Mánudagur 4. nóvember 2024
Síða 2218

Óskar eftir tilboðum í aurvarnargarð

Núverandi flóðafarvegur ofan Hjallavegs.

Framkvæmdasýsla ríkisins óskar eftir tilboðum í framkvæmdir við byggingu seinni áfanga aurflóðavarnargarðs ofan Hjallavegar og nyrsta hluta Urðarvegar á Ísafirði. Um er að ræða um það bil 650 m langan aurvarnargarð og samsvarandi flóðafarveg ofan hans. Í fyrri áfanga, árið 2011, var nyrðri hluti garðsins formaður og eru nú um 170 m eftir af gerð hans. Þó á enn eftir að gera stóran hluta af farveginum í nyrðri hlutanum. Í verkinu felst einnig að leggja um 570 m langan vegslóða eftir botni flóðafarvegar og meðfram vegslóðanum skal gera lækjarfarveg. Jafnframt lagning um 170 m af göngustígum sem eftir er að leggja, mótun skeringa flóðmegin við garða og frágangur. Aurvarnargarðurinn gegnir því hlutverki að stöðva grjót og verður um 5 m á hæð þ.e. frá botni í flóðafarvegi og upp á topp garðs. Garðurinn er 1,5 m breiður í toppinn og breidd flóðafarvegar í botninn er um 4 m. Í garðinn þarf nú um 7 þús. m3 efnis. Magnið sem kemur upp úr farveginum er hins vegar um 23 þús. m3. Umframefni skal ekið á tipp í Grænagarðsnámu um vegslóða ofan varnargarða sem þegar hafa verið byggðir ofan byggðar á Ísafirði, neðan Gleiðarhjalla. Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 31. október 2017.

smari@bb.is

Landsbyggðin andsnúnari áfengisfrumvarpinu

Alls eru 61,5 pró­sent Íslend­inga mót­fallnir nýju áfeng­is­frum­varpi sem felur í sér að heim­ilt verður að selja áfengi í versl­unum frá og með næstu ára­mót­um. Ein­ungis 22,8 pró­sent eru hlynntir þeirri ráða­gerð en 15,7 pró­sent eru hvorki hlynntir eða mót­fallnir ráða­gerð­inni. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Zenter rann­sóknir fram­kvæmdi dag­anna 9. til 14. febr­úar síð­ast­lið­inn og greint er frá í Kjarnanum. Íbúar á landsbyggðinni eru marktækt andsnúnari frumvarpinu en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Nokkur munur er á afstöðu Íslend­inga gagn­vart frum­varp­inu eftir aldri. Yngri ald­urs­hópar eru almennt hlynnt­ari því að áfengi verði selt í versl­unum en eldri ald­urs­hóp­ar. Þá eru karlar mun hlynnt­ari því að frum­varpið verði að lögum en konur.

Níu þing­menn úr fjórum flokkum lögðu fram frum­varpið. Verði það að lögum verður einka­leyfi ÁTVR á áfeng­is­sölu afnumið frá og með næstu ára­mót­u­m, sala á því heim­iluð í sér­­versl­un­um, í sér­­­rýmum innan versl­ana eða yfir búð­­ar­­borð, áfeng­is­aug­lýs­ingar inn­lendra aðila heim­il­aðar og leyfi­legt verður að aug­lýsa það í inn­lendum fjöl­miðl­u­m.

Þing­­menn­irnir sem leggja frum­varpið fram koma úr Sjálf­­stæð­is­­flokki, Við­reisn, Bjartri fram­­tíð og Píröt­­um. Þeir eru Teitur Björn Ein­­ar­s­­son, Áslaug Arna Sig­­ur­­björns­dótt­ir, Vil­hjálmur Árna­­son og Hildur Sverr­is­dóttir úr Sjálf­­stæð­is­­flokki, Pawel Bar­toszek úr Við­reisn, Nichole Leigh Mosty úr Bjartri fram­­tíð og Pírat­­arnir Jón Þór Ólafs­­son, Ásta Guð­rún Helga­dóttir og Viktor Orri Val­­garðs­­son.

smari@bb.is

Helgi í lífi íþróttaiðkenda á Vestfjörðum

Það var mikið um að vera hjá meistaraflokkum Vestra í blaki þessa helgina. Karlarnir kepptu bikarleik við KA-ö á Akureyri í þriðju umferð Kjörísbikarsins, en sigurvegarinn tryggir sér sæti í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar. Áður höfðu Vestramenn unnið Hrunamenn á Flúðum í 2. umferð bikarkeppninnar, en þar sem Vestri er í 1. deild sat liðið hjá í fyrstu umferðinni.

Kvennaliðið átti einnig tvo leiki í Reykjavík í 1. deildinni, við Stjörnuna B á laugardeginum og ÍK á sunnudeginum.

Búið var að skipuleggja helgina í þaula þar sem liðin deila sama þjálfaranum, Tihomir Paunovski, sem einnig er uppspilari karlaliðsins. KA-ö voru liðlegir og búnir að samþykkja að spila leikinn kl. 20 á laugardagskvöldinu svo Tihomir gæti flogið norður eftir leik hjá kvennaliðinu á laugardeginum og suður aftur með fyrstu vél á sunnudegi.  Kvennaliðið keyrði suður á tveimur bílum á föstudag, ásamt þjálfaranum. Yngsti leikmaður liðsins átti hinsvegar að skemmta á þorrablóti grunnskólans á Suðureyri á föstudagskvöldinu, og keyrði mamman með stelpuna til Reykjavíkur eldsnemma á laugardagsmorgni í tæka tíð fyrir leikinn sem hófst kl. 15.

Leikurinn á laugardeginum tapaðist á móti sterku liði Stjörnunnar 0-3, en margt var gott hjá Vestrastelpum.  Það vantaði bara herslumuninn.  Eftir leikinn var meiningin að skutla þjálfaranum beint út á flugvöll en þá kom tilkynning um að flug til Akureyrar hafði verið fellt niður vegna veðurs. Nú var úr vöndu að ráða og eftir að hafa fengið innanbúðarupplýsingar frá flugveðurfræðingi hjá Veðurstofunni var ákveðið að treysta ekki heldur á flug snemma morguninn eftir.  Aftur voru KA-ö liðlegir og gátu fært leikinn til sunnudagsmorguns kl. 10.  Leikmaður kvennaliðsins (og formaður blakdeildarinnar) skutlaði þjálfaranum norður á bóginn á laugardagskvöldinu, en leikmaður karlaliðsins (og fyrrverandi formaður blakdeildarinnar) kom keyrandi á móti frá Akureyri og hafði þjálfarinn bílaskipti einhversstaðar nálægt Víðidalnum.

Eftir allt þetta vesen kom að sjálfsögðu ekki annað til greina en að vinna leikinn – en tæpt var það.  Vestramenn unnu tvær fyrstu hrinurnar nokkuð sannfærandi, en KA-menn komu sterkir til baka og unnu tvær þær næstu. Vestri hafði síðan betur í úrslitahrinunni og eru þar með komnir í átta liða úrslitin. Dregið verður í 8 liða úrslitin 24. febrúar og mun þá Vestri væntanlega fá heimaleik á móti úrvalsdeildarliði, eða keppa á móti Hamri sem er líka í 1. deild. KA-ö voru öðlingar heim að sækja og buðu upp á góðmeti úr bakaríi eftir leikinn.

Kvennaliðið spilaði án Tihomir þjálfara á móti ÍK á sunnudeginum, en hjónin Sólveig og Guðni voru skráð sem þjálfari og aðstoðarþjálfari í leiknum og stýrðu liðinu til sigurs 3-0. Fyrstu tvær hrinurnar unnust með minnsta mögulega mun en eftir það voru ungu stelpurnar í Vestra komnar í stuð og gáfu engin grið í þriðju hrinunni sem fór 25-7.

Það var Harpa Grímsdóttir yfirblakari Ísafjarðarbæjar sem lýsti þessari annasömu helgi og samkvæmt útreikningum bb hafa blakarar ekið rúmlega 4600 km þessa helgina og í vinning voru tveir sætir sigrar.

bryndis@bb.is

Stefnumótunarvinnu í fiskeldi ljúki sem fyrst

Þorgerður Katrín og fylgdarlið með bæjarstjórn Bolungarvíkur við Einarshús.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðeherra vonast til að stefnumótunarvinnu í fiskeldi sem fyrrverandi ráðherra boðaði í haust ljúki, sem fyrst. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flutti starfsstöð sína tímabundið til Ísafjarðar, eða frá gærdeginum og fram á morgundaginn. Í gær heimsótti hún fyrirtæki og stofnanir í Bolungarvík og engan þarf að undra að fiskeldi bar á góma í viðræðum hennar við heimamenn. Ráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að stjórnvöld verði að vera tilbúin að bregðast við örri uppbyggingu í fiskeldi. „Ekki bara bregðast við heldur vera líka leiðandi og það hefur kannski skort á umliðnum árum. Þess vegna erum við líka að taka við okkur,“ sagði Þorgerður Katrín.

Hún telur að það sé áhugi í öllum flokkum á að vinna vel að fiskeldismálum og það verði gert þannig úr garði að það ríki stöðugleiki í greininni og tekið verði tillit til náttúru og umhverfis.

smari@bb.is

Skattfrjálsir dagpeningar auk eingreiðslu

Verkfallið hefur staðið í rúma tvo mánuði.

Samninganefnd sjómanna gerði samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) tilboð í kjaradeilunni á milli sjómanna og útgerða í gær og tekur SFS líklega afstöðu til tilboðsins í dag. Samkvæmt heimildum BB felur tilboðið í sér greiðslu dagpeninga auk eingreiðslu. Olíuverðsviðmið helst óbreytt. Dagpeningagreiðslur til sjómanna eru ekki skattfrjálsar og því þarf ríkisvaldið að breyta reglum til að svo verði en yfirskattanefnd hefur úrskurðað að dagpeningar sjómanna séu ekki frádráttarbærir enda sé ekki um að ræða tilfallandi ferðalög vegna vinnu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að grípa inn í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna með lagasetningu eða með breytingum á skattalöggjöf. Deiluaðilum hafi verið falin umsjá með auðlind þjóðarinnar og beri þá ábyrgð að semja. Þetta sagði Þorgerður Katrín á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Aðspurð hvort hún hygðist grípa inn í verkfall sjómanna og kjaradeilu þeirra við útgerðina sagði Þorgerður Katrín: „Finnst þér að ég eigi að koma með sértækar aðgerðir, og eins og sumir eru að leggja til, að niðurgreiða laun fyrir útgerðarmenn? Ég er því mótfallin. Ég er mótfallin sértækum aðgerðum.“

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, fjallaði í gær um áhrif sjómannaverkfallsins á Íslandi á fiskmarkaðinn í Bretlandi. Martyn Boyers, framkvæmdastjóri Grimsby Fish Dock Enterprises, segir að til greina komi að grípa til frekari uppsagna. Fiskmarkaðurinn í Grimsby er einn sá stærsti í Bretlandi en yfirleitt koma um 75% afurðanna sem þar eru á markaði frá Íslandi. Nú sé þó algengara að sjá aðeins um 100 kassa af þorski frá Íslandi í stað þúsund eins og venjulega, að því er segir í frétt BBC. „Þegar stór birgir eins og Ísland allt í einu staðnar þýðir það að fólk verður að leita að fiski annars staðar, það svo í kjölfarið þrýstir á verðið,“ segir Boyers í samtali við BBC.

Smari@bb.is

Bollywoodmyndinni frestað

Holt í Önundarfirði. Mynd: Ágúst Atlason.

Tökum á Bollywood mynd sem hefjast áttu í vikunni hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Búi Baldvinsson, framleiðandi myndarinnar hjá Hero Productions, segir í frétt RÚV að tökur frestist þar sem ráðast eigi í breytingar á handriti myndarinnar. Upptökur áttu að mestu að fara fram í Holti í Önundarfirði. Snjóleysið fyrir vestan hafði að sögn Búa einnig sitt að segja, en kvikmyndagerðarmennirnir höfðu vonast eftir snjó í tökunum.

Framleiðendurnir hafi ekki gefist upp á Íslandi og fyrirhuga tökur á tveimur öðrum myndum á Íslandi í sumar.

smari@bb.is

Neyðarbrautin verði opnuð án tafar

Reykjavíkurflugvöllur.

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar hvetur borgarstjórn Reykjavíkur til að opna tafarlaust aftur NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokölluð neyðarbraut, meðan ekki hefur fundist önnur viðunandi lausn varðandi sjúkraflug. Þetta kemur fram í bókun sem Guðrún Stella Gissurardóttir lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi og var samþykkt samhljóða. „Öllum ætti að vera ljóst að  lending á neyðarbrautinni hefur og getur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf eða dauða er að tefla. Lokun neyðarbrautarinnar er ógn við öryggi og heilsu þeirra sem búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir í bókuninni.

Reykjavíkurflugvöllur er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar að mati bæjarstjórnar Bolungarvíkur og í bókuninni er áréttað mikilvægi þess að Reykjavík ræki hlutverk sitt sem höfuðborg og uppfylli skyldur við allt landið.

smari@bb.is

Leggur til kvótaskerðingu þangað til verkfallið leysist

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor. Mynd: visir.is / GVA

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, leggur til að stjórnvöld skerði fiskveiðikvóta næsta árs um allt að fimm prósent á viku meðan sjómannaverkfallið stendur yfir. Innkallaðan kvóta mætti síðan leigja út og nota andvirðið til að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem hafi orðið hvað harðast úti í deilunni.

Þetta skrifar Þórólfur í aðsendri grein í Kjarnanum. Hann segir að nú þegar tveir mánuðir séu liðnir síðan sjómannaverkfallið hófst virðist deilendur fjær því að ná samkomulagi en við upphaf deilunnar, þvert á það sem ætla mætti. „Sé samningsvilji lítill leysast verkföll venjulega þegar annarhvor aðilinn eða báðir átta sig á að kostnaðurinn við áframhaldandi verkfall er þeim sjálfum of dýr,“ skrifar Þórólfur.

Verkfallið er byrjað að hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga sem treysta verulega á sjávarútveg og nefnir Þórólfur að þar hafi hægt á innstreymi útsvarstekna og hafnargjalda. „Þessi sveitarfélög geta ekki hægt á greiðslum til grunnskóla- og leikskólakennara sem dæmi séu tekin. Þau eru því í klemmu,“ skrifar Þórólfur.

Hann segir deiluna bitna harðast á þriðja aðila af meiri þunga en á bæði sjómenn og sjávarútvegsfyrirtæki. „Tekjuflæði sjávarútvegsfyrirtækja sem ekki eiga birgðir hægist eða stoppar meðan á verkfalli stendur. En þar sem þessi fyrirtæki hafa í höndum rétt til að veiða svo og svo mikið magn af fiski er aðeins um seinkun tekjuflæðis að ræða. Félög með góða eiginfjárstöðu eiga auðvelt með að leysa úr þeim fjárhagsvandræðum sem slík seinkun greiðsluflæðis kann að valda. Hugsanlega fæst lægra verð fyrir afurðir vegna tímabundins offramboðs þegar verfall leysist.“

Þá bendir hann á að sjómenn fái greiðslur úr verkfallssjóðum, og því leggist verkfallið af minni þunga á þá sem eru í verkfalli en á þriðja aðila. „Það eru því sterkar vísbendingar um að verkfallið geti staðið nokkrar vikur, jafnvel mánuði í viðbót,“ skrifar Þórólfur.

Ár­lega fá útgerð­ar­fé­lög bréf frá Fiski­stofu þar sem þeim er úthlutað rétti til veiða ákveð­ins magns af hinum ýmsu fiski­teg­und­um. Þórólfur segir að það sé ekkert sem banni stjórn­völdum að skil­yrða þá úthlutun sem fyrir dyrum stendur 1. sept­em­ber næst­kom­and­i.  Þannig gæti rík­is­stjórn og Alþingi ákveðið að kvóti næsta árs skerð­ist um t.d. 5% fyrir hverja viku sem verk­fall stendur lengur en 8 vik­ur. Inn­kall­aðan kvóta mætti síðan leigja út og nota and­virðið eða hluta þess til að bæta stöðu þeirra sveit­ar­fé­laga sem verða fyrir hvað mestum skaða vegna verk­falls­ins.

smari@bb.is

Keppa á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Anna María, Pétur Tryggvi og Sigurður Arnar

Þrír keppendur frá Skíðafélagi Ísfirðinga eru nú staddir í Erzurum í Tyrklandi þar sem þeir taka þátt í Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Það eru þau Anna María Daníelsdóttir, Sigurður Hannesson, og Pétur Tryggvi Pétursson, sem öll keppa í skíðagöngu á ólympíuhátíðinni, auk þeirra er í gönguskíðahópnum Arnar Ólafsson frá Akureyri. Flokkstjóri gönguskíðahópsins er Steven Gromatka þjálfari hjá SFÍ og með hópnum er einnig Gunnar Bjarni Guðmundsson þjálfari.

Íslenski gönguskíðahópurinn sem keppir á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar ásamt þjálfurum sínum

Á sunnudag var glæsileg setningarathöfn sem fram fór á knattspyrnuleikvanginum Kazim Karabekir í Erzurum í 1800 metra hæð yfir sjávarmáli og var frostið ein 17 stig. Setningarathöfnin hófst með því að þátttakendur frá 34 löndum gengu fram völlinn undir þjóðfánum sínum og síðan var ólympíueldurinn tendraður og mun hann loga fram á föstudag er hátíðinni líkur. Hópur 22 Íslendinga er í Erzurum, þar af  gönguskíðakrakkarnir fjórir, ásamt 10 keppendum í öðrum greinum, þjálfurum og öðru starfsfólki.

Fyrsti keppnisdagur var í gær er Anna María Daníelsdóttir reið á vaðið og keppti hún í  í 5km göngu með hefðbundinni aðferð, þar sem hún var 38. í mark  og þá Sigurður og Pétur Tryggvi í 7,5 km göngu, þar sem Sigurður varð í 36 sæti og Pétur Tryggvi í 51sta. Í dag keppir Anna María svo í 7km göngu og Sigurður og Pétur Tryggvi í 10km. Á morgun keppa þau svo í sprettgöngu.

Frá setningu leikanna

annska@bb.is

Húsasmíðanemar gera brautarskýli fyrir Fossavatnsgönguna

Í síðustu viku var lokið við að slá upp brautarskýlinu sem menntskælingarnir byggja. Mynd af Fésbókarsíðu MÍ.

Nemendur á húsasmíðabraut Menntaskólans á Ísafirði héldu í síðustu viku reisugildi vegna byggingar sem þeir hafa nýlokið við að slá upp á lóð skólans. Er það 21m2 hús sem mun Fossavatnsgangan hefur fest kaup á og mun það þjóna hlutverki brautarskýlis og verður því komið fyrir á Botnsheiði þar sem það verður aðstaða fyrir starfsfólk við drykkjarstöð að sögn Þrastar Jóhannessonar kennara við húsasmíðabraut MÍ. Húsið var teiknað af Tækniþjónustu Vestfjarða og hafa Vestfirskir verktakar yfirumsjón með verkinu. Vonir standa til að verkinu verði lokið fyrir páska, þá verður búið að klára húsið að utan, setja hurðir og glugga ásamt því sem það verður klætt með bárujárni.

Þröstur ásamt Fannari Þór Þorfinnssyni kenna við húsasmíðabraut skólans. Á fjórðu önn smíða nemendur á húsasmíðabraut hús og er þetta það fjórða sem smíðað er frá því er húsasmíðabrautin tók til starfa árið 2005. Fyrsta húsið reis tveimur árum síðar 50m2 sumarbústaður sem nú er í Arnardal. Tveimur árum síðar var byggt samskonar hús sem selt var í Skagafjörð. Árið 2010 var byggt 24m2 hús sem Ferðafélag Íslands keypti og setti upp í Nýjadal.

Sex nemendur taka þátt í húsbyggingunni, en nemendum við brautina hefur fækkað mikið frá því er hún fyrst tók til starfa er 10-12 nemendur hófu nám að hausti fyrstu árin. Í haust sóttist enginn nemandi eftir að komast á húsasmíðabraut. Þröstur segir breytinguna ansi mikla á skömmum tíma, en þróunin hafi tekið dýfu niður á við eftir hrun. Hann segir jafnframt mikla möguleika felast í því að hafa þau réttindi sem námsbrautin veitir. Það sé hægt um vik námslega séð að taka viðbótarnám sem skili nemendum einnig stúdentsprófi, en hann segir þróunina augljóslega vera í þá átt að sem flestir ljúki námi sem stúdentar. Það rímar fullkomlega við umræðu undanfarinna ára þar sem allt bendir til að verknám eigi undir verulegt högg að sækja. Þröstur segir að hér á landi vanti alltaf smiði og einnig ef fólk hyggur á vinnu á Norðurlöndum, þá sé á flestum stöðum þessara réttinda krafist. Þröstur segir marga sem útskrifast hafa af brautinni haldið áfram námi í iðn- og tæknifræði.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir