Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2227

Rokkstjórinn gerir ekki upp á milli atriða

Kristján Freyr Halldórsson.

Það styttist í Aldrei fór ég suður, en kveikt verður á mögnurunum og volumetakkinn keyrður upp í 11 um kvöldmatarleytið á föstudaginn langa. Að vanda hafa margir helstu tónlistarmenn landsins boðað komu sína á þessa sívinsælu hátíð. Þegar úr mörgu og góðu er að velja vandast valið þegar eins fánýt spurning og hvað hlakkar þig mest til að sjá er borin upp. „Ég sem rokkstjóri geri að sjálfsögðu ekki upp á milli atriða en ég verð að segja að það er sérstaklega ánægjulegt að nýkrýndir sigurvegarar Músíktilrauna eru heima úr héraði og ég hlakka verulega til að sjá þær stíga á stokk.“ segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður.

Það eru ekki mörg ár síðan sá háttur komst á að sigurvegari Músíktilrauna er boðið að spila á Aldrei fór ég suður og nú í annað sinn á þremur árum eru það heimamenn, fyrst Rythmatik frá Suðureyri og nú súgfirsk/dýrfirski dúettinn Between Mountains. Dúettinn skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir.

Kristján Freyr segir að fyrir utan að hans heimahjarta hafi tekið aukaslag við sigur stúlknanna, þá sé sigur þeirra að sumu leyti tímanna tákn. Tónlistarbransinn hefur verið einkar karllægur, þó undantekningar séu á því. Hann segir að þegar horft er yfir sviðið í dag, sést að mikil breyting hefur orðið á og ungar stelpur eru í bílskúrum um allt land að plokka bassa og berja húðir.

„Þessi þróun sést glögglega þegar maður lítur til baka á kynjahlutföllin á fyrstu Aldrei fór ég suður hátíðunum og ber þau saman við síðustu hátíðir. Það hallar enn á konur, en þetta hefur batnað mikið,“ segir Kristján Freyr rokkstjóri.

Breiddin hefur frá upphafi verið aðalsmerki Aldrei fór ég suður. Á hátíðinni er jafnlíklegt að heyra argasta dauðarokk, fínlegt tölvupopp og 50 manna karlakór syngja klassísk ættjarðarlög. Hátíðin í ár er engin undantekning hvað þetta varðar.

Á Aldrei fór ég suður 2017 spila:

  • Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar
  • Soffía
  • Karó
  • KK Band
  • Mugison
  • Kött Grá Pjé
  • HAM
  • Between Mountains
  • Hildur
  • Vök
  • Börn
  • Emmsjé Gauti
  • Rythmatik
  • Valdimar

 

Móttaka fyrir Between Mountains – kl. 18:00

Sigurvegarar Músíktilrauna 2017 eru sem kunnugt er dúettinn Between Mountains. Dúettinn skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir. Á sunnudaginn verður formleg mótttaka í Félagsheimilinu á Suðureyri, í heimabæ Kötlu Vigdísar en Ásrós Helga er frá Núpi í Dýrafirði. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem Súgfirðingar taka á móti sínu fólki sigri hrósandi eftir Músíktilraunir, en árið 2015 sigraði Rythmatik frá Suðureyri. „Það er eitthvað í loftinu hérna, það hlýtur að vera,“ segir Ævar Einarsson hjá Klofningi ehf. á Suðureyri en fyrirtækið stendur fyrir móttökunni.

Ævar segir að móttakan sem hefst kl. 18 sé öllum opin. „Þær ætla að taka lögin sem þær spiluðu á Músíktilraunum svo þetta ætti að vera gaman,“ segir Ævar.

Smári

Uppfært: Móttakan hefst kl. 18:00, ekki 17:00 eins og var í upphaflegu fréttinni

Vikulangt námskeið í nýsköpun í fiskeldi

Nemendahópurinn við seiðaeldisstöð Arnarlax í Tálknafirði.

Nýverið lauk vikulöngu námskeiði Háskólaseturs Vestfjarða um nýsköpun í fiskeldi sem fram fór á sunnanverðum Vestfjörðum. Á námskeiðinu kynntust þátttakendur fiskeldinu í gegnum fyrirtækjaheimsóknir og unnu samhliða því að nýsköpunarverkefnum. Námskeiðið naut góðs af nálægð við fyrirtækin á svæðinu og var nemendahópnum vel tekið af þeim öllum.

Seiðaeldisstöðin Arctic Fishh innst í Tálknafirði var skoðuð og seiðaeldisstöð Arnarlax á Gileyri í Tálknafirði. Einnig fengu nemendur tækifæri til að fylgja starfsmönnum Arnarlax  einn morgun í reglulega eftirlitsferð út í kvíar í Arnarfirði. Að eftirlitsferðinni lokinni skiptist hópurinn í tvennt á Bíldudal og skoðaði fiskvinnslu fyrirtækisins og fyrirkomulag fóðurgjafa. Fóðurgjafakerfi Arnarlax er mjög tæknivætt en treystir samt tækninni hóflega enda er unnið á tveimur mönnuðum vöktum við að stýra þessu fullkomna kerfi. Nemendurnir fengu mjög góða innsýn í stærðargráðu greinarinnar og áttuðu sig vel á mikilvægi strandsvæðastjórnunar með tilliti til hennar.

Sjá nánar á vef Háskólasetursins.

Sigurvegari Vasa mætir í Fossavatnsgönguna

Britta Johansson Norgren er fremst kvenna í lengri vegalengdum.

Þeim fjölgar sterku skíðamönnunum sem boða þátttöku í Fossavatnsgöngunni. Í gær var greint frá að sjálfur Petter Northug er á leiðinni til Ísafjarðar. Nú hefur sænska skíðagöngukonan Britta Johansson Norgren bæst í hópinn. Hún varð fyrst kvenna í Vasagöngunni í Svíþjóðí vetur og er nú efst að stigum í Ski Classics, en síðasta mótið í mótaröðinni verður í Ylläs-Levi í Finnlandi á morgun. Eftir að hún hætti í sænska skíðalandsliðinu, þar sem hún keppti meðal annars á þremur Ólympíuleikum,  hefur hún einbeitt sér að keppnum í lengri vegalengdum.

Ísafjarðarbær byggir fjölbýlishús

Hér mun húsið rísa.

Úthlutunarnefnd Íbúðalánasjóðs hefur samþykkt umsókn Ísafjarðarbæjar um stofnframlög fyrir leiguhúsnæði. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að strax verði hafist handa við að undirbúa framkvæmdir. „Það er búið að grófhanna húsið en það verður við Sindragötu 4a, á gamla sláturhúsplaninu. Næsta skref er að fullhanna húsið,“ segir Gísli Halldór.

Alls verða 13 íbúðir í húsinu, en tvær þeirra verða seldar á frjálsum markaði. Stofnframlag ríkisin er vegna 11 leiguíbúða. Þar af verða 5 sem ætlaðar eru fötluðu fólki og 6 sem ætlaðar eru fólki undir tekju- og eignamörkum. Stofnframlagið skiptist í þrennt, 18% er grunnframlag ríkisins, 6% viðbótarframlag vegna markaðsbrests á svæðinu og 4% vegna þeirra íbúða sem ætlaðar eru fötluðum. Alls er stofnframlagið metið á 57 milljónir króna.

Að sögn Gísla Halldórs verður húsið byggt af Fasteignum Ísafjarðarbæjar.

Ekkert hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði á Ísafirði í áratug eða meira. „Þetta orðið allt of langur tími og mikil þörf hefur safnast upp,“ segir bæjarstjórinn sem stefnir að því að húsið verði fullbúið á næsta ári.

Fimmtungur aflans unninn erlendis

Á árinu 2015 nam steinbítsaflinn hér við land 8.055 tonnum, þar af voru 1.654 tonn flutt óunnin úr landi eða 20,5% af heild. Á árinu 2016 veiddust 8.660 tonn af steinbít og voru 1.513 tonn flutt óunnin úr landi eða 17,5%. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.

„Þegar verið er að ýja að því að fiskvinnsla kunni að flytjast úr landinu virðist það gleymast að þetta á sér stað nú þegar. Töluverður hluti steinbítsaflans á Íslandi er unninn í Skotlandi og Englandi og sömuleiðis er mikil steinbítsvinnsla í Boulogne Sur Meer í Frakklandi,“ segir Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri Íslandssögu á Suðureyri í samtali við Fiskifréttir.

Steinbíturinn er seldur á íslensku fiskmörkuðunum og fluttur óunninn utan í gámum. Skoskt fyrirtæki kaupir mikið og eins hefur íslenskt/franskt/enskt fyrirtæki verið umsvifamikið í þessum viðskiptum og ráðandi á markaðnum í Frakklandi undanfarin ár, að sögn Óðins.

Vistvænar umbúðir á Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég suður gerði á dögunum samning við prentsmiðjuna Odda um notkun umbúða sem eingöngu eru úr náttúrulegum hráefnum og flokkast því einfaldlega með öðrum lífrænum úrgangi. Umbúðirnar sem kallast Enviropack eru framleiddar úr sterkju sem fellur til við framleiðslu á sykri og maís og eru að fullu niðurbrjótanlegar og vistvænar.

Hátíðarhaldarar munu því bjóða uppá vistvænar umbúðir fyrir allar þær veitingar sem boðið verður uppá á hátíðarsvæðinu og flokkast því umbúðirnar með öðru lífrænu sorpi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá rokkstjórann Kristján Frey handsala samstarfið við fulltrúa Odda, strandamanninn Karl F. Thorarensen.

Aðstandendur Aldrei fór ég suður eru verulega glaðir með þetta samstarf og stoltir af því að taka nokkur græn skref, t.a.m. í kjölfar hins góða framtaks Plastpokalausra Vestfjarða sem kynnt var í fyrra.

Við þetta má bæta að veitingaaðstaða á hátíðarsvæðinu mun verða á nýjum stað, inni í húsi við hlið tónleikaskemmunnar og vonast því Aldrei fór ég suður hópurinn að hátíðargestir kunni vel að meta stórbætta aðstöðu og styðji vel við bakið á hátíðinni með kaupum á veitingum og varningi

Dýrin koma til Dýrafjarðar

Leikdeild Höfrungs á Þingeyri hefur verið í hörku stuði í leikhúsinu síðustu ár og sett upp hverja stórsýninguna á fætur annarri. Í fyrra var það Kardemommubærinn, þar á undan Galdrakarlinn í Oz og þar áður sjálf Lína langsokkur. Enn eitt stórverkið kemur sér haganlega fyrir á listanum í dag, því í kvöld frumsýnir leikdeildin leikritið ástsæla Dýrin í Hálsaskógi. Leikdeild Höfrungs er sennilega eitt af öflugari áhugaleikfélögum landsins og þá sér í lagi sé litið til höfðatölu því ár hvert tekur fjöldinn allur þátt í uppfærslunum og því er eins farið að þessu sinni. Alls taka 17 leikarar þátt í sýningunni og annar eins hópur starfar að tjaldabaki, því þar sem margt sem þarf að gera þegar ævintýri eru sett á svið. Í þessu tilfelli þarf að útbúa heilan skóg og umbreyta mönnum í dýr, lýsa upp ævintýrið og svo ótal margt fleira. Síðan er að vanda einn sem heldur í alla spottana og sér til þess að hópurinn vinni saman sem einn maður og er það leikstjórinn Elfar Logi Hannesson.

Höfundur Dýranna í Hálsaskógi er hinn norski Thorbjörn Egner og hefur verkið verið eitt vinsælasta barnaleikrit hér á landi í 55 ár, eða allar götur frá því er Þjóðleikhúsið sýndi það fyrst leikhúsa árið 1962. Um þessar mundir er líka verið að frumsýna teiknimynd með þeim Lilla, Mikka og vinum í Hálsaskógi, svo það er nokkuð ljóst að dýrin munu halda áfram að skemmta komandi kynslóðum. Verkið hefur elst vel því enn eru lögmálin þau sömu um að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Tónlistin úr verkinu er einnig afar vinsæl og ætlaði allt um koll að keyra á samfélagsmiðlum er Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fékk fólk með sér í söng á Dvel ég í draumahöll, sem er einmitt ættað úr Dýrunum í Hálsaskógi.

Fyrirhugaðar eru fimm sýningar í félagsheimilinu á Þingeyri. Frumsýning í kvöld klukkan 19.30, önnur sýning á morgun klukkan 13 og á páskum verða þrjár sýningar. Ein sýning á skírdag og tvær á föstudaginn langa. Miðasala hófst fyrir nokkru síðan og gengur mjög vel, nálgast má miða í síma: 659 8135.

annska@bb.is

Frjósemi minni en nokkru sinni fyrr

Frjósemi kvenna á Íslandi er minna en nokkru sinni fyrr og fæddust færri börn í fyrra en árið á undan. Meðalaldur frumbyrja heldur áfram að hækka og var 27,7 ár í fyrra. Algengast er á Íslandi  að barn fæðist utan hjónabands miðað við önnur lönd í Evrópu. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Árið 2016 fæddust 4.034 börn á Íslandi, sem er fækkun frá árinu 2015 þegar 4.129 börn fæddust. Alls fæddust 2.042 drengir og 1.992 stúlkur, en það jafngildir 1.025 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Árið 2016 var frjósemi íslenskra kvenna 1,75 börn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei farið lægra frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2015 var frjósemi 1,81 en það er næstlægsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi. Undanfarinn áratug hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um tvö börn á ævi hverrar konu.

Frjósemi á Íslandi hefur verið með því mesta sem þekkist í Evrópu á síðustu árum. Árið 2015 var frjósemi yfir tveimur í Frakklandi (2,14) en þess utan voru öll löndin undir tveimur. Þá var frjósemi að meðaltali 1,58 í 28 löndum Evrópusambandsins árið 2015. Síðustu ár hefur fæðingartíðni innan álfunnar verið lægst í löndum Suður-Evrópu og er árið 2015 engin undantekning, en fæðingartíðni var 1,31 í Portúgal, 1,32 á Kýpur og 1,33 á Grikklandi.

Aldrei boðar endurkomu Kraftgallans sem tískuflíkur

Fátt sameinar betur töffheit og notagildi en sérmerktir Aldrei fór ég suður Kraftgallar.

Aldrei boðar endurkomu Kraftgallans sem tískuflíkur

Enginn tískuvarningur ungmenna hér á landi hefur sennilega vakið eins mikla ánægju meðal foreldra og Kraftgallinn hlýi og góði, en snemma á tíunda áratugnum þótti eitursvalt að sporta þessum bláu, fóðruðu heilgöllum og gat það komið sér vel þar sem ein helsta tómstundariðja ungmenna þess tíma var að mæla strætin skref fyrir skref flest kvöld (þó þar væru enga Pókemona að finna) og gilti þá einu hvernig viðraði. Líkt og verður um flest tískutrend tóku vinsældir gallans að dvína og þegar kom að aldamótum þótti fátt hallærislegra en gallinn góði. Kraftgallinn hefur þó ekki farið af markaðinum með öllu og hefur flíkin að sjálfssögðu talsvert notagildi og er til að mynda vinsæl hjá þeim sem vinna utandyra eða þar sem er kalt.

Stjórnendur rokkhátíðar alþýðunnar Aldrei fór ég suður eru með puttann á púlsinum að vanda og í ár boða þeir að Kraftgallinn sé heitasta flík páskanna 2017, eða ársins í heild. Til að styðja betur við þá kenningu í verki er nú boðið upp á takmarkað upplag af sérmerktum Aldrei-fór-ég-suður-Kraftgöllum í samstarfi við 66°Norður. Í dag er síðasti dagurinn til að tryggja sér slíkan kostagrip, en það má gera með því að senda póst á rokkstjori@aldrei.is, en í honum þarf að koma fram bæði nafn tilvonandi gallahafa ásamt stærð galla sem óskað er eftir S-XL í boði.

annska@bb.is

 

 

Nýjustu fréttir