Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2234

Halli á vöruviðskiptum

Á tveimur fyrstu mánuðum ársins nam halli á vöruviðskiptum við útlönd 21,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni. Verðmæti vöruútflutnings var 19.3 milljörðum króna lægra en á sama tíma í fyrra, miðað við gengi hvors árs, að stórum hluta til vegna samdráttar í verðmæti útfluttra sjávarafurða. Verðmæti þeirra dróst saman um ríflega 40 prósent milli ára vegna verðlækkunar, auk þess sem reikna má með að áhrifa af verkfalli sjómanna gæti enn í þessum tölum, segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Smári

Leggja til róttækar breytingar á strandveiðikerfinu

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, mælir fyrir frumvarpi um breytingu á strandveiðikerfinu. Breytingin felur í sér að horfið verður frá heildarpottum hvers strandveiðisvæðis og strandveiðibátum verður úthlutað 12 veiðidögum í fjóra mánuði, frá maí til ágúst. Frumvarpið gerir ráð fyrir að breytingin sem lögð er til gildi aðeins fyrir strandveiðitímabilið sem hefst 2. maí næstkomandi. Ekki þykir rétt að hafa 12 daga val ótímabundið þar sem óvissa er um hversu mikið strandveiðibátar veiða með þessu breytta fyrirkomulagi. Áfram verði óheimilt að róa á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og sömu takmarkanir verði á veiði hvers dags.

Meðflutningsmenn frumvarpsins eru samflokksmenn Lilju Rafneyjar, þau Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að að breytingin feli í sér aðgerð til að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum. Sá ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilað er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu aukin slysahætta. Flutningsmenn telja að með lagabreytingunni verði dregið mjög út hvata  til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.

Þá er bent á að frá árinu 2011 hefur þorskafli í strandveiðum ekki fylgt aukningu heildarafla. Alls 7.968 tonn vantar þar upp á. Síðasta sumar komu 8.550 tonn af þorski í hlut stranveiðimanna.

smari@bb.is

 

 

 

Söngvarar og sigurvegarar

Between Mountains er sigurvegari Músíktilrauna en keppnin var í Silfurbergi í Hörpu í kvöld. Hljómsveitina skipa Katla Vigdís Vernharðsdóttir frá Súgandafirði og Ásrós Helga Guðmundsdóttir úr Dýrafirði. Þær voru sömuleiðis valdar söngvarar kvöldsins.

Og sem sigurvegarar Músíktilrauna fá þær sitt pláss á Aldrei fór suður og Vestfirðingar fá tækifæri til að heyra í þessum upprennandi tónlistarkonum.

Bæjarins besta sendir hamingjuóskir til Kötlu og Ásrósar.

Bryndís

 

Vestfirðingar á lokahátíð Nótunnar

Lokahátíðin verður í Hörpu.

Um 140 tónlistarnemendur víðs vegar af landinu koma fram á lokahátíð Nótunnar 2017 sem fram fer í Eldborg Hörpu sunnudaginn. Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskólanna og fer nú fram í áttunda skipti. Tónlistarskóli Ísafjarðar á tvo fulltrúar á Nótunni og Tónlistarskóli Bolungarvíkur einn. Frá Tónlistarskóla Ísafjarðar ætlar Aron Ottó Jóhannsson að syngja Ol‘ Man River eftir Roger og Hammerstein og meðleikari hans á píanó er Pétur Ernir Svavarsson. Píanóleikarinn Mariann Rähni er fulltrúi Tónlistarskóla Bolungarvíkur og ætlar hún að leika vals í e-moll eftir Chopin.

Hátt í 500 tónlistarnemendur komu fram á svæðistónleikum fyrr í þessum mánuði. Sjö framúrskarandi tónlistaratriði voru valin á hverjum svæðistónleikum og verða þau flutt á hátíðinni á sunnudag.

Smári

Bitist um listina á lokametrunum

Eitt þeirra verka sem finna má á uppboðinu er þetta stór og glæsilega málverk Reynis Torfasonar

Listaverkauppboði krabbameinsfélagsins Sigurvonar lýkur á miðnætti í kvöld og má ennþá slá tvær flugur í einu höggi með því að næla sér í vestfirska list í stofuna og styrkja í leiðinni krabbameinsfélagið til góðra verka. Lokadagurinn virðist ætla að verða fjörugur að sögn Tinna Hrundar Hlynsdóttur gjaldker félagsins: „Við höfum fengið nokkur boð bara í dag, svo að fólk virðist vera að bítast um þetta svona á lokametrunum sem er æðislegt!“

Listaverkauppboðið er nýjung í fjáröflun hjá félaginu og eru á uppboðinu sjö verk eftir níu listamenn. Uppboðið fer fram á netinu og getur fólk tekið þátt með því að senda tölvupóst á netfangið sigurvon@snerpa.is eða í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook, þar sem einnig má sjá myndir af öllum verkunum.

annska@bb.is

Þrír Ísfirðingar á pall

Anna María Daníelsdóttir í brautinni á Landsmóti.

Isak Stiansson Pedersen frá Skíðafélagi Akureyri sigraði í 10 km göngu með frjálsri aðferð á Skíðamóti Íslands sem fer fram á Akureyri. Ísfirðingurinn Albert Jónsson koma fast á hæla hans og var einungis þremur sekúndubrotum á eftir sigurvegaranum. Dagur Benediktsson úr Skíðafélagi Ísfirðinga var í þriðja sæti, sex sekúndum á eftir Isak.

Í dag, föstudag, fór einnig fram 5 km ganga kvenna og var gengið með frjálsri aðferð. Elsa Guðrún Jónsdóttir frá Ólafsfirði sigraði og Anna María Daníelsdóttir úr Skíðafélagi Ísafirðinga varð í öðru sæti. Veronika Lagun frá Skíðafélagi Akureyringa hafnaði í þriðja sæti.

Smári

Höfum burði til að vera öflug fiskeldisþjóð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Ég hef hvatt fiskeldisfyrirtækin til að kunna sér hóf. Það þarf að byggja greinina upp á ábyrgan hátt og ekki líta á vöxtinn sem kapphlaup. Ef skynsemin ræður ferðinni, reglurnar eru skýrar og ekki vaðið fram þá höfum við alla burði til að gera Ísland að mjög öflugri fiskeldisþjóð. Við þurfum ekki að finna upp hjólið og getum lært mikið af Norðmönnum og þeim stífu reglum og ströngu kröfum um að búnað í fiskeldi sem þar gilda“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samtali við 200 mílur, sjávarútvegsblað Morgunblaðsins í dag.

„Eins og staðan er í dag þurfum við að fá skýrari sýn á framtíð fiskeldis á Íslandi. Gera þarf mjög ítarlegar kröfur umhverfisvernd og ábyrgan vöxt. Fiskeldið má alls ekki skaða lífríkið í fjörðunum og alls ekki skemma villta stofna auk þess að eðlilegt er að gera kröfu um auðlindagjald í einhverju formi,“ segir sjávarútvegsráðherra í viðtalinu.

Í samtali við 200 mílur segir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra ennfremur æskilegt að gjaldið renni að miklu eða öllu leyti til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið er rekið.

„Norðmenn líta svo á að þeir hafi gert mistök með því að láta þau gjöld sem tekin voru af fiskeldinu ekki skila sér í meira mæli til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið fer fram“, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Smári

Fjöldi gistinátta rýkur upp

Gistinætur á hótelum í febrúar voru 331.800 sem er 21% aukning miðað við febrúar 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 21% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 18%.

Flestar gistinætur á hótelum í febrúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 227.100 sem er 13% aukning miðað við febrúar 2016. Um 68% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 48.200. Erlendir gestir með flestar gistinætur í febrúar voru Bretar með 107.600 gistinætur, Bandaríkjamenn með 69.900 og Þjóðverjar með 20.300, en íslenskar gistinætur í febrúar voru 37.400.

Í gögnum Hagstofunnar eru gistinætur á Vestfjörðum og Vesturlandi taldar saman. Þeim fjölgaði um 34% í febrúar samanborið við febrúar 2016. Fjölgun gistinátta er enn skarpari sé litið yfir lengra tímabil. Á tímabilinu mars 2015 til febrúar 2016 voru gistinætur á Vestfjörðum og Vesturlandi 124.248, en á tímabilinu mars 2016 til febrúar 2017 voru þær 176.357 eða fjölgun um 42%.

Á tólf mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum á Íslandi 3.969.500 sem er 33% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Smári

Skattahækkun kemur verst við landsbyggðina

Ferðamenn á Látrabjargi.

Áform ríkisstjórnarinnar um að hækka ferðaþjónustuna úr lægra virðisaukaskattþrepi upp í það hærra kemur eins og blaut tuska framan í ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Þetta kom fram á neyðarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í gær. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir að gengisstyrking og kostnaðarhækkanir stefni nú þegar afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu í mikla hættu, en með boðuðum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar versni samkeppnishæfni Íslands til mikilla muna. Í ályktuninni segir að afleiðingarnar verða alvarlegastar fyrir landsbyggðina sem á nú þegar undir högg að sækja þegar kemur að ferðaþjónustu. Samkvæmt upplýsingum Samtökum ferðaþjónustunnar fer Ísland í annað sæti yfir hæstan virðisaukaskatt á ferðaþjónustu í heiminum komi skattahækkunin til framkvæmda, en dönsk ferðaþjónustufyrirtæki greiða 25 prósenta virðisaukaskatt.

„Ferðaþjónusta er í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki starfa því á alþjóðlegum markaði og í samkeppni við erlenda áfangastaði þar sem ferðaþjónustan er almennt í lægri þrepum virðisaukaskattskerfisins. Það hefur sýnt sig að þau lönd sem eru t.a.m. með gististaði í efri skattþrepum hafa lotið í lægra haldi í samkeppni við aðra áfangastaði. Tillögur um hækkun á virðisaukaskatti vega þannig alvarlega að samkeppnishæfni Íslands,“ segir í ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar.

Smári

Hvessir og bætir í úrkomu í nótt

Það verður norðaustanátt á Vestfjörðum í dag 5-10 m/s. Að mestu leiti verður þurrt, en smá éljagangur á norðanverðum Vestfjörðum er fram kemur í spá Veðurstofu Íslands. Það hvessir og bætir í úrkomu í nótt og má gera ráð fyrir 10-18 m/s í fyrramálið, en minnkandi vindur og stöku él annað kvöld. Hiti verður frá frostmarki að fjórum stigum. Í veðurspá fyrir landið í heild sinni á sunnudag er gert ráð fyrir austan og síðar suðaustan 13-20 m/s með slyddu og síðar talsverðri rigningu, hvassast verður syðst á landinu. Úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hlýnar í veðri og hiti 3 til 8 stig um kvöldið. Á mánudag kólnar að nýju.

Það eru hálkublettir, hálka eða snjóþekja á nokkrum fjallvegum á Vestfjörðum en autt á láglendi.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir