Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2217

Launavísitala hækkar og kaupmáttur eykst

Launavísitala hér á landi í mars 2017 er 597,3 stig og hækkaði um 0,4% frá fyrri mánuði er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 5%.Nokkur munur er á 12 mánaða breytingu í mars 2016 annars vegar og mars 2017 hins vegar. Það skýrist meðal annars af því að engar kjarasamningshækkanir voru á tímabilinu apríl 2016 til mars 2017 hjá stórum hluta starfsmanna á almennum vinnumarkaði en í 12 mánaða breytingu vísitölunnar í mars 2016 gætti hins vegar áhrifa tveggja kjarasamningshækkana hjá þessum hópi. Kaupmáttur launa í mars 2017 er 139,3 stig og hækkaði um 0,3% frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 3,3%.

Launavísitala er verðvísitala sem byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands og sýnir breytingar á verði vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma. Vísitalan tekur mið af breytingum reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Tekið er tillit til hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslna sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Hvorki er tekið tillit til tilfallandi yfirvinnu né óreglulegra greiðslna enda er í lögum um launavísitölu ætlast til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi ekki áhrif á vísitöluna. Vísitala kaupmáttar launa byggir á launavísitölu og vísitölu neysluverðs. Almennt eykst kaupmáttur launa þegar laun hækka umfram verðlag en minnkar þegar verðbólga er meiri en launahækkanir.

annska@bb.is

Jamie Oliver velur Arnarlax – stangveiðimenn æfir

Jamie Oliver heillast af Arnarfirði og velur lax frá Arnarlaxi.

Hinn heimsþekkti breski sjónvarpskokkur Jamie Oliver opnar veitingastað í Reykjavík síðar á árinu. Á Facebook síðu sinni skrifar sjónvarpskokkurinn að teymi á hans vegum hafi fengið það skemmtilega starf að útvega sjálfbæran fisk til að bjóða upp á veitinstaðnum í Reykjavík. Með skrifunum birtir hann mynd af sjókví Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði og mærir arnfirska fjallahringinn í hvívetna.

„Hann ætlar að kaupa lax af okkur,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. „Þetta er stórkostleg viðurkenning fyrir gott íslenskt hráefni.“ Jamie Oliver rekur veitingastaði um allan heim. Fyrst um sinn mun hann kaupa lax af Arnarlaxi fyrir reykvíska veitingastaðinn, en Víkingur segir ekki útilokað eitt leiði af öðru og vestfirskur lax verði seldur á fleiri veitingastöðum í eigu sjónvarpskokksins knáa.

Myndin sem Jamie birti á Facebook síðu sinni.

„Þetta er ógeðslegt Jamie“

En það eru ekki allir ánægðir með þetta uppátæki Jamie Oliver. Íslenskir stangveiðimenn fara mikinn í kommentakerfi kokksins og fordæma athæfið. „Þetta er ógeðslegt Jamie Oliver. Ég ætla aldrei að borða á staðnum þínum og mun upplýsa viðskiptavini mína um halda sig fjarri,“ skrifar einn bálreiður stangveiðimaður.

„Ég er í áfalli, algjöru áfalli,“ skrifar annar og bætir við: „Risa mistök og fjöldi fólks mun hunsa staðinn þinn algjörlega.“

„Að styðja þennan hættulega og mengandi iðnað er hernaður gegn náttúrunni,“ bendir annar íslenskur stangaveiðimaður á.

smari@bb.is

 

Between Mountains spilar á menningarkvöldi 10.bekkjar

Menningarkvöld 10.bekkinga við Grunnskólann á Ísafirði verður haldið í Edinborgarhúsinu í kvöld. Þar munu nemendur bjóða upp á tónlist, dans, ljóðalestur og endursýna árshátíðaratriði sitt sem sýt var á árshátíð skólans í síðasta mánuði. Auk þess mun dúettinn Between Mountains koma fram, en líkt og frægt er orðið gerðu þær stöllur sér lítið fyrir og sigruðu Músíktilraunir fyrir skemmstu. Skemmtunin hefst klukkan 20, aðgangseyrir er kr. 1.000 og eru allir velkomnir.

annska@bb.is

Undirbúningur fyrir Púkamótið hafinn

Baddó öflugur í markinu á Púkamótinu fyrir örfáum árum.

Tólfta Púkamótið verður haldið dagana 23. og 24. júní á Torfnesvelli á Ísafirði og lofa aðstandendur að það verði haldið í sól og sumaryl. Á mótinu munu fyrrverandi knattspyrnuhetjur rifja upp gamla takta og keppt verður á milli Dokku-, Króks-, Hlíðarvegs-, Eyrar-, Holtahverfis,- og Fjarðarpúka. Púkamótið verður sett stundvíslega kl. 17 á föstudeginum á Torfnesvelli. Að setningu lokinni verður ÍBÍ liðinu, sem fór upp í efstu deild árið 1981, veitt sérstök viðurkenning. Þá verður í fyrsta sinn vítaspyrnukeppni á milli 40 til 50 ára, 50 til 60 ára og 60 +, þar sem mönnum gefst gott tækifæri til þess að láta ljós sitt skína án þess að reyna um of á líkamshreysti sína. Um kvöldið verður útgáfuhóf í tilefni af útkomu bókar Sigurðar Péturssonar sagnfræðings um ísfirska knattspyrnu.

Leikir Púkamótsins hefjast síðan á Torfnesvelli laugardaginn 24.júní kl.13:30 þar sem knattspyrnukempur munu gleðja augu og eyru viðstaddra. Um kvöldið verður síðan formlegur kvöldverður og dans langt fram á nótt.

Á síðasta ári féll Púkamótið niður, en þá voru hugmyndir uppi um að færa það til Reykjavíkur, en nú mæta púkarnir tvíefldir til leiks og er skráning hafin inn á www.pukamot.is

annska@bb.is

Átakið Hreinsum Ísland hefst í dag

Plast safnast saman í náttúrunni þar sem það brotnar hægt niður .

Í dag er Dagur umhverfisins og hleypir Landvernd af stokkunum verkefninu, Hreinsum Ísland. Verkefnið stendur til 7.maí og er því ætlað að vekja athygli á þeim hættum sem fylgja plastmengun í hafi. Fólk verður sífellt meðvitaðra skaðsemi plasts í umhverfinu og í þessu átaki vill Landvernd hvetja fólk til að nota minna plast, kaupa minna og auka endurvinnslu. Í tilefni dagsins opnaði Landvernd heimasíðuna hreinsumisland.is

Átakinu verður hleypt af stokkunum við ströndina við Sjálandsskóla í Garðabæ en nemendur Sjálandsskóla hafa vakið athygli á plastmengun þ.m.t. plastmengun í sjó og hreinsa reglulega strandlengjur í nágrenni skólans. Á viðburðinum ætla nemendur fara út á sjó á kayökum og munu draga plastskrímsli af sjónum að landi. Annar viðburður verður þann 6. maí næstkomandi en þá fer fram Norræni strandhreinsunardagurinn á Snæfellsnesi. Þá verða hreinsaðar þrjár strendur á Snæfellsnesi og fer samtímis fram strandhreinsun á öllum Norðurlöndunum. Auk fjölda sjálfboðaliða mun Umhverfis- og auðlindaráðherra Björt Ólafsdóttir taka þátt í Strandhreinsun á Snæfellsnesi.

Hægt er að skipuleggja sína eigin strandhreinsun sem má skrá á hinni nýju heimasíðu, þar er jafnframt að finna mikilvægar upplýsingar um verkefnið og hvers þarf að gæta þegar strandhreinsunarverkefni eru skipulögð. Þar er meðal annars gátlisti fyrir þá sem vilja skipuleggja strandhreinsun og upplýsingar um fuglavarp á vorin og sumrin.

Margir halda því fram að Ísland sé hreinasta land í heimi. Vissulega er loftið hreint og vatnið gott en þrátt fyrir það notar hver Íslendingur að meðaltali 40 kíló af plastumbúðum á ári. Árlega eru 300 milljón tonn af plasti framleidd í heimum, sem má ímynda sér í formi sömu tölu af fílum. Aðeins lítill hluti skilar sér til endurvinnslu eða endurnýtingar og er meiri hluti þess annaðhvort grafinn í jörðu eða endar í hafinu, en talið er að um 5 milljón tonn af plasti endi í sjónum á hverju ári. Hér áður fyrr var oft sagt „lengi tekur sjórinn við“ en nú er jafnvel talið að það verði meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050.

annska@bb.is

Fullt hús stiga eftir annasama helgi

Unglingaflokkur Vestra eftir sigurinn gegn Stjörnunni í Ásgarði ásamt Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara.

Viðburðarrík helgi er nú að baki í körfuboltanum hjá Vestra en leiknir voru níu útileikir á höfuðborgarsvæðinu frá föstudegi til sunnudags; einn unglingaflokksleikur, fjórir leikir í 9. flokki drengja og fjórir leikir í minnibolta eldri stúlkna. Fór svo að allir leikirnir unnust og er því Vestri karfa með fullt hús stiga eftir þessa annasömu helgi. Allir hóparnir þrír hafa í vetur æft undir stjórn Yngva Páls Gunnlaugssonar, yfirþjálfara körfuknattleiksdeildar Vestra.

Unglingaflokkur karla lék sinn síðasta leik á tímabilinu gegn Stjörnunni í Ásgarði á föstudagskvöld og hafði sigur í framlengdum leik, 72-64. Liðið lék í 2. deild í vetur og hafnaði í 5. sæti.

Bikarmeistarar 9. flokks drengja spiluðu síðan fjóra leiki í síðustu umferð Íslandsmótsins í B-riðli, en mótið fór fram hjá ÍR-ingum í Hertz hellinum fræga. Þar mættu þeir heimamönnum ásamt Þór Akureyri, Keflavík og sameiginlegu liði Borgnesinga og Reykdæla. Drengirnir sigruðu alla sína leiki með verulegum yfirburðum. Þeir eru því komnir upp í A-riðil á ný, ásamt fjórum bestu liðum landsins í þeirra aldurshópi.

Sigursæll 9. flokkur Vestra ásamt Yngva þjálfara komnir í hóp þeirra bestu á ný eftir mót helgarinnar.

Stelpurnar í minnibolta eldri, 10-11 ára, tóku þátt í fimmta og síðasta Íslandsmóti vetrarins í þeirra aldurshópi en mótið fór fram hjá Fjölni í Dalhúsum í Grafarvogi.  Uppskar liðið sigur í öllum sínum leikjum en þær léku í C-riðli mótsins. Þær hefja því leik í B-riðli á næstu leiktíð.

Vestrastelpurnar í minnibolta eldri unnu alla leikina sína um helgina undir stjórn Nökkva Harðarsonar, þjálfara, sem hljóp í skarðið á annasamri helgi Yngva yfirþjálfara.

Þakklætivottur fyrir kærleiksverk Færeyinga

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Eins og áður hefur verið greint frá ætla fulltrúar Ísafjarðarbæjarog Súðavíkurhrepps í opinbera heimsókn til Færeyja í maí. Þar á að afhenda færeysku þjóðinni minnisvarða sem þakklætisvott fyrir þjóðarsöfnun Færeyinga eftir snjóflóðin mannskæðu í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Söfnunarféð var nýtt til að reisa nýja leikskóla í þorpunum.

Í bókun sveitarstjórnar Súðavíkhrepps segir: „Í dag eru 15 börn í leikskólanum í Súðavík. Hvert og eitt þeirra er birtingarmynd gjafarinnar frá Færeyjum, ómetanlegt. Það er von og vilji Súðavíkurhrepps að listaverkið verði táknmynd fyrir einlægan þakkarhug íbúa Súðavíkurhrepps til Færeyinga, það vinarþel sem Færeyingar eiga í íbúum sveitarfélagsins og það atfylgi, þann kraft og samverknað sem þeir í eiga í einu sveitarfélagi á Vestfjörðum.“

Kostnaður Súðavíkhrepps vegna verkefnisins er um tvær milljónir króna. „Ljóst er að kostnaður sveitarfélagsins vegur lítið á móti kostnaði og kærleik færeysku þjóðarinnar, sem gaf af skorti sínum í erfiðu árferði árið 1995,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

smari@bb.is

 

FUBAR á Patreksfirði

Jónas Sen og Sigríður Soffía í hlutverkum sínum.

Dansarinn og danshöfundurinn Sigga Soffía hefur verið á sunnanverðum Vestfjörðum í tengslum við verkefnið List fyrir alla. Í gær og í dag hafa ungmenni á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði tekið þátt í danssmiðju og þegar allir hafa lært, spunnið og dansað verður síðar í dag haldið í félagsheimilið á Patreksfirði þar sem Sigga Soffía og tónlistarmaðurinn Jónas Sen hafa komið sér fyrir og þar verður þeim boðið að sjá sýninguna FUBAR, sem hefur fengið mikið lof, en fyrr á þessu ári kom tvíeykið einnig á Ísafjörð þar sem boðið var upp á eina sýningu á verkinu. Í kvöld gefst síðan almenningi á svæðinu kostur á að bera verkið augum þar sem önnur sýning verður í félagsheimilinu á Patreksfirði klukkan 20.

Í umfjöllun um verkið segir að FUBAR sé egósentrískt verk skandínavískrar stúlku. Textarnir í verkinu innihalda fyrsta heims vandamál, hugleiðingar og vandamál íslenskrar konu sem hefur lifibrauð sitt af því að dansa á sviði almenningi til skemmtunar. Síðastliðin ár hefur danshöfundurinn Sigga Soffía unnið nokkur stór verk sem hlotið hafa verðskuldaða athygli, þar má nefna flugeldasýningarnar á Menningarnótt, opnunarsviðsverk Listahátíðar í Reykjavík, Svartar Fjaðrir, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og verkið Og himinninn kristallast, sem hún gerði fyrir Íslenska dansflokkinn.

FUBAR var frumsýnt í Gamla bíó í októbermánuði og hefur síðan verið sýnt á Ísafirði, Akureyri, Borgarnesi, Ólafsfirði og Egilsstöðum. Sýningin saman stendur af hreyfiefni, söng og texta eftir Siggu Soffíu og Jónas Sen kemur fram og flytur lifandi tónlist. Leikmyndin er eftir myndlistarmanninn Helga Má Kristinsson og búningar eftir Hildi Yeoman.

annska@bb.is

 

Hlýnar smám saman

Hitakort Veðurstofunnar á hádegi 25 apríl 2017

Útlit er fyrir suðvestan- og vestanátt á landinu í dag, fimm til fimmtán metra á sekúndu og verður hvassast norðvestantil. Það verður skýjað og dálítil væta af og til en bjart með köflum suðaustan- og austanlands, samkvæmt spá Veðurstofunnar. Á morgun verður svipað veður en dregur úr vindi seinnipartinn. Það hlýnar smám saman í veðri og á morgun verður hiti sex til fjórtán stig að deginum, hlýjast um suðaustanvert landið.

Á Vestfjörðum er spá suðvestanátt, átta til fimmtán metra á sekúndu. Lægir heldur síðdegis á morgun og snýst svo í suðaustan 5-10. Skýjað og lítilsháttar væta súld eða rigning og hiti 4 til 7 stig yfir daginn.

Þriðjungur tjónabíla á of slitnum dekkjum

Rúmlega þriðjungur þeirra 100 tjónabíla sem VÍS skoðaði dekk hjá í febrúar og mars  voru á of slitnum dekkjum. Samkvæmt reglugerð frá 2014 skal dekkjamynstur vera að lágmarki 3 mm að dýpt frá 1. nóvember til og með 14. apríl. Yfir sumartímann er aftur á móti samkvæmt reglugerðinni nægjanlegt að mynstursdýptin sé að lágmarki 1,6 mm.

Þetta er í fimmta sinn sem VÍS gerir könnun sem þessa, síðast árið 2015 en þá voru 65% ökutækja á of slitnum dekkjum og ástandið batnað umtalsvert og má vænta að auknar kröfur reglugerðarinnar skili þessum árangri. Þrátt fyrir þróun í rétta átt  er ekki ásættanlegt að enn sé þriðjungur tjónabíla með of litla mynstursdýpt að vetri til.

Þrátt fyrir að enginn mótmæli því að dekk eru mikilvægur öryggisþáttur í umferðinni, er greinilegt að of margir huga ekki að ástandi þeirra. VÍS hvetur alla ökumenn til að yfirfara ástand þeirra dekkja sem þeir ætla að nota í sumar.

Nýjustu fréttir