Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2236

Tugir krakka á Hamraborgarmótinu

Yngsta hollið á Hamraborgarmótinu í fyrra með meistaraflokki Vestra.

 

Hátt í 80 krakkar í 1.-6. bekk létu ljós sitt skína á fyrsta Hamraborgarmótinu sem körfuknattleiksdeild Vestri stóð fyrir á Torfnesi á mánudag. Mótið var boðsmót meistaraflokks karla og Hamraborgar en meistaraflokkur sá um allt skipulag undir stjórn Yngva Gunnlaugssonar yfirþjálfara. Ofursjoppan Hamraborg bauð síðan allri hersingunni í glæsilega pizzuveislu í mótslok.

Mótið  er liður í því að undirbúa yngstu iðkendur félagsins fyrir stóra Nettómótið sem fram fer í Reykjanesbæ í byrjun mars, en það er stærsta körfuboltamót landsins. Löng hefð er fyrir þátttöku körfuboltabarna af norðanverðum Vestfjörðum á því móti og árið í ár verður þar engin undantekning. Nettómótið er ætlað börnum í 1.-5. bekk og ófáir körfuboltamenn hafa stigið sín fyrstu keppnisskref á því móti.

smari@bb.is

Byrja að grafa í Arnarfirði

Teikning af munna Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

„Lægsta tilboðið er um 93-94 prósent af okkar áætlun þannig að þetta er allt innan þeirra marka sem við höfum verið að miða við,“ sagði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í viðtali við Stöð 2 í gær. Tilboð í Dýrafjarðargöng voru opnuð í göng. Tékkneska fyrirtækið Metrostav og Suðurverk áttu lægsta tilboðið, 8,7 milljarða króna. Vestfirðingar eru margbrenndir þegar kemur að loforðum um Dýrafjarðargöng en nú þurfa þeir ekki að óttast lengur að sögn Hreins vegamálstjóra. „Ég held að það sé alveg 110 prósent öruggt að nú verður ekki aftur snúið. Enda hef ég ekki heyrt neinar áætlanir um það frá stjórnvöldum. Nú verður bara sett í gang síðar á þessu ári og framkvæmdir hefjast þá,“ sagði Hreinn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Fyrirtækin Metrostav og Suðurverk eru þaulkunnug jarðgangagerð á Íslandi og klára í ár Norðfjarðargöng.

Forstjóri Suðurverks, Dofri Eysteinsson, segir henta vel að fara beint í Dýrafjarðargöng og þeir byrji á því að koma sér fyrir í Arnarfirði og áætlað að byrja á tímabilinu júlí til september.

smari@bb.is

Slysaslepping kærð til lögreglu

Regnbogasilungur.

Landssamband veiðifélag hefur kært sleppingu regnbogasilunga úr fiskeldi á Vestfjörðum til lögreglu. Í tilkynningu frá sambandinu segir að regnbogasilungur hafi veiðst í ám á Vestfjörðum en einnig í Vatnsdalsá, Haffjarðará, Hítará á Mýrum og fleiri ám. „Ljóst er að mikið magn regnbogasilungs hefur sloppið úr eldi sé horft á dreifingarsvæði regnbogans,“ segir i tilkynningunni.

Landssambandið vísar til þess að samkvæmt lögum ber að tilkynna slysasleppingar án tafar til Fiskistofu en engin slík tilkynning hefur borist og telur sambandið óhugsandi að fiskur sleppi úr sjókvíum í þeim mæli sem vísbendingar eru um án vitundar rekstrarleyfishafa.

„Landssambandið telur brýnt að upplýsa hvort hér sé um saknæman atburð að ræða sem kann að varða refsiábyrgð forsvarsmanna viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækja. Landssambandið telur að þessi atburður sé alvarleg birtingarmynd á slælegu eftirliti með sjókvíaeldi á Ísland og lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum,“ segir í tilkynningunni.

smari@bb.is

Haraldur formaður fjárlaganefndar

Haraldur Benediktsson.

 

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, verður formaður fjárlaganefndar, einnar áhrifamestu nefndar Alþingis. Fyrstu fundir fjögurra þingnefnda voru í morgun. Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokki var kjörinn formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Valgerður Gunnarsdóttir Sjálfstæðisflokki var kjörin formaður velferðarnefndar, Nichole Leigh Mosty verður formaður velferðarnefndar og eins og áður segir var Haraldur Benediktsson kjörinn formaður fjárlaganefndar. Varaformenn nefndanna koma líka úr hópi stjórnarliða.

smari@bb.is

Veðrabrigði á dagskrá sjónvarpsins í kvöld

Önundur Pálsson, viðmælandi leikstjóra í þættinum ásamt Hjálmtýri Heiðdal og Ásdísi Thoroddsen

 

Heimildarmyndin Veðrabrigði í leikstjórn Ásdísar Thoroddsen verður sýnd á ríkissjónvarpinu í kvöld en myndin fjallar um Flateyri og afleiðingar kvótakerfis á mannlíf og byggð í þorpinu. Gríðarleg fólksfækkun hefur verið á Flateyri undanfarinn áratug, sérstaklega eftir sölu Kambs á öllum eignum sínum, bátum og veiðiheimildum, árið 2007 og um það bil 120 manns misstu vinnuna.

Tekin eru fjölmörg viðtöl við íbúa á Flateyri og gamalt fréttaefni rifjað upp. Framleiðendur myndarinnar eru Hjálmtýr Heiðdal og Heather Millard, ásamt Yeti Film og Metro Films. Myndin var frumsýnd í nóvember 2015

Matreiðsluvínið tekið úr sölu

Matreiðsluvín í hillum Samkaupa

 

Í frétt sem birtist á vef Bæjarins besta í gær var sagt frá matreiðsluvíni með háum áfengisstyrkleika sem selt var í verslun Samkaupa Úrvals á Ísafirði. Ingólfur Hallgrímsson verslunarstjóri segist ekki hafa fundið fyrir mikilli andstöðu við söluna á matreiðsluvíninu og engar kvartanir borist honum, en nokkuð var rætt um málið á samfélagsmiðlum þar sem fólk óttaðist að ungmenni nýttu sér þessa tegund áfengis og má segja sömu sögu af öðrum tímum um sama mál víðsvegar um landið. Þetta hefur þó reynst snúið það sem ekkert bannar sölu á slíkum varningi. Tekin hefur verið ákvörðun af verslunarstjóra Samkaupa Úrvals á Ísafirði í samráði við heildsala að matreiðsluvínið verði ekki lengur selt í versluninni.

annska@bb.is

Ríkið selji fasteignir fyrir 45 milljarða

Viðskiptaráð vill selja lögreglustöðina við Hverfisgötu.

 

Viðskiptaráð telur mikil tækifæri fólgin í því að draga úr opinberu eignarhaldi fasteigna hér á landi og leggur til að ríkið selji fermetra fyrir 45 milljarða króna. Telur ráðið hagkvæmt að einkaaðilar fái að kaupa einn ef hverjum fjórum fermetrum í eigu ríkisins sem sé umsvifamesti rekstraraðili fasteigna á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs á umsvifum ríkisins á íslenskum fasteignamarkaði sem verður kynnt í dag. Segir þar að ríkissjóður eigi alls 880 þúsund fermetra af húsnæði í um eitt þúsund fasteignum.

Meirihluti skrifstofuhúsnæðisins sem Viðskiptaráð leggur til að ríkið selji er staðsett á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fermetraverð er hærra, á meðan meirihluti íbúðarhúsnæðisins er staðsettur á landsbyggðinni, þar sem fermetraverð er lægra. Tvo þriðju hluta söluverðmætisins má því rekja til skrifstofubygginga á höfuðborgarsvæðinu.

smari@bb.is

Segja uppsögn samningssvik

 

Á fundi bæjarráðs Bolungarvíkur í gær var lagt fram bréf frá embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum þar sem sagt var upp leigu á skrifstofuhúsnæði í þjónustumiðstöðinni í Bolungarvík. Uppsögninni fylgdi greinargerð sýslumannsins á Vestfjörðum, Jónasar Guðmundssonar, þar sem fram komu ástæður uppsagnarinnar sem hann segir vera mikinn hallarekstur embættisins og séu skýr fyrirmæli Innanríkisráðuneytisins að rétta af þann halla hið fyrsta með vísan til laga um fjárreiður ríkissjóðs.

Frá því er embættum sýslumanns á Vestfjörðum var fækkað um áramótin 2014/2015 hafa tvö stöðugildi verið í Bolungarvík, annað 100%, hitt 85%. Skrifstofan þar er opin frá klukkan 10-15 og hafa íbúar Bolungarvíkur geta sótt þá þjónustu sem embættið veitir í sinni heimabyggð að gerð vegabréfa undanskyldri, en sú þjónusta fluttist yfir á Ísafjörð fyrir nokkrum árum. Starfsmenn hafa einnig sinnt innheimtu vanrækslugjalda og störfum tengdum umboði Tryggingarstofnunar ríkisins.

Segir Jónas í bréfinu að þó leigusamningi sé sagt upp sé ekki þar með sagt að öll þjónusta hverfi frá Bolungarvík, á þessu stigi málsins sé uppsögnin ákveðin öryggisráðstöfun. Hann bendir sjálfur á ákvæði reglugerðar um umdæmi sýslumanna þar sem kveðið er á um að í Bolungarvík skuli vera útibú frá embættinu Sýslumannsins á Vestfjörðum. Þó talar hann á öðrum stað um sameiginlega starfsstöð embættisins á norðanverðum Vestfjörðum og segir það skipta mestu máli að hafa starfmenn undir sama þaki, en hann segir þó að sameinuð starfsstöð þurfi ekki að vera í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Jafnframt segir hann að störfin sem slík hverfi ekki úr höndum Bolvíkinga þó fjarlægð við þjónustuna kunni að aukast, sem mætti lesa sem svo að þjónustan færðist til Ísafjarðar.

Í bréfi sýslumanns kemur fram að starfsmenn embættisins sem verið hafa í Bolungarvík hafi liðið vel á vinnustaðnum og jafnframt að ekki sé hægt að kvarta undan húsaleigukostnaðinum í Bolungavík sem er sá lægsti á hvern starfsmann í öllum starfsstöðvum embættisins. Starfsmennirnir sjálfir gagnrýndu þessa ákvörðun harkalega í bréfi, sem einnig var lagt fram á fundi bæjarráðs, þar sem þeir segja berum orðum að verið sé að leggja niður starfsstöð embættisins í Bolungarvík.

Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir harðlega þessari ákvörðun Sýslumanns og lýsir yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna og bókaði það eftirfarandi á fundinum:

Þessi ákvörðun eru svik við hina nýju þjónustumiðstöð í Bolungarvík. Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016 eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst- og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík var lagt niður stuttu áður. Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að leggja niður útibúið í núverandi mynd.

Farið var í stofnun á þjónustumiðstöð með tilheyrandi kostnaði við breytingar á húsnæði með stuðningi og velvilja stjórnvalda og í trausti þess að þátttakendur í verkefninu væri á þar af fullum heilindum.

Bæjarráð hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr kostnaði. Húsnæðið er eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og hentar vel til starfseminnar hér í Bolungarvík. Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyrslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og ráðherra þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu. En fram kom hjá innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað að „Embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.

Bæjarráð Bolungarvíkur bendir á skyldu Sýslumanns að hafa opið útbú í Bolungarvík samkvæmt reglugerð innanríkisráðherra nr.1151/2014 um embætti Sýslumanna. Bæjarráð krefur Sýslumanninn á Vestfjörðum svara um hvernig hann hyggst efna þessa skyldu sýna við íbúana svo vel sé.

Bæjarráð Bolungarvíkur krefst þess að Sýslumaðurinn á Vestfjörðum dragi tilbaka ákvörðun um að loka skrifstofunni í Bolungarvík. Jafnframt hvetur bæjarráð Sýslumann til að leita frekar leiða til að fjölga verkefnum í útibúinu í Bolungarvík og efla frekar starfsemi þess í samræmi við vilja ráðherra og tryggja þjónustu við íbúa í byggðalaginu.

annska@bb.is

Sólardagur Ísfirðinga í dag

Sólin gægist yfir Engidalsfjöllin. Mynd tekin í Sólgötu fyrir á sólardegi fyrir nokkrum árum.

 

Í dag er hinn eig­in­legi sól­ar­dag­ur á Ísaf­irði, en í meira en 100 ár hafa Ísfirðing­ar fagnað komu sól­ar með því að drekka sól­arkaffi og pönnu­kök­ur. Sól­ar­dag­ur er miðaður við þann dag er sól sleik­ir Sól­götu við Eyr­ar­tún, ef veður leyf­ir, eft­ir langa vet­ur­setu hand­an fjalla.

Gamli Eyr­ar­bær­inn sem stóð á Eyr­ar­túni er löngu horf­inn en miðað var við dag­inn þegar sól­in skein þar á glugga í fyrsta sinn eft­ir meira en tveggja mánaða fjar­veru.

Enda þótt Eyr­ar­bær­inn sé horf­inn á vit þeirra sem í hon­um bjuggu, þá munu ýms­ir hafa enn í heiðri þann sið, að bjóða upp á sól­arkaffi og rjómapönnu­kök­ur þann dag þegar sól­in skín í fyrsta sinn á ný á stofu­glugg­ann heima hjá þeim. Það er auðvitað mjög mis­jafnt og fer bæði eft­ir því hvar í bæn­um fólk býr og eins eft­ir skýja­fari. Svo eru þeir einnig til sem miða við dagsetninguna í dag, hinn eiginlega sólardag, og skiptir þá veðurfar og staðsetning í bænum engu máli.

smari@bb.is

Ruðst inn á heimili

Í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku kemur fram að tvívegis í síðustu viku hafi ölvaðir menn ruðst í leyfisleysi inn á heimili fólks. Fyrra atvikið átti sér stað á Ísafirði aðfaranótt 20. janúar síðastliðins. Þá ruddist ölvaður maður inn á heimili nágranna síns. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu. Honum var sleppt lausum næsta dag eftir að hafa sofið úr sér vímuna. Maðurinn er grunaður um eignaspjöll. Aðfaranótt sunnudags ruddist maður í heimildarleysi inn á heimili fólks á Patreksfirði. Maðurinn var ölvaður og æstur. Hann var færður í fangaklefa og þar látinn sofa úr sér vímuna.

Ökumaður var snemma á sunnudagsmorgun stöðvaður í Hnífsdal og er hann grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Tveir ökumenn voru kærðir, í vikunni, fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Annar þeirra var stöðvaður í Hestfirði en hinn við Hólmavík. Báðir voru þeir að aka á öðru hundraðinu, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90. km.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp. Það var á Hnífsdalsvegi um kl.04:30 aðfaranótt 22. janúar sl. Ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á bifreiðinni sem rann út af veginum og hafnaði á ljósastaur. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni. Farþegarnir voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar en þeir reyndust með minni háttar áverka. Bifreiðin var óökufær eftir áreksturinn.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir