Í aðsendri grein sem nú má lesa á vef Bæjarins besta fjallar Hörður Högnason framkvæmdastjóri hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða ítarlega um fyrirkomulag sem einstaklingum ber að nýta þurfi þeir að nýta þjónustu stofnunarinnar utan dagvinnutíma. Vísar hann í greininni til tveggja frétta sem birst hafa á BB um sjúklinga sem gert var að hringja í 1700 er þeir komu á staðinn til að leita læknishjálpar utan þess tíma. Viðbrögð við fréttunum sýndu að íbúum á svæðinu var almennt brugðið við þá breytingu sem orðið hefur á þjónustu stofnunarinnar og nokkuð ljóst er að flækst hefur fyrir fólki hvernig bera skal sig að eftir að hið nýja kerfi, það er að þurfa að hringja í vaktnúmerið 1700 eða í 112 áður en það getur fengið þjónustu á staðnum. Þá segir Hörður að ekki hafi verið leitað til HVEST eftir skýringum í þeim tilfellum sem sjúklingum var bent á vaktsímann, en í báðum tilfellum ræddi blaðamaður við framkvæmdastjóra lækninga við stofnunina.
Hörður bendir á í greininni að starfsmenn stofnunarinnar sem sinna sjúklingum þar utan almenns opnunartíma eigi ekki hægt um vik með að bregðast við ef sjúklingar koma beint á staðinn án þess að hafa gert boð á undan sér: Á kvöldvöktum á legudeildinni eru 3 starfsmenn, stundum 2 og af þeim ansi oft aðeins 1 hjúkrunarfræðingur. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Mönnunin miðast við meðalálag við umönnun sjúklinga á 15 rúma deild. Ef fleiri eru inniliggjandi, eða ef erfið veikindi hrjá sjúklingana, er álagið meira og erfiðara að fara af deildinni, eða annast símsvörun.
Og á öðrum stað segir hann: Ef viðkomandi sneiðir framhjá 1700 og 112 og mætir beint að dyrasímanum á HVEST, þá bendir hjúkrunarfræðingurinn á legudeildinni honum á 1700, ef hann metur erindið þannig, en hringir strax á vaktlækninn, ef um bráðatilvik er að ræða. Í báðum tilfellum á hann að opna fyrir viðkomandi og vísa á sæti við afgreiðsluna, eða á biðstofu slysadeildar.
Komist hjúkrunarfræðingurinn frá deildinni, gætir hann að viðkomandi sjálfur, ef þess er þörf. Ef um alvarlegt bráðatilfelli er að ræða fer hann undantekningarlaust strax til viðkomandi, fer með hann á slysastofu, gerir viðeigandi ráðstafanir og bíður komu vaktlæknisins, eða kallar út hjúkrunarfræðing á bakvakt skurð- og slysadeildar til að leysa sig af.
1700 eða 112
Í greininni segir Hörður að þurfi fólk að ná sambandi við HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu, þurfi fyrst að tala við 1700, eða 112 og gefur hann lýsingar á því hvernig meta skuli hvert á að hringja:
Einstaklingar utan úr bæ hringja í 1700, ef um er að ræða tilfallandi veikindi og slys sem þarfnast ekki sjúkrabíls (t.d. flensa, hausverkur síðan í gær, kviðverkir, tognaður ökkli, spurning um handleggsbrot, eða skurður á fingri). Hjúkrunarfræðingur svarar og metur þörfina fyrir aðstoð. Ef hjálpin getur ekki beðið dagvinnutíma, er viðkomandi gefið beint samband við síma læknisins. Læknirinn og sjúklingurinn mæla sér svo mót á slysastofu, heilsugæslustöð, eða leysa málið á annan hátt.
Ef um er að ræða alvarlegri slys og veikindi með áverkum og einkennum sem gætu þarfnast bráðahjálpar og sjúkrabíls (t.d. meðvitundarminnkun, öndunarerfiðleikar, krampar, slæmur brjóstverkur, hjartastopp, fótbrot, liðhlaup o.s.frv.) er hringt í 112. Þeir leiðbeina, kalla á sjúkrabílinn, ef með þarf og senda vaktlækninum og legudeildinni SMS um málið. Læknirinn ákveður strax, hvort hann mætir beint á staðinn, eða tekur á móti viðkomandi á spítalanum. Hjúkrunarfræðingurinn gerir þær ráðstafanir sem þarf, eftir alvarleika málsins.
Ef einhver bið er eftir sambandi við 1700 á mesta álagstíma og viðkomandi telur sig ekki geta beðið, þá er líklega um neyð að ræða og rétt að hringja í 112. Ef óvissa er um, hvort hringja skuli í 1700 eða 112, þá er betra að hringja í 112 fyrst. Þeir meta stöðuna og beina manni á 1700, ef svo ber undir.
annska@bb.is