Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2216

Knarr Maritime ýtt úr vör

Alfreð Túliníus, framkvæmdastjóri Nautic, Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skaginn 3X, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra, Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Knarr Maritime, og Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Knarr Maritime, brostu breitt þegar tilkynnt var um stofnun Knarr Maritime á sjávarútvegssýningunni í Brussel í dag.

Nú fyrir stundu var tilkynnt um stofnun nýs markaðsfyrirtækis á sviði skipalausna, Knarr Maritime. Það var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra sem það gerði á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni, sem nú stendur sem hæst í Brussel. Að hinu nýja  fyrirtæki stendur ísfirska fyrirtækið Skaginn 3X ásamt Nautic ehf. , Kælismiðjan Frost ehf., Brimrún ehf., Naust Marine ehf., og Verkfræðistofan Skipatækni ehf. sem öll hafa á undanförnum árum komið að hönnun, þróun, smíði og sölu á búnaði og skipum til veiða og vinnslu á sjávarfangi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra segir afar ánægjulegt að hafa komið að því að ýta þessu verkefni úr vör. Hún segir hugvit og frumkvæði íslenskra hátæknifyrirtæki hafa skipað þeim og sjávarútvegi okkar í fremstu röð og það skref sem stigið var í dag staðfesti það frumkvæði og forystu.

Byggir á áratuga reynslu og þekkingu.

Þrátt fyrir að fyrirtækin sex hafi í dag stofnað sameiginlegt markaðsfyrirtæki hafa þau átt í talsverðu samstarfi á undanförnum árum og má þar nefna samstarf við hönnun, smíði og uppsetningu vinnslustöðva innanlands og utan auk þess sem þau taka flest svipaðan þátt í smíði þeirra skuttogara sem hafa verið og eru nú í smíðum fyrir íslensk sjávarútvegfyrirtæki. Starfsemi Knarr Maritime byggir því í raun á áratuga reynslu og þekkingu.

„Íslenskur sjávarútvegur og iðnaður hafa ávallt verið í fararbroddi hvað þekkingu og tækni varðar og samstarf þessara fyrirtækja getur styrkt þá stöðu enn frekar“ segir Finnbogi Jónsson sem er stjórnarformaður hins nýja fyrirtækis.

Sterk staða

Fyrirtækin sem að Knarr Maritime standa munu hvert um sig koma að hönnun og smíði á afmörkuðum þáttum sem ýmist verða smíðaðir af fyrirtækjunum sjálfum eða undirverktökum þeirra.  Smíði aðalvéla og skipsskrokksins sjálfs verður síðan ákveðin í nánu samstarfi við kaupendur skipanna hverju sinni. Þannig verður hægt að bjóða fiskiskip af ýmsum stærðum og gerðum allt eftir óskum hvers kaupanda fyrir sig. „Viðskiptavinir okkar geta á einum stað nálgast allt það besta við fiskveiðar sem íslendingar hafa fram að færa hvort heldur vinnslan fer fram um borð í veiðiskipi eða í landi“ segir Haraldur Árnason nýráðinn framkvæmdastjóri Knarr Maritime en hann hefur um áratugaskeið stjórnað ýmsum fyrirtækjum Hampiðjunnar víðs vegar um heim.

 

 

Ungmenni frá Kaufering í heimsókn

Gísli Halldór, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ásamt vinabæjargestunum og nokkrum ísfirskum vinum þeirra. Mynd af fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar

Þessa vikuna heimsækja Ísafjarðarbæ nemendur frá vinabænum Kaufering í Þýskalandi. Hópurinn kom til Ísafjarðar á fimmtudag í síðustu viku og hefur verið í nægu að snúast hjá þýsku ungmennunum sem hafa farið víða á meðan á dvölinni hefur staðið. Í september fóru nokkrir nemendur úr 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði til Kaufering og dvöldu þar á einkaheimilum hjá jafnöldrum sínum í góðu yfirlæti og nú skal goldið líku líkt með dvöl á ísfirskum heimilum.

Dagskráin er fjölbreytt, til að mynda hittu nemendurnir ásamt kennurum sínum tveimur, Gísla Halldór Halldórsson bæjarstjóra Ísafjaðrarbæjar í gær og fór hann yfir helstu mál sveitarfélagsins með þeim, þá hafa þau farið í heimsókn í Grunnskóla Þingeyrar, kíkt á íslenska hesta, farið í skoðunarferð um Haukadal og fiskeldisstöðina, og notið þess að skreppa í sund á Þingeyri. Nemendurnir hafa tekið þátt í skólastarfinu í G.Í., kynnt sér Fablab og þá fóru þau á menningarkvöld 10. bekkjar í Edinborgarhúsinu í gærkvöldi.

Í dag heldur hópurinn til Suðureyrar í heimsókn í fyrirtækin Íslandssögu og Klofning og í framhaldinu fara þau í kajakferð. Svo verður kveðjumáltíð í Tjöruhúsinu og svo slegið upp balli í grunnskólanum. Í frétt á heimasíðu G.Í. segir að heimsóknir sem þessar séu afskaplega gefandi og lærdómsríkar, bæði fyrir gestgjafa og gesti og mikils virði að kynnast menningu annarra þjóða og styrkja vináttuböndin. ​

annska@bb.is

Aflaukningin 53 prósent

Fiskafli íslenskra skipa í mars var rúmlega 201 þúsund tonn sem er 53% meira en heildaraflinn í mars 2016. Í tonnum talið munar mestu um aukinn uppsjávarafla en tæplega 132 þúsund tonn af loðnu veiddust í mars samanborið við 79 þúsund tonn í mars 2016.  Alls veiddust tæp 57 þúsund tonn af botnfiskafla sem er 14% aukning miðað við mars 2016. Þorskaflinn nam rúmum 34 þúsund tonnum sem er 21% meiri afli en í sama mánuði ári fyrr.

Á 12 mánaða tímabili frá apríl 2016 til mars 2017 hefur heildarafli dregist saman um 35 þúsund tonn eða 3% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Afli í mars metinn á föstu verðlagi var 29,4% verðmætari en í mars 2016.

Frumvarpið aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga

Ísafjarðarbær ætlar að taka þátt í mótmælum sveitarfélaga gegn frumvarpi til laga um skipulag haf- og strandsvæða, verði það  í óbreyttri mynd. Hópur sveitarfélaga ætlar að mótmæla frumvarpinu og verður sent sameiginlegt bréf til Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra þar sem fram kemur að frumvarpið sé aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga og forræði þeirra í skipulagsmálum.

Frumvarpið leggur til að ráðherraskipuðum svæðisráðum verði falin ábyrgð á skipulagsgerð strandsvæða, í stað sveitarfélaganna sjálfra. Ber svæðisráðunum einungis að taka tillit til skipulagsáætlana þeirra sveitarfélaga sem eiga í hlut. Í bréfinu kemur fram að það sé með ólíkindum að einn af ráðherraskipuðum fulltrúum hefur neitunarvald í svokölluðu svæðisráði en sveitarfélögin ekki, þrátt fyrir að hagsmunir þeirra séu hvað mestir þegar kemur að skipulaginu.

Það er tekið undir það sjónarmið ríkisvaldsins að skipulagsskylda haf- og strandsvæða utan netlaga verði bundin í lög, ekki hvað síst með hliðsjón af vaxandi umsvifum á strandsvæðum, s.s. vegna fiskeldis og siglinga farþegaskipa. Á það er bent að Sveitarfélögin verða að koma beint að þessu borði á strandsvæðunum sjálfum, enda mikið í húfi fyrir þau að vel takist til í skipulagi mála á svæðum er varða beinlínis þeirra efnahags- og samfélagsmál.

Þá segir í bréfinu til ráðherra að það sé sérstaklega ámælisvert að í frumvarpinu er ekki skilið á milli skipulags hafsvæða, sem vera ætti á hendi ríkisins, og skipulags strandsvæða, sem vera ætti á hendi sveitarfélaga.

smari@bb.is

Vestfirðingum boðið upp á heilsufarsmælingu

Góð heilsa er gulls ígildi.

Hjartaheill og SÍBS í samstarfi við sveitarfélög og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða bjóða Vestfirðingum ókeypis heilsufarsmælingu 9.-12. maí næstkomandi. Mælingarnar ná til helstu áhættuþátta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið verður upp á öndunarmælingu fyrir þá sem mælast lágir í súrefnismettun. Þátttakendum gefst kostur á að svara lýðheilsukönnun og verður fræðsla um lífsstílstengda sjúkdóma í boði, hjúkrunarfræðingar frá heilsugæslunni verða á staðnum og veita ráðgjöf og eftirfylgd.

Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS heldur fræðsluerindi um lífsstílstengda sjúkdóma og stóru myndina í heilbrigðismálum á Ísafirði fimmtudaginn 11. maí kl. 12-13. Fundurinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verður hægt að taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í fjarfundaverum á Vestfjörðum.

Um erindi Guðmundar segir í fréttatilkynningu: Sjúkdómsbyrði Íslendinga má jafna við að ár hvert glatist af hennar völdum fimmtungur landsframleiðslunnar, að ótöldum þeim persónulega harmleik sem þar liggur að baki. Í fyrirlestrinum er notast við gögn úr skýrsluröð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) „Global Burden of Disease“, þar sem teknar eru saman upplýsingar um ótímabæran dauða (YLL), æviár varið við sjúkdóm og örorku (YLD) og samþætta kvarðann Disability Adjusted Life Years (DALY). DALY-kvarðann, sem nefnist „glötuð góð æviár“ á íslensku, mælir WHO með að stjórnvöld styðjist við varðandi ákvarðanatöku í heilbrigðismálum. Í fyrirlestrinum eru þessi gögn skoðuð á grafískan og gagnvirkan hátt sem gefur afar góða heildarsýn á sjúkdómsbyrðina og ríkuleg tækifæri til umræðu.

 

Mælingarnar verða sem hér segir:

Búðardalur.        9. maí frá  kl. 11-13

Reykhólar:        9. maí frá kl. 12-14

Patreksfjörður:  9. maí frá kl. 18-20

Táknafjörður:    10. maí frá kl. 10-12

Bíldudalur:        10. maí frá kl. 10-12

Þingeyri:           10. maí frá kl. 16-18

Flateyri:            10. maí frá kl. 17-19

Ísafjörður:         11. maí frá kl. 10-14

Suðureyri:         11. maí frá kl. 15-17

Súðavík:            11. maí frá kl. 18-20

Bolungarvík:      11. maí frá kl. 15-17

Drangsnes:        12. maí frá kl. 10-12

Hólmavík:          12. maí frá kl. 14-17

 

annska@bb.is

 

Kosið um tvö stigahæstu merkin til morguns

Á fésbókarsíðu samskotasjóðsins Stöndum saman Vestfirði stendur nú yfir kosning á nýju einkennismerki, eða lógói, fyrir félagið. Til að byrja með voru átta merki í pottinum sem fylgjendur síðunnar gátu líkað við og síðan voru tvö stigahæstu merkin valin og er nú kosið um hvort þeirra beri sigur úr býtum. Kosningin stendur yfir til hádegis á morgun og má kjósa hér.

Stöndum saman Vestfirðir tók til starfa á síðasta ári og hefur sjóðurinn þegar ráðist í þrjár safnanir, í þeirri fyrstu var safnað fyrir barkaþræðingartæki og sprautudælum fyrir HVEST á Ísafirði, í annarri söfnuninni var safnað fyrir sjúkrarúmi fyrir HVEST á Patreksfirði og í þeirri þriðju fyrir hjartastuðtækjum í lögreglubíla á Vestfjörðum. Um þessar mundir er verið að skoða hver næsta söfnun verður og má koma með tillögur um það inn á síðunni þeirra.

annska@bb.is

 

Hafísrannsóknir frá Ísafirði

Hafís úti fyrir Vestfjörðum.

Bandarískt teymi í hafís-, veður- og loftslagsrannsóknum hefur komið sér upp bækistöð á Ísafjarðarflugvelli og Háskólasetri Vestfjarða til að stunda mælingar á áhrifum vindafars og geislunar á hreyfingu hafíss. Teymið mun fljúga í lágflugi yfir lagnarísinn úti á Grænlandssundi og safna ýmsum veðurfarstengdum gögnum, sem munu nýtast til að bæta flugöryggi og dýpka þekkingu á loftslagsbreytingum.

Verkefnið er samstarfsverkefni Veðurfræðideildar Háskóla bandaríska sjóhersins (Naval Postgraduate School) og Háskólaseturs Vestfjarða. Nemar í starfsþjálfun á Háskólasetri Vestfjarða sem stunda nám hafeðlisfræði við Tækniháskólanm í Toulon í Frakklandi munu vinna úr mælingum sem aflað er í leiðangrinum.

Bandaríska teymið samastendur af sex manns, rannsóknarmönnum, flugmönnum og flugvirkja og mun það dvelja á Ísafirði fram í miðjan maí. Sérútbúin Twin Otter-flugvél í eigu bandaríska sjóhersins verður notuð við rannsóknirnar og mun hún sennilega ekki fara framhjá íbúum í Skutulsfirði þessa daga. Flugmennirnir hafa notið leiðsagnar hjá Ísfirðingnum Hálfdáni Ingólfssyni sem hefur mikla reynslu af flugi á norðurslóðum og víðar við mismunandi aðstæður.

yrir teyminu fer Hafliði Jónsson rannsóknarprófessor við loftslagsdeild háskóla bandaríska sjóhersins í Kaliforníu. Hafliði vann um árabil hjá Veðurstofu Íslands og sinnti á þeim tíma snjóflóðarannsóknum og var frumkvöðull í því að beita eðlisfræðilegum aðferðum við að meta útbreiðslu snjóflóða. Teymið kom vestur á Ísafjörð fyrir milligöngu Björns Erlingssonar, sérfræðings hjá Veðurstofu Íslands í sjávarflóðarannsóknum og lagnarísrannsóknum.

Staðsetningin á Ísafirði hefur hefur mikla þýðingu fyrir útfærsluna á verkefninu, en hafíssvæðið sem valið er til rannsóknanna liggur á milli Vestfjarða og Grænlands.  Þar sem flugvélin flýgur mikið til lágflug við mælingar yfir ísnum fást fyrir vikið umtalsvert meiri mælingar úr þeim flugtíma sem varið er vegna staðsetningarinar á Ísafjarðarflugvelli.

smari@bb.is

 

Þæfingur á Dynjandisheiði

Veðurstofa Íslands spáir suðvestan 8-15 m/s og súld eða dálítilli rigningu á Vestfjörðum í dag. Hvassast verður á annesjum, en hægari sunnanátt og þurrt að kalla síðdegis. Hiti 5 til 10 stig. Gengur í suðaustan 8-13 m/s með rigningu á morgun, en vestlægari og snjómugga eða slydda til fjalla um kvöldið og kólnar.

Á Vestfjörðum er víðast greiðfært. Krapi er á Hrafnseyrarheiði og í Trostansfirði en þæfingur á Dynjandisheiði. Þoka er á fjallvegum á sunnanverðum fjörðunum í morgunsárið.

annska@bb.is

GPS, örugg tjáning og endurmenntun atvinnubílstjóra hjá FRMST

 

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða (FRMST) er iðulega nóg um að vera og verður þar í næstu viku boðið upp á GPS námskeið, en talsvert er um liðið síðan slíkt námskeið var síðast í boði. Á námskeiðinu verður fjallað um GPS tækið, helstu virkni og meðferð ferla, punkta og leiða. Það hentar sérlega vel þeim sem nota GPS til leiðsögu á göngu, í bíl eða á sleða. Kennari á námskeiðinu er Gunnlaugur I. Grétarsson, leiðbeinandi hjá Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Kennt verður fimmtudaginn 4. maí frá klukkan 18-22 og þurfa nemendur að hafa með sér GPS-tæki.

Þá er á leiðinni vestur fjölmiðlakonan Sigríður Arnardóttir, sem margir kannast við sem Sirrý, og verður hún með vinnustofu í framsækni og öruggri tjáningu. Þar verður farið í undirbúning fyrir kynningar eða ræður, að takast á við sviðsskrekk og nýta sér kvíðann og kennd tækni við góða kynningu ásamt fleiri gagnlegum þætti. Vinnustofan er hagnýt og hvetjandi fyrir þá sem vilja efla sig eða þurfa starfs síns vegna að koma fram og halda ræður eða kynningar. Námskeiðið með Sirrý verður 11. maí frá klukkan 13‒17.

Í maí og júní  boðuð upp á endurmenntun atvinnubílstjóra með ökuréttindi í flokkum C1, C, D1 og D, en atvinnubílstjórum í vöruflutningum og farþegaflutningum í atvinnuskyni er gert að sækja 35 kennslustunda endurmenntun á fimm ára fresti. Námskeiðin eru fimm talsins sjö kennslustundir hvert. Þeir bílstjórar sem fengið hafa réttindi sín fyrir 10. september 2013 þurfa að ljúka endurmenntun fyrir 10. september 2018. Allir sem endurnýja ökuskírteini með þessum flokkum eftir þann tíma þurfa að hafa lokið endurmenntun.

Frekari upplýsingar um námskeiðin og skráning á þau fara fram á vef FRMST og þar má einnig sjá annað sem er í farvatninu.

annska@bb.is

Endurútgáfa í minningu Ásgeirs Þórs

Vestfirskir gleðipinnar minnast Ásgeirs Þórs Jónssonar með endurútgáfu söngbókar.

Út er komin hin sívinsæla söngbók Vestfirskra Gleðipinna og er það hvorki meira né minna en sjötta sinn sem bókin kemur út frá því hún kom fyrst út árið 1988. Vestfirskir gleðipinnar er félagsskapur sem varð til í Menntaskólanum á Ísafirði upp úr miðjum níunda áratug síðustu aldar og hefur hópurinn haldið vel saman allar götur síðan, eins og söngbókaúgáfan ber vitni um. Söngbók Vestfirskra gleðipinna er ómissandi í hverjum sumarbústað, við varðeldinn, í veiðihúsinu, heima í stofu og í vinnustaðapartýinu.

Jakob Falur Garðarsson er einn gleðipinnanna og hann skrifar á Facebook að Vestfirskir Gleðipinnar hafi haft að leiðarljósi að gleðjast á góðri stundu, rækta vinskapinn og vera sólarmegin í lífinu. „Því miður er það þó ekki svo, að sólargeislar sumarsins færi okkur ávallt gleði og yl. Hjartkær vinur, Ásgeir Þór Jónsson, féll frá langt fyrir aldur fram, sumarið 2007. Með söknuð í hjarta, en minningar sem ylja, gefum við nú út endurbætta söngbók og tileinkum hana minningu Ásgeirs Þórs, sem hefði orðið fimmtugur 21. apríl 2017,“ skrifar Jakob.

Bókin verður gefin en frjáls framlög móttekin með þökkum. Verði ágóði af bókinni, mun hann renna til LIFA, Landssamtaka aðstandenda eftir sjálfsvíg.

Til að panta bókina er hægt að hafa samband við Jakob Fal á Facebook ellegar Indriða Óskarsson (indridio@gmail.com). Frjáls framlög leggist inn á reikning: 545-14-400461 // kt.  060867-3999

Nýjustu fréttir