Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2220

Ekki aftur snúið úr þessu

Hrafnseyrarheiðin sýndi klærnar núna í sumarbyrjun og hleypti ekki fyrirmönnum með pennana á milli fjarða svo ekki var hægt að undirrita samninga við verktaka á Sumardaginn fyrsta á Hrafnseyri eins og til stóð. Engu að síður voru samningar undirritaðir, í Reykjavík, og núna verður ekki aftur snúið. Langþráð samgöngubót verður að veruleika og ef allt gengur samkvæmt áætlun munu Dýrafjarðargöng opna haustið 2020.

Frá undirritun samninga

Það er reyndar vonum seinna ef marka má væntingar skólabarna á Þingeyri fyrir 10 árum síðan er þau tóku fyrstu skóflastunguna og hófu að grafa. Um 70 manns, börn, foreldrar og kennarar frömdu þennan gjörning vegna síendurtekinna svika yfirvalda. Á mbl.is var fjallað um málið á sínum tíma og kom þetta fram:

Skólabörn á Þingeyri hófu að grafa fyrir göngunum í júní 2010

„Í skól­an­um var sett fyr­ir það verk­efni hjá krökk­un­um að búa til stjórn­mála­flokk á Vest­fjörðum og kynna 10 mál­efni sem flokk­ur­inn legði mesta áherslu á.  All­ir hóp­arn­ir voru með Dýra­fjarðagöng of­ar­lega á lista, að sögn Júlí­us­ar Arn­ar­son­ar kenn­ara. Kom þá hug­mynd­in fram um að byrja að grafa göng­in sjálf og von­ast eft­ir því að stjórn­völd komi og hjálpi til, er þau sjá til­gang og tíma til að grafa göng­in.“

Núverandi verkáætlun er svona í grófum dráttum:

2017

Verkið verður hafið Arnarfjarðarmegin. Flutningar á tækjum að verkstað hefjast í maí. Uppsetning vinnubúða og annarrar aðstöðu er áætlað að hefjist í maí  og ljúki að miklu leyti í Júní.  Forskeringar fari fram í júní og júlí  samfara einhverri vegagerð.  Gangagröftur Arnarfjarðarmegin hefjist í ágúst.

2018

Verður mest allt árið grafið frá Arnarfirði, þar verða byggðar brýr og unnið að vegagerð.  Dýrafjarðarmegin verður unnið að undirbúningi forskeringar og vegagerð og áætlað að byrja að grafa göng í desember 2018.

2019

Frágangur i göngunum Arnarfjarðarmegin.  Gangagröftur Dýrafjarðarmegin fram í ágúst þegar gegnumbrot er áætlað. Vegskálar verða byggðir og vegagerð utan ganga lokið að mestu leyti.

2019 til 2020

Eftir gegnumbrot verður unnið að styrkingum í göngum, klæðingu og öllum frágangi með vegi og rafbúnaði  fram að verklokum sem áætluð eru 1. september 2020.

bryndis@bb.is

Mikil gleði á Skíðavikunni

Gleðin var við völd á Skíðavikunni. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Skíðavikan á Ísafirði á sér langa sögu og hafa gestir streymt til Ísafjarðar allt frá því árið 1935 til að taka þátt í hátíðarhöldum hennar vegna. Sú var áður tíðin að nokkurn vegin mátti treysta á að nægur snjór væri á skíðasvæði Ísafjarðar um páska, bæði voru veturnir harðari og einnig vegna staðsetningar svæðisins sem þá var í heild sinni á Seljalandsdal. Hin síðari ár hefur ekki alltaf mátt treysta á veðurguðina til samstarfs, að þeir annarsvegar komi með snjóinn eða haldi veðri og vindum með skaplegum hætti svo útivist sé með góðu móti iðkandi. Í ár bar svo við að dúndursending af snjó mætti í Skutulsfjörð vikuna fyrir páska og í framhaldinu var veðrið með besta móti í páskavikunni.

Að sögn Hlyns Kristinssonar forstöðumanns Skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar ríkti frábær stemning á skíðasvæðunum í Tungudal og á Seljalandsdal um páskana og segir hann snjósendinguna góðu öllu hafa bjargað. Þegar að mest var sóttu á milli 1100 og 1200 manns svæðið og var til að mynda troðin 25km Fossavatnsbraut sem gestir nýttu sér vel. Hlynur segir hvergi slakað á í skíðaiðkuninni því núna séu allir á leið norður í land á Andrésarleikana og í framhaldi af því vindi sér allir í Fossavatnsgönguna, svo fyrir skíðakrakka sé þetta hálfgerður maraþonmánuður.

Esther Arnórsdóttir er framkvæmdastjóri Skíðavikunnar og segist hún mjög sátt með hvernig til tókst í ár og segir slíkt gilda með aðra sem að hátíðinni komu. Hún segir furðufatadaginn í Tungudal hafa heppnast sérlega vel í ár þar sem í þetta sinn tókst að hafa karamelluregnið vinsæla sem hefur þurft að sleppa síðastliðin þrjú ár vegna veðurs og þar skemmti tónlistarmaðurinn Rúnar Eff gestum. Einnig tókst með miklum ágætum furðufatadagurinn á Seljalandsdal sem haldinn var á laugardag og þar tóku þátt í páskaeggjamóti um 50 börn og má sjá á meðfylgjandi myndum sem Hólmfríður Vala Svavarsdóttir tók að þar var gleðin við völd.

annska@bb.is

Um hafið, fjöllin og þetta margslungna fólk

Sæbjörg Freyja Gísladóttir

Á morgun kl.16:00 í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík mun Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur fjalla um meistararitgerð sína.  Rannsóknin fyrir ritgerðina fór fram á Flateyri á árunum 2013-2016.

Að sögn Sæbjargar var rannsóknin etnógrafía, sem felur í sér að rannsakandi reynir að verða hluti af samfélaginu og skilja hvaða óskrifuðu reglur íbúarnir hafa. Sæbjörg flutti jafnframt á Flateyri 2014 og öðlaðist við það dýpri innsýn í samfélagið. Það fylgja því bæði kostir og gallar að búa í smáu sjávarþorpi. Nándin er mikil og traust til náungans er lykilatriði. Stríðnin getur þó verið harkaleg og hvert skref sem einstaklingar tekur er skráð í minni annarra. Það þola ekki allir slíka nánd en ef einhver flytur eða deyr þá snertir það alla í þorpinu. Fiskvinnslan og atvinna hafa alla tíð verið fremur ótrygg á Flateyri en niðurstöður rannsóknarinnar voru meðal annars þær, að á meðan vinnu væri að fá, þá vildi fólk hafa fasta búsetu á eyrinni.

Af hverju Flateyri? Af hverju flytur hópur af Filipseyingum, Pólverjum, Spánverjum, Þjóðverjum, Suður-Afríkubúum, Englendingum og fólk af allskonar þjóðernum á Flateyri? Af hverju á heimsfræg bandarísk myndlistakona hús í þorpinu? Eða leikarapar frá Finnlandi? Eða fremstu kvikmyndagerðarmenn á Íslandi? Eða háskólakennari úr Reykjavík? Hvar eru trillukarlarnir? Og af hverju ákveður meistaranemi í þjóðfræði að gera lokaritgerð um þetta tiltekna þorp? Er ekki allt í volli þar? Frystihúsið alltaf lokað og snjóflóð rétt handan við hornið? Eða er bara eitthvað „sport að vera svona útí rassgati,“ eins og einn viðmælandinn sagði.

bryndis@bb.is

 

Hrafnseyrarheiði ófær – engin undirritun á Hrafnseyri

Snjóflóð og ofankoma hafa nú lokað Hrafnseyrarheiði

Talsvert hefur snjóað í fjöll undanfarna daga og á heiðinni góðu er nú allt á kafi. Það er táknrænt að aflýsa þurfi formlegri undirskrift samninga við verktaka vegna ófærðar en til stóð að undirrita samningana á Hrafnseyri á morgun. Af því verður semsagt ekki en þegar snjóa leysir mun Vegagerðin efna til samkomu og fyrsta skóflustungan að Dýrafjarðargöngum verður tekin með kurt og pí.

bryndis@bb.is

Þingeyrarakademían skorar á Dónald

Eftirfarandi ályktun um utanríkismál var samþykkt í Þingeyrarakademíunni í sundlauginni á Þingeyri síðasta vetrardag 19. apríl 2017:

„Okkur er ljóst að ekkert þýðir að vera með bænakvak í utanríkismálum, eins og Kristján frá Garðsstöðum sagði forðum. Þrátt fyrir það viljum við samt skora á Dónald forseta að tala við kallinn hann Kim Jong Un, eða hvað hann nú heitir. Bjóða honum í kaffi og með því í Hvíta húsinu og kalkún um kvöldið. Það þarf að tala við þennan mikla anda og dýrlega foringja í Norður-Kóreu. Koma því inn í hausinn á honum að það tapa allir á stríði. Sýna honum ýmislegt sniðugt og vita hvort hann tekur ekki sönsum. Hætti öllu kjarnorkubrölti svo fólkið fái að borða. Þetta gengur ekki lengur!“

Skaginn 3X hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Skaginn 3X hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Ingólfi Árnasyni, framkvæmdastjóra Skaginn 3X verðlaunin fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur m.a. mið af verðmætaaukningu útflutnings, þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta sem og markaðssetningu á nýjum markaði.

Skaginn 3X hefur hannað,  þróað og smíðað nýjar tæknilausnir fyrir sjávarútveginn í samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem vakið hafa mikla athygli hér heima og erlendis undanfarið.

,,Það er mikill heiður sem okkur er sýndur með þessum verðlaunum sem Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru. Síðustu mánuði hefur Skaginn 3X unnið til nokkurra verðlauna m.a. Sviföldunnar og Nýsköpunarverðlauna Íslands og við erum stolt og ánægð með þann árangur sem fyrirtækið hefur náð. Skaginn 3X er fyrsta fyrirtækið til að hljóta bæði Nýsköpunarverðlaun Íslands og Útflutningsverðlaun forseta Íslands á sama árinu sem er sérlega ánægjulegur og góður vitnisburður um starf okkar. Tæknin sem fyrirtækið hefur þróað við vinnslu og kælingu á afla færir afköst og gæði upp á annað stig en áður hefur þekkst. Það er einnig mjög ánægjulegt á þessum tímamótum að nefna að margar lausnum okkar eru þróaðar í virku og nánu samstarfi við íslenskan sjávarútveg, sem er okkar kröfuharðasti markaður“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdstjóri Skaginn 3X.

Skaginn 3X er með starfsstöðvar á fjórum stöðum á landinu, Akranesi, Ísafirði, Akureyri og Reykjavík og eru starfsmenn í dag um 200 talsins.

bryndis@bb.is

Safna bókum fyrir bókasafn G.Í.

Bókmenntaandi hefur um árabil svifið yfir vötnum á Ísafirði á sumardaginn fyrsta og er nú sem oft áður boðið upp á dagskrá helgaða börnum og bókum í menningarmiðstöðinni Edinborg. Umræða um lestur barna og barnabækur dúkkar upp með reglulegu millibili, en þó að hverjum kunni að sýnast sitt þá geta flestir sammælst um mikilvægi lestur í uppvextinum og að börn og ungmenni hafi úr vönduðum bókum að velja. Á síðasta ári fór foreldrafélag G.Í. í samstarfi við grunnskólann í átak til að efla bókakostinn á bókasafni skólans. Það tókst með ágætum og verður slíkt hið sama gert í ár. Penninn Eymundsson er líkt og þá í samstarfi við foreldrafélagið og í verslun hans á Ísafirði verða bækurnar á óskalistanum á 20% afslætti og verður listann að finna í versluninni fram til laugardagsins 29.apríl. Einnig ef einhverjir eiga þessar bækur heima við og vilja gefa þær til skólans má koma með þær á skrifstofu skólans á opnunartíma.

Allar bækur eru vel þegnar en óskalistinn fyrir bókasafn Grunnskólans á Ísafirði árið 2017 lítur svona út:

Spennusögur fyrir unglinga eftir norræna höfunda

Dramasögur fyrir unglinga

Enskar bækur fyrir unglinga

Útkallsbækurnar eftir Óttar Sveinsson

Bækurnar um Kidda klaufa eftir Jeff Kinney

Bækurnar um Skúla skelfi eftir Francecsa Simon

Randalín og Mundi bækurnar eftir Þórdísi Gísladóttur

Seiðfólkið I-VI eftir Jo Salmson

Bækur eftir David Walliams

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur

Doddi, bók sannleikans eftir Þórdísi Gísladóttur og Hildi Knútsdóttur

Úlfur og Edda eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur

Endalokin eftir Birgittu Hassel og Mörtu Hlín Magnadóttur

Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason

Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur

annska@bb.is

Fjallað um uppboðskerfi fiskmarkaða í Vísindaportinu

Mynd: uw.is

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna sem er jafnframt hið síðasta í vetur flytur Ísfirðingurinn Bjarni Rúnar Heimisson erindi um meistaraverkefni sitt í reikniverkfræði sem fjallar um uppboðskerfi fiskmarkaða, en Bjarni útskrifaðist úr verkfræðideild Háskóla Íslands síðastliðið haust.

Uppboðskerfi fiskmarkaða olli byltingu í sölu á fiski á Íslandi þegar það var kynnt til sögunnar og var mikið hagsmunamál fyrir sjómenn og útgerðir á Íslandi. Þrátt fyrir að ýmsar leiðir hafi verið farnar til að bæta upplýsingaflæði og gagnsæi kerfisins með nýju upplýsingakerfi og heimasíðu þá virðist framboð enn vera sá þáttur sem hefur mest áhrif á verðmyndun. Það veldur því að sjómenn og útgerðir virðast ekki vera að fá umbun fyrir bætta meðhöndlun.

Markmið verkefnis Bjarna var að finna þau atriði sem ættu að koma fram í uppboðslýsingu á fiskuppboðum en eru ekki til staðar. Framkvæmd var þarfagreining þar sem meðal annars voru tekin viðtöl við mismunandi hagsmunaaðila uppboðskerfisins. Einnig var framkvæmd línuleg aðhvarfsgreining á raungögnum sem fengin voru frá Reiknistofu fiskmarkaða hf. og þessi gögn síðan greind til að finna út hvaða þættir það eru sem hafa mestu áhrif á verð á fiskuppboði. Hagsmunaaðilar bentu á þó nokkra þætti þar sem bæta mætti upplýsingagjöf í uppboðskerfi fiskmarkaða. Nákvæmni spálíkansins sem fékkst er takmarkað, þar sem fleiri þættir hafa áhrif á verðið en fram koma í uppboðslýsingu. Verkefnið er opið fyrir áhugasama: http://skemman.is/item/view/1946/26204.

Bjarni Rúnar er fæddur og uppalinn á Ísafirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði vorið 2010. Þaðan lá leiðin suður í nám við Háskóla Íslands þar sem Bjarni lauk B.Sc gráðu í iðnaðarverkfræði vorið 2013, B.Sc gráðu í tölvunarfræði í febrúar 2016 og M.Sc gráðu í reikniverkfræði í október 2016.

Bjarni starfaði í mörg ár á Fiskmarkaði Suðurnesja á Ísafirði samhliða skólagöngu sinni og var því alkunnur umhverfi fiskmarkaða áður en lokaverkefni hans fór af stað. Í dag starfar hann sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania en áður starfað hann sem stundakennari við Háskóla Íslands og í ýmsum öðrum hugbúnaðarverkefnum.

Sem fyrr stendur Vísindaport frá 12.10-13.00 og er opið öllum áhugasömum. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á íslensku.

annska@bb.is

Ábyrgðarkeðjan má ekki rofna

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Keðjuábyrgð til höfuðs brotastarfsemi

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem lýtur að því að sett verði lög um keðjuábyrgð, þ.e. ábyrgð verktaka á því að undirverktakar hans standi skil á samningsbundnum launum, greiði opinber gjöld og hagi starfsemi sinni almennt samkvæmt lögum og reglum íslensks vinnumarkaðar.

Ástæða þess að VG lagði fyrrnefnt þingmál fram er að misferli á vinnumarkaði hefur farið vaxandi undanfarið og birtist það meðal annars í brotum gegn skattalöggjöf og félagslegum undirboðum sem beinast sérstaklega að útlendingum og ungu fólki.

Með lögum um keðjuábyrgð verktaka yrði leitast við að koma í veg fyrir undirboð á vinnumarkaði, brotum á ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjöf, félagslegum undirboðum og ýmsum tegundum af skattsvikum og jafnvel mansali en allt eru þetta afleiðingar þess ábyrgðarleysis sem hefur einkennt hluta íslensks vinnumarkaðar undanfarin ár. Svört starfsemi sem þessi felur vitaskuld í sér brot gegn starfsfólkinu sem verður fyrir því að fá ekki laun sín greidd og samfélaginu öllu sem ekki fær sín réttmætu gjöld og hún grefur jafnframt undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem rekin eru á eðlilegum forsendum og virða lög og kjarasamninga. Hert lagaumgjörð sem treystir veiku hlekkina í ábyrgðarkeðjunni er öflugasta vopnið gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki og fyrrnefnt þingmál VG stuðlar að því að því verði beitt.

Jákvæðar umsagnir enda mikið í húfi

Þær umsagnir sem hafa komið um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð taka nær allar undir það sjónarmið að nauðsynlegt sé að innleiða keðjuábyrgð og tryggja þurfi að undirverktakar greiði þau opinberu gjöld sem þeim ber að inna af hendi og virði lög og kjarasamninga.

Í umsögn embættis Skattrannsóknarstjóra kemur fram að 22 verktakafélög séu nú til rannsóknar hjá embættinu vegna gruns um að þau hafi reynt að komast undan lögbundnum skattgreiðslum með því að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka. Samanlögð upphæð þessara mála nemur 2 milljörðum sem sýnir hversu mikið er í húf og hvað samfélagið getur verið að tapa miklum tekjum til sameiginlegra verkefna fyrir utan svikin við launafólk.

Er veikur hlekkur í stjórnkerfinu?

Eina neikvæða umsögnin um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð barst frá Samtökum atvinnulífsins. Þau töldu ekki rétt að lögbinda keðjuábyrgð og álíta að þeim vanda sem hún beinist gegn væri hægt að mæta með öðrum hætti. Fyrrverandi framkvæmdastjóri SA er nú orðinn félagsmálaráðherra. Hann ætti að þekkja vel til þessara mála en velur þó að taka málið lausatökum í nýju frumvarpi sem hann lagði fram á dögunum um keðjuábyrgð, en það nær eingöngu til erlendrar verktakastarfsemi hér á landi en ekki til alls vinnumarkaðarins. Þetta hefir ASÍ gagnrýnt og telur að samkomulag hafi verið um að hægt væri að taka aðra aðila á vinnumarkaði inn án lagabreytinga. Að sjálfsögðu á allur vinnumarkaðurinn að vera undir og víða í Evrópu hefur keðjuábyrgð verið innleidd enda ekki vanþörf á í vinnuumhverfi þar sem félagsleg undirboð eru mikið vandamál.

Skýr krafa um ábyrga starfshætti og óslitna keðju

Nokkrir stórir verkkaupar hér á landi hafa þegar sett ákvæði um keðjuábyrgð í samninga sína við verktaka, meðal annars Landsvirkjun, Ríkiskaup, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær og viðurkennt þannig mikilvægi og nauðsyn ábyrgðarkeðjunnar. Málið hefur og verið tekið upp í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði enda ólíðandi að félagsleg undirboð og skattastuldur eigi sér stað án þess að samfélagið komi vörnum við.

Við eigum öll heimtingu á því að hvert og eitt þeirra fyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi, hvort sem þau eru innlend eða erlend, virði kjarasamninga, greiði laun í samræmi við þá og haldi í heiðri þau réttindi sem launafólk hefur öðlast með kjarabaráttu sinni. Þingmál VG um keðjuábyrgð stuðlar að þessu og yrði bæði launafólki og sómakærum atvinnurekendum hagur í að það hlyti samþykki.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna í NV-kjördæmi.

 

Vaxandi hlutdeild stórlaxa í Langadalsá

Hlutdeild stórlaxa í gönguseiðaárgöngum í Langadalsá fer nú vaxandi eftir stöðuga fækkun undanfarna áratugi. Stangaveiðin á laxi 2016 var yfir langtíma meðalveiði og einkenndist af lélegum smálaxagöngum, en stórlaxaveiðin var sú mesta frá árinu 1980. Hrygning laxa í ánni hefur aukist mjög undanfarinn áratug samfara auknum göngum laxa, aukningu í fjölda og hlutdeild stórlaxa og skyldusleppingum þeirra í  veiðinni. Þetta hefur skilað margfaldri nýliðun seiða miðað við mælingar frá níunda og tíunda  áratugnum. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um vöktun á stofnum lax og bleikju í Langadalsá við Ísafjarðardjúp árið 2016, en slík hefur farið fram árlega síðan árið 2013.  Markmið með rannsóknunum er að vakta breytingar á umhverfisþáttum,  veiðinýtingu, hrygningu og nýliðun fiskstofnanna auk þess sem fylgst er með lífssögulegum þáttum þeirra. Sumarið 2016 var í  fyrsta sinn komið fyrir fiskteljara í Langadalsá til að kanna stærð laxa – og bleikjugöngunnar,  göngutíma og veiðihlutfall laxfiskastofna í stangaveiðinni.

Alls gengu 225 laxar og 39 bleikjur upp fyrir fiskteljarann í Langadalsá sumarið 2016 og skiptist laxagangan jafnt á milli smálaxa og stórlaxa (112 smálaxar og 113 stórlaxar).  Nokkur lax, einkum tveggja ára lax úr sjó, var genginn í Langadalsá þegar að teljarinn var settur niður þann 29. júní og höfðu þá þegar veiðst 22 laxar í ánni, en veiðar í ánni hófust 24. júní. Heildartalning bleikju og lax inn á vatnasvæðið liggur því ekki fyrir.

Langadalsá er ein af stærri veiðiám við Ísafjarðardjúp.  Verðmæt veiðinýting á laxi og bleikju hefur verið stunduð í ánni frá því um miðja 20. öld. Veiðimálastofnun hefur annast með hléum rannsóknir á fiskstofnum árinnar fyrir Veiðifélag Langadalsár, en lax er ríkjandi tegund í ánni auk bleikju.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir