Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir keppti um helgina á Malmö open í Svíþjóð. Kristín, sem nýlega hampaði titlinum íþróttamaður Ísafjarðarbæjar, fjórða árið í röð, sýndi þar og sannaði að hún er hvergi nærri af baki dottin og landaði þar þrennum gullverðlaunum. Kristín hélt utan á föstudag ásamt þjálfara sínum, Svölu Sif Sigurgeirsdóttur og móður sinni og sérlegum aðstoðarmanni, Sigríði Hreinsdóttur. Á laugardag keppti Kristín í 50m flugsundi og tók þar gullið í flokki DS. Hún synti á tímanum 42,42 sem er 2,01 sek bæting frá því að hún synti þessa grein síðast í jafnt langri laug og stakk hún aðra keppendur af þar sem 13 sekúndur voru svo í 2.sætið.
Kristín keppti svo aftur í gær og var þá 100m baksund fyrst á dagskrá, sundið sem var annars gott, var gert ógilt eftir að hún snéri hún sér svo of snemma inn í snúninginn eftir 2 ferðir, sem sundkonan var, líkt og gefur að skilja afar ósátt með. Kristín hélt svo sigurgöngu sinni á sundbrautinni áfram eftir hádegið er hún landaði fyrst gulli í 50m skriðsundi er hún synti á tímanum: 37.27 og síðan í 50m baksundi er hún kom fyrst í mark á tímanum: 47.88.
Í pistli sem þjálfari hennar Svala Sif skrifaði á Fésbókarsíðu sundkonunnar Kristínar segir að keppni lokinni hafi tekið við hvíld og dekur fram á þriðjudag er þær stöllur snúa aftur heim.
Malmö OPEN er alþjóðlegt íþróttamót fatlaðra í Malmö. Mótið er eitt það stærsta sinnar tegundar í Evrópu og hefur það verið haldið allar götur frá árinu 1977. Hefur það vaxið að vinsældum og umfangi síðan, bæði er viðkemur keppnisgreinu
m og þátttakendafjölda, en þar keppa nú á þriðja þúsund keppendur í 18 íþróttagreinum.