Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2231

Framtíðarhúsnæði fyrir söfnin uppfyllir ekki kröfur

Byggðasafn Vestfjarða hefur sagt upp samningi við Ísafjarðarbæ um leigu á geymsluhúsnæði í Norðurtanganum á Ísafirði. „Það meðal annars vantar brunavarnarkerfi, það er enginn neyðarútgangur og þetta eru algjörar vanefndir á því sem talað var um og fullnægir því ekki kröfum safnsins,“ segir Jón Sigurpálsson, forstöðumaður Byggðasafnsins en einungis lítill hluti af eigum safnsins var kominn í geymslu í Norðurtanganum.

Sumarið 2015 gerði Ísafjarðarbær samkomulag við fyrirtækið,Hraðfrystihúsið Norðurtanga ehf. um 10 ára leigu á Norðurtanganum undir geymslur fyrir skjala- ljósmynda og listaverkasöfn bæjarins auk Byggðasafnsins.

Jóni er ekki kunnugt um hvort hin söfnin flytji inn í húsið.

Ákvörðun um 10 ára leigusamning Ísafjarðarbæjar við Hraðfrystihúsið Norðurtanga ehf. var tekin í miklum ágreiningi milli meiri- og minnihluta bæjarstjórnar, líkt og flestum er líklega í fersku minni.

smari@bb.is

 

Söngur hefur gríðarlega góð áhrif á sálina

Aron Ottó vann til fyrstu verðlauna í Vox Domini

Aron Ottó Jóhannsson nemandi við Menntaskólann á Ísafirði sigraði á sunnudag í miðstigsflokki í söngkeppninni Vox Domini líkt og greint var frá hér á vefnum í gær. Aron Ottó segist í sjöunda himni með sigurinn, hann segir þó byrjun síðustu umferðar í keppninni hafa verið eilítið taugatrekkjandi: „Ég var með fyrsta atriðið og steig fyrstur á svið í síðustu umferð keppninnar. það var frekar stressandi að vera fyrstur á svið. en ég hugsaði um það frekar eins og að rífa af sér plástur, betra að ljúka því sem fyrst af.“

Aron Ottó hefur náð gríðarlega góðum árangri í söngnum og þykir hann hafa einstaklega fallega bassarödd, en einungis er um eitt og hálft ár frá því er hann hóf söngnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Vox Domini, var nú haldin í fyrsta sinn en það er FÍS, Félag íslenskra söngkennara sem fyrir henni stendur og er ætlunin að keppnin verði haldin árlega. Aron Ottó ber keppninni vel söguna: „Þátttakan í keppninni var skemmtileg upplifun. Þetta var eitthvað algjörlega nýtt fyrir mig, og ólíkt öllu því sem ég hef gert áður. Baksviðs var að finna allskonar frábæra söngvara frá öllum landshornum; bassa,  tenóra og sópran söngkonur, söngvara af öllu stærðum og gerðum.“

Aðspurður um hvað söngurinn geri fyrir hann stendur ekki á svari hjá bassasöngvaranum unga: „Ég myndi segja að söngur hafi gríðarlega góð áhrif á sálina, söngur er frelsandi.“

annska@bb.is

Fjögur þúsund tonna útskipun

Fyrsta útskipun ársins fór fram í gær hjá Íslenska kalkþörungafélaginu á Bíldudal þegar fjögur þúsund tonnum af kalkþörunngum var skipað um borð í flutningaskipið Wilson Huelva. Héðan sigldi skipið áleiðis til hafnarborgarinnar Castletownbere á Írlandi þar sem hluta farmsins verður skipað á land, áður en skipið heldur áfram til Lorient í Bretáníu í Frakklandi þar sem restinni verður skipað upp.

smari@bb.is

Dregist um rúma öld að þinglýsa

Hrafnseyrarkirkja.

Viðskiptaráð áréttar að skráður eigandi Hrafnseyrarkirkju sé samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Ríkissjóður Íslands. Hrafnseyrarnefnd er skráð sem umráðandi kirkjunnar en þinglýstur eigandi hennar er íslenska ríkið. Tilefni tilkynningar Viðskiptaráðs er yfirlýsing fyrrverandi og núverandi formanns sóknarnefndar Hrafneyrarkirkju um tillögu Viðskiptaráð um að ríkið selji tuttugu kirkjur, þar á meðal Hrafnseyrarkirkju. „Þetta verður að kalla brandara dagsins, því ríkissjóðurinn okkar á ekkert í Hrafnseyrarkirkju og hefur aldrei átt. Hvorki spýtu né nagla,“ segir í bréfi formannanna.

Á vef Viðskiptaráðs segir:

„Í tilkynningu formannanna er fullyrt að árið 1910 hafi sóknarpresturinn á Hrafnseyri afhent Hrafnseyrarsöfnuði kirkjuna til eignar og varðveislu. Þessari afhendingu hefur ekki ennþá verið þinglýst. Því má spyrja sig hvort hinn eiginlegi brandari sé sá að Hrafnseyrarsöfnuður hafi á 107 árum ekki haft tíma til að ganga frá þessari þinglýsingu.“

Fyllsta öryggis gætt á flugeldasýningu

Í gær birtist frétt á bb.is um áramóta og þrettándagleði og því miður fór fréttamaður með fleipur sem er bæði rétt og skylt að leiðrétta. Í myndbrotinu af brennunni á Ísafirði sést þegar flugeldi springur í haffletinum og dró fréttamaður þá röngu ályktun að um mistök hefðu verið að ræða. Nú hafa forsvarsmenna Björgunarfélags Ísafjarðar sem sáu um flugeldasýninguna upplýst að um var að ræða flugelda sem skotið er meðfram haffleti og springa þar, svokallaðar vatnabombur.

bryndis@bb.is

Veruleg fjölgun gistinátta

Gistinætur á hótelum í desember voru 287.400 sem er 56% aukning ef tekið er mið af desember 2015. Gistinætur erlendra gesta voru 90% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 59% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 10%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Í talnaefni Hagstofunnar eru gistinætur á Vesturlandi og Vestfjörðum taldar saman og þeim fjölgaði um 91% milli ára, þ.e. þegar desember 2015 er borin saman við desember 2016. Á tólf mánaða tímabili frá janúar 2015 til desember 2016 fjölgaði gistinóttum á svæðinu um 38% samanborið við sama tímabil árin áður.
Flestar gistinætur á hótelum í desember voru á höfuðborgarsvæðinu eða 213.000 sem er 44% aukning miðað við desember 2015. Um 74% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 37.800. Erlendir gestir með flestar gistinætur í desember voru Bretar með 89.700 gistinætur, Bandaríkjamenn með 65.900 og Þjóðverjar með 15.800, en íslenskar gistinætur í desember voru 28.200,“ segir meðal annars í fréttinni.

Herbergjanýting í desember 2016 var 63,6% sem er aukning um 16,8 prósentustig, þegar hún var 46,8 prósent. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu eða um 84,5 prósent.

Meðalnýting hótelherbergja árið 2016 var 71,3% sem er aukning um 7,4 prósentustig frá árinu 2015, þegar meðalnýting var 63,9%.

smari@bb.is

Ásrós Helga og Katla Vigdís sungu til sigurs

Katla Vigdís og Ásrós Helga sungu til sigurs. Mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Samvest undankeppnin fyrir söngkeppni félagsmiðstöðva, fór fram í Grunnskólanum á Ísafirði í síðustu viku. Tólf atriði frá norðanverðum Vestfjörðum kepptu þar um að komast í söngkeppni Samfés sem fram fer í Reykjavík helgina 24. – 26. mars. Sigur úr býtum báru þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir úr Grunnskólunum á Suðureyri og Þingeyri, en þær fluttu lagið Big Jet Plane eftir Angus og Julie Stone. Þessi reynsla, frumsamið rapplag þeirra Dagbjartar Óskar Jóhannsdóttur, Rakelar Damilola Adeleye og Helenu Haraldsdóttur í flutningi þeirra varð í öðru sæti. Í 3. sæti urðu Ólöf Einarsdóttir, Hlynur Ingi Árnason, Árný Margrét Sævarsdóttir og Ísabella Rut Benediktsdóttir úr G.Í. með lagið Little Talks eftir hljómsveitina Of Monsters and Men. Dómarar í keppninni voru Dagný Hermannsdóttir, Málfríður Hjaltadóttir og Benedikt Sigurðsson.

Söngkeppni Samfés hefur verið mikilvægur viðburður í starfi Samfés allt frá stofnun samtakanna árið 1985. Á Söngkeppninni gefst unglingum kostur á að koma fram og syngja fyrir framan jafnaldra sína af landinu öllu og hafa fjölmargir í gegnum tíðina þar stigið sínu fyrstu skref á söngsviðinu. Í núverandi skipulagi komast þrjátíu atriði í lokakeppnina að undangengnum forkeppnum í hverjum landshluta. Veitt eru verðlaun fyrir efstu sætin en sérstök aukaverðlaun eru veitt fyrir besta íslenska textann sem saminn er af unglingi.

annska@bb.is

Fiskeldið snýr við byggðaþróuninni

Einar Kristinn Guðfinnson

Jákvæð áhrif af uppbyggingunni í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum hafa nú þegar  komið glögglega í ljós. Í stað stöðugrar áralangrar fólksfækkunar hefur íbúum fjölgað síðustu árin í kjölfar þeirrar miklu uppbyggingar í fiskeldi sem orðið hefur í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Á sama tíma hefur verið fólksfækkun annars staðar á Vestfjörðum, þar sem ekki nýtur álíka fiskeldisuppbyggingar;  – ennþá.

Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar Atvinnutekjur 2008 – 2015 eftir atvinnugreinum og svæðum, sem út kom 19. desember sl.

Fólksfjölgun í stað fækkunar

Frá árinu 1994 til 2011 fækkaði íbúum á Bíldudal um tæp 45%, á Patreksfirði um tæp 27% en minnst á Tálknafirði um tæp 17%. Á sama tíma fækkaði íbúum hægar á norðanverðum Vestfjörðum, t.d. um 16% á Ísafirði. Þetta kemur fram í samantekt Byggðastofnunar.

Nú hefur þetta snúist við. Á árunum 2008 til 2015 fjölgaði íbúum í Vesturbyggð um 9%, en íbúum í Ísafjarðarbæ fækkaði um 8,9%. Alls fækkaði á Vestfjörðum um 4,9%. Þessi viðsnúningur á sunnanverðum Vestfjörðum  á sér stað vegna uppbyggingarinnar í fiskeldi.

Ljóst má vera að án tilkomu fiskeldisins, hefði íbúaþróunin á Vestfjörðum í heild orðið  enn neikvæðari en raunin varð. Þannig má sjá að fyrir daga fiskeldisins fækkaði íbúum hvað mest á sunnanverðum Vestfjörðum. Því má ætla að ef fiskeldið hefði ekki komið til, hefði íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum fækkað a.m.k. hlutfallslega jafn mikið og raunin varð sums staðar annars staðar á Vestfjörðum. Þannig er ekki  ólíklegt, miðað við þróunina fram að fiskeldisuppbyggingunni, hefði á sunnanverðum Vestfjörðum orðið um 10% fækkun. En raunin varð önnur – þökk sé fiskeldinu; það varð nær 10% fjölgun á svæðinu.

Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva

Mikill aðstöðumunur fólginn í fasteignasköttum

Gísli Halldór Halldórsson.

Þrátt fyrir að álagningarprósenta fasteignaskatts sé í hæstu hæðum í Ísafjarðarbæ segir Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri að þegar fasteignaskattar séu bornir saman, komi í ljós að Ísafjarðarbær er í 52. sæti þegar kemur að álagningu fasteignaskatts á hvern íbúa. Fasteignaskattur á hvern á íbúa Ísafjarðarbæjar er kr. 70.049 og er það innan við 50% af meðaltali allra sveitarfélaga landsins, en meðaltalið árið 2016 er kr. 152.322. Í þessum tölum eru allir fasteignaskattar taldir saman, þeir sem eru lagðir á íbúðarhúsnæði, opinbert húsnæði og atvinnuhúsnæði.

Fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaganna og er lagður árlega á flestar fasteignir í landinu. A-skattur er lagður á íbúðarhúsnæði og getur verið allt að 0,5% af fasteignamati. B-skattur er lagður á ýmsar opinberar byggingar og er 1,32% af fasteignamati. C-skattur er lagður á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði sem ekki fellur undir A- eða B-skatt og getur verið allt að 1,32% af fasteignamati.

Ísafjarðarbær innheimtir hæstu leyfilegu fasteignaskatta

Sveitarstjórnum er heimilt að hækka álagningu A- og C-skatta um allt 25%. Hámarksálagning A-skatts er þá 0,625% og C-skatts 1,65%. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur nýtt sér þessa heimild og innheimtir hæstu mögulegu fasteignaskatta og er eitt sjö sveitarfélaga á landinu sem innheimta hámarksskatta á íbúðarhúsnæði – auk Ísafjarðarbæjar er eitt annað sveitarfélag á Vestfjörðum með álagningarprósentuna í botni en það er Árneshreppur.

Fimmtungshækkun

Íbúum Ísafjarðarbæjar brá mörgum í brún er þeir fengu álagningarseðil fasteignagjalda þessa árs. Dæmi eru um að þau hækki um 20% milli ára.

„Mér er kunnugt um fólk sem býr við mikla hækkun fasteignaskatts á þessu ári, hjá sjálfum mér nemur þessi hækkun 19,7% og stafar eingöngu af hækkun fasteignamats. Fasteignaskattur hefur þann galla eins og eignarskattar almennt að þó að verðgildi eignar aukist þarf það ekki að þýða tekjuaukningu fyrir eigandann. Við fólk sem lendir í svona miklum hækkunum er ekkert hægt að segja annað en að eign þeirra hefur aukist að verðgildi á sama tíma. Það eru reyndar góðar fréttir fyrir framþróun sveitarfélagsins að fasteignamat hækki, en það hefur verið lengi verið of lágt til að hægt sé að byggja eða fá sannvirði fyrir eignir fólks,“ segir Gísli Halldór.

Segir margt vinna gegn lægri sköttum

Bænum er að sjálfsögðu frjálst að lækka álagningarprósentuna en Gísli Halldór segir ýmsa þætti vinna gegn því að prósentan sé lægri en raun ber vitni. Hann nefnir lægra fasteignamat í Ísafjarðarbæ en í mörgum sveitarfélögum og langt undir fasteignamati sem tíðkast á suðvesturhorninu. Lítið er um risavaxnar fasteignir og stórfyrirtæki sem borga mikla fasteignaskatta. Þá taki það verulega í að reka sveitarfélag þar sem íbúum fækkar líkt og reyndin hefur verið í Ísafjarðæ og enn er eftirspurn eftir aukinni þjónustu sveitarfélagsins – umfram þá sem nú er veitt. Þannig er t.d. mikill þrýstingur frá foreldrum ungra barna að veitt verði leikskólaþjónusta til barna frá 12 mánaða aldri.

Aðstöðumunur sveitarfélaga mikill

Gísli Halldór segir að aðstöðumunur sveitarfélaga sé afskaplega mikill þegar kemur að fasteignagjöldum og bendir á að Reykjavíkurborg fær 76% meiri fasteignaskatt per íbúa heldur en Ísafjarðarbær. Það skýrist það að stórum hluta af muni á fasteignamati, en einnig af af gríðarlegum umsvifum hins opinbera í Reykjavík sem og  höfuðstöðvum stórra fyrirtækja. En þegar einungis er borin saman fasteignaskattur sem er lagður á einstaklinga dekkist myndin fyrir Ísafjarðarbæ, en álagning fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði er 27.918 kr. per íbúa í Reykjavík en 34.000 kr. í Ísafjarðarbæ.

Gísli Halldór setur stórt spurningarmerki við að fasteignaskattar séu yfirhöfuð burðarstoð í rekstri sveitarfélaga og bendir á sveitarfélög eins og Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp og Fljótsdalshrepp sem eru „svo heppin að fá risavaxin hálfopinber verkefni inn í fámenn sveitarfélög.“

„Munurinn verður síðan enn svakalegri þegar maður skoðar sveitarfélög eins og Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp og síðast en ekki síst Fljótsdalshrepp sem eru svo heppin að fá risavaxin hálfopinber verkefni inn í fámenn sveitarfélög. Það má þess vegna setja stórt spurningarmerki við það að þessi skattur sé yfirhöfuð burðarstoð í rekstri sveitarfélaga,“ segir Gísli Halldór. Fljótsdalshreppur innheimti 1,6 milljón kr. í fasteignaskatta per íbúa á síðasta ári og langstærsti hlutinn kemur vegna fasteignagjalda af Kárahnjúkavirkjun.

smari@bb.is

MÍ hafði betur gegn VA

Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson, Ína Guðrún Gísladóttir og Veturliði Snær Gylfason klár í slaginn

Keppnislið Menntaskólans á Ísafirði vann góðan sigur á liði Verkmenntaskólans á Austurlandi í fyrstu umferð Gettu Betur í gærkvöldi. Liðin tvö voru þau fyrstu sem mættust þetta árið og var MÍ með yfirhöndina allan tímann, en lokatölur voru 24-18. Lið MÍ skipa þau; Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Veturliði Snær Gylfason og þjálfari liðsins er Ingunn Rós Kristjánsdóttir málfinnur skólans. Liðið er nú komið í síðari umferð  keppninnar á Rás 2, sem fer fram dagana 6. og 7.febrúar.

Spyrill Gettu betur er Björn Bragi Arnarson, spurningahöfundar og dómarar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson og þeim til aðstoðar er Björn Teitsson.

annska@bb.is

 

Nýjustu fréttir