Lífshlaupið, landskeppni í hreyfingu, sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hófst á nýjan leik í dag, en þetta er í tíunda sinn sem landsmenn huga að hreyfingu fyrir tilstuðlan verkefnisins. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Stuðst er við ráðleggingar Embætti landlæknis um hreyfingu, þar sem börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.
Lífhlaupið skiptist niður í vinnustaðakeppni, sem stendur yfir í þrjár vikur í febrúar, framhaldsskólakeppni 16 ára og eldri og grunnskólakeppni fyrir 15 ára og yngri sem standa í tvær vikur og einstaklingskeppni þar sem allir geta tekið þátt og skráð sína daglegu hreyfingu allt árið. Skrá má alla hreyfingu sem nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.
Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Hægt er að skrá sig til leiks á heimasíðu verkefnisins, lifshlaupid.is