Sunnudagur 1. september 2024
Síða 2213

Voru gestir á finnska forsetaballinu

Hulda Leifsdóttir í kjól sem tákna á Rauma og Ísland

Ísfirðingnum Huldu Leifsdóttur og eiginmanni hennar Tapio Koivukari var boðið á forsetaball finnska forsetans í tilefni þjóðhátíðardags Finna. Ballið var haldið í forsetahöllinni í Helsinki 6. desember. Hulda er búsett í Finnlandi, en Tapio, maður Huldu, er rithöfundur og fékk í ár bókmenntaverðlaun Runebergs fyrir bók sína Draumapredikarann. Því fengu þau boð á forsetaballið.

Hulda segir mikinn heiður að fá boð: „Það er mikill heiður að fá boð á Forsetaballið í Höllinni. 6. des er þjóðhátíðardagur finna og þá bjóða forsetahjónin 2000 manns á dansleik. Þar fær þjóðin í beinni útsendingu að fylgjast með þegar gestirnir ganga inn á rauðum dregli í hátíðarklæðnaði, heilsa forsetahjónunum og óska þeim til hamingju með daginn.“ En boðið er sent út í beinni útsendingu í finnska ríkissjónvarpinu.

Eins og oft tíðkast á viðburðum sem þessum er mikið lagt í kjóla og kjólföt, en boðið barst aðeins þremur vikum fyrir dansleikinn og ekki mikill tími til stefnu: „Það gafst ekki mikill tími en ég setti bara í Vestfirðinginn í mér og bretti upp ermarnar og hringdi samdægurs í hönnuðina og sagði þeim að mig vantaði einn kjóll!“

Hulda vildi að kjólinn sýndi Rauma, staðinn sem þau búa á í Finnlandi og Ísland: „Það eru handunnar knypplaðar svartar blúndur úr finnskri hör á öxlum og liggja í boga aftur á bakið. Fatahönnuðirnir eru Laura Hannula og Tarmo Throström knypplmeistari frá Rauma. Ég átti hugmyndina af litunum í pilsfaldinum, ég vildi sum sé eldgoslitina. Hlýir litir sem minna á hraunkvikuna sem re

nnur úr eldfjalli og sameinast köldum litum gefa kjólnum séríslenskan blæ. Ég vildi kjól sem væri listrænn og stæði fyrir Ísland og Rauma.“
Tapip segir ballið hafa verið eins og ævintýri, þau hafi gengið upp rauðan dregil, heilsað forsetahjónunum og svo hafi strengjahljómsveit spilað undir dansleik: „Allt í einu vorum við komin á rauða dregilinn til að heilsa og óska þeim forsetahjónum gleðilegrar hátíðar. Allstaðar var mannmargt og svo var strengjahljómsveit að spila í herberginu uppi. Við Hulda náðum að vera í aðalsalnum þegar dansinn byrjaði og við dönsuðum fjögur lög. Vorum bara eins og í ævintýri og undir kristalsljósum. Við hittum á leiðinni ýmist frægt fólk, eins og oft gerist svona mannfagnaði.“

 

Launahækkanir kennara kosta um 46,1 milljónir

Arna Lára Jónsdóttir.

Heildaráhrifin af kjarasamningunum kennara nema um 46,1 milljónum króna fyrir Ísafjarðarbæ. Samkvæmt nýgerðum kjarasamningum við grunnskólakennara fela samningarnir í sér 7,5% launahækkun frá 1. des 2016, og 3,5% hækkun frá 1. mars 2017. Auk þess felur samningurinn í sér að greiða skuli hverjum starfsmanni sem var í fullu starfi í desember eingreiðslu að upphæð 204 þúsund þann 1. janúar 2017.

Eingreiðsla til kennara í janúar kemur til með að vera um 8,9 milljónir miðað við 43,6 stöðugildi. Aðspurð um áhrif á útgjöld Ísafjarðarbæjar segir Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, sveitarfélagið hafa gert ráð fyrir einhverri hækkun við gerð fjárhagsáætlunar: „Við höfðum gert ráð fyrir 6.6% hækkun í áætlun en raunin verður 11% hækkun – þ.e. fyrir utan eingreiðsluna. Hækkun umfram fyrri áætlun gæti því verið um 15 milljónir króna, sem er vel viðráðanlegt.“

Aðspurð um hvort umræða um að skila rekstri grunnskóla til ríkisins hafi verið áberandi, segir Arna Lára svo ekki vera: „Við höfum ekki rætt það að skila grunnskólanum til ríkisins og ég efast um að einhver vilji sé til þess, enda erum við að gera betur en ríkið. Ég held að flest sveitarfélög hafi mikinn metnað í fræðslumálum og vilja gera vel, það er allavega svo í Ísafjarðarbæ. Við höfum þurft að takast á við auknar kröfur, sem er eðlilegt, án þess að því fylgi nægjanlegt fjármagn. Við þurfum áfram berjast fyrir að fá tekjustofna til að standa undir þeim verkefnum sem okkur eru falin. Við viljum frekar bæta á okkur verkefnum og það sem við teljum nú brýnast er að stjórnvöld finni sveitarfélögum tekjustofn þannig að sveitarfélög hafi efni á að reka leikskóla fyrir börn frá því að fæðingarorlofi lýkur – sem nú er 9 mánuðir en ætti auðvitað að vera 12-15 mánuðir.“

brynja@bb.is

Styrking krónu kallar á agaðri hagstjórn

Teitur Björn Einarsson

Í gær bárust fréttir af því að Kampi á Ísafirði hefði sagt upp sjö manns vegna erfiðs reksturs sem rekja má til sterkrar stöðu íslensku krónunnar gagnvart breska pundinu.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis, segir styrkingu krónunnar ískyggilega þróun: „Þetta er alvarlegt mál og ískyggileg þróun sem er að verða í efnahagsmálum með styrkingu krónunnar og ógn við samkeppnishæfni útflutningsgreina. Á sama tíma og Seðlabankinn hefur keypt gjaldeyri fyrir 340 milljónir króna á fyrstu 10 mánuðum ársins hefur gengið styrkst um 15,1%.“

Útgerðarmenn á Vestfjörðum hafa verið uggandi yfir styrku gengi krónunnar. Teitur gagnrýnir peningamálastefnu Seðlabankans og segir bankann halda vöxtum of háum: „En samt er vaxtastigið jafn hátt og raun ber vitni. Þessi hættumerki í rekstri útflutningsfyrirtækja víða um land kalla á agaðri hagstjórn til draga úr frekari ruðningsáhrifum og þenslu í hagkerfinu.“

brynja@bb.is

Nú í höndum fjárlaganefndar

Alþingi

Fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir 2017 er nú lokið og fjárlaganefnd hefur fengið frumvarpið aftur til meðhöndlunar. Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn í morgun og næsti fundur er boðaður á mánudag. Samkvæmt heimildum bb.is mun verða lögð fram tillaga um að fyrri áætlanir um fjármögnun Dýrafjarðarganga fari inn í fjárlög. Í kjölfarið fara svo fjárlögin aftur til umræðu á alþingi.

Harðar umræður voru í vor í fjölmiðlum um hvort eina ferðina enn yrði framkvæmdum við Dýrafjarðargöng frestað en þá lá fyrir að undirskrift samninga við verktaka yrði ekki fyrr en að loknum kosningum. Þar með gæti ný ríkisstjórn frestað framkvæmdum eins og margoft hefur gerst, þrátt fyrir að Dýrafjarðargöng hafi verið á forgangslista jarðganga frá 1999.

Um þetta skrifaði Ólína K. Þorvarðardóttir á vefnum Skutull.is og sagði meðal annars: „Hinn bitri sannleikur sem nú gæti verið að afhjúpast er sá, að það hefur sennilega aldrei verið meining ríkisstjórnarinnar að standa við Dýrafjarðargöng fremur en fyrri daginn. Dýrafjarðargöngum skyldi bara veifað sem kosningadulu framan í Vestfirðinga eina ferðina enn. Business as usual. Höndin sem hæst hélt þeirri kosningadulu tilheyrir þingmanni Vestfirðinga til 25 ára, Einari K Guðfinnssyni, sem nú hyggst hætta í pólitík. Skýrir það kannski afdrif málsins? Spyr sú sem ekki veit.“

Einar K. Guðfinnsson kallaði umræðuna ys og þys út af engu, fjármögnun væri tryggð enda göngin bæði í ríkisfjármálaáætlun og samgönguáætlun. Og Ólöf Nordal innanríkisráðherra sá ástæðu til að senda út sérstaka áréttingu um að fjármagn til ganganna sé tryggt og í engu hvikað að framkvæmdir skuli hefjast um mitt ár 2017.

Nú liggja fyrir fjárlög sem samin voru í vor og sumar, eða á vikunum eftir þessar umræður um afdrif Dýrafjarðarganga og það liggur fyrir að í þeim fjárlögum er ekki gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda við göngin. Framkvæmd Dýrafjarðarganga eru þar með orðin, eins og Ólína benti á í vor, enn orðin bitbein í stjórnarmyndarviðræðum og ef ekki næst stuðningur við framkvæmdina á nýju þingi má reikna með Dýrafjarðargöngum í næsta kosningaloforðalista.

bryndis@bb.is

Heilagur Nikulás heimsækir pólsk börn

Heilagur Nikulás kemur á jólaball í Edinborg. Ekki er þó gott að segja að það verði nákvæmlega þessi sem ríður um götur í fjarlægu landi. Mynd: talesalongtheway.com

Félag Pólverja á norðanverðum Vestfjörðum heldur á sunnudag jólaball fyrir yngstu kynslóðina. Hafa verið haldin slík jólaböll árlega um nokkra hríð og reynt að miða við að halda það þann 6.desember, á degi heilags Nikulásar eða sem næst honum, því það er dagurinn sem jólasveinninn heilagur Nikulás heimsækir börn í Póllandi. Heilagur Nikulás líkt og jólasveinarnir íslensku geta stundum komið í heimsókn á tímum sem þeir eru annars ekki í byggðum og ætlar Nikulás að sjálfssögðu að heimsækja börnin á jólaballinu.

Í fjölmenningasamfélaginu á Vestfjörðum eru Pólverjar stærsti innflytjendahópurinn og öflugir þátttakendur í að byggja upp það auðuga samfélag sem hér þrífst. 57 börn hafa boðað komu sína á jólaballið ásamt fjölskyldum sínum og því nokkuð ljóst að það verður mikið fjör er dansað verður í kringum jólatréð og jólasöngvarnir sungnir í Edinborgarhúsinu á sunnudag.

annska@bb.is

Vilja heimild til löndunar annarsstaðar í bæjarfélaginu

Lýður Árnason, fyrir hönd Stútungs ehf á Flateyri, hefur falast eftir því við bæjarráð Ísafjarðarbæjar að útgerðum á Flateyri verði veitt heimild til að landa afla sínum annars staðar innan bæjarfélagsins. Þetta kemur fram í bréfi til bæjarráðs sem sent var þann 21. nóvember og tekið var fyrir á síðasta bæjarráðsfundi, mánudag.

Í bréfinu segir að á fiskveiðiárunum 2014-2015 hafi útgerðum á Flateyri verið heimilt að landa fiski innan bæjarfélagsins þar sem engin fiskvinnsla var starfrækt á Flateyri. Þannig hafi útgerðir safnað mótframlagi upp í sinn byggðakvóta og hafi það reynst vel. Á síðasta fiskveiðiári 2015-2016, hafi þetta hins vegar ekki verið leyfilegt þar sem komin var fiskvinnsla á Flateyri.

Lýður segir þetta hafa valdið því að byggðakvóti hans hafi brunnið inni vegna þess að ekki hafi tekist að fiska upp í mótframlagið. Hann segir vandamálið felast í því að Fiskvinnsla Flateyrar hefur einhliða ákveðið löndunarstopp sem hefur þvingað menn til að vera í landi eða landa á markað og fá þá ekkert metið sem mótframlag. Hann segir Fiskvinnslu Flateyrar hafa einhliða neitað móttöku afla eftir þyngd sem gerir að verkum að hluti fer á markað og er þá ekki metinn upp í mótframlag.

Þá segir í bréfinu að ákvörðun bæjarstjórnar þvingi útgerðir til að skipta aðeins við einn aðila: „Fiskvinnsla Flateyrar tók nánast ekkert við öðrum fisktegundum en þorski á síðasta fiskveiðiári sem nýtast þá heldur ekki sem mótframlag. Við höfum skilning á þessari tilhögun Fiskvinnslu Flateyrar en hún kemur óhjákvæmilega niður á útgerðinni. Sú ákvörðun bæjarstjórnar að hamla löndun annarsstaðar í bæjarfélaginu þvingar útgerðir á Flateyri til að skipta aðeins við einn aðila og lúta hans ákvörðunum þó þær gangi þvert á þeirra hagsmuni. Þetta er afar mótsagnakennt í ljósi þess að aðrar útgerðir í bæjarfélaginu fá byggðakvótaviðmiðun á Flateyri þó þær landi annarsstaðar í bæjarfélaginu.“

Til að bæta stöðu útgerða á Flateyri leggur Lýður fram á við bæjarstjórn, að útgerðum á Flateyri verði heimilt að landa afla sínum á aðrar fiskvinnslur innan bæjarfélagsins.

Í svari bæjarráðs segir að ráðið bendi á að byggðakvóta sé ætlað að efla fiskvinnslu í þeim byggðakjarna sem kvótanum er úthlutað til. Reglur um byggðakvóta séu þó í umsagnarferli hjá Ísafjarðarbæ og verði athugasemdirnar hafðar til hliðsjónar við þá vinnu.

brynja@bb.is

Styrktartónleikar Birkis Snæs í kvöld – Landsliðið og Óli Stef gefa treyjur

Birkir Snær með stóru systur sinni Sigrúnu Þóreyju

Í kvöld fara fram styrktartónleikar í Félagsheimilinu í Bolungarvík fyrir Birki Snæ Þórisson, sem einmitt fagnar eins árs afmæli sínu í dag. Fjölmargir leggja þessu verðuga verkefni lið til að létta megi undir með fjölskyldunni sem hefur staðið í ströngu vegna veikinda Birkis litla, sem í maímánuði greindist með LCH (Langerhans cell histiocytosis) sem er afar sjaldgæfur frumusjúkdómur sem oftast er skilgreindur sem krabbamein.

Dagskrá hefst klukkan 20 með hugvekju frá Sr. Ástu Ingibjargar Pétursdóttur. Á tónleikunum koma fram söngvararnir: Hjörtur Traustason, Sigrún Pálmadóttir, Elísabet Traustadóttir og Helga Þuríður Hlynsdóttir. Feðginin Benni Sig og Karólína Sif ásamt barnakór flytja nýtt jólalag Selvadore Rähni með texta Benna og þá mun Oliver Rähni leika einleik á píanó.

Hljómsveit kvöldsins skipa: Jón Hallfreð Engilbertsson á gítar, Gudmundur Hjaltason á bassa, trommurnar slær Haraldur Ringsted, á hljómborð, Selvadore Rähni og píanó, Tuuli Rähni. Kynnir kvöldsins er Elfar Logi Hannesson.

Ekki er allt upptalið enn því spennandi uppboð fer einnig fram þar sem gestir geta boðið í piparkökuhús og málverk sem málað verður á staðnum. Þar má einnig bítast um tvennar íþróttatreyjur, annarsvegar einni sem handboltakappinn Ólafur Stefánsson lagði til áritaða af honum sjálfum og hinsvegar landsliðstreyju frá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta sem leikmenn þess hafa áritað.

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt og langar að styðja við bakið á fjölskyldunni, má leggja söfnuninni lið á bankareikningi: 0556-26-100088 Kt.250388-2339

annska@bb.is

Að kunna að haga sér

Bryndís Sigurðardóttir

Sjónvarp allra landsmanna varpaði kastljósi sínu á dögunum á hörmulega og glæpsamlega meðferð á dýrum og á gróflega misnotkun á vilja almennings til að kunna haga sér í samfélagi manna og dýra. Vangeta, jafnvel viljaleysi, eftirlitsaðila til að taka á gráðugum dýraníðingum var himinhrópandi og málið getur ekki stoppað hér. Þó Brúnegg hafi lokað heimasíðu sinni þýðir það ekki að fyrirtækið hafi hætt rekstri, og það eru fleiri „Brúnegg“, fleiri framleiðendur sem fara ekki að lögum, sem hirða ekki um búpening sinn svo sómi sé að. Þó fjölmiðlar leiki mikilvægt hlutverk í svona eftirliti eru það þó opinberar eftirlitsstofnanir sem bera fyrst og fremst ábyrgð á að stöðva svona starfsemi. Allar skýrslur og álit þurfa að vera opinber svo neytendur og fjölmiðlar geti séð svart á hvítu hvernig málum er háttað.

Það er eins og einhvers konar meðvirkni í bland við ábyrgðarleysi, jafnvel heimildaleysi valdi því að eftirlitsstofnanir taka ekki til sín ábyrgð á upplýsingagjöf til almennings. Það er ekki langt síðan að Flateyringar drukku óafvitandi svo vikum skipti saurgerlamengað vatn vegna þess að enginn tók til sín þá ábyrgð að láta vita. Ekki Matís sem greindi mengun í neysluvatnssýni, ekki Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða né Ísafjarðarbær þrátt fyrir að fá upplýsingar þar um.

Við kjósum 63 þingmenn á alþingi, þeirra hlutverk að er að setja lög og reglur um hvernig æskilegt þykir að landinn hagi sér, hvað má og hvað má ekki. Við setjum umferðalög, lögreglan hefur eftirlit með að þeir sem ferðast í umferðinni lúti reglum og það eru viðurlög fyrir þá brotlegu. Við setjum lög um dýravernd og matvælaframleiðslu og setjum á stofn stofnanir sem eiga að fylgjast með að þeim lögum sé fylgt og við ætlumst til að þeir sinni vinnunni sinni. Það geta ekki allir verið með nefið ofan í gripahúsum bænda, við eigum að geta treyst því að þartilgerðar stofnanir geri það.

Ef neytendur gera kröfur um almennt hreinlæti og heilbrigði í matvælaframleiðslu, þurfa þeir að hætta að gera kröfu um niðurskurð í „eftirlitsiðnaði“ og ef íslendingar vilja að umhirða dýra sé forsvaranleg og samkvæmt lögum verða þeir að tíma að reka „eftirlitsstofnanir“. Næst þegar harðduglegir athafnamenn og konur kvarta yfir reglugerðafargani og rándýrum eftirlitsiðnaði er ástæða til að kveikja á gagnrýnisselluni. Og næst þegar eftirlitsstofnun verður uppvís að lélegum vinnubrögðum verða starfsmenn hennar látnir sæta ábyrgð, undanbragðalaust. Það gildir líka þegar ráðherra/ráðuneyti láta undir höfuð leggjast að styðja eða styrkja sínar stofnanir.

BS

Bregðast þarf við niðurstöðum PISA könnunarinnar af fullum þunga

Niðurstöður úr PISA könnunni árið 2015 liggja nú fyrir og benda þær til þess að frammistaða íslenskra nemenda sé lakari en árið 2012 þegar rannsóknin var gerð síðast. Læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003. Lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en eftir það hefur hann ekki lækkað marktækt.

Í frétt um málið á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að þróunin hér á landi sé mikið áhyggjuefni því á öllum þeim sviðum sem mæld eru hafi árangur íslenskra nemenda dalað mikið frá því að fyrstu mælingar komu fram. Stjórnvöld telja því að í ljósi þeirra niðurstaðna, sem nú liggja fyrir, sé nauðsynlegt að grípa þegar til aðgerða. Í skýrslu Menntamálastofnunar um PISA 2015 eru tillögur um aðgerðir sem mikilvægt er að ríki, sveitarfélög og skólar beiti sér fyrir.

Að mati Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra er ástæða til að bregðast við niðurstöðum PISA könnunarinnar af fullum þunga. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun ásamt Menntamálastofnun boða á næstunni til víðtæks samstarfs og samráðs um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við niðurstöðum PISA 2015.

Um niðurstöður rannsóknarinnar má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

Sóley kynnir Nóttina sem öllu breytti

Sóley Eiríksdóttir kynnir og les upp úr bók sinni „Nóttin sem öllu breytti“ á Bókasafninu á Ísafirði á laugardag klukkan 14. Sóley skrifar bókina í samstarfi við Helgu Guðrúnu Johnson og segir hún þar frá snjóflóðinu mikla sem féll á Flateyri árið 1995. Sóley segir sína eigin sögu en hún var aðeins 11 ára gömul er hún lenti í flóðinu og var henni bjargað eftir hafa verið grafin undir snjónum í 9 klukkustundir. Systir Sóleyjar, Svana, var ein þeirra tuttugu Flateyringa sem létu lífið þessa köldu nótt.

Í bókinni ræðir Sóley við fleiri sem upplifðu flóðið og er óhætt að segja að þarna sé uppgjör á ferðum hjá mörgum þeirra er byggðu Flateyri á þeim tíma er þessar miklu hörmungar dundu yfir, sem og mikilvæg skrásetning þessarar sögu sem hafði djúp áhrif á alla þjóðina. Jafnframt er bókin saga byggðarinnar á Flateyri fyrir og eftir flóð, átakanleg en um leið lærdómsrík.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir