Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 2242

Velkomin til Tortóla norðursins

Skattamál í Súðavík hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu eftir að sveitarstjórinn Pétur Markan vakti á þeim athygli á hreppsnefndarfundi fyrr í mánuðinum og var í kjölfarið skrifað um málið á vef Bæjarins besta og í fleiri fréttamiðlum. Bæjarbúar hafa lítið tjáð sig um málið opinberlega, en einhverjir hafa nú brugðið á það ráð í skjóli nætur að koma fyrir handgerðum skiltum við bæjarmörkin hvoru megin. Við merki Súðavíkur við utanvert þorpið, má sjá skilti þar sem á stendur: „Velkomin í skattaparadís.“ Við bæjarmörkin innanverð má sjá skilti þar sem á stendur „Velkomin til Tortóla norðursins.“ Bæði skiltin prýða svo myndir af sveitarstjóranum. Ekki er vitað hverjir voru þarna að verki.

annska@bb.is

Kalt í dag en rignir á morgun

Það verður hægviðri og þurrt í veðri að mestu á Vestfjörðum frameftir degi, en norðaustan 3-8 m/s og dálítil snjókoma í kvöld. Kalt verður í veðri með frosti á bilinu 3 til 8 stig. Ekki varir þessi kuldi þó lengi þar sem veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir svæðið á morgun kveður á um suðaustan 8-15 m/s og rigningu með hita á bilinu 2 til 7 stig.

Á vegum á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja.

annska@bb.is

Áreiðanlegt að einkahlutafélögin valdi tekjumissi

Gísli Halldór Halldórsson.

„Ég tel áreiðanlegt að fyrirkomulagið með einkahlutafélög valdi tekjumissi hjá sveitarfélögum. Fyrst og fremst er þar um að ræða mikil áhrif af hinu lagalega fyrirkomulagi, þrátt fyrir að uppfylltar séu allar lagaskyldur og skattar taldir fram með bestu samvisku,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Nokkur umræða hefur spunnist um skattgreiðslur einkahlutafélaga og skarðan hlut sveitarfélaga eftir bókun Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps. Í bókuninni  leiddi hann líkum að því Súðavíkurhreppur tapi skatttekjum vegna einkaneyslu sem eigendur einkahlutafélaga taki í gegnum fyrirtæki sín.

Gísli Halldór segir að eitthvað hljóti að vera um að heimildir séu misnotaðar. „Ég hef engar talnalegar upplýsingar um það en geri þó ekki ráð fyrir að stærstu upphæðirnar liggi í slíkri misnotkun eða skattsvikum.“

Ýmsir hafa gert athugasemdir við áhrif af einkahlutafélögum á skatttekjur sveitarfélaga í gegnum árinu, þ.e.a.s. áhrifin af þeirri breytingu sem gerð var á skattalögum í upphafi aldarinnar að einstaklingur í atvinnurekstri getur stofnað einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum.

Gísli Halldór bendir á að Reykjavíkurborg gerði árið 2001 útreikninga sem bentu til að sveitarfélögin yrðu af tekjum sem svarar til 2,7 milljarða á núgildandi verðlagi. „Ég veit ekki hvernig það myndi reiknast í dag. Þetta getur svo orðið hlutfallslega meira í sveitarfélögum sem reiða sig mikið á einstaklingsrekstur  eins og líklega er algengast í smærri sveitarfélögum.“

Hann segir að margir kannist eflaust við að fólk með stöndug fyrirtæki reikni sér fáránlega lág laun. Gísli Halldór leggur áherslu á að eftirlit með skattgreiðslum sé verkefni skattayfirvalda, sveitarfélögin hafi enga aðkomu að slíku eftirliti.

Rekstri margra sveitarfélaga verður að mati Gísla Halldórs stefnt í hættu ef ríkið gerir ekki úrbætur á tekjustofnum sveitarfélaga. Hann nefnir sem dæmi að sveitarfélögin hafa byggt upp leikskólana og grunnskólana á undanförnum áratugum án þess að fá til þess neina tekjustofna frá ríkinu. „Nú er einmitt orðin brýn þörf á að tryggja börnum leikskólapláss frá lokum fæðingarorlofs og það verður ekki gert með góðu móti nema til komi nýir tekjustofnar, að öðrum kosti yrði rekstri fjölmargra sveitarfélaga stefnt í hættu við fjölgun leikskólaplássa,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

Að líkamna huglæga upplifun

Jónas Sen og Sigríður Soffía í hlutverkum sínum.

Það er ekki á hverjum degi sem Ísfirðingum og nærsveitungum er boðið upp á samtímadansverk í fremsta flokki. Og þeir sem voru orðnir óþreyjufullir í biðinni, þurfa ekki að örvænta því í fyrstu viku febrúar verður dansleikhúsverkið FUBAR sýnt í Edinborgarhúsinu. Verkið er unnið út frá tíma, segir í kynningu og ennfremur:

„Hvernig klukkutími getur liðið eins og mínúta þegar þú upplifir eitthvað frábært og hvernig tíminn virðist stoppa þegar upplifunin er hræðileg. Dansarinn líkamnar huglæga upplifun.“

Verkið er eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Jónas Sen tónskáld frumsemur tónlistina við verkið. Tónlist og dans hafa fæðst saman í spunum á vinnuferlinu þar sem listamennirnir vinna báðir útfrá sama efninu og þannig myndast djúp tenging tónlistar og hreyfinga.

Verkið er dansleikhúsverk þar sem ekki einungis er dansað heldur er texti, söngur, vélmennadans, lifandi hljóðfæraleikur og búningar úr smiðju tískuhönnuðarins Hildar Yeoman áberandi.

smari@bb.is

6 nemendur við Finnbogastaðaskóla

Síðasta vor var sagt frá því að líkur væru á að skólahald í Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi legðist af, er útlit var fyrir um hríð að einungis eitt barn myndi stunda nám við skólann komandi starfsár. Í ágústmánuði taldist þó tryggt að af skólahaldi yrði og voru þá fjögur börn skráð til náms við skólann. Máltækið segir að það sé lengi von á einum og jafnvel tveimur líkt og í þessu tilfelli, en sex nemendur stunda nú nám við skólann. Jón G. Guðbjörnsson greinir á Litlahjalla frá þeim miklu breytingunum sem urðu á Finnbogastaðaskóla á síðasta ári er allt starfsfólk skólans hætti:

Elísa Ösp Valgeirsdóttir hætti sem skólastjóri í lok október, en hún var búin að vera skólastjóri frá árinu 2010. Einnig hætti Vígdís Grímsdóttir sem kennari, hún var búin að vera kennari við skólann frá 2012. Þá hætti Hrefna Þorvaldsdóttir sem matráður um áramótin, en hún var búin að vera matráður við skólann í um 25 ár meira og minna. Í haust tók Helga Garðarsdóttir við sem skólastjóri og nýr kennari við skólann er Selma Kaldalóns og maður hennar Björn A Guðbjörnsson, og er hann matráður við skólann. Selma og Björn komu með tvö börn sem eru á skólaskyldum aldri. Nú eru sex börn við nám í Finnbogastaðaskóla.  Allt þetta nýja starfsfólk kemur af höfuðborgarsvæðinu segir í frétt Jóns.

annska@bb.is

Gunnar á þing fyrir Evu

 

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, sjómaður á Ísafirði, hefur tekið sæti sem varamaður á Alþingi í fjarveru Evu Pandóru Baldursdóttur, þingmanns Pírata í Norðvesturkjördæmi. Þetta kemur fram á vef Alþingis. Eins og kunnugt er eignaðist Eva Pandóra dóttur stuttu fyrir kosningar og hefur verið í fæðingarorlofi.

smari@bb.is

Ekki kunnugt um bærinn verði af skatttekjum

Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra í Bolungarvík, er ekki kunnugt um að bæjarsjóður verði af tekjum vegna skattgreiðslna einkahlutafélaga – en þær  renna í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga . Bókun Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, við afgreiðslu á fjárhagsáætlun hefur vakið athygli. Útsvarstekjur sveitarfélagsins minnkuðu umtalsvert milli ára og Pétur telur líklegustu skýringuna vera að einkahlutafélögum sem eigendur taka sína einkaneyslu í gegn hefur fjölgað í sveitarfélaginu. Jón Páll segir að hann hafi ekki ástæðu til annars en að fyrirtæki og einstaklingar fari eftir lögum og reglum en telur að það væri fagnaðarefni ef sveitarfélög fengu aukinn hlut í heildarskattheimtu ríkisins. „Sveitarfélögin eru mörg hver mikið skuldsett og þurfa sárlega fé í framkvæmdir og uppbyggingu innviða,“ segir hann.

Gagnrýni á skiptingu – eða öllu heldur enga skiptingu – skattgreiðslna einkahlutafélaga milli ríkis og sveitarfélaga er ekki ný af nálinni. Fyrir fjórtán árum ræddi blaðamaður Morgunblaðsins við Einar Pétursson, þáverandi bæjarstjóra Bolungarvíkur. Þá hafði einkahlutfélögum fjölgað um 58% í Bolungarvík frá ársbyrjun 2001. Fjölgun á landinu öllu á sama tímabili var um 30%. Þessi fjölgun einkahlutafélaga hafði í för með sér verulegt tekjutap fyrir sveitarfélagið þar sem stærsti tekjustofn þess sé útsvar og það lækki af þessum völdum.

Lítið hefur breyst í skattaumgjörðinni fyrir utan að tekjuskattur fyrirtækja er hærri í dag (20%) en fyrir hrun, þegar hann hafði verið lækkaður verulega.

smari@bb.is

Samkomulag að nást við hestamenn

Hestamenn stefna á að byggja reiðskemmu á þessu ári. Mynd úr safni.

Ísafjarðarbær og hestamannafélagið Hending hafa gert með sér samingsdrög  vegna greiðslu bóta fyrir aðstöðumissi félagsins vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng. Bæjastjórn Ísafjarðarbæjar tekur afstöðu til samningsins á morgun. Hending hefur fallist á samingsdrögin og Marinó Hákonarson, formaður Hendingar, segir að þó svo að undirritað samningur liggi ekki fyrir, þá telji hann fullvíst að menn séu landa samningi. „Þetta verður leyst úr þessi. Það er verið að vinna þetta sameiginlega í staðinn fyrir að vera eins og hundar og kettir, það er stóri munurinn. Bærinn settist niður með okkur með fullan vilja til að leysa málið,“ segir Marinó.

Aðspurður hversu miklar bætur Hending fær segir Marinó að það sé hægt að líta á það frá ýmsum hliðum. „Það er hægt að tala um 50 til 60 milljónir, en eftir því hvernig þú setur þetta á vogarskálarnar þá er hægt að fá út hærri eða lægri upphæð. Aðalatriðið er að með samkomulaginu náum við að byggja upp sómasamlega aðstöðu í Engidal sem verður bæði eign Ísafjarðarbæjar og Hendingar. Þó það sé verið að leggja pening í þetta þá er ekki hægt að segja að hestamenn fái þá peninga.“

Samkvæmt samkomulaginu er stefnt að því að reisa reiðskemmu strax á þessu ári.

„Menn eiga að vera stoltir af því að lending sé að nást, bæði bærinn og hestamenn,“ segir Marinó Hákonarson, formaður Hendingar.

smari@bb.is

Fyrsti leikur eftir jólahlé

Meistaraflokkur Vestra á síðustu leiktíð.

 

Meistaraflokkur Vestra í körfubolta leikur sinn fyrsta leik eftir jólahlé á föstudagskvöld þegar Vestri og Ármann etja kappi í íþróttahúsinu á Torfnesi. Vestri er í sjöunda sæti 1. deildarinnar en hefur leikið færri leiki en flestir andstæðingarnir. Hvert stig er dýrmætt eins og staðan er í dag og því baráttan um sæti í úrslitakeppninni er hörð. Liðið var á góðri siglingu fyrir jól og vann þrjá leiki í röð. Á blaði ættu Ármenningar að reiknast sem draumamótherji, en liðið hefur ekki unnið leik í deildinni og situr sem fastast á botni deildarinnar.

smari@bb.is

Æfa danssporin fyrir þorrablótið

 

Á föstudag gengur þorrinn í garð og upphefst þá mikil samkomutíð á Íslandi er landsmenn koma saman og blóta þorra. Algengasta samkomuformið eru þorrablótin sívinsælu þar sem gestir koma saman með misvel lyktandi þjóðlega rétti í trogi. Þá er sungið, gjarnan heimatilbúnar gamanvísur um náungann, og dansað. Nemendur í 10.bekk Grunnskólans á Ísafirði hafa um langa hríð komið saman á þorrablóti og það munu þau gera á bóndadaginn á föstudag, ásamt foreldrum sínum eða forráðamönnum og starfsfólki skólans.

Á þorrablótinu verða gömlu dansarnir stignir undir harmonikkuleik og hafa nemendur verið við æfingar hjá Evu Friðþjófsdóttur danskennara á öllum helstu sporunum. Á meðfylgjandi mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði má sjá 10.bekkingana æfa hringdans og virðast þau klár í slaginn að sýna listir sínar og bjóða mömmu og pabba upp í dans á föstudagskvöldið.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir