Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2213

Sýnum skynsemi í umhverfi ferðaþjónustunnar

Daníel Jakobsson.

Á undanförnum árum hefur fjölgun ferðamanna orðið grunnur að gífurlegri uppbyggingu í ferðaþjónustu um allt land. Sú uppbygging hefur skilað sér í því að ferðaþjónusta er nú orðin sú atvinnugrein sem skilar mestum gjaldeyristekjum til þjóðarinnar, eða allt að 560 milljörðum á þessu ári.

Nú þegar eru blikur á lofti, óstöðugt rekstrarumhverfi, hátt gengi íslensku krónunnar og kostnaðarhækkanir hafa reynst fyrirtækjum í ferðaþjónustunni þungur baggi síðustu misseri.  Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að það er ekki bein fylgni á milli þess að ferðamönnum fjölgi og að rekstrarafkoma ferðaþjónustufyrirtækja batni. Þvert á móti er það staðreynd að afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnaði almennt töluvert á milli áranna 2015 og 2016 og það þrátt fyrir fjölgun ferðamanna.  Af hverju? Jú tugprósenta högg í formi launahækkana og gengisstyrkingar vega afar þungt í vinnuaflsfrekri útflutningsatvinnugrein sem ferðaþjónustan er.

Ef virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustuna verður að veruleika mun það hafa alvarleg áhrif á rekstrarmöguleika fjölmargra fyrirtækja í greininni og hafa sérstaklega slæm áhrif á landsbyggðinni þar sem svigrúm fyrirtækjanna er minnst.

Aðför að atvinnugrein sem skiptir sköpum á landsbyggðinni

Því miður virðist enginn skilningur á þessum einföldu staðreyndum í fjármálaráðuneytinu. Enn verra er að engar greiningar á stöðunni og áhrifum breytingarinnar á atvinnugreinina og byggðalög um allt land virðast liggja henni til grundvallar.

Það er grafalvarleg handvömm af hálfu stjórnvalda að leggja til meira en tíu prósentustiga skattahækkun á ferðaþjónustuna án þess að hafa neitt í höndunum sem sýnir hvaða áhrif það mun hafa og algerlega án samráðs við aðila í greininni, hvort sem er hagsmunasamtök eða aðra.

Hér er rétt að minnast þess að undanfarinn áratug hið minnsta hafa staðið háværar deilur um rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja og upphæð veiðigjalda. Þar hefur mikil áhersla verið lögð á samráð við greinina sjálfa. Ná þurfi að ná sem víðtækastri sátt um umhverfi sjávarútvegsins og að passa þurfi sérstaklega upp á þau byggðaáhrif sem tekjuöflun ríkissjóðs af sjávarútvegsfyrirtækjum hafi í hinum dreifðu byggðum.

Allt eru þetta skynsamleg rök, enda er upphæð veiðigjalda sem þar er rætt um talin í nokkrum milljörðum króna. Það vekur því furðu að þegar rætt er um gjaldahækkun á ferðaþjónustu sem nemur fjórum sinnum hærri upphæð – fjórum sinnum veiðigjöld – skuli slík hækkun lögð á með einu pennastriki. Það er gert án samráðs við atvinnugreinina sjálfa og án greininga á raunáhrifum á ferðaþjónustufyrirtæki og byggðalög sem nú treysta á ferðaþjónustu sem undirstöðuatvinnugrein í héraði og það allan ársins hring í sífellt meiri mæli.

Slíkt verður ekki skilið nema sem hrein aðför að ferðaþjónustu á Íslandi og fullkomin óvirðing gagnvart fólki sem starfar í greininni sem hefur á undangengnum árum unnið mikilvægt starf við að rétta við þjóðarbúskapinn þegar mest lá við.

Eina skynsamlega lausnin að hætta við hækkunina

Í umsögn fjármálaráðs um fjármálaáætlun 2018-2022 er gagnrýnt að greiningar skorti á raunáhrifum þeirra breytinga sem lagðar eru til í áætluninni. Þar er einnig gagnrýnd sú hugmynd að lækka virðisaukaskatt út frá efnahagslegum rökum.

Þegar fjármálaáætlunin er lesin sést að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu virðist annars vegar vera ætlað að stemma stigu við fjölda ferðamanna og hins vegar skapa svigrúm fyrir lækkun efra þreps virðisaukaskatts.

Nú þegar sjást merki þess að ferðamönnum fjölgi ekki jafn hratt og undanfarin ár, auk þess sem þeir dvelja skemur, vegna gengisáhrifa – um þessi áhrif sem og önnur hefði fjármálaráðuneytið getað aflað sér upplýsinga hjá ferðaþjónustuaðilum með eðlilegu samráði.

Sé markmið ríkisvaldsins að stemma stigu við fjölgun ferðamanna er nærtækast að leyfa áhrifum vegna hækkunar raungengis að koma fram á næsta ári áður en ákvarðanir um frekari aðgerðir í átt að aðgangastýringu eru teknar. Ferðaþjónustumarkaður er viðkvæmur fyrir hröðum breytingum og óstöðugleika. Óskynsamlegt er að setja af stað svo stóra neikvætt hlaðna breytingu ofan í þróun sem þegar er að eiga sér stað áður en áhrif hennar eru ljós.

Eins og fjármálaráð bendir á liggja sterk efnahagsleg rök til þess að lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts sé óskynsamleg og fremur til þess fallin að auka óstöðugleika í ríkisfjármálum um þessar mundir.

Það eina skynsamlega í stöðunni er því að fallið verði frá fyrirhuguðum breytingum á virðisaukaskattskerfinu í heild sinni en að tekið verði upp eðlilegt samráð um hvernig gjaldtöku af ferðamönnum verði best háttað þannig að bæði fyrirtæki í greininni, ferðaþjónustubyggðalög um allt land og samfélagið í heild beri sem bestan hag af til langrar framtíðar. Ég er sannfærður um að ferðaþjónustan er reiðubúin í slíkt samtal við ríki og sveitarfélög. Ég hvet ríkisstjórnina til að ganga fremur veg skynsemi í stað þess að leggja á, án greininga og án samráðs, breytingu sem mun hafa augljós neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi til langrar framtíðar.

Daníel Jakobsson, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða

Strandveiðarnar byrjaðar

Strandveiðar hófust í dag. Landinu er að vanda skipt upp í fjögur veiðisvæði. Vestfirskir strandveiðimenn sækja á tvö þeirra. Annars vegar á svæði A sem nær frá Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps og hins vegar svæði B sem nær frá Strandabyggð að Grýtubakkahreppi. Hvert strandvieðileyfi miðast við heimilisfesti útgerða viðkomandi báts og eingöngu er heimilt að landa afla innan þess landsvæðis á veiðitímabilinu. Aflamagn er háð takmörkunum fyrir hvert landsvæði innan hvers mánaðar. Í hlut svæðis A koma  852 tonn í maí, 1.023  tonn í júní, 1.023  tonn í júlí og 512 tonn í ágúst.Á svæði B er heimilt að veiða 521 tonn í maí, 626 tonn í júní, 626 tonn í júlí og 313 tonn í ágúst.

Hver bátur má að hámrki veiða 650 kg á dag. Á vef Fiskostfu kemur fram að á undanförnum árum  hefur borið á því að  nokkuð er um að menn veiði umfram þetta hámark. Endurgreiða þarf andvirði umframaflans í ríkissjóð en sá afli sem um ræðir dregst engu að síður frá þeim afla sem er til skiptanna á veiðunum. Fyrir vikið runnu tæpar  40 milljónir króna í ríkissjóð í fyrra sem ella hefðu farið í vasa strandveiðimanna. Fiskistofa hvetur strandveiðimenn til að gæta sem best að því að veiða ekki umframafla. Í sumar verður tekið upp það nýmæli að listi yfir þá báta sem veiða mest umfram leyfilegan afla verður birtur  í hverjum mánuði á vef Fiskistofu.

Álfabækur í Safnahúsinu

Guðlaugur Arason við eitt verka sinna.

Listamaðurinn Guðlaugur Arason, eða Garason, verður í Safnahúsinu í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði í dag á milli klukkan 16 og 18 þar sem hann mun segja frá verkum sínum á sýningunni Álfabækur sem opnaði í gær. Verkin sýna bækur í ýmsu rými og krefjast þess að áhorfandinn gefi sér góðan tíma til að skoða þau því í hverju þeirra leynist lítill verndarálfur. Guðlaugur hélt fyrst einkasýningu á Álfabókum á Akureyri 2013 og höfðu verk sem þessi ekki áður verið sýnd á Íslandi.

Guðlaugur Arason gaf út sína fyrstu skáldsögu, Vindur, vindur vinur minn, 25 ára gamall. Síðan hefur hefur hann skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og tvær bækur um Kaupmannahöfn. Verk hans hafa notið mikilla vinsælda og verið verðlaunuð. Hann er því þekktari sem rithöfundur en myndlistarmaður þótt hann hafi alla tíð unnið að myndlist jöfnum höndum með skrifum. Meðal helstu bóka hans má nefna: Víkursamfélagið, Sóla, Sóla, Eldhúsmellur, Pelastikk og Gamla góða Kaupmannahöfn.

annska@bb.is

Grásleppudögum fjölgað um 10

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fjölga veiðidögum á grásleppuvertíð úr 36 í 46. Það verður gert með reglugerð sem tekur gildi næsta miðvikudag.

Líkt og fram hefur komið hefur heildarveiði á grásleppuvertíð verið dræm. Á því eru nokkrar skýringar, meðal annars eru færri bátar á sjóð og aflabrögð verði með lakara móti. Hafrannsóknastofnun lagði til 6.355 tonna heildarveiði fyrir vertíðina og er sú ráðgjöf óbreytt.

Ráðuneytinu er ljóst að þessi ákvörðun kemur seint en lengi var vonað að afli tæki að glæðast. Fyrir liggur að þeir sem hófu fyrstir veiðar eru búnir að taka upp netin og strandveiðar að hefjast. Eftir sem áður er mikið í húfi fyrir þá sem stunda grásleppuveiðar áfram og þá sem hafa atvinnu af þeim í landi, m.a. við vinnslu afurða að allt verði reynt til að ná því magni sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til.

Sæmdur heiðurskrossi Skíðasambandsins

Þröstur fékk æðstu viðurkenningu Skíðasambandsins.

Á lokahófi Fossavatnsgöngunnar í íþróttahúsinu á Torfnesi var Þröstur Jóhannesson sæmdur heiðurskrossi Skíðasambands Íslands. Það var Einar Þór Bjarnason, formaður Skíðasambands Íslands, sem afhenti Þresti heiðurskrossinn, sem er æðsta viðurkenning sem Skíðasambandið veitir. Þegar saga skíðagöngunnar á Ísafirði verður skrifuð, verður nafn Þrastar Jóhannessonar áberandi. Hann byrjaði að stunda skíðagöngu á unglingsaldri og komst fljótt í hóp allra bestu skíðagöngumanna landsins og vann til fjölmargra verðlauna á Skíðamótum Íslands. Hápunktur ferilsins var þó líklega þegar hann keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Lake Placid árið 1978.

Eftir að afreksferlinum lauk hefur Þröstur sinnt skíðagönguíþróttinni af alúð og líklega er leitun að afreksmanni sem hefur gefið jafn mikið til baka til íþróttar sinnar eins og Þröstur hefur gert. Hann sinnti þjálfun ungra skíðamanna um árabil, sat í stjórn Skíðaráðs Ísafjarðar, stjórn Íþróttabandalags Ísafjarðar og þannig mætti áfram telja.

Það var vel við hæfi að Þröstur skyldi fá heiðurskrossinn á lokahófi Fossavatnsgöngunnar en þáttur hans í vexti og vinsældum göngunnar er óumdeildur. Um langt árabil sá hann um að troða brautirnar – byrjaði um miðja nótt fyrir keppnisdag, stökk svo úr troðaranum spennti á sig skíðin og keppti. Enn í dag stjórnar Þröstur brautalagningu Fossavatnsgöngunnar. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir þeirri gríðarlegu vinnu sem lögð er í það verk, en fagmennska Þrastar hefur áunnið honum einróma lof þátttakenda og alþjóðlegra eftirlitsmanna.

Vindur ekki hægari frá árinu 2002

Veðurstofa Íslands hefur birt yfirlist yfir veðurfar á landinu í marsmánuði. Tíð var lengst af hagstæð í mánuðinum og samgöngur greiðar. Hiti var nærri meðallagi, en úrkoma heldur minni en venja er í flestum landshlutum. Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,8 stig og er það 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti í Bolungarvík mældist 1 stig sem er 2,2 stigum hærra en meðallagið 1961-1990, en 0,7 gráðum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Vindhraði á landsvísu var um 1 m/s minni en að meðaltali og hefur ekki verið svona hægur í marsmánuði síðan 2002. Hvassast var dagana 23. til 25. en þá blés nokkuð hraustlega af suðri og síðar vestri. Austlægar áttir voru þó ríkjandi í mánuðinum eins og algengast er.

Mest frost í mánuðinum mældist -23,3 stig í Svartárkoti þann 21. Mesta frost á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 4., -18,6 stig.  Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,5 stig á Seyðisfirði þann 26. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 13,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 25.mars.

Úrkoma var minni en í meðalárferði um allt vestan- og norðanvert landið, en í ríflegu meðallagi á Austfjörðum og á Suðausturlandi. Aðeins 1 alhvítur dagur var á Akureyri í marsmánuði, 18 dögum færri en að meðaltali. Þetta er óvenjulegt og hafa alhvítir dagar ekki orðið jafnfáir þar í mars síðan 2003. Í mars 1963 og 1964 var alautt á Akureyri – það hefur ekki gerst síðan.

Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar var sérlega hlýr. Í Reykjavík hafa þessir þrír mánuðir saman aðeins átta sinnum verið hlýrri en nú og sjö sinnum á Akureyri. Nýliðinn vetur var óvenjuhlýr, desember og febrúar voru sérlega hlýir, en janúar og mars nær meðallaginu. Í Reykjavík er aðeins vitað um þrjá hlýrri vetur frá upphafi samfelldra mælinga 1870.

annska@bb.is

Framtíðin í skíðagöngunni björt

Albert og Sigurður Arnar að lokinni 50 km Fossavatnsgöngu.

Framtíðin í skíðagöngunni á Ísafirði er björt að sögn Daníels Jakobssonar, göngustjóra Fossavatnsgöngunnar. „Það sem stendur upp úr göngunni í ár er að drengir urðu að mönnum og stúlkur að konum. Árangur krakkanna okkar var alveg stórkostlegur,“ segir Daníel.

Sigurður Arnar Hannesson kom fyrstur heimamanna í mark í 50 km göngunni og hafnaði í 8. sæti. Albert Jónsson varð í 11. sæti og Dagur Benediktsson í 12. sæti. „Menn eru yfirleitt komnir yfir tvítugt þegar menn ganga 50 km á þessum hraða og þessi strákar eru allir undir því,“ segir Daníel.

Sólveig María Aspelund var sjötta í 50 km göngu kvenna, önnur íslensku keppendanna.

Pétur Tryggi Pétursson varð annar í 25 km göngunni á eftir Steven Gromatka gönguskíðaþjálfara Skíðafélags Ísfirðinga. Í 25 km göngu kvenna var Kolfinna Íris Rúnarsdóttir í öðru sæti.

Jakob, sonur Daníels göngustjóra, gekk heila 50 km, en hann er yngsti keppandi sem hefur gengið fulla Fossavatnsgöngu. Jakob er á 16. ári og er að klára 10. bekk í vor.

„Ég reyndi sjálfur við 50 km fyrst þegar ég var 19 ára og náði ekki að klára. Ég náði fyrst að klára 50 km á Ólympíleikunum 1994 þegar ég var orðinn 21 árs,“ segir Daníel.

„Með alla þessa krakka þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við sjáum Ísfirðing fljótlega á Ólympíuleikum, jafnvel bara strax á næstu leikum.“

 Sigurvegararnir komu ekki á óvart

Petter Northug frá Noregi sigraði í 50 km göngu karla, nokkuð sem kom fáum á óvart enda er Northug einn sterkasti göngumaður veraldar. Hann gekk gönguna á tveimur tímum og 19 mínútum og setti brautarmet. Landi hans, Runar Skaug Mathisen, kom í mark fjórum sekúndum á eftir Northug og Snorri Einarsson var þriðji og kom í mark tveimur á hálfri mínútu á eftir Northug.

Sigurvegarar í 50 km göngu karla.

 

Britta Johanssen Norgren frá Svíþjóð sigraði 50 km göngu kvenna og kom sá sigur ekki á óvart frekar en sigur Northug í karlagöngunni. Caitlin Gregg frá Bandaríkjunum kom önnur í mark, ellefu mínútum á eftir Norgren. Í þriðja sæti var Brandy Stewart frá Bandaríkjunum, þrettán mínútum á eftir sigurvegaranum.

Sigurvegar í 50 km göngu kvenna.

Markmiðið ekki að stækka

Aðspurður um framtíðarplön Fossavatnsgöngunar og hvort hún eigi eftir að stækka, segir Daníel það vera eitthvað sem stjórn göngunnar og Skíðafélag Ísfirðinga verði að ræða. „Mín persónulega skoðun er að til lengri tíma litið sé betra að einbeita okkur að því að gera það sem við erum að gera í dag mjög vel og slípa af helstu vankanta. Við eigum ekki endilega að stefna að því að stækka gönguna og fjölga þátttakendum.“

Steven Gromatka og Pétur Tryggvi Pétursson voru fyrstir í 25 km göngunni.

Gangan komin rækilega á kortið

Koma Petter Northug í gönguna vakti mikla athygli bæði hér heima og í skíðagönguheiminum á veraldarvísu. Daníel er ekki í nokkrum vafa um að þátttaka Northug eigi eftir að skila göngunni miklu. „Petter Northug kemur okkur rækilega á kortið. Það verður uppselt fljótt á næsta ári. Við sjáum þetta bara á traffíkinni á vefsíðuna okkar og Facebook. Það er búið að skoða einstaka myndir allt að 15 þúsund sinnum, það er alveg nýtt fyrir okkur.“

Kong Petter kemur göngunni rækilega á kortið.

Samstaða bæjarbúa ómetanleg

Daníel vill koma á framfæri miklu þakklæti til allra sjálfboðaliðanna sem starfa við gönguna. „Það er alveg ótrúlegt hvernig bæjarbúar styðja við gönguna og það hvernig bæjarbúar standa saman er ómetanlegt. Það eru húsmæður um allan bæ að baka fyrir 1.200 manna kökuhlaðborð fyrir keppendur. Einstaklingar og fyrirtæki í bænum taka okkur einstaklega vel þegar okkur vantar aðstoð við uppsetningu og framkvæmd göngunnar,“ segir göngustjórinn að lokum.

Hér má sjá öll úrslit í Fossavatnsgöngunni 2017.

Forvarnafræðsla Magga Stef heimsækir Ísafjörð

Magnús Stefánsson.

Magnús Stefánsson, hinn þaulreyndi fyrirlesari á sviði forvarnamála, er væntanlegur til Ísafjarðar á morgun, miðvikudaginn 3.maí, þar sem hann verður með fyrirlestur á vegum Vá Vest hópsins fyrir foreldra barna og unglinga undir yfirskriftinni „Hvenær er besti tími dagsins til að ala upp barn?“ Fyrirlesturinn verður á fjórðu hæð Stjórnsýsluhússins og hefst hann klukkan 20.

Á fyrirlestrinum fjallar Magnús um helstu einkenni fíkniefnaneyslu og þau efni sem eru í umferð og áhrif þeirra og þá hvernig gott er að bregðast við ef grunur um neyslu kemur upp. Einnig fjallar hann um uppeldistengd málefni líkt og gildi, hefðir og venjur og hvernig styrkja má tilfinningagreind og sjálfstraust barna. Í tilkynningu segir að besta forvörn sem völ er á séu uppfræddir og meðvitaðir foreldrar og unglingar taki mark á því sem foreldrar þeirra segja og því mikilvægt að foreldrar séu virkir í umræðunni og taki fullan þátt í að fræða unglingana sína.

Magnús Stefánsson er fjölskylduráðgjafi og tónlistamaður og hefur hann starfað sem fyrirlesari hjá Maritafræðslunni frá árinu 2001. Á þeim tíma hefur hann farið í um eitt þúsund skólaheimsóknir á 16 ára og haldið í kringum 3.400 fræðslufundi. Hann hefur getið sér gott orð í því að ná til ungmenna við að útskýra mögulega skaðsemi vímugjafaneyslu.

Hér má sjá umsagnir foreldra um fræðslu Magnúsar og kynna má sér störf hans á heimasíðunni www.maggistef.is

Nýr krani á smábátabryggjuna

Af Litlahjalla.it.is

Norðurfjarðarhöfn sem sveitarfélagið Árneshreppur rekur fékk í síðustu viku nýjan krana. Fyrir helgina var verið að tengja hann og prófa. Kraninn lyftir um 1650 kílóum í lengstu stöðu sem eru átta metrar, en miklu meira þegar hann nýtir ekki lengdina. Kraninn er fjarstýrður og hægt að stjórna honum hvar sem er á bryggjunni, kranamaður getur því horft niður í bátinn sem verið er að landa úr og er það talinn mikill kostur. „Guðlaugur A Ágústsson hreppsnefndarmaður og vélstjóri sem sér um viðhald og alla umhirðu kranans  og fleira segir að höfnin hafi fengið mjög góða þjónustu frá fyrirtækinu Barka í Kópavogi þaðan sem kraninn var keyptur. Gamli kraninn var orðin alveg búin og eldgamall og ekki veitti af að skipta um hann nú þegar strandveiðitímabilið er að byrja eftir mánaðarmótin, og allt verður vitlaust í löndun, segir Gulli.“

Þetta kemur fram á fréttaveitunni Litla Hjalla

Vestfirska forlagið endurútgefur 4. hefti Vestfirskra sagna

Sagnabálkurinn Vestfirskar sagnir, sem Helgi Guðmundsson safnaði og skráði, hefur verið ófáanlegur í áratugi. Vestfirska forlagið gefur hann nú út á nýjan leik í heiðursskyni við Helga og útgefandann, Guðmund Gamalíelsson. Enda löngu tímabært. Fjórða heftið er farið í dreifingu hjá forlaginu. Þrjú hefti eru áður komin út.

Gunnhildur Sumarliðadóttir á Sveinseyri í Dýrafirði kemur mikið við sögu í 4. heftinu. Harmsaga hennar er mörgum hugleikin. Gunnhildur var uppi á 18. öld, drukknaði á hörmulegan hátt og gekk aftur að sögn alþýðu. Henni er svo lýst að hún hafi verið kona fríð sýnum. En hæðin þótti hún og náði því ekki alþýðuhylli. Hún átti ekki miklum vinsældum að fagna á heimili sínu, enda talið að hún hafi verið kuldastrá fjölskyldunnar

Nýjustu fréttir