Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2224

Vilja lágmarksíbúafjölda í sveitarstjórnarlögin

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var 24. mars, var lögð fram skoðanakönnun um ýmis mál fyrir landsþingsfulltrúa. Meðal annars var spurt hvort sambandið ætti að leggja til ákvæði um lágmarksíbúafjölda varðandi stærð sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögin og hver þau mörk ættu að vera ef svarið við fyrri spurningunni væri já.

Rúmlega 63% þeirra sem tóku þátt í könnuninni telja að sambandið eigi að leggja til að slíkt ákvæði verði sett inn í sveitarstjórnarlögin. Þriðjungur svarenda taldi hins vegar að sambandið ætti ekki að leggja það til. Fimm einstaklingar vildu ekki svara spurningunni eða merktu við valkostinn „veit ekki“. Alls svöruðu 136 einstaklingar könnuninni.

Seinni spurningin sneri að því hver lágmarksíbúafjöldinni ætti að vera ef slíkt ákvæði kæmi inn. Alls voru gefnir upp níu valkostir ásamt svarreitnum annað. Flestir eða 20 einstaklingar töldu að lágmarkið ætti að vera 3.000 íbúar og þar á eftir kom valmöguleikinn 1.000 íbúar.

smari@bb.is

 

Bryggjutónleikar á Suðureyri á Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég suður teygir anga sína út fyrir bæjarmörk Ísafjarðar á ný og líkt og á síðasta ári stendur hátíðin fyrir bryggjutónleikum á Suðureyri, í samstarfi við 66°Norður, en vörumerkið fæddist einmitt á Suðureyri fyrir rúmum 90 árum síðan. Tónleikarnir skarta mörgum heimamönnum, en Suðureyri hefur alið af sér stórt hlutfall sigurvegara Músíktilrauna síðustu ára og munu þeir stíga á stokk í Bryggjukoti á laugardag.

Tónleikarnir hefjast klukkan 15 og er dagskrá sem hér segir:

Kl. 15 – Between Mountains

Kl. 15:15 – Hatari

Kl. 15:45 – Rythmatik

Kl. 16:15 – Milkywhale

Kl. 16:45 – Emmsjé Gauti

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og kjörið fyrir fjölskyldur að fá sér rúnt í fjörðinn og fjörið. Tónleikarnir verða innandyra í skemmu sem nefnist Bryggjukot og er það staðsett við höfnina. 66°Norður er einn af bakhjörlum Aldrei fór ég suður og á meðan á hátíðinni stendur verður aukið framboð á vörum frá þeim í Kaupmanninum á Ísafirði og verður veittur 25% afsláttur af þeim.

annska@bb.is

Tveggja vikna námsdvöl á Grænlandi

Hópurinn í vettvangsferð á Grænlandi.

Í Háskólasetri Vestfjarða stendur nú yfir námsönn á vegum School for International Training (SIT) þar sem sautján bandarískir háskólanemar erum við nám bæði á Íslandi og á Grænlandi í nánu samstarfi við Háskólasetrið. Umfjöllunarefnið er loftslagsbreytingar á Norðurslóðum og er hópurinn nú að ljúka tveggja vikna dvöl á Grænlandi en sjálf önnin er samtals 15 vikur.

Námið á vegum SIT er vettvangsnám og áfanginn sem um ræðir nú kallast „Iceland and Greenland: Climate Change  and the Arctic“. Áfanganum var hleypt af stokkunum s.l. haust en þá kom fyrsti hópurinn til landsins. Námið fer að stærstum hluta fram á Íslandi fyrir utan tveggja vikna dvöl á Grænlandi. Hópurinn sem um ræðir nú er því sá annar í röðinni.

Önnin hófst um miðjan febrúar og flaug hópurinn fljótlega til Ísafjarðar þar sem þriggja vikna kennsla fór fram í Háskólasetrinu. Nemendur fengu um leið tækifæri til að kynnast íslenskum fjölskyldum þar sem þeir dvöldu á þeim tíma í heimahúsum. Slík heimagisting hefur verið í boði fyrir nemendur þessa háskóla frá því sumarið 2012 og gefist vel.

Nemendurnir héldu til Grænlands undir lok mars og hófst dvölin í höfuðborginni Nuuk. Pernilla Rein verkefnastjóri hjá Háskólasetrinu er með í för að þessu sinni en hún hefur á undanförnum árum haft umsjón með þjónustu við vettvangsskóla og m.a. skipulagt heimagistingu á meðan á Ísafjarðarhluta námsins stendur.

Sjá nánar á vef Háskólasetursins.

Sigraði örugglega og teflir um Íslandsmeistaratitilinn

Guðmundur fékk veglegan bikar í verðlaun. Í öðru sæti varð Dagur Ragnarsson og Jóhann Ingvason í þriðja sæti.

Ísfirski skákmaðurinn Guðmundur Gíslason kom sá og sigraði í áskorendaflokki Íslandsmótsins í skák sem lauk á sunnudag. Sigurinn gefur Guðmundi rétt til að keppa í landsliðsflokki um Íslandsmeistaratitilinn sem verður teflt um á Skákþingi Íslands í maí. Tíu skákmenn keppa um Íslandsmeistaratitilinn. Níu skákir voru tefldar í áskorendaflokknum og hlaut Guðmundur sjö og hálfan vinning, hafði betur í sjö viðureignum, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák. „Ég tapaði síðustu skákinni, en þá var ég búinn að vinna mótið og þá fer maður með allt öðru hugarfari inn í skákina,“ segir Guðmundur.

Guðmundur hefur teflt frá unga aldri en af mismikilli alvöru. „Á árunum upp úr 90 þá tefldi ég mikið, en svo stofna ég fjölskyldu og hef minni tíma og þá var ég ekki eins mikið í skákinni. Fyrir svona fimm árum fór að róast hjá mér og ég fór aftur í skákina á fullu.“

Guðmundur starfar sem verkstjóri hjá Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru í Hnífsdal. Hann segir að hann gæti ekki teflt af jafnmiklum þrótti ef ekki kæmi til skilningur vinnuveitenda. „Þeir koma til móts við mig og ég get hliðrað til verkefnum þegar ég fer suður að keppa. Ég gæti þetta ekki annars.“

Fyrir sigurinn í áskorendaflokki Íslandsmótsins var Guðmundur með 2.314 ELO stig. Hann býst við að hækka um 22 stig við þennan sigur. „Að hækka um meira en 15 stig í einu þykir mjög gott þannig að ég er mjög ánægður með árangurinn.“

Þrátt fyrir að vera keppnismaður í skák sem tekur sína íþrótt alvarlega er skákin fyrst og fremst áhugamál. „Mér finnst þetta einfaldlega mjög gaman, þetta er eitt af áhugamálunum alveg eins og ég hef gaman af því að hreyfa mig og hleyp mikið. Það að vera í góðu formi skilar mér reyndar líka árangri við skákborðið þannig að þetta hangir saman,“ segir Guðmundur.

Viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu enn í gildi

Gæsir í oddaflugi.

Matvælastofnun vill minna á að enn er í gildi aukið viðbúnaðarstig vegna hættu á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu geti borist frá villtum fuglum í alifugla og aðra fugla í haldi. Greiningum á fuglaflensu af völdum þessa afbrigðis í Evrópu hefur fækkað en enn eru taldar nokkrar líkur á að það berist með farfuglum hingað til lands. Á fræðslufundi sem Matvælastofnun hélt með alifuglaeigendum í síðustu viku var m.a. farið yfir hvernig brugðist yrði við greiningu á fuglaflensu í villtum fuglum. Matvælastofnun biður fólk um að tilkynna um dauða eða veika villta fugla til stofnunarinnar.

Síðastliðinn mánuð hefur greiningum á alvarlegu afbrigði fuglaflensu af sermisgerðinni H5N8 fækkað verulega á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum. Það er að hluta til útskýrt með því að þar er komið vor og í hærra hitastigi minnkar fjöldi virkra fuglaflensuveira hraðar en þegar kalt er. Alvarlegt afbrigði fuglaflensu greindist m.a. á vetrarstöðvum íslensku farfuglanna, sem þeir hafa nú flestir yfirgefið og eru komnir til landsins. Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnarlæknis, telur að enn sé ekki útilokað að fuglarnir hafi borið veiruna til landsins.

Fram til þessa hafa 19 tilkynningar borist um samtals 49 dauða fugla. Í sumum tilvikum var að mati stofnunarinnar ekki ástæða til sýnatöku og í öðrum voru fuglshræin of gömul eða horfin þegar komið var að til töku sýna. Hingað til hafa því aðeins verið rannsökuð fimm sýni; eitt úr álft og fjögur úr æðarfuglum. Þau voru öll neikvæð. Matvælastofnun hvetur fólk um að vera áfram á verði og tilkynna til stofnunarinnar þegar hræ af villtum fuglum finnast og orsök dauða fuglanna er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla. Til að tilkynna um dauða fugla er farið á heimasíðu stofnunarinnar, www.mast.is, smellt á hnappinn sendu ábendingu og upplýsingar færðar inn

Lögreglan með aukið eftirlit um páskana

Mikil ferðahelgi er í uppsiglingu, ekki síst á norðanverðum Vestfjörðum en að vanda er von á fjölda fólks til Ísafjarðar á Skíðaviku og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Lögreglan á Vestfjörðum beinir því til ferðalanga að huga vel að veðurspá áður lagt ef af stað í langferð milli landshluta og bendir á þjónustusíma og vefsíðu Vegagerðarinnar varðandi færð á vegum. Vegfarendur eru hvattir til að haga akstri eftir aðstæðum og hafa í huga að enn getur verið hálka eða hálkublettir á vegum, einkum á fjallvegum. Þá þarf ekki að taka fram að ökumenn keyri ekki nema allsgáðir og óþreyttir.

Lögreglan minnir foreldra á að útivistarreglurnar fyrir börn gilda alltaf, hvort heldur á hátíðisdögum eða öðrum dögum. Sama á við veru á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður, ef börn eru þar eiga foreldrar að vera með þeim og njóta saman.

Lögreglan mun sem fyrr auka eftirlit sitt um páskana og vera með aukinn mannskap, bæði á vegum í umdæminu sem og þar sem fjölmenni verður. Markmið lögreglunnar er að þessir dagar verði slysalausir og að íbúar og gestir sem til Vestfjarða koma eigi góðar og óhappalausar stundir.

Gera fjölnota poka í Suðupottinum

Verkefnið Suðupottur sjálfbærra hugmynda er nú í fullum gangi í Skóbúðinni á Ísafirði og í kvöld geta gestir og gangandi komið þangað og gert fjölnota taupoka, en þeir sem heimsótt hafa Suðupottinn hafa sýnt mikinn áhuga á að koma upp lánspoka-stöðvum í verslununum þar sem þeir sem gleyma að koma með fjölnota poka geta fengið lánaðan poka og skilað seinna. Slíkt verkefni hefur verið í gangi í Höfn í Hornafirði og verið afar vel tekið. Þegar er byrjað að safna pokum eftir að boðið var upp á taupokagerð í Suðupottinum fyrir skömmu, en hafa margir líst yfir áhuga á frekari taupokagerð og því var brugðið á það ráð að endurtaka leikinn.

Í kvöld verður í Suðupottinum unnið með nokkrar auðveldar aðferðir til að gera taupoka úr bolum. Mega gestir gjarnan taka með sér gamla boli í verkið en einnig verður efniviður á staðnum, svo má hafa með sér skæri og jafnvel saumavélar, en á staðnum eru líka uppskriftir að taupokum þar sem ekki þarf að sauma, svo enginn þarf að vera aðgerðarlaus. Taupokagerðin fer fram á milli 20 og 22 í Skóbúinni þar sem áður var til húsa Skóbúð Leós við Hafnarstræti.

annska@bb.is

Kristín setti fjögur Íslandsmet

Kristín á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra. Mynd/ Jón Björn, ifsport.is

Ísfirska sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir hjá íþróttafélaginu Ívari heldur áfram á sigurbrautinni í sundinu. Um síðustu helgi keppti hún á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í sundi í 50m laug sem fram fór í Laugardalslaug og var þar í fyrsta sinn keppt í flokki S16, sem er flokkur fyrir fólk með Downs heilkenni. Það gerir það að verkum að nú getur Kristín ekki bara keppst við að setja Evrópu- og heimsmet líkt og fram til þessa, heldur einnig Íslandsmet og gerðu hún sér lítið fyrir og setti á mótinu fjögur slík. Kristín keppti í fjórum greinum á mótinu og setti hún Íslandsmet í 50m flugsundi, bæði 50m og 100m með frjálsri aðferð þar sem hún synti skriðsund og í 50m baksundi. Hún bætti því fjórum gullpeningum í verðlaunapeningakistu sína sem er orðin ansi vegleg.

annska@bb.is

Nýir eigendur að Vagninum

Vagninn á Flateyri.

Ein frægasta krá landsins, Vagninn á Flateyri, hefur nú fengið nýja eigendur. Hinir nýju eigendur eru þrenn pör sem öll eiga hús á Flateyri þar sem þau dvelja hluta úr ári. Eigendur Vagnsins eru þau Sindri Páll Kjartansson og Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir, Hálfdán Pedersen og Sara Jónsdóttir ásamt Geir Magnússyni og Ragnheiði Ólafsdóttir.

Fólk hefur komið saman og skemmt sér á Vagninum allt frá því árla á níunda áratug síðustu aldar og er staðurinn hlaðinn minningum í hólf og gólf. Segjast hinir nýju eigendur að þeim þyki afar vænt um eyrina og stefna þau á endurbætur og uppbyggingu á Vagninum með tíð og tíma, en áherslan hið fyrsta verði á að fá slátt í þetta hjarta Flateyrar með ýmsum hætti.

Nýir eigendur eru ekkert að tvínóna við hlutina og verður heilmikið fjör á Vagninum um páskana. Annað kvöld verður þar gleðisveitin F1-Rauður með flateyrskt sveitaball, eins og þau gerast best. Á skírdag verður þar svo kallað gleðigutl, sem ku vera íslenskun á því fyrirbæri sem oftast gengur undir því enska heiti „Happy hour“ og þá verður einnig pöbbagisk undir stjórn Ó-Love, þar sem unnið er út frá þemanu töff fólk, tónlist og tilfinningar.

Á miðnætti föstudagsins langa verða þar engir aðrir en KK band með 25 ára afmælistónleika, en um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því er platan Bein leið rataði beina leið inn í hjörtu landsmanna. Þar munu án efa margir fara saman í ferðalag niður minningastræti því KK og hljómsveit voru duglegir að heimsækja Vagninn í þá daga sem frægðarsól Beinnar leiðar reis sem hæst.

Vagngleðin heldur áfram á laugardag með gleðigutli seinnipartinn og skífuþeytingum síðar um kvöldið og eftir miðnætti á páskadag verður þar að finna, að sögn aðstandenda, heilagan anda, trúnó, tóna og tilboð á barnum.

Eftir páskafjörið leggst Vagninn í stuttan dvala að nýju en í maí verður skrúfað frá dælunum að nýju og bætist svo snæðingur við í byrjun júní og verður á boðstólnum út sumarið.

annska@bb.is

Krókur hvetur þingmenn að breyta strandveiðikerfinu

 

Smábátafélagið Krókur á Patreksfirði lýsir yfir ánægju og stuðningi við frumvörp til breytinga og úrbóta á strandveiðikerfinu og hvetur alþingismenn allra flokka til að styðja breytingar sem þar koma fram, sem stuðla að meira öryggi við veiðarnar. Tvö frumvörp um breytingar á strandveiðum bíða afgreiðslu Alþingis. Annars vegar frumvarp þingmanna Vinstri Grænna og hins vegar frumvarp þingmanna Pírata.

Frumvarp Vinstri grænna felur í sér að horfið verður frá heildarpottum hvers strandveiðisvæðis og strandveiðibátum verður úthlutað 12 veiðidögum í fjóra mánuði, frá maí til ágúst. Frumvarpið gerir ráð fyrir að breytingin sem lögð er til gildi aðeins fyrir strandveiðitímabilið sem hefst 2. maí næstkomandi. Ekki þykir rétt að hafa 12 daga val ótímabundið þar sem óvissa er um hversu mikið strandveiðibátar veiða með þessu breytta fyrirkomulagi. Áfram verði óheimilt að róa á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og sömu takmarkanir verði á veiði hvers dags.

Í frumvarpi Pírata er gert ráð fyrir að strandveiðitímabilið verði lengt og standi frá 1. mars til 31. október og að hver bátur fái úthlutað 50 dögum til veiða að eigin vali innan tímabilsins. Í greinargerð með frumvapinu segir að ætlunin með því sé að styrkja rekstrargrundvöll smábátaútgerðar fyrir þá sem ekki eru handhafar aflamarks, auk hagræðis fyrir smábátasjómenn.

Nýjustu fréttir