Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 2220

Húfur gegn einelti í þriðja sinn

Nemendur í 1.bekk Grunnskóla Bolungarvíkur flottir með nýju húfurnar

Í Grunnskóla Bolungarvíkur hafa nemendur í 1. bekk undanfarin ár fengið afhentar húfur með áletruninni „gegn einelti“ og í gær var húfudagurinn svo haldinn hátíðlegur við skólann þar sem hápunkturinn var er hver og einn nemandi fékk afhenta sína eigin heimaprjónuðu húfu gegn einelti.  Verkefnið má rekja til Ragnheiðar Ragnarsdóttur sem fyrir þremur árum átti barn í fyrsta bekk og tók hún sig til og prjónaði húfur á alla nemendurna í bekknum, með það í huga að hefðu börnin áletrunina „gegn einelti“ stöðugt fyrir augunum myndi það vera góð áminning um málstaðinn að koma vel fram hvert við annað.

Á síðasta ári og í vetur hafa svo íbúar í Bolungarvík tekið við keflinu og prjónað húfurnar og er það vilji skólayfirvalda að halda þessu góða verkefni áfram. Í vetur hafa nemendur í 1. bekk G.B. unnið fjölbreytt verkefni tengd vináttu, virðingu, hrósi og umburðarlyndi.

annska@bb.is

Rangfærslur um stóru málin í samfélaginu

Gísli Halldór Halldórsson.

Jóhann Bæring Pálmason óskaði eftir því við mig á Facebook að ég útlistaði þær rangfærslur sem ég hafði fullyrt að stútfullt væri af í grein hans í BB um stóru málin í samfélaginu. Ég geri ráð fyrir að Jóhann Bæring hafi meint vel með sinni grein og jafnvel skrifað eftir bestu vitund, en hann hlýtur þá að hafa fengið afskaplega villandi upplýsingar. Það er því sjálfsagt mál að verða við ósk hans um að koma því sem rétt er á framfæri. Leiðréttingarnar fara hér á eftir.

Norðurtanginn

Fyrsta villan í grein Jóhanns Bærings er að telja að Ísafjarðarbær greiði fyrir ónotað húsnæði í Norðurtanganum. Það er rangt að Ísafjarðarbær greiði leigu fyrir tómt húsnæðið. Það er þó rétt, því miður, að húsnæðið í Norðurtanganum hefur enn ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru við undirritun leigusamnings. Vegna ástands húsnæðisins getur Ísafjarðarbær enn ekki litið svo á að húsnæðið hafi verið afhent og mun að sjálfsögðu ekki greiða leigu fyrr en verki húseigandans er lokið samkvæmt skilalýsingu sem fylgdi leigusamningi. Í skilalýsingu er tekið á fjölmörgum málum og meðal annars brunavörnun.

Það kann að vera að hægt sé að halda kostnaði svo lágum sem Jóhann Bæring nefnir með því að reisa skemmu undir safnageymslurnar. En er það einhver framtíðarsýn fyrir Ísafjarðarbæ að reisa skemmur í hvert skipti sem við þurfum húsnæði? Fylla bæinn af skemmum? Nei, framtíðarsýn er að endurnýta húsnæðið í Norðurtanganum til 10 ára og ráðast svo í nýbyggingu, t.d. í tengslum við Gamla sjúkrahúsið þar sem gera mætti námsfólki og notendum safnsins hátt undir höfði.

Reiðskemman

Það er rangfærsla að bærinn ætli að greiða 49% af rekstrarkostnaði við reiðskemmuna sem Jóhann Bæring kallar höll. Bærinn mun leggja hlutafé til sem 49% eignarhlut í reiðskemmunni, í því felst hluti framlagsins til hestamanna, eftir það mun bærinn ekki bera ábyrgð á rekstrinum. Eins og flestir vita þá borgar Ísafjarðarbær venjulega 100% af rekstri íþróttamannvirkja, þarna er því um sérstaklega góð kjör að ræða fyrir bæinn. Vafalaust munu hestamenn standa undir þeirri ábyrgð að reka reiðskemmuna með sóma og byggja upp hestaíþróttir í Ísafjarðarbæ.

Greinarhöfundur telur að HSV hafi ekki haft getu til að segja sitt um drögin að samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu. Hið rétt er að HSV getur sagt allt um samninginn við hestamenn sem HSV telur rétt að segja, einmitt þess vegna fékk HSV samninginn til umsagnar. HSV, eins og margir fleiri, fagnar því að þetta mál skuli loks til lykta leitt eftir að hafa þvælst fyrir bæjaryfirvöldum í nærri áratug.

Ísafjarðarbær mun hér eftir sem hingað til hafa samráð við HSV um íþróttamál.

Ein rangfærslan í viðbót er að 20 manns muni nota reiðskemmuna. Ástæða þess hve fækkað hefur í hópi hestafólks er aðstöðuleysi. Hestaíþróttir eru þriðja vinsælasta íþrótt landsmanna hvað þátttakendafjölda snertir og engin ástæða til að ætla annað en að aðstaða á nútímavísu, sambærileg og annarsstaðar á landinu, muni draga að sér fleiri en 20 notendur.

Á síðasta ári var unnið í því hjá Eignasjóði Ísafjarðarbæjar að kanna bestu leiðir til endurnýjunar eða uppfærslu á gólfinu í íþróttahúsinu. Verið er að kanna hvort hefja megi framkvæmdir á þessu ári.

Sundhöll Ísafjarðar

Ég get ekki rengt tölur Jóhanns Bærings um Sundhöll Ísafjarðar, þær kunna jafnvel að fara nærri lagi. Þetta verður kannað betur á árinu, skoðað hvernig heildarútfærsla breytinga og viðhalds þarf að líta út til að nýtast samfélaginu sem best. Í því verða allar kostnaðartölur skoðaðar, innanhúss og utan. Það er þó rétt að benda á að mikið af þeim kostnaði má í raun kalla sokkinn kostnað, það er að segja engin leið er að koma í veg fyrir stóran hluta kostnaðarins. Þetta er vegna þess að ef ekki á að rífa sundhöllina þá mun þurfa að grípa til kostnaðarsamra aðgerða, hvernig sem við hyggjumst nýta bygginguna. Viðhald og breytingar í því skyni munu alltaf kosta hundruð milljóna.

Ég minni einnig á að sundlaugin í Sundhöllinni er mikið nýtt fyrir skólasund og þyrfti að leysa þau mál með ærnum kostnaði og fyrirhöfn ef ekki á að hafa sundlaugin áfram.

Jóhann Bæring má auðvitað draga upp þá mynd að hægt sé að byggja enn eina ódýru skemmuna yfir 25 metra sundlaug. Kostnaður sá er byggingarfulltrúi gaf upp á íbúafundi í Vestrahúsinu er 750 milljónir króna fyrir umbúnað laugarinnar, sundlaugarhús fyrir 25 x 12,5 metra sundlaug (skv. S002), 1.500m2 á um 500.000 kr./m2.

Krafturinn í bæjarapparatinu

Ekki er hægt að átta sig á því hvaðan Jóhann Bæring hefur þær sögur að jafn mörg mál hafi ekki áður komi jafn seint á borð æðstu stofnana bæjarins, það er jafnvel erfitt að átta sig á hvað hann meinar með þessari setningu – kannski á hann við samkomulagið við Hendingu, sem hefði átt að koma til afgreiðslu fyrir mörgum árum síðan. Samningar við Hestamannafélagið Hendingu hafa reyndar komið á dagskrá áður og hafa nú verið til umfjöllunar af og til í eitt og hálft ár.

Það er rétt að mörg stór og merkileg mál koma nú inn á borð æðstu stofnana bæjarins, það er kraftur í bæjarapparatinu þessa dagana. Það sem er þó einna helst einkennandi er að Í-listinn fer ekkert í felur með þessi mál, vekur athygli á erfiðum málum og leyfir umræðunni að eiga sér stað. Oft er sú umræða hatrömm, a.m.k. er hún lífleg og er það vel. Enn stendur til dæmis yfir umræðan um samninginn við Hendingu, hefur tekið tæpa tvo mánuði og ákvörðun bæjarstjórnar er enn ekki lokið.

Það er rétt að meirihlutinn talar um að bæjarsjóður hafi aldrei staðið jafn vel fjárhagslega. Það er líka einmitt þannig sem það er. Þrátt fyrir að núverandi bæjarstjórn hafi fengið slæma sendingu með hjúkrunarheimilinu, sem byggðist á illa unninni og óuppfærðri kostnaðaráætlun, þá hefur náðst að lækka skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar þannig að það hefur aldrei verið lægra og lítur út fyrir að vera um 120% í lok árs 2016, en það mun skýrast betur þegar ársreikningur liggur fyrir á næstunni.

Skólamál

Lagt hefur verið allt kapp á að uppfylla þá skólastefnu Ísafjarðarbæjar að geta vistað börn 18 mánaða og eldri á leikskólum bæjarins, bæði á yfirstandandi kjörtímabili og því síðasta. Þessi árangur hefur nánast alltaf náðst frá því stefnan var sett og stöndum við mörgum sveitarfélögum framar, þar á meðal Reykjavíkurborg. Miklu fé hefur nú verið varið til að bjóða upp á úrvals aðstöðu á jarðhæð Tónlistarskólans og er sómi að. Einnig hefur verið sett til hliðar fé á fjárhagsáætlun 2018 til að stækka leikskólann Eyrarskjól.

Vissulega væri gaman að geta boðið leikskólavist yngri börnum en 18 mánaða og er mikill vilji til þess hjá meirihluta Í-listans, en til þess að færa aldurinn niður í 12 mánuði þarf mikið rekstrarfé, líklega 50 milljónir á ári. Kannski nálgumst við þann stað með áframhaldandi góðum rekstri bæjarins, eða þá með því að ríkið úthluti sveitarfélögum þá tekjustofna sem þarf til að takast við verkefnið og þá helst frá lokum fæðingarorlofs.

Bæði í grunnskólum og leikskólum hefur átakið Stillum saman strengi verið í gangi þar sem lögð er ofuráhersla á að búa börnum stuðning og aðbúnað til að ná sem bestum árangri í námi, lífi og leik og hefur verkefnið tekist frábærlega.

Það er grátlegt að lesa þá fullyrðingu í grein Jóhanns Bærings að málum sem snúa að yngstu borgurunum sé sífellt frestað og reynt að þagga niður í fólki með plástrum. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Allt kapp hefur verið lagt á að leysa þessi mikilvægu verkefni í samráði við foreldra. Samráðið getur stundum verið snúið þar sem skoðanir foreldra eru oft ólíkar. Alltaf hefur þó tekist að finna farsælar lausnir.

Gott samfélag

Það er reyndar skynsamlegt mat hjá Jóhanni Bæring, það sem hann nefnir sem lykilatriði í góðu samfélagi, góða leik- og grunnskóla, góðar aðstæður í atvinnumálum, góð heilbrigðisþjónusta og gott mannlíf. Það sem ég tel hinsvegar rangsnúið hjá honum er þegar hann virðist ekki telja tómstundaiðkun til mannlífs. Íþróttir og tómstundir, heitir pottar og samræðuvettvangur eru einmitt dæmi um undirstöðurnar í góðu mannlífi. Allt hitt sem Jóhann Bæring taldi upp sem lykilatriði í góðu samfélagi er sennilega býsna lítils virði ef ekki næst að skapa gott mannlíf.

Þegar lausna hefur verið leitað á brýnum verkefnum á þessu kjörtímabili þá hefur verið lögð mikil áhersla á að koma sem flestu á koppinn, enda eru áríðandi og mikilvæg verkefni gríðarlega mörg eftir langvarandi ládeyðu í sveitarfélaginu. Í því skyni hefur oft þurft að leita lausna sem eru fljótlegar og kalla á minni fjárútlát. Fjárfestingin á jarðhæð Tónlistarskólans mun nýtast okkur vel, hvaða starf sem verður rekið þar í framtíðinni.

Leikskólamál og önnur skólamál eru þau mál sem Í-listinn telur mikilvægust. Í-listinn mun áfram leggja áherslu á að í skólamálum verði Ísafjarðarbær í fremstu röð. Gott starf hefur verið unnið í þeim málum og verður áfram gert – á meðan Í-listinn ræður einhverju.

Sundlaugin fyrir skólastarfið er til staðar í Sundhöllinni og þarfnast lagfæringa. Gólfið í íþróttahúsinu hefur þarfnast lagfæringa árum saman og er nú efst á lista, vonandi verður hægt að takast á við það verkefni í sumar.

Samhliða áríðandi og mikilvægum verkefnum í skólamálum og innviðum þarf að gæta vel að því að láta ekki sálartetrið drabbast niður og því verður áfram lögð áhersla á gott mannlíf, íþróttir og tómstundir.

Gísli Halldór Halldórsson

Bæjarstjóri

 

Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar meiri en nokkru sinni

Fjölgun erlendra ferðamanna í byrjun árs þykir gefa vonir um að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar verði meiri í ár en nokkru sinni. Í farþegaspá Isavia fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir 24,7% fjölgun erlendra ferðamanna milli ára. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins. Gangi sú spá eftir mun heildarfjöldi erlendra brottfararfarþega verða um 2.241 þúsund, eða sem nemur 79,9% af heildarfjöldanum. Áætlað er að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar verði um 564 milljarðar króna árið 2017, samkvæmt spá greiningardeildar Landsbankans. Til samanburðar voru þær 369 milljaðar 2015. Spáin var 477 milljarðar fyrir 2016, en nákvæmni hennar á eftir að staðfesta.

smari@bb.is

Ráðgera diplómunám á Ísafirði

Leikskólinn Eyrarskjól á Ísafirði.

Háskóli Íslands kannar nú möguleikana á betra aðgengi að diplómanámi í leikskólakennarafræðum í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Ísafjarðarbæ. Samstarfið felur einna helst í sér að nemendur af svæðinu þurfa ekki að fara í eins margar staðlotur suður og tíðkast, heldur munu kennarar koma vestur og kenna í Háskólasetrinu. Jafnframt mun Ísafjarðarbær auðvelda starfsmönnum sínum að taka þátt í þessum lotum.

Til að hægt sé að fara af stað með verkefnið er gerð krafa frá Háskóla Íslands að hið minnsta 7-8 nemendur séu skráðir. Þeir sem hafa áhuga á náminu eru því hvattir til að hafa samband við kennslustjóra Háskólaseturs sem fyrst.

Um er að ræða 120 ECTS nám (2 ár) sem er bæði fræðilegt og starfstengt. Meginmarkmið námsins er að undirbúa nemendur fyrir starf í leikskóla og samstarf í starfsmannahópi leikskóla. Jafnframt er  áhersla lögð á að nemendur hljóti fræðilega og starfstengda þekkingu á uppeldi og menntun leikskólabarna og þjálfun í að beita henni. Að námi loknu hljóta nemendur starfstitilinn aðstoðarleikskólakennari.

Bent skal á að ekkert er því til fyrirstöðu að halda áfram námi eftir að diplómanáminu lýkur og telja einingarnar inn í bakkalár gráðu í leikskólakennarafræðum.

smari@bb.is

Bollywood-mynd tekin upp í Holti

Holt í Önundarfirði. Mynd: Ágúst Atlason.

Eftir helgina hefst undirbúningsvinna við tökur á Bollywood-mynd, sem verður meðal annars tekin upp vestur á fjörðum. Á bilinu 40-50 manns munu starfa við kvikmyndatökurnar og flestir koma þeir frá Indlandi. Stærsti hluti myndatökunnar verður í Holti í Önundarfirði en einnig verða teknar upp senur á flugvellinum á Ísafirði og á nokkrum öðrum stöðum í grenndinni.

Maðurinn á bak við komu kvikmyndagerðarmanna vestur er Ágúst Atlason, ljósmyndari á Ísafirði með meiru, en framleiðandi myndarinn er Búi Baldvinsson hja Hero Production.

„Snemma á þessu ári hafði Búi Baldvinsson hjá Hero Production samband við mig og sagðist vera að leita að staðsetningu fyrir Bollywood-mynd. Til greina kom að vera á Norðurlandi eða á Vestfjörðum og ég náði að selja þeim Vestfirði og Holt sem tökustað,“ segir Ágúst.

Myndin er ekki dæmigerð Bollywood-mynd þar sem söguhetjur bresta í söng og dans af minnsta tilefni. „Myndin er án dans- og söngatriða og verður í hryllingsmyndastíl og er verið að reyna nýja hluti í Bollywoodsenunni,“ segir Ágúst.

Hluti kvikmyndagerðarmanna gistir í Friðarsetrinu í Holti og hluti á Núpi í Dýrafirði. „Kvikmyndatökuliðið mun vera hérna fyrir vestan í kringum 25 daga. Þetta er annað verkefnið sem ég hef náð hingað vestur, en í fyrra kom hingað lítil teymi ljósmyndara að mynda fyrir Volvo bílana. Ljóst er að þetta er uppgrip á annars rólegum tímum hérna fyrir vestan og ég vonast til að ná fleirum meðalstórum verkefnum hingað í framtíðinni,“segir Ágúst.

smari@bb.is

Vaxandi vindur – stormur á morgun

Átakalítið veður í dag, en hvessir og hlýnar talsvert á morgun. Vindur gæti þá náð stormi á norðvesturhorninu og víða verðu talsverður blástur. Spáin fyrir Vestfirði kveður á um sunnan 5-10 m/s og él, en vaxandi vindur síðdegis og verður suðvestan 10-18 m/s með rigningu í kvöld. Gengur í sunnan stormviðri, 18-25 m/s með talsverðri rigningu upp úr hádegi á morgun, þá hlýnar smám saman og verður hiti á bilinu 4 til 6 stig.

Það er hálka á fjallvegum  á Vestfjörðum, snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði en að mestu greiðfært á láglendi.

annska@bb.is

Stofnfundur félags um lýðháskóla á laugardag

Ný bæjarstjórn leggur áherslu á gott samstarf milli allra. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á laugardag verður stofnfundur félags um lýðháskóla á Flateyri haldinn í Félagsbæ. Tilgangur félagsins er að vinna að undirbúningi og stofnun lýðháskóla á Flateyri. Allir eru velkomnir á fundinn og teljast þeir til stofnfélaga sem skrá sig í stofnfélagaskrá sem verður á staðnum. Það er rík lýðháskólahefð á Norðurlöndunum, sérstaklega í Danmörku. Í skólunum er mikil áhersla á mannrækt og að nemendur geti sniðið sér nám til þess að efla sig og kynna sér ólíkar námsgreinar. Ekki er lögð áhersla á próf heldur þátttöku og að nemendur á öllum aldri geti komið og dvalið í eina eða tvær annir, kynnst nýjum stað og fólki, tekist á við ólík viðfangsefni og haft gagn og gaman af.  Á Íslandi er lýðháskóli starfræktur á Seyðisfirði og í undirbúningi er lýðháskóli á Laugarvatni sem mun leggja áherslu á íþróttir.

Fyrir nokkru kviknaði sú hugmynd að stofna lýðháskóla á Flateyri og í nóvembermánuði síðastliðnum kynnti stýrihópur um lýðháskóla hugmyndina fyrir bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Dagný Arnalds íbúi á Flateyri er ein þeirra sem skipa stýrihópinn. Hún segir þegar heilmikla greiningarvinnu hafa átt sér stað og það sé niðurstaða hópsins að Flateyri sé mjög heppilegur kostur fyrir lýðháskóla: „Við höfum almennt fengið mjög jákvæð viðbrögð við hugmyndinni og nú vinna t.d. um 30 manns í sjálfboðastarfi við að koma þessum málum áfram, móta námsframboðið og fleira slíkt.

Stefnan er að bjóða upp á nám sem byggir á styrkleikum staðarins og sérstöðu og fá meðal annars til liðs við okkur fólk á svæðinu, sem hefur fjölbreytilega reynslu og þekkingu sem er dýrmæt og við erum fullviss um að eftirspurn er eftir.

Við stefnum á 3-4 brautir sem er verið að móta. Þessar brautir fela t.d. í sér fjallamennsku og umhverfisfræði og verður m.a. samstarf við björgunarsveitir svæðisins, leiðsögufólk, bændur og útgerðarfólk.  Kvikmyndagerð og tónlist yrðu líka á boðstólnum og margir sem eru tilbúnir að koma að því námi. Þar á meðal er t.d.  fólk sem tengist Flateyri sterkum böndum og er öllum hnútum kunnugt í kvikmyndagerð. Tónlistarhefð er líka rík á svæðinu og margt skemmtilegt og áhugavert sem hægt er að vinna með. Þar eru líka margir tilbúnir að leggja hönd á plóg.“

Dagný segir vonir standa til að lýðháskólinn taki til starfa ekki síðar en haustið 2018. Undirbúningsvinna hafi gengið vel og hópurinn bjartsýnn. Enn vantar þó nægilegt fjármagn til þess að geta hafist handa strax næsta haust, en Dagný segir þó dæmi um það í tilverunni að hlutir fari fram úr björtustu vonum og aldrei að vita nema slíkt hendi í tilfelli lýðháskólans.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir á þessari stundu hvar lýðháskólinn verður til húsa og segir Dagný margar leiðir færar í þeim efnum: „Það er töluvert af vannýttu húsnæði á Flateyri og mikill velvilji í samfélaginu til þess að verða okkur að liði í þeim efnum. Lýðháskóli þarf ekki að vera í einu húsi með skólabjöllu en það er mikilvægt að nemendur kynnist samfélaginu og fái að vera þátttakendur í því. Húsnæðismálin eru smám saman að skýrast en það verða sjálfsagt námskeið á nokkrum stöðum í þorpinu.“

Hvatinn að efla samfélagið

Dagný segir að lýðháskólinn geti reynst gífurleg lyftistöng fyrir samfélagið á Flateyri: „Það mun efla samfélagið heilmikið ef við fáum kannski 40-50 nemendur og einhverjir þeirra jafnvel með börn. Þá er mikilvægt að við getum boðið góða þjónustu, til að mynda góðan leikskóla og skóla og að vel sé tekið á móti fólkinu. Við erum sannfærð um að okkur takist það ef allir leggjast á eitt.

Við sjáum líka fyrir okkur samstarf við fjölmarga aðila utan Flateyrar og margir þeirra sem eru í undirbúningsvinnunni með okkur og koma til með að taka þátt í starfinu eru búsettir í nágrannabæjunum eða bara víðsvegar um landið. Þegar er verið að skoða möguleika á samstarfi við bændur í nágrenninu í sambandi við umhverfisbrautina og ég held að styrkleiki verkefnisins verði fólginn í því hversu margir eru tilbúnir að leggja því lið. Á Vestfjörðum er þétt og öflugt samfélag þó að við höfum þurft að takast á við ýmsar áskoranir og sumar heldur snúnar. Með því að sameina kraftana getur afraksturinn orðið til þess að efla samfélagið okkar og það er þegar allt kemur til alls leiðarljósið og hvatinn að þessu verkefni.“

Alþingi ályktaði síðastliðið sumar að fela menntamálaráðuneytinu að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Markmiðið er að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera. Frumvarpið á að líta dagsins ljós ekki síðar en  á vorþingi 2017.

Stofnfundurinn verður sem áður segir í Félagsbæ (Gunnukaffi/Gamla kaupfélagið) við Hafnarstræti á Flateyri á laugardag og hefst hann klukkan 13.

annska@bb.is

Er friður í boði í viðsjálli veröld?

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Mér gafst kostur á að sækja friðarráðstefnuna „World Summit 2017“ í Seoul í Suður Kóreu í byrjun febrúar. Yfirskrift ráðstefnunnar var: friður,öryggi og jöfnun lífskjara. Að ráðstefnunni standa alþjóðleg friðarsamtök og alþjóðlegt samband þingmanna fyrir friði. SunHak-friðarverðlaunin eru kennd við upphafsmenn þessara samtaka sem eru hjónin Dr. Sun Myung Moon og Dr.Hak Ja Han Moon, eftirlifandi kona hans.

Margt má segja um mikla upphafningu þessara einstaklinga á þeirra heimaslóðum í Suður Kóreu en eitt er víst að friðarboðskapurinn einn og sér er vel þess virði að hafa verið meðal þátttkenda í þessum fjölmenna fundi ólíkra fulltrúa víðsvegar að úr heiminum sem koma saman til að hlusta á sjónarmið hvers annars.

Markmiðið með ráðstefnunni er mjög gott. Það felur í sér samveru og samtal fulltrúa fulltrúa frá ólíkum þjóðum og menningarheimum sem koma saman til þess að leita leiða til að hindra stríðsátök og fátækt og einnig til að berjast saman fyrir bættum lífskjörum fátækra þjóða, aukinni menntun, jöfnuði og jafnrétt kynjanna.

Friðarverðlaun

Friðarverðlaunin í ár fengu 2 einstaklingar sem hafa tileinkað líf sitt lækningum , hjálparstarfi og menntun á stríðshrjáðum svæðum. Dr. Gino Strada skurðlæknir frá Ítalíu sem veitt hefur yfir 4 milljónum einstaklinga læknis- og neyðaraðstoð á stríðsátaka svæðum og Dr. Sakena Yacoobi kennari og baráttukona sem helgað hefur líf sitt réttindum og menntun barna og kvenna í Afganistan. Þegar ég hlustaði á ræður þess tveggja einstaklinga og kynningu á lífsstarfi þeirra veitti það manni trú á að mannkyninu er viðbjargandi og að það góða sigrar það illa að lokum. Fjöldi framsögumanna héldu innihaldsríkar ræður þar sem ræddur var flóttamannavandinn, stríðsátökin og þau sem ná ekki eyrum alþjóðafjölmiðla og fátæktina sem færist á milli kynslóða og bága stöðu kvenna og barna í mörgum löndum.

Mér gafst kostur á að flytja ræðu um frið,stöðu kvenna og jafnrétt á Íslandi á kvöldverðarfundi þingkvenna sem byggja upp tengslanet um frið og stöðu kvenna og fjölskyldna í heiminum.

Margar magnaðar ræður voru fluttar þar sem miklar tilfinningar brutust fram um ástandið í viðkomandi landi eins og allar hörmungarnar í Sýrlandi, flóttamannabúðir í Líbíu, stjórnmálaástandið og átökin í Tyrklandi og í Úkraínu svo eitthvað sé nefnt. Eins var það áhrifaríkt þegar þingmaður Norður Kóreu ávarpaði ráðstefnuna og kallaði eftir friði á milli Norður og Suður Kóreu og sagði að hin miklu mótmæli á götum úti gegn spillingu tengdum ríkisstjórn Suður Kóreu hefðu aldrei verið leyfð í sínu landi þar sem ekkert lýðræði ríkti.

Ekki er friðvænlegt

Ástandið í heiminum er ekki friðvænlegt með stórhættulegan rugludall sem forseta í Bandaríkjunum, valdamesta ríki heims. Forseta sem er spilltur auðjöfur og vill reisa girðingar á milli þjóða,mismuna á grundvelli trúarbragða og haldinn er kvenfyrirlitnigu.

Nýjasta útspil Donalds J. Trump forseta Bandaríkjanna er komubann til Bandaríkjanna á íbúa sjö landa múslimaríkja sem trúlega reynist stjórnarskrábrot. Þar er kynnt undir hatri á grundvelli kynþáttafordóma og trúarbragðaskoðana og kyndir undir stríðsátökum í heiminum.

Ekki má gleyma að minnast á stríðsátökin í hinum fátækari ríkjum Afríku sem vilja oft gleymast þar sem ekki eru undirliggjandi hagsmunir stóveldanna og auðlindir í fátækum ríkjum sem auðhringir hafa sölsað undir sig.. Við hér heima á Íslandi erum svo lánsöm að vera herlaust land og friðsöm þjóð þó sá ljóður sé á að vera enn þá í hernaðarbandalaginu Nató.

Vinstri græn með Steingrím J Sigfússon sem fyrsta flutningmann hafa lagt fram tillögu um kjarnorkufriðlýsingu Norðurslóða og mikilvægt er að við tökum skýlausa afstöðu þar og séum leiðandi í málefnum Norðurslóða en Ari Trausti Guðmundsson er formaður nefndar um Norðurskautsmál .

Ísland á að vera leiðandi í allri friðarumræðu og gera sig gildandi. Þótt lítið land sé þá getum við lagt okkar af mörkum til þess að stuðla að friðvænlegri heimi.

Það er horft til Íslands sem lýðræðisríkis sem hefur náð góðum árangri í mannréttindum,kvenfrelsi og sem velferðar samfélag þó alltaf megi sannarlega gera betur. Við eigum að láta í okkur heyra hvar sem er og hvenær sem er til þess að leggja okkar að mörkum á vogarskál friðar í heiminum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

Drengjaliðið sigraði riðilinn

10. flokkur Vestra með þjálfurum.

Um síðustu helgi gerðu ungir körfuboltamenn í í Vestra góða ferð í Þorlákshöfn þar sem keppt var í 10. flokki drengja. Skörð voru höggvin í lið Vestra vegna veikinda og því aðeins 6 leikmenn í liðinu. Auk Vestra tóku lið Snæfells, Tindastóls og Þórs úr Þorlákshöfn þátt í mótinu. Vestramenn sýndu styrk sinn og unnu riðilinn og eru þar með komnir upp í B-riðil.

Lið Vestra skipuðu: Daníel Wale Adeleye, Þorleifur Ingólfsson, Stefán Ragnarsson, Blessed Parilla og Hilmir og Hugi Hallgrímssynir. Þjálfari er Yngvi Páll Gunnlaugsson en honum til aðstoðar voru Magnús Breki Þórðarson og Adam Smári Ólafsson.

smari@bb.is

Launagreiðendum fjölgar

Á síðasta ári var að jafnaði 16.721 launa­greiðandi á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 705 eða 4,4% milli ára. Á síðasta ári greiddu launa­greiðend­ur að meðaltali um 180.100 ein­stak­ling­um laun sem er aukn­ing um 8.400 eða 4,9% sam­an­borið við árið á und­an. Þetta kem­ur fram á vef Hag­stofu Íslands.

Skipt eft­ir at­vinnu­grein­um hef­ur launþegum fjölgað mikið á milli ára hjá launa­greiðend­um í ferðaþjón­ustu og bygg­ing­ariðnaði. Launþegum hef­ur hins veg­ar fækkað í sjáv­ar­út­vegi.

Á ár­inu 2016 voru að meðaltali 1.577 launa­greiðend­ur og um 24.200 launþegar í ein­kenn­andi grein­um ferðaþjón­ustu og hafði launþegum fjölgað um 3.800 eða um 18,7% frá ár­inu á und­an.

Sömu­leiðis voru að meðaltali 2.404 launa­greiðend­ur og um 10.400 launþegar í bygg­inga­starf­semi og mann­virkja­gerð og hafði launþegum fjölgað um 1.400 eða um 15,6% á einu ári.

„Hafa verður í huga að í þess­um töl­um eru ekki upp­lýs­ing­ar um ein­yrkja sem eru með rekst­ur á eig­in kenni­tölu og greiða sjálf­um sér laun, en slíkt rekstr­ar­form er al­gengt í bygg­ing­ariðnaði, land­búnaði, hug­verkaiðnaði og skap­andi grein­um svo dæmi séu tek­in,“ seg­ir á vef Hag­stof­unn­ar.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir