Það er hafið yfir allan vafa að Ísland er í tísku sem ferðamannaland og þegar ferðamenn voru spurðir hversu líklegt er að þeir heimsæki landið aftur, töldu meira en 80% af svarendum það mjög eða frekar líklegt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um stöðu og horfur í ferðaþjónustu. Það er ekki sjálfgefið að þessi þróun haldi áfram og margt sem yfirvöld og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að huga að.
Langtímastefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi er nauðsynleg með tilliti til uppbyggingar innviða, markaðssetningar landsins og sköpunar verðmætra starfa í greininni.
Það er gömul saga og ný að mikil tækifæri felast í því að lengja ferðamannatímann og nýta þar með fjármagn, starfsfólk og tæki betur. Að mati skýrsluhöfunda er þetta stærsta áskorunin sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki standa frammi fyrir, einkum í ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.
Nokkrar ástæður hafa verið nefndar sem torveldi dreifingu ferðamanna utan háannatíma og sú helsta eru samgöngumál. Álag á samgönguæðar landsins hefur aukist töluvert með auknum ferðamannastraumi, en fjárveitingar frá ríki hafa ekki verið í samræmi við það. Álagið hefur einnig aukist á Keflavíkurflugvelli. Á árinu 2010 voru 7 flugfélög sem voru með áætlunarflug til landsins en í skýrslunni kemur fram að 25 flugfélög flugu til landsins í fyrra.
Á helstu áfangastöðum ferðamanna hefur álagið einnig aukist gífurlega og vinna þarf markvisst í því að álagið komi ekki niður á stöðunum. Vegakerfið víða um land er ekki tilbúið til að taka við þessari miklu aukningu og þjónusta á vegum er víða af skornum skammti, sérstaklega utan háannatíma.
Tækifæri felast í betra innanlandsflugi, jafnt tíðni ferða og tengingu innanlandsflugsins við millilandaflug og fleiri áfangastaði innanlands.
smari@bb.is