Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2214

Minni hagvöxtur næstu tvö ár

Kröftugur hagvöxtur verður hér á landi á þessu ári, eða 5,3 prósent, en hann minnkar á næstu tveimur árum, samkvæmt spá Greiningardeildar Arion banka, sem gefin var út í morgun. Á næsta ári er spáð 2,7 prósenta hagvexti og að árið 2019 verði hann 2,3 prósent. Einkaneysla verður ein helsta driffjöður hagvaxtarins, studd af litlu atvinnuleysi og kaupmáttaraukningu en einnig hefur útflutningur á þjónustu áhrif.

Samkvæmt spánni er hagvöxtur til næstu tveggja ára lægri en greiningardeildin hafði áður spáð. Mestu munar um minni vöxt í fjárfestingum í atvinnuvegi en gert var ráð fyrir. Samkvæmt spánni þá hægir á vexti fjárfestinga á næstu tveimur árum. Þá fara áhrif uppbyggingar í stóriðju- og raforkuframleiðslu að fjara út.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hnúðlax veiddist í Patreksfirði

Frá vinstri: Eva Dögg Jóhannesdóttir, meistaranemi í líffræði, Margrét Thorsteinsson, starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða, og Anne Cochu dýralæknanemi.

Í lok júlí veiddist hnúðlax í sýnatökunet í Patreksfirði. Veiðarnar eru hluti af vöktun lúsa á villtum laxfiskum á Vestfjörðum sem Náttúrustofa Vestfjarða vinnur að. Á norðanverðum Vestfjörðum eru lögð net í Dýrafjörð, Önundarfjörð, Súgandafjörð og Ísafjarðardjúp. Á sunnanverðum Vestfjörðum í Patreksfjörð, Tálknafjörð og Arnarfjörð en þar eru sýnatökur gerðar í samstarfi við Evu Dögg Jóhannesdóttur sem er að vinna að meistaraverkefni sem er svipað og verkefni Náttúrustofunnar.

Hnúðlaxinn sem veiddist er fallegur fiskur og á vef Náttúrustofunnar segir að hann hafi verið án áverka og með alla ugga heila. Á fisknum voru fimm fiskilýs en engin bitför var að sjá.

Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha) er einnig þekktur sem bleiklax og er laxategund sem á ættir sínar að rekja í Kyrrahaf og er algeng þar. Laxinn er auðþekktur á dökkum hringlaga blettum á sporðinum og fíngerðu hreistri¹. Hnúðlaxinn sem fannst í Patreksfirði var kynþroska hængur en hann þekkist m.a. á hnúð á bakinu.

Hnúðlaxar sem flækjast um í Evrópu koma líklega frá Rússlandi en þar voru gerðar tilraunir um 1960 til að sleppa hnúðlaxaseiðum í ár á Kólaskaga. Talið er að þessi stofn hafi dreift sér að einhverju leyti og vísbending er um að hann sé að ná fótfestu í nokkrum ám í Noregi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Seiðasleppingin ekki kærð

Tálknafjörður.

Slepping 160 þúsund seiða af norskum uppruna í Tálknafjörð árið 2002 verður ekki kærð til lögreglu þar sem málið er fyrnt. Soffía Karen Magnúsdóttir, fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun, segir í samtali við fréttastofu RÚV, að Fiskistofa og Matvælastofnun vinni að því að afla frekari upplýsinga um málsatvik. Níels Ársælsson, útgerðarmaður frá Tálknafirði, hefur greint frá því að hafa sleppt seiðunum í sjóinn. Félag Níelsar, Eyrarfiskeldi hf. keypti 160 þúsund laxaseiði af norskum stofni og komu þau til eldishúss félagsins við Gileyri í nóvember árið 2001.

Áætlað var að laxaseiðið myndi gefa um 600 til 700 tonn sem áttu að koma slátrunar í desember 2003, en þegar norskur samstarfsaðili fyrirtækisins varð gjaldþrota varð ekki úr þeim áætlunum. Þraut fjármagn Eyrarfiskeldis um mitt ár 2002, og ákvað Níels þá að hleypa seiðunum í sjó í gegnum botnlokur eftir að þau höfðu verið í svelti í þrjá mánuði.

Erfitt er segja til um áhrif sleppingarinnar að sögn Soffíu Karenar, enda óvíst hvaða ástandi fiskurinn var í þegar honum var hleypt út úr stöðinni og hvernig honum hefur reitt af. Í frétt RÚV kemur fram að þegar ítarlegri upplýsingar liggi fyrir verði frekar hægt að leggja mat á stöðuna. Ekki er raunhæft að grípa til sérstakra aðgerða, þar sem málið er gamalt. Soffía Karen tekur fram að regluverkið í kringum fiskeldi hafi tekið gríðarlegum breytingum síðan 2002 og kröfur til rekstraraðila aukist til muna.

smari@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Jazz á mörkum þess skrifaða og óskrifaða

Dansk-íslenski jazzkvartettinn Berg spilar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í kvöld kl. 20. Í umsögn segir að Berg leiki með form á mörkum þess skrifaða og óskrifaða. Tónlistin er undir miklum norrænum áhrifum, jazz og þjóðlögum/sálmum auk ýmissa áhrifa frá klassík og rokktónlist. Tónlistin er í senn draumkennd og jarðbundin, frjáls og flæðandi.

Kvartettin skipa Snæbjörn Gauti Snæbjörnsson, saxófónleikari, Mathias Ditlev Eriksen, píanóleikari, Benjamin Møller Kirketerp á bassa auk Chris Falkenberg Rasmussen sem leikur á trommur. Snæbjörn semur efni kvartettsins en í meðförum hljómsveitarmeðlima verður eitthvað nýtt til í hvert skipti.

Almennt miðaverð er 2.500 kr og aðgangseyrir fyrir nemendur og eldri borgara er 1.500 kr.
smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Tekinn með 200 grömm af kannabis

Á þriðjudag í síðustu viku haldlagði lögreglan 200 grömm af kannabisefnum. Efnin voru í bíl sem var á leið til Ísafjarðar og fannst við leit eftir að lögreglan stöðvaði ökumann á leið til Ísafjarðar og vaknaði grunur um að ekki væri allt með felldu. Ökumaðurinn, sem var einsamall á ferð, var handtekinn og færður til yfirheyrslu. Lögreglan ætlar að efnin hafi átt að fara til dreifingar á norðanverðum Vestfjörðum.

Í yfirliti lögreglunnar um verkefni síðustu viku kemur fram að mannamót um verslunarmannahelgina fóru vel fram í öllu umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum.

Alls voru 71 ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur í vikunni. Einn þeirra var kærður í tvígang sama dag í Ísafjarðardjúpi. Annar ökumaður, sem stöðvaður var fyrir hraðakstur, lyktaði af áfengi. Við blástur í áfengismæli kom í ljós að enn virtist áfengi vera í líkama hans. Hann var þó ekki yfir refsimörkum. Honum var gert að hætta akstri um stund.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Einn ökumaður var kærður fyrir að hafa ekki skráningarnúmer framan á bifreið sinni. Eigendur og ökumenn eru hvattir til að hafa þessa hluti í lagi, panta ný merki ef þau sem fyrir eru glatast. Sekt við slíku nemur 10.000 krónum.

Sjö tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé bárust lögreglunni.

Um miðjan dag þann 31. júlí barst hjálparbeiðni frá erlendum ferðamanni sem lenti í sjálfheldu á Rauðasandsheiði, á gönguleið til Keflavíkur. Björgunarsveitarmenn frá Blakki í Vesturbyggð og þyrla Landhelgisgæslunnar tóku þátt í björguninni. Maðurinn var heill á húfi en hafði lent í ógöngum eins og áður sagði.

Um miðjan dag þann 1. ágúst missti ökumaður bifhjóls stjórn á ökutækinu á Örlygshafnarvegi með þeim afleiðingum að hjólið og ökumaðurinn hafnaði utan vegarins. Meiðsl urðu ekki alvarleg en hjólið skemmdist töluvert.

Um kl.16:50 þann 4. ágúst valt fólksbifreið út af veginum í Hestfirði. Bifreiðin valt nokkrar veltur utan vegarins. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni og voru þeir fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar, ekki þó með lífshættulega áverka. Svo virðist sem fallegt útsýni hafi truflað ökumann.

Að kveldi 4. ágúst barst hjálparbeiðni úr Hestfirði vegna ferðamanns sem hafði verið að klífa fjall en hrasað og slasast. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði, þó ekki lífshættulega slasaður.

Um hádegisbilið þann 6. ágúst missti erlendur ferðamaður stjórn á bílaleigubifreið á Örlygshafnarvegi. Bifreiðin ran út af veginum án þess þó að velta. Bifreiðin skemmdist töluvert Engin slys urðu á ökumanni eða farþegum.

Þann 7. ágúst barst tilkynning um umferðarslys á Steingrímsfjarðarheiði. En þar missti ökumaður húsbifreiða stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að hún rann út af veginum og valt. Einn farþegi var í bifreiðinni, auk ökumanns. Ákveðið var að kalla til þyrlu LHG sem flutti hina slösuðu á sjúkrahús í Reykjavík. Áverkar voru alvarlegir en þó reyndust þeir ekki lífshættulegir.

Lögreglan á Vestfjörðum var með aukinn viðbúnað um verslunarmannahelgina. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar munu 802 bifreiðar hafa farið um Ísafjarðardjúp þegar mest var, þ.e.a.s. þann 4. ágúst. Umferðin var þétt meira og minna alla dagana eða að meðaltali 645 ökutæki um Ísafjarðardjúp á degi hverjum þessa daga. Á sama tíma munu, að meðaltali, 496 ökutæki hafa farið um Barðastrandaveg á degi hverjum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Uppselt á Noggann í ár

Að sögn Ævars Einarssonar yfirNoggara var uppselt á fjölskylduhátíðina Noggan í Súgandafirði í ár og að venju var dagskráin fjörug og skemmtileg. Fróðlegt sögurölt var um eyrina undir leiðsögn Ásmundar Jóhannessonar bónda í Miklagarði í Dölum en hann var í sveit á Norðureyri á sínum yngri árum. Noggaleikurinn og sandfígrúrukeppnin voru á sínum stað og auðvitað sungið við varðeld fram í myrkur.

Meðfylgjandi myndir tóku þau Ævar Einarsson Hvas og Thitikan Janthawong.

Bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Undir áhrifum fyrir Svalvoga

Á vísir.is er nú birt myndband sem ungir ferðamenn tóku á ferð sinni um Vestfirði. Purkunarlaust neytir ökumaður eiturlyf undir stýri og ekur áfram stórhættulegan veginn um Svalvoga og síðan yfir Hrafnseyrarheiði.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Laxeldi fer ekki eftir flokkslínum

Óli Björn Kárason. Mynd: mblis/Rax

Eitt þeirra mála sem kemur til kasta Alþingis í vetur og mun ekki falla eftir flokkslínum, er skipulag sjókvíaleldis á laxi. Þetta er mat Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann setur fram í grein í Morgunblaðinu í dag. „Miklir hagsmunir eru í húfi en um það verður vart deilt að mikil tækifæri geta verið fólgin í fiskeldi. Kannski er það barnaleg bjartsýni að ætla að hægt sé að sætta sjónarmið náttúruverndar og helstu talsmanna sjókvíaeldis – koma í veg fyrir að andstæðar fylkingar komi sér sem fyrir í skotgröfum,“ skrifar Óli Björn.

Í greininni harmar hann harða umræðu um starf nefndar um stefnumótun í fiskeldi, en nefndin á að skila af sér tillögum um miðjan mánuðinn.

„En jafnvel áður en hópurinn sendir frá sér stafkrók hafa menn komið sér fyrir í skotgröfunum. Væntanlegar tillögur eru gerðar tortryggilegar fyrir fram. Með sama hætti sitja starfsmenn Hafrannsóknastofnunar undir ámæli fyrir nýlega skýrslu um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Gagnrýnin er hörð og vísindaheiður viðkomandi jafnvel dreginn í efa.“

Sjókvíaeldi er langt í frá áhættulaust, skrifar þingmaðurinn og bendir á reynslu annarra þjóða. „Hugsanleg erfðablöndun getur brotið niður náttúrulega laxastofna í íslenskum ám. Laxalús og sjúkdómar geta magnast, með skelfilegum afleiðingum fyrir náttúruna. Og um leið verður stoðum kippt undan mikilvægri búgrein hér á landi – nýtingu veiðihlunninda sem skiptir margar byggðir miklu.“

Óli Björn segir að hann ætli ekki að koma sér undan samræðum eða víkjast undan því að taka afstöðu þegar starfshópur um stefnumótun í fiskeldi skilar tillögum sínum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Forsetafrúin mætir í tungumálaskrúðgöngu

Eliza Reid.

Á föstudaginn verður tungumálaskrúðganga frá Edinborgarhúsinu á Ísafirði að Byggðasafni Vestfjarða. Tilgangurinn er að vekja athygli á fjöltyngi og lokum sumarnámskeiðs fyrir börn þar sem fjölbreytni samfélagsins á Ísafirði er fagnað. Skrúðgangan, sem hefst kl. 11.30 er opin öllum og boðið verður upp á plokkfisk fyrir utan Tjöruhúsið. Við lok göngunnar munu þátttakendur námskeiðsins fleyta bátum sem þau hafa búið til.
Elíza Reid forsetafrú kemur til Ísafjarðar í tilefni dagsins og stýrir fundi sem fer fram í Rögnvaldarsalnum í Edinborgarhúsinu kl. 13 – 15.  Fundurinn er um framtíð sumarskóla þar sem tungumálum og fjölbreytni er fagnað í málörvandi umhverfi.
Hugmyndin að verkefninu vaknaði í fyrra þegar áhugafólk um fjöltyngi fundaði á Ísafirði. Anna Hildur Hildibrandsdóttir átti hugmyndina og stýrði framkvæmd námskeiðsins í ár í samstarfi við Menningarmiðstöðina Edinborg og Ísafjarðarbæ. Fimmtán börn sem tala sjö tungumál tóku þátt í námskeiðinu sem er fyrsta skrefið í þróun sumarskóla til að efla málvitund barna. Námskeiðið var opið öllum börnum á Ísafirði en sérstaklega ætlað fjöltyngdum börnum af öllum þjóðernum.
Tónlistarkennarinn Jóngunnar Biering Margeirsson og myndlistarkonurnar og kennararnir Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Nína Ivanova leiðbeindu börnunum í gegnum tón- og myndlist, leik og sögur. Jafnframt hefur Isabel Alejandra Diaz aðstoðað á námskeiðinu en saga hennar sem innflytjandi frá El Salvador varð hvatinn að hugmyndinni. Leiðbeinendurnir munu kynna afrakstur vinnunnar á fundinum á föstudaginn.
Ísafjarðarbær, Menningarmiðstöðin Edinborg, Tjöruhúsið, Landsbanki Íslands á Ísafirði, Nettó og Penninn Eymundsson studdu við námskeiðið í ár.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Þeir fátækustu fengu ekki að fara frá borði

Í Fræðslumiðstöð Vestfjarða við Suðurgötu 12 hefur verið sett upp sýning um heimsókn danska skipsins Gustav Holm í ágúst 1925 og er hún opin 9-16 virka daga.

Um borð voru 89 Grænlendingar auk danskrar áhafnar á leið norður til Scorebysunds, nánar tiltekið til Ittoqqortoormiit til að stofna þar nýlendu. Aðstæður til veiða voru taldar með besta móti við þennan lengsta fjörð heims en fyrst og fremst var verið að tryggja dönsk yfirráð á svæðinu og koma í veg fyrir landnám Norðmanna sem gerðu kröfu um yfirráð á stórum hluta Austur-Grænlands.

Heimskautafarið Gustav Holm kom frá Ammassalik til Ísafjarðar til að taka þar vistir en jafnframt þurfti að vígja prestinn sem þjónusta skyldi sóknarbörn hinnar nýju nýlendu. Heimsóknin varði í þrjá og hálfan sólarhring og naut hluti Grænlendinganna gestrisni heimamanna en hinir fátækustu í hópnum fengu ekki að fara frá borði. Nokkur undirbúningur hafði átt sér stað þegar fréttist af komu skipsins til Ísafjarðar og lögðu bæjarbúar sig fram um að taka sem best á móti hinum útlendum gestum og má segja að heimsóknin hafi orðið til að auka skilning á milli þjóðanna tveggja. Eftir þriggja daga viðkomu á Ísafirði voru landfestar leystar og skipið sigldi norður á bóginn, til Ittoqqortoormiit, nyrstu byggðar Austur-Grænlands. Lífið þar átti eftir að reynast mörgum hinna nýju íbúa erfitt en það er önnur saga. Nú búa í bænum Ittoqqortoormiit um 400 manns, flestir afkomendur þeirra sem komu til Ísafjarðar fyrir 92 árum.

Sýningin er samstarfsverkefni námsbrautar í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, Safnahússins á Ísafirði, Byggðasafns Vestfjarða og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir