Allar líkur á að sumar og vetur frjósi saman
Veðurstofa Íslands spáir suðvestan 10-18 m/s og slydduéljum á Vestfjörðum í dag, en snjókomu í kvöld og nótt. Hiti verður í kringum frostmark. Á morgun má búast við norðvestan 5-10 m/s og éljum á morgun en norðaustan 3-8 m/s seinnipartinn. Styttir upp og lægir um kvöldið. Frost 0 til 4 stig. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum en víðast greiðfært á láglendi. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.
Á morgun er sumardagurinn fyrsti og segir í íslenskri þjóðtrú að ef sumar og vetur frjósa saman aðfaranótt hins fyrsta sumardags þá boði það gott sumar og verða að teljast talsverðar líkur á að það gerist á Vestfjarðakjálkanum. Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir um sumardaginn fyrsta: Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.
Almennt mikil ánægja með hvernig til tókst
Allar samkomur sem voru í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum yfir nýliðna páska; rokkhátíðin Aldrei fór ég suður, skíðavikuviðburðir, dansleikir eða aðrir viðburðir gengu vel fyrir sig og að sögn Hlyns Hafberg Snorrasonar yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vestfjörðum. Eitt og annað höfðu laganna verðir þó að gera og voru til að mynda 93 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða, flestir í Ísafjarðardjúpi og Strandasýslu. Sá sem hraðast ók var mældur á 189 km hraða í Skötufirði um miðjan dag þann 13. apríl. Slíkt brot varðar við ökuréttindasviptingu ásamt allhárri sekt. Einn ökumaður var kærður fyrir lagningarbrot í miðbæ Ísafjarðar og annar stöðvaður með útrunnin ökuréttindi.
Mikil umferð var um Vestfirði síðustu daga. Lögreglan var með aukinn viðbúnað bæði hvað umferðareftirlit og fíkniefnaeftirlit varðar. Fíkniefnahundurinn Tindur vann sem fyrr með lögreglumönnum. Segir Hlynur allt hafa gengið vel fyrir sig og allir komið heilir heim. Í liðinni viku var þó aðstoð björgunarsveita óskað í nokkur skipti er ökumenn festu bíla sína á fjallvegum. Aðeins var tilkynnt um eitt umferðaróhapp er flutningabifreið og snjóruðningstæki rákust saman á Steingrímsfjarðarheiði í gær. Engin slys urðu á fólki en flutningabíllinn er óökufær eftir atvikið.
Um klukkan fjögur aðfaranótt páskadags var tilkynnt um líkamsárás í miðbæ Ísafjarðar. Einn maður hlaut áverka en þó ekki alvarlega. Tveir menn eru grunaðir um árásina og voru þeir handteknir og færðir í fangaklefa. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni.
Manstu Sævang
Nú í sumar verða liðin 60 ár síðan félagsheimilið Sævangur við Steingrímsfjörð á Ströndum var tekið í notkun. Af því tilefni er sögum og minningum safnað, um margvíslega starfsemi sem þar hefur farið fram í gegnum tíðina.
Sævangur var vinsæll samkomustaður fyrir fólkið í sveitinni og þar voru haldin íþróttamót, margvíslegar samkomur og dansleikir sem fólk sótti víðs vegar að. Um tíma var rekinn skóli í Sævangi og síðustu 15 árin hefur húsið verið nýtt fyrir minjasafnið og menningarstofnunina Sauðfjársetur á Ströndum.
Sauðfjársetrið á Ströndum stendur fyrir verkefninu og hér má nálgast nánari upplýsingar.
Sauðfjársetrið hefur einnig áhuga á að eignast ljósmyndir og vídeóefni sem tengist Sævangi og ætlar sér að varðveita slíkar gersemar til framtíðar.
Myndefni og frásagnir sem safnast verða varðveitt á Sauðfjársetrinu í Sævangi. Þau verða lesin yfir og gerð aðgengileg í skráningarkerfinu Sarpi og vonandi verður unnið með þau við margvíslega miðlun, sýningahald og rannsóknir sem tengjast sögu Sævangs.
bryndis@bb.is
Ferðafélagið á Folafót
Fyrsta gönguferð Ferðafélags Ísfirðinga verður á laugardaginn kemur, 22. apríl. Að þessu sinni skal skundað um Folafót undir leiðsögn Barða Ingibjartssonar. Barði mun ausa úr viskubrunni sínum um svæðið, til dæmis um Tjaldtangaútgerð Guðfinns og sona hans Einars og Sigfúsar árið 1915. Að sögn Barða er þetta um það bil 6 klukkutíma ganga og hækkun innan við 100 metrar.
Brottför verður frá búðinni í Súðavík kl. 9:00 þar sem reynt verður að sameinast í bíla.
Dagskrá ferðafélagsins er þétt og skemmtileg í sumar og hana má nálgast í bæklingi Ferðafélags Íslands.
bryndis@bb.is
Skattahækkun á ferðaþjónustu er aðför að landsbyggðinni
Nú liggur fyrir Alþingi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2022. Þar er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði hækkaður í efsta þrep, sem mun hafa miklar og neikvæðar afleiðingar, sérstaklega fyrir litla og meðalstóra ferðaþjónustuaðila utan höfuðborgarsvæðisins.
Ferðaþjónustan glímir nú þegar við margfalda verðhækkun miðað við samkeppnislönd. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið sem gerir það að verkum að öll verð hækka skyndilega gagnvart söluaðilum erlendis. Það er vel þekkt að jafnvel litlar verðbreytingar í ferðaþjónustu geta haft mikil áhrif á ákvörðun ferðamanna um áfangastað. Við þetta bætast fleiri þættir sem hafa áhrif á verð og rekstrarskilyrði, t.d. hækkun á gistináttaskatti og hækkun launa á undanförnum tveimur árum.
Íslenskir ferðaþjónustuaðilar finna nú þegar fyrir skilningsleysi erlendra samstarfsaðila gagnvart tugprósenta verðhækkunum milli ára, sérstaklega þar sem hækkanir á helstu samkeppnismörkuðum eins og Norðurlöndum eru yfirleitt mjög litlar í samanburði.
Óumflýjanleg neikvæð áhrif á landsbyggðina
Áform ríkisstjórnarinnar eru vanhugsuð og geta því miður haft mikil neikvæð áhrif, sérstaklega gagnvart minni og meðalstórum ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni.
Sú mikla og jákvæða uppbygging sem hefur orðið á stöðum eins og m.a. Ísafjarðarbæ, á Snæfellsnesi og í Húnavatnssýslum hefur í för með sér aukin atvinnutækifæri og sterkari byggðir. Það er skelfilegt til þess að hugsa að stjórnvöld skuli ekki taka neitt tillit til þeirra jákvæðu áhrifa sem slík uppbygging hefur í för með sér og huga frekar að því að styrkja markvisst sjálfbærni ferðaþjónustunnar og þar með byggðanna sjálfra.
Því miður hefur ekki verið lögð fram greining á áhrifum þessarar miklu skattahækkunar sem sýnir fram á að hún muni annars vegar ná markmiðum um tekjuöflun ríkissjóðs og hins vegar ekki hafa óafturkræf neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi til langs tíma.
Það er grunnkrafa að þegar lagt er í aðgerðir sem eru svo augljóslega mjög íþyngjandi, sérstaklega fyrir dreifðari byggðir landsins, liggi fyrir ítarleg greining á áhrifum þeirra.
Elsa Lára Arnardóttir
– þingmaður Framsóknarflokksins.
Maður sem heitir Ove kemur á Ísafjörð
Þann 6. maí næstkomandi mun einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Siggi Sigurjóns, heimsækja Ísafjörð þegar einleikurinn Maður sem heitir Ove verður sýndur í Edinborgarhúsinu. Sýningin hefur gengið fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu í vetur og nú gefst áhorfendum á Ísafirði og nærsveitum tækifæri til að njóta samvista við geðstirða Svíann Ove sem hefur heillað fólk um allan heim!
Leikritið fjallar um hinn 59 ára gamla Ove sem sumir myndu kalla „dæmigerðan Svía“ – reglufastan nákvæmnismann, óþolandi smámunasaman og önuglyndan. Þegar ólétt kona að nafni Parvaneh flytur með fjölskyldu sína í götuna er eins og Ove byrji að missa tökin á öllu. Maður sem heitir Ove er bráðfyndinn og nístandi einleikur um sorg og gleði, einangrun og nánd.
Þjóðleikhúsið hefur í vetur lagt aukna áherslu á að færa leiklistina nær áhorfendum á landsbyggðinni, og hefur Ove þegar verið sýndur á Akureyri, Egilsstöðum og í Skagafirði. Einnig var barnaleikritið Lofthræddi örninn Örvar frumsýnt í Vestmannaeyjum og sýnt víðsvegar um landið í kjölfarið.
Hægt er að tryggja sér miða á sýninguna á heimasíðu Þjóðleikhússins.
bryndis@bb.is
Aldrei fór ég suður: Hátíð samfélagsins
Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður fór fram um páskana á Ísafirði líkt og lög nútímans gera ráð fyrir. Að þessu sinni var sérstakt samráð haft við veðurguðina og skemmtu ungir sem aldnir sér saman í einskærri gleði og spekt undir fjöllunum háu í Kampa-skemmunni. Bæjarins besta sló á þráðinn til rokkstjórans og hafði hann fram úr fyrir allar aldir á degi sem annars ætti að vera nýttur til að hvíla lúin rokkbein eftir atganginn síðustu daga. Kristján Freyr var þó hress að vanda og sagðist varla vera kominn niður á jörðina eftir alla gleðina sem einkenndi Aldrei fór ég suður, nú sem iðulega. Hann sagðist jafnframt ekki vita hvernig að hann gæti tjáð sig öðruvísi en með klisjukenndum hætti því allt hafi gengið svo glimrandi vel:
„Þetta var algjör gleðisprengja og það var sama hvert ég leit ég gat ekki séð að nokkur væri ekki í góðum fíling – allir með bros á vör. Það var svo magnað að sjá hvernig þetta gekk allt upp í þessum hóflega fíling sem við viljum ná fram, það voru allir í þessum takti; foreldrarnir sem voru í gæslunni og lögregluþjónarnir sem gengu um spjölluðu við fólk. Þetta er svo innilega tónninn sem við sem stöndum að hátíðinni viljum hafa, það skemmtu sér allir fallega saman og engir að setja sig í stellingar fyrir neitt annað en vinalegheit. Ég vona að við töpum aldrei þessari einkennisstemningu hátíðarinnar.“
Það hefur talsvert vatn runnið til sjávar síðan hátíðin var fyrst haldin árið 2004, en hún hefur þó allar götu síðan verið rómuð fyrir einstaka stemningu og keppast tónlistarmenn við að komast að í dagskránni sem ávallt hefur einkennst af fjölbreytileika, eða eins og hátíðarhaldarar segja þá fá þar allir eitthvað, enginn ekkert og einn fær ekki allt. Mikil reynsla hefur safnast saman hjá öllum þeim sem að hátíðinni koma og má segja að þar virki nú allt sem smurð vél:
„Ég segi það fullum hnefa að við vorum algjörir kjúklingar þegar við byrjuðum fyrir 14 árum síðan, en nú er hér að finna landsliðið í rokkhátíðum. Þetta er hátíð samfélagsins, því maður gerir ekki rassgat einn og það er allt samfélagið á Ísafirði að halda þessa hátíð og allir koma að hátíðinni með einhverjum hætti og það er það sem gerir hátíðina svona sérstaka. Núna erum við orðin sjóuð í þessu og fyrir það er maður svo þakklátur og stoltur af því. Ég hef náttúrulega ekki verið rokkstjóri lengi, þó ég hafi komið að hátíðinni öll þessi ár og núna fyrst sé ég hvað þetta er magnað. Ég þarf bara að mæta Einari í Efnalauginni eða Lauga á kranabílnum og áður en ég segi eitthvað þá vita þeir nákvæmlega hvað þeir eru að fara að gera. Það eru allir með puttana á púlsinum. Svo þetta er bara eintóm gleði.“
Hvað mannfjölda á hátíðinni í ár áhrærir segir Kristján að trú manna sé að hátíðin hafi enn eina ferðina toppað sig og það sem hafi verið sérstakt gleðiefni var hversu margir voru í skemmunni öllum stundum. Stuðið var öllum stundum samt við sig og ætlaði allt um koll að keyra er rapparinn MC Gauti steig á svið um miðbik laugardagskvöldsins: „Það kom einn afinn til mín og þakkaði fyrir góða hátíð og sagðist hann ekkert hafa litist á þennan Emmsjé Gauta og orðbragðið sem hann notaði, en afabarnið krafði hann um að vera með sér á staðnum á meðan á atriðinu stóð og sem hann sá ekki eftir og varð þar og þá að eldheitum aðdáanda rapparans.“
En voru einhver vandræði? „Þetta gekk ótrúlega smurt og áreynslulaust. Ég var alltaf að bíða eftir símtali í rauða símann en ekkert gerðist og ég fullyrði að á Aldrei fór ég suður fáum við bestu gestina. Tónlistarfólkið sem kom og spilaði var alveg stúmm yfir hversu frábært þetta var. Það er líka svo gaman hvað það er alltaf mikill fjölskylduhátíðarbragur ríkjandi og frábært að hafa alla þessa krakka á svæðinu. Ég get ekki sagt annað en við séum himinlifandi með hvernig til tókst.“ Svarar Kristján Freyr að lokum.
Ljósmyndarinn Ásgeir Helgi Þrastarson var á staðnum og fangaði stemninguna.
Vanhæfur Umhverfisráðherra
Björt Ólafsdóttir, Umhverfisráðherra gerir í dag opinberlega kröfu til þess að kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík verði lokað. Tilefnið er að síðastliðna nótt eldur kom upp í ofnhúsi verksmiðjunnar vill ráðherrann að lokunin standi meðan eftirfarandi verði skoðað:
- Hver er ástæða einkenna sem íbúar nálægt verksmiðjunni upplifi og mengunarmælingar skýra ekki.
- Vinnuaðstæður starfsmanna athugaðar.
- Hvernig verksmiðjan er fjármögnuð.
Ótvírætt er að eldur í verksmiðjunni er alvarlegt mál. Starfsemi verksmiðjunnar liggur eðlilega niðri og lögreglurannsókn er hafin á eldsupptökum. Málið er í eðlilegum farvegi og enginn í hættu.
Umhverfisráðherrann ákveður að hafa afskipti af málinu, segir nóg komið og vill lokun. Áður hefur ráðherrann á stuttum valdaferli sínum ítrekað lýst yfir andstöðu við stóriðju og þar með kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík. Þann 12. janúar sagði hún t.d. á visir.is að tími mengandi stóriðju væri liðinn. Orðrétt: „Ég er ekki hrifin af kísilverum þar sem þau menga mjög mikið“.
Misnoktun ráðherravalds
Eitt er að ráðherrann tali fyrir skoðunum sínum varðandi stóriðju en annað er að ráðherrann fer hér út fyrir valdsvið sitt og inn á svið undirmanna sinna og nánast krefst þess að þeir breyti starfsleyfi kísilmálmverksmiðjunni og stöðvi starfsemina. Þetta skrifar ráðherrann orðrétt á opinni facebook síðu sinni:
Nú er komið nóg. Það þarf að loka kísilmálverksmiðjunni í Helguvík á meðan eftirfarandi þættir eru kannaðir til fullnustu.
Það er Umhverfisstofnun sem fer að lögum með útgáfu starfsleyfis fyrir verksmiðjuna en ekki ráðherrann. Umhverfisráðherrann er yfirmaður Umhverfisstofnunar og skipar forstjórann. Björt Ólafsdóttir er með þessum afskiptum sínum að misnota ráðherravald sitt til þess að hafa áhrif á undirmann sinn í Umhverfisstofnun.
Að lögum er það Umhverfisstofnunin sem getur lokað til bráðabirgða. Í 29. gr. laga nr 7/1998 segir : „Telji [Umhverfisstofnun] 1) svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað“.
Slík ákvörðun er stjórnsýsluákvörðun. Hana verður að taka samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og gæta þar m.a. að rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og andmælarétti. Sá sem fyrir ákvöruninni verður getur kært hana til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Starfsmenn Umhverfisstofnunar verða því að vera undir það búnir að geta varið ákvörðun um rekstrarstöðvun fyrir úrskurðarnefndinni. Ráðherrann krefst aðgerða sem hann á ekki að hafa áhrif á og ber enga ekki ábyrgð á.
Misnotkun lagaákvæða
Krafa ráðherrans er þannig rökstudd að ef rök hennar yrðu lögð til grundvallar aðgerðum Umhverfisstofnunar væri augljóslega um alvarlega rangtúlkun lagaákvæðanna sem styðjast verður við þegar ákveðið er að stöðva starfsemina. Í lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir (7/1998) er heimildin bundin við að um alvarlega hættu sé að ræða af starfseminni. Aðstæður núna þegar ráðherrann setur fram sína kröfu eru að verksmiðjan er ekki í starfrækslu og verður ekki fyrr en eldsupptök eru ljós og öryggi starfsmanna er tryggt. Væntanlega mun Umhverfisstofnun gæta að þessu þegar til þess kemur að setja á starfsemina í gang aftur og þarf ekki neina hvatningu frá Umhverfisráðherra til þess.
Hin tvö atriðin sem ráðherrann nefnir sem ástæður fyrir lokun snúa að „einkennum“ sem íbúar upplifi og að fjármögnun stofnkostnaðar.
Eigi að loka út af „einkennunum“ þarf tvennt að liggja fyrir : annað að þau falli undir alvarlega hættu og hitt að starfsemi verksmiðjunnar valdi þeim. Þetta verða starfsmenn Umhverfisstofnunar að vega og meta. Ákvörðun sem tekin kann að verða þarf að vera málefnaleg og rökstudd annars geta fjárhagslegar skaðabætur fallið á ríkissjóð.
Krafan um lokun vegna rannsóknar á fjármögnun verksmiðjunnar á sér enga stoð í lögunum og það nær ekki nokkurri átt að ráðherrann sjálfur skuli setja fram kröfur um afdrífaríka ákvörðun sem ekki eru studdar neinum lagalegum rökum.
Hafnar leikreglunum
Björt Ólafsdóttir, Umhverfisráðherra er einn þeirra stjórnmálamanna um þessar mundir, sem kærir sig kollótta um leikreglurnar sem henni er ætlað að fylgja. Lýðræðið byggir á lögum og reglum og því að þeir sem fara með vald hverju sinni fylgi þeim ákvæðum. Björt Ólafsdóttir veit fullvel að málið er ekki í hennar höndum, húnveit líka að hún á ekki að beita stöðu sinni sem ráðherra og yfirmaður til þess að krefjast tiltekinna aðgerða af undirmönnum sínum. En hún ákveður að fara sínu fram samt. Hún hafnar leikreglunum ef þær henta ekki pólitískum markmiðum hennar. Fyrir vikið er ráðherrann vanhæfur.
Þetta er hættuleg þróun sem verður að stemma stigu við. Það stendur forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna næst. Skylda þeirra er að taka í taumana og halda ráðherranum innan ramma laganna.
Kristinn H. Gunnarsson
Samningar vegna Dýrafjarðarganga undirritaðir fyrsta sumardag
Sumardaginn fyrsta undirrita Jón Gunnarsson samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson forstjóri Vegagerðarinnar samninga við aðalverktaka Dýrafjarðarganga á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Aðalverktakar eru Metrostav A.S, frá Tékklandi og Íslenski verktakinn Suðurverk hf. Þessir verktakar hafa séð um framkvæmdir við Norðfjarðargöng sem verða opnuð í haust. Jafnframt verður skrifað undir samning við verkfræðistofuna Eflu sem hafa ásamt samstarfsaðilum tekið að sér eftirlit með verkinu.
Allir eru velkomnir að vera við athöfnina sem hefst klukkan 14. Þar verða haldnar stuttar ræður og gestum síðan boðið að þiggja kaffiveitingar.