Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2239

Vestri komst áfram í Kjörísbikarnum

 

Karlalið Vestra í blaki tekur nú í fyrsta sinn þátt í bikarkeppni Blaksambands Íslands, Kjörísbikarnum. Liðið lék fið Hrunamenn á Flúðum í gær og Vestri sigraði nokkuð örugglega 3-0 í leiknum og eru því komnir áfram í næstu umferð. Dregið verður í næstu umferð í þessari viku.

smari@bb.is

 

Dýrfinna valin Skagamaður ársins

Dýrfinna Torfadóttir Skagamaður ársins ásamt Ólafi Adolfssyni formanni bæjarráðs Akraness.

 

Ísfirðingurinn, gullsmiðurinn og nú Skagapían Dýrfinna Torfadóttir var á á þorrablóti Skagamanna síðasta laugardagskvöld útnefnd Skagamaður ársins 2016. Um Dýrfinnu segir á vef Akraneskaupstaðar að hún hafi um árabil verið einn dyggasti stuðningsmaður kvennaknattspyrnunnar á Akranesi og stutt stelpurnar með margvíslegum hætti. Hún hefur  eflt tengsl listamanna og knattspyrnunnar, með því að færa besta leikmanni hvers leiks í efstu deild karla og kvenna, verk eftir listafólk af Skaganum. Hún er öflugur listamaður og hélt tvær sýningar á Akranesi á árinu 2016. Aðra sýninguna hélt hún í garðinum heima hjá sér á Írskum dögum og sýndi þar nýjustu verk sín. Seinni sýningin var haldin í safnaskálanum á Byggðasafninu í Görðum á Vökudögum en þar sýndi Dýrfinna skart og skó. Dýrfinna er einn af þessum litríku einstaklingum sem er sífellt boðin og búin að aðstoða aðra og taka þátt í verkefnum til að auðga menningar- og íþróttalíf á Akranesi. Hún var kjörin bæjarlistamaður Akraness árið 2010. Dýrfinna er gift Guðjóni Brjánssyni alþingismanni.

Dýrfinna er af góðu kunn á heimaslóðunum, hún starfaði hér sem gullsmiður um árabil áður en hún flutti til Akraness árið 2001 og seldi hún lengi vel skart sitt í verslun sinni Gullauga sem lokaði á síðasta ári. Dýrfinna hefur í gegnum tíðina verið helsti samverkamaður Bæjarins besta við útnefningu á Vestfirðingi ársins er hún gefur bæði eignar- og farandverðlaunagripi þá er viðkomandi hlýtur.

Sem Skagamaður ársins fékk Dýrfinna styttu eftir Skagakonuna Gyðu Jónsdóttur Wells að gjöf og veglegan blómvönd. Það var Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs sem kynnti Skagamann ársins með eftirfarandi stökum sem Heiðrún Jónsdóttir starfsmaður bæjarskrifstofu Akraness orti af þessu tilefni:

 

Skagamaður ársins er

afar flottur karakter.

Hæfileika í bunkum ber,

en býsn af hógværð líka.

Sínum kostum síst því er að flíka.

 

Unir smíðar iðinn við

allt er fágað handverkið.

Fótboltanum leggur lið

á leikjum stuðning veitir.

Aðferðunum ýmsum við það beitir.

 

Vestfirðingur uppalinn

ei það skaðar ferilinn.

Er í mörgu ákveðinn

eins til sókna og varnar.

Manni á alþing kom við kosningarnar.

 

Eins og gull af eiri ber

um þá segja mætti hér,

sem þekkt af iðngrein sinni er.

Aldrei mælt hún kvarti.

Hugfangin er bæði af skóm og skarti.

annska@bb.is

 

 

Eðlilegt að eldisfyrirtækin greiði auðlindagjald

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra er flutningsmaður frumvarpsins.

 

„Mín sýn á alla framleiðslu og atvinnuuppbyggingu, hvort sem það er laxeldi eða eitthvað annað, er að starfsemi geti aðeins verið leyfð ef hún stenst kröfur um verndun umhverfis og náttúru,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra í fréttaskýringu Fréttatímans um laxeldi á Íslandi.

Ráðherranum þykir eðlilegt að laxeldisfyrirtækin greiði auðlindagjald í ríkissjóð. „Það er líka ljóst að vegna aukinnar kröfu um burðarþol fjarða, að það eru ekki margir staðir eða firðir hér við land þar sem hægt er að stunda fiskeldi í stórum stíl og þannig setur umhverfið slíku eldi náttúrulegar skorður.

En einmitt vegna þess að laxeldi við Ísland verður alltaf takmarkað á þennan hátt finnst mér mjög eðlilegt að ríkið taki auðlindagjald fyrir þessi takmörkuðu gæði, það er þessa fáu firði sem eru nógu djúpir við Ísland til að bera fiskeldið.“

smari@bb.is

Hvassviðri eða stormur í dag

 

Veðurstofa Íslands spáir suðaustan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/s og talsverðri rigningu á Vestfjörðum í dag, hvassast verður syðst. Sunnan 8-13 m/s og úrkomuminna síðdegis. Hiti verður á bilinu 3 til 7 stig. Sunnan 5-10 m/s og rigning eða slydda með köflum á morgun og kólnar. Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir og snjóþekja.

annska@bb.is

Fagnar yfirlýsingu ráðherra um Reykjavíkurflugvöll

 

Bæjarráð Bolungarvíkur fagnar yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar samgöngunráðherra um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og að miðstöð innanalandsflugs verði í Vatnsmýri til framtíðar. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs. Í gegnum árin hefur Jón verið ötull stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar og strax á fyrstu dögum hans í samgönguráðuneytinu kom berlega í ljós að hann hyggst beita sér fyrir áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri.

„Það er engin önnur lausn í stöðunni. Það er auðvitað áhugavert að skoða allar framtíðarpælingar um eitthvað annað, en það er eitthvað sem er komið svo stutt á veg að það mun í mínum huga taka mörg ár að koma niðurstaða í. Á meðan getum við ekki búið við einhverja óvissu um Reykjavíkurflugvöll,“ sagði Jón í Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum, aðspurður hvort hann vilji flugvöllinn áfram í Vatnsmýri.

Jón vill ráðast í uppbyggingu á vellinum, sér í lagi á flugstöðinni. „Reykjavíkurflugvöllur gegnir gríðarlega veigamiklu hlutverki í okkar samgöngum. Aðstæður þar eru algerlega óviðunandi, bæði fyrir starfsfólk og farþega. Það verður að ná saman um einhverja framtíðarsýn þannig að hægt sé að ráðast í eðlilega uppbyggingu og horfa til lengri tíma. Við getum ekki búið við þessa stöðugu óvissu.“

smari@bb.is

Ísland fórnarlamb eigin velgengni

 

Ísland er fórnarlamb eigin velgengni, segir í úttekt breska dagblaðsins Independent á sex áfangastöðum sem ferðaþjónustan er að eyðileggja, eins og það er orðað í úttektinni.  Indenpendent vitnar í Justin Francis, framkvæmdastjóra Responsible Travel. Hann segir að ferðaþjónustan hafi endurreist efnahaginn á Íslandi eftir hrun en bendir á að stundum vaxi ferðaþjónustuna hraðar en innviðirnir. „Árið 2009 voru ferðamennirnir 250 þúsund og fyrra voru þeir 1,6 milljónir. Landið þolir ekki þennan fjölda,“ segir Francis og minnist á Gullna hringinn þar sem erfitt er fyrir ferðamenn að komast að.

Hann ráðleggur fólki að ferðast til óheðfbundnari staða á Íslandi. „Þú sérð ekki muninn á frægasta fossinum á Íslandi og þeim næstfrægasta, þeir eru alveg jafn magnaðir.“

Hann mælir einnig með að þeir sem hafi áhuga á Íslandi fari frekar til Svalbarða.

 

smari@bb.is

Strandar á sjómannaafslætti og olíuviðmiði

Flotinn hefur verið bundinn við bryggju í rúman mánuð.

 

Samkomulag hefur svo gott sem tekist um þrjár af fimm helstu kröfum sjómanna. Þau tvö atriði sem standa út af eru olíuviðmið og sjómannaafsláttur. Samninganefndir sjómanna og útgerðarmanna hittast kl. 13 í dag hjá Ríkissáttasemjara. Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands sagði í samtali við fréttastofu RÚV fyrir helgi að menn væru að fara yfir stöðuna. Ákveðin atriði væru komin í hús en þau lúta að fríu fæði um borð, frían vinnufatnað og bókun varðandi fjarskipti. Þar er kveðið á um að sjómenn taki ekki þátt í kostnaði við búnað, en borgi sinn eigin netkostnað. Hinsvegar væri  allt stál í stál varðandi hinar tvær kröfurnar, en þær lúta að þátttöku sjómanna í olíukostnaði og sjómannaafslætti. Olíuviðmiðið segir til hversu mikið af aflaverðmæti fer fram hjá skiptum til að greið fyrir olíukostnað.

Sjómannaafsláttur var lögfestur árið 1957 og var í gildi allt til ársins 2009. Framreiknaður sjómannaafsláttur frá þeim tíma sem hann var afnuminn 1.159 krónur á dag og við það er miðað í kröfum sjómanna. Þetta þýði að útgerðin þurfi að leggja til 2000 krónur á dag til að bæta hann þegar launatengd gjöld eru innifalin.

 

smari@bb.is

Lambakjötsneyslan tók kipp

 

Innanlandssala á lambakjöti var 5,2% meiri 2016 en árið á undan, samkvæmt nýjum tölum Matvælastofnunar. Alls seldust 6.797 tonn innanlands í fyrra, en salan hefur ekki verið meiri síðan hrunárið 2008. Salan dróst saman í þrjú ár þar á undan. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Landssamtökum sauðfjárbænda.

Þar er vitnað í Þórarin Inga Pétursson, formann samtakanna, sem fagnar þessum viðsnúningi en bendir á að þetta ger­ist ekki af sjálfu sér. Margir samverkandi þættir hafi stuðlað að þessum góða árangri. Verð á lambakjöti sé mjög hagstætt hér á landi og vöruþróun að komast á skrið.

„Aldrei hefur verið ráðist í öflugra og markvissara kynningarstarf gagnvart erlendum ferðamönnum en núna og árangurinn af því er ótvíræður,“ er haft eftir Þórarni. Íslendingar eru að verða enn meðvitaðri um mikilvægi þess að matvara sé framleidd á hreinan og siðrænan hátt í sátt við samfélag og náttúru.

smari@bb.is

Fyrir öllu að ná sátt við hestamenn

Frá reiðnámskeiði í reiðskemmunni á Söndum í Dýrafirði, einu innanhúsaðstöðu hestamanna á Vestfjörðum.

 

Það hillir undir lok á nærri 10 ára gamalli deilu Hestamannafélagsin Hendingar og Ísafjarðabæjar vegna aðstöðumissis félagsins við gerð Bolungarvíkurganga. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að samingsdrögin sem liggja fyrir séu ásættanleg af bæjarins hálfu en þau verða lögð fyrir bæjarráð á mánudag. „Við stóðum í stafni í samningaviðræðunum, við teljum þetta mjög vel í lagt en fyrir öllu er að ná sátt um málin og hefja uppbyggingu í hestaíþróttum,“ segir Gísli Halldór.

Marinó Hákonarson, formaður Hendingar, sagði í samtali við bb.is fyrr í vikunni að samningsupphæðin megi reikna á bilinu 50-60 milljónir kr.

Vegagerðin greiðir Ísafjarðarbæ 20 milljónir kr. sem bætur fyrir svæðið sem fór undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga. Á svæðinu höfðu hestamenn gert bæði hringgerði og skeiðvelli.

Samkvæmt samningsdrögunum stefna Hending og Ísafjarðarbær að byggingu reiðskemmu í Engidal og vonir standa til að hún verði reist strax á þessu ári.

 

smari@bb.is

LL með hugmyndaþing

Myndir frá sögusýningu Litla leikklúbbsins í Safnahúsinu er 50 ára afmæli hans var fagnað

Litli leikklúbburinn á Ísafirði boðar til hugmyndaþings næstkomandi mánudagskvöld. Þar munu rædd og skoðuð verkefni þessa leikárs. Stjórn LL hvetur alla áhugasama til að mæta og hafa áhrif á hver verkefni klúbbsins verða í nánustu framtíð. Þingið verður haldið í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins kl 20.

Litli leikklúbburinn er Vestfirðingum að góðu kunnur og er leikárið nú hið 52. í röðinni og hafa margir fetað sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni í einhverju af þeim 87 verkum sem félagið hefur sett á svið á þeim tíma. Á síðasta ári var nýstárleg útgáfa af ævintýrinu Rauðhettu, sem Snæbjörn Ragnarsson skrifaði, sett upp og verður gaman að sjá hvaða verkefni verður fyrir valinu í ár.

Í stjórn LL sitja þau: Jóhanna Ása Einarsdóttir, formaður, Helga Sigríður Hjálmarsdóttir, Páll Gunnar Loftsson, Ólafur Halldórsson og Herdís Rós Kjartansdóttir.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir