Sunnudagur 1. september 2024
Síða 2216

Fjallað um Mugison á Nordic Playlist

Mugison, Örn Elías Guðmundsson, ásamt papamug, Guðmundi M Kristjánssyni.

Fjallað er um ísfirska tónlistarmannin Mugison á tónlistargáttinni Nordic Playlist. Nordic Playlist er þjónusta sem býður vikulega leiðsögn um heitustu lög og helstu listamenn Norðurlandanna, en tónlistin sem kynnt er vikulega er valin af virtum einstaklingum: tónlistarfólki, plötusnúðum, blaðamönnum og bókurum tónlistarhátíða.

Í umfjöllununni um Mugison er sýnt frá tónleikum Mugison á Iceland Airwaves tónlistarhátíð sem haldin var fyrr í haust. Þar segir að Mugison er „magnaður flytjandi, erfitt er að taka augun af tónlistarmanninum á tónleikum, jafnvel þau skipti sem hann er ekki bólstraður með rosafengnum meðleikurum úr hljómsveit hans, þá er flutningur hans samt ótrúlega kraftmikill!“

Enjoy Mugison performing live in session at Iceland Airwaves!

brynja@bb.is

Færri segja upp á landsbyggðinni

Um hundrað kennarar hafa sagt upp störfum á Suðvesturhorni landsins, flestir í Reykjanesbæ og í Breiðholti í Reykjavík. Uppsagnir virðast haldast í hendur við atvinnuástandið en kennarar á landsbyggðinni vilja margir frekar fara í verkfall en segja upp. Frá þessu var greint á vef ríkisútvarpsins.

Af þeim hundrað grunnskólakennurum, sem sagt hafa upp störfum vegna óánægju með kaup og kjör, eru hlutfallslega langflestir í Reykjanesbæ, en þar hafa 40 kennarar sagt starfi sínu lausu. Af þeim 56 kennurum, sem hafa sagt upp í Reykjavík, starfa 33 í Breiðholti. Ekki eru teljandi uppsagnir kennara á landsbyggðinni.

Haft var eftir trúnaðarmanni kennara á Djúpavogi að hún teldi atvinnuástand á landsbyggðinni valda því að kennarar segðu síður upp. Þar sem að atvinnutækifæri væru ekki eins mörg og á höfuðborgarsvæðinu, væri ekki eins auðvelt fyrir kennara á landsbyggðinni að segja starfi sínu lausu.

Samkvæmt upplýsingum frá Grunnskólanum á Ísafirði hafa ekki borist neinar formlegar uppsagnir. Erna Sigrún Jónsdóttir, trúnaðarmaður kennara á Ísafirði, segir svipað vera upp á teningnum hjá kennurum á Ísafirði „Já, ég myndi segja að atvinnuhorfur á svæðinu hafi mikið að segja. Við höfum rætt það talsvert varðandi uppsagnirnar. Hér gengur þú ekkert endilega í störf sem krefjast þeirrar háskólamenntunar sem kennarar hafa. En auðvitað, ef fólki ofbýður algjörlega, þá íhugar það vissulega sína stöðu og tekur ákvörðun út frá því.“

brynja@bb.is

Þórunn Arna í nýju lagi Jóns Ólafssonar

Þórunn Arna Kristjánsdóttir.

Jón Ólafsson hefur sent frá sér nýtt lag af væntanlegri sólóplötu sinni, sem von er á snemma árs 2017. Ísfirska söng- og leikkonan Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikur í myndbandi við lagið. Lagið heitir „Þegar þú finnur til“. Leikstjóri myndbandsins er KiddiK. Þórunn Arna er fædd og uppalin á Ísafirði og útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010 og var þá ráðin til Þjóðleikhússins. Hún hefur leikið í Dýrunum í Hálsaskógi, Macbeth, Vesalingunum, Ballinu á Bessastöðum og Heimsljósi til að nefna nokkur.

https://www.youtube.com/watch?v=N86PwGs7BFohttp://

brynja@bb.is

Mugison toppar sig enn og aftur

Mugison og hljómsveit. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson

Okkar eini sanni Mugison hélt útgáfutónleika sína í Edinborgarhúsinu á föstudagskvöld. Þar steig hann á stokk ásamt hljómsveit sinni sem margir vilja meina að aldrei hafi hljómað betur, þó ekki hafi hún nú hljómað illa fram til þessa. Tónleikarnir voru sannkallað töfratónamaraþon, dagskráin löng og þétt og ekki gefin tomma eftir í að gera kvöldið sem eftirminnilegast í hugum þeirra rúmlega 200 gesta sem mættu á staðinn og senda þá út í skammdegisnóttina með sálarfóður til að moða úr framundir vetrarsólstöður eða lengur þar sem allir fengu fóður í föstu formi með sér heim, nýja diskinn, Enjoy!

Á tónleikunum var spilað efni af hinum nýútkomna diski, ásamt því sem eldra efni fékk einnig að njóta sín, en líkt og Mugison sagði sjálfur í spjalli við Bæjarins besta fyrir skömmu, ekki hægt að leggja það á tónleikagesti að heyra of mikið af nýju efni í einu. Svo bróðurlega var skipt á milli þess nýja og gamla, og hélt tónlistarmaðurinn gestunum vel upplýstum um framvindu mála á meðan á tónleikunum stóð. Allt hljómaði þetta stórkostlega. Gamla efnið lá líkt og amerískur dreki og nýja efnið var eins og það hefði alltaf verið til.

Það var þétt setinn bekkurinn í Edinborgarsal. Mynd: Matthildur Helgadóttir Jónudóttir
Það var þétt setinn bekkurinn í Edinborgarsal. Mynd: Matthildur Helgadóttir Jónudóttir

Það kvað við nýjan tón á tónleikunum, þó svo að bæði kraftmikil og undurþýð rödd Mugison, ásamt þéttasta og svipmesta trommuleik norðan Alpafjalla sé enn í fyrirrúmi. Lögunum fjölgar, ekki bara í eiginlegri merkingu, að tónlistarmaðurinn sé stöðugt að bæta í sarp sinn. Heldur er tónlistin lagskiptari, útfærðari, dýpri og með fleiri ásjónur en áður. Nýr meðlimur hefur gengið til liðs við hljómsveitina, Rósa Sveinsdóttir, sem spilar á barítónsaxófón og þverflautu og hefur verið lagt mikið upp úr því að bæta við röddun, sem heppnaðist afar vel. Það má eiginlega segja að á tónleikunum hafi bara verið einn hængur, að þurfa að sitja kyrr.

Þessi tvö eru alltaf dásamleg saman á sviði. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson
Þessi tvö eru alltaf dásamleg saman á sviði. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson

Mugison, líkt og Handboltalandsliðið, sem Íslendingar gjarnan eigna sér á tyllidögum, er löngu orðinn yfirlýst þjóðareign Vestfirðinga, þrátt fyrir að hafa stundum reynt að klóra í bakkann og greina frá raunverulegum uppruna sínum. En við þráumst við að heyra slík óþarfa rök – hver vill annars ekki slíkt óskabarn?!

Hljómsveitin mun á næstu vikum deila gleðinni með fleirum og verða um næstu helgi tónleikar á Akranesi og í Reykjanesbæ. 7. og 8. desember verða svo tvennir tónleikar í Hörpu sem seldist upp á á methraða. 9. desember verða aftur tvennir tónleikar á Græna hattinum á Akureyri og næsta dag lokatónleikarnir í þessari hrinu í Valaskjálf á Egilsstöðum.

annska@bb.is

Ísfirðingum gekk vel í Svíþjóð

Sigurður Arnar, Albert, Dagur, Sólveig og Kristrún í góðu fjöri í Svíþjóð.

Æfinga og keppnisferð íslenska B-landsliðsins í gönguskíðum til Svíþjóðar lauk í gær. Skíðafélag Ísfirðinga á þó nokkra gönguskíðagarpa í hópnum, þau Albert Jónsson, Önnu Maríu Daníelsdóttur, Dag Benediktsson, Pétur Tryggva Pétursson, Sólveigu Maríu Aspelund og Sigurð Arnar Hannesson. Síðasta keppni var 10 kílómetra ganga með frjálsi aðferð í Idrefjäll í gær og gekk hópnum vel.

Í FIS-móti 17-20 ára stúlkna átti Anna María Daníelsdóttir frábæra göngu, hún endaði í 23. sæti og vann sér inn 187 punkta. Í flokki 17-20 ára karla hafnaði Albert Jónsson í 32. sæti og fékk 148 FIS punkta, sem eru hans bestu punktar hingað til, en FIS punktar eru styrkleikastig sem virka þannig að þeim mun sterkari sem keppandi er, þeim mun lægri FIS punkta hefur hann. Dagur Benediktsson endaði í 66. Sæti með 203 FIS punkta sem einnig eru hans bestu punktar. Sigurður Arnar hafnaði í 88. sæti og Pétur Tryggvi Pétursson í 102. sæti.

Ólafur Björnsson fararstjóri hópsins sagði hópinn vera vel stemmdan og ánægðan með árangur helgarinnar: „Krakkarnir voru lítið eða ekkert búin að fara á skíði fyrir ferðina og þau stóðu sig mjög vel miðað við það. Um þessa helgi stóðu þau mörg sig enn betur og náðu meðal annars Albert og Dagur sínum bestu FIS-punktum. Svo stóð Anna María Daníelsdóttir sig einnig mjög vel en þetta var hennar fyrsta FIS móti. Ég er því mjög ánægður með ferðina og þennan flotta hóp.

Pétur Tryggvi, Anna og Albert
Pétur Tryggvi, Anna og Albert

Í hópnum var einnig Brynjar Leó Kristinsson sem er skíðafólki á Ísafirði vel kunnugur, hann gekk 15 kílómetra og hafnaði í 92. sæti.

 

 

brynja@bb.is

Málefni fatlaðra best unnin í samvinnu allra sveitarfélaganna

Vestfirðir.

Fram kom í bókun frá síðasta bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar að bæjarráð fæli bæjarstjóra að ræða við framkvæmdastjóra Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks, um þann möguleika að Ísafjarðarbær taki yfir þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu. Stór hluti þjónustunnar hefur verið í höndum BSVest. Ef af þessu yrði þýddi það að Ísafjarðarbær drægi sig út úr samstarfi um málefni fatlaðs fólks, en Ísafjarðarbær er sem stendur stærsta sveitarfélagið í Byggðasamlaginu.

Pétur G. Markan sveitastjóri í Súðavík segir Súðavíkurhrepp ekki sjá ástæðu til að skoða breytingar að svo stöddu: „Súðavíkurhreppur er ekki að skoða sýna stöðu innan byggðasamlagsins, enda er það afstaða sveitarfélagsins að málefni fatlaðaðra séu best unnin í samvinnu allra sveitarfélaga á Vestfjörðum.  Með það að leiðarljósi, það er besta mögulega þjónusta sem völ er á, er engin ástæða til að skoða einhverjar breytingar.“

Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi bæjarstjóri Vesturbyggðar tekur undir með Pétri og segir að ef til breytinga komi gæti það verið tímafrekt ferli: „Til þess að Ísafjarðarbær geti tekið til sín þjónustuna þurfa þeir að segja sig úr byggðasamlaginu eða sveitarfélögin að taka ákvörðun um að slíta því. Það tekur drjúgan tíma. Ég tel að við getum vel sinnt þessu verkefni með sama hætti og við höfum gert hingað til, hvort heldur sem það verður á okkar forsendum eða í byggðasamlagi með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum, en þetta hefur ekki verið rætt formlega hjá okkur.“

Pétur segir mikilvægt að hafa gæði  þjónustunnar í forgangi: „Hins vegar hefur Súðavíkurhreppur haft skoðun á rekstri byggðasamlagsins, eins og öllum öðrum rekstri sem sveitarfélagið kemur nálægt. Það breytir ekki afstöðu sveitarfélagsins, sem er að málaflokkurinn á að vera í því formi sem getur veitt bestu þjónustuna, sem er í þessu tilfelli byggðasamlag, þar sem sveitarfélögin taka höndum saman um þjónustuna.“

brynja@bb.is

Kynnir Ultimate Frisbee fyrir Vestfirðingum

Maður leikur sér í folfi, einnig nefnt frisbee golf.

Til stendur að að kynna Ultimate Frisbee fyrir íbúum á norðanverðum Vestfjörðum í kvöld. Halla Mia, fréttaritari Ríkisútvarpsins á Vestfjörðum stendur fyrir kynningunni: „Ég kynntist ultimate frisbee í Berlín, það er frekar vinsælt í Þýskalandi, Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada. Það er kannski rokið sem veldur að það hefur ekki náð fótfestu hér.“ En samkvæmt Höllu þarf maður að vera klárari í að kasta ef spilað er í roki, því sé oft spilað innanhúss.

Halla útskýrði leikinn stuttlega fyrir blaðakonu: „Það eru 5-7 í liði. Markmiðið er að koma disknum yfir völlinn og að hann sé gripinn á marksvæðinu sem er á enda vallarins. Það má ekki hlaupa á meðan maður er með diskinn í höndunum.“ Það sem er sennilega merkilegast er að það eru aldrei dómarar heldur snýst þetta um að leikmenn gera brotin upp sjálfir og segir Halla Mia regluna „sá vægir sem vitið hefur meira“ gilda á vellinum.

Á Facebook-síðu viðburðarins segir „Allir velkomnir, engir frisbíhæfileikar nauðsynlegir bara áhugi.“ Fyrir áhugasama um ultimate frisbee má lesa meira á vef Wikipediu.

Kynningin verður haldin í kvöld, mánudag klukkan 20 í íþróttamiðstöðinni Árbæ í Bolungarvík, sem er í sama húsnæði og Musteri vatns og vellíðunar.

brynja@bb.is

Kynntu hugmyndir um lýðháskóla á Flateyri fyrir bæjarráði

Stýrihópurinn leggur til fjórar námsleiðir.

Á síðasta bæjarráðsfundi hjá Ísafjarðarbæ kynntu þau Dagný Arnalds, Ívar Kristjánsson og Runólfur Ágústsson fyrir bæjarráði hugmynd stýrihóps sem vinnur að þróun starfs lýðháskóla á Flateyri. Lýðháskólar eru einskonar lífsleikniskólar þar sem nemendur geta valið sér nám úr fjölda ólíkra námsgreina þar sem ekki er lögð áhersla á próf heldur fremur þátttöku og að nemendur læri eitthvað gagnlegt og skemmtilegt.

Í kynningu hópsins segir að margir þættir geri Flateyri að sterkum bæ fyrir lýðháskóla, umhverfið, árstíðirnar, friðsældin í náttúrunni og menningarlíf Flateyrar.

Runólfur Ágústsson er verkefnastjóri stýrihópsins: „Þessi hugmynd er búin að vera á floti á svæðinu býsna lengi  og við tókum þetta upp síðsumars og fórum að skoða þetta af alvöru. Hugmyndin gæti virst fólki pínu langsótt en þegar við fórum að greina lýðháskólahugmyndina og skoða fordæmi á Norðurlöndum, þar sem fólk er að fara að mennta sig menntunar vegna en ekki til að fá gráðu, þá sáum við margt jákvætt og framkvæmanlegt í hugmyndinni.“

Runólfur segir Flateyri hafa marga styrkleika til að hýsa lýðháskóla: „Við fórum að greina Flateyri út frá þessari hugmyndafræði og sáum fullt af góðum kostum. Þetta er öflugt, lítið og þétt samfélag sem er ákveðinn styrkleiki sem hefur sýnt sig á Norðurlöndunum að nýtast vel. Svo er Önundarfjörður einstakt umhverfi.“

Þær námsleiðir sem hópurinn leggur til að kenndar yrðu við lýðháskóla á Flateyri eru kvikmyndagerð, tónlist, umhverfisfræði og fjallamennska. „Tveir grundvallar styrkleikar Flateyrar eru vissulega kvikmyndir og tónlist. Þar viljum við byggja á styrkleika þess stóra hóps kvikmyndagerðarfólks sem á tengsl við Flateyri og kemur hingað reglulega, svo er auðvitað sterk tónlistarhefð á svæðinu öllu. Svo stingum við upp á umhverfistengdu nám sem yrði kennt á ensku og þar byggjum við á reynslu Háskólaseturs Vestfjarða.“

Hugmyndin hefur verið kynnt fyrir bæjarráði og segir Runólfur næsta skref vera að stofna félag utan um hugmyndina.

brynja@bb.is

Jólaljós tendruð

Vinkonur á Flateyri

Jólaljós voru tendruð á jólatrjám nokkurra bæja á norðanverðum Vestfjörðum á helginni. Ljós voru kveikt í Bolungarvík, á Flateyri og á Þingeyri. Samkvæmt bókinni ættu jólasveinarnir ekki að vera komnir til byggða, en þeir mættu þó og með allskonar góðgæti í pokaskjattanum sínum. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum glöddust bæði litlir og stórir og með þessari fyrstu helgi í aðventu byrjað biðin eftir jólunum fyrir alvöru.

brynja@bb.is

Nemendur úr G.Í. taka þátt í FIRST LEGO League

Hluti liðs G.Í. við við lokafráganginn í gær. Mynd af vef Grunnskólans á Ísafirði.

Grunnskólinn á Ísafirði tekur nú í fyrsta sinn þátt í keppninni FIRST LEGO League sem haldin verður í Háskólabíói á morgun. Það eru þeir Hafsteinn Már Sigurðsson, Hlynur Ingi Árnason, Jón Ingi Sveinsson, Magni Jóhannes Þrastarson, Sveinbjörn Orri Heimisson og Þráinn Ágúst Arnaldsson sem keppa fyrir hönd G.Í. en þeir eru nemendur í 8. og 10. bekk. Liðsstjóri og leiðbeinandi er Jón Hálfdán Pétursson, sem kennt hefur tæknilegó sem valgrein síðustu tvo vetur.

Keppnin hefur verið haldin hér á landi af Háskóla Íslands frá árinu 2005. Þátttakendur keppninnar eru á aldrinum 10-16 ára. Í hverju liði eru hámark 10 keppendur og a.m.k. einn leiðbeinandi. Liðin keppa sín á milli við að leysa þrautir með forrituðum vélmennum, auk þess sem liðin eru dæmd út frá rannsóknarverkefni, hönnun/forritun á vélmenni og liðsheild.

Keppnin verður send út á Netinu á firstlego.is þar sem tengill verður aðgengilegur á keppnisdag. Jafnframt stendur gestum og gangangi til boða að fylgjast með keppninni í Háskólabíói en auk hennar verður ýmis önnur skemmtun í boði fyrir alla fjölskylduna.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir