Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2223

Íbúalýðræði og íbúasamráð – betri stjórnsýsla eða orðagjálfur?

Arna Lára Jónsdóttir.

Í-listinn setti íbúalýðræði og opnari stjórnsýslu í sérstakan forgang í upphafi kjörtímabilsins með það fyrir augum bæta stefnumótun sveitarfélagsins og ákvarðanatöku með aukinni aðkomu íbúanna. Einnig var markmiðið að auka þátttöku og samkennd íbúanna í samfélaginu.

Leiðarljós Í-listans þegar kemur að íbúalýðræði er að með aðkomu íbúa sem best þekkja til ákveðinna mála og með aðkomu fleiri en færri að ákvörðunum verði þær betri. Betur sjá augu en auga, og eins og sagt er á Aldrei fór ég suður hátíðinni „Maður gerir ekki rassgat einn“. Enn er löng leið fyrir höndum að auka samráð við íbúa, en þó hefur margt áunnist nú þegar.

Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að setja á fót tímabundna nefnd til að halda utan verkefnið, svo sem að koma upp hverfisráðum þar sem þau voru ekki til staðar, öldungaráði og ungmennaráði og gera þau af sjálfstæðum hluta í stjórnsýslu  bæjarins. Áður voru starfandi virk íbúasamtök á Þingeyri, Flateyri og Hnífsdal. Í dag höfum við sex starfandi hverfisráð og mjög öflugt öldungaráð. Nokkur áhugasöm ungmenni sem láta málefni  nærsamfélagsins sig varða hafa svo boðið fram aðstoð sína til að koma á fót ungmennaráði sem vonandi verður sem fyrst. Það eru hinsvegar til fjölmargar aðrar leiðir til að stunda íbúasamráð, hverfisráð auk öldunga- og ungmennaráðs eru bara ein aðferð.

Íbúasamráð og íbúalýðræði er viðleitni til að bæta stjórnskipan á sveitarstjórnarstiginu. Það gengur út á að fá íbúa til að taka þátt í undirbúningi mála fyrir sveitarstjórn eða með þátttöku í atkvæðagreiðslum, hvort sem þær eru bindandi eða ráðgefandi. Samráð við íbúa er því í stórum dráttum tvíþætt, annars vegar þátttaka í atkvæðagreiðslum og hins vegar í gegnum samráð sveitarstjórnar við íbúa, s.s. með íbúafundum af ýmsu tagi og virkum hverfisráðum.

Við í Í-listanum viljum að íbúar sveitarfélagsins geti haft meiri áhrif á nærumhverfi sitt og þau mál sem varða þeirra hagsmuni án þess að skuldbinda sig í skipulögðu flokkspólitísku starfi. Við höfum innleitt starfshætti sem eru til þess fallnir að efla lýðræði og auka þátttöku almennings í bæjarmálum með það fyrir augum að bæta vinnubrögð og ákvarðanatöku.

Ein af þeim leiðum sem við höfum farið til að virkja hverfisráðin er að marka þeim sérstakt framkvæmdafé til að nýta í sitt nærumhverfi. Það hefur reynst vel, t.a.m. í Öndunarfirði þar sem hverfisráðið hefur lagt áherslu á að nýta sitt framkvæmdafé til að skapa betra umhverfi fyrir börn. Nú þegar hefur verið settur upp ærslabelgur og til stendur að setja upp aparólu. Þessi tvö verkefni eru dæmi um skemmtilegar framkvæmdir sem bæta nærumhverfið en hefðu sennilega aldrei orðið að veruleika eftir hefðbundnum leiðum.

Íbúasamráð virkar

Nú þegar höfum við mjög góða reynslu af íbúasamráði. Skortur á dagvistunarplássum í Skutulsfirði hefur verið eitt af þeim stóru málum sem við höfum verið að fást við. Við tókum meðvitaða ákvörðun  um að reyna að upplýsa foreldra markvisst um stöðu mála og kalla eftir skoðunum þeirra á þeim kostum sem í boði voru. Haldin var fundur með foreldrum leikskólabarna og opnuð Facebook síða þar sem upplýsingar eru settar inn en er jafnframt vettvangur fyrir foreldra til að spyrja spurninga eða koma skoðunum sínum á framfæri. Árangurinn af þessu íbúasamráði er sá að 5 ára deildin Tangi hefur verið opnuð í Tónlistarskólanum sem mikil ánægja er með. Samráðið og upplýsingagjöfin um dagvistunarmál hefur haft mjög jákvæð áhrif á stjórnsýsluna, upplýsingaflæðið er betra og dregið hefur úr óvissu meðal foreldra um hvenær börn komast inn á leikskóla.

Við erum í sambærilegu ferli á Flateyri þar sem bæjaryfirvöld, foreldrar og íbúar á Flateyri eru saman að leita leiða til að styrkja skólastarf á Flateyri.  Áður höfðu hugmyndir bæjarstjórnar um að sameina leik- og grunnskóla á einn stað fallið í afar grýttan jarðveg meðal íbúa en þar skorti upp á íbúasamráð. Það var okkur lærdómsríkt, en við tókum nokkur skref aftur á bak og byrjuðum á réttum stað. Ég er bjartsýn að sú sameiginlega vinna sem nú er í gangi eigi eftir að skila okkur góðri niðurstöðu fyrir skólastarf á Flateyri og okkur takist með markvissu íbúasamráði að ávinna okkur traust íbúa.

Það leikur engin vafi á því í mínum huga að með samráði við íbúa getur náðst meiri sátt og ánægja með mótun og framkvæmd stefnu bæjarstjórnar.

Öldungaráð

Öldungaráð er skipað 5 fulltrúum og jafnmörgum til vara. Bæjarstjórn kýs tvo fulltrúa og samtök eldri borgara tilnefna þrjá fulltrúa. Öldungaráðið skal vera bæjarstjórn, nefndum og ráðum Ísafjarðarbæjar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni bæjarbúa sem eru 67 ára og eldri. Ráðinu er ætlað að stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Ísafjarðarbæjar við hagsmunasamtök hópsins, móta stefnu og gera tillögur til bæjarstjórnar sem varðar verksvið þess. Öldungaráðið er samráðsvettvangur eldri bæjarbúa, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjaryfirvalda og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins.

Öldungaráðið hefur farið mjög vel af stað og er þegar farið að virka sem skyldi. Ráðið hefur verið öflugur málsvari eldri borgara og komið sterkt inn í umræðuna um húsnæðismál eða réttara sagt húsnæðiskort þessa aldurshóps og brýnt bæjarstjórn í þeim efnum.  Öldungaráð og bæjarstjórn hafa þegar haldið einn sameiginlegan fund um málefni eldir borgara, en samkvæmt samþykktum skal það gert einu sinni á ári. Fundagerðir öldungaráðs eru lagðar fyrir bæjarstjórn líkt og gert er með fundargerðir hverfisráðanna, og fá þar umræðu meðal bæjarfulltrúa.

Ungmennaráð

Hugsunin á bak við ungmennaráð er ekki ólík þeirri sem sem er að baki öldungaráði. Það á að vera málsvari síns aldurhóps og vera bæjarstjórn til ráðgjafar. Tilgangur ungmennaráðs Ísafjarðarbæjar er annars vegar að veita ungmennum fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og hins vegar að skapa vettvang og leiðir til þess að gera ungmennum kleift að koma hugmyndum og skoðunum sínum á framfæri m.a. við kjörna fulltrúa sveitarfélagsins. Ungmennaráð á að vera skipað 9 fulltrúum ungmenna sem tilnefnd erum af grunnskólum bæjarins og Menntaskólanum á Ísafirði. Einnig er gert ráð fyrir að einn fulltrúi sé skipaður utan skóla. Ef vel tekst til við að virkja ungmenni til að starfa í ráðinu mun það án efa vera jafn öflugur vettvangur fyrir þennan aldurshóp eins og öldungaráðið er þegar orðið.

Hvernig gerum við góðan bæ betri?

„Hvernig gerum við góðan bæ betri?“ var yfirskrift vel heppnaðs málþings sem við héldum í mars í samstarfi við hverfisráðin. Málþingið er að mínu mati mikilvægur hluti af lærdómsferlinu við að virkja íbúalýðræði og íbúasamráð. Þar fengum við að heyra mjög gagnlegar framsögur frá hverfisráðunum sex þar sem fulltrúar þeirra fóru yfir reynslu sína og upplifun af starfinu og samskiptum sínum við bæjaryfirvöld, og komu með góða punkta um hvað betur mætti fara.

Auk heimamanna hélt Anna Guðrún Björnsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þrusugott erindi um um íbúalýðræði, samráð og þátttöku íbúa í ákvarðanatöku, en Sambandið ætlar að gefa út handbók um íbúasamráð í haust sem á án efa eftir að nýtast okkur vel.

Halldór Auðar Svanson borgarfulltrúi í Reykjavík sagði okkur frá reynslu Reykvíkinga af íbúasamráði. Borgin hefur farið aðeins aðrar leiðir í ástundum íbúasamráðs en við í Ísafjarðarbæ. Munurinn felst einkum  í því að þar eru hverfisráðin pólitískt skipuð í stað þess að vera valin ópólitískt af íbúunum sjálfum líkt og hér. Gagnlegt var að heyra um reynslu Reykvíkinga og ljóst að þar á bæ er einnig smátt og smátt verið að feta sig eftir þessum nýju brautum.

Að framsögum loknum var blásið til vinnustofu þar sem íbúar og kjörnir fulltrúar skiptust á skoðunum  og reynslu um hvað vel hefði tekist til þessa og hvað við getum gert til að ná betri árangri. Framsögumenn málþingsins tóku þátt í umræðunum auk Kristjáns Halldórssonar frá Byggðastofnun sem unnið hefur í verkefninu Brothættar byggðir, en það verkefni byggir að miklu leyti á valdeflingu til íbúa.

Áfram veginn

Það kom berlega í ljós á málþinginu að nú þegar hefur margt áunnist með hverfisráðunum þó við getum enn gert miklu betur. Upplýsingar um fyrirhugaðar ákvarðanir eiga nú mun greiðari leið til íbúa en áður og þeir eiga betri möguleika á að gera gagnlegar athugasemdir um það sem varðar þeirra nærumhverfi. Einnig kom í ljós á málþinginu að við stöndum í fremstu röð á landsvísu í því að virkja íbúasamráð með hverfisráðunum, sem var mjög ánægjulegt að heyra. Málþingið leiddi af sér ýmsar góðar hugmyndir um hvernig við getum þróað málin áfram til enn betri vegar og við hlökkum til að hrinda þeim í framkvæmd.

Arna Lára Jónsdóttir

formaður bæjarráðs og nefndar um íbúalýðræði og virkari stjórnsýslu

Ábending frá veðurfræðingi

Blindbylur verður á Steingrímsfjarðarheiði og á hálsunum á sunnanverðum Vestfjörðum fram undir kl. 22 í kvöld.  Annars hefur náð að hlána víðast hvar, nema að skafrenningur er vaxandi á Öxnadalsheiði.  Undir Hafnarfjalli er áætlað að vindur gangi niður í kvöld á milli kl. 21 og 22 um leið og skil lægðarinnar ganga yfir.

bryndis@bb.is

Fjörið fram streymir næstu daga

Frá Skíðavíkunni,.

 

Nú renna öll vötn til Ísafjarðar og eru gestir þegar teknir að streyma að í stórum stíl og verður væntanlega lítið lát á næstu tvo daga eða svo. Skíðavikan verður sett í dag og markar hún upphaf þeirra fjörfullu daga sem nú fara í hönd. Að vanda fer setningin fram á Silfurtorgi og hefst hún klukkan 16:30, en hálftíma fyrr mun Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar marsera ásamt meðlimum úr skíðafélagi Ísfirðinga frá Ísafjarðarkirkju. Að vanda er svo sprettganga Craftsports í Hafnarstrætinu í beinu framhaldi af setningu klukkan 17.

Einhverjir taka þó forskot á sæluna og má fram að því til að mynda skoða sýningu leikskólans Sólborgar á Ísafirði sem ber heitið Bær í barns augum. Sýningin er byggð á verkefnum sem nemendur hafa unnið í tengslum við bæinn sinn og má sjá verkin vítt og breitt um Ísafjörð, til að mynda í gluggum verslana. Þá verður einnig í gangi páskaleikur í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík, þar sem talandi arnpáfi tekur á móti krökkunum og boðið upp á þrautaleik fyrir börn að 14 ára aldri. Páskaleikurinn er í gangi frá 13-17 og verður hann einnig í boði á morgun skírdag og á laugardag.

Þá verður gleðigutl á Vagninum á Flateyri á milli 17 og 19 og þar verður svo ball í kvöld með gleðisveitinni F1 rauður. Þá verður Bítl í Edinborgarsal klukkan 21 er blússveitin Akur heiðrar þá fornfrægu hljómsveit The Beatles. Klukkustund síðar hefst svo bjórbingó á Húsinu og klukkan 23 þeytir DJ Óli skífum í Krúsinni.

Skírdagur

Á skírdag er dagskráin þétt frá morgni til kvölds og hefst hún klukkan 7 í Bolungarvík þar sem þátttöku- og hugleiðsluverkið Síðasta kvöldmáltíðin fer fram. Þar eru þátttakendur leiddir til móts við eigin lífsgildi og lífsstíl um leið og sjónum er beint að samfélaginu. Verkið er endurgjaldslaust og stendur milli til klukkan 19. Það tekur ríflega klukkustund fyrir hvern og einn að þræða sig í gegnum verkið og þarf að skrá sig í síma 868 3040. Í Bolungarvík verður einnig samflot í sundlauginni á milli 10 og 11 og ferming verður í Hólskirkju klukkan 11.

Sitthvað er á dagskrá Skíðavikunnar fyrir þá íþróttasinnuðu, en líkt og nafnið gefur til kynna er talsvert um skíðatengda viðburði, en einnig eru dagskrárliðir fyrir gesti sem kjósa aðra tegund af hreyfingu. Til að mynda bjóða Borea Adventures á Ísafirði upp á stutta kajakferð á Pollinum, mæting í Bræðraborg klukkan 10:30. Þá verður einnig páskaeggjamót í körfubolta fyrir yngri kynslóðina í íþróttahúsinu Torfnesi sem hefst klukkan 11, þar sem einnig verður hægt að næla sér í belgískar vöfflur.

Klukkan 12 verður skíðaskotfimi á Seljalandsdal, þar sem keppendur sameina hæfni sína á skíðum og skotfimi. Á sama tíma hefst páskakökubasar barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra í Samkaup. Klukkan 13 og 16 sýnir leikdeild Höfrungs Dýrin í Hálsaskógi á Þingeyri og einnig verða tvær sýningar á föstudaginn langa og fer hver að verða síðastur að tryggja sér miða í síma 659 8135. Þá geta listhneigðir gætt sér á úrvals myndlist er Örn Alexander Ámundason sýninguna Ljóðræn kveikja samspils (ó)huglægs í samhengi í Gallerí Úthverfu klukkan 16.

Munnar og magar ráða oft ferðinni og gildir þá einu hvort þar eru á ferð heimamenn eða gestir og að kvöldi skírdags verður kótelettukvöld á Einarshúsi í Bolungarvík, pantanir í síma 690-2303

Klukkan 20 er eitt og annað um að vera og má þá bruna á Þingeyri þar sem Kómedíuleikhúsið sýnir hið áhrifamikla leikverk Gísli á Uppsölum í Félagsheimilinu. Miðapantanir í síma 891 7025. Fyrir þá sem vilja næra andann verður Helgistund í Flateyrarkirkju, þar sem fram fer altarisganga og tónlistaratriði og fyrir þá sem vilja næla sér í auka adrenalínflæði verður Big jump / slope style keppni á Seljalandsdal. Þá verður einnig á sama tíma pöbbagisk á Vagninum á Flateyri.

Klukkan 21 mun svo tónlistarmaðurinn Valdimar ásamt hljómsveit halda tónleika á Hótel Ísafirði og á sama tíma verður Let it be, Bítlaheiðurstónleikar í Edinborgarhúsinu. Þá verður einnig hitað upp fyrir Aldrei fór ég suður í Krúsinni og klukkustund síðar eða klukkan 22 treður tónlistarmaðurinn Rúnar Eff upp á Húsinu.

Upp úr kl. 22 hefst ljóðaball í Tjöruhúsinu þar sem fram koma m.a. Eiríkur Örn Norðdahl, Skúli mennski, Kött Grá Pjé og fleiri.

 

Föstudagurinn langi

Árla dags á föstudaginn langa verður útivistin alls ráðandi. Klukkan 9:30 verður farið í fjallaskíðaferð í Jökulfirði með Borea Adventures og klukkustund síðar bjóða þau einnig upp á kajakferð á Pollinum, sem er í boði alla daga Skíðavikunnar. Þá verður klukkan 10 helgiganga frá Kirkjubóli í Valþjófsdal yfir í Holt, þar sem boðið verður uppá súpu og brauð í Friðarsetrinu að leiðarlokum.

Klukkan 11 hefst svo hinn sívinsæli furðufatadagur í Tungudal sem hefur verið á dagskrá Skíðavikunnar svo lengi sem elstu menn muna. Grillaðar pylsur, andlitsmálning, skíði, lifandi tónlist og karamellur sem rigna af himnum ofan. Klukkan 11 verða Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir í Hólskirkju.

Klukkan 15 verður opinn hátíðarfundur AA- og ALANON samtakanna í Ísafjarðarkirkju. Allir velkomnir. Klukkan 17 verður svo poppprinsinn Páll Óskar með barnaball í Edinborgarhúsinu, en þessi viðburður hefur komið sterkur inn hin síðari ár þar sem fjölskyldan tekur snúning saman á dansgólfinu.

Klukkan 19 er svo komið að því sem flestir hafa beðið eftir, rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður brestur á í Kampa-skemmunni við Aldrei fór ég Suðurgötu. Á miðnætti er svo slegið í böll í hverju húsi og verður þá Páll Óskar í Edinborgarhúsinu, Gísli Pálmi í Krúsinni, Dj Davið Roach á Húsinu og sjálft KK band á Vagninum á Flateyri.

Laugardagur 15. apríl

Dagskráin hefst klukkan 10 með íþrótta- og leikjadegi Höfrungs í íþróttamiðstöðinni á Þingeyri. Þar verður að finna þrautaplan fyrir börnin og páskaeggjaleit ásamt því sem þar má iðka fjölmargar íþróttagreinar.

Klukkan 10:30 hefst svo sönglagasmiðja fyrir börn í Hömrum. Þar sem boðið verður upp á dagsnámskeið í sönglagasköpun og föndri sem endar á tónleikum.

Aftur verður blásið til furðufatadags á skíðasvæðinu en að þessu sinni á Seljalandsdal. Byrjað verður  á garpamóti og það verða skráningar á staðnum. Páskaeggjamót, fyrir börn fædd frá árinu 2005 verður svo í kjölfarið og þar á eftir grillaðar pylsur til styrktar Skíðafélaginu.

Í Safnahúsinu í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði opnar klukkan 14 Sýning um Aldrei fór ég suður og verður dagskrá henni tengd þar sem flutt verða erindi um hátíðina. Klukkustund síðar hefjast Bryggjutónleikar á Suðureyri þar sem fjölmargir tónlistarmenn stíga á stokk, þeirra á meðal nýkrýndir sigurvegarar Músíktilrauna Between Mountains.

Klukkan 19 heldur svo Aldrei fór ég suður fjörið áfram sem aldrei fyrr í Kampa-skemmunni. Fyrir þá sem vilja eitthvað aðeins rólegra verður klukkan 21 páskabingó í Simbahöllin á Þingeyri og verður það einnig að kvöldi páskadags.

Upp úr klukkan 22 tekur næturlífið við sér er Gay Lookin’ Soft Spoken, DJ Set verður á Vagninum á Flateyri og á miðnætti poppar upp hvert ballið á fætur öðru: Aron Can og Emmsjé Gauti í Edinborgarhúsinu, GUS GUS í Krúsinni og Dj Óli Dóri á Húsinu.

Páskadagur

Dagurinn hefst á rólegu nótunum er klukkan 9 verður hátíðarmessa í Hólskirkju í Bolungarvík og klukkan 10 verður samflot í Musteri vatns og vellíðunar eða sundlaug staðarins, þá verður páskamessa klukkan 11 í Holtskirkju í Önundarfirði og klukkan 14 í Suðureyrarkirkju.

Klukkan 13 verður Garpamótið í Tungudal  þar sem fram fer keppni í samhliðasvigi. Hermigervill skemmtir gestum á Húsinu klukkan 15 og þá eru nokkur rólegheit fram á kvöld, en á miðnætti hefjast dansleikir með Appollo og Eyþór Inga í Edinborgarhúsinu, Skítamórall í Krúsinni og geim á Vagninum á Flateyri.

Þrátt fyrir að dagskráin sem hér birtist sé bæði þétt og væn, þá er aldrei að vita nema fleiri viðburði sé að finna á svæðinu þessa dagana. Stuðst var við dagkrána sem finna má inn á paskar.is sem gefur gott yfirlit yfir það feiknarfjör sem bíður heimamanna og gesta á norðanverðum Vestfjörðum. Spáin er fín og okkur ekkert að vanbúnaði! Gleðilega páska – Gleðilega Skíðaviku – Gleðilegt rokk!

annska@bb.is

Ljóðaball í Tjöruhúsinu

Tjöruhúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Það er ekki ofsögum sagt að á páskum blómstri menningarlíf Ísafjarðarbæjar einsog marglitt túlípanabeð og margfeldisáhrif hinnar rómuðu Skíðaviku láti fyrir sér finna víða. Þegar Skírdagskvöld stendur sem hæst blæs Lista- og menningarfélag Skúrarinnar til veislu margra ljóða, mikilla tóna og trallandi stuðs í Tjöruhúsinu, þar sem fram koma meðal annars alræmdi rapparinn og rithöfundurinn Kött Grá Pje, hið myrka borgarskáld Björk Þorgrímsdóttir, stafræna gjörningaskáldið Lommi (Jón ÖrnLoðmfjörð) auk heimamanna á við rokk-og-rólstjörnurnar Skúla Mennska og Hauk SM – sem leikur með Kisum – hattaskáldið Eirík Örn Norðdahl og bókmenntafræðinginn Inga Björn Guðnason. Stuðið hefst klukkan 21.30; tilboð verður á plokkfiski og diskar, varningur og bækur til sölu – meðal annars sérstök forsala á ljóðabók Eiríks Arnar, Óratorrek, sem kemur út í næstu viku.

87 milljónir kr. úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis

Sjókvíar í Arnarfirði.

Búið er að úthluta 87 milljónum kr. úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Náttúrustofa Vestfjarða hlaut tvo styrki samtals að upphæð 6,8 milljónir kr. Sjóðurinn er fjármagnaður af handhöfum fiskeldisrétthafa. Markmið sjóðsins er að fjármagna verkefni, sem lúta að því að aðlaga fiskeldi hér á landi sem mest að þeim umhverfisskilyrðum sem fyrir hendi eru og lágmarka þannig umhverfisáhrif af völdum sjókvíaeldis. Sjóðurinn greiðir kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki til að mæta kostnaði eða tekjumissi sem ekki er hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.

 

Eftirtöld verkefni hlutu styrk:

  1. Matís og Hafrannsóknastofnun. Erfðafræðileg áhrif laxeldis á villta laxastofna 6 m.kr.
  2. Hafrannsóknastofnun. Útbreiðsla laxfiska og umhverfisþættir vatnsfalla á Austfjörðum 3 m.kr.
  3. Náttúrustofa Vestfjarða. Vöktun á lús á villtum laxfiskum á Vestfjörðum 4,94 m.kr.
  4. Náttúrustofa Vestfjarða.  Bætt vöktun fiskeldis með notkun líffræðistuðla  1,8 m.kr.
  5. Hafrannsóknastofnun. Vöktun á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis 22 m.kr.
  6. Tilraunastöð HÍ að Keldum. Rannsóknir á veirusýkingum í hrognkelsum 5 m.kr.
  7. Landssamband Veiðifélaga. Gerð skýrslu um heildar efnahagsleg áhrif lax- og silungsveiða á Íslandi 1 m.kr.
  8. Akvaplan-niva. Hrognkelsi – Lífræna lúsaætan 4 m.kr.
  9. Hafrannsóknastofnun. Áhætta erfðablöndunar á villta stofna 13,875 m.kr.
  10. Hafrannsóknastofnun. Mat á burðarþoli fjarða og sjókvíaeldissvæða 25 m.kr.

Aukinn strandveiðikvóti

Veiðiheim­ild­ir á strand­veiðisvæði D hafa verið hækkaðar um 200 tonn frá fyrra ári en að öðru leyti er fyr­ir­komu­leg varðandi veiðisvæði, veiðidaga, há­marka­afla á dag og fjölda hand­færar­úlla óbreytt frá því á síðasta ári sam­kvæmt til­kynn­ingu frá at­vinnu­vegaráðuneyt­inu.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, hef­ur gefið út reglu­gerð um strand­veiðar í ár. Strand­veiðitíma­bilið hefst 2. maí og stend­ur til 31. ág­úst. Við út­hlut­un afla­heim­ilda er byggt á eft­ir­far­andi svæðaskipt­ingu:

Svæði A) nær frá A. Eyja- og Mikla­holts­hreppi til Súðavík­ur­hrepps, svæði B) nær frá Stranda­byggð til Grýtu­bakka­hrepps, svæði C) nær frá Þing­eyj­ar­sveit til Djúpa­vogs­hrepps og svæði D) nær frá Hornafirði til Borg­ar­byggðar.

Strand­veiðar hóf­ust fyrst í júní 2009 og var heild­ar­magnið þá 4.000 tonn. Leyfi­leg­ur heild­arafli á kom­andi vertíð verður 9.200 tonn og er það aukn­ing um 200 tonn frá fyrra ári sem fyrr seg­ir. Bú­ist er við að út­gef­in veiðileyfi verði um 700.

180 milljóna króna afgangur af rekstri Ísafjarðarbæjar

Samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta Ísafjarðarbæjar var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 179 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 18 milljóna króna afgangi. Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn fyrir helgi.

Skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar er nú komið niður í 114% og hefur ekki verið lægra frá því löngu áður en reglur um skuldaviðmið sveitarfélaga voru settar árið 2011, en sveitarfélögum er í dag ætlað að vera undir 150% í skuldaviðmiði.

„Þarna er um afbragðs góðan árangur að ræða – á sama tíma og rík áhersla hefur verið lögð á að bæta þjónustu við íbúa og sinna mikilvægum framkvæmdum.,“ segir í fréttatilkynningu Ísafjarðarbæjar.

Skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar er nú komið niður í 114% og hefur ekki verið lægra frá því löngu áður en reglur um skuldaviðmið sveitarfélaga voru settar árið 2011, en sveitarfélögum er í dag ætlað að vera undir 150% í skuldaviðmiði.

Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta, annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur – að mestu fjármagnaður með skatttekjum, hins vegar er B-hluti sem eru stofnanir í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta fellur Hafnarsjóður, Vatnsveita, Fráveita, þjónustuíbúðir á Hlíf, Fasteignir Ísafjarðarbæjar, aðstaðan í Funa og fjármögnun Hjúkrunarheimilisins Eyrar.

Tap vegna Eyrar er um 38 milljónir króna og liggur skýringin grunnvísitölu sem heilbrigðisráðuneytið lagði til grundvallar leigu hjúkrunarheimilisins að lokinni byggingu þess. Að mati stjórnenda Ísafjarðarbæjar er þessi grunnvísitala óréttmæt en vísitalan er frá á miðju ári 2015, en öll grunnverð í samningnum eru frá árinu 2009. Tap Ísafjarðarbæjar af þessum sökum vegna framkvæmdarinnar nemur um 2-300 milljónum króna.

Rekstrarafkoma A hluta var jákvæð að fjárhæð 130 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 43 milljóna króna halla. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 1.162 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 944 milljónum króna.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 4.403 milljón króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 4.196 milljónum króna. Rekstrartekjur A-hluta námu um 3.735 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 3.540 milljónum króna. Munar þar mestu um að framlag Jöfnunarsjóðs var um 160 milljónum kr. hærra en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins og stofnana námu um 2.092 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins var um 288 stöðugildi í árslok.

smari@bb.is

 

 

700 þúsund í menningarstyrki

Falleg harmonika. Mynd frá Byggðasafni Vestfjarða.

Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt vorúthlutun menningarstyrkja. Til ráðstöfunar voru 700 þúsund krónur. Eftirfarandi verkefni hlutu styrk:

  • Eyþór Jóvinsson, Arnbjörn – handrit að kvikmynd í fullri lengd, kr. 50.000,-
  • Gláma kvikmyndafélag, Gamanmyndahátíð Flateyrar, kr. 200.000,-
  • Kvenfélagið Von, Dýrafjarðadaganefnd, Dýrafjarðadagar – barnadagskrá, kr. 100.000,-
  • Listasafn Ísafjarðar, ljósmyndasýning á verkum Þorvaldar Arnar Kristmundssonar, kr. 50.000,-
  • Byggðasafn Vestfjarða, sýning á hljóðfærum safnsins, landsmót harmonikkuunnenda og útgáfu á geisladisk, kr. 250.000,-
  • Byggðasafn Vestfjarða, opnun sýningarinnar „Ég var aldrei barn“ í tilefni af 75 ára afmæli safnsins, kr. 50.000,-

Smári@bb.is

Dekstrað við hunda á bolvískri baðstofu

Helena á Hundabaðstofunni með fjárhundahópinn sinn, Kollu sem er þýskur fjárhundur, Söru sem er íslenskur fjárhundur og Goða sem er rough collie.

Það er margt sem þrífst við nyrsta haf og hefur þjónustan sem nálgast má á norðanverðum Vestfjörðum tekið talsverðum breytingum síðustu árin. Sumstaðar bætist í á meðan á öðrum stöðum dregst saman, í anda þess hvernig tímarnir breytast og mennirnir með. Einn þeirra sprota í þjónustu sem risið hefur er Hundabaðstofan í Bolungarvík, lítið þjónustufyrirtæki í Bolungarvík sem tók til starfa í lok árs 2014. Þar tekur hundasnyrtirinn Helena Sævarsdóttir á móti hundum af öllum stærðum og gerðum til snyrtingar.

Þeir sem hafa farið með hundinn sinn til Helenu geta vitnað um að hjá henni er sannarlega nostrað við ferfætlingana sem til hennar koma og sýnir hún þeim mikla alúð og nærgætni. Helena er augljóslega mikil hundakerling og segir hún að hún hafi alltaf elskað hunda.

„Ég ólst upp með hundi í 12 ár sem var mín hægri hönd alla mína æsku og er ég mjög þakklát fyrir að hafa alist upp með hund á heimilinu. Ég hef alltaf átt hunda eða ketti því mér finnst lífið svo tómlegt án þess. Ég hef alltaf viljað vinna með hunda og kviknaði áhugi minn fyrir alvöru á hundasnyrtingum árið 2014.“ Segir Helena um tilurð þess að hún fór út í þetta til að byrja með. Hundasnyrtir er ekki löggild atvinnugrein á Íslandi svo það þarf ekki menntun til að verða hundasnyrtir, en hún hefur verið dugleg við að sækja sér þekkingu á faginu og lærði hún grunninn með því að fylgjast með hjá færum hundasnyrti og einnig fékk hún að æfa sig undir handleiðslu hans. Í framhaldi kom svo Internetið að góðum notum:

„Ég skráði mig í hundasnyrtikennslu á netinu og þar var hægt að fylgjast með tegundaklippingum og þess háttar. Þegar ég opnaði stofuna mína var ég ekki búin að æfa mig mikið sjálf svo fyrstu mánuðina var ég aðallega bara að æfa mig og var svo heppin að fá nokkuð marga hunda til mín af öllum stærðum og gerðum. En draumurinn er að fara erlendis og læra meira.“

Það getur verið mikil umbreyting á hundum við snyrtingu.

 

Hvernig hafa vestfirskir hundeigendur tekið þjónustunni?

„Lygilega vel, vægast sagt. Í mörgum tilfellum vill fólk bara prófa, en langflestir koma aftur. Svo eru margir smáhundar sem þurfa reglulega klippingu. Hundum hefur fjölgað alveg rosalega á Vestfjörðum og ég fæ hunda í snyrtingu frá öllum þorpunum hér í kring.“ Svarar Helena, sem vart hefur tíma til að líta upp úr feldunum þessa dagana þar sem nú er einn annamesti tími ársins, en vinsælt er að koma með hunda fyrir páska og jól og einnig eru svokallaðir niðurrakstrar vinsælir fyrir sumarið.

En hvernig taka hundarnir sjálfir þessu?

„Hundar eru auðvitað mismunandi karakterar, bara eins og fólk. Þegar hundar koma í fyrsta sinn eru þeir eðlilega hræddir og stressaðir, og þá sérstaklega við iðnaðarblásarann, en ég legg mig alla fram við að hafa snyrtinguna sem bærilegasta ef þeir eru mikið hræddir. Oftar en ekki gengur þetta bara mjög vel og langflestir hundarnir venjast mjög fljótt. Ég leyfi hundinum alltaf að skoða sig um, kynnast mér aðeins og sýni honum tækin og tólin sem ég nota á hann og þá gengur þetta yfirleitt mjög vel. Það þarf líka að öðlast þjálfun og æfingu í að geta róað hunda niður og þá sérstaklega stóra og sterka hunda og að vera ekki hrædd við að verða bitin. En hundar skynja okkur mannfólkið svo vel og sérstaklega þegar við erum stressuð, hrædd eða óörugg. En það eru nokkrir kúnnar hjá mér sem koma hoppandi glaðir inn á stofu, hoppa sjálfir upp í baðið og njóta þess að fá blástur og það gleður mig ekkert meira en að snyrta svoleiðis hunda.“

Helena segir að á Hundabaðstofunni séu lagðar áherslur á mannúðlegar snyrtiaðferðir fyrir alla hunda í rólegu umhverfi svo þeim megi líða sem best á meðan snyrtingu stendur og notast hún við hágæða hreinsivörur sem hentar hverri feldtegund fyrir sig svo ekki eru óþægindi af völdum efnanna sem notuð eru. Hundarnir eru skildir eftir hjá Helenu og sóttir að snyrtingu lokinni stroknir og fínir. Það sem meira er að nánast án undantekninga koma hundarnir alsælir úr snyrtingunni, líkt og þeir séu fullkomlega meðvitaðir um hversu fínir þeir eru.

Skínandi hreinir og fínir hundar fara heim að nýju eftir heimsókn á Hundabaðstofuna.

 

Kúnnahópur Hundabaðstofunnar hefur farið jafnt og þétt vaxandi frá því er Helena byrjaði að taka á móti hundum fyrir ríflega tveimur árum og segist hún afar þakklát og ánægð með þá þróun. Til að næla í tíma í yfirhalningu er hægt að panta í gegnum fésbókarsíðu Hundabaðstofunnar, sem og í síma 895-2625, einnig má fá hjá henni Brit care og Brit premium hágæðafóður fyrir bæði hunda og ketti.

annska@bb.is

Styttist í frumsýningu

Það stytt­ist í frum­sýn­ingu kvik­mynd­ar­inn­ar Ég man þig sem byggð er á skáld­sögu Yrsu Sig­urðardótt­ur, en bók­in naut gríðarlegra vin­sælda og seld­ist í tæp­um 30.000 ein­tök­um. Sag­an seg­ir frá ungu pari sem er að gera upp hús á Hesteyri þegar dul­ar­full­ir hlut­ir fara að ger­ast. Á Ísaf­irði dregst hins veg­ar nýi geðlækn­ir­inn í bæn­um inn í rann­sókn á sjálfs­vígi konu sem virðist hafa verið heltek­in af syni hans. Glæ­ný stikla úr mynd­inni hef­ur nú verið sett á netið og segja má að hún lofi mik­illi spennu.

https://www.youtube.com/watch?v=C3K7B_ASJzk

Nýjustu fréttir