Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2218

Illugi verður stjórnarformaður Byggðastofnunar

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður O.V.

Illugi Gunnarsson, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, verður á morgun settur stjórnarformaður Byggðstofnunar á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn verður í Skagafirði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en blaðið segist hafa öruggar heimildir fyrir þessu. Þetta herma öruggar heimildir Fréttablaðsins. Herdís Á. Sæmundardóttir hefur setið undanfarin tvö ár sem formaður stjórnar en hún var sett í embætti í apríl 2015 af Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi ráðherra byggðamála og núverandi formanni Framsóknarflokksins. Núverandi ráðherra byggðamála er Jón Gunnarsson, samflokksmaður Illuga.

smari@bb.is

 

 

Skoða möguleikann á lotubundnu húsasmíðanámi við MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði.

Hjá Menntaskólanum á Ísafirði er verið að skoða þann möguleika að bjóða upp á lotubundið nám í húsasmíði. Námið er hugsað sem svo að nemendur geti stundað það samhliða vinnu. Verklegir áfangar verða þá kenndir í helgarlotum, 5-6 helgar á önn þar sem kennt væri á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Bóklegir almennir áfangar verða í boði í fjarnámi. Námið er hugsað til að gefa fólki færi á að stunda nám samhliða vinnu þar sem það getur reynst fullorðnu fólki erfitt að fara í nám, sérstaklega starfs- og verknám, sem kennt er á vinnutíma og segir Heiðrún Tryggvadóttir, áfanga- og gæðastjóri við skólann, þetta vonandi bara fyrsta starfs- og verknámsbrautin sem verður kennd á þennan hátt. Hún segir þau jafnframt hafa fengið góð viðbrögð við þessari hugmynd en gott væri að fá fleiri nemendur. Áhugasamir eru beðnir um að setja sig í samband við Heiðrúnu í síma 450 4400 eða heidrun@misa.is

annska@bb.is

Hvalfjarðargöng lokuð í fjórar nætur

Hvalfjarðargöng verða lokuð næstu fjórar nætur vegna reglubundinna viðhaldsframkvæmda og hreinsunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Speli. Göngunum verður lokað klukkan tíu í kvöld, en á miðnætti á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Í öllum tilfellum verða þau lokuð til klukkan sex að morgni.

Harðverjar deildarmeistarar

Fjórði flokkur Harðar í handboltanum gerði sér lítið fyrir og varð deildarmeistari á sumardaginn fyrsta með sigri á HK. Þeir höfðu áður lagt Hauka, Stjörnuna, Gróttu og Selfoss að velli til að ná þessum fyrsta titli í safnið. Keppnin var reyndar gríðarlega jöfn í allan vetur þar sem flest lið unnu og töpuðu á víxl en fyrir nokkru varð ljóst að með sigri í sínum síðasta leik á vertíðinni myndu Harðardrengirnir verða deildarmeistarar. Þeir voru því spenntir fyrir leik og á fyrstu mínútum hans en sigu síðan jafnt og þétt framúr og lönduðu góðum sigri, 22-16. Til að kóróna góðan árangur fengu strákarnir í 5. flokki að spreyta sig í leiknum og stóðu þeir sig allir með prýði. Var ekki að sjá að þar væru yngri strákar á ferð.

Harðarmenn fengu meistarabikarinn afhentan að loknum leik og tóku vel á því í fagnaðarlátunum. Með sigrinum enduðu þeir einu stigi fyrir ofan Selfoss með 40 mörk í plús sem var langbesta markahlutfall deildarinnar.

Á myndinni eru strákarnir með þjálfara sínum Grétari Eiríkssyni sem er, því miður, að láta af störfum eftir frábært starf hér fyrir vestan.

Birna í stjórn Körfuknattleikssambandsins

Nýkjörin stjórn KKÍ. Efri röð frá vinstri: Lárus Blöndal, Ester Alda Sæmundsdóttir, Birna Lárusdóttir, Erlingur Hannesson, Rúnar Birgir Gíslason. Neðri röð frá vinstri: Guðbjörg Norðfjörð, Hannes S. Jónsson og Eyjólfur Þór Guðlaugsson. Á myndina vantar Einar Karl Birgisson og Pál Kolbeinsson.

Á 52. körfuknattleiksþingi Körfuknattleikssambands Íslands  sem fram fór í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í Reykjavík um helgina var Birna Lárusdóttir, formaður Barna- og unglingaráðs og stjórnarmaður í körfuknattleiksdeildar Vestra, kjörin í stjórn sambandsins. Birna hefur um árabil starfað í þágu körfuboltans á Ísafirði en hefur einnig undanfarin tvö ár átt sæti Fræðslunefnd KKÍ sem er ein af fastanefndum sambandsins. Stjórnin KKÍ var að þessu sinni sjálfkjörin en ásamt Birnu gekk ný inn í stjórn Ester Alds Sæmundsdóttir.  Úr stjórn gengu þau Bryndís Gunnlaugsdóttir og Vestramaðurinn Guðjón Þorsteinsson sem setið hafa í stjórninni um árabil.

Á vef Vestra segir að stjórnarseta Guðjóns og innkoma Birnu í stjórn KKÍ sýni vel hve sterkt bakland Vestra er í körfuboltanum.

Af stöfum þingsins bar hæst að tillaga um að fjölga erlendum leikmönnum og koma á svokallaðri 3+2 reglu var felld á jöfnum atkvæðum. Hin umdeilda 4+1 regla verður því áfram við lýði næstu tvö árin. Þá var einnig fjallað mikið um framtíð kvennakörfunnar á Íslandi en tillögu KR um að stækka úrvaldeild í 12 liða deild var vísað til stjórnar. Þá var samþykkt þingsályktunartillaga Breiðabliks um að fjölga umferðum í 1. deild karla úr tveimur í þrjár.

Sjómannasambandið andvígt auknum strandveiðum

Sjómannasambandi Íslands er mótfallið því að strandveiðar verði auknar frá því sem nú er. Fréttablaðið greinir frá þessu. Gunnar Guðmundsson, Pírati, hefur lagt fram tillögu um að strandveiðitímabilið verði átta mánuðir í stað fjögurra nú, og að aflaheimildir verið jafnframt auknar. Markmiðið er að styrkja smærri byggðir við sjávarsíðuna. Í umsögn Sjómannasambandsins um frumvarpið er lagst gegn þessum áformum. Þá hafa þingmenn Vinstri grænna einnig lagt til tímabundnar breytingar á strandveiðikerfinu. Breytingin felur í sér að horfið verður frá heildarpottum hvers strandveiðisvæðis og strandveiðibátum verður úthlutað 12 veiðidögum í fjóra mánuði, frá maí til ágúst – alls 48 dögum.

 

Fréttablaðið hefur eftir Valmundi Valmundssyni, formanni Sjómannasambandsins, að með því að auka aflahlutdeild strandveiðimanna sé verið að taka hlutdeild af félögum í Sjómannasambandinu, sem hafi sjómennsku að aðalatvinnu. Því leggist sambandið gegn tillögunni nú, eins og jafnan gegn tillögum af sama toga.

Afsala sér hafnarmannvirkjum í Flatey

Framfarafélag Flateyjar sendi á dögunum áskorun til Samgönguráðherra, sveitarstjórnar Reykhólahrepps og Vegagerðarinnar um að vinna að endurbótum á ferjubryggjunni í Flatey á Breiðafirði. Í bókun á aðalfundi Framfarafélagsins kemur fram að ástand ferjubryggjunnar í Flatey hafi mikið versnað og hluti hennar stórskemmdur. Álag á bryggjuna og aðra innviði eyjunnar hefur stóraukist með auknum ferðamannastraum og nú er svo komið að skipstjórar ferjunnar treysta sér ekki til að leggja að við ákveðin veðurskilyrði, þá falla niður farþegaflutningar og póstsamgöngur. Á ályktuninni kemur ennfremur fram að verið sé að leggja líf og limi fólks í hættu meðan ástand bryggjunnar er með þessum hætti.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps tók áskorun Framfarafélagsins fyrir á fundi sínum í byrjun apríl og í bókun hennar kemur fram að Reykhólahreppur hafi ekki rekið Flateyjarhöfn svo áratugum skipti heldur hefur hún alfarið verið rekin af siglingasviði Vegagerðarinnar, áður Siglingastofnun.

Sveitarstjóra Reykhólahrepps var falið að útbúa yfirlýsingu til Innanríkisráðuneytis þess efnis að sveitarfélagið sé reiðubúið að afsala sér formlega öllum hafnarmannvirkjum í Flatey og rekstri hafnarinnar til Vegagerðarinnar.

Hér má nálgast ályktun Framfarafélags Flateyjar (FFF)

bryndis@bb.is

Fjölskyldur óskast fyrir SIT nema

SIT nemar í heimsókn á Melrakkasetrinu

Háskólasetur Vestfjarða leitar nú að fjölskyldum sem vilja opna heimili sín fyrir bandaríska háskólanema sem koma í vettvangsnám til Ísafjarðar tímabilið 18.júní – 5.júlí. Góð reynsla er af móttöku slíkra nema á Ísafirði og nágrenni en frá árinu 2012 hefur Háskólasetrið haft milligöngu um heimagistingu fyrir hópa á vegum SIT skólans, School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum.

Nemendahópurinn mun sitja námskeið um endurnýjanlegra orku og umhverfishagfræði sem nefnist Iceland: Renewable Energy, Technology, and Resource Economics. Námskeiðið stendur yfir í samtals sjö vikur og hefur verið í boði frá því 2007. Síðastliðið haust hleypti SIT Study Abroad nýrri vettvangsbraut af stokkunum í samvinnu við Háskólasetrið. Viðfangsefnið er lofslagsmál á Norðurslóðum og nefnist námsbrautin Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic. Gisting hjá fjölskyldum er einnig í boði fyrir þessa nemendur.

Markmiðið með heimagistingu er að gefa ungmennunum tækifæri til taka þátt í lífi fjölskyldu og kynnast þannig íslenskri menningu og tungu. Nemendurnir hafa í gegnum tíðina gist hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík.

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Pernillu Rein, verkefnastjóra hjá Háskólasetrinu í síma 820-7579 eða pernilla@uw.is. Einnig má kynna sér verkefnið á Facebook hóp þess.

annska@bb.is

Metumferð um Djúp í Dymbilviku

Aldrei hafa fleiri lagt leið síða á Ísafjörð um páskana. Hér má sjá fullt út úr dyrum rokkskemmunnar. Mynd: Ásgeir Helgi Þrastarson.

Páskar á Ísafirði hafa löngum laðað að gestir til bæjarins og nærliggjandi bæjarfélaga, enda má segja að norðanverðir Vestfirðir titri af fjöri í dymbilviku. Skíðavikan og rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður, þar sem finna má heilmikla dagskrá allt frá því er Skíðavikan er sett á miðvikudegi og fram á annan dag páska. Rokkskemman er iðulega stappfull af fólki og stemningin á Ísafirði verður í nokkra daga líkt og í stórborg, hvar heimaríkir hundar fá ekki bílastæðin sín og fólk út um allt. Ekki er hægt að segja fyrir víst hversu margir leggja leið sína vestur um páskana en lengi hefur það verið notað að íbúafjöldinn á Ísafirði tvöfaldist.

Í tölum Vegagerðarinnar yfir umferð um Ögur fyrir páska, nánar tiltekið frá þriðjudegi til laugardags má sjá að aldrei hafa verið fleiri á ferð um Ísafjarðardjúp en í ár er 1424 bílar fóru þar í gegn, það er talsvert meira en á síðasta ári er þeir voru 1271. 2015 voru þeir 1184 og 1147 2014. Heldur fleiri voru þeir árið á undan eða 1247 og metið fram til þessa var árið 2012 er 1301 bíll fór um Ögur. Ef við förum aðeins lengra aftur má sjá að 2009 var umferðin enn undir þúsund bílum er 995 voru á ferðinni, en ef við lítum til fyrsta ársins sem Aldrei fór ég suður var haldin árið 2004 þá fóru 775 bílar um Ögur.

Aldrei hafa fleiri bílar farið um Ögur í dymbilviku. Mynd: Ögur travel

Um 1000 farþegar voru svo fluttir til og frá Ísafirði um páskana með Flugfélagi Íslands og er það svipað og var á síðasta ári. Að sögn Arnórs Jónatanssonar umdæmisstjóra flugfélagins á Ísafirði gengu flugsamgöngur eins og í sögu þessa páskana og ekki féll niður flug alla vikuna fyrir páska. Aflýsa þurfti tveimur síðdegisvélum á öðrum degi páska vegna veðurs fyrir sunnan, en þá áttu að fara fimm vélar. Tveimur var þó flýtt til að koma sem flestum aftur til síns heima áður en veðrið skall á af fullum þunga, en eftir hádegið lágu flugsamgöngur niðri frá Reykjavík.

Bílaumferð gekk einnig stórslysalaust fyrir sig og var aðeins eitt umferðaróhapp tilkynnt til lögreglu er flutningabifreið og snjóruðningstæki rákust saman á Steingrímsfjarðarheiði á annan dag páska.

annska@bb.is

Óratorrek: Uppgjör við allt internetið

Eiríkur Örn Norðdahl. Mynd: Ágúst Atlason.

Ísfirski rithöfundurinn og ljóðskáldið Eiríkur Örn Norðdahl sendi í gær frá sér ljóðabókina Óratorrek, ljóð um samfélagsleg málefni. Í bókinni tekur Eiríkur meðal annars til umfjöllunar: atorku og afköst, sýnileika, aðgát, kebab, skýrar kröfur byltingarinnar, ástina, fyrirgefninguna og hryðjuverk, svo einhver dæmi séu tekin, en bókin skartar tuttugu og þremur orðmörgum og innihaldsríkum ljóðum. Bæjarins besta náði í skottið á Eiríki Erni sem nú er við kynningar á bókinni í höfuðborginni. Þrátt fyrir stuttan tíma á markaðinum hafa viðbrögðin við bókinni ekki látið á standa: „Viðtökurnar hafa verið frábærar – eiginlega get ég ekki sagt annað. Það kemur mér á óvart hversu margir hafa lesið hana nú þegar – því þótt þetta sé ljóðabók er í henni mikill texti.“ Svarar Eiríkur aðspurður um viðtökurnar.

Eiríkur hefur verið afkastamikill höfundur og þýðandi undanfarin ár og hefur hann unnið að bókinni síðastliðin fjögur ár. Hann segist ekki alveg muna hvað fyrsta ljóðið var, en sennilega hafi það birst sem stöðuuppfærsla á Facebook: „Ég fann einhvern talanda – einhverja rödd – sem var bæði kunnugleg og ókunnugleg. Leið eiginlega einsog ég væri að herma eftir tungumálinu, herma eftir sjálfum mér og öllum í kringum mig.“ Hann segist þó ekki viss um hvað hann vilji segja með bókinni, eftir að hafa fengið þá margtuggnu skáldaspurningu, því viðtekna venjan er að sjálfssögðu að skáld færi okkur sýn og skilning, sem kannski er ekki alltaf svo skiljanlegur.

Eiríkur segir þó að í bókinni sé sennilega að finna nokkurn ótta, en líka kærleik og von, í passlegum skömmtum: „Hún er einhvers konar uppgjör við allt internetið sem maður hefur lesið – allan þennan skringilega, kaotíska texta sem maður hefur innbyrt og gert að sjálfum sér (maður er það sem maður les). Eiginlega held ég samt að ég skrifi bækur vegna þess að ég veit ekki hvernig öðruvísi ég ætti að segja hlutina sem í þeim standa.“

Titillinn er grípandi og töff – Óratorrek, en hver skyldi merking þess vera: „Torrek er gamalt orð, þekkt úr sonatorreki Egils Skallagrímssonar og merkir missi sem ekki verður auðveldlega bættur. Órar eru svo hugarórarnir – orðin í hausnum á manni og órator, sem liggur þarna í miðjunni og rekur eða rekst eitthvað, er ræðumaðurinn.“ Svarar skáldið og nokkuð ljóst er að titillinn er vandlega úthugsaður. Bókin sjálf er líka í fasta efninu falleg á að líta og umbrotið svo mátulega passlegt í hendi.

Óratorreksfáni blaktir á Skipagöturóló og Eiríksbörn njóta blíðunnar hress í bragði.

Þeir sem hafa séð Eirík Örn flytja ljóðin sín vita að þar er enginn aukvisi í ljóðaflutningi á ferð. Hann glæðir ljóðin slíku lífi að orðin nánast fá útlimi og form og hvað sem þau kunna að þurfa til að mæta beint inn í eyru og vitund áhorfenda. En skyldi hann æfa framkomu og upplestur sérstaklega:

„Ég æfði mig mikið við upplestra í gamla daga, nú er betra ef ég renni a.m.k. einu sinni í gegnum ljóð sem ég hef ekki lesið áður. En annars æfi ég lítið. Ég kem náttúrulega mikið fram, er mikið boðið á ljóðahátíðir i útlöndum og þessi ljóð hafa verið lesin þar síðustu fjögur árin. Og eru þar af leiðandi þegar til í þýðingum á 8-9 tungumálum. En ég reyni bara að gera með upplesturinn einsog með textann – að ég vandi mig, kasti ekki til hendinni, og gefist ekki upp fyrir því að þetta sé erfitt, og ákveði bara að það sé í lagi að lesa illa upp, því þá er betra að sleppa því bara.

Eiríkur Örn sem er búsettur á Ísafirði með fjölskyldu sinni er nú á faraldsfæti. Hann er nú á fullu við að kynna Óratorrek í Reykjavík og í næstu viku heldur hann til Frakklands þar sem hann mun kynna bók sína Heimsku á bókmenntahátíð í Arras, en bókin hefur verið að gera það gott þar í landi frá því er hún kom þar út á síðasta ári.

Það er Mál og menning sem gefur Óratorrek út og er hún fáanleg í bókaverslunum og á Ísafirði má einnig kaupa hana í bókabúð Gallerís Úthverfu.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir