Þrátt fyrir að álagningarprósenta fasteignaskatts sé í hæstu hæðum í Ísafjarðarbæ segir Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri að þegar fasteignaskattar séu bornir saman, komi í ljós að Ísafjarðarbær er í 52. sæti þegar kemur að álagningu fasteignaskatts á hvern íbúa. Fasteignaskattur á hvern á íbúa Ísafjarðarbæjar er kr. 70.049 og er það innan við 50% af meðaltali allra sveitarfélaga landsins, en meðaltalið árið 2016 er kr. 152.322. Í þessum tölum eru allir fasteignaskattar taldir saman, þeir sem eru lagðir á íbúðarhúsnæði, opinbert húsnæði og atvinnuhúsnæði.
Fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaganna og er lagður árlega á flestar fasteignir í landinu. A-skattur er lagður á íbúðarhúsnæði og getur verið allt að 0,5% af fasteignamati. B-skattur er lagður á ýmsar opinberar byggingar og er 1,32% af fasteignamati. C-skattur er lagður á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði sem ekki fellur undir A- eða B-skatt og getur verið allt að 1,32% af fasteignamati.
Ísafjarðarbær innheimtir hæstu leyfilegu fasteignaskatta
Sveitarstjórnum er heimilt að hækka álagningu A- og C-skatta um allt 25%. Hámarksálagning A-skatts er þá 0,625% og C-skatts 1,65%. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur nýtt sér þessa heimild og innheimtir hæstu mögulegu fasteignaskatta og er eitt sjö sveitarfélaga á landinu sem innheimta hámarksskatta á íbúðarhúsnæði – auk Ísafjarðarbæjar er eitt annað sveitarfélag á Vestfjörðum með álagningarprósentuna í botni en það er Árneshreppur.
Fimmtungshækkun
Íbúum Ísafjarðarbæjar brá mörgum í brún er þeir fengu álagningarseðil fasteignagjalda þessa árs. Dæmi eru um að þau hækki um 20% milli ára.
„Mér er kunnugt um fólk sem býr við mikla hækkun fasteignaskatts á þessu ári, hjá sjálfum mér nemur þessi hækkun 19,7% og stafar eingöngu af hækkun fasteignamats. Fasteignaskattur hefur þann galla eins og eignarskattar almennt að þó að verðgildi eignar aukist þarf það ekki að þýða tekjuaukningu fyrir eigandann. Við fólk sem lendir í svona miklum hækkunum er ekkert hægt að segja annað en að eign þeirra hefur aukist að verðgildi á sama tíma. Það eru reyndar góðar fréttir fyrir framþróun sveitarfélagsins að fasteignamat hækki, en það hefur verið lengi verið of lágt til að hægt sé að byggja eða fá sannvirði fyrir eignir fólks,“ segir Gísli Halldór.
Segir margt vinna gegn lægri sköttum
Bænum er að sjálfsögðu frjálst að lækka álagningarprósentuna en Gísli Halldór segir ýmsa þætti vinna gegn því að prósentan sé lægri en raun ber vitni. Hann nefnir lægra fasteignamat í Ísafjarðarbæ en í mörgum sveitarfélögum og langt undir fasteignamati sem tíðkast á suðvesturhorninu. Lítið er um risavaxnar fasteignir og stórfyrirtæki sem borga mikla fasteignaskatta. Þá taki það verulega í að reka sveitarfélag þar sem íbúum fækkar líkt og reyndin hefur verið í Ísafjarðæ og enn er eftirspurn eftir aukinni þjónustu sveitarfélagsins – umfram þá sem nú er veitt. Þannig er t.d. mikill þrýstingur frá foreldrum ungra barna að veitt verði leikskólaþjónusta til barna frá 12 mánaða aldri.
Aðstöðumunur sveitarfélaga mikill
Gísli Halldór segir að aðstöðumunur sveitarfélaga sé afskaplega mikill þegar kemur að fasteignagjöldum og bendir á að Reykjavíkurborg fær 76% meiri fasteignaskatt per íbúa heldur en Ísafjarðarbær. Það skýrist það að stórum hluta af muni á fasteignamati, en einnig af af gríðarlegum umsvifum hins opinbera í Reykjavík sem og höfuðstöðvum stórra fyrirtækja. En þegar einungis er borin saman fasteignaskattur sem er lagður á einstaklinga dekkist myndin fyrir Ísafjarðarbæ, en álagning fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði er 27.918 kr. per íbúa í Reykjavík en 34.000 kr. í Ísafjarðarbæ.
Gísli Halldór setur stórt spurningarmerki við að fasteignaskattar séu yfirhöfuð burðarstoð í rekstri sveitarfélaga og bendir á sveitarfélög eins og Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp og Fljótsdalshrepp sem eru „svo heppin að fá risavaxin hálfopinber verkefni inn í fámenn sveitarfélög.“
„Munurinn verður síðan enn svakalegri þegar maður skoðar sveitarfélög eins og Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp og síðast en ekki síst Fljótsdalshrepp sem eru svo heppin að fá risavaxin hálfopinber verkefni inn í fámenn sveitarfélög. Það má þess vegna setja stórt spurningarmerki við það að þessi skattur sé yfirhöfuð burðarstoð í rekstri sveitarfélaga,“ segir Gísli Halldór. Fljótsdalshreppur innheimti 1,6 milljón kr. í fasteignaskatta per íbúa á síðasta ári og langstærsti hlutinn kemur vegna fasteignagjalda af Kárahnjúkavirkjun.
smari@bb.is