Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 2222

Knattspyrnupiltar til Finnlands

Fjórði flokkur Vestra í knattspyrnu

Í sumar stefna tuttugu piltar úr fjórða flokki Vestra til Finnlands til að taka þátt í Helsinki Cup knattspyrnumóti. Til að fjármagna ferðina söfnuðu þeir áheitum fyrir fólboltamaraþon sem fór svo fram frá kl. 21:00 á föstudaginn var til klukkan 9:00 á laugardagsmorgni. Piltarnir eru sjálfsagt mörgum þekktir því þeir gengu nánast í hvert einasta fyrirtæki og hús á Ísafirði og Bolungarvík að safna áheitum og voru þeir afar sáttir við árangurinn.

Strákarnir óskuðu eftir því við bb.is að kærum þökkum fyrir stuðninginn væri komið til skila og gjörist það hér með.

 

bryndis@bb.is

Móttaka veikra og slasaðra á HVEST utan dagvinnu

Hörður Högnason

Tvær fréttir hafa birst í BB af móttöku veikra/slasaðra einstaklinga sem leita beint til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) á Ísafirði utan dagvinnutíma. Þar er því lýst, hvernig viðkomandi skjólstæðingar HVEST og fylgdarmenn þeirra upplifa svörun og afgreiðslu starfsmanna legudeildar HVEST, starfsmanna „1700“ og neyðarvarða „112“ á erindum þeirra. Tilefni fréttanna er að vekja athygli á meintri slæmri, eða rangri móttöku, að mati viðmælenda blaðamanns. Það þykir okkur á HVEST mjög leitt og biðjumst velvirðingar á þeirri upplifun. Skýringa HVEST var því miður ekki leitað í fréttunum.

Almenningur er vanur skjótri og góðri þjónustu hjá starfsmönnum HVEST, bæði á heilsugæslunni og á sjúkrahúsinu og hefur biðtími á henni verið lítill, ef nokkur, um áratuga skeið. Því bregður fólki við þegar það upplifir annað, eða að breytingar verða á því hvert skal leita eftir læknishjálpinni. Vill HVEST gera hér grein fyrir þessum breytingum, ef það mætti útskýra betur hvernig standa skal að því að fá læknishjálp á HVEST á Ísafirði utan dagvinnutíma.

Starfsemin á HVEST utan dagvinnu

Á virkum dögum kl. 16 og til kl. 8 næsta morgun lokar skiptiborðið, heilsugæslustöðin, slysastofan og flestar aðrar sjúkratengdar deildir sjúkrahússins á Ísafirði, nema legudeildin, sem er alltaf opin. Þannig er það líka allan sólarhringinn um helgar og á helgidögum. Á kvöldvöktum á legudeildinni eru 3 starfsmenn, stundum 2 og af þeim ansi oft aðeins 1 hjúkrunarfræðingur. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Mönnunin miðast við meðalálag við umönnun sjúklinga á 15 rúma deild. Ef fleiri eru inniliggjandi, eða ef erfið veikindi hrjá sjúklingana, er álagið meira og erfiðara að fara af deildinni, eða annast símsvörun.

Eftir að starfsemi öldrunardeildar hætti, hefur legudeildin, sem annast alla bráðveika inniliggjandi sjúklinga, ekki möguleika á að leita þangað eftir hjálparhönd utan dagvinnutíma, þegar síminn eða sjónvarpsdyrasíminn biður um aðstoð hjúkrunarfræðings. Það kallar á breytt vinnubrögð, þó neyðarhjálp hafi auðvitað alltaf forgang.

Læknir er á bakvakt heima hjá sér og hann annast móttöku á HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu. Ef brýn þörf er á, biður hann legudeildina um aðstoð, eða kallar út hjúkrunarfræðinga og/eða lækna á bakvakt.

Vaktlæknir og beint samband

Til að ná eyrum bakvaktarlæknisins utan dagvinnu gat almenningur til skamms tíma hringt beint í hann um kvöld, nætur og helgar, eða hringt í 450 4500, sem starfsmenn legudeildar svara utan dagvinnu og beðið þau um að bjarga sér um hvaðeina sem á bjátaði. Ansi oft var um að ræða erindi, sem áttu heima á dagvinnutíma og jafnvel hjá öðru starfsfólki, eða deildum. Átti þetta einnig við um beinar komur á HVEST í þann margumrædda sjónvarpsdyrasíma. Tilkoma símanr. 1700 var þess vegna mikilvæg aðstoð fyrir  vansvefta bakvaktarlækni og starfsmenn legudeildarinnar og fríaði þá frá stöðugum símhringingum um hin ýmsu málefni.

Hvernig orðar maður hlutina?

Þegar hringt er eftir hjálp, þá skiptir miklu máli hvernig viðkomandi lýsir þörf sinni fyrir aðstoð. Dæmi: Er um að ræða einstakling, sem er kannski með lungnabólgu og þarf að hitta lækni, eða fannst hann meðvitundarlaus úti á götu, en hefur nú rankað við sér og bankar uppá? Þetta gæti þess vegna verið sama manneskjan, allt eftir orðavali viðmælandans. Ef sá fyrrnefndi hringdi í dyrasímann, 450 4500 eða 112, yrði honum bent á að hringja í 1700.   Hinn síðarnefndi fengi bráðaaðstoð og hjúkrunarfræðingurinn af legudeildinni væri líklega nærri dottin í stiganum í flýtinum við að hjálpa honum.

1700 eða 112

Af framansögðu er ljóst, að sá sem þarf að ná sambandi við HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu, þarf fyrst að tala við 1700, eða 112.

Einstaklingar utan úr bæ hringja í 1700, ef um er að ræða tilfallandi veikindi og slys sem þarfnast ekki sjúkrabíls (t.d. flensa, hausverkur síðan í gær, kviðverkir, tognaður ökkli, spurning um handleggsbrot, eða skurður á fingri). Hjúkrunarfræðingur svarar og metur þörfina fyrir aðstoð. Ef hjálpin getur ekki beðið dagvinnutíma, er viðkomandi gefið beint samband við síma læknisins. Læknirinn og sjúklingurinn mæla sér svo mót á slysastofu, heilsugæslustöð, eða leysa málið á annan hátt.

Ef um er að ræða alvarlegri slys og veikindi með áverkum og einkennum sem gætu þarfnast bráðahjálpar og sjúkrabíls (t.d. meðvitundarminnkun, öndunarerfiðleikar, krampar, slæmur brjóstverkur, hjartastopp, fótbrot, liðhlaup o.s.frv.) er hringt í 112. Þeir leiðbeina, kalla á sjúkrabílinn, ef með þarf og senda vaktlækninum og legudeildinni SMS um málið. Læknirinn ákveður strax, hvort hann mætir beint á staðinn, eða tekur á móti viðkomandi á spítalanum. Hjúkrunarfræðingurinn gerir þær ráðstafanir sem þarf, eftir alvarleika málsins.

Ef einhver bið er eftir sambandi við 1700 á mesta álagstíma og viðkomandi telur sig ekki geta beðið, þá er líklega um neyð að ræða og rétt að hringja í 112. Ef óvissa er um, hvort hringja skuli í 1700 eða 112, þá er betra að hringja í 112 fyrst. Þeir meta stöðuna og beina manni á 1700, ef svo ber undir.

„Æ, ég fer bara beint uppá spítala!“

Ef viðkomandi sneiðir framhjá 1700 og 112 og mætir beint að dyrasímanum á HVEST, þá bendir hjúkrunarfræðingurinn á legudeildinni honum á 1700, ef hann metur erindið þannig, en hringir strax á vaktlækninn, ef um bráðatilvik er að ræða. Í báðum tilfellum á hann að opna fyrir viðkomandi og vísa á sæti við afgreiðsluna, eða á biðstofu slysadeildar.

Komist hjúkrunarfræðingurinn frá deildinni, gætir hann að viðkomandi sjálfur, ef þess er þörf. Ef um alvarlegt bráðatilfelli er að ræða fer hann undantekningarlaust strax til viðkomandi, fer með hann á slysastofu, gerir viðeigandi ráðstafanir og bíður komu vaktlæknisins, eða kallar út hjúkrunarfræðing á bakvakt skurð- og slysadeildar til að leysa sig af.

Aldrei er hægt að komast hjá því að meiningarmunur um alvarleika geti orðið á milli heilbrigðisstarfsmanns og þess, sem þarfnast aðstoðar. Þar takast á faglegt mat, upplifun sjúklings á meini sínu og hvernig hann orðar ástand sitt. Mjög gott er samt að fá ábendingar frá viðskiptavinum HVEST um það sem betur má fara og er fólk hvatt til þess að láta í sér heyra og fá skýringar beint frá okkur. Blaðafrétt segir alltof oft bara aðra hlið sögunnar.

Hörður Högnason

framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVEST

 

Tvískinnungur að ala geldlax í Noregi en frjóan lax hér

Sjókvíar í Tálknafirði.

Það lýsir tvískinnungi hjá stærsta eiganda Arctic Sea Farm að stunda grænt laxeldi með geldfiski í Noregi á sama tíma og Arctic Sea Farm ætlar í stórfellt sjókvíaeldi á frjóum laxi af norskum uppruna. Þetta segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Sambandið sendi frá sér fréttatilkynningu í vikunni þar sem bent er á að Norway Royal Salmon, sem á 50% í Arctic Sea Farm, ráði yfir 10 svokölluðum grænum eldisleyfum í Noregi. Þar ætlar fyrirtækið að ala þrílitna ófrjóan lax. „Þeir ætla að nota geldstofna þar og því ætti mönnum ekki að vera neitt að vanbúnaði að nota þá hér líka,“ segir Jón Helgi. Í fréttatilkynningunni er fullyrt að skilyrði fyrir grænum leyfum í Noregi séu að í þeim sé eingöngu alinn geldlax og þegar Jóni Helga er bent á að það sé ekki alls kostar rétt, segir hann að kannski hafi verið tekið full sterkt til orða. „Aðalatriðið og það sem við erum að benda á er að fyrirtækið er í eldi á geldum fiski í Noregi en á Íslandi á að ala frjóan fisk, þrátt fyrir að hættan fyrir villtan fisk eigi að vera öllum augljós.“

Í fréttatilkynningu er minnst á erlend eignarhald Arctic Sea Farm, en auk Norway Royal Salmon er fyrirtækið í 47,5% eigu fyrirtækis sem er skráð á Kýpur. Jón Helgi segir mikilvægt að menn velti þessu vandlega fyrir sér og beri saman við hömlur á eignarhaldi í sjávarútvegi. „Í sjókvíaeldi er verið að nýta sjávarauðlindina og með leyfunum er verið að útdeila ákveðnum gæðum – gæðum sem eru metin á stórfé erlendis – og því þykir okkur sérstakt að það séu hömlur á erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi en ekki í sjókvíaeldinu.“

Aðspurður um erlent eignarhald laxveiðiáa og hvað sambandinu þykir um það segir Jón Helgi að almennt séu menn ekki hrifnir af söfnun á veiðiréttindum. „En það hefur ekki verið mikið um um þetta og ekki hægt að tala um þetta sem vandamál.“

smari@bb.is

Nýr spennir eykur afhendingaröryggi

Landsnet hefur tekið í notkun nýjan spenni í tengivirkinu í Mjólká sem eykur bæði flutningsgetu og afhendingaröryggi. Nils Gústavsson framkvæmdastjóri framkvæmda– og rekstrarsviðs Landsnets segir það ánægjulegt að hafa lokið þessum áfanga í styrkingu flutningskerfisins á Vestfjörðum. Margir komu að framkvæmdinni en verkefni eins og þetta er flókið í framkvæmd þar sem um er að ræða breytingar á tengivirki sem er í fullum rekstri.

„Í tengivirkinu okkar í Mjólká var fyrir 132/66 kV spennir sem var orðinn takmarkandi fyrir flutning raforku til Vestfjarða. Til að bregðast við því var settur annar spennir af sömu stærð inn í virkið sem gerir það að verkum að flutningsgetan eykst til muna sem og rekstraröryggið á svæðinu.“ segir Nils.

Undirbúningur fyrir verkið hófst haustið 2015 og spennirinn var spennusettur í lok desember og tekinn  í rekstur þann 26.janúar 2017.

smari@bb.is

Þorgerður flytur skrifstofuna vestur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun flytja skrifstofu sína tímabundið vestur á Ísafjörð dagana 13. 14. og 15. febrúar næstkomandi. Með ráðherranum í för verður meðal annars ráðuneytisstjóri og aðstoðarmaður ráðherra.

Tilgangurinn með flutningunum er að heimsækja fyrirtæki og stofnanir og styrkja tengsl ráðuneytisins við sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að skrifstofan flytji tímabundið út á land þrisvar til fjórum sinnum á ári.

Ráðherrann verður með viðtalstíma á Ísafirði milli kl. 08:30 og 12:00 þriðjudaginn 14. febrúar í fundarsal Háskólaseturs Vestfjarða.

Óskir um viðtöl skulu berast á netfangið gudny.steina.petursdottir@anr.is

smari@bb.is

Vextir áfram 5 prósent

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5%. Í tilkynningu Peningastefnunefndar segir að áætlað sé að hagvöxtur hafi verið 6% í fyrra. Það er heilu prósentustigi meiri vöxtur en spáð var í nóvemberhefti Peningamála, sem skýrist einkum af meiri fjárfestingu atvinnuveganna og þjónustuútflutningi á fyrstu níu mánuðum ársins. Spáð er að hagvöxtur verði áfram ör, 5,3%  í ár og á bilinu 2,5 -3% á næstu tveimur árum. Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar segir: Störfum fjölgar hratt, atvinnuleysi er komið niður fyrir 3% og atvinnuþátttaka orðin meiri en hún var mest á þenslutímanum fyrir fjármálakreppuna. Þrátt fyrir að innflutningur erlends vinnuafls vegi á móti fer spenna í þjóðarbúinu vaxandi og verður meiri en áður var áætlað.

smari@bb.is

Fyrirliðatreyjan fór á 1,2 milljónir

Andvirði treyjunnar var afhent í vikunni.

Á Kútmagakvöldi Lionsklúbbs Patreksfjarðar 15. október 2016 gerðist það að boðin var upp treyja Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Leitað hafði verið til Arons að fá treyjuna í þeim tilgangi og varð hann góðfúslega við því en vísaði málinu til starfsfólks KSÍ til úrlausnar. Þau skilaboð bárust að treyjan yrði send vestur með mikilli gleði og árituð af leikmönnum landsliðsins. Það skilyrði fylgdi afhendingunni að andvirði treyjunnar skyldi renna til uppbyggingar á knattspyrnustarfi á sunnanverðum Vestfjörðum. „Það er skemmst frá að segja að treyjan var boðin upp á hátíðinni með tilgreindum skilmálum. Hátíðargestir allt karlar sýndu uppboðinu mikinn áhuga og mikil stemming myndaðist. Skjöldur Pálmason forstjóri Odda á Patreksfirði stóð fyrir uppboðinu af alkunnri röggsemi. Fljótlega hlupu boðin á hundruðum þúsundum og tilboðsgjafarnir hvattir ákaflega. Öflugir aðilar tókust á um treyjuna og hver um sig ætlaði sér hana,“ segir Úlfar B Thoroddsen, ritari Lionsklúbbs Patrekfjarðar. Svo fór að treyjan var slegin hæstbjóðanda á kr. 1.200.000 við mikil fagnaðarlæti.

Þann 7. febrúar  fóru  Eiður B Thoroddsen formaður Lionsklúbbs Patreksfjarðar, Úlfar B Thoroddsen ritari og Gunnar Sean Eggertsson gjaldkeri í íþróttahúsið á Patreksfirði á fund Páls Vilhjálmssonar íþróttafulltrúa á sunnanverðum Vestfjörðum og færðu honum  andvirði treyjunnar dýru eða kr. 1.200.000 til eflingar knattspyrnustarfs á svæðinu. Tók Páll við gjöfinni umkringdur ungum knattspyrnuiðkendum. Páll er jafnframt framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafnaflóka og skólastjóri íþróttaskóla sambandsins sem starfræktur er í öllum þéttbýlum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Kútmagakvöld hafa verið haldin hvert ár á vegum Lionsklúbbs Patreksfjarðar frá 17. mars 1979 fram til þessa.

smari@bb.is

Mögulega fjörulalli

Cristian Gallo starfsmaður Nave skoðar beinagrindina með hinum áhugasömu rannsóknarmönnum. Mynd af Fésbókarsíðu NAVE

Vinsælt getur verið hjá þeim sem sækja Vestfirði heim að kíkja í heimsókn á Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík og ekki hefur síður heimafólk gaman af heimsókn þangað, þá sér í lagi yngri kynslóðin. Í gær kom þangað í áhugasamur hópur úr Grunnskólanum í Bolungarvík og komu krakkarnir með tvær beinagrindur sem þeir höfðu fundið í fjöruferð við Bug og vildu fá greiningu á. Beinagrindurnar sem þau fundu voru annarsvegar af tjaldi og svo var þar stærri, heilleg beinagrind sem ungu rannsóknarmennirnir töldu nokkuð víst að væri af hinum sjaldséða fjörulalla, en einnig kom til greina að þar væri um að ræða kind.

Á vefsíðu tileinkaðri íslenskum kynjaskepnum sem nemendur í Laugarlækjarskóla unnu, segir að fjörulalla sé að finna víða með fram ströndum landsins, þó ekki hafi hans verið vart alls staðar og algengastur sé hann við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Fjörulalla er ekki að mörgu getið í fornum ritum en kemur fyrst fram á 19.öld. Þá var það 13 ára strákur sem sá hann þegar hann fór út í sker á Breiðafirði. Lýsing hans á Fjörulalla hljóðar svo: „Það var á stærð líkt og meðalstór hundur en þó öllu digurra, lágfætt og lubbalegt með rófu líkt og kind. Ekki kvaðst hann hafa getað greint hvort út úr haus þess stóðu eyru eða lítil horn og eigi gat hann heldur greint lögun á skoltum þess því alltaf sneri það afturhlutanum að honum. Þess var getið til að þarna hefði verið fjörulalli.“

Ekki eru allir allir sannfærðir um tilvist fjörulalla fremur en annarra furðuskepna, en stundum er ágætt að hafa það sem ævintýralegra reynist.

Cristian Gallo starfsmaður Nave skoðar beinagrindina með hinum áhugasömu rannsóknarmönnum. Mynd af Fésbókarsíðu NAVE

annska@bb.is

MÍ úr leik

Á síðasta ári komst lið MÍ í sjónvarpshluta Gettu betur í fyrsta sinn, ekki gekk það þetta árið þrátt fyrir góða baráttu

Keppnislið Menntaskólans á Ísafirði mætti liði Fjölbrautarskólans í Garðabæ í annarri umferð spurningakeppninnar Gettu betur í gærkvöldi. Lið MÍ háði þar drengilega baráttu en leit að lokum í minni pokann fyrir sterku liði FG sem sigraði með 35 stigum gegn 21 stigi MÍ. Það er því ljóst að MÍ birtist ekki á skjánum þetta árið en næstu stig keppninnar undanúrslit og úrslit fara fram í Sjónvarpinu og hefst keppnin þar föstudaginn 24.febrúar. Undanúrslit fara fram 23. og 25.mars og úrslitakeppnin verður í Háskólabíó föstudaginn 31.mars.

annska@bb.is

Vinnsla fallið niður í átta daga frá áramótum

Smábátasjómenn á sunnanverðum Vestfjörðum hafa sótt sjóinn af hörku í sjómannaverkfallinu, en þeir eru ekki í verkfalli eins og kunnugt er. Oddi hf. hefur keypt hráefni af þeim bátum sem eru að róa frá Tálknafirði og Patreksfirði. Fiskeríið hefur verið með allra besta móti og það, auk harðrar sjósóknar, hefur gert að verkum að allt fiskvinnslufólk Odda hefur haft vinnu í 19 daga af 27 mögulegum vinnudögum frá áramótum. Er það annar veruleiki en flestar fiskvinnslur á landinu búa við í verkfallinu.

Sjómannaverkfallið veldur verulegu raski í byggðalögum allt landið um kring með tekjutapi sjómanna, verkafólks, útgerða og fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn og samfélagslegt tjón verður seint metið til fullnustu. Með sjósókn smábáta á sunnanverðum Vestfjörðum hefur í það minnsta verið hægt að lágmarka það tjón sem landverkafólk verður fyrir.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir