Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 2216

Réttlætismál fyrir sjómenn

Breytingar á skattalegri meðferð fæðispeninga er réttlætimál í hugum sjómanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sjómannasambandi Íslands. Sjómannasambandið segir að viðræður við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og sjómannasamtakanna hafa gengið vel liðna daga og að  sameiginlegur skilningur er með aðilum um helstu kröfur.

„Líkt og komið hefur fram í umræðu hafa sjómenn talið að leiðréttingar sé þörf á ójafnræði í skattalegri meðferð á dagpeningum. Sjómenn telja mikilvægt að úr þessu verði bætt. Þar sem um réttlætismál er að ræða hefur þetta veruleg áhrif í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Ráðherra hefur lagt til að fram fari heildstæð greining og skoðun á fæðis- og dagpeningum almennt á vinnumarkaði. Greining þessi er vafalaust jákvæð. Enn stendur þó útaf að fá viðurkenningu stjórnvalda á skattalegri meðferð á dagpeningagreiðslum til sjómanna.“

smari@bb.is

 

Mæta Laugvetningum á Ísafirði í kvöld

Í kvöld mætir MORFÍS lið MÍ Laugvetningum í átta liða úrslitum MORFÍS ræðukeppninnar. MÍ keppir heima að þessu sinni og fer keppnin fram í Gryfjunni í Menntaskólanum á Ísafirði. Keppendur MÍ hafa staðið í ströngu undanfarna daga við undirbúning og ræðuskrif, í síðustu viki mætti liðið til að mynda liði foreldra þar sem tekist var á um djammið og var hart barist en menntskælingarnir höfðu að lokum betur. Í kvöld er það leti sem tekist verður á um og muni MÍ-liðar tala fyrir henni en ML á móti.

Ræðulið skólans skipa þau Hákon Ernir Hrafnsson, Ingunn Rós Kristjánsdóttir, Veturliði Snær Gylfason og Þórður Alexander Úlfur Júlíusson og voru þau öll að Hákoni undanskildum í ræðuliði skólans síðasta vetur. Þjálfari þeirra er Sólveig Rán Stefánsdóttir.

Keppnin hefst klukkan 20 í Gryfjunni.

annska@bb.is

Krabbameinsfélagið gegn áfengisfrumvarpinu

Stjórn Krabbameinsfélags Íslands lýsir yfir andstöðu við frumvarp um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og að heimila áfengisauglýsingar. Stjórnin hvetur alþingismenn til þess að fella frumvarpið. Í ályktun frá stjórninni segir að með frumvarpinu sé verið að leggja til að aðgengi að áfengi verði stóraukið með tilheyrandi fjölskylduvanda, samfélagslegum kostnaði, heilsufarsvanda og álagi á heilbrigðiskerfið.

Fjöldi fagfólks á sviði heilbrigðis og félagsvísinda auk félagasamtaka hafi fært góð rök fyrir því aukið aðgengi að áfengi sé ekki af því góða. „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur um áratugaskeið lagt til við aðildarþjóðir sínar að unnið verði markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Það er fjarri lagi að hægt sé að taka ákvarðanir sem varða áfengi á þeirri forsendu að þar sé um að ræða venjulega neysluvöru,“ segir í ályktuninni.

Tengsl eru á milli áfengisneyslu og krabbamenins og félagið bendir á að vitað sé að áfengi auki líkur á krabbameini í munnholi, koki, barka, vélinda lifur, ristli, endaþarmi og brjóstum. Einnig séu vísbendingar um að það auki líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli auk fleiri tegunda krabbameins. Áætlað er að áfengi sé orsök um 4% dauðsfalla af völdum krabbameins eða um 25 manns hér á landi árlega.

Þar segir einnig: „Með samþykkt frumvarpsins væri gengið þvert á ýmsar áætlanir til bættrar heilsu sem stjórnvöld hafa samþykkt á undanförnum árum og mikilvægum stoðum kippt undan árangursríkri forvarnastefnu í áfengismálum sem almenn samstaða hefur verið um hjá þjóðinni. Stefnu sem meðal annars hefur skilað því að hér á landi er heildarneysla áfengis með því lægsta sem þekkist í okkar heimshluta og árangur í forvörnum meðal ungmenna á heimsmælikvarða. Okkur ber skylda til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr neyslunni en ekki auka hana. Þannig stöndum við vörð um heilsu fólksins í landinu.“

smari@bb.is

Strandveiðar auka á sátt

Strandveiðibátur landar í Bolungarvík.

Í síðustu viku funduðu fulltrúar Landssambands smábátaeigenda (LS) með atvinnuveganefnd Alþingis. Á fund­in­um var farið yfir helstu áherslu­mál fé­lags­ins sem viðkoma breyt­ing­um á lög­um um stjórn fisk­veiða og reglu­gerðum. Auk þess var lands­sam­bandið kynnt, enda marg­ir nefnd­ar­manna á sínu fyrsta ári í þing­mennsku.

Mesta áhersl­an var lögð á strand- og mak­ríl­veiðar. Einnig voru rædd­ar kröf­ur LS um að auka heild­arafla í þorski, um línuíviln­un, byggðakvóta, veiðigjald og samþykkt­ir aðal­fund­ar, svo eitt­hvað sé nefnt.

Hvað viðkem­ur strand­veiðum var lögð áhersla á mik­il­vægi þeirra í að auka sátt um stjórn­kerfi fisk­veiða og fyr­ir hinar dreifðu byggðir, leið fyr­ir nýliða til að hefja út­gerð. All­ir þess­ir þætt­ir mundu efl­ast ef krafa LS um „fern­una“ svokölluðu, en það er heiti yfir sam­felld­ar strand­veiðar í fjóra mánuði (maí – ág­úst), fjóra daga í viku) næði fram að ganga.  Þó að afli yk­ist yrði það ekki í beinu sam­hengi við fjölg­un daga, þar sem sókn og viðhorf myndi gjör­breyt­ast að mati LS. Að lok­um var lögð áhersla á að strand­veiðar hefðu ekki notið þeirr­ar aukn­ing­ar sem orðið hefði á þorskkvót­an­um frá ár­inu 2011.

Varðandi mak­ríl­inn var ít­rekuð áhersla fé­lags­ins um að aflétta öll­um veiðitak­mörk­un­um á færa­veiðar þar til hlut­deild smá­báta í heild­arafla nær 16%.

smari@bb.is

Hægviðri í dag

Það verður hið ljúfasta veður á Vestfjörðum í dag, er Veðurstofan spáir hægri norðaustlægri eða breytileg átt og björtu veðri að mestu með hitastigi í kring um frostmark. Það þykknar upp í nótt og á morgun er gert ráð fyrir norðaustan m/s 8-13 er líður á daginn með rigningu og þá hlýnar nokkuð.

Nokkur hálka er á Vestfjörðum, einkum á fjallvegum.

annska@bb.is

Svarta gengið sýnd á Ísafirði

Á föstudagskvöldið verður sýnd í Ísafjarðarbíói heimildarmyndin Svarta gengið eftir Kára G. Schram. Í myndinni er sagt af Þorbirni Péturssyni, Bjössa, fjárbónda og einsetumanni á Ósi í Arnarfirði sem þurfti að bregða búi í kjölfar veikinda og var hann tilneyddur til að fella allt sitt fé. Þar á meðal var hópur kinda sem Bjössi kallaði Svarta Gengið sem hann hafði alið sérstaklega og náð sterku tilfinningasambandi við. Ekki kom til greina að senda Svarta Gengið í sláturhús og í kjölfarið ákvað hann að heiðra minningu mállausra vina sinna með þeim hætti sem honum fannst við hæfi og grafa þær í túninu heima. Jafnframt sótti hann um leyfi yfirvalda að fá að hvíla þeim við hlið þegar þar að kæmi.

Svarta Gengið, sem ber undirtitilinn saga um ást, dauða, bónda og fé er tæpur klukkutími að lengd og var hún frumsýnd í nóvember. Fékk myndin afar góða gagnrýni í Morgunblaðinu þar sem hún fékk fjórar og hálfa stjörnu. Gagnrýnandi myndarinnar Hjördís Stefánsdóttir sagði þar frásögnina einlæga og hún næði kærkominni nánd við persónu sína í hennar náttúrulega umhverfi. Jafnframt sagði hún: Kári varðveitir með myndinni dýrmæta arfleifð þjóðarinnar og dregur líkt og í fyrri verkum sínum upp lifandi lýsingu af einstakri persónu sem svo sannarlega á erindi við komandi kynslóðir. Þorbjörn reisti kindum sínum minnisvarða og Kári heiðrar svo ævistarf Þorbjörns og hverfandi lifnaðarhætti með þessari undurfallegu, raunsönnu mynd.

Nú eiga Vestfirðingar kost á því að berja myndina augum og hefst sýning hennar í Ísafjarðarbíói klukkan 19 föstudagskvöldið 17.febrúar. Aðstandendur myndarinnar koma með á Ísafjörð og bjóða gestum að sýningu lokinni til móttöku í Turnhúsinu í Neðstakaupstað.

Önnur sýning verður kl. 19:00 á laugardag.

annska@bb.is

Gísli á Uppsölum ílengist í Þjóðleikhúsinu

Nýjasta verk Kómedíuleikhússins, einleikurinn um einbúann Gísla á Uppsölum hefur hreiðrað vel um sig í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu. Gísli í líkama leikarans Elfars Loga Hannessonar hélt suður yfir heiðar í janúarmánuði er Kómedíuleikhúsinu hafði boðist að hafa þrjár sýningar á verkinu. Mjög fljótt seldist upp á þær sýningar og var þá þremur sýningum bætt við og þegar seldist upp á þær þremur til viðbótar bætt við, sýningarnar eru nú orðnar 12 á fjölum Þjóðleikhússins og hefur þremur verið bætt við til viðbótar og verða það síðustu sýningarnar á verkinu í leikhúsi þjóðarinnar. Sýnt var í gærkvöldi klukkan 19:30 og næstu sýningar eru á laugardag og sunnudag klukkan 17.

Sýningin um Gísla á Uppsölum hefur vakið mikla athygli og hefur hún fengið afbragðs dóma gagnrýnenda og hlýleg viðbrögð gesta sem keppst hafa við að hlaða hana lofi og segist Elfar Logi hræður, hissa og þakklátur yfir viðbrögðunum.

Þeir Elfar Logi og Þröstur Leó Gunnarsson leikstjóri sýningarinnar voru í viðtali á Bylgjunni í vikunni og má heyra það hér.

annska@bb.is

Hrognkelsi í sviðsljósi Vísindaports

Hrognkelsi verða í sviðsljósinu í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða en þar mun James Kennedy, fiskiíffræðingur við Hafrannsóknastofnunina, flytja fyrirlestur um hrognkelsaveiðar við Ísland. James kennir um þessar mundir áfanga í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

Um aldir hafa hrognkelsi verið veidd við strendur Íslands og verið mikilvægur liður í fæðuöflun landsmanna eftir harða vetur. Veiðarnar hafa tekið breytingum í gegnum aldirnar og nú er svo komið að nær einvörðungu er sóst eftir kvenfiskinum, grásleppunni, vegna hrognanna. Þau eru söltuð, lituð og seld sem grásleppukavíar. Takmarkanir á veiðunum hófust á áttunda áratugnum en þær eru einstakar að því leyti að þær eru sóknarstýrðar en ekki stjórnað með aflamarki. Þar sem fiskurinn er fjarri ströndum landsins utan hrygningartíma hafa ýmsar hliðar líffræði hans verið vísindamönnum huldar. Lengst af hefur verið talið að fiskurinn væri að mestu aðgerðarlítill botnfiskur en nýlegar rannsóknar með merkingum benda til hins gagnstæða.

James Kennedy er sem áður segir sérfræðingur við Hafrannsóknastofnunina þar sem rannsóknir hans hafa beinst að líffræði hrognkelsa og ber hann m.a. ábyrgð á veiðiráðgjöf stofnunarinnar í tengslum við hrognkelsaveiðar við Íslands. Hann starfaði áður í Noregi og á eyjunni Mön þar sem hann vann einkum við rannsóknir á æxlunarlíffræði ýmissa fiskitegunda.

Að venju er Vísindaport í hádeginu á föstudögum og stendur frá 12.10-13.00. Erindi James verður flutt á ensku.

smari@bb.is

Kröfur sjómanna kosta hið opinbera einn milljarð

Verkfallið hefur staðið í rúma tvo mánuði.

Heildarkostnaður útgerðarinnar vegna greiðslu fæðispeninga sjómanna er 2,3 milljarður króna á ári miðað við gildandi kjarasamninga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í útreikningum ráðuneytisins er miðað við að fjöldi  lögskráningardaga sjómanna sé 1,5 – 1,6 milljónir daga á ári og að fæðispeningar séu að jafnaði 1.500 krónur á dag. Áætlað tekjutap ríkisins af þeirri fjárhæð, yrði hún undanþegin skatti, er um það bil 730 milljónir króna á ári, en því til viðbótar myndu sveitarfélögin tapa um það bil 330 milljónum króna í útsvarstekjum.

Sjómenn fá greidda fæðispeninga skv. kjarasamningum og eru þeir breytilegir eftir stærð skipa. Þeir greiða tekjuskatt og útsvar af reiknuðum fæðispeningum, sem eru skilgreindir sem sérstök hlunnindi. Fæðispeningar eru frádráttarbær rekstrarkostnaður hjá útgerðinni og af þeim er greitt tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.

Dagpeningagreiðslur eru miðaðar við að verja þurfi dagpeningum að fullu til uppihalds, þ.m.t. kostnaðar vegna fæðis. Það er síðan skattyfirvalda að meta hvort á móti þessum dagpeningum standi nægilega há útgjöld með hliðsjón af árlegu skattmati.

Almennt háttar svo um aðra launþega að þeir borga fyrir fæði sem vinnuveitandi tryggir þeim, t.a.m. í mötuneytum, með tekjum sem þegar hafa verið skattlagðar.

smari@bb.is

Gæslan með þyrluæfingu

Mynd úr safni

Um kvöldmatarleytið kemur þyrla Landhelgisgæslunnar á Ísafjörð og ljósi reynslunnar þykir rétt að vara í íbúa við en hávaði frá þyrlum boðar sjaldan gott. Að þessu sinni er þó einungis um að ræða æfingu Landhelgisgæslunnar á björgun úr gúmmíbátum og að þessu sinni fer hún fram í Skutulsfirði, en æfingar sem þessar fara að jafnaði fram einu sinni í mánuði. Björgunarfélag Ísafjarðar og Tindar í Hnífsdal munu standa vaktina á æfingunni og hafa sér til fulltingis fleyin Gunnar Friðriksson og Helgu Páls. Hlutverk okkar manna er að útvega fjögur fórnarlömb sem komið verður fyrir út í hafi en áhöfn þyrlunnar er ætlað fiska þau upp og draga upp í þyrlu. Fórnarlömbin verða vel búin í viðeigandi klæðnað og björgunarsveitirnar verða til taks og gæta fyllsta öryggis.

Í júlí 2007 hrapaði TF Sif þyrla Landhelgisgæslunnar í sjóinn við Hafnarfjörð í samskonar æfingu og halda á í kvöld. Fjórir voru um borð í þyrlunni og komust þeir allir út en þyrlunni hvolfdi þegar hún féll í sjóinn.Um þetta var til dæmis fjallað á Vísi þennan dag.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir