Sunnudagur 1. september 2024
Síða 2214

Hjálpa má Rauða krossinum að hjálpa öðrum fyrir jólin

Rauði krossinn hér á landi og þar með taldar deildir á norðanverðum Vestfjörðum hefur um árabil veitt aðstoð í formi fataúthlutunar, matar- og fjárhagsaðstoðar til einstaklinga og fjölskyldna fyrir jólin. Þó jólin kunni að vera gleðilegur tími þá getur sá tími sem reynist erfiður fyrir marga, sérstaklega barnafjölskyldur sem eiga erfitt með að láta enda ná saman.

Rauðakrossdeildirnar á Norðanverðum Vestfjörðum taka nú í samvinnu á móti umsóknum og úthluta til þeirra sem á þurfa að halda. Stofnaður hefur verið sérstakur sjóður sem veitt er úr og því er leitað eftir bakhjörlum og styrkjum frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum sem gætu látið fé af hendi rakna til sjóðsins. Reikningsnúmer sjóðsins er  174-05-401270 kt. 6207802789

Umsóknir í sjóðinn er hægt að senda á netfangið vestfirdir@redcross.is eða hafa samband í síma 864-6754

annska@bb.is

Karlakórinn Ernir með aðventutónleika

Karlakórinn Ernir heldur um þessar mundir árlega aðventutónleika sína á norðanverðum Vestfjörðum. Frá því er þeir félagarnir byrjuðu að hefja upp raust sína í þessum tilgangi hafa tónleikarnir notið mikilla vinsælda meðal heimafólks og iðulega þétt setinn bekkurinn. Í gær voru tvennir tónleikar bæði á Ísafirði og í Bolungarvík, en óþarfi er að örvænta ef tónleikarnir fóru framhjá ykkur því þeir félagar endurtaka leikinn í kvöld í Félagsheimilinu á Þingeyri þar sem tónleikar hefjast klukkan 20.

Stjórnandi kórsins er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og undirleikari Pétur Ernir Svavarsson. Á tónleikunum syngja einsöng Aron Ottó Jóhannsson, Pétur Ernir Svavarsson, Sindri Sveinbjörnsson og Vilhelm Stanley Steinþórsson. Á gítar leikur, Jón Gunnar Biering Margeirsson og á fiðlu, Henný Þrastardóttir. Án þess að ætla að spilla spennunni fyrir tónleikunum má geta þess að þar er flutt nýtt lag eftir Jón Hallfreð Engilbertsson sem ber titilinn Sól í húmi sefur.

annska@bb.is

Mýsnar í Súðvík dúkka upp á nýjum stöðum

Þorsteinn Haukur Þorsteinsson og Lilja Kjartansdóttir í Súðavík senda nú frá sér nýja hljóðbók um Sigfús Músason, Fjólu konu hans og músaungana þeirra, en þau voru fyrst kynnt til sögunnar í Músasögum sem komu út fyrir jólin 2014. Líkt og áður þá dúkka mýsnar upp á hinum ýmsu stöðum í Súðavík og á hinni nýju hljóðbók er að finna sögurnar: Músasaga í kirkjunni og Músasaga á Melrakkasetrinu. Líkt og nöfnin gefa til kynna, segja sögurnar af fjölskyldunni í Súðavíkurkirkju og á Melrakkasetrinu eða gamla Eyrardalsbænum, sem er Lilju vel kunnur þar sem hún ólst þar upp.

Haukur og Lilja semja sögurnar í sameiningu með þeim hætti að Haukur setur þær fyrst niður líkt og þær birtast honum og svo tekur Lilja við þeim og þróar þær áfram í endanlegan búning. Það er Lilja sem ljær sögunum svo rödd á hljóðbókunum og Haukur gerir tónlistina. Káputeikning er svo í höndum annars Súðvíkings, Dagbjartar Hjaltadóttur.

Á morgun verður blásið til útgáfugleði í Kaupfélaginu í Súðavík klukkan 20, lesið verður úr Músasögum og flutt lifandi tónlist, á meðan að gestir geta fengið sér kaffisopa, smákökur og konfekt og notið þess að eiga huggulega kvöldstund.

annska@bb.is

Námskeið í útvarpsþáttagerð á nýju ári

Í janúar og febrúar á nýju ári verður boðið upp á námskeið í útvarpsþáttagerð á Ísafirði undir yfirskriftinni „Útvarp sem skapandi miðill – þættir af mannabyggð og snortinni náttúru.“ Námskeiðið verður haldið við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er það Kol og salt í samstarfi við Prófessorsembætti Jón Sigurðssonar sem standa fyrir því. Kennarar eru margreynt fjölmiðlafólk og verða helstu kennarar og umsjónarmenn útvarpskonurnar Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Þorgerður E Sigurðardóttir, og gestakennarar meðal annars: Eiríkur Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Finnbogi Hermannsson, Halla Ólafsdóttir, Pétur Grétarsson og Vera Illugadóttir.

Á námskeiðinu fá nemendur þjálfun og innsýn í allt sem viðkemur þáttagerð fyrir útvarp og læra að búa til 30 mínútna langa útvarpsþætti. Í lok námskeiðsins sem stendur í heildina yfir mánaðarlangt tímabil eiga nemendur að hafa lokið við að gera einn þátt. Námskeiðið er ætlað fólki á Vestfjörðum og þeim sem tengjast svæðinu sterkum böndum og leitað verður til þátttakenda sem ljúka námskeiðinu um áframhaldandi þáttagerð fyrir útvarp.

Tilgangurinn með verkefninu er að segja sögur eða fjalla um efni þar sem leitað er fanga í hugarheimi fólks sem býr, hefur eða mun búa í þessum landshluta og byggja jafnframt upp þekkingu og reynslu af þáttagerð innan svæðisins.

Skráningar á námskeiðið hefjast hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þann 12. desember og er hámarksfjöldi þátttakenda 12 manns. Nánar um námskeiðið má finna hér.

annska@bb.is

Skuggsjá gerir það gott

Stuttmyndin Skuggsjá sem tekin var upp á Hvilft í Önundarfirði á fyrr á þessu ári er nú komin í sýningar á kvikmyndahátíðum og fer sú för hennar vel af stað. Myndin vann á dögunum til verðlauna á tveimur íslenskum kvikmyndahátíðum, á Gullmolanum, stuttmyndahátíð Kópavogs og á alþjóðlegu hryllingsmyndahátíðinni Frostbiter, sem haldin var á Akranesi í nóvember.

Skuggsjá er útskriftarmynd Magnúsar Ingvars Bjarnasonar frá Kvikmyndaskóla Íslands og sá hann um tökur myndarinnar. Flateyringurinn Eyþór Jóvinsson sá hinsvegar um leikstjórn og einnig skrifaði hann handritið, sem byggir á sögu Magnúsar. Leikarar eru þau: Guðrún Bjarnadóttir, Ársæll Níelsson og Víkingur Kristjánsson.

Skuggsjá er hrollvekjandi spennumynd með gamansömu ívafi. Hún segir af tveimur félögum sem ákveða að heimsækja heimili nýlátins afa annars þeirra. Þar komast þeir að því að í lífi hans leyndist fiskur undir steini.

annska@bb.is

Vilja gefa Töniu og fjölskyldu góða jólagjöf

Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir og Karen Gísladóttir

Stöllurnar Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir og Karen Gísladóttir standa fyrir liðakeppni undir yfirskriftinni „Gerum gagn“ í Stúdíó Dan á Ísafirði þann 10. desember næstkomandi. Keppnin er bæði til gamans gerð, jafnframt því sem hún er fjáröflun fyrir Töniu Ciulwik og fjölskyldu hennar. Tania litla, sem fjallað hefur verið um á vef Bæjarins besta, fæddist þann 1.júní síðastliðinn, er hún var í móðurkviði kom í ljós að hún væri með Downs heilkenni og alvarlegan hjartagalla, svonefndan lokuvísagalla. Þegar litla daman kom svo í heiminn 6 vikum fyrir tímann kom einnig í ljós hjartagallinn Fallot.

Foreldrar Tönju eru þau Elizabeta Mazur (Ella) og Miroslaw Ciulwik. Ella vinnur á sjúkrahúsinu á Ísafirði en Miroslaw vinnur hjá HG í Hnífsdal. Fyrir áttu þau dæturnar Nadiu sem er 5 ára og Sonju sem er 17 ára. Frá því Tania fæddist hafa foreldrar hennar ekki getað stundað vinnu og hefur fjölskyldan þurft að dvelja í Reykjavík vegna veikinda litlu dömunnar. Síðasta mánuðinn hafa þau svo dvalið í Svíþjóð þar sem Tania fór í fyrstu aðgerðina af þeim mörgu sem fyrir henni liggja, hún var talsvert mikið lasin eftir aðgerðina, en fjölskyldan fékk svo þær gleðifréttir í vikunni að daman hefði braggast nógu vel til að hún gæti farið aftur til Íslands.

Kolbrún segir að hún og Karen hafi verið að ræða um nokkurt skeið að hafa einskonar „góðverkadag“ í Stúdíó Dan að fyrirmynd Hressleikanna sem líkamsræktarstöðin Hress í Hafnarfirði hefur staðið fyrir. Hún segir að hún hafi fengið að fylgjast með því kraftaverki sem Tania litla er í gegnum móðursystur hennar Ögu, sem er vinkona hennar og þeim hafi langað til að létta undir með fjölskyldunni og í gegnum Stúdíóið gefa þeim góða jólagjöf.

„Gerum gagn“ er liðakeppni, 6 eru í hverju liði og segja þær engar áhyggjur ef ekki tekst að fullmanna liðin, þá verði því reddað. Vilja þær endilega hvetja keppendur til að mæta í skemmtilegum búningum og finna gott nafn á liðið. Fyrsta liðið fer af stað klukkan 10 og það næsta 15 mínútum síðar og þannig heldur þetta áfram koll af kolli þar til allir eru komnir af stað. Þræða liðin svo áfram í gegnum átta stöðvar með mismunandi verkefnum.

Þátttakendur geta í raun slegið tvær flugur í sama högginu með því að efla samheldni innan vina- eða vinnustaðahópa og styrkt gott málefni í leiðinni. Skora þær Kolbrún Fjóla og Karen á fyrirtæki í bænum að senda inn lið í keppnina. Þátttökugjald er 2.500 krónur á mann og einnig verður tekið við frjálsum framlögum. Hægt er að skrá sig til leiks hjá Kolbrúnu Fjólu á netfanginu kfa81@hotmail.com

annska@bb.is

Tania Ciulwik
Tania Ciulwik

Jólaljósin tendruð á Ísafirði og Suðureyri

Á sunnudag er annað dagur aðventu og eru nú þegnar þessa lands teknir til við að koma sér í jólagírinn með ýmsu móti, jafnframt því sem hátíðarundirbúningur er hafinn á mörgum heimilum. Tendrun ljósa á jólatrjám í flestum byggðum bólum er löngu orðið að föstum lið og er það oft tíminn er börnin fá augum að líta fyrsta sinn á aðventunni hina rauðklæddu Grýlusyni, sem nota gjarnan tækifærið til að sýna sig og sjá aðra.

Á Ísafirði verða jólaljósin tendruð á Silfurtorgi á laugardag, hefst dagskrá klukkan 15:30 með Jólatorgsölu Tónlistarskóla Ísafjarðar, stundarfjórðungi seinna stígur Lúðrasveit T.Í. á stokk og 16:10 flytur Gunnhildur Elíasdóttir bæjarfulltrúi hugvekju, í framhaldi af því verður söngatriði frá Barnakór Tónlistarskólans.

Á Suðureyri verða ljósin tendruð á sunnudag klukkan 16. Þar flytur hugvekju Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs. Kvenfélagið verður með kakósölu og fer þar fram söngur lagvissra Súgfirðinga, er segir í tilkynningu frá Ísafjarðarbæ.

Á báðum stöðum er Grýla með í ráðum og sendir hún syni sína til byggða til að gleðja börn og fullorðna með sögum og söng.

annska@bb.is

Íhuguðu að sniðganga tendrun jólaljósanna

T.Í. hefur komið að tendrum jólaljósanna með margvíslegum hætti og má hér sjá Lúðrasveitina leika fyrir gesti

Kennarar við Tónlistarskólann á Ísafirði sýndu á fundi sínum á mánudag eindreginn vilja til að koma ekki að tendrun jólaljósanna á Silfurtorgi með nokkrum hætti, en Lúðrasveit skólans og barnakór hafa í gegnum tíðina glatt bæjarbúa með tónlistarflutningi sínum við þetta tilefni. Einnig er hefð fyrir því að T.Í. og velunnarar skólans haldi vinsæla torgsölu sína við tendrunina. Í hugum margra eru þessir tveir viðburðir líkt og hanski og hönd sem falla fullkomlega að hvoru öðru og þætti algjört óráð að hrófla við einhverju sem hefur gefist svo vel.

Ástæða þess að kennarar vildu ekki koma að skemmtuninni þessu sinni er að þeir vildu vekja athygli á því að tónlistarkennarar hafa nú verið samningslausir í tæpa 13 mánuði. Segja þau að hvorki virðist ganga né reka í samningaviðræðum Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og samninganefndar sveitarfélaganna, þar sem kennarar krefjast þess að störf þeirra verði metin til jafns við störf kennara í öðrum skólagerðum. Tónlistarkennarar eru að jafnaði með 10-15% lægri laun en grunnskólakennarar og gera má ráð fyrir að munurinn verði jafnvel enn meiri eftir nýgerða kjarasamninga við FG. Segir frá þessu í færslu um Torgsöluna á Fésbókarsíðu skólans.

Aðventan er mikill álagstími hjá tónlistarkennurum og tónlistarfólki því tónlistin er ómissandi hluti hennar rétt eins og jólaljósin. Segja kennarar að þeir finni ávallt velvilja bæjarbúa en hann verði þó ekki látinn í launaumslagið, því var þetta örþrifaráð íhugað af kostgæfni, en eftir mikla umhugsun ákváðu stjórnendur skólans í samráði við kennara að Tónlistarskólinn taki sem fyrr þátt í þessari gleðistund bæjarbúa þrátt fyrir allt. Við þá ákvörðun vó þyngst samfélagsleg ábyrgð og að gefa börnunum kost á að rækta þá tilfinningu.

Er því á ný leitað til foreldra nemenda skólans og forráðamanna, um að gefa varning á torgsöluna, tertur, smákökur, jólasælgæti, jólasíld, föndur eða annan skemmtilegan varning, sem tekið verður á móti í anddyri Grunnskólans á laugardaginn frá kl 14-15.

annska@bb.is

Af ákveðinni ástæðu …

Björn Davíðsson

Sl. föstudag fór fram á Ísafirði málþing í tilefni þess að nú er lokið lagningu ljósleiðara um Ísafjarðardjúp ásamt því að á verulegum hluta leiðarinnar var jafnframt lagður nýr jarðstrengur Orkubúsins sem eykur verulega afhendingaröryggi rafmagns í Djúpinu og býður upp á þrífösun sem skiptir ábúendur mjög miklu máli. Reiknað er með að tengivinnu við ljósleiðarann verði lokið fyrir áramót og næst þá langþráður áfangi með hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum með því aukna afhendingaröryggi sem slíku fylgir.

Á málþinginu kom fram í máli Jóns Ríkharðs Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Mílu, að Míla telur að rekstraraðilar í fjarskiptastarfsemi þurfi og eigi að viðhafa meira samstarf en verið hefur hingað til. Því ber að fagna en Snerpa hefur frá fyrsta degi ávallt leitað eftir slíku samstarfi. Það verður þó að segjast eins og er að því frumkvæði, sem Snerpa hefur tekið, hefur verið fálega tekið af Símanum og Mílu. Við höfum hins vegar átt mjög gott samstarf við Orkubú Vestfjarða sem hefur orðið til þess að mun meira hefur verið framkvæmt í ljósleiðaramálum á Vestfjörðum en ella. Þannig hefur OV t.d. tekið þá ákvörðun að alls staðar þar sem rafstrengur er grafinn í jörð, er lagt með rör fyrir ljósleiðara og einnig hefur verið hægt að koma fyrir rörum eða strengjum samhliða framkvæmdum við hitaveitu.

Ég tók eftir því í máli Jóns að hann hafði á orði að ,,af ákveðinni ástæðu er Ljósnetið lélegra á Ísafirði en annars staðar.“ Án þess að tími gæfist til að fara nánar út í þá sálma. Þar sem ég þekki vel til um þessa ,,ástæðu“, vil ég gera grein fyrir henni og hvað hún felur í sér. Ástæðan er sú að vegna þeirrar stefnu Snerpu að fjárfesta í fjarskiptainnviðum, hefur Míla tekið ákvarðanir í kjölfarið sem einmitt ekki hafa verið í samstarfi við Snerpu. Það hefur leitt af sér verri þjónustu fyrir hluta af notendum á Ljósnetinu.

Ljósnetið og Smartnetið

Þegar VDSL-tæknin tók við af ADSL fékk hún nafnið Ljósnet hjá Símanum en þar sem um skrásett vörumerki var að ræða var ekki annað í boði en að Snerpa tæki upp sitt eigið vörumerki fyrir sömu þjónustu og var valið nafnið Smartnet. Síðar tók Míla upp nafnið Ljósveita um sömu þjónustu á aðgangskerfi sínu eftir að Samkeppniseftirlitið fyrirskipaði árið 2013 að rekstur Ljósnetsins yrði fluttur frá Símanum til Mílu.

VDSL var í boði hjá Snerpu frá árinu 2009 í neðri bænum á Ísafirði. Vorið 2011 ákvað Snerpa að taka svo af skarið því að ADSL-tengingar þær sem Síminn bauð íbúum í þéttbýli á Vestfjörðum höfðu ekki verið uppfærðar í VDSL. Gerð var áætlun um að setja upp Smartnet einnig á þéttbýlisstöðum utan Ísafjarðar þar sem þjónustan var lélegust og setti Snerpa í framhaldinu upp Smartnet á Þingeyri, Flateyri og á Suðureyri og Bíldudalur bættist svo við um haustið eftir að Vesturbyggð óskaði eftir aðstoð Snerpu við að bæta úr þjónustu þar. Réði þar mestu að þörf grunnskólanna á þessum stöðum var meiri en þjónustuframboð Mílu bauð upp á.

Biðin eftir betra sambandi

Árið 2009 starfrækti Síminn einungis ADSL-þjónustu á Vestfjörðum, þar með talið Ísafirði. Um ADSL-þjónustuna voru í boði allt að 15 sjónvarpsrásir, sem Síminn nefndi Topp en á höfuðborgarsvæðinu og víðar höfðu þá verið í nokkurn tíma í boði um eða yfir 60 rásir. Snerpa bauð Símanum strax árið 2009 þegar búnaður var settur upp í símstöðinni á Ísafirði að veita sjónvarpsþjónustu á Smartnetinu með fullu úrvali sem var mögulegt um VDSL en Síminn afþakkaði. Snerpa bauð einnig Vodafone aðgang undir sjónvarpsþjónustu sína sem var tekið og voru þá í boði yfir 60 sjónvarpsrásir á Smartnetinu, bæði á Ísafirði og í þorpunum í kring.

Þegar Síminn kynnti til sögunnar Ljósnet á Ísafirði á árinu 2013 náði það einungis til þess svæðis sem Snerpa bauð þá þegar Smartnet á. Fljótlega eftir það uppfærði Síminn svo búnað sinn á þeim stöðum sem Smartnet var í boði einnig í Ljósnet. Aðrir staðir, eins og Patreksfjörður, Bolungarvík, Súðavík og Hólmavík sátu þó eftir um tíma og enn lengur biðu Holtahverfið, Hnífsdalur og efri bærinn á Ísafirði. Þá virtist sem Síminn legði einungis áherslur á Ljósnetið þar sem Snerpa hafði boðið Smartnetið. Snerpa bætti þá í og setti upp Smartnet í Hnífsdal. Síminn kom einnig þar með Ljósnet en aðhafðist ekki frekar.

Framkvæmdir Snerpu

Vegna aðgerðaleysis Símans ákvað Snerpa að fara í frekari uppbyggingu og vorið 2013 var haldinn sérstakur fundur með Símanum þar sem áform Snerpu voru kynnt, sérstaklega að til stæði að setja upp Smartnet í efri bænum á Ísafirði með því að setja upp búnað við götuskáp efst í Bæjarbrekkunni en þessi skápur þjónaði heimtaugum í mestöllum efri bænum. Einnig voru kynnt áform um að bjóða Smartnet í Holtahverfinu og var Símanum jafnframt boðið samstarf um framkvæmdirnar þannig að ekki yrði um tvífjárfestingu að ræða ef Síminn kæmi strax á eftir með Ljósnetið eins og hafði áður gerst. Þá var Símanum aftur boðinn aðgangur að dreifingu sjónvarpsþjónustu. Einnig var sérstaklega farið yfir samkeppnisaðstæður og hvernig yrði tryggt jafnræði milli fjarskiptafélaga en í boði var að og er enn að Smartnetið væri sk. opið net sem öllum fjarskiptafyrirtæki geta selt þjónustu sína á. Enn sem komið er hefur þó einungis Vodafone nýtt sér það. Árangurinn af þessum fundi var enginn og Síminn afþakkaði allt samstarf.

Míla tekur við Ljósnetinu

Árið 2013 var svo rekstur Ljósnetsins fluttur til Mílu sem var hluti af sátt Símans við Samkeppniseftirlitið þar sem fram kom að Síminn hafði að mati þess framið mjög viðamikil brot gagnvart samkeppnisaðilum og sektaði Símann jafnframt um 300 milljónir króna fyrir þau brot. Rétt er að geta þess að yfirmaður reksturs á Ljósnetinu, fluttist með því yfir til Mílu og hafði hann setið umræddan fund og var því fullkunnugt um áform Snerpu.

Snerpa ákvað að fara í framkvæmdirnar í efri bænum á Ísafirði sumarið 2013 og í Holtahverfinu árið 2014. Framkvæmdir í Holtahverfinu hófust með því að í ágúst 2014 var settur upp búnaður í símstöðinni í Holtahverfi og pantaður ljósleiðari frá Mílu að Vegagerðinni á Dagverðardal og síðan lagði Snerpa ljósleiðara frá Vegagerðinni niður í hverfið en enginn ljósleiðari var tiltækur hjá Mílu. Svo virðist sem Míla hafi þá tekið þá ákvörðun að fara í snatri í Ljósnetsvæðingu í Holtahverfinu auk þess sem vísvitandi var reynt að tefja fyrir framkvæmdum Snerpu m.a. með því að láta að því liggja að koparstrengur sem Snerpa hafði leitað eftir kaupum á hjá Mílu væri til, en afhendingu frestað og svo að lokum hafnað. Varð Snerpa þá að verða sér úti um efni eftir öðrum leiðum en sem betur fer tókst það. Leiknum var þó ekki lokið, heldur hafnaði Míla því einnig að Snerpa fengi að nota heimtaugar Mílu í hverfinu, nokkuð sem kvöð er á Mílu um að veita. Bar Míla því við að þeir þyrftu sjálfir að nota heimtaugarnar undir Ljósnetið og neyddist Snerpa til að leita liðsinnis hjá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) sem er eftirlitsaðili með því að þessum og öðrum leikreglum sé fylgt.

Kærumál um koparheimtaugar

PFS tók sér frá september fram í desember árið 2014 að leysa úr kvörtun Snerpu, en á meðan lagði Snerpa eigin strengi í fjölbýlishúsin í Stórholti og hóf að veita þjónustuna á einum götuskáp sem Míla neyddist til að veita aðgang að. Á tímabilinu setti Míla svo upp tvo götuskápa til viðbótar í hverfinu. Þegar úrskurður PFS var gefinn út í desember 2014 kom í ljós að Mílu bar ,,að tilkynna um framkvæmdir sínar við VDSL væðingu umrædds hverfis með a.m.k. 6 mánaða fyrirvara og veita Snerpu í upphafi allar nauðsynlegar upplýsingar sem félagið hefði þurft vegna VDSL uppbyggingar sinnar á heimtaugum Mílu í hverfinu.“ Einnig kom fram í úrskurðinum að: ,,Míla braut gegn jafnræðiskvöð þeirri sem á félaginu hvílir á heimtaugamarkaði […]“. Þá kvað PFS á um að Mílu væri óheimilt að hefja VDSL þjónustu í hverfinu. Það skyldi einnig gilda um VDSL væðingu Mílu í efri bænum á Ísafirði því þar hafði Míla einnig unnið á sama hátt. Þá lagði PFS Mílu þá skyldu á herðar, bæði í Holtahverfi og í efri bænum á Ísafirði að Mílu væri ,,óheimilt að hefja veitingu VDSL þjónustu sinnar í umræddu hverfi, sem og öðrum hverfum sem háttar til með hliðstæðum hætti, fyrr en Snerpa og önnur áhugasöm fjarskiptafyrirtæki hafa fengið fullnægjandi sýndaraðgang (VULA) […]

Fljótlega kom í ljós að Míla hafði flutt tengingar frá símstöðinni í Holtahverfi í götuskápa á tímabilinu fram í desember 2014. Taldi Snerpa að þetta væri með vitund PFS en þegar í ljós kom að svo var ekki efndi Snerpa til annars kærumáls til að fá úr því skorið enda hafði Míla ekki boðið Snerpu umræddan sýndaraðgang að heimtaugum (VULA). PFS úrskurðaði síðan að þar sem tengingarnar höfðu átt sér stað áður en úrskurðurinn féll og þar sem PFS var ekki kunnugt um þær fyrr en eftir á, að þá hefði Míla verið í rétti til að framkvæma þær.

VULA

VULA er úrræði sem Míla getur boðið aðilum eins og Snerpu, sem vilja nýta heimtaugar Mílu en Míla vill af tæknilegum ástæðum ekki veita beina tengingu við heimtaug. VULA átti Míla að hafa í boði í síðasta lagi 13. nóvember 2014, tæpum mánuði áður en ofangreindur úrskurður féll. Mílu tókst hinsvegar ekki að standa við það og ennþá er VULA ekki í boði. Það er ástæðan fyrir því að ,,Ljósnetið er lélegra á Ísafirði en annars staðar“. Mílu er óheimilt að hefja frekari veitingu á þjónustunni í þessum tveimur hverfum þar til VULA er í boði. Snerpa getur hins vegar boðið Smartnet mun víðar þar sem þessar kvaðir hvíldu ekki á Snerpu. Snerpa hefur ítrekað sent bæði Mílu og PFS athugasemdir og tillögur að skilmálum en því miður er ekki séð fyrir endann á því ennþá. Vonir standa til þess að þeirri vinnu ljúki í febrúar skv. upplýsingum frá PFS.

Ljósleiðarinn

Dæmin sem nefnd eru að ofan eru ekki eini ásteytingarsteinninn í tilraunum Snerpu til að eiga samstarf við Mílu um uppbyggingu á þjónustu. Fyrir utan hús næst símstöðinni í Bolungarvík virtist vera að Míla hafði ekki áhuga á Ljósnetsvæðingu nema þar sem Snerpa var búin að vera á undan. Snerpa pantaði ljósleiðara í Súðavík 11. maí sl. með það að markmiði að opna Smartnetið þar. Þann 2. júní tilkynnti Míla að til stæði að uppfæra ADSL í Súðavík upp í Ljósnet. Við töldum þetta ekki vera tilviljun og drógum pöntunina til baka. Míla lauk þó við tilkynnta uppfærslu og nú er Ljósnet í boði í Súðavík. Snerpa í samstarfi við Vodafone athugaði í sumar möguleika á að nýta ljósleiðara í Bolungarvík til að bjóða Smartnet þar. Míla svaraði því til að ljósleiðari væri ekki í boði þangað. Að undangengnum ýmsum athugunum á valkostum þar ákvað Snerpa í haust að leggja nýjan ljósleiðara inn í bæinn, um 1,5 km sem á vantaði til að veita betri þjónustu og er reiknað með að hann verði kominn í gagnið fyrir jól. Míla tilkynnti 15. nóvember sl. um framkvæmdir í Bolungarvík sem miða að því að efri hluti bæjarins fái Ljósnetsþjónustu ekki síðar en 15. febrúar 2017. Tilviljun? Í öllu falli er hægt að fagna öllu því sem miðar að bættri fjarskiptaþjónustu á Vestfjörðum. Það er sama hvaðan gott kemur er það ekki?

Villandi svör frá Símanum

Eftir þessa reynslu af samstarfi við Mílu um koparheimtauganetið og Ljósnetið hefur Snerpa ákveðið að frekari uppbygging í Smartnetinu verði með þeim hætti að ljósleiðari verði í boði beint til heimila. Þar sem fjárfestingagetan er takmörkuð hefur ekki mikið borið á þessu en má þó nefna að í sumar tengdum við yfir 30 ný heimili í Stakkaneshverfinu við ljósleiðara en það hefur verið afskipt og verið með lélegra samband á Internetið en margir aðrir vegna línulengdar frá símstöð. Eru nú yfir 100 heimili í heildina sem eiga kost á ljósleiðaratengingu Snerpu á Ísafirði án þess þó að allt sé upp talið.

Símanum var, strax í mars 2013 boðinn aðgangur að Smartnetinu. Slíku hefði fylgt að Símanum hefði boðist að veita sjónvarpsþjónustu sína um Smartnetið. Rétt er að geta þess að skv. 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga er Símanum sem fjölmiðlaveitu beinlínis óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki en Síminn er móðurfélag Mílu. Síminn hefði því átt að fagna þessari ákvörðun Snerpu um að opinn aðgangur væri að Smartnetinu og þar með möguleiki að sýna fram á að viðskiptavinum Sjónvarps Símans væri ekki beint eingöngu til Mílu. Snerpa gæti í samræmi við 47. gr. sömu laga krafist þess að Síminn bjóði sjónvarpsþjónustu á Smartnetinu en hefur ekki talið farsælt að þvinga aðila í viðskipti og því látið kyrrt liggja.

Undanfarið hafa þeir sem hafa áhuga á að tengjast á ljósleiðara Snerpu en vilja notast áfram við Sjónvarp Símans haft samband við Símann til að forvitnast um hvenær slíkt verði mögulegt. Okkur hafa borist spurnir af því að svör þar um hafi verið mjög villandi og beinlínis ósannindi. Allt frá því að Snerpa meini Símanum að bjóða þjónustu á ljósleiðaranum upp í að viðkomandi þurfi ekkert betra samband miðað við mælingar á ADSL tengingu viðkomandi sem sé bara fín. Einnig hafa komið þær skýringar að Snerpa sé að skemma fyrir uppbyggingu á Ljósnetinu með því að banna Mílu að taka í notkun götuskápa sem hafi verið tilbúnir í tvö ár. Eins og lesa má úr langri sögu hér að ofan er slíkt fjarri öllum sannleika.

Undanfarið hefur líka komið fram að Ljósnet og ljósleiðari eru ekki það sama. Ég læt staðar numið hér en það bíður síðari tíma að gera athugasemdir um villandi framsetningu Símans um Ljósnetið.

Ég vil í lokin biðjast velvirðingar á því að Snerpa hefur ekki verið nægilega iðin við að koma upplýsingum um þetta mál til almennings. Það er því miður flókið og ekki gott að gera grein fyrir því í stuttu máli.

f.h. Snerpu ehf.

Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri.

Vesalingarnir – Sjónarmið 45. tbl

Kristinn H. Gunnarsson

Nú stendur yfir enn ein áróðurhrinan hjá stórútgerðinni. LÍÚ berst um á hæl og hnakka gegn hugmyndum um innleiðingu á samkeppni í sjávarútvegi þar sem öllum fyrirtækjum yrði gert að starfa á sama grundvelli. Kjarninn í breytingartillögunum er að innkalla veiðiheimildir og setja almennar reglur um ráðstöfun þeirra.  Í markaðshagkerfi er samkeppnin lykilatriðið og það er meginreglan í íslensku samkeppnislöggjöfinni. Bæði hérlendis og erlendis er löng reynsla af því að samkeppni bætir hag neytenda. Skortur á samkeppni leiðir til fákeppni og jafnvel einokunar sem bitnar á almenningi og neytendum með misnotkun valds. Íslenska ríkið hefur frá 2002 haft þá opinberu stefnu, sérstaklega hvað varðar eigin innkaup, að efla samkeppni á markaði.  Almennt útboð er leiðin sem farin er og hefur gefist það vel að engar hugmyndir eru um að víkja frá henni.  Frekar hefur verið farið yfir útboðsskilmála og þeir endurbættir ef markmiðin hafa ekki náðst sem skyldi. Útboð veiðiheimilda er hin eðlilega og rökrétta niðurstaða sem samræmist stefnu ríkisins í öðrum atvinnugreinum.

Sérákvæði um sjávarútveg

Aðeins tvær atvinnugreinar eru undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga, landbúnaður og sjávarútvegur. Hvað sjávarútveginn varðar þá hafa verið sett lagaákvæði til þess að takmarka samþjöppun en að öðru leyti er útgerðin meðhöndluð sem vesalingar sem þurfa sérstaka vernd ríkisins til þess að geta rekið fyrirtæki sín. Handhafa veiðiréttarins fá ótímabundna úthlutun. Þeir hafa öryggi um aldur og ævi og þurfa ekki að óttast samkeppni um veiðiheimildirnar. Þeir þurfa ekki að hagnýta veiðiréttinn sjálfir og mega láta aðra veiða en hirða sjálfir afraksturinn. Útgerðin  greiðir ríkinu brot af markaðsverði réttindanna sem hún lætur aðra greiða sér. Í þorskveiðiréttindunum fær handhafi réttindanna 93% af markaðsvirðinu en ríkið 7%. Ríkið sjálft býr til  stórkostlegan efnahagslega mismun milli fyrirtækja. Þetta nefnist ríkisstuðningur, og er í öðrum atvinnugreinum andstæður EES samningnum og eru þungar refsingar við slíkum brotum. Þar sem samkeppnishvatinn er tekinn út verður ekki endurnýjun á markaðslegum forsendum sem hverri atvinnugrein er nauðsynlegt. Afleiðingin verður stöðnun og síðan afturför.

Ofverndaðir útgerðarmenn

Sjálft kerfið, það er langtímayfirráð réttindanna, breytir valdahlutföllum í samskiptum atvinnurekenda og launþega á þann hátt að  útgerðin hefur tögl og haldir, hún ræður algerlega ferðinni og setur sjómönnum reglurnar.  Annaðhvort gera sjómenn eins og þeim er sagt eða þeir geta farið annað eða þá að þeim er beinlínis hótað brottrekstri. Útgerðin hefur gengið á lagið og ákveður leikreglurnar sér í vil. Lítum á nokkur atriði:

20% afsláttur – Nýundirritaðir kjarasamningar færa útgerð sem jafnframt er fiskkaupandi fiskinn með 20% afslætti frá markaðsverðinu. Þetta þýðir miðað við 2015 að verðið á fiski sem seldur er í beinum viðskiptum er með 11 milljarða króna afslætti. Það lækkar laun sjómanna að sama skapi. Eru útgerðarmenn svo miklir vesalingar að þeir þurfa að fá 20% frá markaðsverði til þess að geta rekið fyrirtæki sín? Geta þeir ekki keppt við aðra fiskkaupendur?

nýsmíðaálag – þrátt fyrir hástemmdar lýsingar á arðsemi íslensks sjávarútvegs og yfirburðafærni núverandi kvótahafa verða þeir að sækja hluta af kaupverði  nýrra skipa í vasa sjómanna. Nýsmíðaálagið lækkar laun sjómanna um allt að 10%. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki í besta fiskveiðikerfi í heimi greitt skipin sín án þess að seilast ofan í vasa áhafnarinnar?

olíukostnaður – fyrir rúmum 30 árum voru aðstæður þannig að olíukostnaður tók nærri 30% af tekjum útgerðarinnar. Þá voru sett lög sem heimiluðu útgerðinni að draga 30% af tekjunum frá óskiptu. Um allmörg ár hefur staðan verði mun betri og síðustu árin er olíukostnaðurinn um 11% af tekjunum. Engu að síður er útgerðin enn að fá 30% af tekjunum framhjá skiptum til sjómanna. Sjómenn greiða allan olíukostnaðinn, ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum. Eru útvegsmenn slíkir vesalingar að í myljandi arðbærum atvinnurekstri þar sem framlegðin er um 30% og 70 – 75 milljarðar króna á hverju ári þurfi að velta olíukostnaðinum að fullu yfir á sjómenn?

sjómannafsláttur – um áratugaskeið niðurgreiddi ríkið launakostnað útgerðarinnar með sjómannaafslættinum. Fyrir fáum árum var því hætt og útgerðin talin geta borið sjálf þennan kostnað. Aðstæður í útgerð hafa líka verið með besta móti. En það var ekki við því komandi að útgerðin greiddi þennan 1,5 milljarð króna. Kjör sjómanna rýrnuðu sem þessu nemur. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki greitt laun sjómanna í bestu afkomu um áratugaskeið?

Afleiðing einokunar – þessar aðstæður þekkjast ekki í öðrum atvinnugreinum. Þar verða atvinnurekendur að standa sig. Þeir eru í samkeppni við önnur fyrirtæki og geta ekki bannað nýjum aðilum að hasla sér völl. Samkeppnin nær ekki bara til framleiðslunnar heldur einnig til vinnuaflsins. Aðstæður í sjávarútveginum er afleiðing einokunar. Útvegsmenn eru ekki vesalingar. Þeir geta vel rekið fyrirtæki sín við eðlileg samkeppnisskilyrði. En einokunaraðstaða þeirra og óeðlileg völd er afleiðing af lagaumgjörðinni. Sjómenn og íbúar sjávarbyggðanna eru í meira og minna gíslingu fárra eigenda sjávarútvegsfyrirtækja sem bera engar lagalegar skyldur um hag þeirra.

LÍÚ vill viðhalda einokunaraðstöðunni, þeir eru á móti því að þjóðin eigi veiðiheimildirnar, þeir eru á móti innköllun þeirra, þeir eru á móti samkeppni um þær, þeir eru á móti því að greiða markaðsverð fyrir fiskinn, þeir eru á móti því að greiða markaðsverð fyrir veiðiheimildirnar til ríkisins, þeir eru á móti byggðatengingu veiðiheimildanna. Þeir vilja óbreytt ástand. Það færir fáum mikið. En margir tapa og þjóðin mestu.

Kristinn H. Gunnarsson

Nýjustu fréttir