Á fundi bæjarráðs Bolungarvíkur í gær var lagt fram bréf frá embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum þar sem sagt var upp leigu á skrifstofuhúsnæði í þjónustumiðstöðinni í Bolungarvík. Uppsögninni fylgdi greinargerð sýslumannsins á Vestfjörðum, Jónasar Guðmundssonar, þar sem fram komu ástæður uppsagnarinnar sem hann segir vera mikinn hallarekstur embættisins og séu skýr fyrirmæli Innanríkisráðuneytisins að rétta af þann halla hið fyrsta með vísan til laga um fjárreiður ríkissjóðs.
Frá því er embættum sýslumanns á Vestfjörðum var fækkað um áramótin 2014/2015 hafa tvö stöðugildi verið í Bolungarvík, annað 100%, hitt 85%. Skrifstofan þar er opin frá klukkan 10-15 og hafa íbúar Bolungarvíkur geta sótt þá þjónustu sem embættið veitir í sinni heimabyggð að gerð vegabréfa undanskyldri, en sú þjónusta fluttist yfir á Ísafjörð fyrir nokkrum árum. Starfsmenn hafa einnig sinnt innheimtu vanrækslugjalda og störfum tengdum umboði Tryggingarstofnunar ríkisins.
Segir Jónas í bréfinu að þó leigusamningi sé sagt upp sé ekki þar með sagt að öll þjónusta hverfi frá Bolungarvík, á þessu stigi málsins sé uppsögnin ákveðin öryggisráðstöfun. Hann bendir sjálfur á ákvæði reglugerðar um umdæmi sýslumanna þar sem kveðið er á um að í Bolungarvík skuli vera útibú frá embættinu Sýslumannsins á Vestfjörðum. Þó talar hann á öðrum stað um sameiginlega starfsstöð embættisins á norðanverðum Vestfjörðum og segir það skipta mestu máli að hafa starfmenn undir sama þaki, en hann segir þó að sameinuð starfsstöð þurfi ekki að vera í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Jafnframt segir hann að störfin sem slík hverfi ekki úr höndum Bolvíkinga þó fjarlægð við þjónustuna kunni að aukast, sem mætti lesa sem svo að þjónustan færðist til Ísafjarðar.
Í bréfi sýslumanns kemur fram að starfsmenn embættisins sem verið hafa í Bolungarvík hafi liðið vel á vinnustaðnum og jafnframt að ekki sé hægt að kvarta undan húsaleigukostnaðinum í Bolungavík sem er sá lægsti á hvern starfsmann í öllum starfsstöðvum embættisins. Starfsmennirnir sjálfir gagnrýndu þessa ákvörðun harkalega í bréfi, sem einnig var lagt fram á fundi bæjarráðs, þar sem þeir segja berum orðum að verið sé að leggja niður starfsstöð embættisins í Bolungarvík.
Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir harðlega þessari ákvörðun Sýslumanns og lýsir yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna og bókaði það eftirfarandi á fundinum:
Þessi ákvörðun eru svik við hina nýju þjónustumiðstöð í Bolungarvík. Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016 eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst- og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík var lagt niður stuttu áður. Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að leggja niður útibúið í núverandi mynd.
Farið var í stofnun á þjónustumiðstöð með tilheyrandi kostnaði við breytingar á húsnæði með stuðningi og velvilja stjórnvalda og í trausti þess að þátttakendur í verkefninu væri á þar af fullum heilindum.
Bæjarráð hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr kostnaði. Húsnæðið er eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og hentar vel til starfseminnar hér í Bolungarvík. Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyrslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og ráðherra þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu. En fram kom hjá innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað að „Embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.
Bæjarráð Bolungarvíkur bendir á skyldu Sýslumanns að hafa opið útbú í Bolungarvík samkvæmt reglugerð innanríkisráðherra nr.1151/2014 um embætti Sýslumanna. Bæjarráð krefur Sýslumanninn á Vestfjörðum svara um hvernig hann hyggst efna þessa skyldu sýna við íbúana svo vel sé.
Bæjarráð Bolungarvíkur krefst þess að Sýslumaðurinn á Vestfjörðum dragi tilbaka ákvörðun um að loka skrifstofunni í Bolungarvík. Jafnframt hvetur bæjarráð Sýslumann til að leita frekar leiða til að fjölga verkefnum í útibúinu í Bolungarvík og efla frekar starfsemi þess í samræmi við vilja ráðherra og tryggja þjónustu við íbúa í byggðalaginu.
annska@bb.is