Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 2226

Engir samningafundir boðaðir

Ekki er útlit fyrir að samninganefndir sjómanna og útvegsmanna setjist að samningaborðinu á næstunni. Deiluaðilar hittust á fundi hjá Ríkissáttasemjarar á föstudag og í þeirri stöðu sem deilan er í dag er ekki líklegt að samninganefndir hittist aftur fyrr en eftir tæpar tvær vikur, en eins og kunnugt er ber ríkissáttasemjara að boða aðila deilunnar til sáttafundar innan tveggja vikna frá því síðast var funda.

Ákall um ríkisvaldið beiti sér í deilunni verður sífellt háværara. Stjórnmálamenn hafa ekki viljað segja beint út að þeir styðji lagasetningu á verkfallið. Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins að hann væri ekki talsmaður lagasetningar á deiluna en hins vegar vildi hann ekki útiloka að ríkisvaldið grípi inn í með einhverjum öðrum hætti en lagasetningu. „Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu,“ sagði Páll í morgun.

smari@bb.is

Hvasst í veðri í vikunni

Það verður allvíða hvassviðri eða stormur næstu daga er fram kemur í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Vindur verður austanstæður í dag, en síðan verða sunnan- og suðaustanáttir ríkjandi með miklu vatnsveðri sunnanlands en mildu veðri. Það nær líklega ekki að lægja og rofa til að ráði fyrr en í lok vikunnar. Það lítur samt ekki út fyrir neina lognmollu næstu helgi því þá kemur önnur bylgja og jafnvel að það endi svo með útsynningi og éljaklökkum ef að líkum lætur.

Spáin fyrir Vestfirði kveður á um vaxandi austanátt og það þykknar upp, 15-20 m/s seint í dag og lítilsháttar rigning. Það léttir til í nótt, en vindur verður suðlægari á morgun og þykknar aftur upp, 18-23 m/s annað kvöld. Hiti á bilinu 2 til 7 stig.

Flughálka er á Hálfdán, Mikladal og Kleifarheiði annars er hálka eða hálkublettir á Vestfjörðum og snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

Fengu blóðtökustól að gjöf

Rósa Kolbrún Ástvaldsdóttir vígir stólinn. Mynd af Fésbókarsíðu HVEST á Patreksfirði

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði fékk á dögunum blóðtökustól að gjöf frá Lionsklúbbi Patreksfjarðar og Kvenfélagsins Sifjar. Gjöfin kemur skjólstæðingum stofnunarinnar að góðum notum og  á meðfylgjandi mynd má sjá er Rósa Kolbrún Ástvaldsdóttir vígði stólinn. Heilbrigðisstofnuninni berast reglulega góðar gjafir, líkt og hjúkrunarrúmið sem Stöndum saman Vestfirðir færði henni fyrir skemmstu og fjallað var um. Þá færði Vélsmiðjan Logi stofnunni vatnsvél. Á síðasta ári fékk HVEST á Patreksfirði einnig seglalyftara frá kvenfélögunum á Suðurfjörðum, Lionsmenn á Patreksfirði voru þá einnig örlátir við stofnunina og gáfu loftdýnu og Slysavarnafélagið Unnur á Patreksfirði gaf sogtæki.

annska@bb.is

Nýskráningum og gjaldþrotum fjölgar

Ný­skrán­ing­ar einka­hluta­fé­laga í des­em­ber voru 200 en á síðasta ári fjölgaði ný­skrán­ing­um einka­hluta­fé­laga um 13% milli ára. Alls voru 2.666 ný einka­hluta­fé­lög skráð á ár­inu, borið sam­an við 2.368 árið 2015. Hlut­falls­leg fjölg­un ný­skrán­inga var mest í leigu­starf­semi og ým­issi sér­hæfðri þjón­ustu, þar sem þeim fjölgaði úr 176 í 272, eða um 55% frá fyrra ári. Einnig má nefna að ný­skrán­ing­um í flutn­ing­um og geymslu fjölgaði árið 2016 úr 46 í 60 eða um 30%. Ný­skrán­ing­um fækkaði í rekstri gisti­staða og veiting­a­rekstri um 5% frá fyrra ári, þ.e. úr 169 í 161.

Í des­em­ber 2016 voru 29 fyr­ir­tæki tek­in til gjaldþrota­skipta. Gjaldþrota­beiðnum fyr­ir­tækja árið 2016 fjölgaði um 75% frá fyrra ári. Alls voru 1.027 fyr­ir­tæki tek­in til gjaldþrota­skipta á ár­inu, borið sam­an við 588 árið 2015. Á vef Hagstofunnar segir um fjölgun gjaldþrota: „Í þessu sam­hengi má nefna að vegna verk­falls lög­fræðinga sem stóð frá apríl til des­em­ber 2015 má vera að ein­hver hluti þeirra gjaldþrota sem skráð voru árið 2016 hafi í raun átt sér stað 2015, en erfitt er að leggja mat á hversu stór part­ur af aukn­ing­unni milli ára ligg­ur í þeirri skýr­ingu.“

smari@bb.is

Framtíðarsýn í sundlaugarmálum Ísfirðinga

Gauti Geirsson

Þrátt fyrir ágætar og margar hverjar snjallar niðurstöður arkitektasamkeppni um lausnir tengdar Sundhöll Ísafjarðar er ennþá aðalspurningunni ósvarað í sambandi við sundlaugarmál Ísfirðinga, hver er framtíðarsýnin? Fyrir liggur þverpólitískt ferli frá síðasta kjörtímabili um uppbyggingu íþróttamannvirkja en ef það er ekki vilji til þess að vinna eftir því, hefði farið vel á að vinna betur í framtíðarsýninni áður en lagst var í dýra arkitektasamkeppni. Tilvalið hefði verið að halda íbúafundi, tala við íþróttahreyfinguna og skapa einhverskonar sameiginlega sýn eða sátt um málið. Ég held að sterk viðbrögð við tillögunum þessa dagana endurspegli það samráðsleysi sem liggur að baki vinnunni.

Úrelt aðstaða

Það var nefnilega trú á framtíðinni og staðnum sem réð ríkjum þegar ákveðið var að ráðast í byggingu á Sundhöll Ísafjarðar fyrir rúmum 70 árum. Það var hvorki ódýrt né létt verk en með samvinnu lögðust bæjarbúar og ýmiskonar félög á árarnar og unnu saman að því að reisa þessa glæsilegu byggingu. Tíminn líður hins vegar og aðstaðan er orðin algjörlega úrelt. Fyrir liggur að bæði er ákall um að fá fullnægjandi aðstöðu til sundiðkunar, æfingar-og keppnisaðstöðu með 25 metra laug með flötum bökkum sem er lágmarkskrafa sundfólks í dag og hins vegar að fá útiaðstöðu með heitum pottum. Niðurstöður arkitektasamkeppninnar uppfylla aðeins annað af þessum skilyrðum sem er bagalegt, sérstaklega þar sem það mun kosta rúmlega hálfan milljarð sem óneitanlega seinkar frekari framkvæmdum á sundaðstöðu í bænum.

Í umræðum um málið virðast margir tengja fyrirhugaðar framkvæmdir við að halda lífi í Sundhöll Ísafjarðar. Sundhöllin mun hins vegar áfram verða glæsileg bygging þrátt fyrir að sundlauginni yrði lokað. Í húsnæðinu er starfrækt dægradvöl, félagsmiðstöð, íþróttahús, skrifstofur auk þess sem vel er hægt að finna sundlaugarrýminu nýtt hlutverk. Það hefur tekist vel á Ísafirði að finna gömlum húsum ný hlutverk og ætti það áfram að heppnast vel.

Horft til framtíðar

Ég er algjörlega sammála þeim sem hafa lýst því yfir að Torfnes komi helst til greina fyrir sundlaugarmannvirki í Skutulsfirði. Á Torfnesi eru til drög að 25 metra sundlaug á milli íþróttahússins og grasvallarins. Ég vil benda á að á Hólmavík (sem er á köldu svæði) og Tálknafirði eru 25 metra sundlaugar en engin á norðanverðum Vestfjörðum. Sundiðkendur fengju löglega aðstöðu til móta og æfinga og opnunartími myndi stóraukast enda þyrfti ekki að loka lauginni á meðan æfingar fara fram. Aðgengi er gott, staðsetningin er frábær, íþróttahúsið myndar gott skjól fyrir innlögninni og þar er sólríkt. Það sýndi sig vel á 150 ára afmæli Ísafjarðar í sumar þegar afmælisgestir flatmöguðu í sólinni. Staðsetningin er í reynd svo góð að mínir góðu vinir, Gísli Halldór bæjarstjóri og Gerður ákvaðu meira segja að kaupa sér hús þarna rétt fyrir ofan fyrir ekki alls löngu. Þarna yrði skemmtilegt útisvæði með heitum pottum sem gæti verið fyrsti áfangi í verkinu. Í framhaldinu væri hægt að útfæra líkamsræktaraðstöðu við anddyri íþróttahússins með útsýni yfir Pollinn. Aukinn ferðamannastraumur bæði á sumrin og veturna kallar einnig á aðlaðandi sundaðstöðu sem dregur til sín fólk fyrir utan að raunveruleg sundmenning gæti skapast á Ísafirði. Þetta verkefni er stórhuga langtímaverkefni en með því að skipta því niður í viðráðanlega bita yrði bærinn, með nútíma sund og líkamsræktaraðstöðu, mun samkeppnishæfari í að laða til sín ungt fólk.

Ég kalla eftir því sem framtíðaríbúi Ísafjarðar að eftir erfið ár sem bærinn okkar hefur gengið í gegnum að nú þegar allt er að hjarna við, leyfum við okkur að hugsa til lengri tíma. Ég skora á bæjarstjórnina að taka til greina mismunandi sjónarmið í þessu máli, staldra við og vinna í átt að betri lausn með bæjarbúum.

Gauti Geirsson, sundáhugamaður og nemi

Festa í sessi sameiginlega framtíðarsýn

Sveitarfélögin Dalabyggð, Reykhólahreppur og Strandabyggð hafa síðustu ár unnið saman að svæðisskipulagi. Nú liggur fyrir skýrsla þar sem gerð er grein fyrir forsendum á skipulagssvæðinu með tilliti til umhverfis og samfélags. Á grunni þeirra forsendna eru settar fram tillögur að viðfangsefnum, áherslum, framtíðarsýn og svæðismarki og því síðan lýst hvernig staðið verður að frekari stefnumótun og umhverfismati stefnunnar.

Með gerð svæðisskipulags fyrir Dalabyggð, Reykhólahrepp og Strandabyggð vilja sveitarfélögin festa í sessi sameiginlega framtíðarsýn á þróun svæðisins. Með því að greina tækifæri sem búa í auðlindum og sérkennum svæðisins og móta á þeim grunni markmið í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfismálum og síðan skipulagsstefnu sem styður við þau, eru væntingar um að ná meiri árangri en ella þegar tekist er á við sameiginlegar áskoranir sem við blasa í byggðamálum.

Hér má lesa skýrsluna

smari@bb.is

Opið fyrir umsóknir í Byggðarannsóknasjóð

Byggðarannsóknasjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna á sviði byggðamála árið 2017. Tilgangur sjóðsins er að efla byggðarannsóknir og bæta þannig þekkingargrunn fyrir stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum. Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnanir eða aðrir lögaðilar. Styrkir verða veittir til eins árs. Til úthlutunar eru 10 milljónir og samkvæmt reglum sjóðsins er miðað við að styrkirnir séu ekki færri en þrír og ekki fleiri en fimm ár hvert. Þetta er í þriðja árið sem úthlutað verður styrkjum úr Byggðarannsóknasjóði, en sjóðurinn var settur á laggirnar í byrjun árs 2015.

Í umsóknum skal meðal annars koma fram greinargóð lýsing á rannsókninni, markmiðum hennar, ávinningi, nýnæmi og hvernig hún styður við tilgang sjóðsins. Við mat á umsóknum er meðal annars litið til hvernig verkefnið styður við markmið sjóðsins, vísindalegs- og hagnýts gildis þess og hæfni umsækjenda. Umsóknir þurfa að berast Byggðastofnun fyrir miðnætti 8. mars 2017.

annska@bb.is

Kári leggur umbúðalausum viðskiptum lið

Fisksalinn Kári

Fisksalinn Kári Jóhannsson í Fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði hefur lagt baráttunni gegn umbúðum lið og býður nú viðskiptavinum verslunarinnar að koma með eigin umbúðir er þau versla úr því stórgóða úrvali sem finna má í fiskborðinu. „Með þessu er hann meðal annars að leggja verkefninu Plastpokalausir Vestfirðir lið og einnig að vera ábyrgt fyrirtæki á Vestfjörðum.“ Segir Lína Björg Tryggvadóttir, starfsmaður Fjórðungssambands Vestfirðinga sem hefur umsjón með verkefninu Plastpokalausir Vestfirðir.

Kári var að vanda brattur er blaðamaður Bæjarins besta náði tali af honum á dögunum. Hann segir viðskiptavini sína í auknum mæli vera meðvitaða um umbúðanotkun og komi gjarnan með umbúðir að heiman með sér og tæknin í dag geri það kleift að lítið mál sé að vigta fiskinn í hvaða umbúðir sem er.

Hann segir að það hafi verið auðsótt mál að leggja verkefninu lið. „Málið er ekki hvað þú sérð hvernig þú horfir á það. Þegar ég fæ fiskinn fæ ég hann í fjölnota körum og því ekki að framlengja það ferli með því að nota fjölnota umbúðir áfram.“ Segir Kári sem hyggst bjóða fólki upp á í framtíðinni að geta fengið hjá honum fjölnota umbúðir undir fiskinn, en eitthvað er þó um að komið sé með þær umbúðir sem hann nú notar til áfyllingar.

„Fólk er byrjað að vera mjög meðvitað um náttúruna og samfélagið og það er gaman að sjá. Líkt og með plast í náttúrunni. Það er fátt ömurlegra en að vera úti í náttúrunni og sjá plastpoka fjúka framhjá.“ Segir Kári og bendir á að upphafið liggi í því að muna eftir boxunum – svipað og margir hafa verið að þjálfa sig í er kemur að plastpokanotkun.

Kári lætur vel af sér þrátt fyrir verkfall sjómanna: Það er nægur fiskur hér því þeir róa svo grimmt í Víkinni og þar sem ég reyni að selja alltaf línufisk þá er þetta í lagi.“ Hann segir vöruúrvalið þessa dagana benda til þeirra breytinga sem eru að verða í umhverfi okkar: „Ég er til dæmis kominn með got og lifur og er það alveg tveimur vikum á undan áætlun, en það sem er kannski skrýtnara er að rauðmagi er farinn að sjást sem yfirleitt er ekki fyrr en í maí. Við sjáum líka vel í kringum okkur breytingarnar, það má sjá hversu heitur sjórinn er orðinn á því hversu sjaldan firðina leggur.“

Kári er greinilega vel á nótunum með umhverfisþætti rekstursins og ábyrgð í þeim efnum og ekki síður er hann meðvitaður um að þjónusta vel viðskiptavinir sína: „Mitt starf er að eltast við fiskinn um allt land, svo til staðar sé fjölbreytt úrval þegar fólk þarf góðan, ferskan og hollan mat – í fjölnota umbúðum.“

annska@bb.is

Hvunndagsgersemarnar í Albertshúsi

Haukur í stofunni í Albertshúsi, með mandólínið hans Jóns

Albertshús á Ísafirði á stað í hjörtum margra. Húsið, sem stendur við Sundstræti 33 var byggt í kringum 1890 af hjónunum Alberti Jónssyni og Guðnýju Magnúsdóttur, sem bjuggu þar til æviloka. Þau eignuðust ellefu börn, sem bjuggu um mislangan tíma í foreldrahúsum. Þeirra lengst bjó þar Herdís Albertsdóttir eða Dísa á Bökkunum líkt og hún var gjarnan kölluð, sem fæddist í húsinu og bjó þar í rétt tæp hundrað ár. Lengi vel bjó þar bróðir Dísu, Jón og bjó hún þá í herbergi á efri hæð hússins, en tekur við því öllu að honum látnum árið 1959.

Húsið er ekki stórt í fermetrum talið, þar var þó iðulega mikið líf og gestkvæmt hjá Dísu sem var höfðingi heim að sækja, þó ekki hafi peningar í stórum stíl flækst mikið fyrir henni á lífsleiðinni. Dísa lést í hárri elli árið 2011, þá 103 ára gömul og hafði hún þá verið um fjögurra ára skeið á öldrunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Ekki mátti minnast á það við Dísu að flytja á elliheimili og svaraði hún því við að hún nennti ómögulega að hanga með öllum gamlingjunum þar, þó blessaðir „gamlingjarnir“ sem hún svo nefndi hafi sennilega flestir verið yngri en hún.

Lífið sem hús fóstrar

Afkomendur Dísu eru nú um fjörtíu talsins. Herdís og heitmaður hennar, Þorvaldur Ragnar Hammer, sem lést einungis tvítugur að aldri eignuðust eina dóttur Guðnýju Albertu Hammer, sem eignaðist fimm börn. Þar á meðal dótturina Kristjönu Sigurðardóttur, Kiddýju, sem ólst upp hjá ömmu sinni. Kiddý er síðan amma Hauks Sigurðssonar (Búbbasonar), sem nú hefur tekið við keflinu sem húsráðandi í Albertshúsi ásamt Vaidu Bražiūnaitė eiginkonu sinni. Þau eiga soninn Kára Vakaris, svo nú má segja að húsið litla sé að fóstra sjötta ættlið.

Þegar skyggnst er á bak við tjöldin á það líf sem gömul hús hafa fóstrað er auðvelt að heillast,

sögur af fólki, sögur af atburðum og í föstu formi hlutirnir sem vitna um liðna tíma. Í litla húsinu á Bökkunum hafa til að mynda fæðst 26 börn! Og svo er það blessað fólkið. Dísu muna flestir heimamenn eftir, enda hún nálægt okkur í tíma og persóna sem sannarlega setti svip sinn á bæinn. Einhverjir muna líka eftir Jóni bróður hennar, sem var með rafsmíðaverkstæði í skúrnum sem er áfastur húsinu. Jón lést eftir slys sem hann varð fyrir er hann vann við ratsjárstöðina á Straumnesfjalli. Haukur segir að við grúsk sitt í Albertshúsi hafi komið sér skemmtilega á óvart hversu margt þar vitnar um líf Jóns sem hann segir hafa verið mikinn gleðimann, hlutir eins og mandólín og fiðla hafa þar til að mynda dúkkað upp. Tilkynning um andlát Jóns sem birtist í Baldri, dregur upp skemmtilega mynd: „Jón var prýðilega greindur maður, listfengur og ágætlega sjálfmenntaður einkum í öllu, sem tækni viðkom. Hann naut almennra vinsælda.“

Haukur, líkt og margir afkomendur Dísu var

heimagangur hjá „löngu“ líkt og hún var gjarnan kölluð af langömmu börnunum og ósjaldan fór hann til hennar í hádeginu þar sem hún bauð upp á heimalagaðan hádegisverð sem afkomendurnir kunnu sannarlega að meta.

„Það var alltaf gott að hafa fastan punkt í hádeginu. Þessi hefð var held ég góð fyrir alla. Langa hafði einhvern tilgang innan fjölskyldunnar og ég fékk alltaf gott að borða. Ég held að fólk verði fyrst gamalt þegar það hættir að gera gagn.“ Segir Haukur er hann minnist hádegisverðarhefðarinnar. Dísa var nokkuð föst í hefðum við matseldina. Á mánudögum var boðið upp á soðna ýsu, á miðvikudögum var kjötsúpa og grjónagrautur og brauð á föstudögum. Á þriðjudögum og fimmtudögum var eitthvað óvænt á boðstólum.

Í endurnýjun lífdaga

Albertshús er hokið af reynslu, bókstaflega og hefur það látið á sjá, líkt og vill henda. Þau Haukur og Vaida hafa upp á síðkastið verið að taka þar til hendinni og er það ætlun þeirra að gera húsið aftur að fjölskylduhúsi, en ekki hefur ve

rið föst búseta í húsinu frá því er Dísa flutti úr því árið 2006. Þau eru mörg handtökin sem þegar hafa verið reidd fram og verða þau fjölmörg í viðbót áður en framkvæmdum lýkur og ætla þau að gefa sér góðan tíma í verkið.

Á Fésbókarsíðu Albertshúss má fylgjast með því sem verið er að vinna og sjá myndir af dýrðlegum, hvunndagsgersemum sem leynast af því er virðist í hverjum krók og kima. Í þeim efnum má þó eflaust segja að það sem kann að teljast rusl í augum eins, er fjársjóður í augum þess næsta. Sumt er nokkuð ófrávíkjanlega rusl, líkt og hin fjölmörgu lög af gólfdúkum sem eru á gólfum hússins, fúnar spýtur og ryðgað járn sem fær að missa sín að mestu.

Svo er það innvolsið og þá sér í lagi hinir smáu hlutir, sem varpa ljósi á lífið í armæðu og undrum hversdagsins og hinar hátíðlegu stundir ævinnar. Þar er að finna drasl-skúffuna sem fyrirfinnst á flestum heimilum, gömul sendibréf og jólakort, dagbækur og allra handa hluti sem í eina tíð hafa verið nytsamlegir, en hafa í áranna rás ofan í skúffu tapað gildi sínu. Haukur og Vaida hafa varið miklum tíma upp á síðkastið í að fara yfir „milljón litla kassa fulla af smáhlutum“ líkt og Haukur orðar það. Af öllu því dóti sem þar hefur komið í ljós, hlýtur að teljast með því sérstakara gamall eldspýtustokkur sem í var að finna stóra uppþornaða bjöllu sem Dísa fann eitt sinn í bananakassa.

Einhversstaðar stendur að hálfnað sé verk þá hafið er og kannski þau hjónakornin hafi þá setningu að leiðarljósi í því víðfeðma verki sem þeirra bíður, áður en þau í vonandi ekki of fjarlægri framtíð flytja inn í Albertshús og gera það að fjölskylduhúsi að nýju.

annska@bb.is

Vestri mætir Fylkiskonum

Laugardaginn 4. febrúar munu Vestrakonur mæta Fylki í 1. deild Íslandsmótsins í blaki.  Þetta verður án vafa spennandi leikur en Vestri situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 10 stig en Fylkir í því sjötta með 9 stig. Það er því mótt á munum sem gerir leikinn enn skemmtilegri.

Blakdeild Vestra blómstrar sem aldrei fyrr í vetur og skemmst að minnast útnefningar Auðar Líf Benediktsdóttur sem efnilegasta íþróttamann Ísafjarðarbæjar en Auður er einn af burðarásum í meistaraflokki Vestra.

Kvennalið Vestra (Skellur) vermdi botnsæti Íslandsmótsins í fyrra en siglir hraðbyr í verðlaunasæti á þessu ári og karlaliðið sem var í fjórða sæti í fyrra situr nú staðfast í fyrsta sæti með 21 stig en Hamar sem er í öðru sæti er með 16 stig.

Tihomir Paunovski nýr þjálfari deildarinnar er því að gera góða hluti með hópinn og um að gera að mæta á Torfnesið og hvetja stelpurnar en leikurinn byrjar kl. 15:00.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir