Um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því að rekstur ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli ofan Stigahlíðar hófst og frá því er greint á vef Bolungarvíkurkauptaðar. Rekstur stöðvarinnar hófst þann 18. janúar 1992. Leigusamningur um 7 hektara land undir stöðina var gerður 20. júní 1985 milli Bolungarvíkurkaupstaðar og utanríkisráðuneytisins og var hann samþykktur í bæjarstjórn 23. júní 1985. Vegavinna hófst 1986 en bygging stöðvarinnar hófst vorið 1987.
Ákvörðun um að reisa ratsjárstöð á Bolafjalli var síður en svo óumdeild og var byggingu stöðvarinnar mótmælt harðlega. Stöðin var rekin fyrir bandaríska varnarliðið og reist fyrir fé úr mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Andstæðingar ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli litu á stöðina sem hernaðarmannvirki og var það grundvöllur andstöðunnar. Í Þjóðviljanum 31. mars 1985 stóð meðal annars:
„Á Vestfjörðum er áformað að koma ratsjárstöðinni fyrir á Stigahlíðarfjalli, en heimamenn telja margir réttara að tala um Bolafjall í námunda við Bolungarvík. Vestfirðingar hafa lagt mikla vinnu í andstöðuna við ratsjárstöðvar, einstaklingar úr öllum flokkum. Í fyrra var samþykkt ályktun á Prestastefnu Vestfjarða gegn hernaðarmannvirkjum í fjórðungnum og prestar hafa að mörgu leyti staðið fremst í fylkingu efasemdarmanna um ratsjárstöðina vestra.
100 nafnkunnir Vestfirðingar sendu bænarskrá sl. haust um að ekki yrði komið upp ratsjárstöð í héraðinu. Upp úr því var stofnaður 1. demshópurinn sem vann að gerð
blaðsins Ratsjá sem borið var út inná hvert heimili á Vestfjörðum. Á Bolungarvík var farin blysför í desember mánuði, haldnir hafa verið fundir á ísafirði og svo mætti lengi telja.“
smari@bb.is