Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2230

Hlýnar í kvöld með ofankomu

Veðurstofa Íslands spáir austanátt á Vestfjörðum í dag, 8-15 m/s, með snjókomu síðdegis en slyddu eða rigningu syðst í kvöld. Lægir til morguns. Á morgun má gera ráð fyrir vaxandi norðaustlægri átt, fyrst norðantil, með snjókomu eða slyddu. Norðaustan 10-18 m/s annað kvöld. Hiti verður í kringum frostmark í dag en heldur mildara á morgun. Á föstudag kveður spáin fyrir landið á um suðaustan 8-15 m/s. Víða verður rigning og hiti 3 til 8 stig, en norðaustan 10-15 m/s og slydda eða snjókoma nyrst á landinu og hiti nálægt frostmarki.

Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru lokaðar, einnig er ófært í Árneshrepp.

annska@bb.is

Gullrillurnar safna fyrir gönguskíðum með sushigerð

Sportkvendin í Gullrillunum á Ísafirði hafa gert garðinn frægan allt frá því er þær ákváðu í bríaríi fyrir æfa fyrir 50km Fossavatnsgönguna á síðasta ári, sem þær luku með glæsibrag. Þær létu þó aldeilis ekki þar við sitja þar sem þær tóku í kjölfarið Landvættinn, sem er áðurnefnd Fossavatnsganga, Urriðavatnssund sem er 2,5 kílómetra sund í Urriðavatni, Blue Lagoon Challenge sem er 60 kílómetra hjólreiðar frá Hafnarfirði og Jökulsárhlaupið, 32.7 kílómetra hlaup frá Dettifossi til Ásbyrgis.

Nú láta Gullrillurnar til sín taka í samfélagsmálunum og hella sér út í sushi-gerð til að safna fyrir gönguskíðum fyrir Tanga, hina nýju leikskóladeild 5 ára barna á Ísafirði. Í tilefni af Skíðavikunni sem sett verður miðvikudaginn 12.apríl munu Gullrillurnar selja sushi-bakka, sem aðdáendur hins Japanskættaða réttar taka án efa fagnandi og eru pantanir þegar teknar að streyma inn í gegnum Fésbókarsíðu Gullrillanna, en panta þarf í síðasta lagi mánudaginn 10.apríl.

Gullrillurnar stefna að því að kaupa 12 sett af gönguskíðum fyrir börnin á Tanga og segja að þeim þyki mikilvægt að öll börn fái að kynnast þessari skemmtilegu íþrótt og fannst þeim verkefnið alveg kjörið í sjálfum gönguskíðabænum. Einnig hafa Gullrillurnar fengið fyrirtæki til liðs við sig sem styrkja verkefnið og segja næst á fjáröflunarskránni, með gamansömum tón, að fá fyriræki til að styrkja að troðið verði spor frá miðbæ inn í fjörð og velta upp spurningunni hversu fallegt það væri að komast til að versla í matinn á gönguskíðunum.

annska@bb.is

 

„Brennd af sleifarlagi“

Guðjón Brjánsson.

Íslendingar eiga að gera strangar og skýrar kröfur til eftirlits í fikeldi að öllu leyti, ekki síður en Norðmenn og Svíar, og fara faglega og varlega í uppbyggingu með klára sýn. Þetta sagði Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, á Alþingi í gær. Hann sagði eðlilegt og alvöruafgjald vera hluta af því. „Brennt barn forðast eldinn. Við erum brennd af sleifarlagi í auðlindastjórnun. Á þessu þarf Alþingi að taka af skarið,“ sagði Guðjón.

Eina greiðsla fiskeldisfyrirtækja í dag fyrir utan leyfisgjöld stofnana eru í umhverfissjóð sjóakvíaeldis. mhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki úr sjóðnum til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.

Fyrir hver þúsund tonn sem rekstrarleyfishafi hefur heimild til að framleiða eru greiddar tæpar tvær milljónir kr. og rennur það óskipt til umhverfissjóðs sjókvíaleldis.

Áframhaldandi hagvöxtur en blikur á lofti

ASÍ spáir áframhaldandi hagvexti á þessu ári en bendir á ákveðin hættumerki. Óvissa hafi aukist frá síðustu spá enda séu efnahags- og verðlagshorfum háðar þróun ferðaþjónustunnar og gengi krónunnar. Heimilin muni auka neyslu og vöxtur þjóðarútgjalda muni ýta undir aukinn innflutning en það muni á móti hægja á fjármunamyndum og vexti útflutnings. Sterkt gengi krónunnar valdi áhyggjum.

ASÍ telur ástæða til að bregðast við yfirvofandi húsnæðisbólu með langtímalausnum eins og stórefla uppbyggingu á öruggu leiguhúsnæði.

Alþýðusambandið telur að of mikið aðhald sé sýnt á útgjaldhlið ríkisins á meðan skattar séu lækkaði og hætt verði við að ríkissjóður verði  í þröngri stöðu til að að bregðast við áföllum í efnahagslífinu.

bryndis@bb.is

Hægi á eldisumsóknum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill að hægt verði á útgáfu nýrra leyfa til sjókvíalaxeldis þangað til skýrsla nefndar um framtíðarstefnu í greininni liggur fyrir. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær. Þorgerður er þarna að vísa til nefndar sem Gunnar Bragi Sveinsson forveri hennar skipaði til að móta framtíðarstefnu um sjókvíalaxeldi. Nefndin á að skila niðurstöðum í byrjun ágúst ef allt gengur eftir.

„Ég leyni því ekki að ég vil, meðan að nefndin er að störfum, að menn hægi á þessum umsóknum sínum þangað til að við erum komin með skýra stefnu í laxeldis- og fiskeldismálum. Þar hef ég dregið fram að við verðum að taka mjög ríka afstöðu með lífríkinu, nátturunni og umhverfinu. Og ég tel að hægt sé að samræma þessi atriði,“ sagði Þorgerður Katrín í gær.

Að því gefnu að skýrsla nefndarinnar liggi fyrir í sumar ætlar Þorgerður Katrín að kynna nýja stefnu í laxeldi á Íslandi strax í haust.

smari@bb.is

 

Grásleppudögum fjölgað

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur breytt reglugerð um hrognkelsaveiðar. Þar er staðfest að fjöldi veiðidaga á vertíðinni sem var að hefjast verða 36 í stað 20 daga. Er það fjögurra daga fjölgun frá vertíðinni í fyrra.

Grásleppuvertíðin hefur farið hægt af stað á Vestfjörðum, enda verið bræla á miðunum. Veiðarnar hófust þann 20. mars á Ströndum en á svæðinu frá Látrabjargi til Hornbjargs máttu fyrstu net fara í sjó 1. apríl. Veiðitímabilinu lýkur 14. júní.

Eftir rannsóknaleiðangur Hafrannsóknastofnunar í mars mæltist stofnunin til við ráðherra að grásleppuafli á vertíðinni verði ekki meiri en 6.355 tonn, en það er 445 tonna minni afli en í fyrra.

smari@bb.is

 

Bjóða upp á myndlistarnámskeið fyrir unglinga

Mynd úr safni frá Degi myndlistar í Edinborg .

Listaskóli Rögnvaldar Ólafssona stendur fyrir myndlistanámskeiði fyrir börn og unglinga á aldrinum 12 – 16 ára í Menningarmiðstöðinni Edinborg, námskeiðið stendur í rúman mánuð og verður kennt einu sinni í viku tvo tíma í senn. Kennari á námskeiðinu er myndlistarkonan Solveig Edda Vilhjálmsdóttir sem segir námskeiðið vera hvatningu fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á listum til að njóta eigin hæfileika og fá kost á að þjálfa þá.

Solveig hefur víðtæka reynslu af myndlist, bæði hefur hún verið iðin við eigin myndlist og hélt síðast einkasýningu í Bryggjusal Edinborgarhússins síðasta haust og einnig hefur hún talsvert fengist við að myndlistarkennslu og segir hún yndislegt að fá að sjá nemendur vakna og finna listamanninn í sér. Að þessu sinni segir Solveig áherslurnar vera á klassískar aðferðir í teikningu, litameðferð og málun.

Solveig Edda vinnur nú að næstu einkasýningu sem verður utan landssteinanna og einnig er hún í samstarfi við finnsku listakonurnar Hennu-Riikku Nurmi, Marjo Laathi og Johanna Hyytinen að sýningu sem nefnist Undir yfirborði og verður frumsýnd í haust.

Myndlistarnámskeiðið hefst 21.apríl og er skráning á listaskóli@edinborg.is og í síma 4565444.

annska@bb.is

Rýmka kosti húsnæðisamvinnufélaga

Félags- og húsnæðismálaráðherra með nýtt frumvarp um húsnæðissamvinnufélög. Mynd: mbl.is /Eggert

Þorsteinn Víglundsson félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög sem hefur það markmið að rýmka kosti þeirra til fjármögnunar og stuðla þannig betur að sjálfbærum rekstri þeirra.

Samkvæmt gildandi lögum er fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga bundin við lántökur hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum. Ákvæði laganna hvað þetta varðar hafa þótt binda hendur húsnæðissamvinnufélaga um of og koma í veg fyrir að þau geti fjármagnað sig með öðrum hætti sem kann að henta betur og vera hagstæðari fyrir félögin.

Með frumvarpi ráðherra er lagt til að þessar heimildir verið rýmkaðar þannig að félögunum verði heimilt að taka lán á almennum markaði og einnig að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa.

Markmið þeirrar lagabreytingar sem nú er fyrirhugað er að stuðla enn frekar að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga. Þannig geti húsnæðissamvinnufélög kosið þá fjármögnun sem er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni.

smari@bb.is

 

 

Landsbankinn skuli vera í eigu allra Íslendinga

Auðkúluhreppur var hreppur norðan Arnarfjarðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Auðkúlu. Hreppurinn var sameinaður Þingeyrarhreppi 1. apríl 1990. Mynd: Mats Wibe Lund.

Búnaðarfélag Auðkúluhrepps kom saman til aðalfundar á laugardag og að vanda fóru umræður þar fram á hreinni vestfirsku. Á fundinum var samhljóða samþykkt sú tillaga að Landsbankinn skyldi vera að öllu leiti í eigu allra Íslendinga:

„Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps krefst þess af Alþingi og ríkisstjórn að ekki verði seldur fimmeyringur í Landsbankanum. Fundurinn telur að alls ekki megi hleypa erlendum fjárglæframönnum og vogunarsjóðum með krumlurnar í sjóði hans. Það er álit fundarins að Landsbankinn eigi að vera 100% í eigu allra Íslendinga. Viðskiptabanki fyrir venjulegt fólk. Alveg eins og sparisjóðirnir voru. Það þarf að lýsa þessu yfir í eitt skipti fyrir öll fyrir hönd eigendanna. Bankinn á ekki að standa í neinu peningaþvætti.“

Þá spöruðu félagsmenn heldur ekki stóru orðin þegar málefni útgerðanna bar á góma: „Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps ályktar að það sé algjörlega óásættanlegt að útgerðarmenn, að þeim ólöstuðum, ráði því hvar byggð skuli haldast í sjávarplássum á Íslandi. Fiskvinnslufólkið og íbúar byggðarlaga vítt og breitt um landið á sinn rétt engu síður en stórútgerðirnar.“

Þá var einnig skráð á fundinum brýning til ríkisstjórnar og Alþingis varðandi málefni Hrafnseyrar við Arnarfjörð um hvort ásættanlegt væri að fæðingarstaður Jón Sigurðssonar væri mannlaus eyðistaður 8 mánuði á ári.

annska@bb.is

Hvalárvirkjun: Umfangsmikil skerðing á óbyggðu víðerni

Hvalárgljúfur og fossinn Drynjandi.

Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist í umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði. Álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati Hvalárvirkjunnar var birt í dag.

Það er fyrirtækið VesturVerk ehf. á Ísafirði sem vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár. Virkjunin er í  er í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu orkuauðlinda Íslands. Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 55 MW í uppsettu afli með 5818 klst. nýtingartíma á ári og orkugetu  upp á 320 Gwh á ári. Vesturverk í er í meirihlutaeigu HS Orku.

Mikið inngrip í vatnafar

Í áliti Skipulagsstofnunar segir að inngrip í vatnafar svæðisins verður mikið með tilkomu Hvalárvirkjunar og mun rennsli í Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará minnka verulega og hafa áhrif á ásýnd vatnsfallanna, meðal annars fossins Drynjanda í Hvalárgljúfrum, fossaraðar í Eyvindarfjarðará,  Hvalárfoss og Rjúkandafoss. Samlegð með áhrifum fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði og mögulegrar Austurgilsvirkjunar á Langadalsströnd eykur enn á áhrif Hvalárvirkjunar á landslag og víðerni.

Verulega neikvæð áhrif á landslag og víðerni

Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvalárvirkjunar á ásýnd, landslag og víðerni verði verulega neikvæð þrátt fyrir mótvægisaðgerðir. Áhrif Hvalárvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist ráðast fyrst og fremst af áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á ásýnd og landslag. Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu hafa bein áhrif á upplifun fólks á svæðinu og eru að mati Skipulagsstofnunar líkleg til að hafa talsverð til veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verða talsvert neikvæð þar sem umfangsmikið svæði verður fyrir raski. Að mati stofnunarinnar er óvissa um áhrif framkvæmdanna á fuglalíf, vatnalíf í stöðuvötnum á Ófeigsfjarðarheiði og á menningarminjar sem krefst frekari athugana áður en til leyfisveitinga kemur.

 Leyfisveiting virkjunar og raflínu verði samhliða

Rekstur virkjunarinnar er háður því að lögð verði raflína frá virkjuninni að fyrirhuguðu tengivirki á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp. Lagning raflínunnar er á vegum annars framkvæmdaraðila og hefur ekki gengið í gegnum málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Því hefur á þessu stigi ekki verið lagt mat á umhverfisáhrif hennar og þeirra kosta sem til greina koma varðandi legu og útfærslu. Raflínan kemur til með að liggja um tvö sveitarfélög, Árneshrepp og Strandabyggð, en Hvalárvirkjun er öll innan Árneshrepps. Skipulagsstofnun telur æskilegt að leyfisveitingar til þessara framkvæmda sem háðar eru hvor annarri, þ.e. virkjunarinnar og raflínunnar, fari fram samhliða.

smari@bb.is

 

 

Nýjustu fréttir