Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2235

Verkfall hefst á morgun

Farþegar í áætluðu inn­an­lands­flugi Flug­fé­lags Íslands næstu þrjá daga hafa verið látn­ir vita af þeim mögu­leika, að verk­fall Flugfreyjufélags Íslands geti skollið á í fyrra­málið. Þetta seg­ir Árni Gunn­ars­son fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins, í sam­tali við mbl.is.

Hafa farþeg­arn­ir ým­ist verið látn­ir vita með texta­skila­boðum í síma eða tölvu­pósti, eft­ir þeim upp­lýs­ing­um sem þeir gáfu upp við bók­un.

„Við höf­um und­ir­búið okk­ar farþega og látið þá vita af þess­um mögu­leika, og boðið þeim val­kosti til að bregðast við þessu,“ er haft eftir Árna.

Allt flug Flugfélags Íslands felur niður klukkan sex í fyrramálið ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Samkvæmt verkfallsboðun Flugfreyjufélagsins þá er einnig gert ráð fyr­ir ótíma­bundnu verk­falli, sem hefjast mun klukk­an sex að morgni sjötta fe­brú­ar.

smari@bb.is

Áhrif umhverfis á þróun smábleikju í Vísindaporti

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna mun líffræðingurinn, doktorsneminn og Ísfirðingurinn Sigurður Halldór Árnason fjalla um rannsókn sína á íslenskum dvergbleikjustofnum. Erindið ber titilinn: Hvernig mótar umhverfið svipfarsbreytileika á meðal dvergbleikjustofna í ferskvatnslindum á Íslandi?

Í erindinu mun Sigurður fjalla um doktorsverkefni sitt en í því er hann að skoða áhrif umhverfis á þróun smábleikju á Íslandi. Hann mun ræða um það hvernig umhverfið getur haft bein áhrif á þróun stofna og þær breytingar sem geta orðið á umhverfinu í kjölfar slíkra breytinga. Einnig mun hann kynna aðferðir sem hann notar til að skoða hvort og hvernig mismunandi umhverfisaðstæður leiða til þróunar á mismunandi svipfari meðal smábleikjustofna hér á Íslandi. Að lokum mun hann kynna brot af niðurstöðum sínum og ræða hvaða þýðingu þær geta haft fyrir skilning okkar á því hvernig samspil vist- og þróunarferla móta líffræðilegan fjölbreytileika.

Sigurður Halldór er Ísfirðingur að uppruna en fluttist ungur til Bandaríkjanna. Hann er með MSc gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands þar sem hann sérhæfði sig í frumerfðafræði og stofnerfðafræði plantna. Hann lauk BS nám við Háskólann í Hawaii á Honolulu þar sem hann sérhæfði sig í vist- og þróunarfræði og vann við verndun einlendra landsnigla á Hawaii. Hann býr nú á Ísafirði ásamt konu sinni og tveimur börnum þar sem hann vinnur við að ljúka doktorsnámi í vatnalíffræði við Háskólann á Hólum í samstarfi við Háskóla Íslands.

Vísindaportið er að vanda öllum opið og stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólasetursins í Vestrahúsinu. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á ensku.

annska@bb.is

Atvinnuleysið 2,6%

Að jafnaði voru 197.000 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í desember 2016 en það jafngildir 83 prósenta atvinnuþátttöku. Af þeim voru 191.900 starfandi og 5.100 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,8 prósent og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,6 prósent, samkvæmt nýrri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

Í rannsókninni segir að samanburður mælinga fyrir desember 2015 og 2016 sýni að atvinnuþátttakan hafi aukist um tvö prósentustig. Fjöldi starfandi um 7.000 og hlutfallið af mannfjölda hækkað um 1,4 stig. Atvinnulausum hafi fjölgað um 1.500 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu hækkað um 0,7 prósentustig.

smari@bb.is

42 fengu samfélagsstyrk frá Orkubúinu

Afhending samfélagsstyrkja Orkubús Vestfjarða fór fram í gær á þremur stöðum samtímis; á Ísafirði, Patreksfirði og á Hólmavík. Orkubúinu bárust alls 82 styrkumsóknir og að þessu sinni voru veittir 42 styrkir að fjárhæð 3.425.000 kr. Styrkupphæðirnar eru frá 50 þúsund kr. og upp í 150 þúsund kr. Orkubúið vill með styrkjunum sýna stuðning í verki við þá aðila og félög sem sinna ýmsum samfélagsmálum á Vestfjörðum. Og eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan, getur verið um að ræða ýmiskonar starfsemi eða félagasamtök, svo sem björgunarsveitir, íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarfsemi og listir, eða einhver önnur áhugaverð verkefni sem skipta máli fyrir vestfirskt samfélag.

Eftirtalin félagasamtök fengu styrk að þessu sinni:

  • Björgunarsveitin Heimamenn: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Ungmennafélagið Afturelding Reykhólum: Ungmennfélagsstarfsemi 50 þús. kr.
  • Björgunarfélag Ísafjarðar: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Blakdeild Vestra: Blak- búnaðarkaup 50 þús. kr.
  • Edinborgarhúsið ehf: Hljóðkerfi 100 þús. kr.
  • Golfklúbbur Ísafjarðar: Golf – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Handknattleiksdeild Harðar: Handknattleikur fámennar byggðir 50 þús. kr.
  • Harmonikufélag Vestfjarða: Landsmót harmonikkuunnenda 50 þús. kr.
  • Héraðssamband Vestfjarða 3 umsóknir: Fjölmenning (1), fámennar byggðir (2), barnastarf skíði (3) alls 200 þús. kr.
  • Hollvinir skíðasvæðisins í Tungudal: Skíðasvæði fyrir byrjendur – töfrateppi 50 þús. kr.
  • Knattspyrnudeild Vestra – yngri flokkar: Samstarf íþróttafélaga 50 þús. kr.
  • Kvennakór Ísafjarðar: Landsmót kvennakóra 50 þús. kr.
  • Rauða kross deildirnar á n Vestfjörðum: Búnaður til skyndihjálpar 100 þús. kr.
  • Samgöngufélagið: Útvarpsendingar í jarðgöngum 50 þús. kr.
  • Skíðafélag Ísafjarðar: Unglingalandsmót Íslands 100 þús. kr.
  • Sunnukórinn: Kórstarf 50 þús. kr.
  • Sæfari,félag áhugamanna um sjósport á Ísafirði: Námskeið fyrir unglinga 50 þús. kr.
  • Tónlistarskóli Ísafjarðar: Hljóðfærakaup 75 þús. kr.
  • Golfklúbbur Bolungarvíkur: Golf – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Heilsubærinn Bolungarvík: Körfuboltavöllur – útisvæði 100 þús. kr.
  • Rafstöðin, félagasamtök: Rafminjasafn – uppbygging rafstöðvar 100 þús. kr.
  • Sunddeild UMFB: Sunddeild – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Verslun Bjarna Eiríkssonar – Háaver ehf: Skipulag sýningar – saga verslunar 50 þús. kr.
  • VáVest: Forvarnir 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Sæbjörg: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Íþróttafélagið Grettir á Flateyri: Fimleikadeild – búnaður 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Björg Suðureyri: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Íþróttafélagið Stefnir á Suðureyri: Útihreystitæki 50 þús. kr.
  • Kvenfélagið Ársól: Varðveisla sögu Sóleyjar 100 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Blakkur: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Golfklúbbur Patreksfjarðar: Golf – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Tónlistarskóli Vesturbyggðar: Hljóðfærakaup 75 þús. kr.
  • Ungmennafélag Tálknafjarðar: Frjálsíþróttasvæði – uppbygging 75 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Kópur, Bíldudal.: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Höfrungur leikdeild: Dýrin í Hálsaskógi 50 þús. kr.
  • Kómedíuleikhúsið: Uppsetning á leikriti 50 þús. kr.
  • Sjálfseignarstofnun Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar: Eldsmíði – varðveisla þekkingar 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Dagrenning Hólmavík: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Geislinn: Samstarf íþróttafélaga 50 þús. kr.
  • Sauðfjársetur á Ströndum: Náttúrubarnaskóli 50 þús. kr.
  • Skíðafélag Strandamanna: Gönguskíðaaðstaða 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Björg: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.

smari@bb.is

Söngkeppni framhaldsskólanna lifi

Benedikt Sigurðsson

 

Sem sérlegur áhugamaður um góða og sterka menningu sló það mig að lesa það í fjölmiðlum að söngkeppni framhaldsskólanna verði ekki haldin í ár. Mér finnst það miður. Áratuga hefð fyrir þessari frábæru keppni má ekki lognast útaf.

Ástæða þess að keppnin verður ekki haldin í ár er peningalegs eðlis og hefur ekki staðið undir sér. Getum við ekki sniðið stakk eftir vexti og reynt hvað við getum til þess að viðhalda þessari hefð?

Í nýlegum rannsóknum kemur það fram að vanlíðan meðal ungmenna sé að aukast. Kvíði, þunglyndi, félagsfælni og skortur á samskiptahæfni. Síma og tölvunotkun hefur æ færst í aukana og sífellt fleiri ungmenni falla í þá gryfju að vera háð þessum sýndarheimi sem að vissu leyti samskipti í gegnum tölvu eru. Það hafa allir það svo gott í tölvuheiminum er virðist, en er það svo? Líf fólks út á við gefur ekki alltaf rétta mynd af hinu raunverulega. Þetta verða ungmenni að skilja. Það hafa það ekki allir svona gott og æðislegt nema þú. Í grunninn erum við eins og öll höfum við okkar vandamál. Ekki halda það að þið séuð verri en aðrir. Okkur skortir meira af raunverulegum samskiptum. Raunverulegri samveru.

Söngkeppni framhaldsskólanna hefur alla tíð snúist um heilbrigða samveru ungmenna og verið mjög jákvætt fyrir skóla landsins. Það er mín skoðun.

Á hverju ári fylgist maður með sínu fólki og stendur og fellur með því. Auðvitað eru atriðin misjöfn. Lífið er misjafnt. Þarna eru ungmenni mörg hver að stíga sín fyrstu skref og hjá einhverjum er þetta stökkpallur inní atvinnumennsku í tónlist.

Í grunninn snýst þetta ekki aðallega um hver vinnur. Þetta snýst um heilbrigða samveru unglinganna okkar. Þau eru framtíðin og okkur ber að kenna þeim á lífið. Raunverulega lífið.

Ef einhver les þetta sem hefur komið að skipulagningu söngkeppni framhaldsskólanna sl ár eða ráðamenn þjóðarinnar, þá hvet ég ykkur eindregið til þess að setjast niður og finna þessari frábæru keppni farveg. Strax.

Ég veit að fólk almennt hlýtur að vera sammála þessu. Kæmi mér ekki á óvart að meira að segja meistari Överby styðji mig í þessu máli.

Söngkeppni framhaldsskólanna lifi!

Benni Sig

 

Dropi ferðast um víða veröld

Svanur Þór Mikaelsson taekwondo-kappi og Sigrún Sigurðardóttir frá True Westfjords

Þorsklifrarolían Dropi sem framleidd er af True Westfjords í Bolungarvík fæst nú í þremur heimsálfum, eða nánar tiltekið í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Slóvakíu og segir Sigrún Sigurðardóttir að söluaðilar vörunnar á hverjum stað séu mjög ánægðir með þær viðtökur sem varan hefur verið að fá. Salan innanlands hefur einnig gengið vel en Dropi er seldur í heilsuvöruverslunum og apótekum víða um land, einnig fæst Dropi í fríhöfninni.

Um síðustu áramót hóf True Westfjords styrktarsamstarf við ungan og efnilegan taekwondokappa frá Keflavík, Svan Þór Mikaelsson. Svanur er margfaldur Íslands og bikarmeistari og auk þess Norðurlandameistari í sinni íþrótt. Hann var kjörinn taekwondomaður ársins á Íslandi 2016 og einnig var hann kjörinn taekwondomaður Reykjanesbæjar og Keflavíkur.

Sigrún segir helstu verkefni True Westfjords á þessu ári vera að auka markaðshlutdeild Dropa, þróun og nýir markaðir. Þróunarvinna með Dropa heldur áfram og segir Sigrún nýjungar á teikniborðinu en of snemmt er að segja frá þeim á þessari stundu.

annska@bb.is

Gengur í hvassa norðaustanátt með snjókomu

Hæg breytileg átt og úrkomulítið verður á Vestfjörðum í dag. Gengur í hvassa norðaustanátt 13-18 m/s undir kvöld með snjókomu, einkum norðantil. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands í má búast við erfiðum akstursskilyrðum í kjölfarið, sérílagi á fjallvegum. Veðrið verður með svipuðu móti fram eftir degi á morgun og annað kvöld er spáð norðaustan 10-15 m/s með éljum. Frost verður á bilinu 0 til 5 stig.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er Snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Snjóþekja er á Bröttubrekku, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingur er á Kleifarheiði.

annska@bb.is

Grunnvíkingar og Sléttuhreppingar halda sameiginlegt blót

Átthagafélögin norðan Djúps hafa haldið þorrablót í áratugi.

 

Í ár ætla átthagafélög Sléttuhreppinga og Grunnvíkinga að sameinast um þorrablót og verður það haldið í Félagsheimilinu Hnífdal 11. febrúar. Félögin hafa í áratugi staðið fyrir þorrablótum sitt í hvoru lagi og hafa þau verið vettvangur fyrir brottflutta Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga og afkomendur þeirra til að hittast og skemmta sér saman. Blótin hafa yfirleitt verið vel sótt en síðustu ár þegar sú kynslóð sem bjó í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi er mikið til horfin og farið að fækka í annarri kynslóð þá hefur dregið nokkuð úr aðsókn. Til þess að mæta því hefur sú hugmynd verið viðruð undanfarin ár að hafa sameiginlegt þorrablót félaganna tveggja, enda eiga þau margt sameiginlegt og margir sem eiga ættir að rekja í báða hreppana.  Nú hafa stjórnir og skemmtinefndir félagana tekið þá ákvörðun að prófa nýtt fyrirkomulag og sameinast eina kvöldstund.

Þeir sem eiga rætur sínar að rekja norður fyrir Djúp og á Hornstrandir hafa sterkar tilfinningar til upprunans og átthaganna, sem fóru í eyði er forfeður þeirra þurftu flytja búferlum á mölina þar sem lífið var auðveldara og uppbyggingin hröð. Lífsbaráttan á Hornströndum og í Jökulfjörðum var erfið og það var ekki vilji stjórnvalda á þeim tíma að leggja fé í uppbyggingu á svæðinu, svo auðvelda mætti fólki að búa þar áfram. Margir afkomendur þessa fólks eiga athvarf í eyðibyggðunum fyrir norðan og dvelja þar á sumrin. Afkomendur og vinir þeirra er þurftu að yfirgefa heimahagana, um miðja síðustu öld, ætla nú að skemmta sér á sameignlegu þorrablóti.

smari@bb.is

Óásættanlegt að loka neyðarbrautinni

 

Bæjarráð Vesturbyggðar tekur undir með þeim sveitarfélögum sem undanfarið hafa ályktað gegn lokun NA/SV flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðrar neyðarbrautar. „Það hefur sýnt sig að það er algjörlega óásættanlegt að brautin sé lokuð meðan ekki er boðið upp á aðrar lausnir til að sinna sjúkraflugi við þau tilteknu skilyrði sem brautinni er ætlað að sinna,“ segir í ályktun bæjarráðs og áréttað að ekki verði beðið eftir óafturkræft tjón eigi sér stað áður en gripið verði til aðgerða. Bæjarráð Vesturbyggðar bendir á að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að hafa óskert aðgengi að sjúkrahúsi allra landsmanna í Reykjavík.

smari@bb.is

Segir eftirlitið ekki slælegt

Einar K. Guðfinnsson.

Landssamband fiskeldisstöðva (LF) leggur áherslu á að fyrirtæki í fiskeldi fari varlega í sinni starfsemi og lágmarki umhverfisáhrif, að sögn Einars K. Guðfinnssonar, formanns LF. Landssamband veiðifélaga hefur kært til lögreglu slysasleppingu á regnbogasilungi í fyrra. Í haust veiddist regnbogasilungur í ám víða á Vestfjörðum og fregnir bárust af eldisfiski í ám í öðrum landshlutum. Í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga segir að slysasleppingin í fyrra sé annaðhvort saknæmur atburður eða „alvarleg birtingarmynd á slælegu eftirliti með sjókvíaeldi á Ísland og lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum.“

Einar segir alls ekki rétt að eftirlit með fiskeldi sé slælegt. „Lögin eru mjög skýr og Matvælastofnun hefur eftirlitshlutverkið og hefur eins og lög gera ráð fyrir verið með þetta mál til rannsóknar og ég treysti Matvælastofnun til að fara með þetta vald,“ segir Einar. Ekki er ljóst hvenær niðurstaða fæst í rannsókn Matvælastofnunar á slysasleppingunni í fyrra.

Hann bendir á að Landssamband fiskeldisstöðva hafi sent frá sér yfirlýsingu eftir að regnbogasilungurinn veiddist síðasta haust þar sem fram kom að fiskeldisstöðvarnir leggi kapp á að komast að því hvaðan regnbogasilungurinn kemur. Regnbogasilungur er alinn í fjórum fjörðum á Vestfjörðum, í Önundarfirði, í Dýrafirði, í Tálknafiðri og í Ísafjarðardjúpi. Eldi á regnbogasilungi er á undanhaldi og eldisfyrirtækin einblína í meiri mæli á laxeldi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir