Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 2243

Engar viðræður fyrr en eftir helgi

Samningafundi sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lauk nú fyrir stundu og viðræðum verður frestað til mánudags. Tímann þangað til ætlar sjómannaforystan að nota til að kanna baklandið meðal umbjóðenda og ráða ráðum sínum. Sjómenn hafa í tvígang fellt kjarasamning sem forystan hefur samþykkt.

Verkfall sjómanna hefur staðið í rúmar fimm vikur og tap sjómanna og útgerða mikið svo ekki sé minnst á fiskverkafólk, en á annað þúsund starfsmanna í fiskvinnslu hafa fengið uppsagnarbréf frá því að verkfallið hófst.

Fulltrúar beggja málsaðila keyrðu á vegg í þessum viðræðum og það var kominn svolítill hiti í menn. Á ákveðnum málum steytti og því var ákveðið að kæla málið aðeins og byrja aftur eftir helgina,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í dag.

smari@bb.is

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar valinn

Kristín Þorsteinsdóttir var íþróttamaður Ísafjarðarbæjar á síðasta ári, hér er hún ásamt öðrum íþróttamönnum sem tilnefndir voru

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar fór á fundi sínum í gær yfir tilnefningar til íþróttamanns og efnilegasta íþróttamanns Ísafjarðarbæjar árið 2016. Í athöfn í Stjórnsýsluhúsinu næstkomandi sunnudag verður valið kunngjört. Athöfnin hefst klukkan 16 á 4.hæð.

Íþróttafélögin í Ísafjarðarbæ hafa tilnefnt eftirfarandi í valinu um íþróttamann ársins:

Albert Jónsson                     Skíðafélag Ísfirðinga

Anton Helgi Guðjónsson    Golfklúbbur Ísafjarðar

Daniel Osafu-Badu              Knattspyrnudeild Vestra

Haraldur Hannesson           Knattspyrnudeild Harðar

Jens Ingvar Gíslason           Handboltadeild Harðar

Kristín Þorsteinsdóttir        Íþróttafélagið Ívar

Nebojsa Knezevic                Körfuknattleiksdeild Vestra

Tihomir Paunovski               Blakdeild Vestra

Valur Richter                       Skotíþróttafélag Ísafjarðar

 

Í valinu um efnilegasta íþróttamanninn eru eftirtaldir tilnefndir:

Auður Líf Benediktsdóttir    Blakdeild Vestra

Ásgeir Óli Kristjánsson         Golfklúbbur Ísafjarðar

Jón Ómar Gíslason                 Handboltadeild Harðar

Nökkvi Harðarson                  Körfuknattleiksdeild Vestra

Sigurður Hannesson             Skíðafélag Ísfirðinga

Þráinn Ágúst Arnaldsson  Knattspyrnudeild Vestra

Á síðasta ári var það sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir sem hampaði titlinum og var það þriðja árið í röð sem hún var valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Þá var Anna María Daníelsdóttir skíðakona valin úr hópi ungra og efnilegra iðkenda sem efnilegasti íþróttamaðurinn.

annska@bb.is

Selja regnbogasilung til Japan

Frystum regnbogasilungi raðað í gám.

Starfsmenn Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.  og dótturfélagsins Háafells hófu fyrir jól slátrun á fyrsta regnbogasilungnum sem settur var í eldiskvíar Háafells í Álftafirði. Fiskurinn er unninn í Íshúsinu á Ísafirði. Japanskir kaupendur komu í heimsókn fyrir jól til að taka út vöruna og staðfestu kaup en ágætis markaðsaðstæður eru um þessar mundir fyrir regnbogasilung í Asíu. Í dag er unnið að hleðslu fyrstu gámana sem seldir hafa verið til Japans en regnbogasilungur er þar í landi eftirsóttur í m.a. sushi og sashimi rétti.

Háafell er með leyfi fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi en hyggst ekki nýta það. Fyrirtækið stendur nú í gerð umhverfismats á 6.800 tonna laxeldi á sömu staðsetningum í Ísafjarðardjúpi.

smari@bb.is

Éljagangur og kóf

Á Vestfjörðum verður vaxandi suðvestanátt með morgninum og verður vindhraði um 13-20 m/s um hádegi. Það dregur úr vindi er líða tekur á daginn og verður hann orðinn hægari síðla kvölds. Él og frost á bilinu 0 til 5 stig.

Snjóþekja, hálka, snjókoma eða éljagangur er á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á Hálfdáni og Kleifaheiði en unnið er að mokstri. Á vef Vegagerðarinnar er vakin athygli á að undir hádegi fari vindur vaxandi um norðvestanvert landið frá Snæfellsnesi og Borgarfirði norður í Skagafjörð og á Öxnadalsheiði.  Hvasst verður, SV 13-18 m/s og allt að 20-22 m/s á fjallvegum.  Ný lausamjöllin veldur auðveldlega kófi við þessar aðstæður og að auki verður éljagangur á þessum sömu slóðum. Lagast smámsaman í kvöld.

annska@bb.is

Nýr dragnótarbátur til Bolungarvíkur

Mynd: Vigfús Markússon

Útgerðarfélagið Mýrarholt ehf. í Bolungarvík hefur keypt dragnótarbátinn Örn GK. Mýrarholt hefur gert út Ásdísi ÍS í tæp þrjú ár, bæði á rækju og á dragnót. Aflabrögðin á dragnótinni hafa verið með eindæmum góð og á síðasta ári fiskaði Ásdís tæp 1.500 tonn. Frá því er greint í Aflafréttum að um 1.000 þorskígildakvóti hafi verið á Erni og hluti kvótans fylgir með í kaupunum. Mýrarholt er í eigu bræðranna Jóns Þorgeirs og Guðmundar Einarssonar og sona þeirra beggja.

Örn er talsvert stærri en Ásdís, eða 22 m að lengd og átta metra breiður. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 1999 og er sérsmíðaður fyrir dragnótarveiðar. Á vef Aflafrétta er haft eftir Einari Guðmundssyni, skipstjóra á Ásdísi, að afhending Arnar fari fram fljótlega og þá mun báturinn fara í slipp.

smari@bb.is

Neysluvatnið í lagi

Niðurstöður úr seinna sýni sem var tekið úr vatnsveitu Bolungarvíkur gefa til kynna að vatnsveitan sé í lagi og ekki er lengur þörf á vatnssuðu. Á fimmtudag í síðustu viku kom upp bilun í geislunarbúnaði og við sýnatöku kom í ljós saurgerlamengun í vatni. Búnaðurinn var lagaður samdægurs og annað sýni tekið sem eins og fyrr segir reyndist í lagi.

smari@bb.is

Aflasamdráttur á síðasta ári

Afkoma hafnarsjóðs Ísafjarðarbæjar batnaði á síðasta ári.

Afli íslenskra skipa árið 2016 var 1.069 þúsund tonn sem er 247 þúsund tonnum minna en landað var árið 2015. Samdrátt í aflamagni á milli ára má nær eingöngu rekja til minni loðnuafla en ríflega 101 þúsund tonn veiddust af loðnu á síðasta ári samanborið við tæp 353 þúsund tonn árið 2015. Þetta kemur fram í tölum Hagfstofu Íslands. Samdráttur í afla uppsjávartegunda var 32% á milli ára en alls veiddust tæp 576 þúsund tonn af uppsjávartegundum. Botnfiskafli nam 457 þúsund tonnum á síðasta ári sem er 4% aukning miðað við fyrra ár. Að venju er þorskaflinn uppistaðan í botnfiskaflanum en tæp 264 þúsund tonn veiddust af þorski á síðasta ári sem er 8% meira en árið 2015. Flatfiskaflinn var svipaður á milli ára og var tæp 24 þúsund tonnum á síðasta ári. Afli skel- og krabbadýra nam 12,7 þúsund tonnum sem er jafngildir 26% aukningu miðað við árið 2015.

Í desembermánuði var fiskaflinn rúm 59 þúsund tonn sem er 20% meiri afli en í desember 2015. Aukið aflamagn í desember skýrist af auknum uppsjávarafla, en afli uppsjávartegunda, kolmunna og síld, var 15 þúsund tonnum meiri en í desember 2015. Samdráttur varð hinsvegar í öðrum aflategundum, botnfiskafli dróst saman um 14%, flatfiskafli um 41% og skel- og krabbadýraafli um 28%.

Þrátt fyrir aukið aflamagn í desember má gera ráð fyrir að verðmæti aflans í desember hafi dregist saman um 5,5% sem skýrist af aflasamdrætti verðmætari tegunda.

smari@bb.is

Hlutur ríkisins í bensínlítranum aldrei verið meiri

Bensínverð á Íslandi er fjórum krónum hærra núna, um miðjan janúar, en það var í desember. Skýra má stærstan hluta hækkunarinnar með hækkunum opinberra gjalda en hlutur ríkisins í bensínverði hefur aldrei verið meiri en hann er nú 58,22 prósent. Þetta kemur fram í frétt Kjarnans. Hlutur ríkisins mun að öllum líkindum minnka að tiltölu heimsmarkaðsverð á olíu heldur áfram að hækka og krónan að veikjast.

Hækkunin nemur 4,10 krónum á hvern lítra í viðmiðunarverðinu sem stuðst er við í bensínvaktinni og kostar bensínlítrinn nú 194,40 krónur. Mest munar um hækkun opinberra gjalda sem hækkuðu um áramótin í takt við fjárlög ársins 2017.

smari@bb.is

 

Ekki hægt að komast út úr vatnssölusamningi

Ísafjarðarbær getur ekki komist út úr vatnssölusamningi við Köldulind ehf. Fyrirtækið hefur forgangsrétt að umframvatni í Skutulsfirði. Kanadíska fyrirtækið Amel Group hefur lýst áhuga á vatnskaupum á Ísafirði en eins og áður segir er Kaldalind með forgangsrétt að umframvatni. Samningur Kaldalindar gengur úr gildi í september 2017, hafi fyrirtækið ekki nýtt sér forgangsrétt að vatni samkvæmt ákvæðum samningsins.

Í lok október áttu Saleh Saleh, framkvæmdastjóri Amel Group og Johan Gallani hjá Gallani Consultants með þeim Þórdísi Sif Sigurðardóttur, bæjarritara Ísafjarðarbæjar, og Brynjari Þór Jónassyni, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs.

Talsvert umframvatn kemur úr Vestfjarðagöngum og hugmynd kanadíska fyrirtækisins er að tanka því á skip við gömlu bryggjuna á Grænagarði, þar sem sementi var áður skipað upp.

 

smari@bb.is

Gísli fær fjórar stjörnur

Gísli á Uppsölum í meðförum Elfars Loga Hannessonar. Mynd: Davíð Davíðsson

Gísli á Uppsölum, nýjasta verk Kómedíuleikhússins, er nú sýnt í Þjóðleikhúsinu, nánar tiltekið í Kúlunni. Upphaflega stóð til að bjóða þar upp á tvær sýningar á verkinu en hafa undirtektir verið með slíkum hætti að nú eru sex sýningar auglýstar og má Elfar Logi Hannesson, einleikarinn knái, líklega búa sig undir lengri dvöl í borginni hafi dómar gangrýnenda áhrif. Í dag birtist í Morgunblaðinu dómur Þorgeirs Tryggvasonar leikhúsrýnis um sýninguna, sem hann fer um fögrum orðum, jafnframt segir Þorgeir þar framlag Elfars Loga til íslenskrar leiklistar næsta einstakt og verðskuldi alla okkar virðingu, og að sjálfsögðu mun meiri opinberan fjárhagsstuðning en raunin er. Í sýningunni segir Þorgeir meðal annars rétt að staldra við yfirvegaðan og úthugsaðan samleik Elfars Loga við leikmynd og leikmuni. Hægar hreyfingar, varfærnisleg handbrögð og ástúðleg meðhöndlun Gísla á öllu sem hann snertir á sviðinu undirstrika bæði hrumleika hans þegar það á við, en líka afstöðu sjálfsþurftaröreigans til nytjahlutanna og síns þrönga heims. Mjög fallegt, og eiginlega það eina sem hægt er að kalla „rómantískt“ í sýningunni.

Á öðrum stað segir: Þriðja atriðið sem má nefna snýr að færni leikarans sem einleikara; nákvæmni hans með augnaráð og fókus. Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.

Það er óhætt að fullyrða að gagnrýnandi Morgunblaðsins hafi verið yfir sig hrifin af Gísla á Uppsölum í meðförum Elfars Loga í leikstjórn Þrastar Leós Gunnarssonar og gefur hann sýningunni fjórar stjörnur. Dóminn í heild sinni má lesa hér. Þar má lesa í niðurlagi:

Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera. Við bíðum svo öll spennt eftir að sjá Elfar Loga bregða sér í hlutverk Eiríks Arnar Norðdahl og Helga Björns.

Tvær sýningar verða á Gísla á Uppsölum á miðvikudag og er uppselt á þær báðar. Sýningar verða svo föstudag og sunnudag og eru örfáir miðar eftir á þær.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir