Ef að veður leyfir verður flogið á milli landshluta í dag og næstu daga, en útlit var fyrir að það gæti orðið röskun á flugi er fyrirhugað var að verkfall flugfreyja hæfist í dag og stæði fram á mánudag, hefði það haft áhrif á flugferðir um 1500 farþega. Á tólfta tímanum í gærkvöldi var skrifað undir kjarasamning á minni Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands og fer sá samningur í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum í næstu viku. Flugfreyjur hafa verið samningslausar í rúmt ár og á þeim tíma í tvígang fellt kjarasamninga, en Sturla Bragason, formaður samninganefndar Flugfreyjufélagsins, segir í samtali við RÚV bjartsýnn á að nýi samningurinn verði samþykktur.
Víða slæm færð
Hálka og éljagangur er víðast hvar á Vestfjörðum en þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum, Hálfdán og Mikladal. Þungfært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og ófært og stórhríð á Klettshálsi og Kleifaheiði og beðið með mokstur samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Vestfjörðum er nú allhvöss norðaustanátt með snjókomu eða éljum, og má búast við erfiðum akstursskilyrðum, sérílagi á fjallvegum. Veðurspá dagsins kveður á um norðaustan 10-18 m/s og snjókomu, einkum á Vestfjörðum norðanverðum, með vægu frosti í fjórðungnum. Á morgun snýr í hreina norðanátt 8-13 m/s með éljum, en hægara verður og úrkomulítið síðdegis. Frost á bilinu 2 til 7 stig.
Ungt fólk vill hafa áhrif
Landsþing ungmennahúsa var haldið á Hólmavík um síðustu helgi. Ungt fólk á aldrinum 16-25 ára og starfsfólk ungmennahúsa komu víða að af landinu ásamt stjórn Samfés. Markmið landsþingsins var að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að hittast, móta starfsemi ungmennahúsa landsins, skiptast á hugmyndum, efla samstarfið og ræða málefni ungs fólks á Íslandi og hvað hægt sé að gera til að bæta starfið og tryggja að öll ungmenni á aldrinum 16-25 ára hafi jafnan aðgang að ungmennahúsi í sinni heimabyggð.
Stjórn Samfés segir landsþingið hafi gengið vonum framar og þátttaka ungmennahúsa nokkuð góð, sér í lagi í ljósi þess að búið er að loka fimm ungmennahúsum í Reykjavík. Hrósar stjórnin ungmennunum í hástert og segir að þau hafi sýnt gott frumkvæði, meðal annars með því að skipa nefnd ungmenna sem ætla í samvinnu með Samfés að skipuleggja næsta landsþing.
Á landsþinginu var rætt hversu mikilvægt það er að taka vel á móti flóttafólki, koma í veg fyrir fordóma með kynningu og fræðslu og tryggja aðgengi fólks að námskeiðum og öðrum nauðsynlegum úrræðum. Segja ungmennin að bæta þurfi alla fræðslu um andlega heilsu ungs fólks á öllum skólastigum og að andleg veikindi verði viðurkennd, sérstaklega með aðkomu ríkisins með niðurgreiðslu á kostnaði. Ungmennin voru sammála um að bæta þurfi enn frekar alla fræðslu um vinnuréttindi ungs fólks og Barnasáttmálann þar sem margir unglingar viti ekki ef brotið er á réttindum þeirra. Einnig vilja þau að íslenska ríkið virði það að börn og unglingar eigi að koma að ákvörðunartöku í öllum málefnum sem snerta ungt fólk.
Dagskrá helgarinnar var fjölbreytt og tóku þátttakendur þátt í hópefli, fræðslu, umræðuhópum, smiðjum og skemmtilegum kvöldvökum. Hópurinn heimsótti Galdrasafnið og heitu pottana á Drangsnesi. Hjálmar Karlsson frá Rauða krossi Íslands og Anna G. Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Geðhjálpar héldu fyrirlestra um hjálparsíma Rauða krossins 1717 og herferðina Útmeða sem beinist að sjálfsvígum og sjálfsskaða.
Sammældust þátttakendur um að raddir ungs fólks skipti mjög miklu máli! Það vilji hafa áhrif og sé ekki sama um samfélagið og framtíð landsins.
Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins í kvöld
Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins verður haldið í kvöld á Grand Hótel Reykjavík. Stjórnin lofar sérlega glæsilegu kvöldi þar sem Ísfirðingar og gestir þeirra koma saman og gera sér glaða stund. Tvírétta matseðillinn innifelur vestfirskt lambalæri og að sjálfssögðu verður einkenni Sólarkaffisins, Kaffi og rjómapönnukaka í eftirrétt. Sérstakir gestir á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins 2017 verða heiðurshjónin Siggi Jóh. og Sæa sem hafa verið einstakir stuðningsmenn Ísfirðingafélagins í gegnum árin.
Sólarkaffið er afar vinsæll viðburður meðal brottfluttra Ísfirðinga og sannast það til að mynda á því að seldur er hver einasti miði sem í boði var fyrir kvöldið, en hægt er að koma á ballið. Húsið opnar klukkan 17 og hefst dagskráin klukkan 19. Veislustjóri er Dagný Björk danskennari dóttir Péturs Valdimarssonar og Stefaníu (Nínu) Guðmundsóttur. Mugi-feðgar skemmta báðir gestum. Muggi eða Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna er ræðumaður kvöldsins og sonur hans Örn Elías Guðmundsson eða Mugison spilar og syngur nokkur af sínum bestu lögum. Happdrætti Sólarkaffisins verður á sínum stað og eftir mat og skemmtun verður brostið í dans undir hressum tónum Hússins á sléttunni, með Halldór Smárason og þá Olgeirs bræður úr Bolungarvík í framlínunni.
Sinna síður fjarskiptakerfum á landsbyggðinni
Truflunum í almennum radíókerfum hefur fjölgað mjög hér á landi en slíkar truflanir geta haft alvarlegar afleiðingar, jafnvel gert hluta farneta ónothæf og haft áhrif á stóran hóp notenda. Ef um útbreidda truflun er að ræða getur hún haft áhrif á tugi eða hundruð notenda. Póst- og fjarskiptastofnun vaktar slíkar truflanir og grípur til aðgerða þegar þörf er á.
Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að fjöldi truflana hefur verið það mikill á undanförnum árum að þrátt fyrir að mannafli og tækjabúnaður í truflanavakt PFS hafi verið aukinn umtalsvert getur stofnunin ekki sinnt viðbrögðum við radíótruflunum að fullu og neyðist til að forgangsraða tilkynningum vegna truflana með tilliti til mikilvægis þeirra kerfa sem fyrir truflun verða. Öryggiskerfi, s.s. vegna flugs, eru t.d. alltaf í forgangi.
Skortur á mannafla og tækjum kemur fyrst og fremst niður á landsbyggðinni. Á vef stofnunarinnar kemur fram að lagfæring á truflun í fjarskiptakerfum úti á landi getur þurft að bíða talsverðan tíma ef hún telst ekki í forgangsflokki.
Það þarf varla að fjölyrða um að radíókerfi eru undirstaða samskipta í nútíma samfélagi og nútímamaðurinn tekur því sem sjálfsögðum hlut að kerfin virki. Þau eru ekki eingöngu notuð í samskiptum milli manna heldur ekki síður í ýmsum samskiptakerfum sem stjórna búnaði, s.s. við flugumsjón, vöktun, boðun (t.d. í heilbrigðisþjónustu og í náttúruvá) og í framleiðslufyrirtækjum. Truflanir í slíku umhverfi geta valdið hættuástandi eða fjártjóni. Það getur því valdið verulegum óþægindum og jafnvel hættu ef ekki er brugðist við truflunum í tæka tíð.
smari@bb.is
Aukafjármagn í ljósleiðaravæðingu
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið með vísan til markmiða byggðaáætlunar og umsagnar stjórnar Byggðastofnunar að verja allt að 100 milljónum króna úr fjárveitingu byggðaáætlunar til að styrkja sérstaklega uppbyggingu ljósleiðarakerfis í strjálbýlum sveitarfélögum. Þessi fjárveiting kemur til viðbótar 450 m.kr. úthlutun fjarskiptasjóðs til verkefnisins Ísland ljóstengt 2017. Nítján sveitarfélög eiga kost á þessum fjármunum og mest getur komið í hlut Borgarbyggðar, eða 12 milljónir kr. Ísafjarðarbær getur fengið hæsta styrk vestfirskra sveitarfélaga, eða 4,1 milljón kr.
Haraldur Benediktsson, alþingismaður og formaður fjarskiptasjóðs, kynnti verkefnið í samgönguráðuneytinu í dag ásamt Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Ólafi E. Jóhannssyni, aðstoðarmanni ráðherra.
Í ljósi þess að fjárhagur sveitarfélaga er mismunandi hefur verið ákveðið að styrkja samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum í samkeppnispott fjarskiptasjóðs. Þetta er gert í þeim tilgangi að gera strjálbýlum sveitarfélögum hægara um vik að hefja ljósleiðarauppbyggingu.
Helstu forsendur við úthlutun styrkjanna voru þéttleiki styrkhæfra svæða, hlutfall staða sem eru ótengdir, þróun íbúafjölda árin 2005 til 2015, ferðatími til þjónustukjarna og samgöngur, fjárhagsstaða sveitarfélags og meðaltekjur þess á íbúa. Gefin voru stig út frá þessum forsendum og sveitarfélög með fæst stig lentu efst í forgangsröðun. Óráðstafaður byggðastyrkur getur flust milli ára.
smari@bb.is
Aron Ottó tekur þátt í Söngkeppni FÍS
Vox Domini, söngkeppni Félags íslenskra söngkennara, FÍS, fer fram í Salnum í Kópavogi um helgina. Meðal þátttakenda í keppninni er ungur Ísfirðingur Aron Ottó Jóhannsson sem stundar nú söngnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar undir handleiðslu Ingunnar Óskar Sturludóttur. Vox Domini er opin söngvurum yngri en 35 ára og er þar keppt til verðlauna í 3. flokkum: miðstigi, framhaldi og opnum flokki, sem er fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í þessari atvinnugrein og verða veittar viðurkenningar þeim sem þykja skara fram úr í hverjum flokki. Aron Ottó keppir á miðstigi en þar etja kappi þeir nemendur sem lokið hafa grunnprófi.
Er þetta í fyrsta sinn sem keppnin er haldin en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður og er hún fyrsta keppni sinnar tegundar hér á landi. Þess má geta að Sigrún Pálmadóttir, söngkennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, er meðal dómara í keppninni. Hún mun þó víkja úr dómnefnd þegar Aron Ottó stígur á stokk.
Greina rannsóknatækifæri á strandsvæðum
Í síðustu viku fór fram vinnustofa í Háskólasetri Vestfjarða þar sem rannsakendur frá John Moores háskólanum í Liverpool, Southern Connecticut háskólanum og Háskólasetrinu komu saman. Tilgangur vinnustofunnar var sá að stilla saman strengi og greina rannsóknartækifæri sem tengjast sjálfbærum breytingum strandsvæða.
Vinnistofan er styrkt af Regional Studies Association og markar fyrstu skrefin í samstarfsverkefni stofnanna þriggja. Einkum var lögð áhersla á fræðilegan grunndvöll rannsókna á sjálfbærum breytingum strandsvæða. Í umræðum fengist við fjölda viðfangsefna sem varða strandsvæðis, skipulag hafsvæða, græna orku og vöxt atvinnugreina á borð við sjávareldi og ferðamennsku. Þátttakendur skipulögðu frekari vinnu stofnannanna þriggja og lögðu drög að rannsóknarverkefnum og frekara samstarfi.
smari@bb.is
Ferðamannapúlsinn aldrei lægri
Ferðamannapúls Gallup lækkar um 2,1 stig milli mánaða og hefur aldrei mælst lægri. Púlsinn í desember er 80,6 stig af 100 mögulegum en var 82,7 stig í október. Í desember var ferðamannapúlsinn hæstur meðal ferðamanna frá Spáni eða 85,9 stig. Þar á eftir komu Frakkar með 83,8 stig og þá Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Kanadamenn. Ferðamannapúlsinn er lægstur meðal ferðamanna frá Malasíu, Singapúr og Írlandi. Ferðamannapúls Gallup byggir á svörum ferðamanna við spurningum að Íslandsferð lokinni.
Allir undirþættir ferðamannapúlsins lækka milli mánaða en mest lækka þættir sem snúa að því hvort Íslandsferðin hafi uppfyllt væntingar, hvort ferðin hafi verið peninganna virði sem og heildaránægja með Íslandsferðina en einkunn á heildaránægjuþættinum fer í fyrsta sinn undir 80 stig.
Þeir ferðamenn sem dvöldu hér á landi yfir jól og/eða áramót voru spurðir hvort það hafi uppfyllt væntingar þeirra að eyða jólunum/áramótunum á Íslandi. Um 21% sagði að það að eyða jólunum á Íslandi hafi að öllu leyti uppfyllt væntingar og tæplega 37% sögðu það hafa að miklu leyti uppfyllt væntingar þeirra. Naumlega 28% sögðu það hafa uppfyllt væntingar þeirra að einhverju leyti en tæp 15% sögðu að það hafi að litlu eða engu leyti uppfyllt væntingar þeirra.
Hins vegar sögðu rúm 48% það hafa að öllu leyti uppfyllt væntingar sínar að eyða áramótunum á Íslandi og tæplega 34% sögðu það hafa að miklu leyti uppfyllt væntingar. Rúmlega 11% sögðu það hafa að einhverju leyti uppfyllt væntingar þeirra en naumlega 6% sögðu að það hafi að litlu eða engu leyti uppfyllt væntingar þeirra.
smari@bb.is
Stjórnarandstaðan vill nefnd um stöðu landsbyggðarfjölmiðla
Þingmenn úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar vilja að Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, skipi starfshóp til að gera úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra. Þrettán þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna standa að þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi.
Samkvæmt tillögunni á starfhópurinn að leggja fram tillögur sem fela í sér aðferðir og leiðir til að efla og tryggja stöðu landsbyggðarfjölmiðla „þannig að þeir fái gegnt lýðræðis-, menningar-, upplýsinga- og fræðsluhlutverki sínu.“ Hópurinn eigi að skila skýrslu og tillögum eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.
„Fáum blandast hugur um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar enda er þekking almennings á umheiminum og skilningur á honum að miklu leyti kominn undir fréttum miðlanna og annarri umfjöllun þeirra. Staðbundnir fjölmiðlar og fjölmiðlar á landsvísu sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins gegna hlutverki við að tryggja nauðsynlega fjölbreytni lýðræðislegrar umræðu og skoðanaskipta þar sem margvísleg sjónarmið njóta sín og verða grundvöllur afstöðu og ákvarðanatöku,“ segir í greinargerð með tillögunni.
smari@bb.is