Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 2228

ASÍ: Alþingi féll á fyrsta prófinu

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur forsætisnefnd Alþingis hafa fallið á fyrstu prófraun sinni og „sýnt að Alþingi skortir jarðsamband og tengsl við almenning í landinu.“ Nefndin hafi sýnt það þegar hún ákvað að beita sér ekki fyrir breyt­ingum á launa­hækk­unum þing­manna heldur draga ein­ungis úr starfs­kostn­aði þeirra. Þetta kemur fram í ályktun sem mið­stjórn ASÍ hefur sent frá sér.

Í ályktun ASÍ segir að lands­mönnum hafi ofboðið launa­hækk­un­in. „Síðan þá er búið að skipta um helm­ing þing­manna og snér­ust kosn­ing­arnar í haust ekki síst um breytt sið­ferð­i. Nýir þing­menn höfðu tæki­færi til að beita sér og sýna í verki að alvara lá að baki kosn­inga­lof­orðum og taka til baka hækkun þing­fara­launa umfram það sem hinn almenni launa­maður hefur fengið í sitt umslag. Mið­stjórn Alþýðu­sam­bands­ins mót­mælir hálf­káki for­sætis­nefndar þings­ins og krefst þess að Alþingi taki málið upp og aft­ur­kalli hækk­anir kjara­ráðs. Mið­stjórn ASÍ minnir á að for­sendu­á­kvæði kjara­samn­inga eru til end­ur­skoð­unar nú í febr­úar og hækk­anir til alþing­is­manna og æðstu emb­ætt­is­manna geta sett fram­hald kjara­samn­inga alls þorra lands­manna í upp­nám.“

smari@bb.is

Ljósamessa á sunnudagskvöld

Á sunnudagskvöldið kl 20  verður ljósamessa í Ísafjarðarkirkju. Þá verður kirkjan fyllt af logandi ljósum, ljós kveikt á kertaaltarinu og neytt heilagrar kvöldmáltíðar. Sérstakur gjörningur verður í kirkjunni þar sem tónlist og myndlist verða fléttuð saman. Tuuli Rähni mun leika spuna á orgelið. Sr. Magnús Erlingsson þjónar fyrir altari.

smari@bb.is

Ragnar íþróttamaður ársins í Strandabyggð

Friðrik Heiðar (t.v.) og Ragnar við afhendingur viðurkenninganna.

Ragnar Bragason var í byrun vikunnar útnefndur íþróttamaður ársins 2016 í Strandabyggð. Ragnar vann afrek á skíðum, í körfubolta og maraþonhlaupum á síðasta ári auk þess að leggja mikla vinnu í sjálfboðastarf og þjálfun, bæði í körfubolta og á gönguskíðum. Hvatningarverðlaunin þetta árið hlaut Friðrik Heiðar Vignisson. Í umsögn segir að hann hafi staðið sig með eindæmum vel bæði á gönguskíðum og í körfubolta og á sannarlega framtíðina fyrir sér í íþróttum.

Íþróttastarf á Ströndum var í blóma á árinu. Skíðafélagið var kraftmikið að vanda og hefur að auki sett alla umframorkuna í byggingu skíðaskála í Selárdal. Fjöldi barna stundar fótboltaæfingar og körfuboltaíþróttin er í mikilli sókn með síauknu samstarfi við íþróttafélagið Vestra á norðanverðum Vestfjörðum  Víðavangshlaup er vinsælt sem aldrei fyrr og Íþróttamiðstöðin vel nýtt til íþróttaiðkunar.

smari@bb.is

Afmæli Sundlaugar Bolungarvíkur fagnað

Síðasta laugardag var haldið upp á afmæli Sundlaugar Bolungarvíkur með pompi og prakt. Sundlaugin, sem starfsfólk hennar kallar iðulega í dag musteri vatns og vellíðunar, var vígð 30. janúar árið 1977. Gunnar Hallsson forstöðumaður vék að hinni nýju nafngift í ræðu sinni á afmælinu þar sem hann sagði meðal annars: „Musteri er æðra rými, það getur verið hverskonar bygging raunveruleg eða huglæg. Líkami mannsins  getur þess vegna verið musteri hans sjálf, sem hann umgengst með þeim hætti sem hann virðir líf sitt. Öll viljum við freista þess að ganga vel um það musteri.“

Á þriðja hundrað manns fagnaði afmælinu í íþróttamiðstöðinni Árbæ. Þar var að morgni dags boðið upp á samflot og heilsufarsmælingu sem fulltrúar frá Heilsubænum Bolungarvík buðu gestum og gangandi, þar sem mátti fá upplýsingar um eigin blóðþrýsting, blóðsykur og fituprósentu. Þá öttu kappi um sextíu sundhetjur sunddeildar UMFB. Að því loknu færðist afmælisgleðin um set í íþróttasalinn sem er að finna í sömu byggingu, þar sem fram fóru ræðuhöld og tónlistaratriði, jafnframt því sem boðið var upp á dýrindis kræsingar líkt og tíðkast í öllum betri afmælum. Þá var þetta góða tækifæri notað til að útnefna íþróttamann ársins 2016 í Bolungarvík sem er Nikulás Jónsson.

Hið fertuga afmælisbarn ber aldurinn vel og hefur undanfarinn áratug aðsókn í laugina aukist stórum, enda hafa reglulega verið gerðar þar endurbætur og stöðugt bætist í flóru þess sem sundlaugagestir nútímans óska eftir að slíkir staðir hafi upp á að bjóða, líkt og gott útisvæði þar sem finna má heita potta og vaðlaug og til að bæta um betur er þar einnig að finna rennibraut og kaldan pott sem gestir nýta sér óspart.

Þeir eru ófáir sem hafa heimsótt afmælisbarnið í gegnum tíðina og margir eru reglulegir gestir í lauginni og hefur sundlaugin frá árinu 1977 þjónustað um eina milljón baðgesta.

annska@bb.is

Bæjarins besta 5. tbl. 34. árgangur 2017

Flugfreyjur samþykktu kjarasamning

Flugfreyjur hjá Flugfélagi Íslands hafa samþykkt kjarasamning sem undirritaður var hjá ríkissáttasemjara fyrir viku. 32 höfðu atkvæðisrétt. Já sögðu 24, nei sögðu sex og einn skilaði auðu. Allir nema einn nýttu því atkvæðisrétt sinn.

Kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands rann út um áramótin 2015/2016 og félagið því verið samningslaust í rúmt ár. Á þeim tíma hafa þó tvívegis náðst samningar milli félaganna en í bæði skiptin voru þeir samningar felldir í atkvæðagreiðslu.

smari@bb.is

Verkfall sjómanna veldur víðtæku tjóni

Teitur Björn Einarsson alþingismaður

Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er áhyggjufullur yfir verkfalli sjómanna enda valdi það víðtæku tjóni, ekki bara fyrir sjómenn og útgerðarmenn heldur á ýmis þjónustufyrirtæki, starfsfólk í fiskvinnslu, sveitarfélög og ríkissjóð. Í facebook færslu Teits kemur fram að þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið hafi ekki enn fundið á eigin skinni fyrir afleiðingum verkfallsins sé alvarleiki málsins mikill og brýnir hann samflokksmenn sína og þá sérstaklega Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra að vinna efnahagsgreiningu á áhrifum verkfallsins og viðbragðsáætlun. Fjörugar umræður hafa skapast um færslu Teits og fann Helgi Seljan sig knúin til að birta mynd af tvíti Þorgerðar með yfirlýsingu hennar um að vinna við kortlagningu á áhrifum verkfallsins sé hafin.

Teitur segir í samtali við bb að hann sé ekki að hvetja til lagasetningar á kjaradeiluna. Hann segist vænta þess og þykist vita að stjórnvöld vinni nú hratt og örugglega að sviðsmyndagreiningu á áhrifum verkfallsins.  Teitur er ósáttur við að fiskvinnslufólk sé í stórum stíl beitt í atvinnuleysistryggingarsjóð og segir það geta dregið deiluna á langinn. Þetta ákvæði sem nú er beitt hafi verið hugsað til dæmis vegna náttúruhamfara, ekki til að létta fyrirtækjum að halda lengur út í verkföllum.

Á kjaradeilur sjómanna voru sett lög 1994, 1998 og 2001 og hafa nú verið samningslausir í 6 ár. Á Vísindavefnum kemur fram að á tímabilinu 1985-2015 hafi löggjafinn stöðvað 14 vinnudeilur með lagasetningu.

bryndis@bb.is

Miklir möguleikar fyrir hendi segir bæjarstjóri

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Vinningstillaga Kanon arkitekta sýnir að miklir möguleikar eru fyrir hendi í Sundhöll Ísafjarðar að sögn Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og formanns dómnefndar hugmyndasamkeppninnar. „Það er ljóst að miklir möguleikar eru fyrir hendi varðandi bætta aðstöðu og aðgengi, meðal annars möguleiki á 700 fermetra líkamsrækt á efstu hæðinni.“

Hann segir að nú þurfi að fara vandlega yfir tillögurnar og ákveða næstu skref. Tæknideild Ísafjarðarbæjar hefur áætlað að kostnaður við vinningstillögun gæti verið 408 milljónir kr. og minnsti hlutinn af því eru framkvæmdir við útisvæði og potta , eða 80 milljónir kr., en umræður meðal bæjarbúa hafa fyrst og fremst snúist um pottana.

Gísli Halldór leggur áherslu á að að nú sé komið að því að bærinn verði að taka ákvörðun um hvað skuli gera við Sundhöllina, hún standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til sundstaða – hvort sem um er að ræða aðgengismál, búningsklefa eða starfsmannaaðstöðu.

Hann segir bæinn í stakk búinn að ráða við þessa framkvæmd. „Í ljósi allra annarra framkvæmda þá tæki þetta vel í. Þetta er því spurning um forgangsröðun. Ef þetta væri eina framkvæmdin þá væri auðvelt að ráðast í verkið, en mikilvægu verkefnin eru mörg og bæjarsjóður sem betur fer betur í stakk búinn til að takast á við þau en verið hefur í áratugi.“

Hér má sjá niðurstöður hugmyndasamkeppninnar

smari@bb.is

Blossi aflahæstur

Janúarmánuður var gjöfull fyrir smábátinn Blossa ÍS frá Flateyri. Vefurinn aflafrettir.com greinir frá að í janúar var Blossi aflahæstur báta undir 13 brúttotonnum. Blossi fiskaði 50,6 tonn í 11 róðrum og mestur afli í róðri var 7,9 tonn. Skipstjóri á Blossa er Birkir Einarsson og báturinn er gerður út af Hlunnum ehf.

Í öðru sæti listans er annar vestfirskur bátur, Svalur BA sem landar ýmist á Patreksfirði eða á Bíldudal. Svalur fiskaði 40,6 tonn í 8 róðrum.

smari@bb.is

62% hækkun á fimm árum

Gjaldskrá fyrir bréfapóst hjá Íslandspósti hækkað í verði um 11 prósent í síðustu viku vegna fækkunar bréfa og launahækkana starfsfólks. Póst og fjarskiptastofnun samþykkti hækkunina skömmu fyrir síðustu mánaðamót. Íslandspóstur á einkarétt á þjónustu bréfapósts en á í samkeppni um fjölpóst.

Félag atvinnurekenda gagnrýnir hækkunina á verðskrá Íslandspósts og segir hana þá sjöundu á tæpum fimm árum. Þjónustan hafi hækkað í verði um 62,5 prósent frá því í júlí 2012.

Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda er það gagnrýnt að gjaldskrá fyrirtækisins fyrir bréfapóst þar sem Íslandspóstur hefur enga keppninauta er hækkuð en verðskrá fyrir fjölpóst þar sem er samkeppni sé óbreytt þrátt fyrir launahækkanir. Keppinautar fyrirtækisins neyðist hinsvegar til að hækka sína gjaldskrá vegna mikilla launahækkana samkvæmt kjarasamningum.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir