Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 2227

Stóru málin í samfélaginu

Jóhann Bæring Pálmason

Undanfarana daga hefur nokkuð verið rætt og ritað um þrjú mál sem Í-listamenn hafa verið að reka í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Mál þessi eiga það sameiginlegt að varða nokkuð mikil fjárútlát til bæði skemmri og lengri tíma lítið og sitt sýnist hverjum.

Safnmuna geymslan sem engin virðist hafa áhuga á að flytja inn í.

Fyrir um ári síðan var gerður leigusamningur við einkahlutafélag um leigu á um 460 m² rými sem nýta ætti fyrir skjalasafn, byggðasafn og eitthvað fleira. Samningur sem sagður er hljóða upp á um 8,4 milljónir á ári og er til 10 ára.  Búið er að afhenta bænum húsnæðið en enginn virðist vilja flytja þar inn. Mun það vera vegna þess að brunavarnir eru í algerum ólestri og húsið heldur víst hvorki vatni eða vindum. Þarna stendur því ónotað húsnæði sem við greiðum 8,4 milljónir á ári fyrir eða 84 milljónir á samningstímanum.

Á sama tíma og verið er að byggja einangruð stálgrindarhús 312 m² að stærð fyrir um 50 milljónir. Hús sem vel mætti skipta upp í 2 hæðir að hluta eða öllu leyti og værum við þá komin með allt að 624 m². Að vísu ætti þá eftir að innrétta húsið, leggja rafmagn og vatn. Enn ég á erfitt með að ímynda mér að innréttingar, rafmagn og vatn í geymslu húsnæði færu mikið yfir 50 milljónir. Værum við þá komin með húsnæði til eignar til langs tíma.

Reiðvöllurinn sem varð að reiðhöllinni.

Þegar Bolungarvíkurgöngin voru byggð þurfti að flytja hesthúsabyggðina sem stóð í Hnífsdal. Byggðin var flutt inn í Engidal og frá þeim tíma hafa hestamenn og Ísafjarðarbær rökrætt um hvernig skuli bæta reiðvöllinn sem hestamenn höfðu byggt upp í Hnífsdal.

Í þónokkur ár hefur hestamönnum staðið til boða að byggður verði fyrir þá eins völlur og þeir höfðu á nýjum stað í Engidal eða að þeir fengju greiddar að mér skilst 27 milljónir og ættu að sjá um verkið sjálfir. Lengi vel hafa hestamenn ekki svarað tilboði bæjarins enn nú er komin upp ný staða. Reiðvöllurinn er skyndilega orðin að reiðhöll upp á 50 milljónir sem bærinn skal til framtíðar greiða 49% af rekstrarkostnaði til viðbótar.

Til að réttlæta þann samning sem nú er verið að gera við hestamenn er bent á að svo langt sé liðið frá því að völlurinn þeirra var tekinn og að HSV, regnhlífarsamtök íþróttafélaga, hafi lagt blessun sína yfir samninginn um byggingu reiðhallarinnar. Ég hef verið að hugsa nokkuð út í þátt HSV í þessu máli. HSV fær inn á borð til sín kynningu á samningi sem þau hafa enga aðkomu að. Eiga þau sem þar sitja að segja „nei þetta er ekki í samræmi við okkar markmið“. Af sjálfsögðu fagnar stjórn HSV allri uppbyggingu íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu. Enn HSV er ekki aðili að samning þessum og hefur því ekkert um innihald hans að segja.

Það sem mér finnst alvarlegast við samning þennan er annars vegar að þarna er samið við eitt félag fram hjá þeim verkferlum sem komið hefur verið upp í samstarfi HSV og Ísafjarðarbæjar. En þar hefur HSV farið fyrir þeirri vinnu að forgangsraða þeim verkefnum sem íþróttafélögin vilja fara í og þannig hafa félögin komið sameinuð um verkefnalista til bæjarins. Eða er það kannski vilji núverandi bæjaryfirvalda að hvert og eitt félag komi og hamist í þeim með sýnar kröfur?

Hitt atriðið sem ég er ekki sáttur við í þessu ferli er að þarna á að byggja skemmu sem kannski 20 manns munu nota, enn á sama tíma eru hundruð barna hlaupandi um á ónýtu parketi í aðal íþróttahúsi bæjarins og hafa ekkert val um hvort þau mæti þar eða ekki.

Sundlaugin og sólbaðsaðstaðan.

Það er gaman að fara með börnin í skemmtilegan sundlaugargarð á góðviðrisdegi og horfa á þau skemmta sér á meðan maður liggur í pottinum og slakar á. Því miður hefur ekki verið hægt að gera hér á Ísafirði. En nú hyggst Í-listinn breyta því og byggja við Sundhöll Ísafjarðar útiaðstöðu með potti, rennibraut og busl laug. Þá á í leiðinni að gera nýja búningsklefa og eitthvað fleira. Framkvæmdir sem kosta eiga 408 milljónir og til viðbótar við það þarf svo að lagfæra gömlu laugina og allan búnað sem henni fylgir. Það mun vera framkvæmd sem kostar að mér er sagt af kunnugum mönnum um 300 milljónir.

Við erum sem sagt í þeirri stöðu núna að vera að velta því fyrir okkur hvort við eigum að byggja upp útiaðstöðu og endurbæta 60+ ára gamla 16,67 metra sundlaug fyrir um 700 milljónir. Á fundi um sundlaugamál með bæjarstjóra og þáverandi byggingafulltrúa Ísafjarðarbæjar, gaf byggingafulltrúinn það út að 25 metra útilaug með pottum og rennibraut myndi kosta um 750 milljónir. Miðað við hvað kostar að byggja 300 m² stálgrindaskemmu þá get ég ekki ímyndað mér að það kosti mikið meira en 200 milljónir til viðbótar að byggja yfir laugina.

 Í-listi lýðræðis og opinnar stjórnsýslu.

Ég minnist þess ekki að áður hafi jafn mörg mál komið inn á borð æðstu stofnana bæjarins jafn seint og nú. Málum sem þarf að afgreiða með flýti og helst áður en fundargerð er send út. Þetta er gert þrátt fyrir fögur fyrirheit um aukið lýðræði og gagnsæja stjórnsýslu sem mikið var rætt um fyrir síðustu kosningar.

Meirihlutinn talar um að aldrei hafi bæjarsjóður staðið jafn vel fjárhagslega og á sama tíma hefur minnihlutinn stórar áhyggjur af stöðunni. Minnihlutinn heyrist kvarta yfir því að fá seint og illa svör við fyrirspurnum sínum. Málum er snúa að yngstu borgurum okkar sífellt frestað og plástrar settir til að þagga aðeins niður í hópnum en á sama tíma er verið að ausa peningum í „hobbí“ verkefni okkar fullorðna fólksins.

Hvað þarf í gott samfélag?

Að mínu mati er það lykilatriði að vera með góð leik- og grunnskóla, góðar aðstæður til atvinnuskipunnar, heilbrigðisþjónustu og mannlíf. Þegar þetta er komið getum við farið að einbeita okkur að því að skapa aðstæður til tómstunda iðkunar.

Eins og staðan er í dag finnst mér við vera á kolvitlausum enda í uppbyggingu samfélags okkar. Undanfarna mánuði og ár höfum við verið í plástra leikjum með undirstöðuatriðin eins og leik- og grunnskólamálin. Höfum eitt fleiri tugum milljóna í bráðabirgðalausnir leikskóla, dægradvöl og félagsmiðstöð. Þau framtíðarplön sem við virðumst vera að leggja peninga í á þessari stundu auka bara enn frekar á þau vandræði sem við höfum verið að leysa til bráðabirgða og enn eru þau mikilvægu í lausu lofti.

Er ekki kominn tími á að við stokkum aðeins upp spilin aftur og byrjum á byrjuninni. Klárum að leysa úr vanda leik- og grunnskólanna. Förum svo í að huga að tómstundariðjum okkar eins og skjala og dóta söfnun, sólbaði og pottalegu eða dýratamningum.

Leikskólapláss og dægradvöl þurfum við til að foreldrar geti unnið og greitt útsvar. Sundlaug þarf að vera til að sinna lögboðinni skólaskyldu. Gólf íþróttahús þarf að vera heilt til að krakkar slasi sig ekki í lögboðnum kennslustundum. Klárum þessi verk og förum svo að huga að hinu sem skemmtir okkur.

Jóhann Bæring Pálmason

Hár sjávarhiti lúsinni hagstæður

Víkingur Gunnarsson

Óvenjumikill sjávarhiti í haust varð til þess að meira varð vart við laxalús en ella í sjókvíaleldinu á sunnanverðum Vestfjörðum. Þetta segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. „Lúsinni líður best við ákveðin skilyrði í sjónum og þau voru henni hagstæð í haust. Sjórinn var allt að tveimur gráðum hlýrri en hann hefur verið undanfarin ár,“ segi Víkingur og bendir á að það sé eins með lúsina og t.d. makrílinn; þegar aðstæður eru hagstæðar þá fjölgar henni.

Aðspurður segir hann að ekki hafi verið beitt aflúsun með efnameðferð. „Við myndum aldrei gera það nema í algjöru samráði og að beiðni Matvælastofnunar. Eins erum við með vottanir frá Whole Foods sem eru ströngustu vottanir sem hægt er fá og hún leggur okkur þá ábyrgð á herðar að við fylgjumst gaumgæfilega með lús og það höfum við gert og við erum ekki að hugsa um neina aflúsun.“

Víkingur leggur áherslu á að lúsin hafi ekki valdið neinum skaða á fiski. „Hitastig sjávar er komið í þrjár gráður núna, um leið og það fer niður fyrir fjórar gráður þá fer lúsinni að líða illa og við erum ekki að sjá lús í neinum mæli núna þannig að ég tel við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur. Í fyrra fór hitinn niður í eina gráðu og þá hverfur lúsin alveg.“

Að sögn Víkings hefur Arnarlax frá upphafi fylgst grannt með laxalús. „Það er partur af okkar starfi og við sáum óvenjulegar aðstæður í haust. Það sem við getum gert hér á Íslandi er að við getum verið samstíga í viðbrögðum. Það var ekki gert í Noregi þar sem hver var í sínu horni að bregðast vandanum og það gerði illt verra í þeirra tilfelli.“

Laxalús hefur valdið miklum búsifjum í norsku laxeldi og aflúsanir kosta laxeldisfyrirtækin stórfé. Laxalús getur náð miklum þéttleika í og við sjókvíar og séu kvíarnar staðsettar í nánd við gönguleiðar villtra niðurgönguseiða, getur lúsin valdið miklum afföllum. Laxalús hefur ekki verið vandamál í íslensku fiskeldi og lyfjameðferð síðast beitt fyrir aldarfjórðungi. Í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma kemur fram að með auknu sjókvíaeldi er nokkuð viðbúið að hún geri vart við sig í meiri mæli, ekkí síst í sumarlok og fram eftir haust.

smari@bb.is

Hörkuleikur á Jakanum í kvöld

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Baráttan hjá Vestramanna um sæti í úrslitakeppnini 1. deildar körfubolta heldur áfram. Í kvöld mæta Fjölnismenn í heimsókn á Jakann á Ísafirði. Leikurinn hefst sem fyrr kl. 19:15. Í hálfleik verður skrifað undir samstarfssamning við Hertz bílaleigu og skotleikur Hertz kynntur til sögunnar þar sem veglegur vinningur er í boði. Skömmu fyrir leik verður kveikt upp í grillinu og ljúffengir Vestraborgarar steiktir.

Fjölnismenn sitja sem stendur í öðru sæti deildarinnar og því má búast við erfiðum leik. Vestramenn eru þó hvergi bangnir og ljóst er að til mikils er að vinna því sigur á einu af toppliðum deildarinnar væri gott veganesti inn í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni.

Stuðningsmenn Vestra eru hvatti til að mæta á Jakann og styðja við bakið á strákunum. Þeir fá svo stutta hvíld því, strax á sunnudaginn mæta þeir FSu á útivelli. Sá leikur er gríðarlega mikilvægur því Selfossliðið er jafnt Vestra að stigum í deildinni.

smari@bb.is

Umferðin aukist gríðarlega

Gríðarlega mikil aukning varð í umferðinni í nýliðnum janúarmánuði um 16 lyklilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum. Umferðin jókst um ríflega 13 prósent sem er svipuð aukning og í janúar í fyrra en margföld meðaltalsaukning í janúar. Umferðin hefur aldrei áður verið meiri á Hringveginum í janúarmánuði en ríflega 55 þúsund bílar fóru um teljara á degi hverjum eða um 13 þúsund fleiri en fyrir tveimur árum.

Þessi aukning er hlutfallslega svipuð og varð á síðasta ári í sama mánuði en í bílum talið er aukningin nú um 1000 bílum stærri, á degi hverjum.

smari@bb.is

Ísafjörður vinnusóknarsvæði nágrannabæjanna

Ný rannsóknaskýrsla sýnir skýrt að Ísafjörður er vinnusóknarsvæði fyrir bæjarkjarnana í kring, utan Þingeyrar. Litlu bæjarkjarnarnir teljast ekki vinnusóknarsvæði Ísafjarðar, en það er þá helst til Bolungarvíkur sem Ísfirðingar sækja vinnu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsóknum á ferðamynstri og vinnusóknarsvæðum sem Lilja G. Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Viaplan, hefur unnið fyrir hluta landsins, í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Skipulagsstofnun og Byggðastofnun með styrk frá Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar.

Í niðurstöðum Lilju um ferðamynstur og vinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum kemur einnig kemur fram að hinir ýmsu vegakaflar hræða fólk, Súðavíkurhlíð er þar fremst í flokki, þá Gemlufallsheiði og Flateyrarvegur og getur það haft áhrif á vinnusóknarsvæði. Þá vildu margir að Vestfjarðagöng yrðu tvöfölduð.

Þar sem niðurstöður rannsóknanna sýna að fólk kýs að vinna nálægt heimabyggð og þá má velta fyrir sér hvort framtíðarstefnan eigi að vera sú að reyna að stækka atvinnusvæði og fá fólk til að ferðast meira eða hvort framtíðarstefnan eigi frekar að vera sú að reyna að styrkja fleiri byggðarsvæði. „Á Norðurlöndunum er notast við skattaafslátt á akstri fólks til vinnu, þegar það þarf að ferðast meira en 20 km til vinnu. Það er gert til þess að reyna að styðja við dreifðari byggðir […] hér sé slíkur skattaafsláttur ekki til staðar og því ljóst að það er dýrt fyrir fólk að keyra langar vegalengdir til vinnu hérlendis,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar um Vestfirði.

Hér má lesa skýrsluna

smari@bb.is

Gengið veldur þungum búsifjum hjá sjómönnum

Árshlutur háseta um borð í Barða NK, sem Síldarvinnslan hf. gerir út, mun lækka um fimm milljónir á þessu ári miðað við 2015, haldist gengi íslensku krónunnar óbreytt. Þetta kemur fram í tölum sem Síldarvinnslan hefur birt á facebooksíðu sinni. Þar eru áhrif gengisbreytinga síðustu missera sett í samhengi við rekstur frystitogarans fyrrnefnda. Barðinn landaði 2.957 tonnum af frystum afurðum árið 2015 að verðmæti 1.653 millj. kr. Að teknu tilliti til gengisþróunar, sem er mismunandi eftir tegundum og þeim mörkuðum sem þær seljast á, mun sami afli skila 1.336 milljónum á gengi dagsins og jafngildir það lækkun um 19,2%. Sé einnig tekið tillit til lækkunar afurðaverðs nemur heildarverðmæti aflans 1.209 milljónum og jafngildir það lækkun upp á 26,84% í íslenskum krónum.

Bendir Síldarvinnslan á að þessi þróun hafi verulega neikvæð áhrif á útgerð skipsins en að hið sama megi segja um skiptahlut skipverja. Þannig hafi árshlutur háseta numið 18,8 milljónum árið 2015 en verði að öllu óbreyttu 13,8 milljónir á þessu ári.

smari@bb.is

Sund og pottaaðstaða – vinningstillaga liggur fyrir.

Daníel Jakobsson

Niðurstaða úr hönnunarsamkeppni um sundhöll liggur nú fyrir. Þetta eru um margt skemmtilegar tillögur en breyta ekki helstu staðreyndum í þessu máli. Almenningi finnst þetta ekki skemmtilegur staður, aðgengi að húsinu er slæmt og breytingarnar eru kostnaðarsamar og fela í sér að ekki verður hægt að byggja nútíma sundlaug í tengingu við pottaaðstöðuna. Ef einhvern tímann ætti að koma 25 metra laug væri ekki hægt að koma henni fyrir þarna. Finna yrði henni annan stað.

Talað er um að kostnaðurinn við þessar breytingar/viðbyggingu séu að lágmarki 450 m.kr. Inn í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir breytingum á sundlauginn sjálfri, hún verður eins. Ekki er heldur gert ráð fyrir nýju klórkerfi eða loftræsingu í húsið. Inn í þeirri tölur eru heldur ekki endurbætur á 3. hæð eða lagfæringar á íþróttasalnum eða utanhúsklæðingu á húsinu.

Mín skoðun er sú, og hefur bara styrkst með því að fá fram kostnaðinn við þessar tillögur, að ef gera á eitthvað í sundlaugarmálum í Skutulsfirði þá ætti að byggja þessa aðstöðu sem nú er rætt um á Torfnesi. Það yrði sennilega ódýrari framkvæmd og betri staður hvað varðar aðgengi og veður. Þar væri hægt að samnýta búningsklefa og starfsfólk og í framtíðinni ef vilji stendur til væri hægt að gera þar 25 metra laug.

Við þurfum líka að þora að velta upp þeim möguleika að sundlauginn okkar sem búum í Skutulsfirði verði í Bolungarvík sem er í 10 mínútna akstursfjarlægð. Þar væru byggð upp sundlaugarmannvirki með 25 metra laug, en hér á Ísafirði kæmi fjölnota (knattspyrnu) íþróttahús og líkamsræktaraðstaða. Þannig myndum við nýta takmarkað fjármagn betur sem gerir okkur kleift að nýta peningana okkar í fleiri skemmtileg verkefni í stað þess að eiga tvær (fimm) sundlaugar á svæðinu.

Því má svo reyndar bæta við að á fundi bæjarráðs með Vestra um fjölnota knattspyrnuhús var því velt upp af meirihlutanum hvort að framtíðarstaðsetning knattspyrnu væri á Torfnesi og ef svo væri hvort að ekki væri heppilegra að staðsetja húsið við íþróttahúsið en ekki vallarhúsið. Það lýsir þeirri stöðu sem var ástæða þess að settar voru 10 m.kr. árið 2014 í að skipuleggja Torfnessvæði hvað ætti að vera hvar. Horfið var frá þeirri skipulagsvinnu og farið í samkeppni um sundhöllina í staðinn. Við stöndum því uppi með það núna þegar fjármagn liggur fyrir í knattspyrnuna að öll skipulagsvinna er eftir og þ.a.l. mun hugsanlega ekki vera hægt að hefja vinnu við uppbygginu á Torfnesi fyrr en á næsta ári.

Daniel Jakobsson

Rigning með köflum

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 10-15 m/s og rigningu með köflum á Vestfjörðum í dag. Vindur snýst í sunnan 8-13 m/s með rigningu um tíma í nótt og fyrramálið. Á morgun er síðan gert ráð fyrir austan 5-10 m/s og björtu veðri. Hiti verður á bilinu 0 til 5 stig. Á sunnudag er spáin fyrir landið austan og síðar sunnan 8-13 m/s og rigning eða slydda með köflum, með hita á bilinu 0 til 7 stig.

Á Vestfjörðum er sums staðar hálka eða snjóþekja, einkum á fjallvegum en á láglendi eru þó víðast aðeins hálkublettir eða jafnvel alveg autt.

annska@bb.is

Litla stund hjá Hansa tilnefnd til Edduverðlauna

Skjáskot úr myndinni

Stuttmyndin Litla stund hjá Hansa eftir Flateyringinn Eyþór Jóvinsson er tilnefnd til Edduverðlaunanna í flokki stuttmynda, en þrjár myndir eru tilnefndar þar: Litla Stund hjá Hansa, sem framleidd er af Eyþóri og framleiðslufyrirtækinu Arcus, Leyndamál sem er framleiðsla Northern Vision, Jakobs Halldórssonar og Stellu Rín Bieltvedt og Ungar sem framleidd er að Askja films, Evu Sigurðardóttur og Nönnu Kristínu Magnúsdóttur.

Litla stund hjá Hansa er gamansöm mynd sem byggir á smásögu eftir Þórarin Eldjárn en Eyþór skrifaði handritið auk þess að leikstýra myndinni. Með aðalhlutverk fer Sveinn Ólafur Gunnarsson og með önnur hlutverk fara þau Elísabet Thea Kristjánsdóttir, Helgi Björnsson, Anna Hafþórsdóttir en auk þess kemur Már Guðmundsson seðlabankastjóri fram og leikur sjálfan sig.

Edduhátíðin 2017 verður haldin sunnudaginn 26. febrúar á Hótel Hilton Reykjavík Nordica og sýnd beint á RÚV.

annska@bb.is

Líkist evrópskum fljótapramma

Dan fighter

Danska flutningaskipið Dan fighter kom til Ísafjarðar í gær og lagðist upp að hafnarbakkanum á Mávagarði. Skipið vekur athygli fyrir útlit, en það líkist helst flutningaprömmum sem sigla upp og niður stórfljót meginlands Evrópu. Skipið kom til Ísafjarðar með stálþil, annars vegar 50 tonn í viðleguþyppu á Mávagarði og hins vegar 227 tonn sem fara í ofanflóðavarnir á Súðavíkurhlíð.

Áður en skipið kom til Ísafjarðar losaði það 400 tonn í Reykjavík og heldur í dag til Akureyrar.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir