Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur forsætisnefnd Alþingis hafa fallið á fyrstu prófraun sinni og „sýnt að Alþingi skortir jarðsamband og tengsl við almenning í landinu.“ Nefndin hafi sýnt það þegar hún ákvað að beita sér ekki fyrir breytingum á launahækkunum þingmanna heldur draga einungis úr starfskostnaði þeirra. Þetta kemur fram í ályktun sem miðstjórn ASÍ hefur sent frá sér.
Í ályktun ASÍ segir að landsmönnum hafi ofboðið launahækkunin. „Síðan þá er búið að skipta um helming þingmanna og snérust kosningarnar í haust ekki síst um breytt siðferði. Nýir þingmenn höfðu tækifæri til að beita sér og sýna í verki að alvara lá að baki kosningaloforðum og taka til baka hækkun þingfaralauna umfram það sem hinn almenni launamaður hefur fengið í sitt umslag. Miðstjórn Alþýðusambandsins mótmælir hálfkáki forsætisnefndar þingsins og krefst þess að Alþingi taki málið upp og afturkalli hækkanir kjararáðs. Miðstjórn ASÍ minnir á að forsenduákvæði kjarasamninga eru til endurskoðunar nú í febrúar og hækkanir til alþingismanna og æðstu embættismanna geta sett framhald kjarasamninga alls þorra landsmanna í uppnám.“
smari@bb.is