesenda Bæjarins besta og bb.is. Katrín Björk er 23ja ára Flateyringur og hefur hún haldið úti bloggsíðunni https://katrinbjorkgudjons.com/ þar sem hún deilir með lesendum lífinu og tilverunni með hennar augum eftir að líf hennar kollvarpaðist árið 2015 er hún fékk stóreflis blóðtappa í heila, en áður en það gerðist hafði hún tvívegis fengið heilablæðingar. Blóðtappinn stóri lamaði Katrínu Björk frá hvirfli til ilja og gat hún fyrst einungis hreyft augun til að gefa merki og tjá sig. Katrín hefur tekið miklum framförum í endurhæfingu og getur til að mynda sest sjálf upp, staðið og notað fingurna til að skrifa með þeim bloggin sem heillað hafa lesendur upp úr skónum. Til að gefa smá innsýn í skrif hennar er hér brot úr bloggi hennar um jólin:

Á aðfangadagsmorgun vöknuðum við í winter wonderland, þegar ég fór að sofa kvöldið áður sá ég ekki snjókorn á jörðinni. Fallegra verður það varla en þegar jólasnjór fellur beint niður og safnast fyrir á tjágreinum og það hreyfir ekki vind svo snjókornin fá að liggja nákvæmlega þar sem þau lenda, jólalegra verður það ekki. Seinustu daga hef ég notið þess að eiga dásamlegar stundir með fjölskyldu minni og tengdafjölskyldu. Þetta hefur verið svo afslappað og gott frí sem ég þurfti mikið á að halda eftir mikla keyrslu undanfarna mánuði. Núna er tími til að rifja upp allar góðu minningarnar sem við eigum og vera þakklát.

Fjölmargir nefndu Katrínu Björk hetju í ummælum sínum og tiltóku dugnað hennar, jákvæðni, baráttuþrek, bjartsýni og skrif hennar sem ástæðu þeirra fyrir valinu. Þetta er meðal þess sem fólk hafði að segja:

  • Katrín hefur á einstaklega fallegan og einlægan máta sett fjöldann allan í sjálfskoðun með sinni sýn á lífið og þær gjafir sem það hefur að geyma. Hún er dæmi um einstakling sem stendur bein og með fókus fram á við, án þess að hafa getað gert það bókstaflega, og þannig kennt mér og eflaust fleirum að það er fátt óyfirstíganlegt. Frábær penni, hógvær og gríðarlega stór fyrirmynd í lífi og starfi.
  •  Ótrúleg baráttukona sem lætur ekkert stoppa sig. Virkilega einlæg og skemmtilegur bloggari.
  •  Þessi yndislega stelpa hefur gengið í gegnum svo margt og hefur allan tímann verið svo sterk og haldið áfram að lifa lífinu eins vel og hún getur. Það eru nú ekki margir sem hafa fengið jafn þung högg í byrjun fullorðinsára og verið svona sterkir. Katrín stoppar heldur ekki við það að heilla vini og fjölskyldu með styrkleika sínum en heldur líka uppi bloggi þar sem allir geta lesið um rússíbanann sem lífið hennar er. Hún er kraftaverk!
  •  Hún er fyrirmynd okkar hinna hvernig hún tekst á við lífið með æðruleysi, jákvæðni og baráttuþreki að vopni ásamt klettinum sínum henni mömmu sinni og allri fjölskyldunni.
  •  Falleg sýn á lífið og verkefnin sem hún hefur fengið í hendurnar. Hún hefur leyft fólki að skyggnast inn í hugarheim sinn og kennt okkur að þakka fyrir litlu sigrana, taka eftir öllu því smáa sem gerir lífið svo yndislegt.
  •  Glæsileg fyrirmynd! Með risastórt, hlýtt og gott hjarta! Katrín hefur upplifað ansi mikið á sínum fáu árum. Það einkennir Katrínu mikil jákvæðni, lífsgleði og umhyggja í garð náungans, sama hvaðan hann kemur eða hver hann er. Katrín er Vestfirðingur ársins!

Katrín Björk fékk blómvönd og viðurkenningarskjal til staðfestingar á valinu, farandgrip frá Dýrfinnu Torfadóttur sem Vestfirðingur ársins hefur hjá sér fram að næsta kjöri, sem og glæsilegan eignargrip sem Dýrfinna Torfadóttur gefur og er hann hennar hönnun og smíði.

Annað sæti.

Það var spennandi barátta um tvö efstu sætin í valinu á Vestfirðingi ársins 2016  en Árni Brynjólfsson bóndi á Vöðlum í Önundarfirði vermir annað sæti. Árni sagði sig úr stjórn Orkubús Vestfjarða á árinu og gagnrýndi opinberlega vinnubrögð stjórnarinnar við ráðningu orkubússtjóra. Meðal skýringa á atkvæði sínu til Árna var:

  • Sem stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða vakti hann athygli á að ekki hefði verið farið að lögum við ráðningu framkvæmdastjóra fyrirtækisins og sagði sig síðan úr stjórninni.
  • Fyrir að standa á sínu og láta ekki valta yfir sig í hagsmunapólitík og klíkuskap þegar ráðið var í stöðu Orkubússtjóra.
  • Fyrir að hafa kjark til að láta vita af spillingunni.
  • Upplýsa um ferli við ráðningu orkubússtjóra og veita þannig innsýn í gang mála í stjórnsýslunni á Íslandi.

Og í þriðja sæti  var Isabel Alejandra Diaz meðal ummæla um Isabel Alejandra eru:

-Mikil fyrirmyndarstúlka sem vakti jákvæða athygli á Ísafirði og ísfirðingum í sumar með fallegri framkomu, fallegum ummælum um bæjarbúa og einstaklega fallegu málfari.

-Því hún koma hingað sem flóttamaður en barðist fyrir rétti sínum og útskrifast með hæstu einkunn í íslensku. Hún er fyrirmynd og þörf áminning að við getum gefið tækifæri sem þjóð.

Aðrir sem hlutu tvö atkvæði eða fleiri voru: Hálfdán Óskarsson og Arna ehf í Bolungarvík, Baldur Ben, Kristín Þorsteinsdóttir, Ævar Einarsson, Björgunarsveitirnar, Stöndum saman, Sorphirðufólk, Sigurður Sivertssen, Jóhannes K. Kristjánsson, Gullrillurnar, Guðjón Þorsteinsson og Elfar Logi.

annska@bb.is

Börnin heimsóttu Tanga

Börnin tóku lagið með þeim Diddu og Gumma Hjalta

Tangi, ný leikskóladeild 5 ára barna á Ísafirði, tekur til starfa í næstu viku. Í morgun komu börn af leikskólunum Eyrarskjóli og Sólborg ásamt kennurum að skoða nýja skólann sinn og var mikil eftirvænting í hópnum er kíkt var í hvern krók og kima á hinum nýju húsakynnum þeirra sem eru í kjallara Tónlistarskóla Ísafjarðar, rétt við grunnskólann, þar sem þau munu svo setjast á skólabekk í haust. Það er heilmikið pláss í Tanga, 300 m², rúmgóð fatageymsla, tvær stofur fyrir hópastarf, salur, aðstaða fyrir starfsfólk og móttökueldhús, en börnin munu snæða hádegisverð í sal Grunnskólans á Ísafirði. Útiaðstaða barnanna verður skólalóð G.Í. ásamt öðru svæði í nágrenninu.

Starfsemi Tanga hefst fimmtudaginn 19.janúar, en á mánudag fara börnin aftur í heimsókn og munu þau í næstu viku taka þátt í því að aðstoða við flutninga áður en þau flytja formlega yfir á fimmtudaginn. Sólborg rekur Tanga, líkt og leikskólinn gerði í tilfelli Eyrarsólar. Á deildinni verða 45 börn og Jóna Lind Kristjánsdóttir verður deildarstjóri.

Það er verktakafyrirtækið Gamla spýtan á Ísafirði sem hefur haft yfirumsjón með verkinu og hafa menn þar haft í nægu að snúast síðastliðna tvo mánuði við að umbreyta kjallara T.Í. í þá aðstöðu sem nú er þar að finna. Magnús H. Jónsson framkvæmdastjóri bauð börnin velkomin í morgun og færði þeim tafl í innflutningsgjöf, í framhaldi af því sungu börnin þrjú lög undir stjórn Málfríðar Hjaltadóttur, við undirleik bróður hennar Guðmundar Hjaltasonar; Góða ferð, Ég er kominn heim og í leikskóla er gaman. Þá fengu börnin sér kringlur og kókómjólk og dvöldu um stund á nýja staðnum áður en þau héldu aftur á leikskólana sína.

Með tilkomu Tanga hefur verið hægt að bjóða mikið af nýjum nemendum inn á Eyrarskjól og Sólborg, en mikil köllun hefur verið eftir leikskólaplássi á Ísafirði og eru yngstu börnin sem fengið hafa pláss 16 mánaða gömul.

Magnús færði Tanga tafl að gjöf og vakti það mikla kátínu er hann sagði að það mætti alltaf nota það í staðinn fyrir Ipad.
Tangi er til húsa í kjallara T.Í.

Bílvelta á Súðavíkurhlíð

Bílvelta var á Súðavíkurhlíð í gærkvöldi. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og rann út af veginum þar sem bíllinn fór eina veltu. Ökumaður var einn í bílnum og slasaðist hann ekki við óhappið og segir Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Ísafirði öryggisbeltin þarna enn og aftur hafa sannað gildi sitt.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir