Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 2230

Lífshlaupið hafið að nýju

Skrá má alla hreyfingu í Lífshlaupinu

Lífshlaupið, landskeppni í hreyfingu, sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hófst á nýjan leik í dag, en þetta er í tíunda sinn sem landsmenn huga að hreyfingu fyrir tilstuðlan verkefnisins. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Stuðst er við ráðleggingar Embætti landlæknis um hreyfingu, þar sem börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.

Lífhlaupið skiptist niður í vinnustaðakeppni, sem stendur yfir í þrjár vikur í febrúar, framhaldsskólakeppni 16 ára og eldri og grunnskólakeppni fyrir 15 ára og yngri sem standa í tvær vikur og einstaklingskeppni þar sem allir geta tekið þátt og skráð sína daglegu hreyfingu allt árið. Skrá má alla hreyfingu sem nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.

Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Hægt er að skrá sig til leiks á heimasíðu verkefnisins, lifshlaupid.is

annska@bb.is

Albert valinn til þátttöku á HM

Albert við keppni á Ólympíudögum æskunnar í Lichtenstein

Ísfirðingurinn Albert Jónsson er einn af þeim keppendum sem Skíðasamband Íslands hefur valið á heimsmeistaramótið í norrænum greinum, sem fram fer í Lahti í Finnlandi og stendur frá 22.febrúar til 5.mars. Fyrir Íslands hönd voru auk Alberts valin: Elsa Guðrún Jónsdóttir, Brynjar Leó Kristinsson, Snorri Einarsson og Sævar Birgisson. Allir keppendur eru valdir til þátttöku í skíðagöngu en einnig er keppt í skíðastökki og norrænni tvíkeppni. Einungis hefur einn keppandi náð lágmörkum fyrir lengri vegalengdir en það er Snorri Einarsson. Hinir Íslendingarnir fara í undankeppnina þann 22.febrúar ef þau hafa ekki náð lágmarkinu fyrir þann tíma. Hópurinn mun dvelja í HM þorpinu frá 20.feb til 2.mars. Daginn eftir undankeppnina verður keppt í sprettgöngu og þann 25. febrúar í skiptigöngu og daginn þar á eftir í liðaspretti. 10km ganga kvenna verður þann 28.febrúar og mótinu lýkur á 15km göngu karla.

Albert Jónsson sem verður tvítugur á árinu er einn af sterkari gönguskíðamönnum Íslands og er hann í B-landsliði Íslands í greininni. Á síðasta ári varð hann bikarmeistari í hópi 18-20 ára og í öðru sæti í karlaflokki og kom hann til að mynda fyrstur Íslendinga í mark í 50km keppni Fossavatnsgöngunnar. Albert æfir hjá Skíðafélagi Ísfirðinga undir handleiðslu Steven Gromatka.

annska@bb.is

Kvartmilljón tonn í fyrsta skipti á öldinni

Á síðasta ári fór þorskafli á Íslandsmiðum í fyrsta skiptið á þessari öld yfir 250 þúsund tonn.  Alls veiddust 250.368 tonn á síðasta ári og þorskaflinn hefur ekki verið meiri síðan árið 1999 þegar aflinn var 259.209 tonn. Á vef Landssambands smábátaeigenda er birt graf sem sýnir þróun þorskveiða síðastliðna tvo áratugi. Meðaltalið er 207.555 tonn, minnst veiddist árið 2008 aðeins 144.332 tonn, en mestur var aflinn 1999.

smari@bb.is

Dagur kvenfélagskonunnar í dag

Dagur kvenfélagskonunnar er í dag 1.febrúar, en þann dag árið 1930 var Kvenfélagasamband Íslands stofnað og var ætlun þess að vera samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu en þau voru þá þegar orðin fjölmörg. Fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869. Með störfum sínum innan kvenfélaganna má segja að konur hafi tekið völdin í sínar hendur talsvert áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfinu með kjörgengi og kosningarétti. Frá því er Kvenfélag Rípurhrepps var stofnað hafa konur alls staðar á landinu stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið. Sér í lagi hafa kvenfélagskonur í gegnum tíðina verið öflugir bakhjarlar samfélaga sinna og þá sér lagi í málefnum barna og kvenna.

Mörgu væri á annan hátt farið ef konur hefðu ekki tekið höndum saman og fundið þann samtakamátt sem skapast er margir leggja saman hönd á plóg. Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið  samfélaginu öllu afar mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum. Árið 2010 var ákveðið af Kvenfélagasambandi Íslands að gera kvenfélagskonunni og þeim störfum sem hún vinnur hátt undir höfði og var því ákveðið að útnefna stofndag sambandsins „Dag kvenfélagskonunnar.“ Hvetur Kvenfélagasambandið landsmenn alla til að heiðra kvenfélagskonur þennan dag.

Kvenfélögin í landinu telja nú um 5000 meðlimi og eru störf félaganna margþætt. Starfandi eru 18 héraðssambönd um land allt, þar á meðal Samband vestfirskra kvenna þar sem starfa um 320 konur i 13 félögum. Fjölmörg kvenfélög gera sér glaðan dag og munu kvenfélagskonur á norðanverðum Vestfjörðum koma saman á Hótel Ísafirði í kvöld og fagna deginum.

annska@bb.is

Úrkomulítið í dag

Hið ágætasta veður verður á Vestfjörðum í dag, hvar Veðurstofa Íslands spáir norðaustan golu eða kalda, 3-10 m/s og úrkomulitlu veðri. Hiti kringum frostmark. Suðlægari og dálítil él á morgun, heldur kólnandi. Á Vestfjörðum er hálka á flestum fjallvegum og hálkublettir á köflum á láglendi.

annska@bb.is

Reykjanes gæti misst neysluvatnið

Kannski verður laugin í Reykjanesi bráðum heit aftur.

Hótel Reykjanes í Ísafjarðardjúpi stendur frammi fyrir því að geta misst allt neysluvatn vegna þess að eigandi jarðarinnar Reykjafjarðar hótar að skrúfa fyrir vatnslögnina. Reykjanes hefur um áratugaskeið fengið neysluvatn úr vatnsbóli í landi Reykjafjarðar. „Vegna þessa máls lítum við svo á að okkar rekstur sé uppnámi og geti fyrirvaralaust stöðvast. Stór hluti bókana fyrir sumarið 2017 hefur þegar átt sér stað og því óhugsandi að lenda í rekstrarstöðvun,“ segir í bréfi Jóns Heiðars Guðjónssonar, eiganda Ferðaþjónustunnar í Reykjanesi, til Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps þar sem hann óskar eftir aðstoð sveitarfélaganna.

Í bréfi sínu til sveitarfélaganna lét Jón Heiðar fylgja með tvö bréf sem Salvar Hákonarson, eigandi Reykjafjarðar, sendi Ferðaþjónustunni í Reykjanesi. Salvar segir í bréfi frá því í síðasta mánuði að bann sem hann hafi sett í maí 2015 við framkvæmdum á vatnsverndarsvæðinu hafi ekki verið virt. Hann hafi því ákveðið að öllum utanaðkomandi aðilum séu óheimil vatnsafnot í landi Reykjarfjarðar og taki sú ákvörðun strax gildi.

„Því miður hefur Ferðaþjónustan Reykjanesi ehf. haft með höndum framkvæmdir og jarðrask á svæðinu sem hvorki hefur verið leyfi fyrir eða samþykki landeigenda,“ segir í bréfi Salvars og ennfremur að eigendur Reykjaness séu að færa sér í nyt eigur og landgæði annarra og valda óbætanlegu tjóni á viðkvæmu svæði.

Jón Heiðar hafnar því að hafa lagst í framkvæmdir í óleyfi.

Í erindi Jóns Heiðars kemur fram að þegar ríkið seldi Reykjanesskóla hafi honum verið sagt frá samkomulagi við föður Salvars, þáverandi eiganda Reykjafjarðar, um um gjaldfrjáls afnot af neysluvatninu gegn því að heimilisfólkið í Reykjarfirði fengi endurgjaldslaus afnot af heitum böðum og sundlaug í Reykjanesi.

smari@bb.is

Lestrarhestar í Strandabyggð

Petsamo eftir Arnald Indriðason er vinsælasta bókin í keppninni.

Íbúar Strandabyggðar taka lestur alvarlega og hafa tekið afgerandi forystu í landsleiknum Allir lesa. Þriðji landsleikurinn er haldinn nú á þorranum, frá 27. janúar til konudagsins 19. febrúar 2017. Keppt er í liðum og/eða sem einstaklingur og mældur sá tími sem varið er í lestur. Nú þegar nokkrir dagar eru liðnir af keppninni mælist lestur Strandamanna 22 klst. og næst á eftir þeim koma íbúar Dalabyggðar með 7,3 klst.

Í lok þorra verða sigurlið heiðruð með verðlaunum og viðurkenningum, svo og sá einstaklingur sem ver mestum tíma í lestur á þessu tímabili. Einstaklingskeppnin er nýbreytni í ár svo nú verður í fyrsta sinn ljóst hver er aðal lestrarhestur landsins. Hver þátttakandi getur keppt bæði sem einstaklingur og í liði, eða valið aðeins annan kostinn.

Allar tegundir bóka eru gjaldgengar. Það skiptir ekki máli hvernig bækur þú lest eða hvort þú lest prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók. Hér er átt við allar bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt annað. Lestu þér til ánægju um leið og þú keppir í lestri.

Allir geta myndað lið, til dæmis á vinnustaðnum, í saumaklúbbnum, vinahópnum eða með fjölskyldunni. Foreldrar sem lesa fyrir ung börn sín eru sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum og skrá lesturinn. Einn aðili, liðsstjórinn, stofnar lið inni á vefnum og bætir öðrum liðsmönnum í liðið. Aðrir geta einnig fundið liðið og gengið í það. Þau lið sem verja mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar.

smari@bb.is

Aukagreiðslur til þingmanna lækkaðar

Forsætisnefnd Alþingis leggur til að aukagreiðslur þingmanna vegna starfs- og ferðakostnaðar verði lækkaðar á móti þeim miklu launahækkunum sem þingmenn og aðrir kjörnir fulltrúar fengu á kjördag. Greiðslurnar sem lagt er til að verði lækkaðar hafa verið gagnrýndar í gegnum tíðina. Þær eru að hluta skattfrjálsar og þingmenn hafa fengið þær greiddar án þess að þurfa að sýna fram á nokkurn kostnað á móti.

Nefndin leggur til að skattfrjálsar ferðakostnaðargreiðslur verði lækkaðar um 54 þúsund krónur á mánuði og starfskostnaðargreiðslur um 50 þúsund krónur. Sé tekið tillit til skattlagningar jafngildir þetta 150 þúsund króna lækkun fyrir skatt samkvæmt útreikningum forsætisnefndar og greiðslur til þingmannna, þ.e. þingfararkaup og fastar mánaðarlegar greiðslur, eiga að vera innan þeirrar launaþróunar  sem orðið hefur frá því að kjararáð hóf að úrskurða um þingfararkaup árið 2006.

smari@bb.is

Áhugaverður þáttur um Ragnar H.

Ragnar H. Ragnar.

Á laugardaginn var fluttur á Rás 1 áhugaverður útvarpsþáttur Finnboga Hermannssonar um líf og starf Ragnars H. Ragnar tónlistarfrömuðs á Ísafiðri. Hann var fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar 1948 og stjórnaði skólanum til ársins 1984. Skólinn varð strax þekktur undir hans stjórn og hann mótaði þær hefðir sem margar hverjar enn eru hafðar í heiðri og við skólann og frá honum er kominn sá mikli metnaður og hái standard sem jafnan ríkir í starfi skólans. Auk brots úr viðtali við Ragnar er í þættinum rætt við nokkra samferðamenn hans og einnig má heyra hann sjálfan leika eitt af sínum uppáhaldslögum í upphafi og lok þáttarins.

Þátturinn er aðgengilegur í Sarpi RÚV.

smari@bb.is

Skemmdarverk unnin á sumarbústað

Í liðinni viku barst tilkynning um skemmdarverk á sumarbústað í Valþjófsdal í Önundarfirði til Lögreglunnar á Vestfjörðum og er málið í rannsókn. Þá var einnig tilkynnt um minniháttar skemmdarverk á tveim bílum á Ísafirði. Þetta kemur fram í helstu verkefnum Lögreglunnar. Þá var einn aðili á Ísafirði var grunaður um meðferð fíkniefna í vikunni og ökumaður stöðvaður vegna gruns um að aka undir áhrifum fíkniefna. Eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu í liðinni viku í Bolungarvík og var það minniháttar. Fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur, tveir í nágrenni Hólamvíkur og tveir við Ísafjörð. Þorrablót voru haldin víða í umdæminu um liðna helgi og fóru vel fram og án teljandi afskipta lögreglu.

Lögregla vill koma því á framfæri til ökumanna/umráðamanna bifreiða og þeir hugi að því þegar farið er af stað á morgnana að hreinsa vel af rúðum ökutækja sinna þannig að snjór hindri ekki útsýni.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir