Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 2244

Haukur Vagns tekur við Íslendingabarnum á Pattaya

Haukur Vagns tekur formlega við lyklavöldum úr hendi fyrrum eiganda, Sigurðar Inga.

Bolvíkingurinn Haukur Vagnsson og kona hans Warapon Chanse hafa tekið við rekstri Íslendingabarsins á Pattaya í Tælandi. Staðurinn heitir Viking Bar & Restaurant, en gengur iðulega undir nafninu Íslendingabarinn eða Íslenski pylsubarinn og er til húsa við New Plaza við Moo númer 8, á besta stað í borginni samkvæmt Hauki. Íslendingar sem í auknu mæli heimsækja Pattaya yfir vetrarmánuðina hafa margir fundið sitt athvarf, sinn Staupastein á staðnum, kannski af skiljanlegum ástæðum þar sem þar má fá þjóðarrétt Íslendinga, hinn nýrri, SS pylsu með öllu. Þar má einnig fá bæði Tópas og Opal í fljótandi formi sem einnig hefur vakið lukku meðal gesta að sögn Hauks og ætlar hann að bjóða getum þar upp á ekta Hesteyrarpönnukökur eftir uppskrift móður sinnar Birnu Pálsdóttur. Á staðnum má horfa á fótbolta og handbolta með íslenskum leiklýsingum og var fullt úr úr dyrum er sýnt var frá leikjum íslenska handboltalandsliðsins um helgina.

Haukur segist skora á Vestfirðinga að koma í heimsókn til Pattaya og segir að þau á Íslendingabarnum geti verið gestum innan handar með að bóka viðeigandi húsnæði og bílaleigubíla til að mynda: „Hér er allt mjög ódýrt og mjög gott að vera. Mjög stabíll 30 gráðu hiti.“ Segir Haukur um Pattaya og eru hann og Warapon með í undirbúningi að bjóða upp á golfferðir til staðarins, en Haukur segir vellina sem finna má þar og þjónustan í kringum þá vera í hæsta gæðaflokki.

Haukur segist ætla að dvelja að mestu á Pattaya yfir vetrarmánuðina, en koma reglulega heim til Íslands þar sem hann rekur enn skemmtistaðinn Hendrix, jafnframt því sem hann mun halda áfram að sigla með ferðamenn til Hornstranda á sumrin á bát sínum Hesteyri ÍS:

Íslendingar eru duglegir að koma saman á Pattaya
Haukur og Warapon á Íslendingabarnum á Pattaya. Mynd: Guðmundur Sigurðsson.

 

annska@bb.is

Öll heimagisting leyfisskyld

Komin er út reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í reglugerðinni er heimagisting skilgreind sem gisting á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem hann hefur persónuleg not af.  Einstaklingum er heimilt að leigja út heimili sitt eða aðra fasteign sem viðkomandi hefur til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári án þess þurfa að sækja um rekstrarleyfi.

Heimagisting verður valkostur fyrir þá, sem vilja leigja út lögheimili sitt eða aðra fasteign sem það hefur til persónulegra nota  (t.d. sumarbústað) til styttri tíma. Sá sem hyggst leigja út samkvæmt heimagistingu má gera það að hámarki í  90 daga á almanaksárinu.

Heimagisting er starfsleyfisskyld samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Einstaklingar sem ætla að bjóða upp á heimagistingu þurfa að skrá sig hjá Sýslumanni, sem hefur í þessum tilgangi opnað nýjan vef, www.heimagisting.is . Við skráningu ber viðkomandi aðila að staðfesta að til staðar sé starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

smari@bb.is

Aukning í virðisaukaskattskyldri veltu

Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan ferðaskrifstofur og farþegaflutninga á vegum, í september og október 2016 nam 669 milljörðum króna, sem er 4% aukning miðað við sama tímabil árið 2015. Á síðustu 12 mánuðum er aukningin 5% samanborið við 12 mánuði þar áður er frá greinir á vef Hagstofu Íslands. Velta í allri virðisaukaskattskyldri starfsemi nam 688 milljörðum króna í september og október 2016. Starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum var ekki virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun 2016 og verður að taka tillit til þess þegar velta ársins 2016 er borin saman við fyrri ár.

Við birtingu fréttar hjá Hagstofunni í nóvember var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi í júlí og ágúst 2016 talin vera 749,3 milljarðar sem var 12,9% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015. Nú hafa nýrri tölur borist og velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi á þessu tímabili er talin vera 751,2 milljarðar sem er 13,2% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015. Í ársbyrjun 2016 tóku einnig gildi breytingar á vörugjöldum sem veldur í kjölfarið hækkun á virðisaukaskattskyldri veltu.

annska@bb.is

Ásgeir Helgi sýnir í Hamraborg

 

Áhugaljósmyndarinn Ásgeir Helgi Þrastarson hefur opnað sýningu á verkum sínum í Hamraborg á Ísafirði. Ásgeir hefur valið nokkrar af uppáhalds myndunum sínum til að deila með gestum á sýningunni og eru þær prentaðar á pappír eða striga. Myndirnar sýna vestfirskt landslag og eru þær teknar að kvöld og næturlagi og segist Ásgeir vilja sýna mismunandi landslag, tímasetningar og litbrigði, en myndirnar sýna margar litríkan himinn við sólarlag eða dansandi norðurljósagleði. Þetta er fyrsta sýning Ásgeirs Helga og eru verkin á sýningunni til sölu.

annska@bb.is

Gjörbylting með nýjum troðara

Jón Smári (t.v.) fær lykavöldin afhent.

Í haust festi skíðasvæði Ísafjarðarbæjar kaup á átta ára gömlum Kässbohrer Pisten Bully 600 snjótroðara. Troðarinn er með spili sem mun gjörbylta öllu verklagi á skíðasvæðinu, en troðarinn geturi spilað sig upp bröttustu brekkurnar og sömuleiðis heldur spilið við troðarann á niðurleiðinni sem gerir brekkurnar vandaðri og öruggari. Á vef skíðasvæðisins kemur fram að talsverður tíma- og olíusparnaður fæst með spilinu þar sem ekki þarf að keyra troðarann inn dalinn til að komast upp á topp.

Troðarinn fór í gegnum upptekt í verksmiðjum Kässbohrer og er því eins og nýr. Starfsmenn Skíðasvæðisins fengu troðarann afhentan á laugardag og fór helgin í að koma honum saman og fara yfir virkni tækjabúnaðar.

Jón Smári Valdimarsson verður allsráður á nýja troðaranum og tók hann við lyklum af mönnum frá Kässbohrer. Jón Smári er eðlilega afar spenntur að prófa nýju græjuna og nú vantar ekkert nema meiri snjó í brekkurnar í Tungudal.

smari@bb.is

Viðlegustöpull í útboð

Viðlegustöpullinn mun styðja við skut stórra skipa sem leggjast upp að Mávagarði.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur boðið út gerð viðlegustöpuls á Mávagarði á Ísafirði. Stór olíuflutningaskip hafa átt örðugt með að liggja við Mávagarð í vissum vindáttum þar sem hætta er á að skutur skipanna reki upp í grjótgarðinn. Allt frá því að hafnarmannvirkið á Mávagarði var tekið í notkun hefur hafnarstjórn lagt þunga áherslu á að leysa þetta brýna vandamál.  Tilboð verða opnuð 31. janúar og verklok skulu vera 1. Júlí 2017.

smari@bb.is

Lægir þegar líður á daginn

Það verður hvasst í veðri á Vestfjörðum fram yfir hádegið, með suðvestan 13-20 m/s og éljum, en lægir síðan smám saman er líða tekur á daginn. Hiti kringum frostmark. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er varað við allhvassri eða hvassri suðvestanátt og éljagangi á landinu, með takmörkuðu skyggni í éljahryðjum og skafrenningi, einkum á fjallvegum. Þá lægir og styttir upp eftir hádegi, en vaxandi norðaustanátt með slyddu eða snjókomu sunnan- og austantil í kvöld. Aftur er svo búist við vestanhvassviðri með éljum á morgun og þá kólnar í veðri.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum Vestfjörðum og  éljagangur, snjóþekja á Þröskuldum og hálka og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði. Snjóþekja er á Klettsháls og þæfingur á Hjallaháls.

annska@bb.is

Tvö umferðaróhöpp í umdæminu

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í síðustu viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Annað þeirra varð á Súðavíkurhlíð að kveldi 12. janúar þegar  ökumaður missti stjórn á bíl sinni með þeim afleiðingum að hann rann út af veginum og fór veltur ofan vegar.

Ökumaðurinn, sem var einsamall í bifreiðinni, slapp án meiðsla, enda með öryggisbeltið spennt. Bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Hitt óhappið varð á Gemlufallsheiði um miðjan dag sama dag, en þá rann bifreið til og utan í vegrið sem er Bjarnadalsmegin við heiðina. Bifreiðin festist og þurfti að losa hana. Hvorki ökumann eða farþega sakaði.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í vikunni. Ökumaðurinn var stöðvaður í umferðareftirliti í miðbæ Ísafjarðar.

Lögreglan lagði hald á pakkasendingu sem send var frá höfuðborgarsvæðinu á ákveðinn aðila í Strandasýslu. Um var að ræða um 4 grömm af kannabisefnum. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

smari@bb.is

Ítreka ósk um vetrarþjónustu í sveitum

Önundarfjörður í vetrardýrð.

Búnaðarfélagið Bjarmi í Ísafjarðarbæ fer fram á að bæjaryfirvöld taki til efnislegrar meðferðar ósk félagsins um vetrarþjónustu á sveitavegum í bæjarfélaginu. Í byrjun desember fundaði félagið með bæjarstjóra, embættismönnum og fulltrúum Vegagerðarinnar þar sem félagsmenn rökstuddu ósk sína um vetrarþjónustu alla virka daga. Í dreifbýli í Ísafjarðarbæ eru yfir 30 heimili með heilsársbúsetu. Með bréfi til bæjarstjóra dagsettu 9. janúar er erindi Bjarma ítrekað og farið fram á málið fá efnislega afgreiðslu hjá stjórnýslu sveitarfélagsins þar sem „fyrrgreind fundarhöld virðast ekki hafa dugað til að máli komist í efnislega afgreiðslu,“ eins og það er orðað í bréfi formanns Bjarma.

Í afgreiðslu bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að mikill vilji sé hjá Ísafjarðarbæ til að leita leiða svo bæta megi snjómokstur umfram það sem hann er í dag. Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar og bæjarstjóri hafa verið með þetta mál til skoðunar  og vonast bæjarráð er til að hægt verði að þoka þessum málum til betri vegar.

smari@bb.is

Bolvíkingum ráðlagt að sjóða neysluvatn

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða ráðleggur sem varúðarráðstöfun að Bolvíkingar sjóði neysluvatn. Við könnun á neysluvatni þann 12. janúar fundust e.coli gerlar í neysluvatni en bilun hafði komið upp í geislunartækjum. Geislabúnaður hefur verið gangsettur á ný og virkar eðlilega. Beðið er eftir niðurstöðu úr seinna sýni, en ekki hefur tekist að senda það í greiningu vegna veðurs.

Rekstur vatnsveitu Bolungarvíkur hefu  verið með eðlilegum hætti frá því á fimmtudag í síðustu viku og líklegt er að niðurstöður úr síðari sýni fáist á miðvikudag.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir