Mánudagur 28. október 2024
Síða 2244

Afhentu nýtt saltsíló

Kristján Andri Guðjónsson og Guðjón Jónsson frá áhaldahúsinu og Karl Ásgeirsson frá 3X-Technology við saltsílóið góða. Mynd af Fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar

Áhaldahúsið á Ísafirði fékk í vikunni afhent glæsilegt saltsíló sem smíðað var í 3X-Technology. Sílóið er notað til að blanda salti í möl og er talsverður vinnusparnaður af því fyrir starfsmenn bæjarins að þurfa ekki að handmoka úr saltpokum eins og gert hefur verið hingað til. Í frétt um hina nýju græju á Fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar segir að sjálfsögðu þurfi ekki að sækja vatnið yfir lækinn þegar fyrirtæki eins og 3X eru steinsnar í burtu og var því samið innanbæjar um smíðina.

annska@bb.is

Svara erindum hratt og vel

Jónas Þór Birgisson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er ósáttur við viðbrögð bæjarstjórnar við fyrirspurnum. Í bókun hans á fundi bæjarráðs fyrr í vikunni kemur fram að hann hafi ekki fengið formleg svör við fyrirspurnum sem hann lagði fram í september og nóvember í fyrra og segir það óviðunandi. Fyrirspurnirnar varða þann kostnað sem fallið hefur á sveitarfélagið vegna hönnunarsamkeppninnar um Sundhöll Ísafjarðar og hverjir hafi fengið greiðslur.

Í bókun Jónasar segir orðrétt „Það er mikilvægt að stjórnsýsla bæjarins svari erindum hratt og vel og á það ekki hvað síst við þegar um skipulagsmál er að ræða. Að sama skapi er mjög mikilvægt að bæjarstjóri svari eins hratt og unnt er fyrirspurnum frá bæjarfulltrúum. Að mati undirritaðs er eitt mikilvægasta hlutverk bæjarfulltrúa í minnihluta að veita meirihlutanum aðhald. Byggist það ekki síst á því að koma til bæjarbúa upplýsingum um hvernig farið er með fjármuni þeirra og í því samhengi gegna formlegar fyrirspurnir bæjarfulltrúa og formleg svör bæjarstjóra lykilhlutverki.“

bryndis@bb.is

250 ferðaþjónustuaðilar undirrituðu ábyrgðaryfirlýsingu

Ferðamenn fylgjast með í Neðstakaupstað á Ísafirði

Í gær var undirrituð víðsvegar um landið yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu. Þegar hafa yfir 250 ferðaþjónustuaðilar skráð sig í verkefnið sem lýtur að því að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með því að: Ganga vel um og virða náttúruna, tryggja öryggi gesta og koma fram við þá af háttvísi, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Sett verða upp markmið um þessa þætti og þeir mældir og reglulega birtar upplýsingar um árangur fyrirtækisins. Þátttaka í yfirlýsingunni er þátttakendum að kostnaðarlausu en gert er ráð fyrir að henni fylgi raunverulegar aðgerðir fyrirtækjanna og áhrif þessa sameiginlega átaks geti því orðið umtalsverð. Það er Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við félög og stofnanir ferðaþjónustunnar, sem standa fyrir verkefninu og er verndari þess Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Á Vestfjörðum var efnt til undirritunar í Vestrahúsinu á Ísafirði og Þróunarsetrinu á Hólmavík og hafa þegar nokkur fyrirtæki á svæðinu skráð þátttöku sína, eða: Markaðsstofa Vestfjarða, Westfjordian, Iceland Backcountry Travel, Heydalur og Strandagaldur. Enn er opið fyrir skráningu og segist Díana Jóhannsdóttir hjá Markaðsstofu Vestfjarða hafa fulla trú á því að fleiri vestfirsk fyrirtæki muni skrá þátttöku sína þar sem hún hafi skynjað talsverðan áhuga á málefnum umhverfislegrar og félagslegrar ábyrgðar á svæðinu.

annska@bb.is

Byrjendasvæðið í Tungudal opnar í dag

Ekki hefur verið miklum snjó fyrir að fara á vestfirskri grundu það sem af er þessum vetri og sýnist hverjum sitt um það. Skíðafólk hefur kannski öðrum hópi fremur verið langeygara eftir snjónum og eflaust einhverja farið að klæja undan þránni eftir að renna sér niður snæviþaktar brekkur. Á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar er nú unnið hörðum höndum að því að bregðast við þránni, en í Tungudal hefur ekki verið nægjanlegur snjór til að opna megi allt skíðasvæðið. Í dag dregur þó til tíðinda þar sem opnað verður á byrjendasvæðinu. Þar er búið að troða og verður opið á milli klukkan 16 og 19. Í þeirri brekku er nokkuð sléttur og hreinn jarðvegur undir svo betur gengur að vinna á því svæði og gera það klárt til skíðaiðkunar að sögn svæðisstjórans Hlyns Kristinssonar, segir hann önnur svæði í Tungudal erfiðari yfirferðar og þar vanti enn herslumuninn svo sé hægt að opna þar.

Göngusvæðið í Seljalandsdal er einnig opið í dag, en gönguskíðaiðkendur fá skíðaþörfinni iðulega fyrr svalað hér um slóðir og hefur verið opið þar frá því í lok desembermánaðar. Þar er í dag búið að troða 3,3km braut og verður opið frá klukkan 14.

annska@bb.is

Fordæmir verkfallsbrot

Miðstjórn ASÍ ályktaði í dag um fullan stuðning við verkföll og kjarabaráttu sjómanna og vélstjóra. Í ályktuninni kemur fram að útgerðarmenn hafi árum saman neitað að ganga til samninga við sjómenn og vélstjóra og sett fram óbilgjarnar kröfur um að launafólk greiði verulegan hluta af eðlilegri greiðslu fyrirtækjanna fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Jafnframt fordæmir miðstjórnin þau verkfallsbrot sem framin hafa verið og skorar á útgerðarmenn að virða löglega boðaðar aðgerðir sjómanna og ganga nú þegar til kjarasamninga.

bryndis@bb.is

FKA bjóða upp á námskeið í leiðtogaþjálfun

Hrefna Birgitta Bjarnadóttir. Mynd: bruen.is

FKA á Vestfjörðum, sem er hinn vestfirski armur Félags kvenna í atvinnulífinu stendur fyrir námskeiði í markmiðasetningu og leiðtogaþjálfun á veitingastaðnum Við Pollinn á morgun. Það er Hrefna Birgitta Bjarnadóttir sem kennir á námskeiðinu, en hún er flestum hnútum á málefninu kunn, annarsvegar sem NLP sérfræðingur og markþjálfi og hinsvegar sem frumkvöðull og athafnakona. Hún er með áratugalanga reynslu á sviði kennslu og fyrirlestra og hefur búið og starfað um margra ára skeið í Noregi og Danmörku. Þar, eins og á Íslandi, hefur hún komið að fjölda verkefna fyrir vinnu-, velferða- og heilbrigðiskerfisins. Hún hefur einnig komið að breytingaferli, stefnumótun og stjórnendaþjálfun, stærri og smærri fyrirtækja í þessum löndum.

Á námskeiðinu munu þátttakendur meðal annars læra hvernig ná má markmiðum sínum á auðveldari hátt, fá innsýn í NLP markþjálfun og nota þau verkfæri til að gera markvisst stefnumótunarferli.

Námskeiðið er þriggja klukkustunda langt og hefst það klukkan 11:30. Við skráningum tekur Hólmfríður Vala á
netfanginu vala@hotelisafjordur.is. Námsskeiðið er opið öllum konum og er það kostnaðarlausu fyrir félagskonur FKA á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Engar uppsagnir hjá HG

Engar uppsagnir hafa verið hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal vegna verkfalls sjómanna sem staðið hefur hátt í mánuð og verið þess valdandi að margar fiskvinnslur á landinu hafa gripið til þess ráðs að segja upp landverkafólki tímabundið vegna skorts á hráefni. Kristján G. Jóakimsson vinnslustjóri hjá HG segir að starfsfólki þeirra hafi verið boðið að sitja námskeið í verkfallinu, jafnframt því sem frá desemberlokum hafi verið eitthvað um vinnslu á eldisfiski, en búið er að slátra á annað hundrað tonnum úr fiskeldiskvíum frá desemberlokum. Kristján segist í ljósi þess að samningafundir séu daglega um þessar mundir, vera vongóður um að brátt sjái fyrir lok verkfallsins.

Um sextíu manns vinna í vinnslum HG í Hnífsdal og Ísafirði og hafa flestir þeirra setið námskeið á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða í verkfallinu, en að námskeiði loknu öðlast þeir starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Í náminu er farið í sjálfstyrkingu, samskipti, fjölmenningu, öryggismál, kjarasamninga, gefin yfirsýn yfir greina sem og markaðsmál og síðast en ekki síst er farið ítarlega í gæðamál og meðferð matvæla.

annska@bb.is

Tekjur hærri, útgjöld lægri

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Samkvæmt minnisblaði Helgu Ásgeirsdóttur verkefnastjóra á fjármálasviði sem lagt var fyrir bæjarráð á mánudaginn eru útsvarstekjur fyrstu ellefu mánuði 2016 tæpum 6 milljónum hærri en áætlað var í upphafi árs og rúmum 16,6 milljónum hærri en á sama tímabili árið 2015. Sömuleiðis eru greiðslur frá Jöfnunarsjóði hærri en áætlað var um kr. 1,8 milljónir króna. Launakostnaður er tæpum 4 milljónum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir og má því ætla að staða bæjarsjóðs hafi batnað um rúmar 11 milljónir í lok nóvember miðað við áætlanir.

bryndis@bb.is

Djúpið teppalagt, eða ekki

Teppisbútar víðs vegar um Djúpið

Þorsteinn Másson starfsmaður Arnarlax skrifaði í gær grein sem birt var á bb.is þar sem hann útskýrir yfirlitskort yfir eldissvæði Arnarlax í Ísafjarðardjúpi. Myndin sem tekin er úr tillögu að matsáætlun sem Arnarlax hefur skilað til Skipulagsstofnunar og sýnir áætluð svæði fyrir kvíar, sýnir svæðin sem mislita búta víðsvegar um djúpið. Í Fréttatímanum er fjallað um þessa mynd með fyrirsögninni „Ísafjarðardjúp teppalagt með laxeldiskvíum“. Um málið er líka fjallað á facebook síðu Landssambands veiðifélaga en sem kunnugt er eru stangveiðimenn og samtök þeirra mjög ósátt við opið sjókvíaeldi

Þorsteinn segir í grein sinni að myndin gefi skakka mynd og að svæðin sem fari undir kvíar séu aðeins brotabrot af því sem „teppisbútarnir“ gefi til kynna. Sótt er um svæði sem fyrirtækin hafa áhuga á að nota undir eldið, síðan sé farið í rannsóknir sem eiga að tryggja að kvíarnar verði á besta mögulega staðnum inn á svæðinu.

Þau eru þrjú eldisfyrirtækin, Arnarlax, Arctic Sea Farm og Hraðfrystihúsið Gunnvör sem nú hyggja á stórfellt eldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og eru leyfismál mislangt á veg komin. Fyrir liggur að félagið Náttúruvernd 1 hefur stefnt Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi vegna leyfisveitinga í Arnarfirði en eigendur Náttúruverndar 1 eru eigendur Kirkjubóls, Hringdals og Grænuhlíðar í Arnarfirði, eigendur veiðiréttar í Haffjarðará á Snæfellsnesi og veiðifélag Laxár á Ásum í Austur Húnavatnssýslu. Að sögn Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögmanns Náttúruverndar 1 stendur til að stofna Náttúruvernd 2, 3 og jafnvel fleiri eftir atvikum. Í Viðskiptablaðinu er haft eftir Jóni „ Það er ætlun þess hóps sem stendur að þessu að láta reyna á lögmæti sjókvíaeldisstöðva víðsvegar um land. Búið er að reyna að andæfa þessu á stjórnsýslustiginu en það hefur ekki borið árangur og þess vegna er nú verið að fara með málið fyrir dómstóla. Í grunninn snýst þetta allt saman um verndun verðmætra náttúruréttinda á Íslandi.“

bryndis@bb.is

Kalt og stöku él

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir norðaustan 5-13 m/s á Vestfjörðum í dag með stöku éljum. Kalt verður í veðri og frost yfirleitt á bilinu 5 til 10 stig. Veður verður með svipuðum hætti á morgun, en þó harðar enn frekar í frostinu. Á föstudag er búist við hægri breytilegri átt á landinu, léttskýjuðu og talsverðu frosti, en dálítil él verða við norður- og norðausturströndina. Síðan tekur að hlýna á landinu og á sunnudag er búist við hitatölum vel yfir frostmarki eða 4-12 stigum.

Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka og þæfingur í Ísafjarðardjúpi.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir