Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 2224

Sveitarfélög fái skatttekjur af fiskeldi

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps leggur mikla áherslu á áform fiskeldisfyrirtækja í Ísafjarðardjúpi hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi sveitarfélagsins. Í umsögnum sveitarstjórnar um matsáætlanir Háfells ehf., Arnarlax ehf., og Arctic Sea Farm, er farið fram á einstakir viðkvæmir umhverfisþættir verði kannaðir sérstaklega í gerð umhverfismats og leggur sveitarstjórn áherslu á að kanna áhrif laxeldis á laxveiðiár í sveitarfélaginu og að burðarþolsmat Ísafjarðardjúps verði framkvæmt sem fyrst.

Sveitarstjórnin minnir á mikilvægi þess að skipulagsvald sveitarfélaga nái yfir aðliggjandi strandsvæði, firði og flóa og Súðavíkurhreppur telur æskilegt er að skipulag standsjávar nái út að einni sjómílu frá grunnlínu.

Þá vill sveitarstjórn tryggja sveitarfélögum sanngjarna tekjustofna af starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna, hvort sem það er gegnum auðlindargjald eða annað form.

Fyrirtækin þrjú stefna á stórfellt laxeldi í Ísafjarðardjúpi og leyfisumsóknir fyrirtækjanna eru samanlagt upp á 24.400 tonn.

smari@bb.is

Verbúðalífið í máli og myndum

Fábrotið herbergi á verbúð hér í denn.

Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld og fram á níunda áratuginn. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Á morgun opnar sýning í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði um verbúðarlífið. Á sýningunni er verbúðalífi þessa tíma gerð skil með myndum og texta og með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti sem verða endurtekin á hálftíma fresti á heila og hálfa tímanum. Benný Sif Ísleifsdóttir, Fríða Björk Ólafsdóttir og Vala Smáradóttir sáu um gerð sýningarinnar.

„Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör,“ segir í kynningartexta.

Sýningin verður opnuð á morgun kl. 16. og eru allir velkomnir.

smari@bb.is

9,5% kaupmáttaraukning

Kaup­mátt­ur meðallauna hækkaði um 9,5% árið 2016 miðað við árið á und­an. Kaup­mátt­ar­aukn­ing­in var rúm­lega fimm sinn­um meiri en meðaltal síðasta ald­ar­fjórðungs, sem er 1,8% hækk­un á ári. Þetta kem­ur fram í Hag­sjá hag­fræðideild­ar Lands­bank­ans. Laun í land­inu hækkuðu að meðaltali um 11,4% milli ár­anna 2015 og 2016 og hef­ur launa­vísi­tal­an ekki hækkað meira síðastliðinn ald­ar­fjórðung.

Meðal­hækk­un launa­vísi­tölu á tíma­bil­inu 1990-2016 var 6,5% sem er veru­lega meira en ger­ist í ná­læg­um lönd­um, seg­ir Lands­bank­inn.

smari@bb.is

Íslensk nálægðarregla

Teitur Björn Einarsson

Vestfirðingar þekkja vel hætturnar sem fjarlægt ríkisvald og miðstýring hafa í för með sér. Of víðtækt vald í á einum stað getur aldrei verið forsenda frjálslynds samfélags þar sem athafnafrelsi og staðbundin þekking fær notið sín. Í störfum mínum á Alþingi horfi ég annars vegar til þess hvernig tempra megi afskipti opinberra aðila af daglegu lífi fólks og hins vegar hvernig sporna megi gegn óhóflegri miðstýringu þess valds og verkefna sem opinberir aðilar þurfa að fara með.

Í Evrópusambandinu hefur verið vísað til svokallaðrar nálægðarreglu sem mótvægi við síaukinni miðstýringu yfirþjóðlegu stofnana þess. Sú regla er reyndar ekki hátt skrifuð þar á bæ en hún gengur í stuttu máli út á að ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur fólks skuli ekki teknar á hærra stjórnsýslustigi en nauðsynlegt er. Verkefni sem sveitastjórnir sinna og geta sinnt eiga þannig ekki að vera á borði ríkisins. Markmiðið er að ákvarðanir skulu teknar eins nálægt fólki og mögulegt er enda vegur þekking og reynsla af staðháttum oftar en ekki mun þyngra en framtíðarstefnumótun og sviðsmyndagreiningar í fjarlægum ríkisstofnunum. Íslenska útgáfan af nálægðarreglunni, ef hana er á annað borð að finna innan stjórnsýslunnar, virðist reyndar vera sú að allt vald skuli vera eins nálægt Reykjavík og mögulegt er og þá helst ekki utan höfuðborgarsvæðisins.

Innan umhverfisráðuneytisins er nú unnið að gerð frumvarps um skipulag haf- og strandsvæða og samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að það verði lagt fyrir þingið í mars næstkomandi. Vaxandi eftirspurn er eftir athafnasvæðum á haf- og strandsvæðum og aukning í starfsemi kallar réttilega á heildstæðari löggjöf um skipulagningu slíkra svæða. Í frumvarpsdrögunum, sem kynnt hafa verið á vef ráðuneytisins, er gert ráð fyrir að skipulagsvaldið verði í höndum ríkisins en þó með aðkomu þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli hverju sinni. Því uppleggi í frumvarpsdrögunum er ég ósammála.

Skynsamlegra er að byggja á meginreglu gildandi skipulagslöggjafar og leggja málið þannig upp að skipulagsvald strandsvæða verði í höndum sveitarfélaga en samkvæmt núgildandi löggjöf nær skipulagsvald sveitarfélaga út að svokölluðum ytri mörkum netlaga, eða 115 metra út á sjó frá stórstraumsfjörumáli að telja. Einfalt er með lögum að færa þau mörk lengra út á sjó, til dæmis sem nemur einni sjómílu. Ríkið færi eftir sem áður með forræði á hafinu þar fyrir utan. Skipulagsstofnun myndi svo vera gert að staðfesta skipulag strandsvæðis hvers sveitarfélags til að tryggja að skipulagið á hverjum stað væri í samræmi við landsskipulagstefnu ríkisins. Þegar skipulögð væri starfsemi sem næði samkvæmt eðli sínu til strandsvæðis fleiri en eins sveitarfélags væri lögboðið að samliggjandi sveitarfélög hefðu með sér samráð innan svæðisráðs við gerð skipulags fyrir þess háttar starfsemi. Ég mun beita mér fyrir því að tekið verði mið af þessum sjónarmiðum þegar frumvarpið kemur til umræðu og afgreiðslu á þingi.

Með þannig fyrirkomulagi verður tryggt að skipulagsvald strandsvæða, eins og til að mynda fyrir starfsemi fiskeldis eða ferðaþjónustu, verði á ábyrgð kjörinna fulltrúa heimamanna á hverju svæði og íbúar hafi greiðari aðkomu að ákvarðanatöku um skipulag í sínu nærumhverfi en frumvarpsdrögin gera ráð fyrir. Í hverju byggðalagi er saman komin mikil staðbundin þekking og reynsla. Íbúar þekkja af eigin raun hvaða möguleikum eða takmörkunum í umhverfinu taka verður mið af þegar strandsvæði er skipulagt með ákveðna starfsemi í huga eða svo saman geti farið ólík starfsemi. Ákvarðanir sem teknar eru af aðilum sem ekki þekkja samfélag og staðhætti strandsvæðisins verða síður í samræmi við vilja og þarfir fólksins sem þar býr. Deilur og ósætti sem af slíkum ákvörðunum hljótast geta skapa hættulega togstreitu milli borga og landsbyggðar eins og í dag má sjá víða í evrópskum og bandarískum stjórnmálum.

Teitur Björn Einarsson

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

Fellst ekki á kvíar út af Arnarnesi

Eldissvæðin þrjú sem Arctic Sea Farm hefur sótt um.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar fellst ekki á eldiskvíar út af Arnarnesi, rétt við mynni Skutulsfjarðar. Arctic Sea Farm hefur sótt um 7.600 tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi og samkvæmt umsókninni verða kvíar meðal annars staðsettar út af Arnarnesi. Í umsögn hafnarstjórnar segir að staðsetningin skerði aðkomu stærri skipa að Skutulsfirði auk þess að þrengja athafnasvæði skipa og þá fyrst og fremst stærri skipa eins og skemmtiferða- flutninga og olíuskipa. „Nú þegar eru eldiskvíar á Skutulsfirði sem gera stærri skipum erfitt fyrir á akkerislægi vegna minna athafnarýmis og ekki verður við það unað að skerða aðkomu að siglingaleið meira en orðið er,“ segir í umsögninni.

Samkvæmt matsáætlun fyrirtækisins er gert ráð fyrir að ala lax á þremur svæðum í Ísafjarðardjúpi; við Arnarnes, við Sandeyri á Snæfjallaströnd og í Skötufirði. Fyrirtækið er nú þegar með 4.000 tonna leyfi til að ala regnboga við Sandeyri.

smari@bb.is

Þungatakmarkananir um alla Vestfirði

Slitlagið er víða viðkvæmt fyrir þungaflutningum. Mynd úr safni.

Vegna hættu á slitlagsskemmdum er ásþungi takmarkaður við 10 Tonn frá kl. 8 í fyrramálið á þjóðvegum um alla Vestfirði. Takmarkanirnar gilda á eftirtöldum vegum: Vestfjarðavegi 60 frá Dalsmynni, Barðastrandarvegi 62, Bíldudalsvegi 63, Djúpvegi 61 að Flugvallarvegi í Skutulsfirði, Laxárdalsheiði 59, Innstrandavegi 68 frá Borðeyri og Drangsnesvegi 643.

smari@bb.is

Komust áfram í A-riðil

9. flokkur Vestra með Nökkva Harðarsyni þjálfara.

Um helgina fór fram fjölliðamót í B-riðli Íslandsmótsins hjá 9. flokki stúlkna í Bolungarvík. Heimastelpur í Vestra mættu KR-b og Val. Vestrastelpur gerðu sér lítið fyrir og unnu riðilinn og tryggðu sér þar með þátttöku í A-riðli í næstu umferð og fá þá tækifæri til að etja kappi við bestu lið landsins í þessum aldursflokki. Mótið hófst á laugardegi með leik Vestra og KR-b sem lauk með 35-43 sigri Vesturbæinganna. Vestrastúlkur léku strax aftur næsta leik og mættu þá Völsurum. Þær létu tap í fyrsta leik ekki á sig fá og og knúðu fram sigur 49-45 í fjörugum leik.

Á sunnudaginn var leikin önnur umferð og Vestrastúlkur mættu fyrst KR-b. Þær urðu fyrir áfalli snemma í leiknum þegar Katla Sæmundsdóttir, annar af leikstjórnendum liðsins og stigahæsti leikmaður þess fram að þessu, meiddist illa á ökkla og varð að hætta leik en Vestrastúlkur létu það ekki beygja sig og unnu leikinn 52-43.

Fyrir lokaleik mótsins þar sem Valur og Vestri mættust var því allt galopið um úrslit riðilsins. Með sigri gátu Vestra stúlkur tryggt sér sigur í riðlinum og þar með þátttöku í A-riðli í næstu umferð á meðan Valsstúlkur þurftu á sigri að halda til að halda sér uppi í B-riðli. Fljótlega kom þó í ljós að nokkuð var af Valsstúlkum dregið eftir erfiðan leik gegn KR skömmu fyrr. Vestri hafði undirtökin í leiknum sem lauk með 53-47 sigri Vestra og sæti í A-riðli þar með í höfn.

„Þessar efnilegu stelpur sýndu og sönnuðu eina ferðina enn að þær eiga framtíðina fyrir sér í körfubolta og hafa tekið stórstígum framförum í vetur undir handleiðslu Nökkva Harðarsonar þjálfara og Adams Smára Ólafssonar aðstoðarþjálfara. Þess má svo geta að Nökkvi stýrði liðinu á laugardag en þurfti að ferðast á Selfoss til að spila með meistaraflokki á sunnudag. Það kom því í hlut Guðna Ólafs Guðnasonar að stýra stelpunum á seinni daginn sem hann gerði af sinni alkunnu fagmennsku,“ segir á vef Vestra um frammistöðu stúlknanna.

smari@bb.is

Maturinn dýrastur hjá Ísafjarðarbæ – en hækkun minnst

Mynd úr safni úr mötuneyti Grunnskólans á Ísafirði

Verðlagseftirlit ASÍ hefur birt niðurstöður verðlagskönnunnar sinnar þar sem skoðað var gjald sem 15 stærstu sveitarfélög landsins innheimta fyrir hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna. Gjald fyrir hádegisverð, 3 tíma síðdegisvistun og hressingu fyrir barn í neðri bekkjum grunnskólans er hæst í Garðabæ kr. 36.484 á mánuði en lægst í Sveitarfélaginu Skagafirði kr. 24.234. Í Ísafjarðarbæ er rukkað 31.603 krónur fyrir þessa þjónustu sem gerir sveitarfélagið það fimmta dýrasta. Þegar litið er til hækkana á milli ára er Ísafjarðarbær með minnstu heildarhækkunina, 1% en mest er hækkunin hjá Reykjavíkurborg eða 11%, þar er þó endanleg tala heldur lægri, kr. 26.100.

Ef eingöngu er skoðuð gjaldskrá fyrir hádegisverð grunnskólabarna má sjá allt að 41% verðmun milli sveitarfélaga. Hæsta verðið er í Ísafjarðarbæ þar sem máltíðin kostar 492 kr. eða 10.332 krónur á mánuði ef gert er ráð fyrir 21. vikum degi í mánuði. Lægsta verðið er hins vegar í Sveitarfélaginu Árborg, 349 kr. máltíðin eða 7.329 krónur á mánuði.

Mjög misjafnt er á milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin fyrir þjónustu við grunnskólabörn er uppbyggð. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélagana miðaði verðlagseftirlitið samanburð sinn við 21 virkan dag í mánuði, vistun í þrjá tíma á dag ásamt hressingu í síðdegisvistinni.

Frekar um könnunina má lesa á vef ASÍ

annska@bb.is

Frístundaferðir milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar

Rútan stoppar m.a. við Árbæ í Bolungarvík.

Í gær hófst akstur frístundarútu milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Ferðirnar eru eingöngu ætlaðar börnum og unglingum frá Bolungarvík og Ísafirði vegna þátttöku þeirra í skipulögðu tómstundastarfi. Ferðirnar eru ekki ætlaðar almenningi, og ræður þar m.a. gildandi sérleyfi á leiðinni og að um almenningssamgöngur gilda ákveðnar reglur. Stoppistöðvar eru við Íþróttamiðstöðina Árbæ í Bolungarvík, Íþróttahúsið á Torfnesi á Ísafirði og aðal stoppistöð strætó á Ísafirði í Pollgötu.

Fargjald verður ekki innheimt að svo stöddu en frístundarútan er tilraunaverkefni sem mun standa út maí 2017 og verður verkefnið þá endurskoðað fyrir næsta vetur. Uppsetning stundaskráa í frístundastarfi í Bolungarvík og á Ísafirði verður þá einnig endurskoðuð með hliðsjón af ferðum frístundarútu.

„Markmiðið með frístundarútu er að bæta þjónustu við börn og unglinga sem stunda íþróttir og aðrar tómstundir í Bolungarvík og á Ísafirði og minnka álag á foreldra og aðstandendur. Ef vel gengur verður frístundarútan afar hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði, sparar tíma og óþægindi meðal iðkanda og aðstandenda þeirra og minnkar akstur verulega, segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar í tilkynningu

Vestfirskar ævintýraferðir ehf. annast aksturinn samkvæmt samningi en Bolungarvíkurkaupstaður og Ísafjarðarbær standa að verkefninu.

Áætlun rútunnar

smari@bb.is

Engar uppsagnir í verkfallinu

Finnbogi Sveinbjörnsson

Vestfirskar fiskvinnslur hafa ekki sagt upp starfsfólki vegna sjómannaverkfallsins að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Hann segir stöðuna í verkfallinu grafalvarlega. „Við höfum ekki fengið neinar tilkyninngar um uppsagnir í skilningi laganna. Tvö fyrirtæki, Íslenskt sjávarfang á Þingeyri og Oddi á Patreksfirði, tóku starfsfólk af launaskrá samkvæmt undanþáguheimild sem Vinnumálastofnun veitti. Þetta heimildarákvæði gerir fólki kleift að skrá sig beint á atvinnuleysisbætur,“ segir Finnbogi.

Önnur fyrirtæki hafa að sögn Finnboga haldið starfsfólk á launaskrá. „Hraðfrystihúsið – Gunnvör sem er stærsta fyrirtækið í vestfirskum sjávarútvegi hefur náð að halda út einhverri starfsemi með vinnslu á eldisfiski og verktöku fyrir önnur eldisfyrirtæki. Fyrirtækið hefur einnig verið með sitt starfsfólk á námskeiðum og það er mjög virðingarvert framtak hjá þeim í Hnífsdal. Sömuleiðis hefur Íslandssaga á Suðureyri verið með sitt fólk á námskeiðum.“

Finnbogi segir að einu uppsagnirnar sem félagið hefur fengið inn á borð til sína eru uppsagnir hjá Klofningi á Barðaströnd. „Þær uppsagnir eru ekki tengdar sjómannaverkfallinu heldur hafa með erfiðar markaðsaðstæður í Nígeríu að gera.“

Eins og fram hefur komið er lítill gangur í viðræðum sjómanna og útvegsmanna. „Málið er komið í mjög sérstaka stöðu og það vekur mikla furðu að ríkisstjórnin segi það trekk í trekk að hún ætli ekki að koma að lausn deilunnar.“

Finnbogi segir að ríkið geti komið að málinu með öðrum hætti en með beinni lagasetningu á verkfallið. „Það er til dæmis sanngjörn krafa að ríkisvaldið viðurkenni rétt sjómanna á skattfrjálsum dagpeningum. Þeir eiga rétt á þeim eins og aðrir sem starfa fjarri heimilum sínum. Þetta yrði sennilega einn af þeim lyklum sem þarf að snúa til að leysa deiluna,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson.

Smari@bb.is

Nýjustu fréttir