Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2240

Íslendingar feitastir og háma í sig sykur

Íslendingar eru gráðugir í gosdrykki sem eru stútfullir af sykri.

 

Íslendingar eru feitastir Norðurlandaþjóða og innbyrða meira af sykurríkum matvælum og borða minna af grænmeti og ávöxtum. Fiskneysla er aftur á móti mest hér á landi. Þetta og margt fleira má lesa um í nýrri skýrslu um heilsuhegðun Norðurlandabúa sem Norræna ráðherranefndin hefur gefið út. Skýrslan byggist á niðurstöðum kannana sem gerðar hafa verið á Norðurlöndunum í samstarfi þjóðanna. Gerðar voru kannanir á þessum þáttum árið 2011 og aftur 2014 og stóð Embætti landlæknis fyrir gerð kanananna hér á landi.

Að meðaltali hreyfa um einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu árið 2014 líkt og 2011 og á það einnig við um Ísland. Fleiri hreyfa sig ekkert,  en á sama tíma stunda fleiri ákjósanlega hreyfingu. Fleiri fullorðnir flokkast of feitir á Norðurlöndunum 2014 en 2011. Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall offitu meðal barna á Norðurlöndunum hefur ekki breyst milli ára og ekki er munur á milli landanna.

Hlutfall þeirra sem hreyfa sig ekkert er hæst í Noregi og á Íslandi árið 2014 og hefur aukist hér á landi úr 14% í 17% á tímabilinu. Athygli vekur að hlutfall 18–24 ára Norðurlandabúa sem hreyfa sig ekkert hefur nær tvöfaldast og er nú sambærilegt og í eldri aldurshópum eða um 12% 2014.

Hvað kyrrsetu varðar verja 30% Norðurlandabúa fjórum klukkustundum eða meira við skjá  í frítíma 2014 og hefur það aukist lítillega frá 2011. Þetta hlutfall er lægst meðal Svía og Íslendinga, á við um einn af hverjum fjórum árið 2014. Félagslegur ójöfnuður er enn mikill bæði með tilliti til skjásetu og hreyfingar.

 

smari@bb.is

Allt flug FÍ stöðvast verði ekki samið

 

Flugfélag Íslands er þegar farið að gera ráðstafanir vegna boðaðs verkfalls flugfreyja eftir viku. Allt innanlandsflug á vegum Flugfélagsins leggst niður í þrjá daga ef ekki nást kjarasamningar. Rúmt ár er síðan kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands rann út og á þeim tíma hafa samninganefndir tvívegis náð samningum sem félagsmenn í Flugfreyjufélaginu hafa fellt. „Það er ekki hægt að segja að það miði neitt, það hafa verið haldnir þrír fundir síðan samningurinn var felldur síðast og það hefur ekkert verið komið til móts við kröfur okkar síðan þá,“ er haft eftir Sturlu Óskari Bragasyni, varaformanni samninganefndar Flugfreyjufélagsins, á vef Ríkisútvarpsins.

Ef samningar nást ekki skellur verkfallið á föstudaginn 27. janúar og stendur til sunnudags 29. janúar.  Flugfreyjur hafa farið fram á ákveðna kjarabót sökum breyttra aðstæðna í flugi vegna nýrra véla. Flugfreyjur hyggjast leggja niður störf frá og með 8. febrúar náist ekki samningar fyrir þann tíma og hefja ekki vinnu að nýju fyrr en kjarasamningur hefur verið undirritaður. Samningur flugfreyja við Wow Air er einnig útrunninn og hafa þær samninganefndir fundað einu sinni.

 

smari@bb.is

Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hækkaði

 

Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegs hækkaði milli áranna 2014 og 2015. Í fiskveiðum og -vinnslu hækkaði hlutfallið, án milliviðskipta, úr 24,3% í 27%, í fiskveiðum úr 20,5% árið 2014 í 25,7% af tekjum árið 2015 og lækkaði í fiskvinnslu úr 14,2% í 13,5%.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands um hag veiða og vinnslu sem gefin hafa verið út

Hreinn hagnaður í sjávarútvegi, samkvæmt árgreiðsluaðferð, nam 17,5% árið 2015 samanborið við 15% árið áður. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 45,4 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 24,4 milljarðar. Sé miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð er niðurstaðan 18,2% hagnaður 2015 eða 47,1 milljarður, saman­borið við 15,1% hagnað árið 2014.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegs í árslok 2015 tæpir 590 milljarðar króna, heildarskuldir tæpir 370 milljarðar og eigið fé rúmir 220 milljarðar.

smari@bb.is

Vestfirskir sjómenn funda í dag

Fundur verður haldinn í Sjómannadeild Verkalýðsfélags Vestfirðinga klukkan 14 í dag. Fundurinn verður í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verður hann sendur út um fjarfundarbúnað, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, til Patreksfjarðar og verður þar í Þekkingarsetrinu Skor, Aðalstræti 53.

Á vefsíðu Verk Vest er fundurinn auglýstur sem áríðandi og eru meðlimir Sjómannadeildarinnar sem starfa eftir kjarasamningi Verk Vest og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru eindregið hvattir til að mæta, ræða stöðuna og næstu skref í kjaradeilu sjómanna.

annska@bb.is

Konungur fuglanna í Djúpinu

Haförn. Ljósmynd: Hilmar Pálsson

Hann var tignarlegur haförninn, konungur íslenskra fugla líkt og hann er gjarnan nefndur, er hann leit yfir landið sitt í Ísafjarðardjúpi í gær. Hilmar Pálsson, tryggingasali og áhugaljósmyndari með meiru, var á leið frá Reykjavík til Ísafjarðar er hann kom auga á arnarpar í Ísafirði.

„Við sáum örn fljúga yfir fjörðinn við Arngerðareyri, og Gugga (kona Hilmars) segir: „Ætli hann sé að koma úr Grímseynni á Steingrímsfirði og að fara í mat í Svansvík?“ En við sáum örn í Steingrímsfirði í haust. Svo ökum við fyrir fjörðinn og rétt áður en komið er að flugvellinum á Reykjanesinu sitja tveir ernir stutt hvor frá öðrum svona, sennilega par.“ Hilmar var fljótur að grípa til myndavélarinnar, en styggð kom að öðrum fuglinum á meðan að hinn virtist ekki slá vængjunum á móti þessum fyrirsætustörfum og náði Hilmar af honum þessari stórglæsilegu mynd.

„Við stoppum bílinn og ég fer út og læðist í skjóli eins nálægt og ég þorði og stóð upp mjög hægt með myndavélina tilbúna, en þá flýgur strax annar þeirra en hinn sat sem fastast og leyfði myndatöku, en gafst svo upp að lokum og flaug á eftir kellu sinni sennilega.“ Segir Hilmar um þessa óvæntu myndatöku.

Um fuglinn er sagt á Wikipediu: Haförn (fræðiheiti: Haliaeetus albicilla) er mjög stórvaxinn ránfugl af haukaætt. Haförn verpir í norðurhluta Evrópu og Asíu. Haförnum var næstum útrýmt í Evrópu en með friðun og aðgerðum hefur tekist að endurreisa varp sums staðar. Hafernir eru alls staðar sjaldgæfir en ernir eru þó flestir við strendur Noregs. Hafernir eru oftast staðfuglar.

Haförn er um 70-90 sm langur og vænghaf hans er 200 -240 sm. Fuglinn vegur um 5 kg. Karlfuglar eru mun minni en kvenfuglar. Haförninn hefur breiða ferhyrnda vængi og stórt höfuð. Fullorðinn örn er brúnn en höfuð og háls er ljósara, stélið er hvítt og goggur og fætur gulir. Á ungum fuglum er stél og goggur dökkt og stélið verður hvítt með svartri rönd þegar fuglinn eldist. Ernir verða kynþroska 4 til 5 ára gamlir. Ernir parast fyrir lífstíð og þegar annar fuglinn fellur frá þá getur tekið hinn mörg ár að finna nýjan maka. Ernir gera sér stundum hreiður í hrúgu af kvistum í tré eða á klettasyllum.

annska@bb.is

Nærri fjórðungs samdráttur hjá skipum HG

 

Skip Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, fiskuðu alls 12.114 tonn á síðasta ári að verðmæti 3.131 milljóna króna. Aflinn dróst saman um 13,8% milli ára en árið 2015 fiskuðu skipin 14.054 tonn. Aflaverðmætið minnkaði um tæpan fjórðung, eða úr 4.084 milljónum kr.

Á vef HG er þessi minnkun á afla og verðmæti einkum rakin til þess að allir togarar fyrirtækisins fóru í slipp á árinu, mikillar styrkingar krónunnar og áhrif verkfalls sjómanna á seinni hluta ársins.

Júlíus Geirmundsson ÍS skilaði mestum aflaverðmætum á síðasta ári eða 1.467 milljónum kr. samanborið við 1.901 milljón kr. árið áður. Aflaverðmæti Páls Pálssonar var 869 milljónir kr. en var  1.252 milljónir kr. árið áður. Stefnir fiskaði fyrir 719 milljónir kr. en árið áður var aflaverðmæti Stefnis 844 milljónir kr.

smari@bb.is

Þorri gengur í garð

Kræsilegur þorramatur.

Í dag er bóndadagur, upphafsdagur þorra, fjórða mánaðar vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Það er spurning hvort margir heimilisfeður hafi gert líkt og kveður á um í þjóðsögum Jóns Árnasonar til að bjóða þorra velkominn, þar sem þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum. Fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu.

Þó ekki margt nútímafólk fagni þorra með þessum hætti, þá er það sannarlega gert. Siðir og venjur breytast í aldanna rás, en nú líkt og til forna er maður manns gaman og eru þau gömlu og nýju sannindi heiðruð á þorranum er fjöldinn allur skemmtir sér á þorrablótum. Gengur nú í garð tími þeirra ágætu mannamóta. Annað kvöld er þorrablót hjóna og sambúðarfólks í Bolungarvík, sem bolvískar konur standa að og er ávallt haldið fyrsta laugardag þorra. Á blótinu reiða trogfélagar fram sinn eigin þorramat og drykk og sýndir eru leikþættir, samdir og leiknir af þorrablótsnefnd. Félagsheimili Bolungarvíkur opnar kl. 19:30 og borðhald byrjar kl. 20:00. Halli og Þórunn leika fyrir dansi að loknu borðhaldi og skemmtun. Á þorrablótinu í Bolungarvík er ætlast er til að konur mæti í upphlut eða peysufötum og karlar í hátíðarbúningi eða dökkum jakkafötum með hálstau.

Á morgun verður einnig hið árlega þorrablót slysavarnadeildarinnar Varnar á Þingeyri haldið í Félagsheimili Þingeyrar. Þar er sá siður á að þorrablótsnefndin sér um að framreiða veitingarnar, sem eru að sjálfssögðu hefðbundinn þorramatur. Húsið opnar klukkan 19 og borðhald hefst klukkan 20. Að loknu borðhaldi verður svo slegið upp dansleik þar sem þeir Stebbi Jóns og Gummi Hjalta halda uppi fjörinu.

annska@bb.is

Rignir í dag

 

Eftir kulda síðustu daga hlýnar að nýju í dag og spáin fyrir Vestfirði kveður á um suðaustan 8-15 m/s og rigningu en heldur hvassara til fjalla um tíma í nótt. Hiti verður á bilinu 2 til 7 stig. Vindur snýst í suðvestan 5-10 m/s með slydduéljum eða éljum síðdegis á morgun og kólnar. Búist er við vægu frosti annað kvöld. Hálka er víða á Vestfjörðum og sums staðar snjóþekja.

annska@bb.is

Fossavatnsgangan hlaut Virðisaukann

 

Fossavatnsgangan hlaut í gær Virðisaukann 2016, viðurkenningu og hvatningarverðlaun atvinnu- og menningamálanefndar Ísafjarðarbæjar. Fossavatnsgangan var fyrst gengin árið 1935. Á fimmta og sjötta áratugnum féll Fossavatnsgangan 14 sinnum niður, en frá árinu 1955 hefur hún farið fram á hverju vori. Lengst af voru keppendur nær einvörðungu heimamenn en í fyllingu tímans jókst aðdráttaraflið, fyrst fyrir göngunmenn annars staðar á landinu og síðar utan landsteinana. Árið 2005 var gangan tekin inn á mótaskrá Alþjóða skíðasambandsins, FIS, og sama ár varð hún stofnaðili að norrænni mótaröð, FIS Nordic Ski Marathon Cup. Í tvö ár hefur Fossavatnsgangan verðið hluti haf hinni þekktu Worldlopper mótaröð. Í dag eru um 500 keppendur í 50 km göngunni og hefur þurft að beita fjöldatakmörkunum.

Undanfarna mánuði hafa forsvarsmenn Fossavatnsgöngunnar unnið að uppbyggingu á Fossavatnsleiðinni með merkingum og lagningu keppnisbrauta með styrk frá Uppbyggingarsjóði ferðamannastaða, sem vonast er til að nýtist skíðafólki, göngufólki eða hjólreiðafólki allan ársins hring.

smari@bb.is

Hamrarborgarmótið – nýtt mót á vetrardagskránni

Brugðið á leik í minniboltanum í fyrra.

Meistaraflokkur körfuknattleiksdeildar Vestra og Hamraborg sameina krafta sína í stórskemmtilegu minniboltamóti á Torfnesi mánudaginn 23. janúar. Mótið hefur hlotið heitið Hamraborgarmótið 2017 og eru vonir bundnar við að mótið sé komið til að vera á fjölbreyttri vetrardagskrá Vestra.

Öll börn í 1.-6. bekk eru velkomin á mótið, en keppt verður í þremur aldurshópum. Körfuboltaiðkendur í Vestra eru hvattir til að fjölmenna á mótið og taka vini sína með. Mótið stendur frá 16-19 og lýkur með glæsilegri pizzaveislu í boði Hamraborgar.

Hamraborgarmótið er tilvalin upphitun fyrir hið stóra Nettómót í Reykjanesbæ sem fram fer fyrstu helgina í mars en það er stærsta minniboltamót landsins ætlað börnum í 1.-5. bekk.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir