Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2215

Byggðarannsóknarstyrkur vestur

Jón Jónsson

Úthlutun úr Byggðarannsóknasjóði var kynnt á ársfundi Byggðastofnunar þann 25. apríl. Eldra fólk, innflytjendur, lögreglan, ferðaþjónusta og sjávarlíftækni eru viðfangsefni þeirra rannsókna sem stjórn Byggðarannsóknasjóðs ákvað að styrkja í ár.

Eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk að þessu sinni er rannsóknarverkefni Rannsóknarseturs á Ströndum og er heiti verkefnisins Samspil ímyndar, sjálfsmyndar, fjölmiðlaumfjöllunar og markaðssetningar í ferðaþjónustu. Að sögn Jóns Jónssonar, ábyrgðarmanns verkefnisins er markmið þess að greina og varpa ljósi á þau gagnvirku áhrif sem sjálfsmynd íbúa á tilteknum svæðum og ímynd sömu svæða hafa hvort á annað. Verkefnið snýst um að safna gögnum og rannsaka, greina og túlka samspil ólíkra þátta sem tengjast sjálfsmynd íbúa á afmörkuðu, fámennu og dreifbýlu landsvæði og ímynd byggðarlaga á sömu stöðum. Sérstaklega verða til skoðunar áhrif markaðssetningar svæðisins í ferðaþjónustu og umfjöllunar fjölmiðla á sjálfsmynd og ímynd. Eins verða skoðuð áhrif menningarverkefna og uppbyggingar þeirra á einstökum svæðum. Rannsóknarsvæðið er Vestfjarðarkjálkinn og verður aðferðarfræði og vinnubrögðum þjóðfræðinnar beitt við greiningarvinnuna.

Verkefnið verður unnið innan vébanda Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu sem hefur höfuðstöðvar í Þróunarsetrinu á Hólmavík

Byggðarannsóknasjóður var stofnaður haustið 2014 og er fjármagnaður af fjárlagalið byggðaáætlunar og með framlagi frá Byggðastofnun. Til úthlutunar eru 10 m.kr. Auglýst var eftir umsóknum í sjóðinn í lok janúar og umsóknarfrestur rann út þann 9. mars. Alls bárust 25 umsóknir, samtals að upphæð 72,8 m.kr. Umsóknirnar voru afar fjölbreyttar og uppfylltu allar skilyrði sjóðsins.

 

Útsvarinu verði skipt milli sveitarfélaga

Til álita kem­ur að móta til­lög­ur um skipt­ingu út­svars milli sveit­ar­fé­laga þegar ein­stak­ling­ur vinn­ur í öðru sveit­ar­fé­lagi en þar sem hann á lög­heim­ili. Þetta kem­ur fram í um­sögn Byggðastofn­un­ar við þings­álykt­un­ar­til­lögu nokk­urra þing­manna um skipt­ingu út­svar­stekna milli sveit­ar­fé­laga. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu. Í þings­álykt­un­ar­til­lög­unni er lagt til að skipaður verði starfs­hóp­ur sem kanni mögu­leik­ann á skipt­ingu út­svar­stekna milli tveggja sveit­ar­fé­laga. Kannað verði hvort ein­stak­ling­ar ættu að greiða hluta út­svars til sveit­ar­fé­lags þar sem þeir eiga frí­stunda­hús eða jörð, þó þeir eigi lög­heim­ili í öðru sveit­ar­fé­lagi, sem fær all­ar tekj­ur af út­svari hans í dag.

Í umsögn Byggðastofn­unar kemur fram að að verk­efni hóps­ins ætti að vera víðtæk­ara og hann skoði einnig til­vik þar sem ein­stak­ling­ur flyt­ur lög­heim­ili en sam­kvæmt nú­gild­andi regl­um fell­ur allt út­svar á flutn­ings­ár­inu til ann­ars sveit­ar­fé­lags­ins en skipt­ist ekki milli sveit­ar­fé­lag­anna fyr­ir og eft­ir flutn­ing. Þá kem­ur eins og fyrr seg­ir einnig til álita að mati Byggðastofn­un­ar að mótaðar verði til­lög­ur um skipt­ingu út­svars­ins ef ein­stak­ling­ur vinn­ur í öðru sveit­ar­fé­lagi en þar sem hann á lög­heim­ili.

Bæjarins besta 16. tbl. 34. árgangur

16. tbl. 2017
16. tbl. 2017

Snorri og Caitlin unnu skautið

Landsliðsmaðurinn Snorri Einarsson varð fyrstur í fyrstu keppnisgrein Fossavatnsgöngunnar, en keppt var í 25 km göngu með frjálsri aðferð í gær. Snorri kom í mark á tímanum 01:08:36. Bandaríkjamaðurinn Brian Glegg kom næstur í mark hálfri mínútu á eftir Snorra og Jake Brown frá Bandaríkjunum kom þriðji í mark einni mínútu á eftir sigurvegaranum.

Snorri er fæddur og uppalinn í Noregi, á íslenskan föður en norska móður, og keppti þar til á síðasta ári undir merkjum Noregs en í ár gekk hann til liðs við íslenska landsliðið.

Fyrst kvenna var Caitlin Gregg frá Bandaríkjunum á tímanum 01:16:40 og Britta Johansson Norgren frá Svíþjóð önnur á tímanum 01:18:03. Þriðja í mark var Laura McCabe frá Bandaríkjunum á tímanum 01:19:38.

Fyrstu heimamanna var Albert Jónsson, en hann hafnaði í 8.sæti á tímanum 01:17:23.

Í gær var einnig gengin 5 km ganga, en sú ganga er sniðin fyrir yngri kynslóðina. Fyrstur drengja var Ólafur Pétur Eyþórsson frá Akueyri á tímanum 22:01. Annar var Ástmar Helgi Kristinsson, Ísafirði, á tímanum 22:32 og þriðji var Frosti Gunnarsson, einnig frá Ísafirði, á tímanum 23:57.

Í stúlknaflokki var Hrefna Dís Pálsdóttir, Ísafirði, fyrst í mark á tímanum 23:36. Önnur var Unnur Guðfinna Daníelsdóttir frá Ísafirði á tímanum 24:02 og Beth Ireland frá Bretlandi var þriðja á tímanum 24:26.

Portúgalskur matur á Kaffi Ísól

Marco á tröppum Kaffi Ísólar

Í fjölmenningarsamfélaginu á Vestfjörðum hafa íbúar fengið að njóta ávaxta þess að ekki reki allir íbúar uppruna sinn aftur í íslenska torfkofa. Birtingarmyndirnar eru með ýmsum hætti og margir kunna vel að meta þann anga sem snýr að fjölbreytni í matargerð – að það hafi í raun komið fólk frá öðrum heimshornum sem kenndi okkur að matur gat verið hið mesta lostæti í stað þess að vera einungis eldsneyti til að komast í gegnum dagana, en matarmenning hér á landi hefur þróast hratt síðustu áratugi og gætir nú áhrifa alls staðar frá. Á Kaffi Ísól á Ísafirði er nú fyrirhugað að bjóða upp á portúgalskan mat og er það Marco Santos sem hefur tekið sér stöðu við hlóðirnar þaðan sem hann mun töfra fram allra handa rétti frá heimalandi sínu Portúgal.

Marco flutti hingað til lands fyrir ellefu árum og hefur hann að mestu verið búsettur hér síðan ef undan eru skilin tvö ár þar sem hann bjó í Finnlandi ásamt unnustu sinni, Hennu-Riikku Nurmi, sem er þaðan en hefur síðustu ár séð um að halda uppi öflugri danskennslu hjá vestfirskum börnum og ungmennum við Listaskóla Rögnvaldar.

Marco var ekki mikið að elda í heimahögunum, en hann hefur eldað á veitingastaðnum Húsinu á Ísafirði í fjögur ár. Hann ákvað að söðla um og kynna fyrir norðurslóðaíbúum og gestum þeirra suðrænni stemningu í gegnum bragðlaukana og segist ætla að vera með portúgalska rétti með tvisti eða leyfa sér stundum að leika sér aðeins með þá.  Á matseðlinum verður að finna súpu með heimagerðu brauði, smárétti í tapasstíl, kjötspjót þar sem hægt verður að velja á milli lambakjöts, kjúklings og svínakjöts sem er grillað á teini með grænmeti og borið fram með púrtvínssósu. Þá verður boðið upp á rétt dagsins sem Marco verður þá annaðhvort kjöt eða fiskur, en sjávarfang er mikið notað í portúgalskri matargerð og má þar nefna vinsælar fiskikökur sem oft eru gerðar úr saltfiski, en hann hefur notið fádæma vinsælda þar í landi og segir Marco í það minnsta 1001 þekkt leið til að matreiða saltfisk í Portúgal. Þá verður einnig að finna portúgalskar veigar í fljótandi formi sangríu sem er flestum vel kunn sem heimsótt hafa suðurevrópskar slóðir.

Kaffi Ísól opnar klukkan 18 á föstudag með þessum nýju áherslum.

annska@bb.is

 

 

 

Skiptimarkaður krakkanna í Suðupottinum

Hin ýmsu verkefni hafa verið í gangi í Suðupotti sjálfbærra hugmynda sem starfræktur hefur verið í Skóbúðinni á Ísafirði frá því um miðjan síðasta mánuð. Um síðustu helgi var til að mynda fataskiptimarkaður sem lukkaðist vel og er nú komið að yngri kynslóðinni að spreyta sig á skiptileiðinni. Skiptimarkaður krakkann virkar þannig að börnin taka með sér nokkur leikföng eða föt sem þau eru til í að skipta fyrir eitthvað annað sem þau geta fundið hjá hinum. Hildur Dagbjört Arnardóttir, sem stendur að baki Suðupottinum segir þetta góða leið til að sýna börnunum hversu skemmtilegt það er að gefa hlutum og fötum nýtt líf og fá eitthvað nýtt og spennandi án þess að kaupa það nýtt úr búð og segir hún mikilvægt að kenna erfingjum framtíðarinnar hugmyndafræði sem er til góðs fyrir umhverfið.

Skiptimarkaður krakkanna fer fram í Skóbúðinni á laugardag á milli klukkan 13 og 15.

annska@bb.is

Þeir bestu ýta sér alla leið

Britta Johansson Norgren er fremst kvenna í lengri vegalengdum.

Það var ekki auðvelt að ná sambandi við Daníel Jakobsson göngustjóra Fossavatnsgöngunnar, enda í mörg horn að líta hjá göngustjóranum rétt áður en fyrstu keppnisgreinarnar hefjast. Í dag verður keppt í 25 km göngu með frjálsri aðferð og einnig tvær stuttar göngur (1 km og 5 km) sem nefnast Fjölskyldufossavatnið.

„Það er allt að verða klárt hjá okkur. Spáin fyrir laugardag er ágæt og vindur er að ganga niður og það lítur vel út með göngurnar í dag,“ segir Daníel.

Aðalgangan fer fram á laugardaginn þegar hin eiginlega Fossavatnsganga verður gengin, en hún er 50 km löng. Aðspurður um sigurstranglegustu keppendurnar segir Daníel að Petter Northug komi að sjálfsögðu fyrstur upp í hugann. „Landsliðamaðurinn Snorri Einarsson mun veita honum harða keppni og sömuleiðis Skinstad bræðurnir frá Noregi og landi þeirra Runar Skaug Mathisen sem sigraði 25 km skautið í fyrra. Það getur allt gerst á íslenskum fjöllum svo Petter á sigurinn ekkert vísann.“

Í kvennagöngunni er hin sænska Britta Johansson Norgren sigurstranglegust. „Hún vann heimsbikarinn í lengri vegalengdum í vetur og sömuleiðis Vasagönguna. Hún gæti orðið fyrst kvenna til að ýta sér alla leið,“ segir Daníel.

Hann segir líklegt að þeir bestu sleppi að bera undir skíðin og ýti sér alla 50 kílómetrana. „Það fer eftir hitastiginu. Ef það verður frost og brautin frýs þá finnst mér alveg öruggt að þeir fremstu ýti sér alla leið.“

Mikill hæðamunur í brautinni – og þar af leiðandi mismunandi færi – veldur því að sögn Daníels að erfitt er að finna áburð sem hentar alla leiðina og því kjósi þeir allra sprækustu að fara gönguna á handaflinu einu saman.

Aflaverðmæti minnkaði um 80%

Aflaverðmæti íslenskra skipa var 1,9 milljarðar króna í janúar, rúmlega 80 prósentum minna en í janúar í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands. Sjómannaverkfall stóða allan mánuðinn og skýrir það samdráttinn. Verkfallinu lauk 19. febrúar.

Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að engum uppsjávarafla var landað í janúar og verðmæti botnfiskafla, flatfiska og skeldýra hafi verið umtalsvert minna en í janúar í fyrra. Þá hafi enginn afli verið sjófrystur eða fluttur út í gámum í janúar.

Þegar litið er til tólf mánaða tímabils frá febrúar 2016 til janúar í ár var aflaverðmæti tæpum 26 milljörðum minni en á sama tímabili árið á undan, samdrátturinn nemur rúmum 17 prósentum.

smari@bb.is

 

Skaginn 3X selur uppsjávarverksmiðju í hollenskt skip

Skipið verður tilbúið í lok næsta árs.

Skaginn 3X hefur komist að samkomulagi  um smíði á uppsjávarverksmiðju um borð í hollenskt verksmiðjuskip. Um er að ræða  frekari þróun á þeim búnaði og tækni sem fyrirtækið hefur þróað og selt til nokkurra staða í landvinnslur á undanförnum árum, síðast til Eskju á Eskifirði en sú verksmiðja var tekin í notkun síðla síðasta árs.

Fyrr í þessum  mánuði var gengið frá samningi milli útgerðarfyrirtækisins France Pelagique og norsku skipasmíðastöðvarinnar Havyard um smíði fullkomins uppsjávarverksmiðjuskips til frystingar. Skipið er 80 metrar að lengd og tæpir 18 metrar að breidd. Gert er ráð fyrir að smíði skipsins ljúki í árslok 2018. Havyard og Skaginn 3X hafa nú komist að samkomulagi um að verksmiðjubúnaður skipsins verði hannaður og settur upp af  Skaginn 3X. Verksmiðjan verður búin allri þeirri tækni sem þróuð hefur verið á undanförnum árum m.a. í verksmiðjum í Færeyjum og Íslandi síðast hjá Eskju á Eskifirði.

Jón Birgir Gunnarsson markaðs- og sölustjóri Skaginn 3X segir að verksmiðjuna vera mjög tæknivædda allt frá því að fiskur kemur úr veiðarfærum skipsins þar til fullfrosin afurð verður komin á vörubretti í frystilest skipsins. Meðal annars verði notast við myndgreiningartækni sem greinir hvern einasta fisk eftir tegund, stærð og gæðum og gefur möguleika á rekjanleika í gegnum allt vinnsluferlið. Hjartað í þessu afkastamikla vinnslukerfi eru sjálfvirkir plötufrystar sem þróaðir hafa verið á síðustu árum.

„Uppsjávarverksmiðjur Skagans 3X eru mjög tæknivæddar . Sjálfvirkni þeirra hefur einnig tryggt mikil afköst sem nauðsynleg eru við vinnslu uppsjávarfisks án þess að það komi niður á gæðum afurða. Þetta samkomulag er því afar mikil viðurkenning á okkar lausnum og verðugt verkefni að koma þessari tækni fyrir í fyrsta sinn í veiðiskipi. Það er mikil áskorun sem gaman verður að takast á við“ segir Jón Birgir.

smari@bb.is

Opna fyrir almenna umferð á Fossavatnsgönguna

Sú nýbreytni verður í Fossavatnsgöngunni í ár að opnað verður fyrir almenna bílaumferð upp á Seljalandsdal rétt fyrir startið á laugardagsmorgun. Síðustu ár hefur öll almenn bílaumferð verið bönnuð til að auðvelda umferð rútubifreiða sem flytja um eitt þúsund keppendur upp á dal. „Reynsla síðustu ára segir okkur að umferð einkabíla ætti ekki að þvælast fyrir. En ég bendi fólki á að ekki verður hægt að leggja á bílastæðið við rásmarkið heldur á stæðin fyrir neðan og mögulega þarf fólk að leggja við Skíðheima og ganga upp að rásmarkinu,“ segir Heimir Hansson sem situr í mótsstjórn Fossavatnsgöngunnar. Vegfarendur sem ætla sér upp á dal eru beðnir að sýna rútubílstjórum sem verða á ferðinni tillitssemi.

Umferð verður hleypt á veginn kl. 08.45 en 50 km gangan hefst kl. 09. Fyrstu keppendur í 50 km göngunni ættu að koma í mark um ellefuleytið. Veðurspá fyrir laugardag er góð og því tilvalið fyrir Ísfirðinga að skella sér á dalinn og fylgjast með heimsklassa göngumönnum eins og Petter Northug spreyta sig í fjallasal Skutulsfjarðar.

Fossavatnsgangan hefst í dag með fjölskyldugöngu og 25 km göngu með frjálsri aðferð og engar takmarkanir verða á umferð upp á Seljalandsdal í dag.

Einnig verður boðið uppá rútuferðir á Seljalandsdal og nánari upplýsingar um tíðni ferða og stoppistöðvar má finna á www.fossavatn.com

smari@bb.is

 

Nýjustu fréttir