Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2226

Sætt og salt framleiðir páskasúkkulaði

Páskasúkkulaði Sætt og salt, hér í glugga Skóbúðarinnar, felur í sér sætleika páskanna og kikk rokkhátíðarinnar.

Einn merkari sprota sem fæðst hafa nýverið á norðanverðum Vestfjörðum er súkkulaðiframleiðslan Sætt og salt í Súðavík, sem framleiðir af miklum myndugleika og natni hágæða handunnið súkkulaði, sem verður vinsælla með hverjum mánuðinum sem líður. Súkkulaðið sem kemur alla jafna í þremur bragðtegundum er nú að finna í hinum ýmsu sælkeraverslunum um landið, sem og verslunum sem selja ferðamönnum varning, en síðustu ár hafa heitustu minjagripirnir oftar en ekki verið matarkyns, svokallaðir matarminjagripir, sem þeir hafa með sér aftur til síns heima eftir að hafa heimsótt nýjar slóðir.

Sætt og salt hefur síðasta ár boðið upp á árstíðatengdar vörur, síðasta haust sendi framleiðslan frá sér hvítt súkkulaði með ferskum aðalbláberjum og svo kom jólasúkkulaði sem sló allrækilega í gegn. Nú er páskasúkkulaði komið á sölustaði, sem konan á bak Sætt og salt, Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir, hefur nostrað við og náð fram í gegnum bragðlaukana sætleika páskanna og kikkið af rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður. Líkt og áður þegar boðið hefur verið upp á árstíðartengda vöru er súkkulaðið hvítt og er það með ristaðri og kryddaðri fræ- og hnetublöndu, kókosflögum, gullrúsínum og kryddblöndu. Sölustaðir á Ísafirði eru Skóbúðin-Sögusetur og Þristur Ormsson, í Bolungarvík má fá páskasúkkulaðið í O-Design og er kjörið fyrir súkkulaðiaðdáendur að næla sér í plötu sem hinir fullorðnu mættu njóta á hinni miklu súkkulaðitíð páskunum, á meðan að yngri belgir sig út af páskaeggjum.

annska@bb.is

Kynningarfundur Blábankans á Þingeyri

Blábankinn á Þingeyri.

Þann 16. mars gerðu Ísafjarðarbær, Nýsköpunarmiðstöð og Landsbankinn, auk fleiri einkaaðila, með sér samkomulag um að koma upp samvinnurými í útibúi Landsbankans á Þingeyri sem kallast Blábankinn. Þetta rými mun verða vettvangur til að veita og þróa þjónustu fyrir íbúa svæðisins, ásamt því að gefa íbúum og gestum tækifæri til að hittast, læra, uppgötva, skapa og vinna saman. Stofnaðilar Blábankans bjóða nú til kynningar á þessu nýstárlega og spennandi verkefni.

Kynningin fer fram í Félagsheimilinu á Þingeyri á morgun þriðjudag kl. 17.30 og verður að kynningu lokinni rölt yfir í Blábankann.

smari@bb.is

 

Geldlax eina lausnin

Jón Helgi Björnsson.

„Við erum ekki á móti fisk­eldi, held­ur vilj­um við koma í veg fyr­ir að það hafi áhrif á villta lax- og sil­ungs­stofna hér á landi. Ef menn ala fisk­inn í land­stöðvum eða finna leiðir til að gera það í haf­inu án áhrifa á um­hverfið ger­um við ekki at­huga­semd­ir við það,“ seg­ir Jón Helgi Björns­son, formaður Lands­sam­bands veiðifé­laga í viðtali í Morgunblaðinu.

Veiðifélög hafa varað sterklega við laxeldi í sjókvíum vegna stórtækra umhverfisáhrifa. Sjúkdómar og laxalús í stríðeldi eru meðal helstu áhyggjuefna stangaveiðimanna. Veiðifé­lög­in hafa þó lang­mest­ar áhyggj­ur af erfðablöndun villtra laxa­stofna hér á landi.

Jón Helgi segir þetta um erfðablöndun í samhengi við laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi:

„Sá norski lax sem verið er að nota er með aðra erfðaupp­bygg­ingu en ís­lensk­ur lax. Hann hef­ur verið kyn­bætt­ur mikið svo hann henti í eldi. Þegar verið er að ala jafn mikið magn og til dæm­is er verið að tala um í Ísa­fjarðar­djúpi þarf 15 millj­ón­ir laxa í kví­arn­ar. Það slepp­ur alltaf eitt­hvað. Reynsl­an frá Nor­egi bend­ir til að það sé einn lax á móti hverju tonni í eldi.

Eld­is­menn segja að það sé minna. En ef það væri einn fisk­ur á móti tonni má bú­ast við að það sleppi 30 þúsund lax­ar í Ísa­fjarðar­djúpi. Til sam­an­b­urðar má geta þess að laxa­stofn­arn­ir í Djúp­inu telja 150 til 500 fiska hver stofn. Það seg­ir sig sjálft að þeir myndu ekki þola þá blönd­un sem því fylgdi. Lax­inn miss­ir þá erfðaeig­in­leika sem hon­um eru nauðsyn­leg­ir til að halda lífi í sínu nátt­úru­lega um­hverfi. Við telj­um að þetta varði við nátt­úru­vernd­ar­lög. Eng­um sé heim­ilt að valda slík­um skaða á nátt­úr­unni.“

Hann sér enga aðra lausn en að nota geldan lax í eldinu.

smari@bb.is

Þykknar upp á morgun

Veðurstofan spáir hægviðri og léttskýjuðu á Vestfjörðum í dag.  Þykknar upp síðdegis á morgun og austan 5-13 m/s og snjókoma annað kvöld. Frost víða 5 til 10 stig í nótt, en hiti kringum frostmark síðdegis á morgun. Hálka eða hálkublettir eru  á nokkrum fjallvegum á Vestfjörðum. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og þungfært norður í Árneshrepp á Ströndum.

Það er útlit fyrir gott páskaveður á Vestjörðum. Veðurstofan spáir hægri norðaustanátt og vægu frosti alla páskahelgina.

Flest páskaegg hafa lækkað í verði síðan í fyrra

Páskaegg hafa í flestum tilvikum lækkað í verði frá því í fyrra að því er fram kemur í samanburði á verðkönnunum verðlagseftirlits ASÍ milli ára. Dæmi eru þó um allt að 10% hækkun á eggjum frá því í fyrra. Mesta lækkunin milli ára á páskaeggjum var hjá Iceland þar sem verð hefur ýmist staðið í stað milli ára eða lækkað um allt að 15%. Í Fjarðarkaupum lækkar einnig verð á flestum páskaeggjum sem til voru í báðum könnunum, um allt að 11% að undanskyldu Góu páskaeggi nr. 3 sem hækkar um 10% frá fyrra ári.

Í Nettó lækkar verð á öllum þeim eggjum sem til voru í báðum könnunum, en þess má geta að engin egg frá Freyju voru fáanleg í Nettó þegar verðkönnunin var framkvæmd í fyrra og því nær samanburðurinn til fárra vöruliða. Í Bónus og Krónunni lækka flest egg sem til voru í báðum könnun um allt að 6% að undanskyldum eggjum frá Góu sem hækka í báðum verslunum sem og Draumaegg nr. 9 frá Freyju. Í Hagkaupum ýmist hækkar eða lækkar verðið milli ára en einungis reyndist unnt að bera saman verð á 7 af þeim 10 eggjum sem fáanleg voru í báðum könnunum vegna ófullnægjandi verðmerkinga.

Upp­sagn­ir boðaðar

Und­ir­staðan í rekstri sjálf­stæðra fisk­fram­leiðenda er brost­in ef hand­höf­um afla­heim­ilda verður heim­ilt að hliðra 30% veiðiheim­ilda sinna milli ára.

Ef af þess­um breyt­ing­um verður þurfa fyr­ir­tæk­in að hefja und­ir­bún­ing að upp­sögn­um hundraða starfs­manna um allt land, seg­ir í til­kynn­ingu frá Sam­tök­um fisk­fram­leiðenda og út­flytj­enda.

Fisk­fram­leiðend­ur segja að heim­ild­in til hliðrun­ar afla­heim­ilda dragi veru­lega úr því magni sem fari á fisk­markaði. Hand­haf­ar kvót­ans hagn­ist en fisk­verk­end­ur, stafs­fólk og neyt­end­ur beri skaða af. Þeir segja að mik­il eft­ir­spurn sé eft­ir ís­lensk­um fiski á er­lend­um mörkuðum sem ekki sé hægt að full­nægja. Það sé fjar­stæða að virðiskeðjan í sjáv­ar­út­vegi hald­ist best séu kvóti, veiðar, vinnsla og sala á sömu hendi.

„Sífellt kemur betur í ljós hvernig handhafar aflaheimilda hugsa eingöngu um sína sér hagsmuni og greiða sér háar arðgreiðslur en skilja starfsfólk og heilu byggðarlögin eftir í stórvanda og atvinnuleysi þegar það hentar. Ráðamenn þjóðarinnar verða að vakna til vitundar í þessum efnum. Nær væri að stjórnvöld kölluðu eftir samfélagsábyrgð kvótahafa í stað þess að sveigja kerfið til að gera þeim kleift að soga til sín allan arð af sameiginlegri þjóðarauðlind á kostnað sjómanna, samkeppnisaðila í greininni og verkafólks í landvinnslu,“ segir í tilkynningunni.

Gerir alvarlega athugasemd við flokkun Austurgilsvirkjunar

Stöðvarhús Austurgilsvirkjunar verður innarlega í Skjaldfannardal.

Landvernd hefur sent Alþingi athugasemdir vegna þingsályktunartillögu að flokkun virkj- unarhugmynda í 3. áfanga rammaáætlunar, og leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að hægja verulega á eða stöðva uppbyggingu frekari stórvirkjana hérlendis. Að minnsta kosti þar til fyrir liggur ígrunduð orkustefna þar sem meðal annars er tiltekið hvað megi virkja mikið á næstu árum eða áratugum og í hvaða tilgangi.

Landvernd gerir einnig alvarlega athugasemd við röðun Austurgilsvirkjunar í Ísafjarðardjúpi í nýtingarflokk en ásamt Hvalárvirkjun sem þegar er í nýtingarflokki munu þessar virkjanir hafa mikil neikvæð áhrif á víðerni, vatnafar og ásýnd lands og eyðibyggða á austanverðum Vestfjörðum, líkt og kemur fram í nýlegu áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar. Að mati Landverndar á Austurgilsvirkjun að raðast í biðflokk.

Rammaáætlunætlunin segir til um hvar megi virkja og hvar ekki. Segir Landvernd að orkunýtingarflokkur hafi samkvæmt tillögunni að geyma 1421 megavatt sem sé svipað og tvær Kárahnjúkavirkjanir. Fjölmörgum náttúruperlum hafi þegar verið fórnað fyrir stóriðju.
Á sama tíma fagnar Landvernd verndun stórra vatnsfalla sem upptök eiga á hálendinu, eins og Skjálfandafljóts, Jökulsánna í Skagafirði og Skaftár. Samtökin mótmæla hins vegar flokkun virkjanahugmynda í nýtingarflokk á hálendinu, Reykjanesskaga, austanverðum Vestfjörðum og víðar, t.d. Skrokkölduvirkjun á Sprengisandi.

Ögurstund Í Reykhólahreppi.

Góðir lesendur bb.is. Nú hefur Skipulagsstofnun skilað af sér áliti vegna vegagerðar frá Bjarkarlundi til Skálaness. Sveitarstjórn Reykhólahrepps stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun hvort hún á að gefa framkvæmdaleyfi fyrir leið Þ-H eða horfa til framtíðar og velja leið D2.  Það má telja stórundarleg vinnubrögð vegagerðar ríkisins að gefa út sitt álit einungis nokkrum dögum fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar.  Vegagerðin einblínir á leið Þ-H og segist ætla að „rýna“ í niðurstöður Skipulagsstofnunar.  Með öðrum orðum þeir ætla að virða niðurstöðu skipulagsstofnunar að vettugi. Ég vona að sveitarstjórnarmenn í Reykhólahreppi hafi ekki gert upp hug sinn. Margir halda að allt snúist um Teigsskóg en svo er alls ekki. Misþyrming hans væri enn eitt umhverfisslysið, en margt kemur til er hvetur til gangnagerðar til framtíðar. Þar verður að ríkja víðsýni og fyrirhyggja.

Vegagerðin gekk gegn áliti Skipulagsstofnunar við þveranir Kjálka og Mjóafjarðar og sveik loforð um bátsgengar brýr svo hægt væri að slá þang með viðunandi hætti. Lokuðust þar inni u.þ.b. 2 % af þangafla Breiðafjarðar. Það ætti sveitarstjórn Reykhólahrepps að hafa áhyggjur af. Ekki síst ætti hún að hafa áhyggjur af því að með framkvæmd á leið Þ-H er verið að loka inni jafnmikið magn eða meira 2-3 % af þangbreiðum Breiðafjarðar. Þess má geta að ef þessi svæði eru lögð saman með því er lokaðist inni í þverun Kolgrafarfjarðar eru þetta rúmlega 6 % af þangbreiðum Breiðafjarðar. Það kann ekki að vera stór prósenta á prenti,en „dýr myndi Hafliði allur“.   Þörungaverksmiðjan á Reykhólum er stærsti vinnuveitandinn í hreppnum og dýrgripur í vinnslu sjávarfangs. Hennar veiðilendur ber að vernda og  það er óskynsamlegt að gelda bestu mjólkurkúna.  Skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um svæðið tekur af allan vafa um slæm og ófyrirséð áhrif á lífríkið. Ekki sé hægt að segja til um skaðann vegna straumhraða á seti.

Það er talað um að brunaslys séu hættuleg þegar 9 % líkamans séu brunnin. Í samlíkingunni er búið að brenna Breiðafjörð um rúmlega 10 -15% og hætta á ferðum. Er ekki rétt að umhverfið njóti vafans og við keyrum frekar eftir góðum göngum í stað þess að flengjast út um nes.

Með leið Þ-H verða tún og ræktunarmöguleikar bænda á Skálanesi lögð í rúst. Búskap trúlega sjálfhætt. Er það enn eitt örið í þessa fallegu jörð en vegurinn fyrir nesið er eitt samfellt umhverfisslys.  Farsælla hefði verið að gera stutt göng frá Gufudal til Galtarár eins og ég hef áður komið að. Leiðir skólabíla munu víða lengjast og er ekki ábætandi. Leið barna til skóla mun verða rúmlega klukkutími við bestu aðstæður.  Ekki er snjómokstur og hálkuvarnir til þess fallnar að batna nema síður sé. Það eru nefnilega börn í hreppnum og mikið af þeim miðað við íbúafjölda. Ekki horfir vænlega fyrir íbúa í Djúpadal og Gufudal með lengri tengingar við aðalveginn með tilheyrandi þjónustuleysi við þá vegi.  Ætlar sveitarstjórn að leggja til tvo skólabíla á svæðið ?

Það er undarlegt að gera leið D2 tortyggilega með veghalla og skeringum. Hver hannaði veglínuna ? Var haft samband við heimamenn ? Var tekið inn i myndina að nota vegskála eftir nýjustu tækni ?  Sporin frá Klettshálsi hræða.  Rætt var við ágætan vörubílstjóra í útvarpi um daginn,hann tók dæmi um veginn um Arnkötludal, eða Þröskulda. Hann væri það hátt uppi að þar væri alltaf kolvitlaust veður og ófært, þó ágætt væri í byggð.  Líkti því við nýja veglínu og hæð á Ódrjúgshálsi. Hann gleymdi að minnast á það að á Þröskuldum var EKKI farið eftir ráðleggingum heimamanna sem gjörþekktu svæðið. Niðurstaðan var „vitlaust“ vegstæði sem skapar hættu og kostnað, gríðarlegan kostnað við snjómokstur, slys og örkuml. Hví hefur vegagerðin hundsað ráð heimamanna er gjörþekkja svæðið bæði á láði og legi.  Er hægt að fullyrða að ný veglína upp Ódrjúgsháls yrði með 8% halla ?  Hvers vegna hefur vegagerðin stungið ofan í skúffu veglínu um Ódrjúgsháls er nær aðeins í 90 metra hæð og er því alls ekki fjallvegur. Samt kemur vegmálastjóri í fjölmiðla og fullyrðir að aðeins sé ein leið á láglendi. ( til samanburðar er ártúnshöfði í 70 metra hæð yfir sjó) Einnig hefur verið á teikniborðinu mun styttri göng sem hafa farið í skúffuna líka. Er hugsanlegt að verið sé að láta eina veglínu líta illa út til að hygla annari ? Svari nú hver fyrir sig.  Kunnugir telja vel framkvæmanlegt að bættur vegur á Ódrjúgshálsi yrði tilbúinn síðla árs 2018.

Það er einfaldur fyrirsláttur að segja að ekki séu til peningar fyrir göngum í leið D2. Eru til peningar í framtíðinni til snjómoksturs eða hálkuvarna á leið Þ-H ? Svo ekki sé minnst á viðhald. Hvað hefur sparast í minni snjómokstri í vetur á landsvísu ?  Er það kannski ein göng eða svo ?  Þær álögur sem lagðar eru á bíleigendur fara létt með að bæta vegakerfið svo um munar. Það eina sem vantar er kjarkur að taka á málunum. Vegagerð ríkisins ætti að bjóða út 15-20 jarðgöng til að ná fram góðum samningum og stíga inn í nýja öld.  Ég óska sveitarstjórn Reykhólahrepps velfarnaðar í störfum sínum og bið þau að gæta vel að ákvörðunum sínum er þau ganga til verka. Verka sem munu hafa áhrif á lífríki og mannlíf í Reykhólahreppi um aldir alda.

Virðingarfyllst.

Stefán Skafti Steinólfsson. Breiðfirðingur.

Rokkstjórinn gerir ekki upp á milli atriða

Kristján Freyr Halldórsson.

Það styttist í Aldrei fór ég suður, en kveikt verður á mögnurunum og volumetakkinn keyrður upp í 11 um kvöldmatarleytið á föstudaginn langa. Að vanda hafa margir helstu tónlistarmenn landsins boðað komu sína á þessa sívinsælu hátíð. Þegar úr mörgu og góðu er að velja vandast valið þegar eins fánýt spurning og hvað hlakkar þig mest til að sjá er borin upp. „Ég sem rokkstjóri geri að sjálfsögðu ekki upp á milli atriða en ég verð að segja að það er sérstaklega ánægjulegt að nýkrýndir sigurvegarar Músíktilrauna eru heima úr héraði og ég hlakka verulega til að sjá þær stíga á stokk.“ segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður.

Það eru ekki mörg ár síðan sá háttur komst á að sigurvegari Músíktilrauna er boðið að spila á Aldrei fór ég suður og nú í annað sinn á þremur árum eru það heimamenn, fyrst Rythmatik frá Suðureyri og nú súgfirsk/dýrfirski dúettinn Between Mountains. Dúettinn skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir.

Kristján Freyr segir að fyrir utan að hans heimahjarta hafi tekið aukaslag við sigur stúlknanna, þá sé sigur þeirra að sumu leyti tímanna tákn. Tónlistarbransinn hefur verið einkar karllægur, þó undantekningar séu á því. Hann segir að þegar horft er yfir sviðið í dag, sést að mikil breyting hefur orðið á og ungar stelpur eru í bílskúrum um allt land að plokka bassa og berja húðir.

„Þessi þróun sést glögglega þegar maður lítur til baka á kynjahlutföllin á fyrstu Aldrei fór ég suður hátíðunum og ber þau saman við síðustu hátíðir. Það hallar enn á konur, en þetta hefur batnað mikið,“ segir Kristján Freyr rokkstjóri.

Breiddin hefur frá upphafi verið aðalsmerki Aldrei fór ég suður. Á hátíðinni er jafnlíklegt að heyra argasta dauðarokk, fínlegt tölvupopp og 50 manna karlakór syngja klassísk ættjarðarlög. Hátíðin í ár er engin undantekning hvað þetta varðar.

Á Aldrei fór ég suður 2017 spila:

  • Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar
  • Soffía
  • Karó
  • KK Band
  • Mugison
  • Kött Grá Pjé
  • HAM
  • Between Mountains
  • Hildur
  • Vök
  • Börn
  • Emmsjé Gauti
  • Rythmatik
  • Valdimar

 

Móttaka fyrir Between Mountains – kl. 18:00

Sigurvegarar Músíktilrauna 2017 eru sem kunnugt er dúettinn Between Mountains. Dúettinn skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir. Á sunnudaginn verður formleg mótttaka í Félagsheimilinu á Suðureyri, í heimabæ Kötlu Vigdísar en Ásrós Helga er frá Núpi í Dýrafirði. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem Súgfirðingar taka á móti sínu fólki sigri hrósandi eftir Músíktilraunir, en árið 2015 sigraði Rythmatik frá Suðureyri. „Það er eitthvað í loftinu hérna, það hlýtur að vera,“ segir Ævar Einarsson hjá Klofningi ehf. á Suðureyri en fyrirtækið stendur fyrir móttökunni.

Ævar segir að móttakan sem hefst kl. 18 sé öllum opin. „Þær ætla að taka lögin sem þær spiluðu á Músíktilraunum svo þetta ætti að vera gaman,“ segir Ævar.

Smári

Uppfært: Móttakan hefst kl. 18:00, ekki 17:00 eins og var í upphaflegu fréttinni

Nýjustu fréttir