Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 2219

Kristín bætir við sig gullum

Kristín sátt með gullið í 50m baksundi. Mynd af Fésbókarsíðu sundkonunnar.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir keppti um helgina á Malmö open í Svíþjóð. Kristín, sem nýlega hampaði titlinum íþróttamaður Ísafjarðarbæjar, fjórða árið í röð, sýndi þar og sannaði að hún er hvergi nærri af baki dottin og landaði þar þrennum gullverðlaunum. Kristín hélt utan á föstudag ásamt þjálfara sínum, Svölu Sif Sigurgeirsdóttur og móður sinni og sérlegum aðstoðarmanni, Sigríði Hreinsdóttur. Á laugardag keppti Kristín í 50m flugsundi og tók þar gullið í flokki DS. Hún synti á tímanum 42,42 sem er 2,01 sek bæting frá því að hún synti þessa grein síðast í jafnt langri laug og stakk hún aðra keppendur af þar sem 13 sekúndur voru svo í 2.sætið.

Kristín keppti svo aftur í gær og var þá 100m baksund fyrst á dagskrá, sundið sem var annars gott, var gert ógilt eftir að hún snéri hún sér svo of snemma inn í snúninginn eftir 2 ferðir, sem sundkonan var, líkt og gefur að skilja afar ósátt með. Kristín hélt svo sigurgöngu sinni á sundbrautinni áfram eftir hádegið er hún landaði fyrst gulli í 50m skriðsundi er hún synti á tímanum: 37.27 og síðan í 50m baksundi er hún kom fyrst í mark á tímanum: 47.88.

Í pistli sem þjálfari hennar Svala Sif skrifaði á Fésbókarsíðu sundkonunnar Kristínar segir að keppni lokinni hafi tekið við hvíld og dekur fram á þriðjudag er þær stöllur snúa aftur heim.

Malmö OPEN er alþjóðlegt íþróttamót fatlaðra í Malmö. Mótið er eitt það stærsta sinnar tegundar í Evrópu og hefur það verið haldið allar götur frá árinu 1977. Hefur það vaxið að vinsældum og umfangi síðan, bæði er viðkemur keppnisgreinu

Kristín, Svala Sif og Sigríður í ferðalaginu á föstudaginn. Mynd af Fésbókarsíðu sundkonunnar.

m og þátttakendafjölda, en þar keppa nú á þriðja þúsund keppendur í 18 íþróttagreinum.

annska@bb.is

Milljarður á dag

Tap vegna verkfalls sjómanna er metið fleiri milljarða króna og standi verkfallið lengur er áætlað að tapið geti numið um það bil milljarði á dag. Þetta kemur fram í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um áhrif verkfallsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir skýrsluna ekki leysa kjaradeiluna en hún varpi þó ljósi á þjóðfélagslegt tap deilunnar og gæti nýst í framtíðinni

Heildaráhrif verkfallsins á ráð- stöfunartekjur sjómanna eru talin nema um 3.573 milljónum króna til 10. febrúar 2017; tekjutap 2.400- 2.600 fiskverkamanna er metið á um 818 milljónir króna; tekjutap ríkissjóðs er gróft áætlað á tímabilinu 2,5 milljarðar króna og sveitarfélaga einn milljarður króna. „Ekki er hægt að halda því fram að þjóðhagslegt tap af völdum verkfallsins hafi numið 960-1.160 milljónum króna á hverjum verkfallsdegi hingað til, en bent er á að rannsóknir gefi það til kynna að við algjört og langvarandi vinnslustopp nálgist hið þjóðhagslega tap á degi hverjum þessar upphæðir. Vinnustoppið nú er hvorki algjört né langvarandi, en er engu að síður mjög víðtækt og hefur dregist á langinn þannig að áhrifa þess gætir nú talsvert víðar í hagkerfinu en á fyrstu vikum verkfallsins,“ segir í skýrslunni.

smari@bb.is

Fyrsti titill Vestra

9. flokkur Vestra með þjálfurum.

Drengirnir í 9. flokki Vestra gerðu sér lítið fyrir í gær og sigruðu val 60-49 í úrslitaleik Maltbikarsins í körfubolta. Fyrri hálfleikur leiksins  jafn og spennandi, en Vestradrengir voru þó yfirleitt skrefinu á undan. Eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 12-12 og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Vestri stigi yfir, 23-24.

Í hálfleik var Ástþór Atli Svalason atkvæðamestur fyrir fyrir Val með 5 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Fyrir Vestra var það Hugi Hallgrímsson með 5 stig, 9 fráköst og 4 varin skot. Í upphafi seinni hálfleiksins var leikurinn svo áfram í járnum, eftir 3. leikhluta var staðan aftur jöfn 38-38.

Undir lok leiksins tók Vestri svo öll völd á vellinum og kláraði leikinn með miklum glæsibrag. Bræðurnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir voru gott betur en drjúgir fyrir Vestra og skoruðu 43 af 60 stiga liðsins og var Hugi valinn maður leiksins.

smari@bb.is

Inflúensan líklega í hámarki

Frá því í lok nóvember 2016 hefur inflúensa A(H3) verið staðfest hjá 226 einstaklingum á landinu er fram kemur á vef Landlæknisembættisins. Í síðustu viku greindust fleiri með staðfesta inflúensu samanborið við vikurnar á undan og hefur hún nú verið staðfest í öllum landshlutum. Inflúensan er hlutfallslega algengari meðal 60 ára og eldri, meðalaldurinn er 63 ár hjá þeim sem greinst hafa frá því í nóvember. Inflúensan var fyrr á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu en á síðustu vikum hefur inflúensan farið hægt vaxandi á landsbyggðinni. Frá því í byrjun desember hafa alls 95 einstaklingar legið á Landspítala vegna inflúensu, flestir yfir 70 ára, þar af greindist 21 í síðustu viku sem er aukning borið saman við vikurnar á undan.

Inflúensan er útbreidd í samfélaginu, sennilega er hún í hámarki núna og gera má ráð fyrir að tilfellum fækki á næstu vikum. Inflúensa A(H3N2) er sá stofn sem hefur verið í dreifingu, en ekki er útilokað að inflúensa A(H1N1) eða inflúensa B eigi eftir að koma í kjölfarið á næstu vikum.

Þeim fjölgar sem sem greinast með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) en hún hefur greinst hjá alls 114 einstaklingum frá því í byrjun október, þar af 19 í síðustu viku sem er svipaður fjöldi og hefur greinst á síðastliðnum vikum. Það má því gera ráð fyrir að RSV sé í dreifingu í samfélaginu. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum er þekktur áhættuhópur. Þá er fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang eins og gera má ráð fyrir á þessum árstíma.

annska@bb.is

Botnfiskaflinn 80% minni

Треска á rússnesku

Heildarafli botnfisks og flatfisks dróst saman um 80% frá 1. janúar til 8. febrúar miðað við sama tíma í fyrra en verkfall sjómanna hefur staðið allt tímabilið og gott betur. Aflinn á þessu tímabili var 48.000 tonn í fyrra en er 9.300 tonn í ár, samkvæmt bráðabirgðatölum um landaðan afla á vef Fiskistofu og greint er frá í Fiskifréttum. Samdrátturinn milli ára nemur 38.700 tonnum.  Þótt smábátar hafi verið iðnir við kolann í verkfallinu er afli þeirra næstum hinn sami og í fyrra eða um 7.800 tonn.

smari@bb.is

Verndunaráætlun fyrir Surtabrandsgil

12 milljón ára gamlir steingervingar finnast í Surtarbrandsgili

Búið er að vinna tillögu að stjórnunar- og verndunaráætlun fyrir náttúrvættið Surtabrandsgil á Barðaströnd. Tillagan er unnin af fulltrúum Vesturbyggðar, ábúenda á Brjánslæk  og Umhverfisstofnunar. Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 og var markmiðið með friðlýsingunni að vernda surtarbrand og leirlög þar sem er að finna steingerðar leifar gróðurs tegundaríkustu skóga sem fundist hafa í jarðlögum hér á landi og klæddu landið fyrir um 12 milljónum ára. Undanfarin ár hefur ferðamannastraumur aukist á svæðinu og er svæðið nú á appelsínugulum lista Umhverfisstofnunar yfir svæði sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu. Helsta ógn Surtarbrandsgils er brottnám steingervinga úr gilinu.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Surtarbrandsgil er ætlað að vera stefnumótandi skjal og unnið í samvinnu við sveitarfélag og ábúendur á ríkisjörðinni Brjánslæk, er hún hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun Surtarbrandsgils og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Með áætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt aðgerðaráætlun til 5 ára.

Frestur til að skila inn athugasemdum við tillöguna er til 23. mars 2017.

Hér má nálgast tillöguna

smari@bb.is

Eflum geðheilbrigðisþjónustu ungs fólks

Guðjón Brjánsson

Geðheilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk, einkum nemendur í framhaldsskólum hefur verið til umræðu að undanförnu og það er vel. Þetta er brýnt málefni sem varðar ungmenni á Vestfjörðum ekki síður en aðra landsmenn.

Framhaldsskólar hafa átt í fjárhagslegum þrengingum undanfarin ár og ekki haft bolmagn til að bæta hér úr með varanlegum og góðum hætti.  Þó hafa skólarnir eftir föngum, m.a. M.Í. leitast við að koma til móts við nemendur í vanda. Samstarf við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er til fyrirmyndar og regluleg viðvera hjúkrunarfræðings innan veggja skólans leysir hluta af aðkallandi erfiðleikum nemenda.

Stigin voru mikilvæg fyrstu skref í eflingu geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum með lítilsháttar fjárveitingu til ráðningar sálfræðinga á fjárlagaárinu 2016 sem þó dugar hvergi.

Samfylkingin lagði fram tillögu um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum á vorþingi í fyrra en þá var fyrsti flutningsmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður. Þetta var síðan eitt þeirra forgangsmála sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram að nýju nú á haustþingi.

Brottfall framhaldsskólanema er alvarlegur vandi á Íslandi en aðeins 44% nemenda lýkur námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og eru þau þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf og er hægt að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Vegna þessa hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa víða í skólakerfinu, sem hafa jafnan ekki sérmenntun né forsendur til þess að takast á við vandann. Einstaka skólar hafa í neyð sinni brugðist við og falið t.d. námsráðgjöfum aukin hlutverk á þessu sviði.  Það er hins vegar ófullnægjandi, bregðumst við kallinu og aukum gott aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.

Markmið tillögu okkar í Samfylkingunni er að í byrjun skólaárs 2017–2018 verði tryggt að í öllum fram­haldsskólum landsins hafi nemendur aðgang að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu.

Við gerum ráð fyrir að ráðherra útfæri nánar með hvaða hætti þjónustan verði veitt og að miðað verði við að einn sálfræðingur í fullu starfi geti sinnt um 700 nemend­um. Ber að miða þjónustuþörf fámennari jafnt sem fjölmennari skóla við það hlutfall.

Það væri Alþingi og ráðherra til mikils sóma að ljúka þessu máli í góðri sátt.

Guðjón Brjánsson

Alþingismaður

Stór stund í vestfirskum körfubolta

Níundi flokkur drengja hjá Vestra tryggðu sér á dögunum leik um bikarmeistaratitil KKÍ með frækilegum sigri á Fjölni á útivelli. Á sunnudaginn kemur, þann 12. febrúar, rennur stóra stundin upp þegar liðið mætir Valsmönnum í úrslitaleiknum. Leikurinn hefst klukkan 9:45 og fer að sjálfsögðu fram í Laugardalshöllinni. Allir stuðningsmenn Vestra sem staddir eru á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta í Höllina og styðja strákana. Það þarf þó enginn að missa af leiknum því hann verður sýndur í beinni útsendingu á vef RÚV.

Níundi flokkur er yngsti aldursflokkurinn sem tekur þátt í bikarkeppni KKÍ. Leikurinn er því frumraun leikmanna beggja liða á stóra sviðinu og verður dýrmæt reynsla fyrir alla þátttakendur. Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari piltanna er þó enginn nýgræðingur þegar kemur að bikarúrslitaleikjum. Hann hefur bæði stýrt meistaraflokki kvenna og yngri flokkum til sigurs í úrslitum, fyrir utan að eiga að baki fjölda Íslandsmeistaratitla með yngri flokkum og meistaraflokkum. Reynslubrunnur Yngva mun því án efa koma liðinu vel á sunnudag þegar á hólminn er komið.

Það er nokkuð síðan vestfirðingar áttu síðast fulltrúa í Höllinni á bikarhelgi KKÍ. Flestir körfuboltaáhugamenn muna þó eftir bikarævintýrinu árið 1998 þegar meistaraflokkur KFÍ lék gegn Grindavík.

smari@bb.is

Fokk ofbeldi-húfurnar aftur í sölu

Eva María og Unnsteinn með FO húfur, en þau eru verndarar UN Women á Íslandi

Í dag hóf UN Women á Íslandi sölu á nýrri húfu undir slagorðinu „Fokk ofbeldi.“ Húfunni er ætlað að vekja fólk til vitundar um það stöðuga ofbeldi sem konur og stelpur þurfa að þola á almenningssvæðum í borgum heimsins. Á síðasta ári var farið í samskonar herferð og létu viðbrögðin ekki á sér standa en húfurnar seldust þá upp á einungis fimm dögum.

Ofbeldi gegn konum, stúlkum og börnum í almenningsrýmum er vandamál um allan heim er segir í fréttatilkynningu frá UN Women á Íslandi. Þar segir jafnframt að konur sem búa á þéttbýlissvæðum séu tvöfalt líklegri til að verða fyrir ofbeldi, sérstaklega í fátækustu löndum heims samkvæmt rannsóknum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Meira að segja í öruggustu borgum heims eins og Reykjavík verða konur fyrir ofbeldi af ýmsu tagi fyrir það eitt að vera konur. Víða um heim er slíkt ofbeldi daglegt brauð sem hamlar konum að lifa eðlilegu lífi eins og að ferðast til og frá vinnu, ganga í skóla eða eiga sér félagslíf. Með verkefninu Öruggar borgir (Safe Cities Global Initiative) vinnur UN Women að því að gera borgir heimsins öruggari fyrir konur og stúlkur með sértækum lausnum út frá svæðisbundnum veruleika.

Með því að kaupa húfuna tekur fólk þátt í að auka öryggi kvenna og stúlkna í borgum um allan heim, er ágóðinn rennur til verkefnis UN Women Öruggar borgir og styrkti Vodafone framleiðsluna svo allur ágóðinn rennur til verkefnisins. UN Women segja Fokk ofbeldi húfuna ætlaða fullorðnum. Orðalagið er sagt vísvitandi ögrandi og ætlað að hreyfa við fólki og það hafi hugfast að ein af hverjum þremur konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Húfurnar, sem eru í takmörkuðu upplagi, fást í vefverslun UN Women á Íslandi sem og í verslun Vodafone í Kringlunni dagana frá og með deginum í dag og til 24. febrúar.

Eitt mikilvægasta verkefni UN Women á Íslandi er að styðja við verkefni UN Women um heim allan heim sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum, efla réttindi þeirra og þátttöku þeirra í stjórnmálum. UN Women vinnur einnig að efnahagslegslegri valdeflingu kvenna ásamt því að tryggja að þörfum kvenna og stúlkna í neyð sé mætt. Samtökin standa fyrir fjölda herferða og  hafa farið nýstárlegar leiðir við að vekja landsmenn til umhugsunar um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna um víða veröld. Í næstu viku standa þau til að mynda fyrir dansbyltingu gegn ofbeldi, Milljarður rís, sem meðal annars fer fram á Ísafirði í Edinborgarhúsinu í hádeginu föstudaginn 17.febrúar.

annska@bb.is

Taka þátt í 112 deginum

Lögreglan á Vestfjörðum, Slökkvilið Ísafjarðarbæjar og Björgunarfélag Ísafjarðar taka þátt í 112 deginum sem verður haldinn um allt land og verða til taks við Menntaskólann á Ísafirði milli kl 14 og 16 á morgun. Tæki þessara mikilvægu viðbragðsaðila verða til sýnis og hægt er að fræðast um starfsemina. „Það er hlutverk okkar að bregðast við beiðnum frá neyðarnúmerinu 112 og því langar okkur að kynna hvaða tækjakostur er hér á svæðinu og sérstaklega er unga kynslóðin boðin velkomin. Við hlökkum til að sjá ykkur,“ segir í tilkynningu.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir