Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2232

Sáttafundur á föstudaginn

Flotinn hefur verið í höfn nærri sjö vikur.

Sáttafundur hefur verið boðaður í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna á föstudaginn. Upp úr viðræðum sjómanna og útvegsmanna slitnaði  mánudaginn 23. janúar, fyrir rúmri viku. Samkvæmt lögum ber ríkissáttasemjara að boða til sáttafundar innan tveggja vikna frá viðræðuslitum. Sjómenn hafa verið í verkfalli síðan 14. desember.

smari@bb.is

Nikulás er íþróttamaður Bolungarvíkur

Nikulás (t.v.) með kylfingnum Chatchai Phorthiya og knapanum Guðmundur Bjarni Jónsson, en þeir voru einnig tilnefndsi sem íþróttamaður ársins.

Knattspyrnumaðurinn Nikulás Jónsson er íþóttamaður Bolungarvíkur árið 2016. Nikulás var tilnefndur af knattspyrnudeild Vestra, en hann lék 20 af 22 leikjum Vestra í 2. deild Íslandsmótsins síðasta sumar og skoraði hann eitt mark. Í umsögn segir að Nikulás hafi undanfarin ár barist við meiðsli og gat lítið æft með meistaraflokki veturinn fyrir síðasta keppnistímabil. Það stöðvaði hann þó ekki í að æfa vel og oft og tíðum einn.

Í umsögn dómefndar segir:

„Í æfingleikjum í vor og fyrstu leikjum sumarsins átti Nikulás ekki fast sæti í liðinu og byrjaði á bekknum. Hann tók því með því að leggja enn meira á sig á æfingum og koma af krafti inn í þá leiki sem hann spilaði. Þegar vantaði bakvörð í liðið stökk Nikulás á þá stöðu og tryggði sér fast sæti í liðinu með góðri frammistöðu og það í stöðu sem hann hafði lítt spilað. Hann var fljótur að aðlagast og átti mjög gott tímabil með liðinu. Þetta lýsir einna best persónugerð Nikulásar, hann eflist við mótlæti og er tilbúinn að taka hagsmuni liðsins fram yfir eigin hagsmuni.

Nikulás hefur spilað 103 leiki fyrir meistaraflokk BÍ/Bolungarvík/Vestra í öllum keppnum frá því að hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2011. Nikulás er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í Bolungarvík. Hann er mikill félagsmaður og ávallt tilbúinn að aðstoða ef eftir því er leitað. Hann er metnaðarfullur, mætir vel á æfingar og æfir aukalega sjálfur. Þá hefur hann sýnt gríðarlegan aga í að æfa einn til að yfirstíga erfið meiðsli sem skilaði sér í kraftmiklum leik hans í sumar með Vestra.“

smari@bb.is

 

Lægir er líður á daginn

Frameftir degi verður austan 13-20 m/s og rigning með köflum á Vestfjörðum. Snýst í minnkandi suðaustanátt með skúrum síðdegis, suðlæg átt, 3-8 m/s og úrkomulítið í nótt. Hiti í dag verður 2 til 7 stig. Á morgun er gert ráð fyrir norðaustan 5-10 m/s og stöku éljum. Hiti verður um frostmark.

Á Vestfjörðum er hálka á flestum fjallvegum en flughált er á Steingrímsfjarðarheiði og krapi á Klettshálsi og Þröskuldum. Mjög hvasst er á Súðavíkurhlíð og í Ísafjarðardjúpi.

annska@bb.is

40 konur tóku þátt í gönguskíðanámskeiði

Glæsilegur hópur á Seljalandsdal

Um helgina fór fram á Ísafirði gönguskíðanámskeið fyrir konur undir yfirskriftinni Bara ég og stelpurnar. Á námskeiðinu, sem hófst á fimmtudag og stóð fram á sunnudag, voru um 40 konur frá Reykjavík og Akureyri og gisti hópurinn saman á Hótel Horni. Kennarar á námskeiðinu voru Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Stella Hjaltadóttir og Daníel Jakobsson. Námskeiðið er ætlað bæði þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor í brautinni og þeim sem hafa reynslu af skíðagöngu.

Eina skilyrðið fyrir þátttöku á námskeiðinu var að elska snjó og hafa gaman af að leika sér. Meðal þess sem farið var yfir voru undirstöðuatriði íþróttarinnar, jafnframt því sem konurnar voru kynntar fyrir búnaðinum og snjónum. Þær fræddust um áburðarmál, orðaforða og tækniatriði. Síðan var farið í verklegar æfingar á gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal, með tveimur æfingum á dag, föstudag og laugardag og einni á sunnudag.

Ein aðalhvatamanneskja námskeiðsins er Bolvíkingurinn Hildur Kristín Einarsdóttir, sem búsett hefur verið í höfuðborginni um árabil og mætti hún með vinkonuhópinn. Hún ber námskeiðinu vel söguna: „Þetta var alveg frábært. Vel skipulagt hjá Völu, Danna og Stellu. Þarna var frábær hópur skemmtilegra kvenna samankominn, sem æfði mikið, hló meira og hafði gaman. Hressar, glaðar og flottar konur sem eru í hörku formi eftir helgina.“

Hildur segir það alveg frábært að koma á sínar fornu slóðir sem ferðamaður og gista nokkrar nætur á hótelinu í hópi góðra kvenna: „Ég er búin að geta þetta núna 2 ár i röð og mæli með þessu.“

Leikurinn verður endurtekinn um komandi helgi með öðru námskeiði og eru þá 30 konur skráðar til leiks, sem allar koma frá Reykjavík.

annska@bb.is

 

Aflaverðmæti flotans minnkar milli ára

Í október 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa rétt um 11 milljarðar króna sem er samdráttur um 8% samanborið við október 2015. Verðmæti botnfiskafla nam rúmum 7,8 milljörðum og dróst saman um 16% frá fyrra ári. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam tæpum 5,4 milljörðum sem er tæplega hálfum milljarði minna en í október 2015. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar um aflaverðmæti íslenska flotans.

Verðmæti uppsjávarafla jókst hins vegar á milli ára, nam rúmum 2,5 milljörðum sem er 67% meira en í október 2015. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 40,5% og nam 520 milljónum króna í október. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 50,8% og nam 114 milljónum samanborið við rúmar 231 milljónir í október 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá nóvember 2015 til október 2016 var aflaverðmæti 137,1 milljarðar króna sem er 9,4% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti þorskafla stendur nokkurn veginn í stað á milli tímabila á meðan verðmæti annarra botnfisktegunda dróst saman um 6,5 milljarða. Verðmæti uppsjávartegunda dróst einnig saman á milli þessara 12 mánaða tímabila, vegur þar þyngst 7,8 milljarða samdráttur á verðmæti loðnuafla.

smari@bb.is

 

Segir bæinn verðlauna óbilgirni og ósanngirni hestamanna

Reiðvellir Hendingar (neðst á myndinni) fóru undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, gagnrýnir harðlega samkomulag Í-listans við Hestamannafélagið Hendingu. Hann segir að með samkomulaginu sé meirihlutinn að „verðlauna óbilgirni og ósanngirni forystumanna félagsins sem hafa staðið í vegi fyrir því að Ísafjarðarbær hafi getað samið við Vegagerðina um bætur fyrir völlinn.“

Á fundi bæjarráðs í morgun voru samþykktir viðaukar við fjárhagsáætlun vegna samkomulagsins sem lækka handbært fé bæjarins um 23 milljónir kr. á þessu ári. Samkomulagið er til komið vegna aðstöðumissis félagsins á Búðartúni í Hnífsdal en þar hafði Hending gert keppnisvelli sem fóru undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga.

Daníel lét bóka á fundinum að í desember hafi forsvarsmenn Hendingar neitað að skrifa undir þríhliða samkomulag við bæinn og Vegagerðina sem hefði tryggt bænum og þar með hestamannafélaginu 20 milljóna kr. greiðslu nema umræddur samningur yrði samþykktur jafnframt.

Daníel segir að Hendingarmenn hafi gert það sama árið 2014 þegar Ísafjarðarbær gerði félaginu skriflegt tilboð um að byggja í Engidal sambærilegan völl og var í Hnífsdal en því tilboði var aldrei svarað að sögn Daníels

„Með því að neita því að að greiða götu bæjarins í uppgjöri við Vegagerðina hafa þeir kostað bæinn umtalsvert fjármagn og sýnt óbilgirni sem hefði getað skaðað Ísafjarðarbæ, Hendingu og samfélagið hér. Að semja á þeim nótum sem nú liggur fyrir við forystumenn félagsins er óásættanlegt fyrir íbúa bæjarins og þau íþróttafélög sem fara eftir sameiginlegum reglum HSV og bæjarins.“

Samkvæmt samkomulaginu á að reisa reiðskemmu í Engidal sem verður í eigu Hendingar og Ísafjarðarbæjar. Í bókun Daníels er bent á að eftir sem áður eigi eftir að byggja alla útiaðstöðu félagsins og hann telur að kostnaður bæjarins hlaupi á milljónatugum króna.

„Í dag eru um 10-15 manns sem halda hesta á svæðinu og starfsemi hefur verið afar lítil s.l. ár. Því er ekki aðstöðuleysi einu um að kenna. Það að forgangsraða fjármagni í umrædda framkvæmd á sama tíma og er ekki hægt að fjármagna mörg önnur verkefni er óskynsamleg ráðstöfun skattfjár sem ég get ekki stutt.“

smari@bb.is

Þegar árið og jólin voru kvödd

Hér má nálgast upptökur af brennunni á Ísafirði á gamlárskvöld, þá var fjöldi fólks samankomin að kveðja árið, fallegur söngur og stórkostleg flugeldasýning.

Þingeyringar skemmtu sér saman á þrettándanum, sumir klæddir í búninga en hefð er fyrir því að börn gangi í hús á þrettándanum og þiggi góðgæti. Með þessari frétt fylgir myndband af skemmtun þeirra Dýrfirðinga og stutt myndbrot sem sýnir hvað gerist þegar drukkinn, miðaldra karlmaður hefur flugelda undir höndum. Má það teljast mikil lukka að ekki hlaust af stórtjón.

Og að lokum er upprifun úr BB sjónvarpi, upptaka af blysgöngu Flateyringa á gamlárskvöld 2012.

Brennan á Ísafirði

https://vimeo.com/201542449

 

Hættuspil á Þingeyri

https://vimeo.com/201668517

 

Úr safni BB sjónvarps, gamlárskvöld á Flateyri 2012

https://vimeo.com/56649613

 

bryndis@bb.is

 

338 þúsund íbúar

Alls bjuggu 338.450 manns á Íslandi, 171.110 karl­ar og 167.330 kon­ur, í lok síðasta árs. Lands­mönn­um fjölgaði um 840 á fjórða árs­fjórðungi. Á höfuðborg­ar­svæðinu bjuggu 216.940 manns en 121.500 utan þess, seg­ir í frétt á vef Hag­stofu Íslands.

Á 4. árs­fjórðungi 2016 fædd­ust 940 börn, en 590 ein­stak­ling­ar lét­ust. Á sama tíma flutt­ust 470 ein­stak­ling­ar til lands­ins um­fram brott­flutta, af þeim voru flest­ir á þrítugs­aldri (160). Aðflutt­ir ein­stak­ling­ar með ís­lenskt rík­is­fang voru 60 um­fram brott­flutta og var ald­urs­skipt­ing þeirra nokkuð jöfn. Aðflutt­ir er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar voru 410 fleiri en þeir sem flutt­ust frá land­inu og voru 150 af þeim á þrítugs­aldri.

Dan­mörk var helsti áfangastaður brott­fluttra ís­lenskra rík­is­borg­ara en þangað flutt­ust 140 manns á 4. árs­fjórðungi. Til Dan­merk­ur, Nor­egs og Svíþjóðar flutt­ust 300 ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar af 570 alls. Af þeim 1.700 er­lendu rík­is­borg­ur­um sem flutt­ust frá land­inu fóru flest­ir til Pól­lands, 690 manns.

Flest­ir aðflutt­ir ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar komu frá Dan­mörku (210), Nor­egi (170) og Svíþjóð (70), sam­tals 450 manns af 640. Pól­land var upp­runa­land flestra er­lendra rík­is­borg­ara en þaðan flutt­ust 800 til lands­ins af alls 2.110 er­lend­um inn­flytj­end­um. Lit­há­en kom næst, en þaðan flutt­ust 210 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar til lands­ins. Í lok fjórða árs­fjórðungs bjuggu 30.380 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar á Íslandi.

smari@bb.is

Brandari hjá Viðskiptaráði

Hrafnseyrarkirkja.

Viðskiptaráð bauð upp á brandara dagsins þegar það lagði til í síðustu viku að ríkið seldi kirkjuna á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Í bréfi sem Hreinn Þórðarson, formaður sóknarnefndar og Hallgrímur Sveinsson, fv. formaður sóknarnefndar, skrifa á Þingeyrarvefinn kemur fram að ríkissjóður eigi ekkert í krikjunni, „hvorki spýtu né nagla!“

Þá kemur einnig fram að kirkjan hafi verið í eigu Hrafnseyrarsafnaðarins frá því síðla árs árið 1910, þegar séra Böðvar Bjarnason sóknarprestur og kirkjuhaldari á Hrafnseyri afhenti söfnuðinum kirkjuna til eignar og varðveislu. Söfnuðurinn hafi síðan þá alfarið séð um kirkjuna og kirkjugarðinn sjálfur. Hrafnseyrarnefndin hafi stundum lagt hönd á plóg með viðhald á kirkju og garði á meðan hún starfaði.

smari@bb.is

Hvurra manna er Óttar Proppe

Óttar Proppe Mynd: Alþingi

Fyrst er innt eftir nafni en í kjölfarið eftir starfi og ætterni og ekki þykir okkur verra ef hægt er að tengja fyrirmenni vestur á firði. Það er skemmst að minnast fréttar um að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir innanríkisráðherra ætti ættir sínar að rekja á Vestfirði. Nú hefur vefur Reykhólasveitar rakið ættir Óttars Proppe heilbrigðisráðherra og komið hefur í ljós að Pétur afi Óttars var bróðir Kalla á Kambi. En Kalli á Kambi var landpóstur á leiðinni milli Króksfjarðarness og Brjánslækjar 1931-1946 og 1946-1952. Og á Kambi býr enn Kalli á Kambi, barnabarn landpóstsins Karls Árnasonar

Nánar má fræðast og ættir og uppruna Óttars á vef Reykhólahrepps.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir