Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2222

Opnað á ný fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða hefur nú opnað fyrir umsóknir vegna aukaúthlutunar sjóðsins árið 2017. Í sjóðinn er að þessu sinni hægt að sækja um verkefnastyrki til menningarmála og styrki til atvinnu- og nýsköpunarverkefna hér. Umsóknarfrestur er til miðnættis 7. maí 2017

Sérstaklega verður litið til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða: Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu, verkefni sem stuðla að vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum, verkefni sem mynda atvinnutækifæri og auka fagmennsku á sviði lista og menningar, verkefni sem efla samstarf, ýmist á milli svæða, listgreina, fyrirtækja eða rannsóknaraðila, verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu, verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur og ungt fólk á svæðinu, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem eru gjaldeyrisskapandi og atvinnuþróunarverkefni á sviði líftækni.

Uppbyggingarsjóður er hluti af Sóknaráætlunar Vestfjarða og í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann veitir styrki til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015. Sérstök níu manna úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs sér um að fara yfir umsóknir og úthluta styrkjum, á grundvelli Sóknaráætlunar Vestfjarða, áherslna og úthlutunarreglna, auk gæða umsókna og verkefna. Í aukaúthlutun vorið 2017 verður væntanlega úthlutað allt að 13 milljónum króna úr sjóðnum. Hægt er að sækja um styrki til allt að þriggja ára.

Umsóknareyðublöð og frekari upplýsingar um gerð umsókna er að finna á vef Fjórðungssambands Vestfjarða.

annska@bb.is

Knattspyrnudeild Vestra semur við sjö leikmenn

Páskadagurinn var vel nýttur hjá ísfirskum knattspyrnumönnum og var penninn á lofti í Vestrahúsinu er sjö leikmenn knattspyrnudeildar Vestra skrifuðu undir samninga við félagið. Leikmennirnir sem hafa allir leikið með félaginu eru þeir: Matthías Króksnes Jóhannsson, Nikulás Jónsson, Elmar Atli Garðarsson, Hafþór Atli Agnarsson, Viktor Júlíusson, Hjalti Hermann Gíslason og Friðrik Þórir Hjaltason. Stjórn Vestra lýsir yfir mikilli ánægju að sjö heimamenn framlengi samninga sína og verði því allir áfram hjá félaginu næstu 2-3 árin.

annska@bb.is

Fræðafélag á Ströndum

Stofnfundur fræðafélags á Ströndum verður haldinn sumardaginn fyrsta kl. 20:00 í Sævangi á Ströndum. Félagið verður þverfaglegt og opið bæði háskólamenntuðu fólki og áhugamönnum um margvísleg fræði, vísindi, menningu og listir. Allir eru þannig velkomnir í félagið.

Á Ströndum er grundvöllur fyrir dálítið rannsóknasamfélag, en þar eru meðal annars búsettir einstaklingar með menntun í þjóðfræði, sagnfræði, safnafræði, mannfræði og náttúruvísindum. Eins eru rekin þar söfn, sýningar og fræðasetur.

Markmið félagsins verður að auka samvinnu og efla tengslanet fræði- og vísindamanna á Ströndum, auk þess að vinna að kynningu þeirra rannsóknarverkefni sem unnin eru í héraðinu fyrir íbúum og umheiminum öllum.

Stofnfundurinn verður haldinn á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl, kl. 20:00 í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Allir eru velkomnir.

Það er Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem stendur fyrir verkefninu en rannsóknarsetrið var sett á stofn 1. September í fyrra og tilgangur þess er að sinna rannsóknum og miðlun á þjóðfræði.

bryndis@bb.is

Börn og bækur í Edinborg

Börn og bækur er árleg bókmenntadagskrá sem haldin hefur verið á sumardaginn fyrsta í menningarmiðstöðinni Edinborg um alllangt skeið. Dagskráin sem helguð er barnabókum er fyrir alla fjölskylduna og það er enginn aðgangseyrir. Dagskráin að þessu sinni samanstendur af erindum frá sér Fjölni Ásbjörnssyni og Þuríði Kristínu Þorsteinsdóttur grunnskólanema, þá verður boðið upp á tónlistar- og dansatriði frá Listaskóla Rögnvaldar og einnig munu nemendur úr Grunnskólanum á Ísafirði lesa upp úr bókum.

Börn og bækur fer fram í Edinborgarsal fimmtudaginn 20. apríl milli kl 14 og 16.

annska@bb.is

Bónorð á Pallaballi

Axel Ingi Árnason og Jóhann Frímann Rúnarsson á góðum degi

Það er alltaf eitthvað skemmtilegt sem gerist fyrir Vestan um páskana og gildir þá einu hvort það sé lítið eða stórt, enda það oftar en ekki bundið við þá sem í hlut eiga eða þá sem vega það og meta. Þó er eitt víst að blessað lífið sem er stöðugum breytingum háð getur tekið nýja stefnu að afloknum páskum á Ísafirði. Nýliðin dymbilvika mun sennilega seint líða Bolvíkingnum Jóhanni Frímanni Rúnarssyni úr minni, en ástmaður hans Axel Ingi Árnason gerði sér lítið fyrir og bað hans í Edinborgarhúsinu fyrir fullum sal af fólki á Palla-balli að kvöldi föstudagsins langa. Jói og Axel hafa verið saman í rúmt ár og fékk Axel poppprinsinn Pál Óskar til liðs við sig sem kallaði grunlausan Jóa upp á svið þar sem Axel skellti sér á skeljarnar og bar fram bónorðið.

Jói segir í samtali við Bæjarins besta að hann hafi á föstudag grunað að eitthvað óvænt væri í uppsiglingu af hálfu Axels en að hann ætti þetta í vændum hvarflaði ekki að honum. Hann segir að þeir hafi rætt giftingu nánast allar götur frá því er þeir byrjuðu að vera saman, en höfðu þó ekki gert neitt í málunum – fyrr en nú.

Eins og gefur að skilja var þetta mikil gleðistund í lífi kærastaparsins og segir Jói geðshræringuna líka hafa verið mikla og frábært að vera umkringdur vinum sínum á þessu stóra augnabliki í lífinu. Restin af páskafríinu var svo meðal annars nýtt í að leggja drög að komandi brúðkaupi.

Hér má sjá myndband af bónorðinu. Í geðshræringunni kallaði Axel reyndar Jóa ekki alveg réttu nafni, en það kom ekki að sök, þar sem hann játaðist manni sínum glaður.

annska@bb.is

 

Lóan tímanlega fyrir Aldrei

Hilmar Pálsson náði þessum fínu myndum af vorboðanum ljúfa í Dýrafirði á Skírdag, 13. apríl en svo skemmtilega vill til að það var hinn sami Hilmar Pálsson sem sendi bb.is mynd af lóunni í Dýrafirði, þann 13. apríl 2004

Og í tilefni þessa hressilega páskalokahrets er rétt að fara í huganum yfir ljóðið hans Páls

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.

Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vaka og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót.

bryndis@bb.is

Skúrir eða slydduél í dag og á morgun

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir suðvestan 5-10 m/s með skúrum eða slydduéljum. Snýst í sunnan 8-13 m/s í nótt með rigningu en vaxandi suðvestanátt í fyrramálið og verða 10-18 m/s annað kvöld, hvassast við ströndina með áframhaldandi skúrum eða éljagangi. Hiti verður 1 til 6 stig að deginum og fer kólnandi.

Snjóþekja og hálka er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum en víðast greiðfært á láglendi, þó sumstaðar hálkublettir. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

annska@bb.is

Er fréttin fölsk

Talsverðar umræður hafa átt sér stað um svokallaðar falsfréttir og vegna þeirra tóku margir fjölmiðlar ákvörðun um að taka ekki þátt í 1. apríl gabbfréttaskrifum. Fjölmargar síður hafa það eina markmið að framleiða bullfréttir sem síðan komast á flug þegar þeim er deilt eða aðrir fjölmiðlar bíta á agnið. Stundum er um að ræða græskulaust gaman og spaug en oft er uppspuninn í áróðursskyni. Þegar kynda þarf undir fordóma eða breyta almenningsáliti er röngum fréttum purkunarlaust dælt út.

Umfram allt þarf að vera gagnrýnin og taka ekki þátt leiknum með því að deila bullinu.

Það er International Federation of Library Associations and Institutions sem setti niður eftirfarandi atriði sem gott er að hafa í huga:

  • Skoðaðu upprunann.
  • Lestu meira.
  • Athugaðu höfundinn.
  • Heimildir.
  • Er dagsetning?
  • Er þetta grín?
  • Ertu hlutdræg(ur)?
  • Spyrðu sérfræðing.

bryndis@bb.is

Guðmundur með besta botninn

Elías Jónatansson orkubússstjóri afhendir sigurvegarinum vinninginn.

Orkubú Vestfjarða efndi á dögunum til ferskeytluleiks og í boði fyrir sigurvegarann voru vegleg verðlaun, út að borða á Hótel Ísafirði, miðar á bítlatónleika, geisladisk frá Mugison og AFÉS húfur og boli.

Fyrriparturinn hljóðaði svo:

Tónar, afl og taumlaus gleði,

toppar þetta frekar fátt.

Verðlaunabotninn sem Guðmundur Hrafnsson galdraði fram var á þessa leið?

Í „faðmi fjalla blárra réði“

fjör og gleði, allt í sátt.

bryndis@bb.is

Geðfræðsla vegna ungs fólks

Geðhjálp, Hjálparsími Rauða krossins og geðræktarfélagið Hugrún bjóða kennurum (unglingadeilda grunnskóla og framhaldsskóla), starfsmönnum í velferðarþjónustu og öðrum sem vinna með ungu fólki upp á forvarnarfræðslu miðaða að ungu fólki í framhaldsskólanum á Ísafirði miðvikudaginn 19. apríl  milli kl. 13 og 15.  Fyrri hluti kynningarinnar felst í almennri fræðslu á vegum Hugrúnar, félags lækna-, hjúkrunar- og sáfræðinema við HÍ, um andlega heilsu og helstu geðraskanir. Seinni hlutinn felst í kynningu á vegum Geðhjálpar og Hjálparsímans um forvarnarverkefnið Útmeð‘a.

Útmeð‘a er sprottið uppúr grasrót félagasamtakanna tveggja og miðar að því að bæta geðheilsu ungs fólks með sérstakri áherslu á forvarnir í tengslum við sjálfsskaða og sjálfvíg. Yfirskriftin Útmeð‘a felur í sér ákall til þessa hóps um að birgja ekki inni flókin vandamál og tilfinningar heldur koma þeim í orð við sína nánustu og/eða leita sér viðeigandi aðstoðar.

Útmeð‘a hefur í grófum dráttum skipst í þrjá áfanga árin 2015, 2016 og 2017. Fyrsti áfanginn fólst í vitundarvakningu og fræðsluátaki til að fækka sjálfsvígum karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára á Íslandi. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Alls falla á bilinu 7-9 ungir karlmenn fyrir eigin hendi á Íslandi hverju ári samkvæmt opinberum tölum og er talið að fjöldinn sé jafnvel enn meiri í raun.

Annar áfangi Útmeð‘a fól í sér áherslu á forvarnir í tengslum við sjálfskaða meðal ungra kvenna. Alls leita á bilinu 500 til 600 manns til heilsugæslu og sjúkrahúsa vegna sjálfsskaða á hverju ári. Af þeim leggjast um 120 inn á sjúkrahús og er meirihluti þeirra ungar konur. Rétt er að taka fram að sjálfsskaði er í fæstum tilvikum sjálfsvígstilraun heldur tjáning á óleystu vandamáli og/eða erfiðum tilfinningu.

Forvarnarmyndbönd um sjálfsvíg ungra karla og sjálfsskaða með áherslu á ungar konur voru frumsýnd af Útmeð‘a á Alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna árin 2015 og 2016. Samhliða var opnuð heimasíða undir merkjum Útmeða www.utmeda.is fyrir fólk í geðrænum vanda, aðstandendur og fræðimenn.  Þar er hægt að nálgast upplýsingar um vandann, ráð og úrræði.

Þriðji áfangi Útmeð‘a hefur falist í því að bjóða framhaldsskólakennurum, starfsmönnum í velferðarþjónustu og öðrum sem vinna með ungu fólki úti á landsbyggðinni upp á forvarnarfræðslu um sjálfsskaða og sjálfsvíg. Útmeð‘a hefur haldið kynningarnar í samstarfi við Hugrúnu, geðræktarfélag nema í læknisfræði, hjúkrunarfræði og sálfræði við HÍ. Stefnt er að því að bjóða upp á samsvarandi kynningar á höfuðborgarsvæðinu næsta haust.

Óhætt er að sega að Útmeð‘a hafi hlotið góðan hljómgrunn meðal almennings. Íþróttafólk, saumaklúbbar, fegurðardrottningar, nemar frá unglingadeildum upp í háskóla, stofnanir og einkafyrirtæki hafa lagt átakinu lið svo dæmi séu nefnd. Verkefnið hefur hlotið tilnefningar til verðlauna á borð við vefverðlauna og Íslensku auglýsingaverðlaunanna ásamt því að hafa vakið athygli fjölmiðla hér á landi og í nágrannalöndunum.

Erfitt er að meta árangurinn en forsvarsmenn verkefnisins líta svo á að þó að aðeins einu lífi hafi verið bjargað hafi öll vinnan verið þess virði enda sé hvert mannslíf óendanlega mikils virði.

Nýjustu fréttir