Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2229

Karíus og Baktus heimsækja Hérastubb bakara

Leikhópurinn á æfingu í gær.

Í Grunnskólanum á Drangsnesi eru nú allir í óða önn við að láta síðustu púslin falla á rétta staði áður en tjöldin verða dregin frá leiksviðinu á morgun er frumsýnt verður þar á bæ leikritið Þríleikur Þorbjörns. Í verkinu taka þátt allir nemendur skólans ásamt leikskólabörnunum en í Kaldrananeshreppi eru fjórtán börn á leik- og grunnskólaaldri og eru það nemendurnir sjálfir í samstarfi við kennara sem unnu verkið.

Þríleikur Þorbjörns er unnið upp úr þremur af þekktustu leikverkum Thorbjörns Egners; Dýrunum í Hálsaskógi, Kardemommubænum og Karíusi og Baktusi. Marta Guðrún Jóhannesdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Drangsnesi segir góðan anda hafa ríkt meðal leikaranna ungu á æfingatímanum og börnin hafi í hvívetna staðið sig vel enda mörg hver þrautreynt leikhúsfólk eftir hverja metnaðarfulla leiksýninguna á fætur annarri síðustu ár:

„Það er löng hefð fyrir því að setja upp leikverk á árshátíð skólans en meðal þeirra verka sem sett hafa verið upp eru fjölskyldusöngleikurinn Horn á höfði og frumsamda verkið Draumurinn um Nínu þar sem leikin voru lög úr Júróvisjón. Mikill metnaður hefur verið lagður í þessar sýningar og hafa bæjarbúar verið afar hjálpsamir, aðstoðað við gerð leikmyndar og þess háttar. Á sýninguna er jafnan fjölmennt; ættingjar og vinir koma sunnan að ásamt nágrönnum okkar í sveitarfélögunum hér í kring.“

Leikhópar gerast vart mikið krúttlegri.

Að þessu sinni frekar en áður er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og er Thorbjörn Egner eitt elskaðasta leikskáld sem sögur fara af hér við land. En hvers vegna var valið að fara þessa leið?

„Þegar kominn var tími til þess að velja verk fyrir þetta skólaár var ákveðið að halda fund þar sem nemendur og kennarar kynntu hugmyndir sínar að leikverki. Margar hugmyndir komu fram á fundinum og þar sem nemendur höfðu margir áhuga á því að setja upp tilbúið leikverk á meðan aðrir vildu gjarnan skapa sjálfir nýtt verk varð niðurstaðan sú að gera hvortveggja. Börnin settu saman lista yfir senur úr leikverkum Thorbjörns Egners og kynntu sér feril hans. Þegar búið var að velja senur var komið að því að leika sér með efniviðinn það er að skapa nýtt verk úr þessu kunna efni. Þess vegna sjáum við nú persónur úr einu leikriti heimsækja þær sem við þekkjum úr öðru, Karíus og Baktus líta við hjá Hérastubbi bakara og nú eru það ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan sem ræna Bangsa litla. Sjálfur Thorbjörn Egner treður upp í leikritinu og margt mun koma áhorfendum á óvart í þessari uppsetningu,“ segir Marta Guðrún og bætir við að íbúum svæðisins þurfi ekki að leiðast næstu misserin þar sem heilmargt er framundan í hreppnum í sumar. Meðal annars verður Bryggjuhátíðin endurvakin, opnuð verður sýning í tilefni þess að tuttugu ár eru frá því heita vatnið fannst á Drangsnesi og sænski myndlistarmaðurinn Erik Sjödin heimsækir Gamla bókasafnið þar sem aftur verður starfræktur markaður með vörum úr héraði líkt og síðasta sumar.

 

annska@bb.is

Efins um laxeldi í Jökulfjörðum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er efins um laxeldi í Jökulfjörðum. Ráðherra var til svara um fiskeldi í Kastljósi RÚV í gær. Þorgerður Katrín hefur kallað eftir því að hægt verði á laxeldisumsóknum en sagði jafnframt að það væri snúið fyrir ráðherra og stjórnsýsluna að hægja á ferlinu. „Lagalega er þetta snúið, en það sem ég er fyrst og fremst að hugsa þegar ég tala um að menn hægi á sér, er að menn séu ekki að drita umsóknum á hvaða staði sem er. Afhverju eru menn að sækja um í Jökulfjörðum? Bara til að eigna sér svæði? Mér finnst það ekki siðferðislega rétt, fyrir utan að ég tel að Jökulfirðir og Hornstrandir eru ákveðnir fjársjóðir fyrir Vestfirðinga varðandi ferðaþjónustuna.“

Arnarlax hf. á Bíldudal hefur sótt um 10 þúsund tonna laxeldisleyfi í Jökulfjörðum. Fyrirtækið er einnig með umsókn í Eyjafirði. Ráðherra benti einnig á áformin í Eyjafirði og velti því upp hvort að ekki ætti að sjá til fyrst hvernig það gangi að byggja upp markvissa stefnu í fiskeldi áður en lengra er haldið.

Þorgerður Katrín tók skýrt fram að hún sér mikla framtíð í sjókvíaeldi á Íslandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 

 

Hvessir í nótt

Veðurstofan spáir austanátt og síðar norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum í dag með snjókomu eða slyddu, en rigningu á sunnanverðum Vestfjörðum. Hvessir í nótt af norðaustri. Úrkomuminna á morgun, en norðaustan 10-18 annað kvöld og bætir í ofankomu. Hiti 0 til 5 stig, mildast syðst, en kólnar annað kvöld.

Færð á landinu er víðast góð en á Vestfjörðum er hálka og hálkublettir, snjóþekja og krapi, einnig er snjókoma, éljagangur og einhver skafrenningur. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru lokaðar, einnig er ófært í Árnesshrepp.

Ekki verið að hægja á lögformlegu ferli fiskeldis

Það blasir við hvað sjávarútvegsráðherra meinar með orðum sínum um að hægt verði á eldisumsóknum að mati Einars K. Guðfinnssonar, formanns Landssambands fiskeldisstöðva. „Ráðherra er augljóslega að vísa til þeirra umsókna sem eru ekki komnar í lögformlegt ferli,“ segir Einar.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þriðjudag sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra að „menn hægi á þessum umsóknum sínum þangað til að við erum komin með skýra stefnu í laxeldis- og fiskeldismálum.“

„Ég lít þannig á að hún sé ekki að segja að það eigi að hægja á hinu lögformlega ferli enda eru mörg mál langt komin og það má vænta niðurstöðu fljótlega með einhver þeirra. Ráðherra er að beina þeim orðum til forsvarsmanna fiskeldisfyrirtækja að þeir hægi á þeim áformum sem eru komin skemmra og ekki í ferli hjá opinberum stofnunum,“ segir Einar.

Í gær var greint frá annarri hópmálsókn gegn sjókvíeldi en það er mál málsóknarfélagsins Náttúrverndar 2 gegn Löxum Fiskeldi á Reyðarfirði og Matvælastofnun. Í vetur var þingfest mál málsóknafélagsins Náttúverndar 1 gegn Arnarlaxi, Umhverfisstofnun og Matvælastofnu. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður flytur bæði málin.

Einar segir ekkert óvænt í því að önnur málsókn sé komin fram. „Þegar fyrsta málsóknin var kynnt í fjölmiðlum var sagt að það væri verið að boða stríð gegn laxeldi þannig að það kemur ekki á óvart að þetta málsóknafélag haldi áfram.“

Frumburðsviðburður í Skúrinni

Kristján Freyr Halldórsson.

Hið nýstofnaða en óformlega lista- menningarfélag Skúrarinnar stendur í kvöld fyrir „frumburðsviðburði“ í Skúrinni við veitingastaðinn Húsið á Ísafirði. Viðburðurinn er fyrsta plötukynning félagsins og ætlar Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður, að ríða á vaðið og kynna meistaraverkið OK Computer með Radiohead. Maðurinn á bak við viðburðinn er Haukur S Magnússon og hann vonast til að plötukynningin í kvöld sé einungis smjörþefurinn af því sem koma skal. „Það eru fyrirhugaðar fleiri plötukynningar og svo er í pípunum kvikmyndasýningar í Skúrinni og þá líklegast eftir einhverju þema. Svo leggst okkur örugglega eitthvað meira gott til,“ segir hann.

Kristján Freyr er ekki ókunnugur plötukynningum. Hann hefur um árabil gert útvarpsþættina Albúmið á Rás 2 með Jóni Ólafssyni, en í þáttunum er ein þekkt plata úr tónlistarsögunni tekin fyrir og greind ítarlega.

Plötukynningin í kvöld hefst kl. 21.

Stjórnvöld standi við loforð um innviðauppbyggingu

Aðalfundur svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Vestfjörðum ætlast til að stjórnvöld standi við gefin loforð um uppbyggingu innviða samfélagsins. Gera þarf miklar breytingar á langsveltu menntakerfi þannig að hægt sé að tala um jafnrétti til náms á Íslandi. Í ályktun fundarins sem var haldinn á mánudag segir að heilbrigðiskerfi þjóðarinnar sé í molum og gera þarf umbætur á því sem fela jafnframt í sér að fólk geti notið heilbrigðisþjónustu óháð búsetu eða efnahag og breyta þarf velferðarkerfinu þannig að þeir sem þurfa að treysta á aðstoð þess til framfærslu verði ekki um leið fastir í gildru fátæktar.

Svæðisfélags VG á Vestfjörðum skorar á stjórnvöld að standa við samþykkta samgönguáætlun og sjá til þess að eðlileg uppbygging atvinnulífs geti farið fram um land allt.  Minnt er á að flug og sjúkraflug skiptir íbúa landsbyggðarinnar verulegu máli.

Í ljósi frétta af landvinnslu HB Granda á Akranesi segir í ályktun VG á Vestfjörðum: „Fundurinn átelur útgerðarfyrirtæki sem sýna samfélögum sem þau starfa í slíka vanvirðingu og hvetur forsvarsmenn Akranesbæjar til að nýta fjármuni sem ætlaðir eru til atvinnuuppbyggingar í önnur verkefni en þau sem felast í sérstökum stuðningi við HB Granda.“

VG á Vestfjörðum bendir á mikilvægi þess að Menntaskólinn á Ísafirði geti sinnt kennslu verknáms eins og verið hefur og krefst þess að menntamálaráðherra og þingmenn svæðisins sjái til þess að tímabundin fækkun nemenda sem fyrirsjáanleg er á næstu árum, verði ekki til að draga úr fjárframlögum og þar með námsframboði við skólann með slæmum afleiðingum fyrir samfélagið allt.

Á fundinum var kjörin ný stjórn félagsins. Hana skipa: Sigríður Gísladóttir formaður, Ágústa Guðmundsdóttir gjaldkeri, Jóna Benediktsdóttir ritari, Svava Rán Valgeirsdóttir meðstjórnandi og Gígja S. Tómasdóttir meðstjórnandi.

Grafalvarlegt að hækka virðisaukaskattinn

Hótelstjórahjónin Daníel Jakobsson og Hólmfríður Vala Svavarsdóttir.

Að færa gistingu í hærra virðisaukaskattþrep mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi að mati Daníels Jakobssonar hótelstjóra á Hótel Ísafirði og formanns Ferðamálasamtaka Vestfjarða.

„Ef ég tala bara út frá mínu fyrirtæki þá hefur launakostnaður hækkað um 20 prósent síðan 2015 og launakostnaður er helmingur af okkar útgjöldum. Evran hefur lækkað um 30 prósent á tímabilinu en 60 prósent af okkar tekjum eru í evrum og svo var gisting færð úr 7 prósent virðisaukaskatti í 11 prósent. Ef ríkisstjórnin ætlar að hækka virðisaukann um 100 prósent er alveg ljóst að við þurfum að hagræða í rekstri og það þýðir bara að draga úr þjónustu. Við getum ekki komið þessu út í verðlagið,“ segir Daníel.

Með minni þjónustu á hann við að í dag er vetraropnun hótelsins greidd niður með tekjum sumarsins og með því næst að halda úti heilsársstörfum en á því kann að vera breyting með versnandi afkomu.

Daníel, sem er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ, undrast að sjá þessar tillögur koma frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. „Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í mínum flokki eða hægra megin í pólitíkinni tala um að hækka álögur á útgerðina núna þegar krónan er í styrkingarfasa. Þvert á móti og skýrasta dæmið er Teitur Björn Einarsson sem talar fyrir lækkun veiðigjalda nú þegar krónan hefur styrkst svona mikið, sem ég reyndar tek undir honum með.“

Að sögn Daníels getur það verið langtímamarkmið að koma gistingu í hærra skattþrep en segir tímasetninguna eins slæma og hugsast getur með tilliti til gengis krónunnar og launahækkana.

„Mín skoðun er reyndar sú að gisting ætti að vera i lægra þrepi. Það eru erlendir ferðamenn sem standa undir þessum tekjum og þeir nota afar litla þjónustu á landinu fyrir utan að það eru bara tvö eða þrjú lönd í heiminum sem eru með gistingu í hæsta þrepi.“

Hann óttast að hærra virðisaukaskattþrep verði til þess að vegur heimagistingar aukist, hótel freistist til að hækka verð á mat sem er í lægra skattþrepi og lækka verð á gistingu og í versta falli að skattsvik aukist.

smari@bb.is

Gröfuþjónusta Bjarna bauð lægst í Urðarvegsbrekkuna

Lagnir í götunni eru komnar til ára sinna líkt og sést á þessari mynd þar sem vatn flæðir upp úr götunni.

Tvö tilboð bárust í endurgerð Urðarvegsbrekkur á Ísafirði. Tilboð Gröfuþjónustu Bjarna ehf. hljóðaði upp á 52,4 milljónir króna, eða 107% af kostnaðaráætlun verksins. Tilboð Tígurs ehf. hljóði upp á 54,2 milljónir króna, eða 111% af kostnaðaráætlun. Um er að ræða uppgröft og endurgerð Urðvarvegsbrekkunnar ásamt því að frárennslislagnir í götunni verða endurnýjaðar.

smari@bb.is

 

 

Líkja eftir alvarlegu sjóslysi

Skemmtiferðaskip sigla í auknum mæli til Ísland og á norðurslóðir.

Ekkert land getur brugðist við sjávarháska skemmtiferðaskipa á norðurslóðum á eigin spýtur. Það getur tekið allt að fjóra daga fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar að komast á vettvang slyss og því mikilvægt að virkja nálæg veiði- og farþegaskip. Landhelgisgæslan, Samtök útgerða skemmtiferðaskipa á norðurslóðum og leitar- og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi halda í dag og á morgun viðbragðsæfingu vegna umferðar skemmtiferðaskipa. Þar verður líkt eftir alvarlegu sjóslysi. Markmiðið er að styrkja samstarf, auka þekkingu og upplýsingamiðlun þátttakendanna með áherslu á björgun farþega af farþegaskipum á norðurslóðum.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar segir í samtali við fréttastofu RÚV að mikilvægt sé að yfirvöld, útgerðir og allir þeir sem sinna leit og björgun séu vel undir það búnir að bregðast við hættuástandi á svæðinu.

„Það er hægt að segja að við séum ekki nægjanlega vel í stakk búin og það er í raun enginn. Það getur ekkert eitt ríki borið ábyrgð á þessu eða séð um það sem kann að geta gerst þegar um er að ræða fleiri hundruð manns um borð í einu skipi sem lendir í vandræðum,“ segir Georg.

Annað málsóknarfélag gegn laxeldinu

Jón Steinar Gunnlaugsson. Mynd: Sigtryggur Ari / DV.

Málsóknarfélagið Náttúruvernd 2, félag hagsmunaaðila, hefur stefnt Matvælastofnun og Löxum fiskeldi og fer fram á að rekstrarleyfi Laxa Fiskeldis fyrir 6000 tonna eldi á laxi í Reyðarfirði verði ógilt. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður fer með málið fyrir hönd málsóknarfélagsins.  Frá þessu er greint á vef RÚV. Þetta er annað málið gegn fiskeldi sem Jón Steinar sækir fyrir hönd málsóknarfélags.

Fyrra málið er stefna málsóknarfélagsins Náttúrurverndar 1 gegn Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi ehf. vegna laxeldis í Arnarfirði.  Þar er farið fram á að rekstrarleyfi og starfsleyfi Arnarlax fyrir eldi á laxi í Arnarfirði verði gerð ógild þar sem þau fari meðal annars gegn ákvæðum náttúruverndarlaga og fiskeldislaga.

Að málsóknarfélaginu í Arnarfirði standa eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði, eigandi Hringdals í Arnarfirði; bóndi í Grænuhlíð í Arnarfirði;,eigendur veiðiréttar í Haffjarðará á Snæfellsnesi og veiðifélag Laxár á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu.

Í stefnu Náttúruverndar 2 er þess krafist að rekstrarleyfi Laxa fiskeldis í Reyðarfirði verði stöðvuð, meðal annars á þeim forsendum að leyfið sé gefið út án þess að leyfilegur eldisstofn sé tilgreindur sem sé í bága við fiskeldislög. Þá sé leyfið, sem er frá árinu 2012, útrunnið og framlenging verið háð annmörkum. Starfsemi Laxa Fiskeldis í Reyðarfirði er ekki hafin. Stefnandi telur að lagaheimild skorti til að veita Löxum fiskeldi afnot af hafsvæðinu þar sem eldið á að vera og að eldið fari í bága við einkaréttarlega hagsmuni þeirra sem standa að málsókninni.

Stefnan verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. apríl.

Nýjustu fréttir