Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2231

„Það sem Bandaríkin, hafið og öll hin löndin kenndu mér“

Edward Huijbens er prófessor við Háskólann á Akureyri.

Háskólasetur Vestfjarða býður upp á skemmtilegan hádegisfyrirlestur miðvikudaginn  5. apríl þar sem Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, mun segja ferðasögu sína og fjölskyldu sinnar haustið 2016, en þau dvöldu eina námsönn á farþegaskipi sem er einskonar fljótandi háskólasamfélag. Fyrirlesturinn nefnid Edward Á sjó … Það sem Bandaríkin, hafið og öll hin löndin kenndu mér.

Fjölskyldan lagði 18.000 sjómílur að baki, heimsótti 12 lönd og fimm af heimshöfunum sjö í 24.000 tonna skipi sem Institute of Shipborne Education rekur í Bandaríkjunum. Með í för voru um 600 háskólanemar og úr varð fljótandi háskóli sem margt má læra af. Erindið mun þætta saman við ferðasöguna pælingar um ferðamál, persónulegan lærdóm Edwards og hvað háskólasamfélagið getur lært af fljótandi háskóla hafanna.

Erindi Edwards er í léttum dúr og öllum aðgengilegt og eru allir þeir sem áhuga hafa, hvattir til að mæta. Að vanda fara hádegisfyrirlestrar Háskólaseturs fram í kaffistofu setursins. Erindið er flutt á íslensku og stendur frá 12.10-13.00.

Samið við Kubb um gerð aurvarnargarðs

Núverandi flóðafarvegur ofan Hjallavegs.

Eitt tilboð barst í gerð aurvarnargarðs ofan Hjallavegs á Ísafirði og var það frá Kubbi ehf. á Ísafirði. Tilboðið hljóðaði upp á 63 milljónir króna. Tilboðið reyndist hærra en kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins sem hljóðar upp 56 milljónir króna. Ákvörðun hefur verið tekin að ganga til samningar við Kubb.

Auvarnargarðurinn verður 650 m langur. Í fyrri áfanga, árið 2011, var nyrðri hluti garðsins formaður og eru nú um 170 m eftir af gerð hans. Þó á enn eftir að gera stóran hluta af farveginum í nyrðri hlutanum. Í verkinu felst einnig að leggja um 570 m langan vegslóða eftir botni flóðafarvegar og meðfram vegslóðanum skal gera lækjarfarveg. Jafnframt lagning um 170 m af göngustígum sem eftir er að leggja, mótun skeringa flóðmegin við garða og frágangur. Aurvarnargarðurinn gegnir því hlutverki að stöðva grjót og verður um 5 m á hæð þ.e. frá botni í flóðafarvegi og upp á topp garðs. Garðurinn er 1,5 m breiður í toppinn og breidd flóðafarvegar í botninn er um 4 m. Í garðinn þarf nú um 7 þús. m3 efnis. Magnið sem kemur upp úr farveginum er hins vegar um 23 þús. m3. Umframefni skal ekið á tipp í Grænagarðsnámu um vegslóða ofan varnargarða sem þegar hafa verið byggðir ofan byggðar á Ísafirði, neðan Gleiðarhjalla. Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 31. október 2017.

Tónleikar til heiðurs Cohen

Svokallaðir tribute- eða heiðurstónleikar hafa verið að ryðja sér til rúms í auknum mæli hin síðustu ár og taka tónlistarmenn sig þá til og heiðra listamenn lífs eða liðna með flutningi á verkum þeirra. Nú fer um landið hljómsveit sem minnist söngvarans og söngvaskáldsins Leonards Cohen á tónleikum sem kallast Leonard Cohen: A Memorial Tribute og mun hljómsveitin spila á tónleikum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á laugardagskvöldið.

Kanadíski söngvarinn og skáldið Leonard Cohen lést á síðasta ári, þá 82ja ára að aldri og skilur hann eftir sig mikið af tónlist, sem hann gaf út á tæplega 50 ára ferli sínum sem tónlistarmaður og ber þar sennilega hæst lag hans Hallelujah, sem hefur fengið að hljóma í ófáum söng- og hæfileikakeppnum svo einhver dæmi séu tekin.

Heiðurshljómsveitina sem spilar í Edinborgarhúsinu skipa þau: Daníel Hjálmtýsson sem sér um söng og gítarleik, Benjamín Náttmörður Árnason, sem einnig spilar á gítar og sér um bakraddir, Magnús Jóhann Ragnarsson sem spilar á hljómborð, hljóðgervla og orgel, Pétur Daníel Pétursson sem sér um trommur og slagverk, Snorri Örn Arnarsson sem spilar á bassa, Ísold Wilberg Antonsdóttir og Guðrún Ýr Eyfjörð sem sjá um söng og bakraddir.

Tónleikaröð sveitarinnar hófst með beinni útsendingu úr Stúdíó 12 á Rás 2 og tónleikum á Græna Hattinum þann 3.febrúar sl. Seldist í kjölfarið upp á tónleika sveitarinnar á Café Rosenberg sem haldnir voru í febrúar og einnig verða þau að spila þar á föstudagskvöldið og er þegar uppselt á þá tónleika. Tónleikarnir verða sem áður segir á laugardagskvöldið og hefjast þeir klukkan 22, miðasala fer fram á miðasöluvefnum tix.is

annska@bb.is

Afla­verðmæti ekki minna síðan 2010

Aflaverðmæti íslenskra skipa á öllum veiðisvæðum nam 133 milljörðum króna í fyrra og dróst saman um 12,1% frá fyrra ári. Samdráttinn má að langmestu leyti skrifa á gengisþróun krónunnar en gengisvísitala krónunnar lækkaði um 10,6% milli ára. Aflaverðmætið hefur ekki mælst jafn lágt síðan árið 2010 þegar það nam tæpum 133 milljörðum.  Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans. Af einstökum tegundum hafði loðnubrestur mjög mikil áhrif á breytingu heildaraflaverðmætis milli ára en aflaverðmæti loðnu lækkaði úr tæpum 10 milljörðum niður í 2,7 milljarða. Næstmestu áhrifin voru í aflaverðmæti þorsks en það dróst saman um 3 milljarða króna.

Þar á eftir komu karfi með 2,3 milljarða samdrátt og aflaverðmæti ýsu lækkaði um 2,2 milljarða króna. Af þeim tegundum þar sem aflaverðmætið jókst milli ára voru makríll og norsk-íslensk síld með sitthvorn hálfan milljarð króna. Samdráttur loðnu skýrist fyrst og fremst af minni veiðum en þær drógust saman um 71% milli ára. Af öllum þeim tegundum sem veiddar eru af íslenskum skipum er loðnan sá fiskistofn sem skýrir mest af breytileikanum í aflaverðmæti á árabilinu 2005- 2016 og er þar í sérflokki. Þar á eftir kemur makríll og síðan þorskur.

Það sem þó dró úr samdrætti aflaverðmætis milli ára var að veiði á ýmsum botnfisktegundum jókst á milli ára. Þannig jókst þorskaflinn um 8,3%. Aflamagn ufsa jókst um 3%, karfa um 9,4% en einnig var meiri veiði í steinbít, úthafskarfa og hlýra. Ýsuaflinn minnkaði um 5,5 prósent.

smari@bb.is

 

Heimiliskettir á Ísafirði drápust vegna eitrunar

Heimiliskettir á Ísafirði drápust vegna eitrunar

Tveir kettir hafa drepist á Ísafirði af því er virðist úr frostlagareitrun. Báðir kettirnir voru heimiliskettir við Urðarveg. Komið var með fyrri köttinn sem veiktist til dýralæknis á Ísafirði á miðvikudag og þurfti að aflífa hann síðar um daginn. Seinni kötturinn veiktist á fimmtudag og var farið með hann suður á Dýraspítalann í Garðabæ á föstudag eftir að hann hafði fengið mótefni hjá dýralækni á Ísafirði, en eftir að búið var að gera allt sem hægt var að gera fyrir hann á Dýraspítalanum þurfti í gær að aflífa hann vegna lifrarbilunar sem kötturinn fékk í kjölfar eitrunarinnar.

Ekki er vitað hvernig kettirnir komust í tæri við frostlöginn, en mögulegt er að þeir hafi komist í fötu sem notuð er til músaveiða, þar sem frostlegi er gjarnan blandað saman við vatn til að það frjósi ekki. Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir á Ísafirði segir slíkar gildrur afar varasamar þar sem önnur dýr geta komist í þær og þurfi helst að verða vitni að dýrunum komast í eitrið svo megi bjarga þeim, sem sé erfiðara í tilfelli katta en hunda til að mynda, þar sem kettir fara um á eigin vegum án eigenda sinna og því oft erfitt að bregðast fljótt við.

Frostlögur inniheldur ethylen glýkól sem er mjög eitrað fyrir dýr og menn. Innbyrði dýr frostlög þurfa þau að komast til dýralæknis innan þriggja tíma til að eiga möguleika á að lifa eitrunina af. Í desember síðastliðnum drápust kettir í Hafnarfirði eftir að hafa komist í frostlög og var þá sagt í frétt á Fésbókarsíðu Dýraspítalans í Garðabæ að kettir kæmust oftast í frostlög þegar hann hefur náð að leka í polla eða inni í bílskúrum og þar sem frostlögurinn er sætur á bragðið þá þætti dýrum hann ekki vondur og þannig gerðist það stundum að illvirkjar veldu þessa leið til að eitra fyrir dýrum.

Þar segir jafnframt um einkenni eitrunarinnar að þau komi fram allt frá hálfri klukkustund að tólf tímum eftir inntöku en oftast sé ferlið mjög hratt og kvalarfullt. Innan tveggja tíma eftir inntöku eitursins byrjar kettinum að líða mjög illa, slefar og verður niðurdreginn. Seinna eða daginn eftir hættir hann að éta, kastar upp ítrekað og á erfitt með að anda. Hann verður mjög máttfarinn, fær lömunareinkenni í útlimi og fellur í dá áður en hann deyr.

Birgitta Rós Guðbjartsdóttir er ein þeirra sem misstu köttinn sinn vegna eitrunarinnar á Ísafirði og segir hún að samkvæmt starfsfólki Dýraspítalans í Garðabæ, þangað sem kötturinn var sendur til meðferðar, allar líkur á að um eitrun af völdum frostlagar hafi verið að ræða. Matvælastofnun hefur tekið dýrið til krufningar og er niðurstaðna að vænta eftir páska. MAST biður þá sem grunar að kötturinn sinn hafi fengið samskonar eitrun að tilkynna það til þeirra.

annska@bb.is

Þrefalt fleiri ferðamenn fá heilbrigðisþjónustu

Um þrefalt fleiri fleiri ferðamenn fengu heilbrigðisþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í fyrra samborið við árið 2009. Alls komu 109 erlendir ferðamenn á stofnunina árið 2009 en í fyrra voru þeir 309 talsins. Þetta er meðal þess sem lesa má úr svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar. Sé horft á landið allt voru komur erlendra ferðamanna á heilbrigðisstofnanir tæplega þrefalt fleiri, fóru úr 5.914 komum árið 2009 í 14.453 árið 2016.

Á tímabilinu má sjá að aukningin er mest á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þangað leituðu 3.256 ferðamenn í fyrra samanborið við 398 árið 2009. Fjöldi ferðamanna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Norðurlands ríflega þrefaldaðist á tímabilinu. Heildargreiðslur erlendra ferðamanna fjórfölduðust á tímabilinu, námu rúmum 778 milljónum í fyrra samanborið við tæpar 177 milljónir 2009.

smari@bb.is

 

 

Áfram frost

Veðurstofan spáir norðan 13-18 m/s og snjókomu eða él á Vestfjörðum í dag. Lægir og styttir upp í kvöld. Vaxandi austanátt á morgun, 10-15 m/s og snjókoma síðdegis. Frost 0 til 5 stig.

Í veðurskeyti dagsins segur um veðrið á landinu að það verði vestlægar áttir, víða 10-18 m/s og dálitil él, en þurrt að kalla austantil á landinu. Norðvestan 15-23 m/s með morgninum, hvassast um landið austanvert, en 20-28 m/s austantil síðdegis. Snjókoma og síðar él um landið norðanvert, en úrkomulítið sunnantil. Dregur úr vindi og éljum í kvöld og nótt. Hiti kringum frostmark. Gengur í suðaustan 10-18 á morgun með snjókomu eða slyddu, fyrst suðvestantil, en rigning sunnan- og vestanlands síðdegis og hlýnar heldur.

Segir hótanir SFS birtingarmynd frjálsa framsalsins

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir stjórnvöld ábyrg fyrir fjöldaatvinnuleysi fiskverkafólks verði hótanir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um útflutning starfa í fiskvinnslu að veruleika.  Þetta segir í ályktun stjórnarinnar. Tilefni ályktunarinnar eru orð Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, um að sjávarútvegsfyrirtæki leiti á önnur mið með vinnslu á fiski og fiskvinnslan verði í ríkari mæli erlendis þar sem laun eru lægri. Jens Garðar Helgason, formaður SFS, sá sig knúinn til að árétta að íslenskar fiskvinnslur væru ekki á leið úr landi og sagði hann orð framkvæmdastjórans slitin úr samhengi.

Í ályktun stjórnar Verk Vest segir að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi líti á óveiddan fisk sem einkaeign sem þeir hafi heimild til að ráðstafa að vild og véla þannig með lífsviðurværi heilu byggðarlaganna. „Hótanir forsvarsmanna fyrirtækja í sjávarútvegi um flutning á störfum fiskverkafólks úr landi er birtingarmynd hins frjálsa framsals aflaheimilda. Slíkum hroka verða stjórnvöld að mæta af fullri hörku og innkalla aflaheimildir. Stjórn krefst þess að strax verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að verja störf í fiskvinnslu. Það er fiskverkafólkið sem skapar fiskvinnslum hin raunverulegu verðmæti,“ segir í ályktuninni.

Stjórn félagsins krefst áræðni stjórnvalda í ákvarðanatöku svo tryggja megi að réttlát skipting arðs til starfsfólks verði að veruleika. „Stjórnvöld eiga að láta Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skila arðinum til fiskverkafólks og það strax!“

Smábátaeigendur leggja til fleiri veiðidaga

Hafrannsóknastofnun leggur til að grásleppuafli fari ekki umfram 6.355 tonn, sem er 445 tonna minnkun milli ára eða 6,6%. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur nú til skoðunar bréf stofnunarinnar þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum mælinga á stærð veiðistofns grásleppu.

Ráðuneytið óskaði eftir sjónarmiðum Landssambands smábátaeigenda á tillögum Hafró. Sambandið hefur svarað erindinu þar sem lagt er til að veiðidagar á yfirstandandi grásleppuvertíð verði 36 sem er 4 daga viðbót við veiðitíma í fyrra. Í rökstuðningi LS er meðal annars bent á eftirfarandi: Færri stunda veiðar nú en í fyrra; samdráttur í veiðum milli ára; lakari útbreiðsla á gjöfulum veiðisvæðum; og markaðslegar aðstæður.

 

 

Opið hús í MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði.

Í dag á milli klukkan 17 og 19 verður Menntaskólinn á Ísafirði með opið hús þar sem gestum gefst kostur á að kynna sér starfsemina sem þar fer fram. Boðið verður upp á leiðsögn um skólahúsnæðið. Lagt verður af stða frá anddyri bóknámshúss á neðri hæð klukkan 17.30, 18.00 og 18.30. Þá verður ratleikur um skólann sem hefst í Gryfjunni og í vinning verður veglegt páskaegg. Tíundu bekkingar og foreldrar þeirra hafa í gegnum tíðina verið sérlega dugleg við að sækja opna húsið, enda margir í þeim hópi sem eru við það að hefja nýjan kafla í lífinu innan veggja MÍ.

Í verknámshúsinu kynna kennarar og nemendur nám í málmiðngreinum og vélstjórn. Á neðstu hæð heimavistar verður kynning á grunndeild hár- og snyrtigreina, húsasmíði og FabLab. Þá gefst gestum kostur á að skoða nýbyggingu húsasmíðanema við hlið verknámshússins, þar sem húsasmíðanemar verða að störfum ásamt kennara sínum

Í bóknámshúsi fer fram almenn kynning á námsframboði skólans og mun námsráðgjafi sitja þar fyrir svörum. Sjúkraliðanemendur og kennari gefa innsýn í sjúkraliðanámið og bóknámskennarar gefa innsýn í nokkra áfanga. Kynning á raungreinum verður í stofu 9 og kynning á lista- og nýsköpunarbraut í stofu 10-11. Þá fer þar einnig fram kynning á starfsbraut og nemendafélag MÍ kynnir félagslífið í Gryfjunni. Einnig verður kynning á bókasafni skólans á efri hæð og kynningarmyndband um MÍ í fyrirlestrarsalnum. Þá geta gestir fengið kaffi, djús til að væta spurular kverkarnar og konfekt til að maula á Gryfjunni. Allir eru velkomnir á opna húsið.

annska@bb.is

 

 

Nýjustu fréttir