Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist í umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði. Álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati Hvalárvirkjunnar var birt í dag.
Það er fyrirtækið VesturVerk ehf. á Ísafirði sem vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár. Virkjunin er í er í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu orkuauðlinda Íslands. Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 55 MW í uppsettu afli með 5818 klst. nýtingartíma á ári og orkugetu upp á 320 Gwh á ári. Vesturverk í er í meirihlutaeigu HS Orku.
Mikið inngrip í vatnafar
Í áliti Skipulagsstofnunar segir að inngrip í vatnafar svæðisins verður mikið með tilkomu Hvalárvirkjunar og mun rennsli í Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará minnka verulega og hafa áhrif á ásýnd vatnsfallanna, meðal annars fossins Drynjanda í Hvalárgljúfrum, fossaraðar í Eyvindarfjarðará, Hvalárfoss og Rjúkandafoss. Samlegð með áhrifum fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði og mögulegrar Austurgilsvirkjunar á Langadalsströnd eykur enn á áhrif Hvalárvirkjunar á landslag og víðerni.
Verulega neikvæð áhrif á landslag og víðerni
Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvalárvirkjunar á ásýnd, landslag og víðerni verði verulega neikvæð þrátt fyrir mótvægisaðgerðir. Áhrif Hvalárvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist ráðast fyrst og fremst af áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á ásýnd og landslag. Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu hafa bein áhrif á upplifun fólks á svæðinu og eru að mati Skipulagsstofnunar líkleg til að hafa talsverð til veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verða talsvert neikvæð þar sem umfangsmikið svæði verður fyrir raski. Að mati stofnunarinnar er óvissa um áhrif framkvæmdanna á fuglalíf, vatnalíf í stöðuvötnum á Ófeigsfjarðarheiði og á menningarminjar sem krefst frekari athugana áður en til leyfisveitinga kemur.
Leyfisveiting virkjunar og raflínu verði samhliða
Rekstur virkjunarinnar er háður því að lögð verði raflína frá virkjuninni að fyrirhuguðu tengivirki á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp. Lagning raflínunnar er á vegum annars framkvæmdaraðila og hefur ekki gengið í gegnum málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Því hefur á þessu stigi ekki verið lagt mat á umhverfisáhrif hennar og þeirra kosta sem til greina koma varðandi legu og útfærslu. Raflínan kemur til með að liggja um tvö sveitarfélög, Árneshrepp og Strandabyggð, en Hvalárvirkjun er öll innan Árneshrepps. Skipulagsstofnun telur æskilegt að leyfisveitingar til þessara framkvæmda sem háðar eru hvor annarri, þ.e. virkjunarinnar og raflínunnar, fari fram samhliða.
smari@bb.is