Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2219

Selja allar Fokker 50 vélarnar og kaupa aðra Q200 í flotann

Allar Fokker 50 vélar Flugfélags Íslands hafa nú verið seldar

Flugfélag Íslands hefur skrifað undir samninga við kanadíska fyrirtækið Avmax um sölu á fjórum Fokker 50 vélum félagsins, varahreyfli og varahlutum tengdum Fokker vélunum. Með þessum samningum lýkur sögu Fokker 50 véla í eigu Flugfélags Íslands en þær hafa verið hjá félaginu frá 1992 og fyrirrennarar þeirra, Fokker 27 frá því árið 1965.  Í tengslum við þessa sölu kaupir Flugfélag Íslands eina Bombardier Q200, 37 sæta vél af Avmax en fyrir er félagið með tvær slíkar vélar í rekstri, en það eru vélarnar sem notaðar eru í áætlanaflug félagsins til Ísafjarðar. Gert er ráð fyrir að Q200 vélin komi í rekstur félagsins um næstu áramót en afhending Fokker 50 vélanna mun fara fram á næstu vikum.

Í fréttatilkynningu frá Flugfélagi Íslands segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri félagsins:  „Með þessum samningum er lokið þeirri endurnýjun sem lagt var upp með í flugflota félagsins og er það mjög mikilvægur áfangi í því að efla félagið til frekari vaxtar. Með því að bæta einni Bombardier Q200 vél í rekstur félagsins mun sveigjanleiki félagsins aukast og ný tækifæri skapast til að efla leiðarkerfið enn frekar.“

annska@bb.is

Breytingar á bb.is

Glöggir lesendur bb.is hafa væntanlega tekið eftir breytingum á efstu valmynd á bb.is, þar er kominn sér flipi fyrir fréttir af Dýrafjarðargöngum og þar verður hægt að nálgast allar fréttir sem við flytjum af framvindu þess merka og mikilvæga verkefnis.

Veður og færð hefur verið flutt undir ýmislegt, það verður vonandi fyrirgefið.

bryndis@bb.is

Selveiðimenn og selkjöt í Edinborg í kvöld

Sealers verður sýnd í Edinborgarhúsinu í kvöld

Heimildarmyndin Ishavsblod – De siste selfangerne, eða Sealers – the last hunt líkt og hún nefnist upp á enska tungu verður sýnd í Edinborgarhúsinu í kvöld klukkan 19. Myndin sem er gerð af norsku kvikmyndargerðarkonunum Gry Elisabeth Mortensen og Trude Ottersen var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni IDFA í Asterdam í nóvember á síðasta ári og í byrjun janúar var hún svo frumsýnd í Noregi. Sealers segir af áhöfn selveiðiskipsins Havsel sem er reglulegur gestur í Ísafjarðarhöfn og veiðum þeirra við Grænlandsstrendur. Selveiðar hafa nánast lagst af hjá norðmönnum líkt og fleiri þjóðum, en Havsel er eina selveiðiskipið sem gert er út frá Noregi, sem er mikil breyting frá því í upphafi 20.aldar er þau voru 200. Veiðarnar sem hafa verið mikið gagnrýndar af dýraverndunarsinnum eru deyjandi grein og þrátt fyrir að vera eina selveiðiskip norðmanna, þá heldur það einungis í einn túr á ári, sem stendur í um sjö vikur.

Myndin hefur fengið frábærar viðtökur, hún er með 8,6 í einkunn á IMDb, sem telst afar gott og hefur margoft verið uppselt á sýningar á henni. Heimamenn í Noregi hafa verið forvitnir að bera augum síðustu selveiðimennina sem halda merkjum þessarar gömlu hefðar á lofti í nokkrar vikur á ári á milli þess sem þeir sinna öðrum störfum þar sem enginn þeirra hefur selveiðar að aðalstarfi.

Nú stendur yfir árviss heimsókn Havsel til Ísafjarðar áður en áhöfnin heldur á veiðar og í  kvöld gefst Ísfirðingum og nærsveitungum kostur á að bera Sealers augum. Selveiðimennirnir verða á staðnum og bjóða gestum að smakka selkjöt á milli 18:30 og 19 og einnig munu þeir sitja fyrir svörum að sýningu myndarinnar lokinni. Myndin er um einn og hálfur klukkutími að lengd og er hún á norsku með enskum texta. Enginn aðgangseyrir verður á myndina en baukur á staðnum fyrir frjáls framlög gesta.

Hér má sjá stiklu úr myndinni.

annska@bb.is

Allur lax er hollur

Ný norsk rannsókn bendir til þess að meira sé af mengandi eiturefnum í villtum laxi  en í eldislaxi, þetta kemur fram á Visir.is  og kemur þessi niðurstaða mörgum á óvart. Að órannsökuðu hefðu flestir talið að villti laxinn hlyti að vera hollari en eldislax.

Á forskning.no kemur fram að þetta sé fyrsta stóra rannsóknin sem beri saman villtan lax og eldislax. Rannsóknin leiðir í ljós það sé minna af mengandi eiturefnum í eldislaxinum en á móti kemur að það meira um næringarefni í þeim villta.

Anne-Katrine Lundebye vísindamaður sem stóð fyrir rannsókninni vill þó fullvissa neytendur um að lax, villtur eða alinn, sé afbragðs góð og holl fæða, magn eiturefna sé ekki í þeim mæli að ástæða sé til að óttast.

Síðasta rannsókn hvað þetta varðar var birt árið 2004 en hún komst að þeirri niðurstöðu að í eldislaxinum væri meira magna eiturefna en í þeim villta.  Í umfjöllun um þessa nýju rannsókn eru niðurstöðurnar frá 2004 dregnar í efa vegna þess að þar voru bornar saman ólíkar tegundir laxa og því ekki samanburðarhæfar, sérstaklega vegna mismunandi fituinnihalds.

Hér má nálgast umfjöllun um rannsóknina.

Bryndis@bb.is

Fylgiskjöl fundargerða á heimasíðu

Fyrir skömmu hóf Ísafjarðarbær að birta fylgiskjöl fundargerða á heimasíðu bæjarins. Ávallt hefur verið hægt að óska eftir að fá fylgiskjöl nefndafunda afhent eftir að fundi lýkur, en birting fylgiskjala á heimasíðunni gerir fólki kleift að lesa á auðveldan hátt það sem liggur að baki ákvörðunum kjörinna fulltrúa og eflir þar með opinbera stjórnsýslu og þjónustu við bæjarbúa.

Þetta kemur fram á heimasíðu Ísafjarðarbæjar

bryndis@bb.is

Nóg um að vera hjá Fræðslumiðstöðinni

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Það er mikið um að vera hjá Fræðslumiðstöðinni í maí. Mörg spennandi námskeið eru framundan og flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fyrst má nefna fjögur stutt námskeið fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem miðast að því að þjálfa starfsfólk og vekja það til umhugsunar um starf sitt í þjónustukeðjunni. Námskeiðin fjalla um meðhöndlun matvæla, mikilvægi hreinlætis, þrif og þjónustu.

Nú í vor verður Fræðslumiðstöðin með fjögur endurmenntunarnámskeið fyrir bílstjóra í vöruflutningum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Atvinnubílstjórum með ökuréttindi í flokkum C1, C, D1 og D er gert að sækja 35 kennslustunda endurmenntun á fimm ára fresti. Þeir bílstjórar sem fengið hafa réttindi sín fyrir 10. september 2013 þurfa að ljúka endurmenntun fyrir 10. september 2018. Fræðslumiðstöðin hefur fengið viðurkenningu frá Samgöngustofu til þess að bjóða upp á þessa endurmenntun og er það skemmtileg viðbót við námskeiðaflóruna hjá okkur.

Í samstarfi við fræðslusetrið Starfsmennt verður boðið upp á frítt námskeið um stjórnun álags og streitu fyrir þá sem greiða í SFR, VerkVest og Verkalýðs- og Sjómannafélag Bolungarvíkur. Námskeiðið verður 17. maí og leiðbeinandi er Ingrid Kuhlmann. Skráningar fara í gegnum Starfsmennt í síma 550-0060. Aðrir eru velkomnir en greiða þá fullt námskeiðsgjald.

Bandalag Háskólamanna mun bjóða upp á námskeið eða vinnustofu um framsækni og öruggri tjáningu í samstarfi við Fræðslumiðstöðina þann 11. maí. Leiðbeinandi á námskeiðinu er hin landsþekkta Sigríður Arnardóttir, betur þekkt úr þáttunum Fólk með Sirrý. Námskeiðið er frítt fyrir þá sem greiða í BHM en aðrir greiða fullt þátttökugjald. Skráning fer fram í gegnum heimasíðu eða síma Fræðslumiðstöðvarinnar.

bryndis@bb.is

Hrafneyrar- og Dynjandisheiðar lokaðar

Veðurstofa Íslands spáir vestlægri eða breytilegri átt á Vestfjörðum í dag, yfirleitt hægum vindi. Skýjað verður með köflum og lítilsháttar él. Hiti um og yfir frostmarki að deginum. Veður verður með svipuðum hætti á morgun, en á sunnudag bætir í vind og herðir frost, en bjart veður.

Hálkublettir eru víða á heiðum og hálsum á Vestfjörðum en hálka á Klettshálsi og snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og vegna snjóflóðahættu verður ekki farið í mokstur í dag.  Þungfært er norður í Árneshrepp á Ströndum en unnið að hreinsun.

Í næstu viku verða lokanir í Hvalfjarðargöngum vegna viðhaldsvinnu og þrifa. Lokað verður í fjórar nætur frá 24.-27.apríl. Lokað verður frá miðnætti til klukkan 6 að morgni, en á mánudagskvöld loka göngin þó klukkan 22.

annska@bb.is

Nebojsa semur við Vestra

Ingólfur Þorleifsson og Nebojsa Knezevic handsala samninginn. Mynd: vestri.is

Nebojsa Knezevic er ekki á leiðinni suður, það var staðfest á dögunum þegar hann undirritaði nýjan samning við Körfuknattleiksdeild Vestra.

Á vef Vestra kemur fram að stjórn Körfuknattleiksdeildarinnar sé afar ánægð með að hafa  tryggt sér krafta þessa hæfileikaríka leikmanns næsta tímabil. Auk þess að leika með liðinu mun Nebojsa sinna starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks og taka að sér þjálfun yngri flokka. Nebojsa er frábær liðsfélagi og fagmaður í körfubolta sem styrkir liðið bæði innan vallar sem utan. Hann hefur verið meðal bestu leikmanna 1. deildarinnar undanfarin þrjú ár. Á tímabilinu sem er ný lokið lék hann 19 leiki, skoraði 19 stig, tók 8 fráköst og gaf 3 stoðsendingar að meðaltali þrátt fyrir að deila stöðu sinni með öðrum erlendum leikmanni.

bryndis@bb.is

Ný námskeið í ungbarnasundi að hefjast

Ungbarnasund hefur löngum notið vinsælda, bæði hjá foreldrum ungra barna og oftar en ekki síður hjá krílunum sjálfum sem njóta þess að busla í vatninu og vinna þau verkefni sem fyrir þau eru þar lögð. Signý Þöll Kristinsdóttir hefur síðustu ár kennt ungbarnasund á Ísafirði og er hún nú að fara af stað með ný námskeið bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Byrjendanámskeiðið verður kennt tvisvar í viku og einu sinni í viku hjá framhaldshóp og hefjast bæði námskeiðin fimmtudaginn 27.apríl í sundlaug endurhæfingardeildar HVEST.

Tekið er við skráningum í skilaboðum á fésbókarsíðu Ungbarnasunds Signýjar, þar sem þarf að koma fram nafn barns og fæðingardagur, auk nafn foreldris og símanúmer.

annska@bb.is

Bæjarins besta í ógöngum

15. tbl. 2017

15. tölublað Bæjarins besta hefur gengið í gegn mikla erfiðleika og mun að öllum líkindum teljast til safngripa vegna þess. Til stóð að það kæmi út miðvikudaginn 12. apríl, tímanlega fyrir páskahátíðina með tilheyrandi tilkynningum. Tæknileg vandmál við prentun kom hins vegar í veg fyrir það, endurskoða þurfti blaðið og endursenda til prentunar og næsti útgáfudagur skyldi vera miðvikudagurinn 19. apríl. Þá vildi ekki betur til en að Pósturinn gleymdi að taka kassa af blöðum vestur og leiddi það til þess að aðeins hluti þeirra var borin út síðasta vetrardag.

Ef allt hefur gengið að óskum og allir hafa staðið við loforð, mun blaðið vera borið út í dag.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir