Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2214

Tveir styrkir Umhverfissjóðs sjókvíaeldis til NAVE

Nýverið var úthlutað styrkjum úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis fyrir árið 2017 og hlaut Náttúrustofa Vestfjarða tvo styrki úr sjóðnum. Er þetta í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum og voru veittir tíu styrkir að heildarupphæð 86.615 milljónum króna. Styrkirnir sem NAVE hlaut voru annarsvegar vegna vöktunar á lús á villtum laxfiskum á Vestfjörðum að upphæð 4.940 m.kr. og hinsvegar bætt vöktun fiskeldis með notkun líffræðistuðla að upphæð 1.8 m.kr. Hæstu styrkina hlaut Hafrannsóknarstofnun fyrir mat á burðarþoli fjarða og sjókvíaeldissvæða sem hlaut 25 m.kr., vöktun á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis (22 m.kr.) og vegna rannsókna á áhættu erfðablöndunar á villta stofna (13.875 m.kr.). Þá hlaut stofnunin einnig í samstarfi við Matís styrk vegna rannsókna á erfðafræðilegum áhrifum laxeldis á villta laxastofna að upphæð 6 m.kr.

Umhverfissjóður sjókvíeldis er fjármagnaður af handhöfum fiskeldisrétthafa. Markmið sjóðsins er að fjármagna verkefni, sem lúta að því að aðlaga fiskeldi hér á landi sem mest að þeim umhverfisskilyrðum sem fyrir hendi eru og lágmarka þannig umhverfisáhrif af völdum sjókvíaeldis. Sjóðurinn greiðir kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki til að mæta kostnaði eða tekjumissi sem ekki er hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.

annska@bb.is

Þrjár staðsetningar á Torfnesi

Fyrstu skref hafa verið tekin í skipulagsvinnu vegna fyrirhugaðs knattspyrnuhúss á Torfnesi. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar voru lögð fram frumgögn um staðsetningu hússins. Þremur kostum er velt upp eins og sést á meðfylgjandi myndum sem Verkís vann fyrir bæinn. Hafa ber í huga að málið er á algjöru frumstigi, ekki er búið að hanna hús og því eru myndirnar einungis til að sýna stærðarhlutföllin og hvernig mögulegt hús kemst fyrir á svæðinu.

Íþróttahreyfingin í Ísafjarðarbæ hefur verið einhuga um að bygging knattspyrnuhúss eigi að vera næsta stóra verkefni í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Þar ræður tvennt. Annars vegar er aðstaða til knattspyrnuiðkunar mun lakari í Ísafjarðarbæ en í mörgum öðrum sveitarfélögum af svipaðri stærð – og fjórðungurinn sá eini sem ekki státar af yfirbyggðum velli. Hins vegar mundi það létta verulega á þaulsetnu íþróttahúsi ef knattspyrnuæfingar að vetrarlagi færðust í annað hús.

Vinnuver opnað á 1. maí

Vinnuver er þar sem Umboðsverslun Hafsteins Vilhjálmssonar var áður til húsa.

Á mánudaginn 1. maí – á baráttudegi verkalýðsins – verður opið hús í nýuppgerðu húsnæði að Suðurgötu 9 sem hlotið hefur nafnið Vinnuver. Þar verður hýst starfsemi Starfsendurhæfingar Vestfjarða, Vesturafls og Fjölsmiðjunnar. Undanfarna mánuði hafa miklar endurbætur verið gerðar á húsnæðinu, sem mun í framtíðinni mynda ramman utan um þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram. Öllum íbúum svæðisins er boðið að koma og skoða aðstöðuna og þiggja léttar veitingar.

Þrír leikir, þrír sigrar

Kvennalið Vestra í miklum ham.

Þrjú lið frá blakdeild Vestra taka nú þátt í árlegu öldungamóti í Mosfellsbæ og hafa þau öll sigrað sína leiki það sem af er mótsins. Karlaliðið lagði hina norðlensku Rima í æsispennandi oddahrinu en kvennaliðin lögðu sína andstæðinga, HK Gyðjurnar og Hauka D, sannfærandi í tveimur hrinum. Framundan er langur dagur fyrir Vestra með 9 leikjum samtals en mótinu líkur á sunnudag.

167 lið taka þátt að þessu sinni og yfir 500 leikir sem þarf að koma fyrir á þremur mótsdögum en Öldungamótið er eitt af stærstu íþróttamótum landsins, að minnsta kosti fyrir þá sem eru af barnsaldri en 30 ára aldurstakmark er á mótið.

Hall­inn 37,5 millj­arðar

Löndun í Bolungarvík.

Hall­inn á vöru­skipt­in við út­lönd var 37,5 millj­arðar króna á fyrsta árs­fjórðungi en á sama tíma í fyrra var hann óhag­stæður um 25,6 millj­arða. Þetta kem­ur fram í frétt Hag­stofu Íslands.

Í mars voru flutt­ar út vör­ur fyr­ir 39,5 millj­arða króna og inn fyr­ir 55,6 millj­arða króna. Vöru­viðskipt­in í mars voru því óhag­stæð um 16,1 millj­arð króna. Í mars 2016 voru vöru­viðskipt­in óhag­stæð um 22,1 millj­arð króna á gengi hvors árs.

Á fyrsta árs­fjórðungi árs­ins 2017 voru flutt­ar út vör­ur fyr­ir 108,6 millj­arða króna en inn fyr­ir 146,1 millj­arð. Halli var því á vöru­viðskipt­um við út­lönd sem nam 37,5 millj­örðum króna, reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma árið áður voru vöru­viðskipt­in óhag­stæð um 25,6 millj­arða á gengi hvors árs. Vöru­viðskipta­jöfnuður­inn var því 11,9 millj­örðum króna lak­ari en á sama tíma árið áður.

Á fyrsta árs­fjórðungi árs­ins 2017 var verðmæti vöru­út­flutn­ings 23,9 millj­örðum króna lægra, eða 18,1%, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. Iðnaðar­vör­ur voru 58,9% alls út­flutn­ings og var verðmæti þeirra 3,2% lægra en á sama tíma árið áður. Sjáv­ar­af­urðir voru 34,5% alls vöru­út­flutn­ings og var verðmæti þeirra 35,4% lægra en á sama tíma árið áður, vegna verðlækk­un­ar. Auk þess má reikna með að áhrifa af verk­falli sjó­manna gæti enn í töl­un­um.

Stjórnun hættulegra ferðamannastaða

Anika Truter.

Þriðjudaginn 2. maí mun Anika Truter verja lokaritgerð sína í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Lokaritgerðin ber titilinn Management of Coastal Hazardous Sites: A case study of Reynisfjara Beach, Iceland. Ritgerð hennar fjallar um stjórnun hættulegra ferðamannastaða við ströndina og tekur hún Reynisfjöru í Mýrdal sérstaklega til skoðunar.

Hraður vöxtur ferðamanna iðnaðarins víðsvegar um heiminn hefur leitt af sér flóknar spurningar til að tryggja árangursríka stjórnun sem leiðir af sér ánægju og öryggi fyrir ferðamennina jafnframt því að samfélögin sem ferðamennirnir heimsækja hafi efnahagslegan og félagslegan ávinning af ferðamannastrauminum. Á Íslandi hefur ferðamönnum fjölgað um 38% á árabilinu 2010-2015 og er náttúrutengd ferðamennska áfram helsta aðdráttaraflið. Í Reynisfjöru, sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna, hafa orðið þrjú dauðsföll frá árinu 2007 auk fjölda slysa þar sem öldur hafa hrifið fólk úr fjörunni og út á haf. Í ritgerðinni er núverandi staða í Reynisfjöru könnuð og lagðar fram tillögur um hvernig ákvörðunartöku og stjórnun verði best háttað með aðkomu hagsmunaðila.

Leiðbeinendur verkefnisins er dr. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun og Jamie Alley, M.Sc. sjálfstætt starfandi ráðgjafi í umhverfis- og auðlindastjórnun og fastur stundakennari við Háskólasetrið. Prófdómari er dr. Edward Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri og rannsóknarprófessor við Rannsóknarmiðstöð ferðamála.

 

Fyrirlestur fyrir fullu húsi

Tinna með krökkum á Glaðheimum.

Tinna Sigurðardóttir talmeinafræðingur hjá Tröppu ehf. heimsótti Bolungarvík og Súðavík í vikunni. Hélt hún fyrirlestur fyrir foreldra í leikskólanum Glaðheimum fyrir fullu húsi ásamt Jóönnu Dominiczak íslenskukennara og túlki. Trappa ehf. hefur gert samninga um talmeinaþjónustu og íslenskukennslu við bæði Bolungarvíkkaupstað og Súðavíkurhrepp og hefur samstarfið verið mjög gjöfult. Trappa sérhæfir sig í talþjálfun og kennslu í gegnum netið og notast við forritið Köru sem þróað hefur verið í samvinnu við sérfræðinga.

Kröfugöngur og kaffiboð á 1. maí

Frá kröfugöngunni á Ísafirði í fyrra.

1.maí – alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, er á mánudaginn og verða hátíðarhöld í tilefni dagsins á Ísafirði, Suðureyri og í Bolungarvík. Líkt og hefðin segir til um verður farið  í kröfugöngur, þar sem launafólk gengur saman undir rauðum fánum og syngur Nallann, en 95 ár eru síðan fyrst var gengin slík ganga hér á landi þann 1.maí. 1923 og talsvert seinna, eða árið 1972, var dagurinn gerður að lögskipuðum  frídegi á Íslandi.

Á Ísafirði verður haldið í kröfugöngu frá Baldurshúsinu við Pólgötu klukkan 14. Þaðan verður gengið að Pollgötu og niður að Edinborgarhúsi með Lúðrasveitina í fararbroddi, en hún mun einnig leika nokkur lög fyrir gesti eftir að í Edinborgarhúsið er komið. Ræðumaður dagsins er Bergvin Eyþórsson sjómaður, en hann var mjög sýnilegur baráttumaður fyrir bættum kjörum í sjómannaverkfallinu fyrr í vetur, einnig mun taka til máls verkakonan Kolbrún Sverrisdóttir. Boðið verður upp á tónlistaratriði, sópransöngkonan Sigrún Pálmadóttir syngur við undirleik Beötu Joó og einnig stíga á stokk sigurvegarar Músíktilrauna þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir sem skipa saman dúettinn Between Mountains. Þá verður boðið upp á atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi sem leikdeild Höfrungs á Þingeyri setti nýverið á svið.

Að dagskrá lokinni verður boðið upp á kaffiveitingar í umsjón Slysavarnardeildarinnar Iðunnar í Guðmundarbúð, Sindragötu 6. Þá verða á sínum stað í Ísafjarðarbíói kvikmyndasýningar fyrir börnin, bæði klukkan 14 og 16.

Á Suðureyri hefjast hátíðarhöldin einnig klukkan 14 með kröfugöngu frá Brekkukoti. Þá verður boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar og í félagsheimilinu verður hátíðardagskrá og kaffiveitingar þar sem ræðumaður dagsins er alþingiskonan Lilja Rafney Magnúsdóttir. Þá verður boðið upp á tónlist og söng frá börnunum í bænum og einnig koma þar fram stöllurnar í Between Moutains.

Í Bolungarvík býður Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur bæjarbúum í kaffi og meðlæti klukkan 14:30 í Félagsheimili Bolungarvíkur, þar sem 8. og 9. bekkir Grunnskólans í Bolungarvík sjá um veitingarnar. Þar koma fram nemendur Tónlistarskóla Bolungarvíkur og félagarnir Hjörtur Traustason og Bjarki Einarsson syngja nokkur lög.

Baráttudagurinn á rætur sínar að rekja til ársins 1889 er á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París var samþykkt tillaga þess efnis 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks. Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Í heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins.

annska@bb.is

Flugfargjöld hækkuðu um fimmtung

Flug­far­gjöld inn­an­lands hækkuðu um 19% milli mánaða og flug­far­gjöld til út­landa um 13% sam­kvæmt tölum hagfræðideildar Landsbankans. Hagfræðideildin hafði í spám sínum gert ráð fyrir óbreyttum flugfargjöldum. Vísi­tala neyslu­verðs hækkaði um 0,50% milli mánaða í mars og er það yfir op­in­ber­um spám sem lágu á bil­inu 0,2% til 0,4%.

Hag­fræðideild Lands­bank­ans hafði spáð 0,2% hækk­un milli mánaða. Mun­ur­inn á spánni og töl­um Hag­stof­unn­ar skýrist ann­ars veg­ar af því að reiknuð húsa­leiga hækkaði meira en bú­ist var við og hins veg­ar af því að flug­far­gjöld hækkuðu milli mánaða.

Sem fyrr er húsnæðiskostnaður aðaldrifkraftur verðbólgu. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 2,6% milli mánaða. Ef horft er framhjá húsnæði þá var verðlag óbreytt milli mánaða og mælist 1,8% verðhjöðnun með þeirri vísitölu.

Tólf mánaða hækkun húsnæðisliðarins er 15,8%, þar af er tólf mánaða hækkun greiddrar húsaleigu 3,8% og reiknaðrar húsaleigu 20,2%. Vegna styrkingar krónunnar mælist um 4,8% verðhjöðnun á innfluttum vörum. Einnig mælist verðhjöðnun á innlendum vörum, en þær hafa lækkað um 0,8% milli ára.

Nágrannar geta gert veigamiklar athugasemdir

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar segja verðlaunatillögu í hönnunarsamkeppni um breytingar á Sundhöll Ísafjarðarbæjar gangi gegn ákvæðum gildandi deiluskipulags fyrir svæðið. Í bókun Sigurðar Mars Óskarssonar og Guðfinnu Hreiðarsdóttur kemur fram að í deiluskipulagi frá 2014 er talið að fjölga þurfi bílastæðum á svæðinu og við allar breytinga eða nýbyggingar fækki bílastæðum ekki á lóðum.

Þá vísa þau í greinargerð deiluskipulagsins þar sem fram kemur að ekki er talið forsvaranlegt að auka byggingarmagn á lóðum án þess að séð verði fyrir hæfilegum fjölda bílastæða. Í bókuninni segir að breytt nokun baklóðar Sundhallar gangi þvert á þessi ákvæði gildandi deiliskipulags og fækki bílastæðum um 16.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er kvöð um umferð að Austurvegi 7 um lóðir Austurvegar 9 (Sundhöllin) og 11 (Tónlistarskólinn). Breytt nýting Sundhallarlóðar krefst þess að umræddri kvöð verði aflétt í skipulagsferli. Í bókuninni segir að eigendur Austurvegar 7 eigi ríkan rétt til athugasemda enda um verulegt hagsmunamál þeirra að ræða.

Með breyttri nýtingu baklóðar Sundhallar er ljóst að grenndaráhrif verða umtalsverð. Sundlaugargarður með vatnsrennibraut hlýtur að valda næstu nágrönnum ónæði. Komi til framkvæmda þarf deiliskipulagsbreytingu og Sigurður Mar og Guðfinna telja ljóst að næstu nágrannar gætu gert mjög veigamiklar athugasemdir sem taka þyrfti tillit til.

Að öðru leyti segir í bókuninni að verðlaunatillagan leysi vel það sem lagt var upp með í forsögn samkeppninnar – aðgengi og nýting rýmis almennt viðunandi og margt haganlega leyst, en áréttað að sólarleysi rýri gæði baklóðarinnar þar sem útisvæði Sundhallarinnar á að vera.

Nýjustu fréttir