Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2232

Hafsteinn í lokahóp U17

Hafsteinn Már Sigurðsson. Mynd af facebooksíðu blakdeildar Vestra

Hafsteinn Már Sigurðsson, 15 ára leikmaður Vestra var valinn í lokahóp U17 landsliðs drengja í blaki sem keppir á Evrópumóti í Búlgaríu um páskana. Gísli Steinn Njálsson frá Vestra er annar tveggja varamanna sem gætu verið kallaðir til ef eitthvað kemur upp á.

Gísli Steinn Njálsson. Mynd af facebooksíðu blakdeildar Vestra

Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal var valin sem varamaður í U16 ára lið stelpna en hún er aðeins nýorðin 13 ára og mjög efnilegur blakari. Stelpurnar keppa á Evrópumóti í Danmörku um páskana.

Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal. Mynd af facebooksíðu blakdeildar Vestra

Allir þessir krakkar æfa í Reykjavík um næstu helgi og svo fara 12 manna hóparnir sem mynda aðalliðin af landi brott í vikunni þar á eftir.

Bryndís

Undanúrslit í Laugardalshöll

Karlalið Vestra í blaki mun keppa í Kjörísbikarnum um næstu helgi. Allir Vestfirðingar sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að fjölmenna á leikinn sem verður í Laugardalshöllinni föstudaginn 7. apríl kl. 20. Þar mætir Vestri Aftureldingu í undanúrslitum og falli leikurinn okkur í hag er úrslitaleikur sunnudaginn 9. apríl kl. 14:00. Það má segja að liðið hafi komið, séð og sigrað í vetur og komu á dögunum heim með deildarbikarinn í 1. deild Íslandsmótsins þar sem sigur þeirra í deildinni var aldrei í hættu. Það getur því allt gerst á föstudaginn.

Þetta verður bikarhelgi hjá blaksambandinu þar sem spilaðir verða undanúrslitaleikir hjá bæði körlum og konum á föstudeginum og úrslitaleikirnir fara fram á sunnudeginum.

Blakdeild Vestra selur helgarpassa í forsölu fram til 4. apríl á kr. 4000 og rennur helmingurinn af upphæðinni til blakdeildarinnar.

Bryndís

 

Hættir afhendingu bóluefna

Umboðsmaður Alþingis telur að vinnubrögð Matvælastofnunar við afhendingu bóluefnis til fiskeldisfyrirtækja orki tvímælis og undirbúa yfirdýralæknir og dýralæknir fisksjúkdóma nýtt ferli. Hingað til hefur dýralæknir fisksjúkdóma útvegað fiskeldisfyrirtækjum bóluefni og þegið fyrir það þóknun og þar með hugsanlega orðin vanhæfur til ráðgjafar vegna til dæmis umsókna um aukið eldi.

Forsaga málsins er sú Umboðsmanni Alþingis barst kvörtun frá Landssambandi veiðifélaga þar sem kvartað var yfir svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við erindi félagsins sem fól í sér beiðni um að Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði yrði lokað fyrir fyrir eldi á frjóum norskum eldislaxi. Kvörtunin laut m.a. að aðkomu dýralæknis fisksjúkdóma að svari ráðuneytisins en landssambandið taldi hann vanhæfan til að koma að málinu.

Viðbrögð Matvælastofnunar eru eins og áður sagði að breyta þessu vinnulagi og Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hefur ákveðið að hætta að afhenda bóluefni til seiðaeldisstöðva.

Fjallað var um málið í fréttum Rúv í gærkvöldi og í kvöld mun kastljósinu vera beint að fiskeldi.

Bryndís

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi flutning

Mariann við flygilinn í Hörpu.

Fulltrúar Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarskóla Bolungarvíkur stóðu sig með miklum sóma á lokahátíð Nótunnar í Eldborgarsal Hörpu í gær. Flutningur Mariann Rähni úr Tónlistarskóla Bolungarvíkur á vals í e-moll ef Frédéric Chopin var eitt tíu atriða sem fengu sérstaka viðurkenningu og verðlaunagrip fyrir framúrskarandi flutning á Nótunni. Dómnefnd Nótunnar verðlaunaði einnig söng Arons Ottós Jóhannssonar á Ol‘ Man River eftir Roger og Hammerstein en meðleikari hans var Pétur Ernir Svavarsson. Þeir hafa báðir numið við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Anya Hrund Shaddock vann aðalverðlaunin og telst handhafi Nótunnar 2017. Hún flutti píanóverkið Clair de lune eftir Claude Debussy. Anya er nemandi í Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar.

Nótan er uppskeruhátið tónlistarskóla landsins og var nú haldin í sjötta sinn.

Tekur 35 milljóna króna lán

Hólmavík í Strandabyggð. Mynd: Jón Jónsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að taka 35 milljóna kr. lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga.  Lánið er tekið til að  fjármagna viðbyggingu við leikskóla, endurbætur við grunnskóla, framkvæmdir við hitaveitu og lagningu ljósleiðara. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins samanber heimild í sveitarstjórnarlögum. Lánið er með lokagjalddaga árið 2034.

Gáfu tvö hjúkrunarrúm

Sifjarkonur með Guðrúnu heiðursfélaga kvenfélagsins.

Félagskonur Kvenfélagsins Sifjar afhentu Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði tvö hjúkrunarrúm á föstudaginn. Af því tilefni heilsuðu þær upp á heiðursfélaga Kvenfélagsins, Guðrúnu Halldórsdóttur en hún fékk annað rúmið til afnota. Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði vill koma á framfæri þakklæti til kvenfélagsins fyrir höfðinglega gjöf.

Mótmæla áformum Arnarlax

Veiði- og stangveiðifélög við Eyjafjörð, átta talsins, mótmæla harðlega áætlun Arnarlax ehf. á Bíldudal um framleiðslu á 10.000 tonnum af frjóum eldislaxi af norsku kyni í Eyjafirði, en Arnarlax gaf nýlega út drög tillögu að matsáætlun sjókvíaeldis í firðinum. Nái hún fram að ganga gætu orðið að jafnaði fimm milljónir frjórra laxa í sjókvíum í Eyjafirði. Augljós hætta stafar af slíku eldi fyrir veiðiár í Eyjafirði sem og náttúruna í heild, segir í tilkynningu félaganna. Þar segir jafnframt að viðurkennt sé að einn lax sleppi fyrir hvert tonn af laxi sem framleitt er. Samkvæmt því munu um 10.000 laxar sleppa úr kvíum Arnarlax í Eyjafirði á hverju ári sem er tíu til tuttugufalt fleiri laxar en ganga í Fnjóská á hverju ári. Líkurnar á því að laxastofninn í Fnjóská þoli slíkt álag frá framandi stofni eru engar. „Þá stefnir þetta eldi einnig öðrum ám í verulega hættu. Má þar nefna Laxá í Aðaldal, Skjálfandafljót, Fljótaá, Blöndu, Vatnsdalsá og Víðidalsá.“ Veiði- og stangveiðifélögin í Eyjafirði hvetja stjórnvöld til að hafna þessum áformum. Jafnframt hvetja þau sveitarfélög, veiðifélög, smábátasjómenn, veiðimenn og náttúruunnendur til að mótmæla þessum áformum á öllum stigum. „Fram undan er hörð barátta til verndar náttúrunni í Eyjafirði,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

Keyrði undir áhrifum fíkniefna

Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá var í akstri á Patreksfirði um miðjan dag þann 29. mars. Þetta kemu fram í yfirliti lögreglunnar á Vestfjörðum um verkefni síðustu viku. Þrír ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Þeir voru allir í akstri í Strandasýslu.

Númeraplötur voru teknar af einu ökutæki á Ísafirði. En vanrækt hafði verið að færa það til reglulegrar skoðunar.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma meðan á akstri stóð, án þess að nota handfrjálsan búnað. Einn þessara ökumanna var ekki með öryggisbelti spennt. Þá voru aðrir tveir ökumenn kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti. Þessir ökumenn voru í akstri á Ísafirði, Bolungarvík og í Súðavík.

Lögreglan mun áfram gefa þessum öryggisþáttum sérstakan gaum. Ástæða er til að hvetja ökumenn til að einbeita sér að akstrinum og ef nota þarf farsíma meðan á akstri stendur, nota þá handfrjálsan búnað. Þá eru ökumenn og ekki síður farþegar hvattir til að nota öryggisbeltin eins og lög kveða á um.

Má vera berbrjósta í sundi

Bikini, burkini eða bara skýla

Ekki er lagalegur grundvöllur fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð. Þetta er álit Unnars Steins Bjarndals hæstaréttarlögmanns en íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar fékk hann til að fjalla um þetta mál. Ráðið tók undir niðurstöðu Unnars á fundi þess í febrúar og lagði til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að ekki verði farið gegn álitinu. Tilefni álitsgerðarinnar var mikil umræða um það í samfélaginu hvort fyrir hendi séu reglur, skráðar eða óskráðar, sem gilda um klæðaburð sundlaugargesta. Fyrr á árinu kom upp atvik þar sem berbrjósta konu var vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi. Haft var eftir forstöðumanni íþróttamannvirkja á Akranesi að engar starfsreglur lægju fyrir um hvernig bregðast skyldi við slíkum atvikum. Í gildi væri óskráð meginregla í sveitarfélaginu um að konur þyrftu að klæðast bikinítopp. Þetta kemur fram í frétt á ruv.is í gær.

Ekki liggur fyrir hvað reglur gilda í Sundlaugum Ísafjarðarbæjar eða Bolungarvíkur hvað þetta varðar. Engu að síður virðist aðgerðarhópur vestfirskra kvenna hafa fjölmennt í Sundhöll Ísafjarðar berar að ofan og haft var eftir ábyrgðarkonu aðgerðanna að karlmönnum yrði tekið fagnandi. Þetta kom fram á bb.is þann 1. apríl 2015

bryndis@bb.is

 

Þjóðaratkvæði um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Átján þingmenn úr fjórum flokkum, Sjálfstæðisflokknum, Pírötum, Framsóknarflokknum og Vinstri grænum, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um framtíð Reykjavíkurflugvallar en staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni hefur lengi verið umdeild.
Lagt er til að eftirfarandi spurning verði borin upp:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík?” og svarmöguleikar gefnir „já“ eða „nei“.

Þingsályktunartillagan er endurflutt frá síðasta löggjafarþingi en flutningsmenn voru þá Ögmundur Jónasson ásamt fleirum. Fjórir þingmenn Norðvesturkjördæmis eru meðal flutningsmanna tillögunnar nú, þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Ela Lára Arnardótttir.

Samkvæmt greinargerð með þingsályktunartillögunni er markmið hennar að þjóðin fái að hafa áhrif á staðsetningu miðstöðvar innanlands- og sjúkraflugs í náinni framtíð. Þar er einnig sagt ljóst að flugvöllurinn og staðsetning hans gegni mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning.

smari@bb.is

 

Nýjustu fréttir