Föstudagur 27. september 2024
Síða 2237

OV auglýsir samfélagsstyrki

Orkubú Vestfjarða auglýsir eftir umsóknum um samfélagsstyrki 2016, en úthlutun samfélagsstyrkja er árlegur viðburður hjá fyrirtækinu. Við styrkúthlutun er leitast við að styrkja verkefni vítt og breitt um Vestfirði og miðað við að einstakar styrkveitingar geti verið á bilinu 50.000 til 500.000.- þúsund krónur. Við síðustu úthlutun hlutu hæstu styrkina Björgunarsveitin Blakkur á Patreksfirði sem fékk 300.000.- króna styrk og Björgunarsveitin Tálkni á Tálknafirði sem fékk 200.000. – vegna kaupa á tetrastöðvum.

Í fréttatilkynningu vegna styrkjanna segir að með þeim vilji OV sýna stuðning í verki við þá aðila og félög sem sinna ýmsum samfélagsmálum á Vestfjörðum. Þar geti verið um að ræða ýmiskonar starfsemi eða félagasamtök, s.s. björgunarsveitir, íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarfsemi og listir eða einhver önnur áhugaverð verkefni sem skipta máli fyrir vestfirskt samfélag.

Verkefnin þurfa að uppfylla þau skilyrði að þau séu til eflingar vestfirsku samfélagi, en að öðru leyti er umsækjendum gefnar nokkuð frjálsar hendur varðandi verkefni.  Umsóknum skal skilað rafrænt með því að fylla út rafrænt eyðublað á heimasíðu OV. Umsóknarfrestur er til og með 16. desember.

annska@bb.is

Vestrakrakkar gera það gott í blakinu

Katla Vigdís Vernharðsdóttir, Hafsteinn Már Sigurðsson og Gísli Steinn Njálsson

Ungir blakiðkendur hjá Vestra hafa verið að gera góða hluti að undanförnu og hafa tveir drengir verið valdir í drengjalandsliðið, þeir Hafsteinn Már Sigurðsson og Gísli Steinn Njálsson og er Katla Vigdís Vernharðsdóttir komin í 15 manna úrtak fyrir stelpnalandsliðið, en um næstu helgi verður valið í 12 manna hóp. Blaksamband Íslands sendir stelpna- og drengjalandslið á Evrópumót í Danmörku sem haldið verður dagana 19.-21. desember. Hjá stelpunum er um að ræða landslið þar sem elstu stelpurnar eru fæddar 2002 og hjá strákunum eru þeir elstu fæddir árið 2001 og er þetta í fyrsta sinn sem Ísland er með í verkefnum fyrir svo ung blaklandslið.

Þau Hafsteinn, Gísli og Katla bætast því í sístækkandi hóp leikmanna Vestra sem valin hafa verið í unglingalandslið í blaki og má því með sanni segja að Ísafjarðarbær sé búinn að stimpla sig inn sem blakbær.

annska@bb.is

Kindur hrella ökumenn í skammdeginu

Lömbin sækja í að kúra í vegköntunum. Það getur orðið þeim að aldurtila.

Tíðin það sem af er vetri hefur verið sérlega góð á Vestfjörðum. Margir fagna að þurfa ekki að ösla skaflana eða glíma við ófærð á vegum, aðrir fagna minna. Þó enn sé snjólétt á vegum í fjórðungnum þá er ýmislegt sem ber að varast, til að mynda hefur mikil hálka verið þessa vikuna og einnig er enn eitthvað um að hinir seinþreyttu sumargestir á þjóðvegum landsins – íslenska sauðkindin, séu enn á vappi á og við vegi í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum. Segir á vef Lögreglunnar mikilvægt að bændur reyni allt sem hægt er til að tryggja að fé sé ekki við þjóðvegina, ekki síst í ljósi þess að erfitt er fyrir ökumenn að sjá kindur í myrkrinu í skammdeginu sem nú ríkir og eru ökumenn jafnframt hvattir til að vera á verði gagnvart þessu.

annska@bb.is

Sofnaði undir stýri

Um nýliðna helgi var einum gesti vínveitingastaðar á Ísafirði vísað út þar sem hann hafði ekki aldur til að dvelja þar. Gerðar voru athugasemdir við rekstraraðila að slíkur gestur væri inni á veitingastaðnum enda er það hlutverk dyravarða að tryggja að svo sé ekki. Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar á Vestfjörðum þar sem fjallað er um helstu verkefni liðinnar viku, en þar má einnig sjá að sex ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu og á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók mældist á 121 km hraða, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Tilkynningar bárust um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku. Annað þeirra varð í Þorskafirði um miðjan dag þann 23. nóvember en þá virðist ökumaður hafa misst stjórn á bifreiðinni sem rann út af veginum og valt. Hálka var á veginum þegar atvikið varð. Ökumann, sem var einn í bifreiðinni, sakaði ekki. Hitt óhappið varð í Álftafirði síðdegis þann 27. nóvember. En þá var fólksbifreið ekið utan í vegrið sem er við veginn. Bifreiðin rann hvorki út af veginum né valt við áreksturinn en skemmdist töluvert. Hvorki ökumann eða farþega sakaði. Svo virðist sem ástæða óhappsins sé sú að ökumaður hafi sofnað við stýrið.

annska@bb.is

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi – Sjónarmið 44. tbl

Finnbogi Hermannsson

Um miðja síðustu viku gerðist sá hversdagslegi atburður að dálkahöfundur þessi þurfti að fara á kamarinn heima hjá sér á Bakkavegi 11 í Hnífsdal. Með því að dimmt var yfir og degi tekið að halla var það augljóst mál að kveikja rafmagnsljós á klósettinu. Það gerðist í sömu svipan og hann snerti slökkvarann að rafmagni sló út upp á punkt og prik.  Ævinlega fyrsta hugsunin að rafmagnsleysið sé hjá manni sjálfum. Hugsanlega farið hranalega að slökkvaranum,  peran sprungið af þeim völdum og lekaleiðararofinn slegið út.  Reynsla er fyrir því. Konan varð vitni að þessu og taldi sig hafa heyrt peruna springa. Nú varð ekki hjá því komist að paufast niður í kjallara og slá inn. En þá voru allir rofarnir uppi, alveg bísperrtir. Nú, það voru líklega stofnöryggin. Hafði lent í því að stofnöryggi færu. Þau eru tvö að mig minnir. Í þessum svifum kallaði konan og sagðir mér að gá hvort ljós væri í Hrauni. Þar væri alltaf ljós á hlaðinu. Ég skreiddist aftur upp stigann og út í dyr og það var ekkert ljós í Hrauni. Gáði svo kringum mig í Hnífsdal og sá hvergi glætu. En fólk var auðvitað í vinnu og skildi ekki eftir ljós heima hjá sér.

Svo leið og beið og ekkert kom rafmagnið.  Undir klukkan þrjú kom rafmagnið skyndilega eins og hland úr fötu og hafði þá verið rafmagnslaust í um hálftíma.  Þykir langur tími á tölvuöld. Peran á klósettinu glotti nú framan í mig eins og tungl í fyllingu svo og önnur rafmagnstól á heimilinu. Ekkert hafði slegið út og stofnöryggin strýheil í kjallaranum. Þakkaði guði fyrir miskunnsemi hans.

Ég hugsaði með mér fullur sektarkenndar að svona geti gerst, fari maður ekki vel að slökkvurum, einkum á klósettum. Var enn þá viss um að rafmagnsleysið væri mér að kenna. Gat ekki verið nein tilviljun að öllu slægi út akkúrat þegar ég kveikti á ljósinu á náðhúsinu.  Eins gott að það kæmist ekki upp hvernig í öllu lá.

Þegar leið á daginn tóku að berast fréttir af því að helstu rafmagnslínur landsins hefðu rofnað svo sem strengurinn úr sjálfri  Búrfellsvirkjun og Hrauneyjarfossvirkjun og ég veit ekki hvað. Meira segja varð straumlaust norður í landi. Og auðvitað kom ekkert rafmagn inn á vandræðaskepnuna Vesturlínu fremur en fyrri daginn.  Ekki batnaði sálarástand mitt við þessi tíðindi og aðgát skal höfð í nærveru slökkvara .

Skammt er síðan að varaaflsstöð var reist í landi Bolungarvíkur. Sú stöð býr yfir þeirri náttúru að fara þegar í stað í gang, slái út veiturafmagni á svæðinu og veitir mannfólkinu þá birtu og yl. Stöð þessi er  ofurmannvirki og gott ef hún sést ekki frá tunglinu eins og Kínamúrinn og Flóaáveitan. Kostaði  bygging hennar fimmtánhundruð milljónir. Þótti ástæða til að rafmagnsráðherrann kæmi vestur við vígslu stöðvarinnar ásamt fleira stórmenni og allir með tvöfalda hjálma á höfði. Stöðin var nefnilega reist í miðju kríuvarpi á Sandinum  og krían ágeng þarna. Sérstakt net var ofið til að setja stöðina í gang og heitir Snjallnet með stórum staf. Í síðustu viku virkaði Snjallnetið ágætlega en stöðin dýra neitaði að fara í gang nema eftir dúk og disk og tilfæringar. Síðast þegar rafmagn fór af Vestfjörðum, neitaði þessi fimmtánhundraðmilljóna varaaflsstöð að snúast. Snjallnetinu var ekki um að kenna, heldur mannlegum mistökum skv. upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða. Rétt er að halda til haga að fyrirtækið Landsnet, ein afæta orkukerfisins, á stöðina ásamt olíubirgðum en Orkubúið manúerar hana þegar hún hrekkur ekki sjálf í gang.

Hluti af sjálfsmynd Vestfirðinga er rafmagnsleysi. Fáir taka það illa upp þótt rafmagnið fari. Við erum líka svo þakklátir Vestfirðingar þegar það kemur aftur. Jafnvel í mestu sumarblíðum fer rafmagnið eins og hendi sé veifað. Þá er yfirleitt bjart af degi og fer lítið fyrir rafmagnsleysinu nema á vinnustöðum og þá fá menn sér bara kalt kaffi og taka í nefið á meðan þeir bíða eftir rafmagninu. Þetta eykur á félagslega samheldni á vinnustað og eitthvað til að tala um.

Svona er nú það.

Annað sem styrkir sjálfsmynd Vestfirðinga, til eða frá, er að þeir eru orðnir afgangsstærð í fluginu, ekki bara innanlands heldur einnig á Grænlandi. Er þá orðið alllangt seilst. Nú er það ekki lengur háð flugskilyrðum fyrir norðan og austan hvort púsluspil daglegs flug gengur upp hjá Flugfélaginu, heldur hefur Núkk bæst við og gott ef ekki Kúlúsukk. Hvort flogið verði til Ísafjarðar þann daginn. Flugvallarvinir fyrir sunnan boða að innanlandsflugið leggist af, verði Reykjavíkurflugvöllur fluttur. Sjáum vér ekki betur en Flugfélagið sjálft stefni að því að leggja flug innanlands niður með því að kaupa sífellt lengri og lengri flugvélar sem geta svo hvergi lent nema á brautum Flugvallarvina í Vatnsmýrinni eða í Keflavík.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Rekið saman í Hnífsdal við rafmagnstýru frá Orkubúinu og Landsneti

Finnbogi Hermannsson

Hinir stóru og hinir smáu

Bryndís Sigurðardóttir

Allt er í heiminum afstætt, meðan bæjaryfirvöld Ísafjarðarbæjar standa í ströngu við hagsmunagæslu fyrir sveitarfélagið í heild gagnvart yfirvöldum fyrir sunnan þurfa minni samfélög að standa í hagsmunagæslu gagnvart bæjaryfirvöldum hér.

Á sama deginum ákveða bæjaryfirvöld að funda með Flugfélagi Íslands vegna lélegrar þjónustu við svæðið og gæta þar með hagsmuna okkar fyrir vestan, og þau ákveða að flytja flateyrsk börn úr frábæru og sérhönnuðu leikskólahúsnæði í lélegt húsnæði og kalla það aðgerð til að bæta faglegt starf skóla. Í þokkabót ákveða bæjaryfirvöld, algjörlega án samráðs við Flateyringa, að Grænigarður verði seldur. Grænigarður var gjöf Færeyinga til Flateyringa eftir snjóflóðið 1995, sérhannað hús fyrir leikskólastarf og er í hugum bæjarbúa tákn fyrir þann samhug og hjálp sem þorpinu barst eftir snjóflóð. Og þessar ákvarðanir eru teknar fullkomlega án samráðs við þá sem málið varða, kennara sem komu af fjöllum, foreldra sem var lofað í vor að þetta stæði ekki til og yrði aldrei gert án samráðs og bæjarbúa.

Samhljóða samþykkja allir bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar, sem allir eru búsettir á Ísafirði, að flytja leikskólabörn Önfirðinga úr frábæru húsnæði í miklu verra og óhentugra húsnæði og ræða þar hvorki við kóng né prest. Kynna engar teikningar eða hugmyndir að breytingum, ræða ekki við hverfisráð sem þó er til þess gert að vera milligönguaðili milli ísfirskrar bæjarstjórnar og íbúa Flateyrar. Og samhljóða ákveða bæjarfulltrúar, sem eins og áður kemur fram eru allir búsettir á Ísafirði að Grænigarður, gjöf til Flateyringa, verði seldur til óviðkomandi. Ætli myndi ekki heyrast hljóð úr horni ef hingað kæmi valdboð að sunnan um að í gamla sjúkrahúsið, hið fagra safnahús, eigi að koma fangelsi eða hótel. Eða valdboð um að Sundhöll Ísafjarðar skuli seld og þar eigi að koma fiskvinnsla eða hamborgarabúlla.

Flateyringar eru seinþreyttir til vandræða, póstinn póstleggja þeir bara á Ísafirði því ekkert er pósthúsið. Skotsilfur þurfa þeir að eiga undir koddanum eftir að Landsbankinn yfirgaf þorpið með illa skrifuðum miða í glugganum um lokun að eilífu. Innheimtustofnum sem ætlað var að auka fjölbreytni í atvinnulífinu færðist þegjandi og hljóðalaust yfir til höfuðbólsins. Elstu menn eru farnar að gleyma hvenær síðast mætti læknir í vikulegan opnunartíma heilsugæslunnar á Flateyri. Meira að segja sóknarpresturinn hljópst á brott. Þessu hafa íbúar Flateyrar tekið með jafnaðargeði enda það mikilvægasta aldrei af þeim tekið, en það er samheldnin, hlýleikinn og óendanlega falleg fjallasýn.

 En Grænigarður eru íbúunum mikilvægur og þar ætla þeir að fóstra litlu börnin sín, punktur.

Bryndís Sigurðardóttir

Flateyringur

Hið ótrúlega mál um leikskólann Grænagarð.

Kristján Torfi Einarsson

Á Flateyri er frábær leikskóli. Allt er eins og best verður á kosið; falleg bygging, gróin lóð og hlýlegt umhverfi. Frönsku gluggarnir í réttri hæð fyrir börnin. Það er aldrei hávaði í húsinu. Sumir eru í ærslafullum koddaslag í einu herbergi á meðan rétt hinum megin við þilið sitja aðrir og teikna í ró og næði. Það er hugsað fyrir öllu og engu til sparað.

Það kostar hundruð milljóna að byggja fyrsta flokks leikskóla. Leikskólinn á Neskaupstað kostaði 640 milljónir. Það kostaði a.m.k. 740 milljónir að breyta Grunnskóla Ísafjarðar þannig að hægt væri kalla bygginguna góða. Leikskólinn á Flateyri er fyrsta flokks. Það eru mikil gæði.

Þessum verðmætum á nú að kasta á glæ. Það á að loka leikskólanum og börnin eiga nú að dvelja í byggingu grunnskólans. Módernískum steinklumpi við aðalgötu með holótt og slitið malbik fyrir lóð. Fjögurra metra lofthæð og glugga í 150 cm hæð. Í dag yfirgefa grunnskólanemar bygginguna í hádeginu, ganga niður í bæ og borða hádegismatinn. Af hverju borða þau ekki matinn í skólanum? Meðal annars vegna þess að hljóðvistin í húsinu er svo óheppileg að öllum líður miklu betur í matartímanum í Félagsbæ.

Það á að breyta grunnskólanum fyrir 27 milljónir. Ég efast stórlega um að 27 milljónir dugi til þess að gera bygginguna þannig úr garði að hún standist lágmarkskröfu – Það kostar 27 milljónir að hanna góðan leikskóla. Á Flateyri verður ekki lengur fallegur og frábær leikskóli. Bygging eins og Gamla sjúkrahúsið sem gaman er að koma inn í og dvelja. Á Flateyri verður lélegur leikskóli.

Þessi aðgerð er gerð til þess að efla skólastarf á Flateyri. Hvernig má það vera?

Eftir mörg samtöl við flesta bæjarfulltrúa er ég engu nær. Enginn fjárhagslegur ávinningur, enginn sparnaður í starfsgildum. Það eina sem stóð upp úr var að aðgerðin er gerð til að vinna gegn félagslegri einangrun starfsmanna og barna. Það var nefnilega það. Enginn starfsmanna leikskólans hefur sagt að hann sé raunverulega fylgjandi þessum breytingum og enginn hefur kvartað undan félagslegri einangrun, hvorki börn, foreldrar né starfsmenn. Þvert á móti hef ég alltaf talið félagslegt umhverfi barna minna hér í þorpinu til mikillar fyrirmyndar – grobba mig stundum af því hvað börnin mín eru heppin að leika sér saman óháð aldri og deila lífinu með fullorðnu fólki sem það kynnist og lærir að umgangast.

“Það þurfti t.d. að færa eina stelpu upp um bekk í fyrra,” sagði einn bæjarfulltrúinn. Hann var að tala um dóttur mína. Ég sem var svo stoltur af félagshæfni hennar og hélt að hún væri ánægð og glöð.

Leikskólinn var tekinn í notkun sama ár og Flateyri sameinaðist Ísafjarðarbæ. Lokunin er síðasti naglinn í líkkistu draumsins um hinn mikla ávinning sem stærðarhagkvæmnin átti að færa. Veruleikinn er fjarlæg stjórnsýsla sem segir þér að börnin þín eigi við vandamál að stríða og lausnin sé aðeins meiri stærðarhagkvæmni. Sennilega er tilraunin fullreynd. Stærðarhagkvæmnin var ekki lausnin heldur vandinn þegar allt kom til alls.

Efnisleg atriði málsins eru þessi: Það á að leggja niður frábæran leikskóla og færa börnin í lélegan leikskóla. Ég hef ekki tæpt á formlega ferlinu sem málið fékk. Það stenst engan veginn lágmarkskröfur í stjórnsýslu. Ég hef ekki talað um svikin, lygarnar, rangfærslurnar, vanræksluna, yfirganginn og skort á almennri kurteisi af hálfu bæjaryfirvalda í þessu máli.

Nú er mál að linni. Flateyringar yrðu ákaflega þakklátir bæjarfulltrúum ef þeir gætu sett sig í samband við foreldra sem allra fyrst og tilkynnt þeim að bærinn muni falla frá þessum fyrirætlunum.

Kristján Torfi Einarsson, foreldri á Flateyri.

Fjallað um Mugison á Nordic Playlist

Mugison, Örn Elías Guðmundsson, ásamt papamug, Guðmundi M Kristjánssyni.

Fjallað er um ísfirska tónlistarmannin Mugison á tónlistargáttinni Nordic Playlist. Nordic Playlist er þjónusta sem býður vikulega leiðsögn um heitustu lög og helstu listamenn Norðurlandanna, en tónlistin sem kynnt er vikulega er valin af virtum einstaklingum: tónlistarfólki, plötusnúðum, blaðamönnum og bókurum tónlistarhátíða.

Í umfjöllununni um Mugison er sýnt frá tónleikum Mugison á Iceland Airwaves tónlistarhátíð sem haldin var fyrr í haust. Þar segir að Mugison er „magnaður flytjandi, erfitt er að taka augun af tónlistarmanninum á tónleikum, jafnvel þau skipti sem hann er ekki bólstraður með rosafengnum meðleikurum úr hljómsveit hans, þá er flutningur hans samt ótrúlega kraftmikill!“

Enjoy Mugison performing live in session at Iceland Airwaves!

brynja@bb.is

Færri segja upp á landsbyggðinni

Um hundrað kennarar hafa sagt upp störfum á Suðvesturhorni landsins, flestir í Reykjanesbæ og í Breiðholti í Reykjavík. Uppsagnir virðast haldast í hendur við atvinnuástandið en kennarar á landsbyggðinni vilja margir frekar fara í verkfall en segja upp. Frá þessu var greint á vef ríkisútvarpsins.

Af þeim hundrað grunnskólakennurum, sem sagt hafa upp störfum vegna óánægju með kaup og kjör, eru hlutfallslega langflestir í Reykjanesbæ, en þar hafa 40 kennarar sagt starfi sínu lausu. Af þeim 56 kennurum, sem hafa sagt upp í Reykjavík, starfa 33 í Breiðholti. Ekki eru teljandi uppsagnir kennara á landsbyggðinni.

Haft var eftir trúnaðarmanni kennara á Djúpavogi að hún teldi atvinnuástand á landsbyggðinni valda því að kennarar segðu síður upp. Þar sem að atvinnutækifæri væru ekki eins mörg og á höfuðborgarsvæðinu, væri ekki eins auðvelt fyrir kennara á landsbyggðinni að segja starfi sínu lausu.

Samkvæmt upplýsingum frá Grunnskólanum á Ísafirði hafa ekki borist neinar formlegar uppsagnir. Erna Sigrún Jónsdóttir, trúnaðarmaður kennara á Ísafirði, segir svipað vera upp á teningnum hjá kennurum á Ísafirði „Já, ég myndi segja að atvinnuhorfur á svæðinu hafi mikið að segja. Við höfum rætt það talsvert varðandi uppsagnirnar. Hér gengur þú ekkert endilega í störf sem krefjast þeirrar háskólamenntunar sem kennarar hafa. En auðvitað, ef fólki ofbýður algjörlega, þá íhugar það vissulega sína stöðu og tekur ákvörðun út frá því.“

brynja@bb.is

Þórunn Arna í nýju lagi Jóns Ólafssonar

Þórunn Arna Kristjánsdóttir.

Jón Ólafsson hefur sent frá sér nýtt lag af væntanlegri sólóplötu sinni, sem von er á snemma árs 2017. Ísfirska söng- og leikkonan Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikur í myndbandi við lagið. Lagið heitir „Þegar þú finnur til“. Leikstjóri myndbandsins er KiddiK. Þórunn Arna er fædd og uppalin á Ísafirði og útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010 og var þá ráðin til Þjóðleikhússins. Hún hefur leikið í Dýrunum í Hálsaskógi, Macbeth, Vesalingunum, Ballinu á Bessastöðum og Heimsljósi til að nefna nokkur.

https://www.youtube.com/watch?v=N86PwGs7BFohttp://

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir