Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2241

Aldarfjórðungur frá því ratsjárstöðin hóf rekstur

 

Um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því að rekstur ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli ofan Stigahlíðar hófst og frá því er greint á vef Bolungarvíkurkauptaðar. Rekstur stöðvarinnar hófst þann 18. janúar 1992. Leigusamningur um 7 hektara land undir stöðina var gerður 20. júní 1985 milli Bolungarvíkurkaupstaðar og utanríkisráðuneytisins og var hann samþykktur í bæjarstjórn 23. júní 1985. Vegavinna hófst 1986 en bygging stöðvarinnar hófst vorið 1987.

Ákvörðun um að reisa ratsjárstöð á Bolafjalli var síður en svo óumdeild og var byggingu stöðvarinnar mótmælt harðlega. Stöðin var rekin fyrir bandaríska varnarliðið og reist fyrir fé úr mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Andstæðingar ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli litu á stöðina sem hernaðarmannvirki og var það grundvöllur andstöðunnar. Í Þjóðviljanum 31. mars 1985 stóð meðal annars:

„Á Vestfjörðum er áformað að koma ratsjárstöðinni fyrir á Stigahlíðarfjalli, en heimamenn telja margir réttara að tala um Bolafjall í námunda við Bolungarvík. Vestfirðingar hafa lagt mikla vinnu í andstöðuna við ratsjárstöðvar, einstaklingar úr öllum flokkum. Í fyrra var samþykkt ályktun á Prestastefnu Vestfjarða gegn hernaðarmannvirkjum í fjórðungnum og prestar hafa að mörgu leyti staðið fremst í fylkingu efasemdarmanna um ratsjárstöðina vestra.

100 nafnkunnir Vestfirðingar sendu bænarskrá sl. haust um að ekki yrði komið upp ratsjárstöð í héraðinu. Upp úr því var stofnaður 1. demshópurinn sem vann að gerð

blaðsins Ratsjá sem borið var út inná hvert heimili á Vestfjörðum. Á Bolungarvík var farin blysför í desember mánuði, haldnir hafa verið fundir á ísafirði og svo mætti lengi telja.“

smari@bb.is

„Vá! Ég lifði“

Katrín Björk Guðjónsdóttir

Vestfirðingur ársins 2016 Katrín Björk Guðjónsdóttir er í vikuviðtali Bæjarins besta sem borið er í hús á norðanverðum Vestfjörðum í dag. Katrín Björk hefur bloggað um leið sína að bata eftir stóreflis heilablæðingu sem hún fékk einungis 21 árs að aldri á vefsíðunni https://katrinbjorkgudjons.com/ Katrín hefur sannarlega hrifið fólk með skrifunum og nefndu margir til aðdáun sína á styrk hennar og lífsviðhorfum sem ástæðu fyrir vali sínu er þeir kusu hana Vestfirðing ársins. Það er ekki hægt annað en að heillast af þessari ungu konu sem sannarlega glímir við önnur verkefni í lífinu en flestar jafnöldrur hennar.

Katrín Björk er með einstakt minni og man hún vel er hún fann fyrir því að hún væri að fá heilablæðingu að nýju, en það hafði áður gerst um hálfu ári fyrr. Hún man líka vel tímann eftir að hún vaknaði upp að nýju: „Katrín Björk með sitt ótrúlega minni man kristaltært eftir dvölinni á gjörgæslunni eftir aðgerðina. Hver sagði hvað og hver gerði hvað. Mamma hennar segir að tíminn sé nú meira og minna í móðu hjá henni, en öðru máli gegni um Katrínu sem muni allt í smáatriðum og segir um fyrstu minninguna þegar hún vaknaði á gjörgæsludeild: „Ég man þegar mamma sat hjá mér og horfði í augun á mér og sagði að ég hefði fengið aðra heilablæðingu og ég væri að vakna eftir aðgerð þá hugsaði ég: „Vá! Ég lifði.“

Eftir heilablæðinguna sem Katrín fékk árið 2014 fylgdi erfiður tími í kjölfarið, hún fann fyrir miklum kvíða og reiði. En hún segir að sú ró sem hana hafi vantað hafi komið í kjölfar stóru heilablæðingarinnar árið 2015: „Fyrir mig var þetta óeðlileg hegðun og ég sé eftir því. Þegar ég lít til baka þá var ég í eilífum feluleik það mátti til dæmis enginn sjá að höndin mín væri ónothæf. Ég hefði þurft að „knúsa” sjálfa mig og róa mig niður og ekki vera svona ofboðslega kvíðin og ósátt yfir því að ná ekki fyrri færni aftur. Þegar ég vaknaði eftir stóru blæðinguna þá var róin sem mig hafði vantað komin. Í dag er ég sátt við þennan ótímabæra þroska sem mér hefur verið gefin, þetta kraftlitla andlit segir sögu sem ég mun aldrei nokkurn tímann skammast mín fyrir. Ég nýt þess að finna styrkinn aukast með hverjum degi sem líður.“

Blogg Katrínar Bjarkar birtir líka vel önnur hugðarefni hennar og áhugamál, svo sem: tísku, áhuga á bloggum, snyrti- og húðvörum, næringarríkum mat, heilsu og innanhúshönnun. Allt er fallega framsett há henni og bloggin prýða flottar ljósmyndir sem Katrín fær vini og ættingja til að taka eftir kúnstarinnar reglum og svo vinnur hún myndirnar áður en hún birtir þær.

Í viðtalinu, sem má lesa í heild sinni hér, kemur glögglega í ljós að þar er mikil kjarnakona á ferð, sem tekst á við verkefnin sem lífið færir henni af einstökum styrk og æðruleysi.

annska@bb.is

 

Bæjarins besta 3. tbl. 34. árgangur 2017

Samræmist ekki nýtingaráætlun

Sjókvíar í Arnarfirði.

Matstillaga Arctic Fish um 4.000 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Arnarfirði er ekki í samræmi við nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Arnarfjarðar. Þetta kemur fram í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar um matstillöguna. Nefndin segir í umsögn sinni að það sé forgangsatriði að rannsóknir á burðarþoli Arnarfjarðar verði kláraðar sem fyrst, svo að fyrir liggi að fyrirhugað eldi sé innan þessa ramma sem fjörðurinn þolir.

smari@bb.is

Sætabrauð úr Gamla fæst í Reykjavík

Gamla bakaríið á Ísafirði Mynd af facebook síðu bakarísins

Sælkerar sem eiga rætur sínar að rekja til Ísafjarðar og nágrennis en eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu geta heldur betur tekið gleði sína. Í dag var gjört kunnugt að valdar vörur úr Gamla bakaríinu á Ísafirði verða til sölu í versluninni Rangá í Skipasundi í Reykjavík. Vörurnar koma á þriðjudögum og föstudögum. Verslunin Rangá er við Skipasund 56 og er búin að vera starfandi hátt í 85 ár, þar af tæp 45 ár í sömu fjölskyldu og er í dag rekin af Kristbjörgu Agnarsdóttir og fjölskyldu en fjölskyldan á rætur að rekja til Selárdals í Arnarfirði. Sérstaða Rangár er sala á vestfirskum harðfiski, lambakjöti frá Kópaskeri, vestfirskum hnoðmör og nú einnig brauði og sætabrauði frá Ísafirði.

smari@bb.is

Uppbygging í fiskeldi krefst nýbygginga

Ef mikil fjárfesting í fiskeldi verður að veruleika er fyrirliggjandi að fjölga þarf nýbyggingum í Ísafjarðarbæ – bæði varanlegu húsnæði og skammtímahúsnæði fyrir farandverkafólk. Þetta kemur fram í skýrslu Reykjavík Economics um íbúðamarkaðinn í Ísafjarðarbæ sem unnin var að beiðni sveitarfélagsins. Langvarandi fækkun íbúa er flestum kunn en í skýrslunni er bent á að breytingar á aldursdreifingu íbúa hafi verið sérstaklega óhagfelld. Stórfelld uppbygging í fiskeldi gæti orðið til þess að breyta horfum í lýðfræði sveitarfélagsins.

Það liggur fyrir að sveitarfélagið þarf líklega að byggja sjálft, eða í samvinnu við einkaaðila, húsnæði fyrir aldraða og öryrkja. Það húsnæði sem losnar gæti nýst aðfluttum eða í útleigu til ferðamanna, en ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem hefur verið í örustum vexti í sveitarfélaginu.

Í skýrslunni kemur fram að það sem einkennir húsnæðismarkaðinn í Ísafjarðarbæ er að fjöldamargar íbúðir eru í eigu aðila sem ekki eiga lögheimili í sveitarfélaginu, samtals 224 íbúðir. Flestar eru íbúðirnar á Flateyri eða 67.

smari@bb.is

Vinnustofa um sjálfbærar breytingar strandsvæða

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Í dag hefst vinnustofa í Háskólasetri Vestfjarða sem ber titilinn „Sustainability Transitions in the Coastal Zone“ sem gæti útlagst sem; sjálfbærar breytingar strandsvæða.Vinnustofan er styrkt af Regional Studies Association og er samstarfsverkefni Háskólasetursins, Southern Connecticut State háskólans í Bandaríkjunum og John Moors háskólanum í Liverpool í Bretlandi. Vinnustofan sem fram fer hér á Ísafirði er sú fyrsta af fjórum sem verða haldnar næstu tvö árin. Markmið vinnustofanna er að koma á fót rannsóknarneti á milli þessara þriggja stofnanna. Þátttakendur munu greina og ræða möguleg rannsóknarverkefni sem snúa að margskonar breytingum sem tengjast sjálfbærni strandsvæða. Meðal umræðuefna eru sjávareldi, ferðamennska og sjávarútvegur.

Fólki utan Háskólasetursins er boðið að taka þátt í vinnustofunni, leggja til hugmyndir og ræða möguleg rannsóknarefni sem fyrirhugað rannsóknarnet gæti fengist við. Þessi opni hluti vinnustofunnar fer fram föstudaginn 20. janúar milli klukkan 13:30 og16:00 í stofu 3 í Háskólasetrinu. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu vinnustofunnar á heimasíðu Regional Studies Association.

annska@bb.is

Ofurkælingarbúnaður 3X seldur til Noregs

Skaginn3X og Grieg Seafood í Alta í Noregi undirrituðu á dögunum samning um innleiðingu Grieg Seafood á SUB CHILLING kerfi sem Skaginn3X hefur þróað á undanförnum árum, svokallaðri ofurkælingu.

Grieg Seafood er fyrsta laxeldisfyrirtækið í Noregi sem tekur kerfið í notkun en sams konar kerfi hefur verið notað með framúrskarandi árangri hjá Arnarlaxi á Bíldudal síðan á árinu 2015, að því er fram kemur í tilkynningu um málið frá Skaginn3X.

„Við hjá Grieg Seafood viljum vera brautryðjendur nýrrar tækni og þessi fjárfesting okkar í SUB CHILL­ING kerfi fellur vel að þeirri stefnu okkar að bjóða viðskiptavinum okkar bestu mögulegu gæði um leið og við minnkum umhverfisáhrifin sem tengjast flutningum,“ segir Stine Torheim, verksmiðjustjóri hjá Grieg Seafood.

Grieg Seafood er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi og með rúmlega 60 þúsund tonna ársframleiðslu.

smari@bb.is

Vestfirsk fiskneysla í Vísindaportinu

Í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða mun Jennifer Smith, MSc í haf- og strandsvæðastjórnun, fjalla um rannsókn sína á vestfirskri fiskneyslu, aðgengi að fiski og gildi staðbundinna fiskiklasa. Staðbundnir matarklasar (ens. Local food networks (LFN)) eru að koma fram að nýju hvarvetna um hinn iðnvædda heim sem leið til að vinna gegn neikvæðum áhrifum hins iðnvædda matvælakverfis og til að auka sjálfsstjórn samfélaga yfir eigin matarforða. Í meistararannsókn sinni, sem unnin var 2013-2014, greindi Jennifer núverandi grenndarkerfi fyrir fisk sem eru þegar til staðar í vestfirskum sjávarbyggðum og kostina sem gætu fylgt því ef verslanir hefðu aukinn aðgang að þeim fiski sem kemur að landi á svæðinu.

Könnun á fiskneyslu var lögð fyrir á Patreksfirði og Ísafirði til að skoða m.a. fiskneyslu íbúa og hvort þeir væru almennt sáttir við aðgengi að ferskum fiski. Niðurstöðurnar benda til þess að svarendur kjósi frekar staðbundinn fisk og að menningarleg tengsl við fiskneyslu séu áfram sterk meðal íbúa. Fiskneyslan fellur að stóru leyti inn í gjafakerfi sem byggir á persónulegum tengslum við fiskiðnaðinn. Einstaklingar, sem skortir persónuleg tengsl og aðgengi að  sérhæfðari verslunum (t.a.m. fiskverslun eða fiskborði verslana), þurfa að treysta á að nálgast vörur frá stærri aðilum sem hannaðar eru fyrir alþjóðlega matvælakerfið.

Jennifer vann rannsókn sína undir handleiðslu Dr. Catherine Chambers, fagstjóra haf-og strandsvæðastjórnunar Háskólaseturs Vestfjarða, og saman skrifuðu þær grein um efnið sem birtist í bandaríska vísindatímaritinu Environment, Space, Place.

Jennifer Smith er bandarísk að uppruna.  Hún lauk meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða árið 2014 og hefur verið búsett á Ísafirði síðan. Hún starfar við SIT vettvangsskólann, School for International Training, ásamt því að vinna verkefni á vegum Háskólasetursins. Jennifer stefnir á doktorsnám og hefur augastað á rannsóknum á félagshagsfræðilegum áhrifum fiskeldis á íslensk samfélög.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Fyrirlestur Jennifer fer fram á ensku.

annska@bb.is

Óheppilegt að burðarþolsmat liggur ekki fyrir

Staðsetningar eldiskvía Arnarlax eru skyggðar með grænu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemd við tillögu að matsáætlun Arnarlax á 10 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Hinsvegar þá ítrekar nefndin enn og aftur að afleitt sé að enga stefnumörkun stjórnvalda er að finna um sjókvíaeldi á Vestfjörðum, fremur en annars staðar á landinu. Nefndin segir óheppilegt er að veita leyfi þar sem burðarþol Ísafjarðardjúps liggur ekki fyrir og samlegðaráhrif eldis á svæðinu gagnvart lífríkinu eru ekki ljós. Því verður að telja það forgangsatriði að klára rannsóknir á burðarþoli Ísafjarðardjúps.

Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfjarða var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð og nefndin segir það slæmt að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að láta samsvarandi vinnu fara fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps.

Skipulags- og mannvirkjanefnd  ítrekar einnig þá skoðun að æskilegt er að sveitarfélög ráði skipulagi strandsjávar út að 1 sjómílu frá grunnlínu.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir